Sarpur | apríl, 2022

New York í 16. skipti

27 Apr

Það var þó aldrei að maður færi ekki að blogga aftur. Ég var duglegur. Frá 11.03.2001 á gamla blogginu og svo hér frá 2011. Svo elti maður hjörðina á Facebook og þaðan aðeins á Twitter og Instagram. Nú er ég orðinn þreyttur á þessum samskiptamiðlum. Ekki nóg með að þeir eru í eigu einhverja forríkra lúsablesa, þetta er líka bara orðið svo þreytt dæmi og fyrirsjáanlegt. Og endalausar auglýsingar og áreiti. Gefur manni ekkert, tekur bara frá manni tíma. Sjáum til hvað ég endist í þessu einskinsmannslandi, blogginu. Eigandi WordPress er einhver Matt Mullenweg, sem er örugglega fátæklingur samanborið við Zuckerberg og Musk. Svo lærði hann á saxófón og hefur aldrei yfirgefið gufuhvolfið, svo ég viti.

En jæja. Nú ætla ég að blogga um nýyfirstaðna ferð mína til New York borgar. Fór fyrst 1988 og þetta ku vera í 16. skipti sem ég kem þarna og í það fyrsta síðan 2017. Fyrst var ég í viku með familíunni. Við gerðum allskonar túristalegt enda krakkarnir að koma þarna í fyrsta skipti. Þegar þau fóru heim var ég einn í tæpa viku, enda átti ég miða á John Waters og hafði átt síðan 2020 (en þá kom Covid). John Waters er frábær kall og hefur fyrir sið að halda upp á afmælið sitt með uppistandi/fyrirlestri í New York. Hann er þekktastur sem leikstjóri Pink Flamingo, Hairspray, Serial Mom o.s.frv., en hefur líka skrifað slatta af skemmitlegum bókum. Það var bannað að taka myndir svo ég tók bara eina:

Er skemmt frá því að segja að gamli maðurinn (76) var stórskemmtilegur, var með klámkjaft og röflaði um allt milli himins og jarðar auk þess að taka misgáfulegar spurningar frá gestum. Ég þorði náttúrlega ekki að rétta upp hönd, en ef ég hefði þorað hefði ég spurt hann hvort hann myndi eftir því þegar Hrafn Gunnlaugsson neyddi oní hann sviðaaugu þegar hann var gestur á kvikmyndahátíð 1984. Væntanleg er fyrsta skáldsaga Waters, Liar Mouth, og jafnvel ný mynd. Hann varð þó laumulegur og vildi engu svara um það. Fram kom að uppáhaldsmynd hans er Salo eftir Pasolini og hann hefur engar áhyggjur af því að vera slaufað. Það er ekki hægt að cansella mig, vildi hann meina. því þegar hann er að segja eitthvað ó-pc-að um eitthvað, er það sagt af væntumþykju. I just don’t like the self righteousness…

Stór hluti fór svo í að tékka á plötubúðunum. Nýtilkominn áhugi minn á eðaldjassi þýddi að ég keypti bara djass. Helst eldri útgáfur (það má alveg vera snark). Mér leiðast þessar fokdýru endurútgáfur. Meðal þess helsta eru plöturnar Contrasts og Unity með Larry Young, The Sidewinder með Lee Morgan, Sketches of Spain með Miles Davis, og Poppin’ með Hank Mobley. Djassflóin beit mig síðasta sumar þegar mér bauðst að kaupa dánarbú af vinnufélaga, 800 plötur takk fyrir, mest djass. Eftir grysjun í Sorpu og Discogs og Facebook-sölur, sat ég eftir með sirka 80 eðalmola eins og frumútgáfur af A Love Supreme með John Coltrane, Brilliant! með The Diamond Five, og Summer Dawn með Sahib Shihab. Ég veit ekki alveg hvað ég fíla við djassinn, kannski bara að ég skil hann ekki alveg og líka ákveðin þreyta með allt hitt sem ég hef grautað í í 45 ár.

Alveg það sama með tónlistina á 78 snúninga plötunum, sem er með stöffi frá 1900-1958 sirka. Svo auk þess að fletta í djassrekkunum reyndi ég að kíkja á rykug gólfin í búðunum ef ske kynni að einhvers staðar lægju afskiptalausar lakkplötur í trosnuðum pappakassa. Nokkuð hafði ég upp úr krafsinu, 28 plötur, sérstaklega eftir að ein búðarlokan aumkaði sig yfir mig og fór í kjallarann. Meðal þess girnilegasta er fyrsta platan sem var tekin upp í stúdíói á Jamaika og gefin út af fyrsta merkinu þar, Motta’s Recording Studios; Blue Suede Shoes með Carl Perkins á Sun Records, Tutti-Frutti með Little Richard, og See See Rider með „Pigmeat“ Alamo Markham á Blue Note. Nánar í næsta þætti af Lögum gamla fólksins.