Iceland Airwaves er stærsta og æðislegasta tónlistarhátíðin sem árlega skellur á okkur. Og gleðin er í næstu viku – hvílík spenna og tilhlökkun. Ég hef áður talið upp 10 mest spennandi erlendu atriðin og nú er það listi yfir tíu mest spennandi íslensku atriðin (ath: Listinn er alls ekki tæmandi!).
Pink Street Boys eru nú hreinlega eitt mest uppáhaldsband á Íslandi í dag. Kraftur, sviti, glæsilegt lög, húmor og gleði. Hits#1 er ein af plötum ársins.
Annað uppáhaldsband er sýrupoppsveitin Just Another Snake Cult, sem er hugarfóstur Þóris Bogasonar. Nýlega birtist hörku töff nýtt myndband með Költinu.
Lord Pusswhip (Þórður Jónsson) var að gefa út fyrstu plötuna sína, Lord Pusswhip is Wack. Vímað og hreystrað stöff, molbúa stórborgar homoerótískt byssublætis eitthvað.
Platan Nótt á hafsbotni með Dj. Flugvél og geimskip er eðal stöff, en Skelkur í bringu, hljómsveitin sem Steinunn er í, hefur lítið haft sig í frammi um nokkurn tíma þar til nú. Búast má við víruðu stöööði.
East Of My Youth er krefjandi nútímapopp. Nýjasta innleggið frá þeim er með Sölku Sól í gestahlutverki.
„Leynisveitin“ Gangly treður nú upp í eitt allra fyrsta skipti. Þau hafa bara birt eitt lag til þessa, hið frábæra Fuck With Someone Else.
Það er bözz í öndergrándinu í kringum tvímenninginn Vaginaboys. Satt að segja er eins og að bíta í bestu appelsínu í heimi að hlusta á þetta lag.
Soffía Björg er frá Borgarfirði og syngur. spilar á gítarrr og semur. Lagið Back and Back Again er meiriháttar gott og gefur góð fyrirgheit um framhaldið.
Eftir því sem fjarlægðin frá útgáfu plötu Teits Magnússonar, 27, eykst, hefur maður betur og betur séð hverskonar demantur af plötu þetta er. Frábær lög og textar og öðruvísi og ferskar útsetningar. Skóglápararnir í Oyama (sem spila auðvitað líka á Airwaves) gerðu netta útgáfu af einni snilldinni um daginn.
Ég er náttúrlega svo sjálfhverfur að ég verð að troða sjálfum mér hér með. Hljómsveitin Dr. Gunni treður upp í Gamla bíó kl. 20:50 á laugardaginn og við verðum líka off-venue á Kaffi Vest þennan sama laugardag, líklega klukkan svona 16. Leikin verða lög af plötunni Í sjoppu auk gamalla slagara úr bakkkatalóknum.