Sarpur | október, 2015

Besta íslenska dótið á Airwaves

31 Okt

Iceland Airwaves er stærsta og æðislegasta tónlistarhátíðin sem árlega skellur á okkur. Og gleðin er í næstu viku – hvílík spenna og tilhlökkun. Ég hef áður talið upp 10 mest spennandi erlendu atriðin og nú er það listi yfir tíu mest spennandi íslensku atriðin (ath: Listinn er alls ekki tæmandi!).


Pink Street Boys eru nú hreinlega eitt mest uppáhaldsband á Íslandi í dag. Kraftur, sviti, glæsilegt lög, húmor og gleði. Hits#1 er ein af plötum ársins.


Annað uppáhaldsband er sýrupoppsveitin Just Another Snake Cult, sem er hugarfóstur Þóris Bogasonar. Nýlega birtist hörku töff nýtt myndband með Költinu.


Lord Pusswhip (Þórður Jónsson) var að gefa út fyrstu plötuna sína, Lord Pusswhip is Wack. Vímað og hreystrað stöff, molbúa stórborgar homoerótískt byssublætis eitthvað.


Platan Nótt á hafsbotni með Dj. Flugvél og geimskip er eðal stöff, en Skelkur í bringu, hljómsveitin sem Steinunn er í, hefur lítið haft sig í frammi um nokkurn tíma þar til nú. Búast má við víruðu stöööði.


East Of My Youth er krefjandi nútímapopp. Nýjasta innleggið frá þeim er með Sölku Sól í gestahlutverki.


„Leynisveitin“ Gangly treður nú upp í eitt allra fyrsta skipti. Þau hafa bara birt eitt lag til þessa, hið frábæra Fuck With Someone Else.


Það er bözz í öndergrándinu í kringum tvímenninginn Vaginaboys. Satt að segja er eins og að bíta í bestu appelsínu í heimi að hlusta á þetta lag.


Soffía Björg er frá Borgarfirði og syngur. spilar á gítarrr og semur. Lagið Back and Back Again er meiriháttar gott og gefur góð fyrirgheit um framhaldið. 


Eftir því sem fjarlægðin frá útgáfu plötu Teits Magnússonar, 27, eykst, hefur maður betur og betur séð hverskonar demantur af plötu þetta er. Frábær lög og textar og öðruvísi og ferskar útsetningar. Skóglápararnir í Oyama (sem spila auðvitað líka á Airwaves) gerðu netta útgáfu af einni snilldinni um daginn.


Ég er náttúrlega svo sjálfhverfur að ég verð að troða sjálfum mér hér með. Hljómsveitin Dr. Gunni treður upp í Gamla bíó kl. 20:50 á laugardaginn og við verðum líka off-venue á Kaffi Vest þennan sama laugardag, líklega klukkan svona 16. Leikin verða lög af plötunni Í sjoppu auk gamalla slagara úr bakkkatalóknum. 

Gylfi Ægis hvetur fýlustrák til samkynhneigðar!

29 Okt

Hér er þá „rétta“ útgáfan af Brjáluðu stuðlagi. Gylfi er hressi gaurinn, Bjartmar er sögumaður, JFM er JFM, Mugison er Mugison og sjálfur er ég Fýlustrákurinn. Rándýrt lag. Gylfi kemur auga á ástæður fýlunnar hjá stráknum og hvetur hann til að koma út úr skápnum. Þetta atriði var sjálfssprottið.


Til samanburðar er hér útgáfan sem fór á plötuna með hinum frábæra eftirhermi Sóla Hólm (sem Villi Stuðmundsson). Það er vafamál hvor er betri Gylfi, Sóli eða Gylfi!

En að öðru óskildu. Mikið líst mér vel á nýjasta trendið, punguð landslög.

Þú getur orðið tré

29 Okt

tree_blog
Greftrunarsiðir eru gamaldags. Þú getur látið jarða þig í kistu og svo rotnar allt saman í áranna rás og verður ormum til gagns. Hinn möguleikinn er að brenna líkið og grafa öskuna eða dreifa henni einhvers staðar (ég held að það megi hérna á Íslandi núna). Nú er kominn nýr möguleiki, sem mér finnst frábær: Að láta breyta þér í tré með því að setja öskuna í lífrænt duftker, sem búið er að þróa hjá Urnabios. Það er fallegt og ljóðrænt að „verða að“ tré. Gæti samt endað illa hérna á landi skítaveðurs. Vonandi er þetta það sem koma skal í gretrunarmálum. Skógar eru skynsamlegri en kirkjugarðar. Lesið yður til um málið hér.

Gubbi og skítamixið

28 Okt

11924207_916383031757994_4314085252238765505_n
Guðbergur Bergsson skrifar ekki pistil lengur án þess að hleypa öllu í bál og brand. Sá nýjasti hæðist að hispursleysi Jóns Gnarrs og Hallgríms Helgasonar í nýjustu bókum þeirra. Mest mun setningin „Þess vegna sagði kvikindi: Hvaða kynvillingur hefur haft svona slæman smekk?“ farið fyrir brjóstið á fólki, en hér er Gubbi væntanlega að vitna í eitthvað kvikindi á kommentakerfi DV sem röflaði eitthvað um að nauðgarinn hafi verið „verulega þurfandi“ fyrst hann braut á Hallgrími.

Mér leiðist þegar fólk segir að hann eða einhver annar sé „biturt gamalmenni“. Það eru ódýr rök að segja að einhver sé „bitur“, en vissulega er Gubbi djöfull „gamalmenni“ – hann er nýorðinn 83 ára. Hann er þó ekki meira gamalmenni en það að hann skokkar eins og unglingur, flýgur flugvélum, gistir í tjaldi á Hornströndum og þeysir um á mótorhjóli. Mér skilst að gamli hafi tjúnast svona upp þegar hann eignaðist ungan vin fyrir nokkrum árum. 

Ég man ekki hvernig það byrjaði, en ég drakk Guðberg í mig þegar ég var unglingur. Smásagnasöfnin Ástir samlyndra hjóna og Leikföng leiðans og Tómas Jónsson Metsölubók eru bara hrikalega fyndið stöff sem ég hef lesið aftur og aftur og notið eins og góðann Fóstbræðra-skets. Ég var hreinlega aðdáandi og fannst spennandi að sjá kallinn á götu og síðar tala við hann, en við kynntumst smá þegar Tilraunaeldhúsið atti okkur saman til að gera söngleik sem var sýndur einu sinni í Iðnó. 

Ég er ekki eins hrifinn af nýjasta stöffinu hans og mér fannst bókin Hin eilífa þrá – lygadæmisaga (2012) einfaldlega hrútleiðinleg og frekar léleg tilraun til að vera sjokkerandi. Allt í lagi með það, allir eiga misgóða spretti. 

Fólk verður að átta sig á því að Gubbi er ALLTAF Á MÓTI. Hvort það sé biturð og öfundsýki verður fólk bara að meta sjálft. Ég held að þetta sé meðvituð ákvörðun hjá honum. Hann móðgaði alla á einhverri voða fínni bókmenntahátíð einhvern tímann og þegar Stöð 2 fékk hann til að mæra Laxness rétt eftir að Nóbelsskáldið var fallið frá fór hann bara að röfla um eitthvað ljóðskáld (Jón úr Vör?) og sagði það hafa miklu meiri áhrif á sig. Houellebecq er Guðbergur Frakklands.

Ég er að klára Útlagann hans Jóns og það er stórkostleg bók. Ég les örugglega Hallgrím líka því hann er oft alveg frábær. Og ég les örugglega næstu Gubba bók líka, og vonandi fjallar hún þá um eitthvað meira spennandi en gamalmenni að drepast á elliheimili.

Ég fór að spá í issjúið „maðurinn vs list hans“ þegar Peter Sellers myndirnar um Bleika pardusinn voru í sjónvarpinu um daginn. Öll fjölskyldan skellihló enda hafa þessar myndir elst vel og eru ennþá ógeðslega fyndnar. Samt var Sellers annálað skítmenni og hundleiðinlegur gaur. Bítlarnir eru besta band í heimi en samt var John Lennon á einhverjum tímabilum algjört fífl sem lamdi konur. Og hermdi eftir fötluðum. Og allskonar sem má ekki í dag en var allt í lagi einu sinni. Og þá fór ég enn einu sinni að hugsa um þegar ég henti Gylfa Ægissyni út af Alheims-plötunni og fékk Sóla Hólm til að herma eftir honum. Ég drullusé eftir því í dag. Ég hefði bara átt að yppa öxlum og láta slag standa. Lagið var beisiklí samið á staðnum eftir að ég sá Gylfa Ægisson og karlgreyið hafði lagt á sig leið frá Vogum til Keflavíkur til að syngja lagið og segja okkur þrælskemmtilegar grobbsögur af sjálfum sér. Nokkrum vikum síðar byrjaði hann með þetta snargalna typpasleikjó-homma-rant sitt og ég var bara eins og einhver vindhani í umræðunni og þurfti endilega að taka þessa bjánalegu ákvörðun. Sem ég drullusé eftir. Og vil biðja Gylfa Ægisson formlega afsökunar á hér og nú. Maður sem semur aðra eins snilld og þessa á betra skilið.

Allir eru bæði góðir og vondir í eimhvers konar skítamixi lífsins. En maður er dæmdur eftir því versta sem maður gerir. 

Rappárið 2015

27 Okt

Það er engum kalkipappírum um það að fletta að íslenska rappið hefur komið sterkt inn í ár og nánast átt poppmarkaðinn. Þetta hefur ekki gerst síðan 2002 þegar vinsældir fyrstu plötu XXX Rottweilerhunda komu af stað sannkölluðu rappæði (13 rappplötur komu út það ár). Það var þó fullkomið óverdós og rappbylgjan koðnaði niður.

Nú er allt í gangi í rappinu. Menn eru kannski ekki að gefa út plötur í umvörpum (enda konseptið „plata“ á hröðu undanhaldi). Í staðinn droppar fólk lagi á Youtube með gríðarlega vönduðum myndböndum. Hér eru nokkur dæmi.


GKR lýsir unglingalífi á raunsannan hátt í litríku myndbandi. Hann vaknar og fær sér morgunmat (og kannski súrmjólk í hádeginu?)


Herra Hnetusmjör er ungi úr Kópavogshreiðri Blaz. Liðið vill taka með honum selfie. Eðlilega.


Hér eru þau komin, G-Karat og $igmund. Þau hljóta að vera í MH, allavega er lagið ættað frá NFMH. Þau eiga þetta sjitt og spila leikinn rétt.


Úlfur Úlfur eiga eina af plötum ársins, Tvær plánetur. Þeir áttu myndband ársins í fyrra (Tarantúlur, frá Bíladögum á Akureyri) og eru ekkert að slaka á snilldinni í ár. Hér eru homeboys Snorri Helga og Vignir í Agent Fresco í aðalhlutverki.


Fyrirætlanir Emmsjé Gauta um að gera plötu í ár hafa eitthvað hliðrast til vegna starfa hans í Ísland Got Talent. Hann fór þó á kenderí með Strákunum um daginn.


Bentarinn er enn að misþyrma á sér lifrinni í nýjasta stykkinu, Baraseira. Geitur og Guðni Ágústsson eiga stórleik í videóinu. Bent gerði geðveikt töff lag og videó fyrr á árinu, Í næsta lífi, og var þá líka að slafra í sig. Þetta hlýtur að enda vel. 


Í nýjasta framlagi Reykjarvíkurdætra fá þær Tanyu Pollock með sér í púkkið. Þær eru komnir í náttúruverndarsamtökin sem er gott. Pú á jakkafatasmjörkúkana! Meistari Ómar Ragnarsson á gott innslag.

Er framtíðin björt? Uuu… JÁ!

 

Búið í bili

26 Okt

POPP OG ROKKSAGA ÍSLANDS hefur runnið sitt skeið að sinni. Vonandi koma þessir fimm þættir á DVD fyrir jólin + aukaefni. Við höldum svo ótrauðir áfram með popp og rokksöguna í mars. Gaman gaman!

Hver var Þórður?

23 Okt

savnfridur-whats
Í næsta þætti af Popp- og rokksögu Íslands klárum við íslenska hipparokkið og siglum svo poppvængjum þöndum inn í seventísið þegar meikdraumar í útvíðum buxum urðu að engu. Ein sveitanna sem við tökum fyrir er Svanfríður, mikið rokkband, sem kom m.a.s. saman fyrir nokkrum árum í geðveikt skemmtilegu kombakki. Eina LP plata Svanfríðar heitir What’s Hidden There? (1972)  og hefur á undanförnum árum átt rosagott kombakk og verið endurútgefin bæði löglega og ólöglega. Plötuumslag Svanfríðar-plötunnar verður að teljast með þeim flottustu í Íslandssögunni. Í umslaginu stendur aðeins að „Þórður“ hafi teiknað myndina. Þórður hver? Þórður húsvörður?

Hver var þessi Þórður? Þessi spurning hefur stundum sótt á mann. Afhverju veit maður ekkert meira um „Þórð“ þótt hann hafi greinilega verið algjör snillingur. Nýlega var ég að sniglast í N1 í Vatnsmýrinni þegar afgreiðslumaðurinn, Sæmundur Jóhannesson, fór að tala við mig um „Þórð“. Ég sperrti eyrun.

Þórður var einrænn og drykkfelldur strákur, sem Sæmundur og mágur hans hittu stundum. Þórður seldi stundum myndirnar sínar fyrir brennivín. Sæmundur sagði að Þórður hafi borið myndir sínar undir Alfreð Flóka, en það hafi bara hnussað í Flóka – hann hefur kannski séð óæskilegan keppinaut í Þórði. Þórður fór aldrei í neitt listnám, sagði að það gæti enginn kennt sér neitt nema Salvador Dali (greinilega mikill áhrifavaldur). Sæmundur á þrjár myndir eftir Þórð sem hann sýndi mér. 

þórður-fæðing
FÆÐING

þórður-völundarhús mannsins
VÖLUDUNARHÚS MANNSINS

þórður-inn í eilífðina
INN Í EILÍFÐINA

Þessar myndir eru frá svipuðu leiti og Svanfríðar-platan kom út. Sæmundur gat sagt mér að Þórður hafi verið Þorgrímsson, en hann gat ekki sagt mér mikið um það hvað gerðist næst í lífi listamannsins. Ein sturluð staðreynd samt: Þórður var fæddur 1956 sem þýðir að hann var aðeins 16 ára þegar hann teiknaði Svanfríðar umslagið. Sextán ára!

Þórður lést 2006. Ekki ein minningargrein birtist um hann. Sé hans leitað á timarit.is birtist ekkert.

Frekari upplýsingar eru vel þegnar.

Freymóður segir Bjögga pissa eins og hund!

22 Okt

Á sunnudaginn sýnir RÚV fimmta þáttinn af Popp og Rokksögu Íslands – „Meikdraumar borgarbarna“. Nú þuklum við enn meira á hipparokkinu og siglum svo poppseglum þöndum inn í seventísið, þegar íslenskir popparar ætluðu að meikaða í massavís á útvíðum buxum. Þetta er síðasta þáttinn í bili, við höldum áfram í vor (mars líklega) og förum þá til vorra tíma.

Allskonar aukaefni verður á vegi manns við vinnslu svona þátta. Maður fær ábendingar um hitt og þetta og það hleðst á mann spekin. Þessi ár sem næsti þáttur fjallar um, sirka 1970-75, eru mjög hressandi. Poppið var að slíta barnsskónum og komið á platformskó.

freysi
Í dag eru gamlir menn löngu hættir að röfla út í popp (nema þegar einhver segir kannski fokk of oft á Arnarhóli), en þarna örlí seventís þótti eldri mönnum þessir síðhærðu frummenn algjört tros og siðspilling og hreinasti viðbjóður. Maður er nefndur Freymóður Jóhannsson (1895-1973). Hann notaði listamannsnafnið Tólfti september, var víðkunnur bindindisfrömuður, fínasti málari, og stóð fyrir Danslagakeppni SKT („SkemmtiKlúbbur Templara). Úr þeirri keppni komu nokkur sígild dægurlög á 6. áratugnum.

Freymóður var ekki í tenglum við nýmóðins rokk 1971. Þá skrifar hann kjarnyrt rant í Velvakanda Moggans. Hann er að heilgrilla tvo sjónvarpsþætti. Sá fyrri er með hljómsveitin Ævintýri með Björgvin Halldórs í framlínunni (hinn frægi „Bjöggi og beinið“ þáttur), en sá seinni er með hljómsveitinni Gaddavír. Í Gaddavír var m.a. Vilhjálmur Guðjónsson gítarleikari. Gaddavír (eitt mest töff hljómsveitarnafn Íslandssögunnar) spilaði frumsamið „gaddavírsrokk“ en kom því miður ekki frá sér plötu svo arfleið þeirra í poppsögunni er minni en þeir eiga skilið.

Allavega: Freymóður er brjálaður og greinin er æðisleg; myndræn og tryllt. Um Björgvin segir hann til dæmis: Söngvarinn á víst að vera karlmaður, en meirihluti útgáfunnar virðist tilheyra öðru kyni. Augu söngvarans lýsa, annað veifið, eins og smá týrur inni í myrkviði hárlubbans. Loks verður neðrihluti andlitsins að furðulegu gímaldi, er á að minna á munn og kok. Við og við lyftist annað lærið, eins og þúfa væri rétt við hliðina, eða húshorn, og viss náttúra væri að segja tíl sín.

Um frammistöðu Gaddavírs segir Freysi, eins og ég kýs að kalla hann, meðal annars: „Öskrandi söngvari! rís upp úr iðandi kös sefasjúkra og tekina andlitasvipa, er kinka kolli í dottandi samþykki og sælu.“

Hér er greinin hans Freysa. Algjörlega hilaríös meistaraverk!
freymodurumpop
(Smellið á myndina til að stækkana)

Aftur og aftur til framtíðar

21 Okt

Aftur til framtíðar – Back to The Future – var og er æðisleg mynd. Hún hafði mikil áhrif á mig. Eða allavega það mikil áhrif að ég skrifaði nóvellu, sem getur varla talist annað en nokkuð mikið rippoff. Í dag er framtíðar-dagsetningin sem Dokksi sló inn í annarri myndinni Back to The Future II, 21. október 2015. Því er fagnað um allan heim, m.a. í Bíó paradís og á Rúv, sem sýnir Back to The Future II kl. 14 og aftur seint í kvöld. Önnur myndin var líka frambær, en sú þriðja var lang lélegust og útkynnt efni.

funny_memes_bernie_sanders_donald_trump_back_to_the_future-612678
Ótal greinar (eins og þessi) hafa birst um daginn og svona myndir eins og þessi að ofan, sem sýnir hversu sannspáir höfundar myndarinnar voru. Forsetaframbjóðandinn Bernie Sanders er Dokksi en górillan Donald Trump er górillan Biff.

Ég fór til Lyon í Frakklandi um haustið 1986 og ætlaði að skrifa snilld og læra frönsku. Ég var með ritvél með mér, dálítið framúrstefnulegt tæki sem hálfpartinn saumaði stafina í blöðin. Maður gat meira að segja skipt yfir í rautt, blátt og grænt letur ef maður var í stuði. Ég varð þó fljótlega viðþolslaus af gítarleysi, keypti mér það ódýrasta sem ég fann; gítar af tegundinni Calif, sem ég finn ekkert um á netinu, sama hvað ég googla. Fínn gítar samt, ég samdi flest á hann í marga áratugi. Þessi Calif gítar dvelur nú á dvalaheimili aldraðra gítara í Hornbjargsvita.

Nóvellan sem ég skrifaði, TUTTUGU ÁRUM OF SEINN Í BÍÓ, segir frá Héðni Jónassyni, 19 ára búsettum á Selfossi, sem ætlaði að hitta vini sína í Reykjavík í september 1966. Saman ætluðu þeir í bíó, á Bítlamyndina HELP! Hann keyrir í bæinn á Moskvítsnum sínum. Á Hellisheiði verða yfirskilvitlegir atburðir sem verða til þess að Héðinn færist 20 ár fram í tíðinni, til 1986. Æasast þá leikar…

Ég gerði lítið með handritið. Fór reyndar með það og sýndi ritstjóra einhvers hipp og kúl unglingablaðs sem var í gangi þarna 1987 þegar ég kom heim. Sá fyrir mér að sagan gæti verið framhaldssaga þar. Ritstjórinn glotti nú bara og hafði aldrei samband, svo líklega hef ég misst kjarkinn og einbeytt mér að rokkinu. Maður ætti kannski að lesa þetta handrit aftur í dag til að gá hvort það sé hægt að gera eitthvað við þetta.

Þetta skaltu sjá á Airwaves

20 Okt

Þá eru tvær vikur í Iceland Airwaves – sturluðustu tónlistarveislu ársins. Að vanda er svo mikið að gerast að maður fær góðkynja valkvíða í bæði hnén. Til að létta undir og smyrja græðandi smyrsli á hné yðar kemur hér 10 atriða listi – Airwaves dótið sem þú ættir ekki að missa af í ár.


ARIEL PINK – Þessi er nú alveg frábær og líklega sá tónlistarmaður sem ég hef verið spenntastur fyrir á sl. 4 árum eða svo. Flippaður Kani sem var búinn að hamast lengi lo fi áður en hann vakti almennilega athygli 2010 með plötunni Before Today. Síðan kom Mature Themes 2012 sem er æðisleg og í fyrra kom pom pom, sem ég útnefndi bestu erlendu plötu ársins það ár (og sé ekki eftir því). Í sumar sá ég Kvelertak og nú (ef Spaghetti skrýmslið lofar) mun ég sjá Ariel Pink. Hvílíkt forréttindapakk sem maður er!


MERCURY REV – Gamlir amerískir gæðarokkarar, náskyldir The Flaming Lips. Þeir hafa spilað hér áður; voru eins og álfar út úr rassgati þegar þeir léku í 10 ára afmælisveislu FM957 1999 (!!!). Hæst finnst mér bandið ná á plötunni Deserter’s Song (1999), en þessar fyrstu Yourself is Stream og Bocus eru líka frábærar. Nýjasta platan heitir The Light in You og sýnir sannarlega að enn gutlar á hænunni. 


BC CAMPLIGHT – Amerískur poppari með þrjár plötur só far. Sú nýjasta er suddalega góð poppplata, allt vaðandi í smellum og klárlega plata sem endar á mínum topp 10 lista fyrir 2015.


MITSKI – Ein á bullandi uppleið með fyrstu plötuna sína. Söngkonan Mitski er aðalið í Mitski. Góðir textar, gott stöff.


THE POP GROUP – Gamlir í hettunni þessir. Maður var alveg að fíla þá örlí 80s, en þeir voru þó alltaf rosalega sérstakir og ögrandi – maður var lengi á báðum áttum. Eru frá Bristol og því forsögulegar fyrirmyndir tripphoppsins. Snéru svo aftur nýlega með nýja plötu sem er alveg ok.


SLEAFORD MODS – kokhraustir slummbretar, einn á bít, hinn á kjaft. Skáld og bít. Djass og fokk. 


BEACH HOUSE – Þessir amerísku mjúkpopparar snúa aftur á Airwaves með nýja plötu í flesknesinu.


BO NINGEN – Eðal sækó skröltormarokk frá Japan. Þrjár stórar komnar út síðan 2010.


HO99O9 – Þungt og myrkt hipphopp/pönk frá New Jersey. Ein EP komin út.


THE OBGMS – Drulluþétt og skemmtilegt pönkband frá Toronto. Fyrsta platan kom út í fyrra.

Þessu til viðbótar er svo hellingur af öðrum góðum erlendum atriðum. Og svo öll íslensku atriðin, hvert öðru betra. Hvílík veisla! (Iceland Airwaves fitubrennsla mixið er hér).