Sarpur | mars, 2013

1 bók, 3 myndir

26 Mar

Menningin lætur ekki stoppa sig. Ég tilkynni:

Kortið og landið eftir frönsku rithrúguna Michel Houellembecq er ljómandi skemmtilesning rekin áfram af bráðsniðugri andúð á mannkyninu eins og það leggur sig. Hló einu sinni upphátt, sem er vel af sér vikið, sérstaklega þar sem verið var að tala um jarðarför. Fjórar stjörnur!

Hitchcock er mynd um Hitchcock og Ölmu konuna hans á meðan þau voru að gera Psycho. Anthony Hopkins er full asnalega fitaður upp og meikaður og maður kemst svo sem ekkert mikið inn í persónuleika meistarans. En svona ágætt engu að síður, samt ekki nema 2 stjörnur. Hjálpar ef maður er Hitchcock aðdáandi.

Jack the Giant Slayer er fín ævintýramynd sem manni leiðist ekkert yfir. 3 stjörnur. 

End of Watch er böddí mynd í gengjahverfi LA. Langt sem maður hefur leitt hugann að gengjahverfum LA, enda allt þetta lið þar svo hallærislegt. Þetta þótti samt rosa kúl þegar Ice T og Ice Cube voru svalir. Voða mikið bang bang og hormónarúnk. Ekkert svo skemmtileg mynd. Skil ekki alveg alla þessa súperdóma sem hún hefur fengið. Ég gef henni allavega ekki meira en 2 stjörnur.

Hér eru svo þeir félagar Úllibekk og Igurður Popp eitthvað að gamna sér:

Ókeypis í bíó

22 Mar

Picture 3
Íslensk kvikmyndahelgi fer fram nú um helgina. Það verður ókeypis á tonn af íslenskum myndum, bæði í Bíóparadís og Háskólabíói, og úti á landi á fullt af stöðum (nánar hér). Ástæða þessa örlætis er „hækkun framlaga í Kvikmyndasjóð Íslands og sá stuðningur sem kvikmyndagreinin hefur fengið í gegnum tíðina.“ Þess má geta að Rokk í Reykavík og fleiri myndir hafa ekki verið sýndar í svona góðum gæðum áður (alla vega ekki frá fyrstu frumsýningu). Þær hafa verið settar á stafrænt form, litgreindar og hljóð lagað – sem sagt ekki gamlar rispaðar filmur. Prógrammið í borg óttarns er svona:

BÍÓ PARADÍS
Föstudagur
18:00 Kristnihald undir jökli – Guðný Halldórsdóttir leikstjóri verður viðstödd sýninguna.
20:00 Hafið (leikstj. Baltasar Kormákur)
22:00 Brúðguminn (leikstj. Baltasar Kormákur)
Laugardagur
18:00 Magnús (leikstj. Þráinn Bertelsson)
20:00 Nói albínói – Dagur Kári leikstjóri verður viðstaddur sýninguna.
22:00 Sódóma Reykjavík (leikstj. Óskar Jónasson)
Sunnudagur
15:00 Jón Oddur og Jón Bjarni (leikstj. Þráinn Bertelsson)
15:00 Duggholufólkið (leikstj. Ari Kristinsson)
18:00 Bjarnfreðarson – Ragnar Bragason leikstjóri verður viðstaddur sýninguna.
20:00 Börn náttúrunnar (leikstj. Friðrik Þór Friðriksson)
22:00 Ingaló – Ásdís Thoroddsen leikstjóri verður viðstödd sýninguna.

HÁSKÓLABÍÓ
Föstudagur
18:00 Skytturnar (leikstj. Friðrik Þór Friðriksson)
Laugardagur
16:00 Skýjahöllin – Þorsteinn Jónsson leikstjóri verður viðstaddur sýninguna.
16:00 79 af stöðinni (leikstj. Erik Balling)
18:00 Húsið (leikstj. Egill Eðvarðsson)
18:00 Hrafninn flýgur – Hrafn Gunnlaugsson leikstjóri verður viðstaddur sýninguna.
Sunnudagur
16:00 Rokk í Reykjavík (leikstj. Friðrik Þór Friðriksson)
16:00 Bíódagar (leikstj. Friðrik Þór Friðriksson)
18:00 Englar alheimsins (leikstj. Friðrik Þór Friðriksson)

Hér má sjá sögulegar heimildir frá eftirpartíi Rokk í Rvk.

Gæði í Músíktilraunum

21 Mar

Músíktilraunir hafa staðið yfir síðan um helgi og nú er ljóst að ellefu atriði keppa til úrslita á laugardaginn. Miðasala er í fullum gangi. Svona fljótt á litið sýnist manni að gæðin á þessu séu frekar mikil í ár, mikið af fínu stöffi. Hér eru böndin ellefu og tóndæmi:

Kaleo eru frá Mosó og rokka feitt.

Hide Your Kids spilar „poppaða rokkelektrótónlist“.

Glundroði eru frá Selfossi og spila folk/rokk.

For Colorblind People er alternative/indie rock hljómsveit að Norðan.

CeaseTone er sóló verkefni gítarleikarans Hafsteins Þráinssonar.

Aragrúi er „rokkblönduð krúttpoppblómanýbylgja með smá lopapeysufíling inná milli“ frá Selfossi.

Yellow Void er Indie/rokk hljómsveit með krökkum á aldrinum 14-16 ára.

Vök spilar „eiturljúfa raftónlist með melódísku söngli“.

In The Company of Men spilar „tæknilegan harðkjarna“.

Skerðing er pönktríó frá Akranesi.

Kjurr er rokktríó frá Rvk, ansi reikningslegt á köflum.

Hausatalning  leiðir svo í ljós að 39 strákar eru komnir í úrslit, 8 stelpur = 17.02% stelpur. Það virðist vera ívið betra en í fyrra.

Steinn Skaptason fimmtugur!

19 Mar

glhss81
Þótt ömurlegt sé að eldast og að lokum að deyja – í staðinn fyrir t.d. að vera alltaf ógeðslega ferskur og tuttugu og eins – má allavega hugga sig við að þessi leiðindi leggjast jafnt á alla. Ímyndaðu þér ef bara sumir myndu eldast og hrökkva upp af, en t.d. þeir ríku gætu keypt sér framlengingu. Tíminn er því klárlega besti jafnaðarmaðurinn.

Homo Sap öfugt við önnur dýr – nema kannski einhverja apa og höfrunga, jafnvel svín – veit að tími hans á dansgólfinu er skammtaður og að þetta tekur enda. Sumir lifa í þeirra von að eitthvað annað taki við. Þessi vitneskja er mikil bölvun á okkur Homo Saps og gerir meira ógagn en gagn því nú erum við alltaf að velta okkur upp úr þessu. Það og að heimurinn komplett hafi komið út nánast engu sem sprakk í loft upp með rosa krafti fyrir trilljón árum. Hvílíkt rugl!

Hér að ofan er mynd af okkur Steini Skaptasyni svona 1981 þegar ég var 15 og hann er 17. Steinn er eins og allir vita mikill meistari og mín helsta stoð og stytta við ritun bókarinnar Eru ekki allir í stuði. Auk þess að vera frábær vinur og meistari er Steinn mönnum fróðari um íslenska tónlist og órþjótandi við að koma þeirri visku á framfæri við okkur vini sína og aðra. Hjalið hér að ofan um tímann og aldurinn og það helvítis kjaftæði er tilkomið vegna þess að í dag er Steinn fimmtugur – 50! Þetta er ótrúlega ótrúlegt rugl og vitleysa og maður skilur bara ekkert í þessu.

En allavega – Heill sé Steini Skaptasyni fimmtugum!!!

Rasískt barnablað

14 Mar

ungaisland
Tímarit.is er hvílík gullkista. Sem betur fer endar ekki allt starf blaðamannsins í gámunum hjá Sorpu heldur fer það líka þarna inn. Barnablaðið Unga Ísland kom út 1905 og var eflaust ekkert rasískara en gengur og gerist á þessum tíma. Í þessu sláandi hefti var ungdómurinn fræddur um svarta menn, sem „standa langt að baki hvítu mönnunum að menningu og andlegum þroska“ o.s.frv. Nálgist með varúð…

Útlendingurinn Björk

13 Mar

pl93
Í júní verða liðin 20 ár síðan Björk varð að alþjóðlegri súperstjörnu með Debut. Þegar kosið var um bestu plötur ársins í árlegri könnun DV í lok árs 1993 kom í ljós að Debut þótti besta erlenda plata ársins en ekki nema 9. besta íslenska platan. Samkvæmt Sigurði Þór Salvarsyni, sem tók listann saman, mátti færa „fyrir því gild rök að plata hennar sé hvort tveggja, íslensk og erlend“… Þótt Björk sé auðvitað íslensk var hún með nánast eingöngu útlendinga að spila með sér á Debut og því kom þetta svona asnalega út.


Nú verða menn kannski í sömu vandræðum með John Grant og nýju plötuna hans því hann er með svo mikið af Íslendingum á henni? Held samt örugglega ekki. Það var t.d. enginn að spá í öllum erlendu hljóðfæraleikurunum á plötunni hennar Lay Low Farewell Good Night’s Sleep fyrir nokkrum árum. Enívei. Þetta er þrumu plata hjá John, þarna er bæði Gusað hárgreiðslupopp og Elton Johnnað, Gilbert O’Sullivan uppvasks-popp eins og þetta hér að ofan, GMF. Útgáfutónleikarnir verða á laugardaginn.

Tölvubölvun

5 Mar

„Fyrir hrun“ gat maður alltaf verið á glænýjum bílum á „rekstrarleigu“ og borgaði skít og kanel fyrir. Nú á ég bíl sem er bara til vandræða enda 2002 árgerð. Hann er með tölvu og alltaf pípandi á mig. Allir bílar í dag eru með tölvur og endalaust pípandi á eigendur sína. Svo fer maður með bílinn í viðgerð þegar pípið er orðið langvarandi út af tölvunni. Ég þurfti að bíða heillengi eftir að geta lagt bílinn inn af því tölvukerfið var frosið á verkstæðinu. Svo bíður maður allan daginn eftir að viðgerðarmennirnir hringi og er með hjartsláttartruflanir og svitaköst og sér fyrir sér brjálæðislega háa verkstæðisreikninga. Svo finna mennirnir kannski ekkert að helvítis bílnum fyrr en eftir dúk og disk og þá var þetta kannski einhver laus vír í „skynjaranum“. Tuttugu þúsund kall, takk fyrir, ef ég er heppinn.

Um daginn ætlaði ég að ná í blóðþrýsingslyfin mín í apótek en það var ekkert hægt gera því gagnagrunnurinn lá niðri. „Þetta er svona í öllum apótekum í bænum og við vitum því miður ekkert hvenær  þetta kemst í lag.“ Ég hrökklaðist í burtu með alltof háan blóðþrýsing, en þetta var komið í lag daginn eftir.

Ó mig auman. Helvítis tölvur út um allt! hræki ég út mér á lyklaborðinu. Er þetta ekki að verða ágætt?

Orð dagsins er sláandi

4 Mar

Fyrst langar mig að nefna það í þessu sláandi sundurlausa bloggi að ég fór í bíó og sá Jagten, sem er alveg fín. Maður var með í maganum allan tímann. Svo sá ég loksins myndina um ótrúlega sögu Sixto Rodriques, Searching for Sugarman. Það er engu logið upp á hana, sláandi fín mynd. Ég las rosalega bók um Norður Kóreu, Engan þarf að öfunda, eftir Barböru Demick. Það er nú meiri geðveikin sem er látin líðast þarna. Sláandi bók! Núna er ég að lesa ferðasögur eftir Einar Kárason í Hvar frómur flækist, sem heldur manni við efnið. Einar kom með sláandi Facebook-komment um gulldrenginn eina, John Grant í kjölfar sjónvarpsþáttarins með honum: „Þessi gæi er álíka mikið núll og nix eins og menn geta orðið“, en þetta er náttúrlega algjört rugl í Einari. Ég hef verið að hlusta á nýju plötuna hans (Johns þar að segja, ekki Einars), sem er hið fínasta húsmæðrapopp, dálítið Gilbert O’Sullivan á köflum. Þetta er ekkert diss, ég á fjórar plötur með Gilberti O’Sullivan! Sláandi!

Þessa stundina er sláandi gangur í Of monsters and men og eiginlega sláandi lítið fjallað um þennan rosalega uppgang, allavega miðað við að það má varla Íslendingur reka við framan í útlending að það sé ekki komin frétt aftan í Fréttablaðinu. Ég vissi t.d. ekki að Little Talks hefði verið kosið næst besta lag síðasta árs hjá uppáhalds áströlsku útvarpsstöðinni minni Triple J og að á risa tónleikaferðinni sem OM&M er á núna er nánast uppselt á alla tónleika.

Nýir gönguskór

1 Mar

Lomer_Pelmo_STX_12
Eitt af því gáfulegasta sem ég hef gert um dagana var að kaupa mér gönguskó. Ég keypti par af ítölsku tegundinni Lomer í einhverri skammlífri verslun í Héðinshúsinu. Nú er ég búinn að eiga þessa skó í rúmlega tíu ár og þeir hafa dugað frábærlega á Fimmvörðuhálsinn tvisvar sinnum, Laugaveginn, Hornstrandir og allskonar fjöll og fyrnindi. Tíu ár er svaka ending og því varð ég ekkert fúll þótt það færi að bera á smá vatnsleka í fyrra. Ekkert að gera í því nema fá sér bara nýja skó.

Vitaskuld fann ég mér aftur skó af tegundinni Lomer. Þeir fást hjá Útivist á Laugavegi 178 og það sem er frábærast er að þeir eru á geðveikt góðu verði eða 32.600 kr – sem sagt tegundin hér á myndinni að ofan, Lomer Pelmo, sem er allra handa fjalla og fyrninda skótegund. Það er sami sóli undir þessu og á hinum meinta Rolls gönguskóbransans, Scarpa skónum, en par af svoleiðis er farið að slaga hátt upp í 60 þúsund kallinn.

Ég mæli eindregið með Lomer! Ódýrir og rosa fínir.

Enívei. Rakst á þetta þegar ég gúgglaði radarstöðina á Straumnesi. Þarna var Sigur Rós að spá í að byggja stúdíóið sitt áður en þeir fundu sundlaugina í Mosfellsbæ.