Sarpur | mars, 2012

32 lög á 32 mínútum

30 Mar


Hér er mynd af mér síðan ég vann fyrir mér sem víkingagulldvergur á Strikinu. Það voru ekki góð ár. Þegar ég kom heim henti ég í eitt svakalegt stubbamix á 8tracks síðunni sem þú kemst í með því að smella Á ÞESSA STAFI. Ég hef alltaf haft áhuga á últrastuttum lögum og Í ÞESSU MIXI má heyra 32 ÍSLENSK lög á 32 mínútum. Þetta er alveg allskonar stöff, það elsta Laus og liðugur með Lúdó og Stefán sem er ekki nema 1.32 þótt það sé svona gott. Þarna eru tvö lög eftir Einar Vilberg frá upphafi hans ferils, bæði alveg rosa stutt og frábær – Blómið sem dó með Pétri Kristjáns og Gunnari Jökli á trommur og lagið Íhugun sem Janis Carol syngur. Já já og svo er bara allskonar dúndurskemmtilegt stöff þarna. TÉKK ITT ÁT!!!

Talandi um Laus og liðugur: Hver er þessi dásamaður sem er alltaf verið að syngja um í laginu? Hvað gera dásamenn? Fara dásamenn í veislunnar-martí, sem er einskonar afbrigði af partíi, eða það hélt Björn Jörundur þegar hann var lítill og hlustaði á Heim í Búðardal.

Og óviðeigandi textalína dagsins er úr laginu Íhugun með Janis Carol (útg. 1970): En þinn hugur er langt í burt, þú ert ekki að hugsa um Biafra-surt. Og fyrst við erum að tala um hana Janis Carol þá er hér bráðskemmtileg mynd af henni með hljómsveit Óla Ben (sem hún var gift):

Myndin er í bók Sigurgeirs Sigurjónssonar, Poppkorn, sem kom út fyrir jólin 2010.

Auglýsingar

Kína á Bíldshöfða

30 Mar


Þetta er hann Aron Wei Quan, sem fluttist með foreldrum sínum til Íslands þegar hann var 7 ára. Foreldrarnir unnu á ýmsum kínverskum veitingahúsum hér, en áttu alltaf drauminn um að opna eigin stað. Nú hefur draumurinn ræst á Bíldshöfða, þar sem fjölskyldan  rekur Fönix veitingahús (á Facebook). Pabbi er í eldhúsinu, mamma þjónar til borðs og sonurinn er framkvæmdarstjóri og allskonar. Honum þótti upplagt að bjóða mér að borða í von um bloggplögg, sem er auðvitað eitthvað sem alvöru gagnrýnendur myndu aldrei láta bjóða sér.

Nú, það var svoleiðis dælt í okkur feðgana. Dagbjartur fékk djúpsteiktar rækjur með súrsætum og hrísgrjónum og át á sig gat. Hann hefur aldrei fengið svona góðar djúpsteiktar rækjur áður, sagði hann. Ég fékk fyrst Hun Tun súpu, sem er þynnra afbrigði dumplings. Fínt. Næst fékk ég hálfan skammt af Cumin lambi með grænmeti, sem var nokkuð gott, en svo toppaði síðasti rétturinn þetta allt, marineraður Kung pao kjúklingur með cashew hnetum. Vægast sagt hrikalega góður.

Staðurinn er á Bíldshöfða 12, í næsta húsi við American Style. Þetta er nú frekar óhrjálegt iðnaðarhverfi og er staðurinn vinsæll í hádeginu hjá fólkinu sem vinnur þarna í kring. Það er líka opið til á kvöldin frá 17-21 og á laugardögum á milli kl. 12-21. Mjög sniðugt að bregða sér þarna vilji maður fyrsta flokks kínamat á fínu verði (geðveiki kjúklingarétturinn kostar 1.490 kr). Matseðillinn er á Facebook. Takk fyrir mig!

Stuna úr fornbókaverslun

29 Mar

Ég var einu sinni í hljómsveit sem hét Stuna úr fornbókaverslun. Þetta þótti sniðugt nafn enda fornbókaverslanir helsti vettvangur klámblaðakaupa á Íslandi áður en internetið fór að gegnsýra hugsanir og afvegaleiða menn með endalausu klámflóði. Í Brynjuportinu á Laugarveginum er nú einhvers konar endurlit til klámfortíðar því þar í kjallara er lítil bóksala. Þar má fá allskyns efni, m.a. eintök af pönkblaðinu Halló frá 1978, LP og 78 snúninga plötur, og svo vænan slatta af íslenskum klámritum fortíðar. Tígulgosinn, Bósi og hvað þetta hét.

Þarna eru líka vasabrotsklámbækur sem suddakarlar til forna lásu sér til hugarmengunar. Ég man að það þótti fyndið að lesa upp úr þessum bókum on ðe ród í gamla daga. Oftar en ekki var Óttarr Proppé með svona bók í farteskinu og svo grenjuðu allir úr hlátri þegar hann las upp úr þessu.

Þeir sem vilja kíkja í þessa Bókabúð verða þó að bíða til laugardags því mér skilst að það sé bara opið á laugardögum. Frá kl. 13.

Hjá Braga í Bókinni (sem aldrei er í búðinni sama hvað ég kem oft. Ég held hann sé aldrei þarna nema þegar Egill og myndavélarnar koma) er náttúrlega allskonar frábært dót til sölu. Ég sá þennan útrásarvíkingaklút í glugga.

Svo var til kassettan So True Indeed með Hirti Geirssyni. Ég hefði auðvitað keypt hana ef ég hefði ekki átt eintak. Stal mínu eintaki frá Jóa á hakanum í sameiginlegu æfingarhúsnæði 1989. Uss, ekki segja neinum.

Áríðandi fréttir af Nýdönsk

28 Mar


Hljómsveitin Nýdönsk (Gammeldansk?) verður 25 ára á þessu ári. Gríðarmikið húllumhæ verður uppi að því tilefni. Fyrir það fyrsta stefnir allt í tribjúd-plötu. KK er fyrstur:

KK – Frelsið (Nýdönsk kóver)

Retro Stefson, Hjaltalín og Mugison eru svo líka í starholunum.

Party Zone og tonlist.is munu standa fyrir Remix-keppni á Rás 2. Sex Nýdönsk-lög í pottinum, m.a. Landslag skýjanna, Ilmur og Alelda.

Afmælistónleikar 22.sept í Hörpu og 29. sept í Hofi. Góðir gestir taka lagið með bandinu. Forsala hefst 26.apríl

Allt að ske í Nýdanskalandinu. Stuð!

 

OMAM og Músíktilraunir

28 Mar


Eins og allir vita stendur nú yfir megameik hjá skátapoppsveitinni Of Monsters And Men. Þau spiluðu í Seattle á mánudaginn og verða í Minneapolis á morgun. Allsstaðar er uppselt og gríðargóður gangur. Nýja/gamla platan heitir ennþá My Head is An Animal og má nú heyra í heilu lagi á hinni gríðargóðu músíksíðu National Public Radio í USA. Þar er alltaf boðið upp á straum á nýju efni svo það borgar sig að kíkja inn reglulega. Það eru tvö ný lög á plötunni og nýtt umslag sem er flottara en það gamla.

Hinn lýgilegi living-the-dream uppgangur er auðvitað fagnaðarefni þótt ég viðurkenni að vera ekki í æstasta aðdáandaklúbbi sveitarinnar. Poppdýrðin nuddast yfir á önnur bílskúrsdýr sem fyllast eldmóði þegar þau sjá hvað getur gerst. Bara tvö ár síðan OM&M unnu Músíktilraunir og nú bara seljandi upp sjó og keyrandi á milli á hæklass bransarútu í USA! Þetta er auðvitað poppævintýri líkast.

Þess vegna eru Músíktilraunir þróttmeiri núna en oft áður. Bönd sem kannski fannst það fyrir neðan sína virðingu að taka þátt láta sig hafaða í dag. Úrslitin fara fram í Austurbæ á laugardaginn. Átta bönd eru komin áfram en dómnefndin getur sent allt að fjórar sveitir að auki í úrslit. Þessar átta eru The Lovely Lion, White SignalÞoka, Glundroði, Hindurvættir, Funk that Shit!, Retrobot og Aeterna. Allar með síðu og tóndæmi á hinni mögnuðu heimasíðu Músíktilrauna.

Átta drykkir

27 Mar


Þegar þú heyrir orðið „lífsstíll“ í sambandi við eitthvað, er það yfirleitt merki um rugl. Ég er handviss um að ég las það einhvers staðar að það væri „lífsstíll“ að drekka Aloe Vera drykki og einu sinni var alltaf talað um að það væri „lífsstíll“ að eiga mótorhjól. Jú vissulega má segja að það sé „lífsstíll“ að vera í mótorhjólasamtökum, en fjandinn hafiða: Að drekka Aloe Vera drykki..!?

Aloe Vera hefur maður hingað til borið á brunasár, en nú er sem sagt hægt að drekka það líka. OKF Aloe Vera Goja berry er sagður með goja berjum, en goja ber (sem ég hafði aldrei heyrt minnst á fyrir svona einu ári) er svokallað súperfúdd og það er „lífsstíll“ að borða súperfúdd enda er svo mikið af „andoxunarefnum“ í súperfúddi.

Rétt. Hafði heldur ekki heyrt um „andoxunarefni“ fyrir svona 2 árum.

Merkið (OKF) sé ég ekki betur en að eigi uppruna í Kóreu og drykkirnir eru náttúrlega fokdýrir út úr búr hér. Gojað smakkast eins, en þó betur, og sterkt blandaður Egils djús. Svo eru gelkögglar í þessu eins og eru oft í exótískum drykkjum sem maður fær í asíubúðunum. Þetta er ábyggilega rosa hollt. Tvær stjörnur. Smakkaði líka með Aqui-berjum (annað súperfúdd og andoxunarefnaríkt). Þessi var ekki með kögglum en smakkaðist svipað. Tvær stjörnur líka.


Snillingur hráfæðissins (sem er „lífsstíll“), hún Solla stirða er að gera góða hluti í gosinu. Hún hefur verið með einn besta engiferdrykk landsins í nokkur misseri og bætti  nýlega við tveimur sortum. Límonaðidrykkurinn er ágætur, en með þessu hola heilsubragði sem spilltur tranturinn á mér ber ekki gæfu til að njóta í botn, enda svo mengaður af sykri og bragðefnum.  Tvær stjörnur á límonaðidrykkinn (svo er „límonaði“ líka svo flott orð og kallar fram hugar-myndir af amerískum krökkum að selja límonaði á götum úti við trékassa). Appelsínudrykkurinn er verri, bragðdaufari og til hvers þarf maður svona þegar maður hefur Egils Appelsín? Ein stjarna.


Í hinni frábæru kjötbúð Pylsumeistarinn á Hrísateigi fékk ég pólska drykkinn Tymbark. Hann er líka seldur í besta kaffihúsi landsins, C is for cookie. Þessi er með kirsuberja/epla-bragði og er nokkuð fínn. Samt ekki nógu fínn til að fá meira en tvær stjörnur. Kona frænda míns er frá Brasilíu og færði mér drykk þaðan, Mate Couro. Þetta er einn af vinsælustu drykkjum Brasilíu, en sá allra vinsælasti heitir Guaraná Antartica og er ekki eins góður og þessi. Mate Couro er með undarlegu bragði einhvers staðar á milli Sprite og ávaxtadrykkjar, svalandi og góður. Þrjár stjörnur á hann.


Að lokum tveir drykkir sem ég fékk í nýju uppáhaldsbúðinni minni,  Heilsubúðinni Góð heilsa gulli betri á horni Klapparstígs og Njálsgötu. Þarna fékk ég lang besta engiferdrykk sem ég hef keypt á Íslandi, Belvoir Fruit Farms Organic Ginger Beer. Gríðarlega gott bragð og alveg mátulega sterkt, ekkert vatnssull. Mmm… algjör toppklassi! Fjórar stjörnur! (sem bæ ðe vei er það hæsta semn hægt er að „fá“ á þessari síðu). Hinn drykkurinn er Fentiman’s Rose Lemonade, enskt rósablaða-límonaði, hvorki meira né minna. Hvernig í helvítinu smakkast rósarblöð, hugsaði ég efins um ágætið. Svar: Eins og súrara Sprite. Vonbrigði. Ein stjarna.

Prumpulagið í bók

27 Mar


Lagið Prumpufólkið – eða Prumpulagið, eins og hefði verið sniðugra að kalla það – er lagt í einelti í nýjustu bók Hugleiks Dagssonar. Bókin,  Enn fleiri íslensk dægurlög, er væntanleg um miðjan apríl og er snilld.

Talandi um Hugleik. Hann setur í aðra teiknimyndasamkeppni vegna Ókeipiss blaðsins sem kemur út á Ókeypis teiknimyndadaginn 5. maí. Nánar á Facebóksíðunni.