Sarpur | mars, 2012

32 lög á 32 mínútum

30 Mar


Hér er mynd af mér síðan ég vann fyrir mér sem víkingagulldvergur á Strikinu. Það voru ekki góð ár. Þegar ég kom heim henti ég í eitt svakalegt stubbamix á 8tracks síðunni sem þú kemst í með því að smella Á ÞESSA STAFI. Ég hef alltaf haft áhuga á últrastuttum lögum og Í ÞESSU MIXI má heyra 32 ÍSLENSK lög á 32 mínútum. Þetta er alveg allskonar stöff, það elsta Laus og liðugur með Lúdó og Stefán sem er ekki nema 1.32 þótt það sé svona gott. Þarna eru tvö lög eftir Einar Vilberg frá upphafi hans ferils, bæði alveg rosa stutt og frábær – Blómið sem dó með Pétri Kristjáns og Gunnari Jökli á trommur og lagið Íhugun sem Janis Carol syngur. Já já og svo er bara allskonar dúndurskemmtilegt stöff þarna. TÉKK ITT ÁT!!!

Talandi um Laus og liðugur: Hver er þessi dásamaður sem er alltaf verið að syngja um í laginu? Hvað gera dásamenn? Fara dásamenn í veislunnar-martí, sem er einskonar afbrigði af partíi, eða það hélt Björn Jörundur þegar hann var lítill og hlustaði á Heim í Búðardal.

Og óviðeigandi textalína dagsins er úr laginu Íhugun með Janis Carol (útg. 1970): En þinn hugur er langt í burt, þú ert ekki að hugsa um Biafra-surt. Og fyrst við erum að tala um hana Janis Carol þá er hér bráðskemmtileg mynd af henni með hljómsveit Óla Ben (sem hún var gift):

Myndin er í bók Sigurgeirs Sigurjónssonar, Poppkorn, sem kom út fyrir jólin 2010.

Kína á Bíldshöfða

30 Mar


Þetta er hann Aron Wei Quan, sem fluttist með foreldrum sínum til Íslands þegar hann var 7 ára. Foreldrarnir unnu á ýmsum kínverskum veitingahúsum hér, en áttu alltaf drauminn um að opna eigin stað. Nú hefur draumurinn ræst á Bíldshöfða, þar sem fjölskyldan  rekur Fönix veitingahús (á Facebook). Pabbi er í eldhúsinu, mamma þjónar til borðs og sonurinn er framkvæmdarstjóri og allskonar. Honum þótti upplagt að bjóða mér að borða í von um bloggplögg, sem er auðvitað eitthvað sem alvöru gagnrýnendur myndu aldrei láta bjóða sér.

Nú, það var svoleiðis dælt í okkur feðgana. Dagbjartur fékk djúpsteiktar rækjur með súrsætum og hrísgrjónum og át á sig gat. Hann hefur aldrei fengið svona góðar djúpsteiktar rækjur áður, sagði hann. Ég fékk fyrst Hun Tun súpu, sem er þynnra afbrigði dumplings. Fínt. Næst fékk ég hálfan skammt af Cumin lambi með grænmeti, sem var nokkuð gott, en svo toppaði síðasti rétturinn þetta allt, marineraður Kung pao kjúklingur með cashew hnetum. Vægast sagt hrikalega góður.

Staðurinn er á Bíldshöfða 12, í næsta húsi við American Style. Þetta er nú frekar óhrjálegt iðnaðarhverfi og er staðurinn vinsæll í hádeginu hjá fólkinu sem vinnur þarna í kring. Það er líka opið til á kvöldin frá 17-21 og á laugardögum á milli kl. 12-21. Mjög sniðugt að bregða sér þarna vilji maður fyrsta flokks kínamat á fínu verði (geðveiki kjúklingarétturinn kostar 1.490 kr). Matseðillinn er á Facebook. Takk fyrir mig!

Stuna úr fornbókaverslun

29 Mar

Ég var einu sinni í hljómsveit sem hét Stuna úr fornbókaverslun. Þetta þótti sniðugt nafn enda fornbókaverslanir helsti vettvangur klámblaðakaupa á Íslandi áður en internetið fór að gegnsýra hugsanir og afvegaleiða menn með endalausu klámflóði. Í Brynjuportinu á Laugarveginum er nú einhvers konar endurlit til klámfortíðar því þar í kjallara er lítil bóksala. Þar má fá allskyns efni, m.a. eintök af pönkblaðinu Halló frá 1978, LP og 78 snúninga plötur, og svo vænan slatta af íslenskum klámritum fortíðar. Tígulgosinn, Bósi og hvað þetta hét.

Þarna eru líka vasabrotsklámbækur sem suddakarlar til forna lásu sér til hugarmengunar. Ég man að það þótti fyndið að lesa upp úr þessum bókum on ðe ród í gamla daga. Oftar en ekki var Óttarr Proppé með svona bók í farteskinu og svo grenjuðu allir úr hlátri þegar hann las upp úr þessu.

Þeir sem vilja kíkja í þessa Bókabúð verða þó að bíða til laugardags því mér skilst að það sé bara opið á laugardögum. Frá kl. 13.

Hjá Braga í Bókinni (sem aldrei er í búðinni sama hvað ég kem oft. Ég held hann sé aldrei þarna nema þegar Egill og myndavélarnar koma) er náttúrlega allskonar frábært dót til sölu. Ég sá þennan útrásarvíkingaklút í glugga.

Svo var til kassettan So True Indeed með Hirti Geirssyni. Ég hefði auðvitað keypt hana ef ég hefði ekki átt eintak. Stal mínu eintaki frá Jóa á hakanum í sameiginlegu æfingarhúsnæði 1989. Uss, ekki segja neinum.

Áríðandi fréttir af Nýdönsk

28 Mar


Hljómsveitin Nýdönsk (Gammeldansk?) verður 25 ára á þessu ári. Gríðarmikið húllumhæ verður uppi að því tilefni. Fyrir það fyrsta stefnir allt í tribjúd-plötu. KK er fyrstur:

KK – Frelsið (Nýdönsk kóver)

Retro Stefson, Hjaltalín og Mugison eru svo líka í starholunum.

Party Zone og tonlist.is munu standa fyrir Remix-keppni á Rás 2. Sex Nýdönsk-lög í pottinum, m.a. Landslag skýjanna, Ilmur og Alelda.

Afmælistónleikar 22.sept í Hörpu og 29. sept í Hofi. Góðir gestir taka lagið með bandinu. Forsala hefst 26.apríl

Allt að ske í Nýdanskalandinu. Stuð!

 

OMAM og Músíktilraunir

28 Mar


Eins og allir vita stendur nú yfir megameik hjá skátapoppsveitinni Of Monsters And Men. Þau spiluðu í Seattle á mánudaginn og verða í Minneapolis á morgun. Allsstaðar er uppselt og gríðargóður gangur. Nýja/gamla platan heitir ennþá My Head is An Animal og má nú heyra í heilu lagi á hinni gríðargóðu músíksíðu National Public Radio í USA. Þar er alltaf boðið upp á straum á nýju efni svo það borgar sig að kíkja inn reglulega. Það eru tvö ný lög á plötunni og nýtt umslag sem er flottara en það gamla.

Hinn lýgilegi living-the-dream uppgangur er auðvitað fagnaðarefni þótt ég viðurkenni að vera ekki í æstasta aðdáandaklúbbi sveitarinnar. Poppdýrðin nuddast yfir á önnur bílskúrsdýr sem fyllast eldmóði þegar þau sjá hvað getur gerst. Bara tvö ár síðan OM&M unnu Músíktilraunir og nú bara seljandi upp sjó og keyrandi á milli á hæklass bransarútu í USA! Þetta er auðvitað poppævintýri líkast.

Þess vegna eru Músíktilraunir þróttmeiri núna en oft áður. Bönd sem kannski fannst það fyrir neðan sína virðingu að taka þátt láta sig hafaða í dag. Úrslitin fara fram í Austurbæ á laugardaginn. Átta bönd eru komin áfram en dómnefndin getur sent allt að fjórar sveitir að auki í úrslit. Þessar átta eru The Lovely Lion, White SignalÞoka, Glundroði, Hindurvættir, Funk that Shit!, Retrobot og Aeterna. Allar með síðu og tóndæmi á hinni mögnuðu heimasíðu Músíktilrauna.

Átta drykkir

27 Mar


Þegar þú heyrir orðið „lífsstíll“ í sambandi við eitthvað, er það yfirleitt merki um rugl. Ég er handviss um að ég las það einhvers staðar að það væri „lífsstíll“ að drekka Aloe Vera drykki og einu sinni var alltaf talað um að það væri „lífsstíll“ að eiga mótorhjól. Jú vissulega má segja að það sé „lífsstíll“ að vera í mótorhjólasamtökum, en fjandinn hafiða: Að drekka Aloe Vera drykki..!?

Aloe Vera hefur maður hingað til borið á brunasár, en nú er sem sagt hægt að drekka það líka. OKF Aloe Vera Goja berry er sagður með goja berjum, en goja ber (sem ég hafði aldrei heyrt minnst á fyrir svona einu ári) er svokallað súperfúdd og það er „lífsstíll“ að borða súperfúdd enda er svo mikið af „andoxunarefnum“ í súperfúddi.

Rétt. Hafði heldur ekki heyrt um „andoxunarefni“ fyrir svona 2 árum.

Merkið (OKF) sé ég ekki betur en að eigi uppruna í Kóreu og drykkirnir eru náttúrlega fokdýrir út úr búr hér. Gojað smakkast eins, en þó betur, og sterkt blandaður Egils djús. Svo eru gelkögglar í þessu eins og eru oft í exótískum drykkjum sem maður fær í asíubúðunum. Þetta er ábyggilega rosa hollt. Tvær stjörnur. Smakkaði líka með Aqui-berjum (annað súperfúdd og andoxunarefnaríkt). Þessi var ekki með kögglum en smakkaðist svipað. Tvær stjörnur líka.


Snillingur hráfæðissins (sem er „lífsstíll“), hún Solla stirða er að gera góða hluti í gosinu. Hún hefur verið með einn besta engiferdrykk landsins í nokkur misseri og bætti  nýlega við tveimur sortum. Límonaðidrykkurinn er ágætur, en með þessu hola heilsubragði sem spilltur tranturinn á mér ber ekki gæfu til að njóta í botn, enda svo mengaður af sykri og bragðefnum.  Tvær stjörnur á límonaðidrykkinn (svo er „límonaði“ líka svo flott orð og kallar fram hugar-myndir af amerískum krökkum að selja límonaði á götum úti við trékassa). Appelsínudrykkurinn er verri, bragðdaufari og til hvers þarf maður svona þegar maður hefur Egils Appelsín? Ein stjarna.


Í hinni frábæru kjötbúð Pylsumeistarinn á Hrísateigi fékk ég pólska drykkinn Tymbark. Hann er líka seldur í besta kaffihúsi landsins, C is for cookie. Þessi er með kirsuberja/epla-bragði og er nokkuð fínn. Samt ekki nógu fínn til að fá meira en tvær stjörnur. Kona frænda míns er frá Brasilíu og færði mér drykk þaðan, Mate Couro. Þetta er einn af vinsælustu drykkjum Brasilíu, en sá allra vinsælasti heitir Guaraná Antartica og er ekki eins góður og þessi. Mate Couro er með undarlegu bragði einhvers staðar á milli Sprite og ávaxtadrykkjar, svalandi og góður. Þrjár stjörnur á hann.


Að lokum tveir drykkir sem ég fékk í nýju uppáhaldsbúðinni minni,  Heilsubúðinni Góð heilsa gulli betri á horni Klapparstígs og Njálsgötu. Þarna fékk ég lang besta engiferdrykk sem ég hef keypt á Íslandi, Belvoir Fruit Farms Organic Ginger Beer. Gríðarlega gott bragð og alveg mátulega sterkt, ekkert vatnssull. Mmm… algjör toppklassi! Fjórar stjörnur! (sem bæ ðe vei er það hæsta semn hægt er að „fá“ á þessari síðu). Hinn drykkurinn er Fentiman’s Rose Lemonade, enskt rósablaða-límonaði, hvorki meira né minna. Hvernig í helvítinu smakkast rósarblöð, hugsaði ég efins um ágætið. Svar: Eins og súrara Sprite. Vonbrigði. Ein stjarna.

Prumpulagið í bók

27 Mar


Lagið Prumpufólkið – eða Prumpulagið, eins og hefði verið sniðugra að kalla það – er lagt í einelti í nýjustu bók Hugleiks Dagssonar. Bókin,  Enn fleiri íslensk dægurlög, er væntanleg um miðjan apríl og er snilld.

Talandi um Hugleik. Hann setur í aðra teiknimyndasamkeppni vegna Ókeipiss blaðsins sem kemur út á Ókeypis teiknimyndadaginn 5. maí. Nánar á Facebóksíðunni.

Besta pönk sjónvarpssögunnar

26 Mar


Ég fjárfesti í miklum doðranti, The Encyclopedia of Punk. Þar, innan um allskonar gúmmilaði, er listinn Great moments in Punk TV:

Þetta er nú frægast. Sex Pistols hjá Bill Grundy. Daginn eftir varð allt vitlaust í blöðunum og pönksprengjan var fallin.

Hér pönka mid-period Damned í The Young ones.

Fávita- og dópistapönkbandið The Plasmatics í þættinu The Tomorrow show. Kaggi sprengdur í tætlur.

PIL og Hr. Attitjúd John Lydon í sjóbizþættinum American Bandstand. Illaðasta mæm sögunnar.

Hljómsveitin Fear í Saturday Night live. Þátturinn sjálfur er ekki á Youtube, en hér er einhver gaur að rifja þetta upp.

15.05% kvenkyns Músíktilraunir

25 Mar

Eins og ég hef áður komið inn á gerðust konur jafnari þátttakendur í músíksenunni í kjölfar pönks og nýbylgju. Áður, í rokki og bítli, voru konur algjörir hvítir hrafnar. Ég henti í nýtt mix á 8tracks og safnaði saman 30 erlendum lögum sem konur leiða frá þessum tíma í kringum 1980. Dúndur gott stöff, þótt ég segi sjálfur frá.

Kynjahlutföllin í Músíktilraunum hafa oftast verið konum í miklum óhag. Vinningsmöguleikar kvenna (miðað við hlutfall) eru þó mjög háir. Hvernig er þessu háttað í ár? Ég varð að taka þetta saman. Ég fer nú á hina glæsilegu heimasíðu Músíktilrauna.

Og niðurstaðan er:

28 stelpur og 158 strákar = Stelpur eru 15.05% Músíktilrauna í ár. Þær birtast víða, oftast í blönduðum hópum; Í fimmta veldi er eina bandið bara með stelpum og í þungarokkssveitinni Mont frá Húsavík er Nanna á trommur með þremur strákum, sem er samsetning sem sést ekki oft.

Þótt 15.05% sé ekki mikið þá held ég samt að það sé bara nokkuð gott miðað við flest önnur ár. Stundum hafa bara verið kannski 5 stelpur í það heila í keppninni svo 28 er bara nokkuð gott. Mætti auðvitað vera meira, en það kemur bara ef það kemur.

En aftur að nýja mixinu mínu, 30 great woman-led songs from about 1980:


1. The Rezillos – Top of the pops.
Söngkonan Fay Fife var í þessu hressa teiknimyndapönkbandi frá Edinborg, Skotlandi.


2. Usch – LTO
Sænskt kvennapönk.  Gerðu nokkrar plötur og söngkonan kallaði sig Kicko.


3. X-Ray Spex -I Am A Poseur
Söngkonan Poly Sterene (sem lést í fyrra þegar hún var nýbyrjuð með kombakk og nýja plötu). Bandið gerði meistaraverkið Germfree Adolescents árið 1978.


4. Blondie – X Offender
Debbie Harry!


5. The Slits – Typical Girls
Af meistaraverki þeirra, plötunni Cut.


6. Lene Lovich – Home
Lucky Number er svo gott! Kom örugglega í Skonrok(k)i!


7. Chris & Cosey – This is me
Svívirðilega kúl. Enda voru þau í Throbbing Gristle.


8. Siouxsie & The Banshees – Happy House
Talandi um kúl, á tímabili var ekkert eins kúl og Súsí Sú.


9. Lio – Banana Split
Frönsk popppía. Hér með bumbuna úti, Björk í Kukl stæl.


10. Kleenex – Hedi’s Head
Svissneskar. Þurftu að endurnefna sig þegar tissjúframleiðandinn varð með bögg. Kölluðu sig þá Liliput.


11. Martha & The Muffins – Echo Beach
Vonhittvondrari frá Toronto, Kanada. Söngkonan heitir Martha Johnson og er 61 árs.


12. X – Nausea
Dúndurtöff frá LA. Söngkonan heitir Exene Cervenka.


13. Pink Military – Degenerated Man
Band frá Liverpool. Söngkonan heitir Jayne Casey og platan Do Animals Believe in God? er frábær en frekar vanmetin.


14. Poison Girls – Old Tart
Vi Subversa var „gömul kelling“ þegar hún var í þessu Crass-pönk bandi (fædd 1935 svo hún var 46 ára þegar hún söng þetta lag).


15. 45 Grave –  45 Grave
„Horror pönk“ frá LA. Söngkonan Dinah Cancer að gera góða hluti.


16. Delta 5 – Mind your own business
Hress frá Leeds.


17. Dybbuk – Pani I
Frá Tékkóslóvakíu. Áttu síðar eftir að kalla sig Zuby Nehty. Þetta er lang yngst af þessum lögum hérna, frá 1991.


18. Young Marble Giants – Salad days
Frámunalega langt á undan sinni samtíð mínímalískt popp frá Wales (The XX hvað?).  Alison Statton söng með Moxham bræðrunum. Platan Colossal Youth er möst.


19. Crass – Systematic Death
Söngkona Crass, Joy de Vivre, var í aðalhlutverki á plötunni Penis Envy.


20. Pylon – Volume
Listarokk frá Athens, Georgia. Söngkonan heitir Vanessa Briscoe Hay.


21. The Raincoats – Adventures Close To Home
Mussutímabils pönk. Uppáhaldsbandið hans Kurt Cobain, eða eitt af þeim.


22. PragVEC – Cigarettes
Frá London. Susan Gogan söng.


23. The B52’s – 52 girls
Hressasta liðið í pönkinu. Frá Athens, Georgia, eins og REM (og Pylon!)


24. Sick Things – Antisocial disease 
Útlitsmeðvitað skítapönk frá London.


25. Essential Logic – Fanfare In The Garden
Lora Logic á saxófón og söng.


26. Ruth – Mots
Franskt kuldarokk leitt af Ruth Ellyeri. Af plötunni Polaroïd/Roman/Photo (1985).


27. The Selecter – Three minute hero
Í ska-bylgjunni var Pauline Black í The Selecter. Hún gaf út ævisögu sína í fyrra, sem maður þarf að redda sér.


28. Au Pairs – We’re so cool
Au Pairs komu frá Birmingham og kynjamixuðu í bandið sem þótti nokkuð ferskt 1978. Platan Playing with a different sex er þeirra fyrsta og besta.


29. The Lighthouse Keepers – Ocean Liner

Ástralskt popp frá Canberra. Platan Tales of the unexpected (1984) er snilld. Söngkonan heitir Juliet Ward.


30. James Change og Lydia Lunch – Stained sheets
Funheitt og ólgandi frá Lydiu Lunch, drottningu drauma minna 1982-85.

Þegar ég var að myndagúggla þetta dót komu fullt af myndum af öllum mörgum áratugum síðar orðnum gömlum en samt að spila. Sem er flott. Ég ákvað samt að nota gamlar myndir frekar en nýjar af gömlu fólki. Sorrí. Ungt lítur bara betur út en gamalt. En gamalt er samt geðveikt! Sérstaklega þegar það er ennþá að pönka.

Frábært Hótel Volkswagen!

25 Mar


Ég var dálítið hræddur um að Hótel Volkswagen, leikritið hans Jóns Gnarr, væri ömurlegt. Svo var það bara frábært. Allavega fyrir hlé. Ég var með verki í beinunum í hausnum á mér eftir að hlægja svo mikið. Eftir hlé kom smá kafli þar sem dampinn vantaði fannst mér (nema ég hafi bara verið orðinn svona syfjaður?), en allt í allt erum við að tala um fjórar stjörnur og allan pakkann.

Þarna er liðið úr gömlu útvarpsþáttunum, sem var það fyrsta sem sýndi grínsnilld Jóns. Áður en maður heyrði það í útvarpinu fannst manni hann eiginlega vera frekar glatað skáld bara – hann var svo greinilega á rangri hillu (amk séð í baksýnisspegli tímans). Jón þroskaði svo grínið næstu árin (eins og alkunna er) og er nú kominn „heilan hring“.

Mér fannst leikritið eins og „Hótel Tindastóll á sýru“ og stundum fannst mér eins og matarboðsatriðið í Erasurehead væri gengið aftur. Leikararnir, sem ég hélt að manni fyndist ekkert skemmtilegir munandi eftir Jóni sjálfum og Sigurjóni og Möggu Stínu úr útvarpinu, stóðu sig mjög vel og voru fyndnir og æðislegir. Svo var djöfulgóð músík í gangi og flott leiktjöld.

Ég er að segja þér það: Þetta er mjög gott stöff. Mikið grín og mikill súr. Vintage Gnarr, eins og maður segir.