Sarpur | Matvara RSS feed for this section

Öskra minna – Bíó meira

27 Sep

Við skulum ekki gleyma okkur. Íslendingar eru 0.000345% jarðarbúa og það er enginn nema við sjálf að pæla í þessu svokallaða stjórnmálaástandi hérna. Mér er svo sem sama hvernig þú vilt eyða dýrmætum tíma þínum. Ef þú vilt öskra allan daginn á Facebook um hvað allt sé ömurlegt og hvað allir séu glataðir og svona almennt raus, sem tekur athyglina frá því sem enginn vill sjá: Bjálkanum í eigin auga – þá máttu það að sjálfssögðu. Kannski er einhver álíka æstur sem mun svara þér eða koma með mótrök og bla bla bla, en ég er allavega ekki þarna. Og auðvitað öllum drullusama um það.

Íslenskt náttúra hefur “alltaf” verið hérna og það er hún sem dregur túrista-síldina hingað fyrst og fremst. Sama náttúra var hérna líka þegar smámenni fortíðar (aðallega XD og XB, en líka allir hinir, t.d. Steingrímur Joð) reyndu sem mest þeir máttu að eyðileggja náttúruna, því þeir komu ekki auga á neitt annað en leiðinlegar verksmiðjur til að “bjarga” hinum og þessum plássum sem eru ekki á höfuðborgarsvæðinu. Gamla Ísland voru álver, frekir kallar sem öskruðu: “Nú, hvernig vilt þú þá halda lífi í landinu?” og endalaus og geðveikur fjáraustur í vonlaus verkefni eins og lambakjöt á erlenda diska, svo ekki sé talað um endalaus “landkynningarátök”, sem voru í besta falli góður brandari.

En þetta rugl fékk allan peninginn. Áratugur eftir áratugur í rugl. Af því þrælar hugmyndaleysis og eigin ranghugmynda höfðu rangt fyrir sér en réðu samt yfir öllum peningunum. Og biddu fyrir þér, það er enn fullt af vitleysingum sem halda að “landkynning” og “lambakjöt til útlanda” séu einhver töfraorð.

Grjótharðar staðreyndir eru þessar: Listafólk í útrás hefur komið Íslandi og náttúrunni á kortið í erlendum hausum. Með þeim afleiðingum að túrismi er að síga yfir sjávarútveg sem aðalatvinnugrein þjóðarinnar. Hafðu það, álbrjálaði, hvalveiðandi, stóriðjustefnuóði fábjáninn þinn! Eða nei, það er lítilmannlegt að vera “I told you so”.

“Það er gott að vera vitur eftir á,” söngluðu heimskir milljarðagreifar með allt niður um sig 2008 og í sama kór voru XD og XB og líka XS og XV og allir bara. Líka þú með þinn flatskjá og myntkörfulán á bakinu. Hvernig væri þá núna að vera “vitur fyrirfram”? Til dæmis með því að fara ekki á límingunum í einhverri geðsturlun þegar næstu listamannalaun verða tilkynnt. Listamannalaun sem eru bara klink hvort sem er og eflaust hægt að borga þau öll með einni misheppnaðri lambakjötsferð til Kína.

Hvernig væri að hætta að eyða tímanum í tilgangslaust tuð á Facebook, rífa þig upp á rassgatinu og sjá og heyra skemmtilega og hrífandi list. Skiptir ekki máli hvað það er eiginlega. Fólk er meira en kindur. Rollur fara ekki í bíó en bændur á svokallaðri vonarvöl ættu að gera það. Netflix? Næst það ekki í Skagafirði?

Nú er að renna upp hið árlega bíóhaust. Með leyfi fundarstjóra:

hronnmarRIFF kvikmyndahátíðin byrjar á morgun. Slefandi æðisleg veisla til 8. Október. Dagskráin er hér og bara go for it. https://riff.is/dagskra/kvikmyndir-og-vidburdir/ Miðasalan er hér. https://riff.is/um-riff/midasala/ Fólk yfir 90 í greind ætti að geta klórað sig út úr þessu, enda getur fólk undir 90 bara farið áfram á Superman (reyndar æðisleg skemmtun þessi nýjasta).

Hef sjálfur ekki fullskipulagt mig en nú hef ég tíma, enda ekki fastur í að bera kassa einhversstaðar á milli 09:00-18:00. Myndir sem mér sýnast vera möst: Tom of Finland / Borg vs. McEnroe / Stöff eftir Aki og Maki Kaurismaki / Stöff eftir einn heiðursgestinn, sjálfan Werner Herzog / Rock n Rollers (með krökkunum) og svo framvegis.

Sjálfur er ég víst í viðtali í myndinni Atlantis, Iceland eftir ástralska vini mína. Ég neyðist til að sjá undirhökuna á mér í þeirri mynd. Og svo er örugglega margt fleira fyndið og áhugavert en undirhakan á mér í þessari mynd.

Það skiptir eiginlega ekki máli hvað maður sér, í hvaða sal maður vafrar inn á – maður kemur alltaf betri maður út og jafnvel með einhverjar nýjar og ferskar pælingar. Þetta er ekki bara bíó, þetta er líka hugveita. Ég er að detta í gírinn og nú verður tekið á því. Takk Hrönn Marínósdóttir fyrir að nenna þessu í öll þessi ár! Þrátt fyrir þetta vanalega, fjárhagsáhyggjur og betl, af því það þarf að nota peningana í lambakjöt og landkynningu, bjarga einhverju Sjalladrasli á Suðurnesjum (Steingrímur Joð) og svo moðerfokking framvegis. En munum samt að vonin er það síðasta sem deyr. (Sjá t.d. http://www.imdb.com/title/tt0118799/)

Ef þú vilt svo drulla þér af Facebook strax í kvöld (eða seinna) þá eru það THE SQUARE í Bíóparadís og UNDIR TRÉNU sem þú átt að fjölmenna á með undirhökuna, þín andlegu og líkamlegu mein, æxlunarfærin, heilann á þér og allt heila klabbið.

Allt hér að ofan gildir líka fyrir þau ykkar sem teljið ykkur vera alheilbrigð. Þið eruð hættulegasta liðið, oftast svo kallaðir siðblindingjar, sem er víst staðreynd að er til (á eftir að gúggla). Kjósendur hljóta að vita við hverja er átt.

Kaffið mitt

2 Jún

Ég hef verið í tilraunastarfssemi að undanförnu. Ég er að leita að hinu fullkomna kaffi til að koma mér í stuð á morgnanna. Ég laga mér ilmandi blöndu í mokkakönnu á hellu, en þetta heitir víst ekki espresso-kanna, eins og sumir halda, eða það sagði mér allavega þrautþjálfaður kaffi-bartista á Kaffitári. Espresso verður ekki til úr svona könnu.

Áður en lengra er haldið skulum við hlusta á Gunnar Jökul, SEM VAR FRÁBÆR TROMMARI, flytja lagið Kaffið mitt af plötunni Hamfarir.

2015-04-20 14.11.41
Bassaleikari OMAM, Kristján Páll Kristjánsson, mælti með David Lynch kaffinu við mig, en það hafði hann drukkið í fermetravís í einhverju hljóðveri í LA. Ekkert stoppar mig í leit minni að hinu fullkomna kaffi svo ég pantaði poka frá London og borgaði sirka 7þ fyrir einn skitinn baunapoka (helvítis póstburðargjöld alltaf hreint). David Lynch er einn af mínum átrúnaðargoðum svo jæja. Hann fer þá kannaski að drullast til að gera eitthvað annað en falla í hugleiðslumók oft á dag. Nú jæja, kaffið var allt í lagi, en ég var alltaf að hugsa um sjöþúsundkallinn svo ég naut þess ekki í botn. Allt í allt var kaffið og lífsreynslan upp á 3/5.


2015-05-11 04.30.08
Cafe Bustelo fékk góð meðmæli á Facebook frá fólki sem býr í USA. Það fæst í Kosti og kostar ekki nema rúmlega 700 kall pokinn. Þetta er kikk-ass-kaffi og bísna gott upp á 4/5.

2015-04-30 07.33.49
Drakk Bob Marley mikið kaffi? Veit það ekki. Það er að minnsta kosti til 3 tegundir af Marley kaffi í Melabúðinni og ég keypti eina, Marley Coffee Lively Up! Kostar svona 1300 kall og er ágætt. Ekkert sem minnir á Bob Marley samt. Ætti ekki að vera hampur í slíku kaffi? 3/5.

2015-05-11 02.45.36
Botninn. Dunkin’ Donuts keðjur eiga víst að koma hingað með sitt drasl. Aldrei fer maður inn í þessar sjoppur í útlöndum, en ég gat samt ekki á mér setið og keypti Dunkin’ Donuts Hazelnut kaffi í Hagkaupum á rúmlega 1300 kall. Lytkin er rosa góð sniffi maður oní pokann en allt annað er viðbjóður, bæði bragð og eftirbragð. Það er svona eiturefna-slikja á þessu, maður finnur beinlínis fyrir aukaviðbjóðinum sem svona skítakeðjur blanda í kaffið, líklega til að heilaþvo mann til kapítalisma. En… lyktin lofar góðu svo ég sniffa bara pokann en drekk ekki kaffið – eða blanda einni skeið af þessu út í eitthvað annað. 1/5 (fyrir lyktina).

2015-05-18 06.05.30
Íslendingum finnst Starbucks eftirsóknarvert af því við getum ekki keypt það hér í Starbucks-búðum. Samt fæst kaffið sjálft í Kosti og víðar. House-kaffið á tæplega 1000 kall pokinn er nokkuð solidd upp á alveg 4/5.

2015-05-18 07.53.13
Reykjavík Roasters er kaffihús á móti sjoppunni Drekanum. Keypti þennan foxdýra poka (1800 kall?) af Jesús María eftir að hafa fengið fínan latté þarna inni. Jesús María er þó ekki neitt sérstakt, reyndar bara frekar bragðvont og kraftlaust. 2/5.

2015-05-18 06.05.41
Í Kosti kostar dós af svona Folgers alþýðukaffi um 1000 kall. Þetta er eflaust eitthvað eiturbras en alveg rúmlega la la upp á 3/5.

2015-06-01 08.01.53
Kaffitár er vandað merki með allskonar kaffi. Lufsan fékk þennan poka af Kenía Zahabu að gjöf (svo ég veit ekki hvað pokinn kostar) og er þetta solidd og fínt kaffi upp á 4/5.

2015-06-01 08.02.09
Lavazza Tierra! er kröftugt kaffi frá hinu ítalska stórveldi. Dósin á um 1000 kall. Hið fínasta kikk-ass-kaffi upp á 4/5.

2015-06-02 02.33.26
Rúsínan í kaffiendanum er svo líklega besta kaffi í heimi, Highlander Grogg frá Caffe Ibis. Vinur minn frá útlöndum sendir mér þetta stundum, en hann er frá Utah eins og kaffið. Það kemur frá Logan, Utah. Blandan er leyndó en lyktin er unaðsleg og bragðið eftir því. Kaffinu er lýst svona á heimasíðunni: „A sophisticated liquor flavored coffee, reminiscent of the Scottish Highlands, that does well all year long.“ Ummm, hvílíkur eðall. 5/5 að sjálfssögðu.

Tælenskur þari og smokkfiskur

15 Des

Dai Phat Asian Supermarket, Faxafeni 14, í sama húsi og Bónus, bara hinum megin, er dúndur Asíu-búð. Þar var ég áðan og gerði góð kaup á snakk-þara.
2014-12-15 16.24.39
Hér er tempura seaweed frá tælenska Tao Kae Noi fyrirtækinu. Þetta er eiginlega venjulegast á bragðið, maður finnur eiginlega ekkert þarabragð, bara djúpsteikt  tempura bragð, sem er mjög snakkað – ellegar snakkískt – bragð.

2014-12-15 16.27.46
Hér er wasabi bragð frá Tao Kae Noi og eins og sést á karlinum á pokanum sem grettir sig ægilega er þetta svaka sterkt. Mjög gott þar að auki ef maður fílar wasabi.

2014-12-15 16.26.15
Hér er þari með krabbabragði frá Khum Film, sem er líka tælenskt. Þetta er sætt á bragðið og ágætt.

2014-12-15 16.23.00
Hér er þurrkað smokkfiskasnakk frá Bento, einnig tælenskt. Þetta er „sweet og spicy“ og svo sannarlega sætt og sterkt. Maður er enn logandi. Gott mál.

Alltaf frábærlega skemmtilegt að kaupa í svona etnískum búðum og smakka eitthvað öðruvísi en þennan endalausa Haga-mat sem maður er á.

Bæjarins besta í öðrum löndum

25 Nóv

2014-11-23 13.03.02
Þegar við Elísabet fengum okkur síðast pulsur á Bæjarins beztu varð mér hugsað til þess að erlendar borgir eiga líka sinn lókal skyndibita. Það er búið að koma því inn hjá ferðamönnum (réttilega) að þeir verði að smakka Bæjarins bestu pulsurnar hér, og í útlöndum er líka svona „verða að fá sér“ skyndibitar í mörgum borgum.

Pats-Kind-of-Steak
Mér dettur nú strax í hug Philly cheesesteak sandwich frá Fíladelfíu, en svipaðar samloku má fá víðsvegar. Samlokan er upprunnin hjá Pat’s King of Steaks, en á móti Pat’s spratt upp samkeppnisaðilinn Geno’s. Þar telur eigandinn sig vera þann sem fyrstum datt það snjallræði í hug að setja ost á samlokuna. Í dag eru biðraðir alla daga við þessa staði. Við átum á Pat’s, og þetta var ágætt ef maður setti bara nógu mikið af hressandi chilipipar í frekar bragðlausa lokuna.

02297808
Í Montreal er alltaf röð við samlokustaðinn Schwartz. Þeir eru með pastrami samlokur, alveg ágætar, en svipað og betra finnst mér vera hjá Katz í New York. Þar er vissulega alltaf brjálað að gera, en varla eru þó Katz samlokur „bæjarins bestu“ New York. Ætli pítsur eða svona saltkringlur sé ekki meira þeirra þing.

cGTQeEIRur3P_faby-t1iR640x480
Upprunalegu Buffalo-vængirnir koma frá staðnum Anchorbar í bænum Buffalo, NY. Þangað hef ég aldrei komið. Það eru reyndar sagðar mismunandi sögur um uppruna Buffalo vængjanna, eins og gengur.

Svona má áfram telja. Gaman væri að heyra þína útgáfu af „bæjarins besta“ á öðrum stöðum. Það er helsta skilyrðið að það sé alltaf biðröð við staðinn sem er að selja matinn. Sjálfur er ég orðinn glorhungraður að skrifa þetta og ætla næst að gúggla How to make an omelette.

Ekki kaupa mat af Satani

9 Okt

arnalaktos
Nú virðist geysa einskonar andóf í mjólkurkælunum því einhverjum hluta almennings er misboðið. Vörur frá MS og Emmess-ís eru frá satanískum fákeppnisræflum og enginn með snefil af sjálfsvirðingu kaupir af þeim. Í staðinn eru öndergránd merkin Arna, Bíóbú, Kjörís og Kú komin í tísku og fólk snýr öllu við í kælunum til að sparka í helvítis Framsókn og Mjólkurmafíuna.

Fyrst fólk er orðið svona meðvitað er kannski í lagi að hugsa út fyrir landssteinana. Mjólkurmafían er nú kannski bara kósí við hliðina á snarviðbjóðslegum erlendum súperfyrirtækjum eins og Nestlé, Monsanto og Chiquita. Já þegar þú færð þér Chiquita banana ertu óbeint að styðja menn sem ætluðu að kála mannvininum Hugo Chavez.

Það er sem sé vandlifað. Eru skórnir þínir af pyntuðum nautgrip? Lést einhver við vinnslu kaffibollans þíns?

Tja, allavega gott að byrja á að svelta MS en svo er það bara sjálfsþurftarbúskapur og Frú Lauga, æ gess.

lffe6

Öndergránd mjólk

25 Sep

Það er alltaf sama sagan. Græðgi, ósanngirni, samráð og plott. Menn að hittast í Öskjuhlíð, skrifandi tölvupósta – eyðið að lestri loknum – ó ég gleymdi broskallinum. Vitleysingar með bindi að safnast saman og plotta plott – ekki með samfélagsleg markmið að leiðarljósi eða almannahag heldur hvernig þeir geti mokað sem mest undir terlínklædd rassgötin á sjálfum sér.

Geisp. Svo hvað annað er nýtt? Ekki neitt. Bankadrasl, geðveikislega massíft bankadrasl sem sér ekki fyrir endann á, grænmetisdrasl, bensíndrasl og nú mjólkurdrasl. Svo kemur þetta með bindin og rífur kjaft við Helga Seljan eða segir eins og Georg Bjarnfreðarson: Þetta er misskilingur. Og við förum náttúrlega og kaupum af þessu liði af því það er ekkert annað í boði, eða allavega ekkert sem við nennum að eltast við. Spilling er vond, tuðum við, nema þegar spillingin rennur í minn vasa, þá er hún ok. Láttu mig þekkja það.

Er ekki MS og KEA það sama? Því verður ekki neitað að þetta eru ágætis framleiðendur en það er ekki bindaköllunum að þakka heldur starfsmönnum á plani, harðduglegum mjólkurfræðingum og ostagerðarmönnum. Grísk jógúrt hjá MS og Vanilluskyr frá KEA er alltaf í ísskápnum. Svarti Maruud brauðosturinn er bestur oná brauð.

2014-09-23 18.33.03
Talandi um ost þá fór ég á stórskemmtilegt og fræðandi – og ljúffengt! – ostanámskeið hjá henni Eirnýju í Búrinu. Mæli með því, hreinlega frábært.

Ég hef reyndar verið að temja mér öndergránd innkaup á mjólkurvörum. Ég hef áður minnst á ÖRNU á Bolungarvík. Eðalstöff sem kemur þaðan, ekki láta þetta „laktósafrítt“ hafa áhrif á ykkur, skyrið þeirra og rjóminn eru hreinn unaður. Svo er það Bíóbú. Þaðan kaupi ég hina frábæru jógúrt með kókos. Dós af því í boostið er eðall. Nýlega hef ég svo byrjað að kaupa lífrænu mjólkina frá þeim. Algjör eðall, feit og góð, en helmingi dýrari en önnur mjólk svo krakkarnir fá bara MS. Það getur svo sem vel verið að MS mafían sé með fituga puttana í þessu öllu saman, hvað veit ég. Ég er bara eins og beljurnar sem standa nauðugar viljugar í sínum básum og láta mjólka mig.

ps. Mun nokkur hætta að versla við þrælakistuna Amazon þótt vinnuaðstaðan sé helvíti á jörð eins og sást í heimildarþætti sem Rúv sýndi nýlega?

Ég fíla þara

26 Ágú

2014-08-19 17.29.36
Nú er svo komið að ég á þrjár tegundir af þara í skápunum, enda er fíla ég þara í botn. Þari er ekki bara góður heldur er hann hollur líka og frekar kaloríusnauður. Kirkland roasted seaweed kostar 199 kr í Kosti og er fínn, fremur hlutlaus á bragðið en þó með fínu fjörubragði. Asian Megamarket í Faxafeni er orðin helvíti fín búð, full af stöffi. Þar fann ég tvær tegundir af þara, eina með chili (ekki alveg að gera sig) og svo „Extra sheet“ sem er stærsta þynnan, og svaka fín á bragðið. Þessu til viðbótar á ég íslensk söl í poka. Alveg frábærar hægðir sem maður fær af því, en lyktin er frekar, ö, sérstök.

Mér lýst ágætlega á Nútímann, nýjan vefmiðil sem söngvari Haltrar hóru hefur sett í loftið. Það vantar alveg einhvern afgerandi stað á internetið þar sem maður fær það ferskasta og hressasta á einum stað. Þetta gæti orðið það.

Bolvískar krásir

5 Ágú

2014-08-04 19.03.08
Í Bolungarvík eru ekki bara óðir menn sem tæta niður gömul hús sem fara í taugarnar á þeim. (Nú er verið að laga skemmdirnar). Þar er besta sundlaug Vestfjarða með hið undursamlega sauna-bað og akkúrat mátulega stilltan pott. Þar er líka veitingastaðurinn Einarshús þar sem ég fékk „bolvískt skyr með bláberjum“, eitthvað magnaðasta skyr sem ég hef fengið. Svo uppveðraður var ég af skyrinu að ég fór beint í Bjarnabúð til að kaupa vörurnar frá mjólkurframleiðslufyrirtækinu Örnu, sem er einmitt staðsett beint á móti. Bjarnabúð er með elstu búðum landsins, stofnuð 1925 og því a.m.k. sex árum yngri en Verslun H. Júlíussonar á Sauðárkróki, sem var stofnuð 1919.

Rjóminn og óhrærða skyrið frá Örnu eru hreinlega til að láta lífið fyrir. Rjóminn sætur og mátulega feitur, skyrið „flöffí“ og sætt svo það þarf ekki að sæta það svo mjög. Alveg dúndurgott stöff sem fer kannski framhjá neytendum því þessar vörur eru eiginlega kynntar til leiks eins og apótekaravörur. Óspennandi umbúðirnar minna á pillupakka og hin mikla áhersla á „laktósafrítt“ tekur athyglina af því hversu bragðgott þetta stöff er. Ég hélt hreinlega að þetta væru aðallega vörur fyrir einhverja mjólkuróþols-sjúklinga.

Almennt eru ekki komin bláber ennþá, þótt finna megi hlussur sé vel leitað. Í staðinn fengum við okkur jarðarber með skyrinu og engin venjuleg jarðarber heldur bestu jarðarber sem ég hef smakkað. Þau rækta ungur hugsjónamaður í gróðurhúsi í Bolungarvík, Róbert Gunnarsson, og annar ekki eftirspurn. Þetta eru sjúklega organísk ber og beint af plöntunni svo ferskara verður það varla. Alltaf gaman af mönnum sem hugsa út fyrir (fiski)kassann.

Besti harðfiskur landsins

4 Ágú

2014-08-04 10.27.49
Harðfiskur er bæði æðislegur og rándýr og því um að gera að vanda valið. Eftir áralanga gæðakönnun hef ég komist að þeirri niðurstöðu að harðfiskurinn frá Finnboga á Ísafirði sé besti harðfiskur landsins – hreinasta dýrð. Hann selur steinbít og ýsu á nokkrum stöðum í Rvk, t.d. Deplu í Kolaportinu og í fiskbúðinni Sundlaugavegi. Best er þó að mæta í verksmiðjuna sjálfa á Ísafjarðarbryggju. Þar er kílóið selt á 6.500 kr, sem er sparnaður.

Aldrei hef ég smakkað annan harðfisk en steinbít og ýsu. Ætli sé ekki hægt að gera harðfisk úr öðrum tegundum, eða er kannski ekkert varið í rauðmaga-harðfisk, karfa-harðfisk eða skötusels-harðfisk? Eða hreinlega þurrkaðan humar?

2014-01-04 12.09.10
Í flokki bitafisks er Sporður hf. á Eskifirði með langbesta stöffið. Ýsan er góð en steinbíturinn algjörlega geðsturlaður. Því miður er frekar erfitt að nálgast þessar vörur, sérstaklega er mjög sjaldan að maður finni hinn sturlaða steinbít. Helst hef ég fundið þetta í N1-búðum. Þess má geta að Sporður fann upp bitafiskinn, svo það er kannski ekkert skrýtið að hann sé bestur. Sumt af öðrum bitafisk sem er í boði er svo mikið drasl að maður heldur helst að gleymst hafi að merkja pokann „Fyrir gæludýr“.

Úldið (Myglað) í Nóatúni

18 Júl

2014-07-18 12.42.39
Ég er svaka sólginn í svona kleinuhringja-ferskjur (eða hvað þetta heitir). Þetta er árstíðarbundin vara eins og kirsuberin (annað uppáhald) og bara til í 1-2 mánuði á sumrin. Framvegis mun ég þó muna að kaupa þetta ekki í forpökkuðum umbúðum heldur þukla hvern ávöxt í lausu. Það er fáránlega svekkjandi eftir að hafa étið 2 ferskur (sem voru frekar vondar) að restin sé orðin svona daginn eftir að maður kaupir þetta. Nóatún bauð upp á þennan viðbjóð. Líklega best að hætta bara að eiga viðskipti við Nóatún – rándýr búð og léleg.