Sarpur | september, 2015

Amma Oddný – 125 ára

30 Sep

ammaoddný
Þessi glæsilega unga kona er hún Oddný amma mín. Svona er hennar getið í Íslendingabók:

Oddný Sigurrós Sigurðardóttir
Fædd á Sæbóli, Mýrarhr., Snæf. 30. september 1890
Látin á Akureyri 15. janúar 1984

Ef menn væru risaskjaldbökur væri hún sem sé að halda upp á 125 ára afmælið sitt í dag.

Amma Oddný var röggsöm og ákveðin. Varð hundfúl ef maður vann hana í rommý og stóð stundum út í glugga og kallaði nágrannana aumingja. Það var samt ekkert í illu, held ég, meira svona „blessaður auminginn hann Steinþór – ætlar hann aldrei að gera við bílinn?“

Þess má geta að Oddný Sigurrós Hjálmarsdóttir, systir mín, á líka afmæli í dag. Þær amma eru ekki bara nöfnur með sama afmælisdag, heldur þykja þær einnig mjög líkar. Þegar ég sýndi krökkunum mínum myndina af ömmu voru þau viss um að þetta væri Oddný frænka þeirra (en ekki langamma). Svona er nú DNA-ið skemmtilegt fyrirbæri.

Dr. Gunni í sjoppu – forsala

28 Sep

drge27
Sú staðreynd er yfirvofandi að ég verði fimmtugur. Ekki hafa áhyggjur af mér, ég er þegar búinn að ljúga að sjálfum mér að þetta sé ekkert mál, og að það sé um sjötugt sem fyrst fari eitthvað að bera á ellihrumleika. Til að halda upp á þetta tölulega tákn kemur út platan Dr. Gunni í sjoppu á afmælisdaginn, 7. október. Platan er tíu tommu vinýl-hljómplata í vönduðu litprentuðu umslagi. Aðeins verða búin til FIMMTÍU EINTÖK og verða þau tölusett og árituð af höfundi. Verð á stykkinu er 5000 kall, sem er náttúrlega ekkert okur þegar haft er í huga hvað kostar að búa til svona fá eintök. 

Það eru tíu lög á plötunni:

HLIÐ A:
01 1$ (með óþekktum götusala í New York!)
02 ROKK! (Sigga Beinteins syngur!)
03 HEIÐA DÖGG (Þorsteinn Eggertsson gerði textann!)
04 BAUGUR MÓNAKÓ PARTÍ
05 STÍF-STEF-STEFÁN (Videósílin flytja!)

HLIÐ B:
01 HESTAR
02 ROLLUR
03 GÚMMÍÖND (Dj. Flugvél og geimskip syngur og útsetur lagið!)
04 SJÖUNDI OKTÓBER
05 NEW YORK BORG KL. 4 UM NÓTT (Shady Owens syngur!)

(Uppfært 29. sept) PLATAN ER UPPSELD!!!

Hér er platan þjöppuð niður í eina mínútu til að gefa smjörþefinn:

Kitlað fyrir popp

23 Sep

Þetta er kitla fyrir POPP OG ROKKSÖGU ÍSLANDS. Fyrsti þáttur fer í loftið nk. sunnudagskvöld. Samtals verða þættirnir 10, 5 sýndir núna og fimm eftir áramót.

Sagan er rakin í tímaröð svo í fyrsta þættinum er sagan sögð fram að rokki, 1956.

1. þáttur – Frá landnámi til rokkaldar
Í fyrsta þætti er ljósi varpað á fyrstu hænuskref íslenska poppsins. Á fyrri hluta síðustu aldar voru það ýmsir harmóníkuspilandi stuðboltar sem héldu uppi stuðinu á böllum um land allt, á meðan erlendir hljómsveitarstjórar stjórnuðu stórsveitum á fínustu veitingastöðum höfuðborgarinnar. Hersetan var glóðvolg innspýting og efldi dægurtónlistaráhugann og djassinn bjó til tónlistarnördið. Eftir að Kristján Kristjánsson og Svavar Gests snéru frá námi í New York og stofnuðu KK Sextett varð til fyrsta „prófessional“ dægursveit landsins, sem var helsta sveit landsins allan 6. áratuginn.

Íslensk poppútgáfa á plötum hafði verið hverfandi þar til upp úr 1950, þegar eftirspurn eftir íslensku poppi varð til þess að fjöldi laga kom út, bæði frumsamin íslensk lög og erlend lög með íslenskum textum. Ýmsir söngvarar urðu þekktir á þessum tíma og fyrstu poppstjörnur þjóðarinnar urðu til, fólk eins og Haukur, Raggi, Ellý og Helena, Adda Örnólfs, Alfreð Clausen og margir fleiri. Þessi fyrstu poppskref lágu í láginni þar til Björk Guðmundsdóttir söng mörg þessara laga inn á plötuna Gling Gló. Síðan þá hefur þessi tónlist lifað góðu lífi með þjóðinni, enda saklaus, sjarmerandi og á auðvelt með að vekja upp nostalgískar kenndir hjá landsmönnum.

Er eitthvað að frétta af mér?

16 Sep

Er eitthvað að frétta af mér? spurði Jóhannes grínari þegar hann hitti menn. Leiðinlegt að Jóhannes missti af Facebook.

Það sem er helst að frétta af mér, (mér sem sagt, ekki Jóhannesi, hann er látinn), er að ég ætla að gefa út plötu á afmælisdaginn minn, 7. október. Platan verður gefin út í aðeins 50 tölusettum og árituðum eint0kum og verður tíu tommu hljómplata með 10 lögum og gestum á borð við Siggu Beinteins, Shady Owens og Steinunni Dj. Flugvél! 

Svo á loksins að fara að sýna á RÚV heimildarþættina Popp og rokksaga Íslands. Fyrsti þáttur á sunnudagskvöldið 27. september!

Hér er ég í viðtali við Albúmm að ræða þessi mál, en svo á ég náttúrlega eftir að plögga þetta vilt og galið hér á blogginu.

Fræbbblarnir gefa út!

15 Sep

Kopavogsbio-Fraebbblarnir-1981
Hvað ef… Hvað ef ég hefði ekki séð Fræbbblana í Kópavogsbíói 1979? Ef Fræbbblarnir hefðu aldrei verið til og ég aldrei séð þá? Þá væri ég kannski á Kvíabryggju í dag en með feitan sjóð á Tortóla í staðinn fyrir að vera það sem ég er.

Uss nei, það þýðir ekkert að segja svona og í raun þoli ég ekki svona „hvað ef“ pælingar. Það sem er, það er, og fáránlegt að velta sér upp úr einhverju öðru!

Fræbbblarnir höfðu sem sé víðtæk áhrif á líf mitt, held ég allavega. Ég sá að þetta var hægt, að standa á sviði og spila sína eigin tónlist. Og nú, 37 árum eftir að þeir spældu Ingólf heitinn skólameistara í MK á Myrkramessu, hafa þeir gefið út nýja plötu, Í HNOTSKURN, sem er bara nokkuð ern miðað við aldur og fyrri störf. Hana má kaupa nákvæmlega hér!

Og áfram er gefið út…

10 Sep

2015-08-13 14.43.12
Þrassmetalbandið góðkunna Bootlegs átti sinn fegursta fífil um 1990, en það er engin leið að hætta og því er komin út ný plata, sú þriðja: EKKI FYRIR VIÐKVÆMA (nakinn Frikki pönk á framhlið). Bassaleikarinn Inigmundur Elli kom með plötu (cd sko) sem ég rippaði á símann og fór með í ræktina. Þetta virkar fínt á rassastækkunarvélinni. Kraftmikið og ögrandi og textar beinskeittir og rífandi kjaft. Helv fínt bara! Nú skulum við hlusta á lagið Kúkurpissogæl, sem er alveg brjálað.
BOOTLEGS – KÚKURPISSOGÆL

SVAVAR KNÚTUR er að fara að koma með nýja plötu , BROT. Titillagið er hér að ofan og hljómar nú á „öldum ljósvakans“. Það vinnur vel á og gaman er að Svavar sé nú að nota heilt band í tónsköpuninni og er orðinn meira rokkpoppaður en áður.

Nýlega kom út platan Mixophrygian með samnefndri „hljómsveit“, sem þó er í raun hann Daði Freyr Pétursson. Daði er í hljómsveitinni RetRoBot (sigurvegarar Músíktilrauna 2012) en stundar nú nám í DBs Music í Berlín. Hann segir um hina fínu plötu sína: „Platan er einskonar synthapopp plata þar sem ég sem, útset, spila, syng, tek upp og mixa lögin sjálfur, ásamt því að fá gesti með mér í nokkur lög, tvær söngkonur (Arna Lára í laginu „Forever“ og Sigrún Birna í laginu „Two Of A Kind“), saxófónleikara (Phillip Carlsson í laginu „Disconnected“) og trompetleikara (Vale Schwarzbeck í laginu „Into Silence“) . Magnús Øder sá svo um að mastera.
Platan inniheldur 14 lög sem saman mynda sögu um mann sem öðlast þekkingu á alheiminum, vitund hans klofnar í sundur svo hann hefur nú tvö höfuð á sama líkama og á sama tíma sendist hann yfir í aðra vídd. Þar finnur hann ástina sem hann getur ekki deilt með sjálfum sér svo hann finnur leið til að breyta sér í tvær manneskjur, hvor með sinn eigin líkama. Þegar ástin getur ekki sætt sig við bara annan þeirra ákveða þeir að smíða geimfar og flýja þennan heim til að byrja upp á nýtt á öðrum stað.“

Það er nebbblega það. Plötuna má streyma hér.

a3481154838_16
Plötuna Korriró sem hljómsveitin MÓGIL gaf út 12. ágúst, má streyma hér. Úr fréttatilkynningu: Mógil skapar einstakan hljóðheim og vefur saman klassík, Þjóðlagatónlist og djass. Textar hljómsveitarinnar eru innblásnir af þjóðsögum og náttúru. 
Meðlimir Mógils eru Heiða Árnadóttir söngur, Hilmar Jensson gítar, Kristín Þóra Haraldsdóttir viola, Eiríkur Orri Ólafsson trompet og Joachim Badenhorst klarinett. 
Mógil hefur farið nokkrum sinnum í tónleikaferðalag um Ísland, Belgiu, Holland, Svíðþjóð og Danmörku og spilað á ýmsum tónlistarhátiðum m.a. á jazzhátið Reykjavíkur, Iceland Airwaves, Þjóðlaga hátiðinni á Siglufirði og WOMEX heimstónlistarhátiðinni.


Að lokum er það proggrokk frá Selfossi (!) The Roulette. „Teitur(gítar) og Skúli(trommur) hittust fyrst í lok 2013 með það í huga að stofna band og var stefnan fljótlega tekin í átt að progginu. Eftir aðeins örfáar æfingar var byrjað að taka upp 4 laga EP plötu (sem aldrei leit dagsins ljós). Eftir miklar mannabreytingar hóf sveitin upptökur á sinni fyrstu breiðskífu sem mun koma út seint 2015. Fyrsta lag af plötunni er komið á veraldarvefinn. Lagið sem ber nafnið Midnight Hours var tekið upp í Stúdíó Himnaríki og unnið af Stúdíó Hljómi.“