
Marta María Jónasdóttir, fréttastjóri dægurmála á mbl.is, er oft í fréttunum og á „milli tannanna“ á fólki. Hún svoleiðis hrannar inn klikkunum á Smartlandinu, sem nokkrum finnst ægileg síða sem eigi helst að loka. En hver er þessi Marta María eiginlega? Er ekki kominn tími til að einhver tali við hana?
Hver ertu, hvaðan kemurðu, hvert ferðu?
Ég er ósköp venjuleg 37 ára gömul móðir úr Árbænum sem stundar kraftlyftingar í frístundum og er að gefa út sína fyrstu matreiðslubók sem kemur út hjá Forlaginu í nóvember. Bókin geymir 116 uppskriftir fyrir upptekið fólk sem vill ekki ala börnin sín upp á skyndbitastöðum heldur kýs að elda frá grunni án þess að það taki óratíma. Hvert er ég að fara? Svona dagsdaglega keyri ég aðallega úr miðbænum, með viðkomu á Kaffifélaginu á Skólavörðustíg, og upp í Hádegismóa þar sem ég starfa. Þess á milli er ég í sundi eða á æfingu. Líf mitt er frekar einfalt og látlaust.
Er alkóhólismi sjúkdómur eða bara aumingjaskapur?
Alkahólismi sem slíkur er sjúkdómur en ég mæli eindregið með því að fólk drekki sem sjaldans þótt fólk glími ekki við áfengisvanda. Lífið verður einfaldlega svo miklu innihaldsríkara og betra þegar tappinn er í flöskunni.
Ég skil ekkert í þessu fótósjopp-máli sem fólk er að kjammsa á núna, svo mig langar frekar að spyrja þig – Skapar fegurðin hamingjuna?
Mikið væri nú gott ef fegurðin skapaði hamingjuna en hún gerir það því miður ekki enda er fegurð afstæð. Það sem einum finnst fallegt finnst öðrum ljótt. Mín reynsla er nú samt sú að lífið verður alltaf örllítið skárra þegar það er ekki allt í óreiðu í lífi okkar.
Líður þér ekki illa þegar fólk er að tala illa um þig? Eða forherðistu bara?
Ég heyri minnst af þessu sjálf, þar að segja illa umtalinu, en ég finn mjög vel fyrir velgengni Smartlands Mörtu Maríu. Daglega fæ ég ótal tölvupósta frá ánægðum lesendum og er yfirleitt stoppuð af fólki á förnum vegi sem þakkar mér fyrir skrifin. Synir mínir tveir eru stundum svolítið þreyttir á hvað fólk þarf mikið að tala við mig í matvörubúðinni.
Hvern myndirðu helst vilja taka viðtal við, af lífs og liðnum?
Ég myndi vilja taka viðtal við Jóhönnu Jóhannsdóttur eða Jógu eins og hún er kölluð. Þess má geta að eitt vinsælasta lag Bjarkar heitir í höfuðið á henni.
Og síðasta spurningin: Þú ert send á eyðieyju (mátt samt koma til baka eftir viku) og mátt taka eina plötu, eina bók og eina manneskju með – hvað velurðu?
Þetta er hryllilega erfið spurning. Ég yrði á fá undanþágu og fá að taka tvo með mér, syni mína því ekki get ég gert upp á milli þeirra. Að ferðast með þeim er eitt það skemmtilegasta sem ég geri. ABBA Gold yrði með í farteskinu og bók með auðum síðum svo ég gæti komið hugsunum mínum í orð og skrifað niður nýjar hugmyndir. Ef okkur leyddist hræðilega gætum við alltaf farið í myllu okkur til dægrastyttingar.