Sarpur | Menningarafurðir RSS feed for this section

Tvær möst sí bíómyndir

10 Sep

Í bíóhúsum Reykjavíkur eru nú um mundir tvær bíómyndir sem þú bara hreinlega verður að sjá. Byrjum á þeirri íslensku.

UNDIR TRÉNU ****
Haddi Gunni (Hafsteinn Gunnar Sigurðsson), sem gerði áður Á annan veg (2011) og París norðursins (2014) er leikstjóri myndarinnar og skrifaði handritið með Huldari Breiðfjörð. Allt hans stöff hefur verið gott en Undir trénu er samt lang best. Tré í garði er minnsta málið í þessari mynd heldur einskonar macguffin. Tvær fjölskyldur í raðhúsalengju í Reykjavík gætu þess vegna verið Suður og Norður Kórea – eða Ísrael og Palestína (samt eiginlega of mikið Golíat og Davíð dæmi í gangi þar) – og við sjáum hvað getur gerst þegar fólk stendur fast á sinni geðveiki, sama hvað. Edda Björgvins (gaman leikari) vinnur stórfenglegan leiksigur, ég man bara hreinlega ekki eftir öðru eins áður í íslenskri mynd. Hún fær Edduna næst og gott ef ekki Óskarinn líka (mín spá – ég er samt hvorki í Eddu né Óskarsnefninni). Allir leikarar eru einnig hreinlega stórkostlegir. Meistari Steindi (gaman leikari), Siggi Sigurjóns (gaman leikari) og Þorsteinn Bachman (gaman leikari) eru drulluþéttir og æðislegir – og öll hin líka. Tæknihliðin er pottþétt (ég sá allavega allt og heyrði meira að segja allt) og tónlist Daníels Bjarnasonar er fín (maður tók lítið eftir henni, sem er plús, og stundum skerpti hún á atburðum). Svo bara til hamingju öll með þetta þrekvirki og Haddi og kó eiga ennþá helling inni – því þetta er svo ungt lið. Mig langar aftur á Undir trénu. 

THE SQUARE ***** (samt bara hægt að fá **** mest)
Eins og komið hefur fram er Svíþjóð það fólksmengi þar sem allt hefur best verið gert, allavega mv núgildandi heimildir sagnfræðinga. Þaðan kemur Ruben Östlund, leikstjóri myndarinnar og helsti heilinn að baki hennar. Bergur Ebbi lýsti myndinni svona (án þess að hafa séð hana, hafði bara mín orð fyrir því): „Ha, eitthvað skandinavískt Fight Club, samt meira posh – dýrka svona“ – og það er það sem þessi mynd er. Jafn góð og áhrifamikil (áhrifameiri samt) og Fight Club. Og auðvitað meira Ikea en Fight Club (sem þó hafði mjög sterka Ikea senu).
The Square (auðvitað þýðir titillinn að það þarf að „hugsa út fyrir kassann“ til að leysa yfirþyrmandi vandamál heimsins) er svo ógeðslega fyndinn að jafnvel Luis Bunuel er nú að snúa sér við í gröfinni (note to self: Tékka á því hvar sá meistari er jarðaður). „Ógeðslega“ fyndin af því að allt er fyndið í henni, jafnvel það sem má ekki vera fyndið.
Rammi myndarinnar er listaheimurinn, svo kallaði, sem í alvöru löndum (ekki Íslandi sem sé) er múltíbilljón bisness og snobbið og ruglið eins og eitthvað úr höll Lúðvíks í Versölum. Þó listamenn á Íslandi séu alltaf skítblankir og árlega niðurlægðir af undir 90 í greindarprófum (af því fávitar mega líka vera í tölvum), þá er það allavega gott að hér snobba fáir fyrir þessu, ef undan eru skilin nokkur grey sem telja sig tilheyra bransanum.
Ef bara eitt kemur út úr þessari mynd (annað en hugsunarbylting á alheimsskala) þá væri gott ef það væri það að svokölluð innsetningar-list væri hér eftir hlegin út af borðinu og fengi ekki krónu úr vösum almennings sem hefur ekkert að gera við málningadósir í horni og drasl á gólfi heldur vill bara (eðlilega) eitthvað sem það skilur og fílar (eins og t.d. Ragnar Kartansson).
Öfugt við Undir trénu er Kassinn fullur af von, ef bara fólk nennir aðeins að vera minni fávitar, eða zombís vanans og kapítalismans. Hér á landi hefðu t.d. nasistar og vondir Sjálfsstæðismenn gott af þessari mynd, þótt það þurfi líklega meiri djúphreinsun á sálarlífi þess fólks – jafnvel sérhannaða meðferð í Heilsuhælinu í Hveragerði. Það hlýtur að vera til fyrir því úr Ríkissjóði því ef einhver á auðvelt með að fá fjárstuðning úr svokölluðum sameiginlegum sjóðum, þá er það einmitt liðið sem vinnur við að dæla úr þessum sjóðum – á okkar kostnað. Prove me wrong. Hver á flottasta ráðherrabílinn núna?
Sem sé: The Square er besta mynd sem ég hef séð – allavega á þessari öld! – og engin spurning að þú kæri lesandi átt að drulla þér á hana í bíó strax í dag. Hún er sýnd hjá fólkinu í Bíó Paradís (áður Regnboginn) og ég lofa þér hlátursköstum og nýrri sýn á tilveruna. Ég ætla samt ekki að endurgreiða þér persónulega ef þú a. Skilur ekki myndina, b. Finnst hún ekkert skemmtileg. Kannski best að þú takir hágæða greindarpróf ef þú ert eitthvað tvístígandi (eða óharnaður unglingur sem villtist hérna inn að leita að Prumpulaginu). Allt undir 90 er bara Fast & The Furious 19 en hinum ætti að vera óhætt.

 

   

Fullur jákvæðni

18 Nóv

Skemmtilegra er að tala um eitthvað gott en eitthvað lélegt. Ég er til dæmis að fara á GIMME DANGER, nýja heimildarmynd um Iggy Pop & The Stooges í kvöld, og á ekki von á öðru en að hún sé fín. Um daginn fór ég á EIGHT DAYS A WEEK, sem er ljómandi góð heimildarmynd um tónleikaferðir Bítlana. Svo hef ég verið að horfa á WESTWORLD, sem er frábær ný sjónvarpsþáttaröð um kabbojavélmenni. Þar er ef til vill velt upp spurningunni Hvað er mennskan? 

Íslenskir fjölmiðlar eru fullir af skemmtilegu, leiti maður bara. Rás 1, Gufan, er best. Þar er til dæmis LESTIN sem Anna Gyða og Eiríkur sjá um á hverjum degi. Þeim er ekkert óviðkomandi í „menningarlífinu“ og Anna tók t.d. viðtal við LEONCIE í fyrradag, sem var að sjálfssögðu skemmtilegt, enda prinsessan í ham um þessar mundir og um það bil að fara að kveðja þetta eymdarsker með stórtónleikum. LESTIN er á dagskrá á hverjum degi og alltaf skemmtileg. Vera Illugadóttir er með súpergóða þætti, Í LJÓSI SÖGUNNAR, einu sinni í viku. Alltaf fræðandi og skemmtilegt, þátturinn um smáeyjuna NÁRÚ, var t.d. alveg frábær. Saga Nárú er eins og kaldhæðnislegur harmleikur og algjört víti til varnaðar. HARMAGEDDON Frosta og Mána er langbesta froðusnakkið í dag og engin froða og varla snakk heldur. Hlusta alltaf ef ég get.

Um helgina hyggst ég heimsækja verslunina AfroZone, sem er afrísk kjörbúð í Lóuhólum. Ég mun þar komast til svörtustu Afríku og eflaust kaupa eitthvað sem ég veit ekkert hvað er, en mun ögra bragðlaukunum. Ég ætlaði að draga krakkana á Björk digital í Hörpu, en þau þverneita að koma með. Dabbi var settur í eitthvað tveggja tíma Bjarkar-prógramm í Hagaskóla og segir það leiðinlegustu tvo tímana í lífi sínu. Uppáhaldshljómsveitin hans heitir 21 Pilots og uppáhaldsstöðin er FM957. Ég er bara ekkert að skipta mér að því.

ATVIK eftir viku

25 Okt

14852993_10211918872354098_4685345531448206367_o
Eftir viku opnar málverkasýning og plötuútgáfa mín, ATVIK, í hinu fornfræga MOKKA KAFFI. Ég sýni 18 akrílverk sem máluð eru á plötuumslög. Inn í málverkunum er 18 laga plata ATVIK sem kemur aðeins út í 18 eintökum og fylgir með myndunum. Sýningin er sjálfhverf og sýna myndirnar 18 atvik úr lífi mínu. Lögin eru flest ný (nokkur tökulög) og tengjast efni myndanna. Myndirnir/plöturnar eru til sölu á kr. 45.000 stk. 

OfurEðlilegheit

21 Okt

Hér er myndin sem „allir“ eru að tala um: HyperNormalisation eftir Adam Curtis. Ég skrölti í gegnum þessa næstum þriggja tíma yfirferð um atburði sem leitt hafa til þess ástands sem við erum í í dag. Það hefði nú alveg mátt skera myndina niður, en þetta er engu að síður nokkuð hryllileg lýsing á nútímanum – Við erum peð sitjandi fyrir framan spegla. Nú er ég snarlega hættur á Facebook. Nei, þá missi ég af „öllu“.

Hér er stutta útgáfan, sem er eiginlega sterkari.

Ógeðslegasta kvikmynd sögunnar

6 Sep

salo
Sé að Svartir sunnudagar ætla að sýna átta kolsvartar myndir í prógrammi sem er kallað Svartur september. Fyrsta myndin er Saló eftir ítalska meistarann Pier Paolo Pasolini. Ég sá þessa mynd þegar ég var í Lyon 1986 og kom út úr bíóinu sveittur og titrandi því þetta er svo mikið ógeð. Ég myndi jafnvel ganga svo langt að segja að þetta sé ógeðslegasta kvikmynd sögunnar. 

Myndin er byggð á skáldsögu Marquis De Sade, 120 dagar í Sódómu, en þessi Markí De Sade er sá sem orðið Sadismi er nefnt eftir. Myndin segir frá hópi ógeðslegra nasista sem fylla kastala af ungu fólki og leika sér svo að því að pynta og niðurlægja það. Það er borðhald þar sem veisluföng eru mannaskítur, allskonar ógeðsleg atriði sem sýnd eru í nærmynd og ef ég man þetta rétt er hápunktinum náð þegar nasistarnir skafa augun úr krökkunum með skeið.

Ég held ég láti það vera að endurtaka svitann og titringinn frá 1986, og bregð mér líklega frekar á Pink Flamingos meistara John Waters, sem er vissulega ógeðsleg en með frábærum húmor. Það er eitthvað mjög djúpt á húmornum í Saló, sem gerir hana líklega svona áhrifaríka. Og ógeðslega.

Krásir fyrir krakka

21 Des

2015-12-21 15.01.12
Nú eru krakkar komnir í jólafrí og foreldrar vonandi líka. Ég mæli með ferð í Norræna húsið, þeim frábæra stað. Nú, það má t.d. fá sér hádegisverð á Aalto bistro og síðan fara á frábæra sýningu Lóu Hjálmtýsdóttur, Jólaland. Þar er haugum af jólaskreytingum hrúgað saman í frábæra heild sem er „spúkí“ og „krípí“, svo vitnað sé í börnin, og algerlega frábær.

2015-12-21 15.01.40
Klukkan 12:34 hvern dag er svo óvænt atriði úr jóladagatalinu og til að kóróna daginn er 70 ár afmælissýning um Línu langsokk í bókasafninu. Allt ókeypis. Frábært stöff!
2015-12-21 15.13.05

White Saturday

28 Nóv

20151128_061806
Svona virkar þetta: Í fyrra voru bara örfáir með „Black Friday“. Í ár voru allir og hundurinn þeirra með „Black Friday“. Ég fór með Dagbjarti í Kringluna til að gera góð kaup. Hann hafði brotið upp sparibaukinn sinn til að kaupa jólagjafir. Svo var þetta eintómt fúsk og frat. Enginn með almennilegt „Black Friday“ tilboð. Í Ameríku eru almennilegir afslættir, a.m.k. 50%, en hér nota kaupmenn þennan hortitt til að plata kúnnana og pranga út einhverju drasli. Aumingja drengurinn æstist upp þegar við sáum í anddyri Útilífs skilti sem á stóð 40%. Við héldum eðlilega að nú væri 40% afsláttur af öllu í búðinni. Þegar að skiltinu kom stóð með litlum stöfum neðst: „40% afsláttur af öllum svörtum úlpum“ – vantaði bara „af öllum svörtum úlpum með bilaðan rennilás“. Gif mí a foxing breik eins og kellingin sagði. Í Nettó var „Black Friday“ af sviðahausum. Er verið að kidda mann? Íslenskir kaupmenn geta troðið þessum „Black Friday“ upp í neðri hringvöðvann á sér. Þeir kunna þetta ekki. Sláið 50% af draslinu ykkar og ég skal ónáða mig yfir ykkur aftur.

Heimkaup má þó eiga það að þar var kjöt á beinunum. Þar keypti ég LIFUN LP á 2.490 kr, sem er fínt verð á meistaraverkinu.

Svo er ég orðinn drepleiður á heilarýru gjammi bókaútgefanda. Þeir gjamma bara nógu mikið og vona að einhverjir aular falli fyrir gjamminu. „Blabla Jónsson er stórfenglegur rithöfundur“, „Stórfengleg bók, Politiken (um allt aðra bók en sá sem er verið að selja)“. Gagnrýnendur Kiljunnar og Egill mega ekki opna á sér trantinn nema það sé komið í sándbæt í næstu auglýsingu: „Unaðslestur! (Egill Helgason)“, „Mér vöknaði um augun (Kolbrún Bergþórsdóttir)“ – Maður er bara alveg orðinn myglaður yfir því hvað þetta eru allt lélegar bókauglýsingar.

Bókaútgefendum er svo sem vorkun. Það eru hundruðir bóka að reyna að olnboga sig í jólapakkana og að því virðist er eina leiðin að gjamma bara utan í kaupendum eins og púðluhundar með standpínu, þessar örfáu vikur sem atið stendur.

Ég er búinn að lesa GERIL eftir Bibba í Skálmöld – „Ef Skálmöld væri bók þá væri hún Gerill“, ÖLL MÍN BESTU ÁR – „Frábær ljósmyndabók þar sem stuð og tíðarandi fyrri ára birtist ljóslifandi“, BÍTLARNIR TELJA Í eftir Mark Lewisohn – „Besta Bítlabók sem skrifuð hefur verið! og ÚTLAGA Jóns Gnarrs – „Frábær bók, las hana eins og þyrstur maður í eyðimörk sem kemur að vin“.

Næst í röðinni eru svo Syndari Ólafs Gunnarssonar, Týnd í paradís Mikaels Torfasonar, Naut Stefáns Mána, Sögumaður Braga Ólafssonar, Stríðsár Páls Baldvins, Egils saga Egils Ólafssonar og Páls Valssonar, Á Æðruleysinu eftir KK og Sjóveikur í Munchen eftir Hallgrím Helgason. Þessi listi stenst ekki Bechtel-prófið, só sorrí konur. Það myndi hjálpa mikið til að fá sándbæt frá besta bloggi landsins ef útgefendur sendu mér eintak af bókunum. Ég segi svona, bara hugmynd.

Í dag verður unaðslegur dagur. Það er búið að snjóa jafn mikið og í gær, svo það er bókstaflega allt í kafi. Í kvöld á ég miða á ÞETTA ER GRÍN, ÁN DJÓKS í sjálfri Eldborg Hörpu. Ég held að það sé algjör snilld því annars væri ég ekki að fara. Ef þú átt ekki miða skaltu fá þér hann strax.