Sarpur | apríl, 2023

Blimp 1991 eða 1992

24 Apr

Á miðvikudaginn höldum við upp á 46 ára afmæli Svavars Péturs Eysteinssonar, Prins Póló. Gigg í Gamla bíói á miðvikudaginn, uppselt, og annað á fimmtudaginn og enn til miðar á Tix. Dr. Gunni spilar auk helvítis hellings af góðu dóti.

Ég fékk senda kassettu með þessu ævaforna viðtali og lagi með Blimp. Sveitin er sennilega allra fyrsta bandið sem Svavar spilaði með (hann er líklega 14 ára), en auk hans voru í því þeir Haukur M. Einarsson á trommur, Ásgeir Ó. Sveinsson á bassa, og Hilmar Ramos söngvari. Hljómsveitin keppti í Músiktilraunum 1992 og virðist hafa gefið upp öndina skömmu síðar. Þá tók við hljómsveitin Múldýrið, sem gerði eina smáskífu og svo allskonar fínirí, Rúnk, Skakkamanage, Prins póló, þú þekkir þetta.

Viðtalið við Blimp (líklega úr Aðalstöðinni eða einhverri skólastöð) er mjög nördalegt og feimið en hljómsveitirnar Bless, Pixies og Cure eru aðal áhrifavaldarnir. Veit því miður ekki hver spyrillinn var.