Í fyrra fórum við félagarnir frábæra ferð á Hornstrandir, gistum tvær nætur í tjaldi í Látrum, röltum upp á Straumnesfjallið og skoðuðum hálfrar aldar gömul mannvirki Kana sem reist voru í paranojukasti í Kalda stríðinu. Sú ferð var ekki síst góð vegna þess að það var gott veður allan tímann. Í ár var veðrið miklu leiðinlegra og því ferðin ekki eins góð. Gott veður er bara svo mikið atriði í svona ferðum. Í þokusuddanum núna létu menn sig dreyma um miklu meiri lúxus í næstu ferð.
Eins og síðast byrjaði þessi ferð á Hesteyri þar sem þetta eðalfólk birtist eins og skrattinn út sauðalegg Skotlands, Arnar og Móa!

Þau héldu áfram í rómantík en við harðjaxlarnir í göngu- og útivistarsamtökunum Blómey töltum sem leið lá til Hlöðuvíkur. Stefnt var á Kjaransvíkurskarð, fyrsta, en ekki síðasta skarð ferðarinnar. Klöngrast var yfir klöngur og stuðst við stíga og vörður. Þetta þema var allsráðandi í ferðinni: Klöngur 2013.

Þarna glittir í skarðið sem klöngrast var að og yfir. Eftir það lá leiðin niður í Kjaransvík (allt vaðandi í rekaviði þar, eins og víðar) og á tjaldsvæðið í Hlöðuvík. Ég lá sárfættur í tjaldinu mínu með mína traustu Crocs. Skimaði út í tómið og vonaði að göngufélagarnir væru að koma.

Næsta morgun komu þeir loksins og í ljós kom að þeir höfðu gefist upp í Kjaransvík og tjaldað þar. Áfram var klöngrast og næst yfir hinn skaðræðislega útlítandi Skálarkamb. Mér féll næstum allur ketill (Larsen) í eld þegar hann blasti við daginn áður, en nú var sem betur fer þoka yfir kambinum svo ferlíkið sást ekki í fullri reisn. Auðvitað var þetta svo minna mál en maður hélt, eins og svona dæmi eru oft (og almennt flest í lífinu sem maður hefur áhyggjur af). Áfram klöngrast yfir Atlaskarð, yfir lofthræðsluhvetjandi fjörubakka og loks í Hornvík, sem er perla svæðisins með hressum landverði, gæfum refum og vatnssalerni.

Þar gistum við í þokusagganda í tvær nætur og kepptumst við að halda á okkur hita. Nenntum ekki meira á frídeginum en að rölta eftir fjörunni (dauður háhyrningur!) og gera misheppnaðar tilraunir til að veiða eitthvað. Ég hafði nefnilega láta senda mér einnota grill á staðinn til að grilla allan aflann, en sem betur fer pylsupakka líka, ef illa færi við veiðar. Hér má sjá aðstæður: Menn norpa við prímusinn.

Mun skárra veður fjórða daginn, þegar klöngrast var að og yfir Hafnarskarð og niður í Veiðileysufjörð. Þar gistum við fjórðu nóttina og vorum sóttir á báti næsta morgun.
Hvað sem hver segir er svona klöngur æðisgengið, a.m.k. þegar það er yfirstaðið og svo í minningunni. Allt er betra í minningunni, æ gess. Náttúrlega geðveikt flott á köflum þetta svæði:


Í smá klöngurpásu.
Og svo auðvitað kort yfir leiðina:
