Sarpur | ágúst, 2013

Smá nýmeti

27 Ágú

Menn og konur eru alltaf að búa til tónlist út um allan bæ. Hér er smá nýmeti:

Einar Lövdahl er nýgræðingur sem kom með fyrstu plötuna sína á dögunum, Tímar án ráða. Verkið inniheldur 10 lög og texta eftir Einar og var að mestu tekin upp í heimahúsum af vinum, Halldóri Eldjárn (Sykur) og Agli Jónssyni (Porquesí). Tónlistin er létt indípopp með fínum íslenskum textum. Athyglisvert dæmi.

artworks-000056319398-otpso9-t500x500
OJBA RASTA með nýtt lag – Einhvern veginn svona – Og svo nýja plötu í október. Það er ekkert verið að hanga yfir hlutunum hér, sem er stórgott!


Heimir Klemenzson hefur í sumar verið að taka upp sína fyrstu sólóplötu í hljóðsmiðjunni hjá Pétri Hjaltested. Fyrsta lagið er komið á Jútjúb!

Svo er það þessi:
Bláar raddir, umslag,
Út er kominn hljómdiskurinn Bláar raddir. Diskurinn inniheldur 10 lög Gísla Þórs Ólafssonar við ljóð Geirlaugs Magnússonar úr bók Geirlaugs, Þrítengt sem kom út árið 1996.

Bláar raddir er önnur sólóskífa Gísla Þórs en hann hefur áður gefið út geisladiskinn Næturgárun undir flytjandanafninu Gillon og 5 ljóðabækur í eigin nafni. Hann er einnig bassaleikari í bandinu Contalgen Funeral sem gaf út sína fyrstu plötu í fyrra, Pretty Red Dress.
Hér er lagið Hringekjan.

Krabbakjöt: Hinn ameríski Dr. Gunni?

25 Ágú

20130825_131100
Þrjár bandarískar konur buðu mér í löns í gær. Þeim fannst bara svona æðisleg túrista-bókin sem ég gerði fyrir nokkrum árum og vildu endilega hitta mig. Ég reyndi að vera voða skemmtilegur og landi og þjóð til sóma. Það verða allir að leggjast á eitt í túristavertíðinni, ha? Þær voru búnir að gera bakgrunns-tékk á mér, m.a. að leita að „Fart Song“ á Itunes. Því héldu þær að ég kæmi fram á ensku undir listamannsnafninu Crabmeat Thompson. Svo virðist vera að það sé einhver náungi sem kallar sig Crabmeat Thompson í barnalagabransanum. Enn vandast málið þegar það kemur í ljós að þessi Crabmeat er svo sem ekkert sláandi ólíkur mér:
smcrabmeatthompson
og enn verra er til þess að vita að Krabbakjötið er jú, með lag sem heitir The Fart Song

Stundum verður ruglið í veruleikanum alveg á pari við ruglið í draumunum.

Snorri Helgason snýr aftur

22 Ágú

SnorriHelgasonBAnd2013_sofaBW_small
Snorri Helgason – Summer is almost gone
Það eru gríðarleg gleðitíðindi að Snorri Helgason sé að snúa aftur með nýja plötu, enda var síðasta plata – Winter Sun frá 2011 – mikill gleðigjafi. Nýja plata heitir Autumn Skies og virðist meira retro-sándandi en síðasta plata, sem var með nokkrum indie nútímagljáa í boði Sindra Sin Fang. Þetta er mikil afslappelsis-plata og lofar mjög góðu við fyrstu hlustun. Ég sé fram á að vera með plötuna á rípít í haust suddanum.

„Hún er sum sé tekin upp í stúdíóinu okkar Guðmunds Óskars (Hjaltalín altmugligtmaður) úti á Granda sem heitir Kolgeitin og er pródúseruð af mér og Gumma en mixuð af Gunna Tynes. Hún á að koma út í lok september ef allt gengur að óskum. Fyrsta lag sem við settum í spilun af plötunni heitir Summer is Almost Gone,“ segir Snorri og bætir við:
„Ég ákvað snemma í ferlinu að vinna þessa plötu alveg frá grunni með hljómsveitinni minni sem er búin að vera spila með mér sirka sl. 2 ár, þ.e. Guðmundur Óskar á alls konar, Magnús Trygvason á slagverk og Silla (mr.silla) á söngl. Svo fengum við Daníel Böðvarsson gítarleikara úr Moses Hightower til að dúndra inn feitu sjitti sem og hann Daða gamla Birgisson Jagúarjálk á píanó.
Annars er þetta algjörlega hjemelaved gúmmelaði. Mikið bara ég og Gummi að læra á græjurnar og gera tilraunir. Lo-fi hi-fi folkpopp. Þarna eru tvö lög sem eru ekki eftir mig; „Willie O Winsbury“, sem er gamalt enskt þjóðlag og svo „Poor Mum“ sem er eftir Molly Drake (mömmu Nicks).“

Klöngur á Hornströndum

15 Ágú

Í fyrra fórum við félagarnir frábæra ferð á Hornstrandir, gistum tvær nætur í tjaldi í Látrum, röltum upp á Straumnesfjallið og skoðuðum hálfrar aldar gömul mannvirki Kana sem reist voru í paranojukasti í Kalda stríðinu. Sú ferð var ekki síst góð vegna þess að það var gott veður allan tímann. Í ár var veðrið miklu leiðinlegra og því ferðin ekki eins góð. Gott veður er bara svo mikið atriði í svona ferðum. Í þokusuddanum núna létu menn sig dreyma um miklu meiri lúxus í næstu ferð.

Eins og síðast byrjaði þessi ferð á Hesteyri þar sem þetta eðalfólk birtist eins og skrattinn út sauðalegg Skotlands, Arnar og Móa!
0001
Þau héldu áfram í rómantík en við harðjaxlarnir í göngu- og útivistarsamtökunum Blómey töltum sem leið lá til Hlöðuvíkur. Stefnt var á Kjaransvíkurskarð, fyrsta, en ekki síðasta skarð ferðarinnar. Klöngrast var yfir klöngur og stuðst við stíga og vörður. Þetta þema var allsráðandi í ferðinni: Klöngur 2013.
00002
Þarna glittir í skarðið sem klöngrast var að og yfir. Eftir það lá leiðin niður í Kjaransvík (allt vaðandi í rekaviði þar, eins og víðar) og á tjaldsvæðið í Hlöðuvík. Ég lá sárfættur í tjaldinu mínu með mína traustu Crocs. Skimaði út í tómið og vonaði að göngufélagarnir væru að koma.

0000003
Næsta morgun komu þeir loksins og í ljós kom að þeir höfðu gefist upp í Kjaransvík og tjaldað þar. Áfram var klöngrast og næst yfir hinn skaðræðislega útlítandi Skálarkamb. Mér féll næstum allur ketill (Larsen) í eld þegar hann blasti við daginn áður, en nú var sem betur fer þoka yfir kambinum svo ferlíkið sást ekki í fullri reisn. Auðvitað var þetta svo minna mál en maður hélt, eins og svona dæmi eru oft (og almennt flest í lífinu sem maður hefur áhyggjur af). Áfram klöngrast yfir Atlaskarð, yfir lofthræðsluhvetjandi fjörubakka og loks í Hornvík, sem er perla svæðisins með hressum landverði, gæfum refum og vatnssalerni.
0000005
Þar gistum við í þokusagganda í tvær nætur og kepptumst við að halda á okkur hita. Nenntum ekki meira á frídeginum en að rölta eftir fjörunni (dauður háhyrningur!) og gera misheppnaðar tilraunir til að veiða eitthvað. Ég hafði nefnilega láta senda mér einnota grill á staðinn til að grilla allan aflann, en sem betur fer pylsupakka líka, ef illa færi við veiðar. Hér má sjá aðstæður: Menn norpa við prímusinn.
00009
Mun skárra veður fjórða daginn, þegar klöngrast var að og yfir Hafnarskarð og niður í Veiðileysufjörð. Þar gistum við fjórðu nóttina og vorum sóttir á báti næsta morgun.

Hvað sem hver segir er svona klöngur æðisgengið, a.m.k. þegar það er yfirstaðið og svo í minningunni. Allt er betra í minningunni, æ gess. Náttúrlega geðveikt flott á köflum þetta svæði:
000006

0008
Í smá klöngurpásu.

Og svo auðvitað kort yfir leiðina:
korthornbs

Skilaboð frá Gylfa Ægis!

14 Ágú

qdtR1vzfNtJMxJr1rpwQzElvZSOlei8kKlNjbJlpsSU
Gylfi Ægisson hefur talað. Og talað. Og talað aðeins meir.

Það sem hann hefur fram að færa er reyndar ekki besta plöggið sem næsta lag í spilun af plötunni ALHEIMURINN! þarf: Brjálað stuðlag, sungið af engum öðrum en – GYLFA ÆGIS! (og fjórum stórstjörnum í viðbót reyndar, þótt Gylfi sé aðal).

Til vitnis um  hversu ágætlega staðsett þjóðfélagið er móralskt séð, hefði verið miklu betra plögg fyrir plötuna ef Gylfi hefði komið út úr skápnum.

Á meðan Glaðasti hundur í heimi keyrir upp vinsældalistana geturðu beðið spennt/ur eftir næsta lagi af ALHEIMINUM! Brjálað stuðlag! Ég myndi segja að það fari í spilun mánudaginn 23. september. Hér er smá forsmekkur:


(Smá grín í Gylfa, verður ekki í endanlegu útgáfunni!)