Sarpur | desember, 2014

Áramótauppgjör 2014

31 Des

Til hamingju með að hafa þraukað enn eitt árið og vonandi verður 2015 súper geðveikt í þínu lífi. Og þá meina ég geðveikt gott en ekki þunglynt eða geðklofið. Nú eru allir og amma þeirra að gera upp árið og reyna að vera fyndnir með því að birta lista yfir allskonar svona „fáviti ársins“, „apaskurðlæknir ársins“ og svo framvegis. Þetta fer allt í þá átt að Framsóknarmenn séu geðveikir og illa meinandi fávitar nema hjá Andríki þar sem vinstri menn eru fávitarnir. Allir eru þó sammála um að fávitarnir á kommentakerfi DV séu mestu fávitarnir. Ég nenni nú eiginlega ekki að spá mikið í þessum leiðindum enda er þetta séríslenskt röfl og angandi af naflakuski. Íslensk umræða: naflakusk og þras, engin framtíðarmynd, engar gáfur, bara þras um hver sé mesti fávitinn.

Svo er ég líka svo sjálfhverfur og ætla bara að birta 10 myndir úr lífi mínu 2014. Þær sýna hversu árið var ljómandi gott.

2014-03-01 14.41.28
Í febrúar fór ég til USA. Fyrst til Philadelphia þar sem ég gisti hjá Hauki og Júlíu og fór á æsandi gigg með Kanye West í Atlantic City. Í NYC hitti ég Stein og Trausta, en Steinn var að koma til USA í fyrsta skipti. Hann hafði ekki hitt æskuvin sinn KJG í 28 ár svo það urðu eðlilega fagnaðarfundir og mikið spjallað. NYC er Borg borganna.

2014-07-06 20.35.55
Við (þ.e.a.s. fjölskyldan) fórum til Akureyris á N1 mót. Það var rigning allan tímann. Þegar við komum til baka var kveiknað í Skeifunni. Það var dularfult reykský sem blasti við okkur í Kollafirðinum. Hvað var í gangi? Fyrirspurn á Facebook svaraði mun fyrr en hefðbundnir fjölmiðlar.

2014-11-11 16.44.36
Ég fór að pæla meira í 78 snúninga plötum. Sankaði að mér slatta. Maður verður alltaf að hafa eitthvað svona í gangi til að þorna ekki upp. Skemmtilegast er að komast yfir bunka eins og þennan að ofan og renna þessu sótugu og gaurdrullugu undir nálina. Fortíðin er svo skemmtilega rykfallin og dularfull.

2014-11-04 12.12.17
Allt þetta ár höfum við verið að vinna að sjónvarpsþáttum um íslenska tónlistarsögu. Við höfum tekið ein 70 viðtöl og annað eins er framundan. Stefnan er að frumsýna næsta haust. Það eru eintómir snillingar með mér í þessu, hér eru Marínó og Þorkell sem skipa Markell Production, og Halli Sigurjóns er fjórða hjólið undir þessum súperkagga.

2014-12-11 15.43.50
Ég samdi og tók upp tónlist fyrir uppfærslu LA á Lísu í Undralandi með Þóri kenndum við Just Another Snake Cult. Frumsýnt 27. febrúar. Mikil spenna.

2014-08-07 12.30.12
Við ferðuðumst slatta innanlands. Frábæra ferð um sunnanverða Vestfirði og a.m.k. tvær góðar ferðir í Sólskinshöllina á Ísafirði. Þar að auki gengum við Kristján Freyr upp á Kaldbak í fylgd franskrar fegurðardísar.

2014-09-06 18.43.09
Fórum frábæra ferð til Amsterdam en þangað hafði ég ekki komið síðan 1984. Hér erum við Steini Sleggja frekar ógreinilegir í hjólataxa. Löglegt í Amsterdam.

2014-07-21 10.28.21
Vel má vera að Skagafjörður sé suddalegt Framsóknarbæli en ég segi nei: Stórfenglega fallegur fjörður og Sauðárkrókur er frábær bær. Hér er Birgir ásamt lókal legends í elstu búð landsins. Við gengum á Mælifell og sáum ekki rassgat vegna þoku en þó Finn Ingólfsson á leiðinni upp. Buðum auðvitað góðan daginn þótt við hefðum verið að tala illa um manninn á leiðinni norður. Eru ekki allir ágætir inn við beinið – meira að segja Finnur Ingólfsson!?

2014-09-20 13.57.25
Seinna fór ég aftur í Skagafjörð með pabba og bræðrum mínum tveimur en Oddný systir kom frá Akureyri og hitti okkur. Við vorum að skoða æskuslóðir pabba og áttum frábæra helgi. Hér er glápt innan í Goðdalakirkju.

10698478_10204297738458064_6541423740991253496_n (1)
Eins og ég hef margoft sagt er tilhugsunin um að sleppa af og til til útlanda það sem heldur manni hérna megin við svartnættið. Ísland er frábært en bein innspýting frá alheiminum er nauðsynleg. 2014 fór ég í heil þrjú skipti til útlanda, í þriðja skiptið aftur til USA í október. Flæktist í Boston og NYC en aðalmálið var að flytja fyrirlestur um íslenskt popp á Íslandsdegi í sveitum Connecticut. Það var hreinlega stórkostlega gaman. Hér má sjá mig og Snorra Helgason með svínið Abe R. Ham, sem gestgjafi okkur Gerri Griswold á ásamt fleiri skepnum.

Hellingur af öðru frábærlega skemmtilegu gerðist að auki 2014 og ég gef þessu ári tvímælalaust fjórar stjörnur af fjórum mögulegum. Stefni á að 2015 fái sömu einkun, enda mun ýmislegt frábært gerast þá: Lísa í Undralandi verður frumsýnd, heimildaþættirnir væntanlega líka, ég ætla að gefa út plötu, halda málverkasýningu, fara eins oft og ég get til útlanda, minnka á mér spikið, reynda að vera sem minnst að velta mér upp úr fávitum, vera sem minnst fáviti sjálfur og svona beisik. Svo verð ég fokking fimmtugur í október svo það er allavega eitthvað.

Gleðilegt og frábært ár!!!

 

 

 

Gleðileg jól

24 Des

2014-12-24 08.40.07
og farsælt komandi át.

Hurðaskellir og Konni 1957

21 Des

hurdaskellirkonni
Jólin 1957. 78-snúninga platan er við dauðans dyr (þær síðustu á Íslandi komu út árið eftir) og fólk er farið að kaupa frekar LP og 45 snúninga „litlar“ plötur sem voru taldar „óbrjótanlegar“. Það voru viðbrigði eftir hinar stökku shellac/lakk plötur, sem hrukku í sundur við minnsta hnjask. Þessu fékk ég einmitt að kynnast á dögunum þegar einn helsti gimsteinninn í hinu örtvaxandi 78-snúningasafni brotnaði í tvennt þegar ég var eitthvað að bardúsa með plötur. Þetta var jólaplatan með Hurðaskelli og Konna (Alfreð Clausen og Baldri Georg Takács). Ég hafði keypt plötuna á heilar 2000 krónur í Háaloftinu á Akureyri í sumar og var í öngum mínum með plötuna í tvennu lagi, enda hafði alltaf verið ætlunin að setja þetta á bloggið nú fyrir jólin. Ég reyndi að líma plötuna saman en það reyndist vonlaust mál. Sem betur fer átti ég hauk í horni sem er Sigurbjörn Helgason póstmaður og stofnandi stærstu 78-snúninga og vaxhólka síðunnar á Facebook. Hann átti aukaeintak handa mér svo allt endaði vel.

hurdaskel+konn
hshmm
R-4451507-1367788605-2967.jpeg

HURÐASKELLIR OG KONNI I
HURÐASKELLIR OG KONNI II

 

Jólin með Ingibjörgu Þorbergs

20 Des

jólaingibjörg
Þá er komið að Ingibjörgu Þorbergs að hringja jólin inn. Hún söng inn á margar 78 snúninga plötur á tímabilinu 1953-1956: Eigin lög, kóverlög, barnalög og svo þessa jólaplötu sem kom út 1954 og er því orðin sextíu ára. „Hin fyrstu jól“ er lag eftir Ingibjörgu við texta Kristjáns frá Djúpalæk, en á B-hliðinni er Jingle Bells – Klukknahljóð – sem Loftur Guðmundsson gerði texta við.
Hin fyrstu jól
Klukknahljóð

Fáránlegur hressleiki

19 Des

10636008_10152399209116783_2641941993634530073_n
Ég minni góðfúslega á massagiggið í kvöld. Hljómsveitin Dr. Gunni hefur leik um kl. 22. Leikin verða lög úr sarpi Popkings, S.H.Draums, Bless. Dr. Gunna auk nýrra tónsmíða. Hér fréttatilkill frá höfuðstöðvunum:  Hóhóhó! Það verður þrusustuð í Iðnó föstudagskvöldið 19. desember. Hljómsveitin Prins Póló hefur húsið til umráða og bíður nokkrum af sínum uppáhalds listamönnum að troða upp með sér. Það eru Dj. flugvél og geimskip og Dr. Gunni auk þess sem Hugleikur Dagsson mun líma kvöldið saman. 

Iðnó býður upp á fordrykk fyrir þá sem mæta snemma og hægt verður að kaupa allar jólagjafirnar á staðnum!! 

Prinsinn var iðinn við kolann á árinu. Hann gaf út plötuna Sorrí í vor og gerði svo tónlistina við kvikmyndina París Norðursins í haust en geisladiskur með síðarnefnda verkinu er á leiðinni í verslanir. Þær fréttir voru svo að berast að Prinsinn er tilnefndur til fernra Íslenskra tónlistarverðlauna. Jedúddamía!

Húsið opnar klukkan 21.00, miðaverð er skitnar 2000 krónur og forsala á http://midi.is/tonleikar/1/8646
Sjáumst í Iðnó alveg fáránlega hress!!!

Helena syngur jólin inn

16 Des

Enn er hér boðið upp á jól á 78 snúninga hraða. Fyrir var Haukur Morthens en nú er komið að Helena Eyjólfsdóttur, sem söng tvö jólalög inn á plötu 1954.
unga ísland
„Helena söng fyrst opinberlega á barnaskemmtun í Reykjavík á sumardaginn fyrsta 1953. Svo höfum við líka heyrt hana syngja í útvarpinu, og bráðum heyrum við hana syngja á nemendatónleikum Laugarnesskólans, sem útvarpað verður í barnatímanum,“ stóð í UNGA ÍSLANDI 1954: „Ég fór að syngja áður en ég lærði að tala,“ segir hún. Síðustu árin hefur hún lært söng hjá Guðrúnu Pálsdóttur. Og í vetur fór hún að læra að spila á píanó. Helenu langar mjög til að halda áfram söngnáminu.“

Eftir þónokkuð margar framkomur dreif útgáfan Íslenzkir tónar í plötu þar sem Dr. Páll Ísólfsson lék undir á Dómkirkjuorgelið. Ráðist var í klassísk jólalög, Heims um ból og Í Betlehem er barn oss fætt, en bæði höfðu lögin verið sungin inn á plötur áður, m.a. af Eggerti Stefánssyni, Sigurði Skagfeld, Hreini Pálssyni og Anny Ólafsdóttur, 12 ára, árið áður. Sú plata var gefin út hjá HSH (Hljóðfæraverslun Sigríðar Helgadóttur) en virðist ekki hafa gert Anny að mikilli stjörnu, því ekki spurðist til hennar eftir þetta þótt hún hafi á tímabilinu 1953-54 sungið á skemmtunum með Baldri og Konna og fleirum.

Jólaplata Helenar varð hins vegar bara fyrsta skrefið í miklum ferli söngkonunnar dáðu, sem enn stendur yfir. Platan varð vinsæl og mikið spiluð fyrir fjölmörg jól þar á eftir.
helena
Í Betlehem er barn oss fætt
Heims um ból

Tælenskur þari og smokkfiskur

15 Des

Dai Phat Asian Supermarket, Faxafeni 14, í sama húsi og Bónus, bara hinum megin, er dúndur Asíu-búð. Þar var ég áðan og gerði góð kaup á snakk-þara.
2014-12-15 16.24.39
Hér er tempura seaweed frá tælenska Tao Kae Noi fyrirtækinu. Þetta er eiginlega venjulegast á bragðið, maður finnur eiginlega ekkert þarabragð, bara djúpsteikt  tempura bragð, sem er mjög snakkað – ellegar snakkískt – bragð.

2014-12-15 16.27.46
Hér er wasabi bragð frá Tao Kae Noi og eins og sést á karlinum á pokanum sem grettir sig ægilega er þetta svaka sterkt. Mjög gott þar að auki ef maður fílar wasabi.

2014-12-15 16.26.15
Hér er þari með krabbabragði frá Khum Film, sem er líka tælenskt. Þetta er sætt á bragðið og ágætt.

2014-12-15 16.23.00
Hér er þurrkað smokkfiskasnakk frá Bento, einnig tælenskt. Þetta er „sweet og spicy“ og svo sannarlega sætt og sterkt. Maður er enn logandi. Gott mál.

Alltaf frábærlega skemmtilegt að kaupa í svona etnískum búðum og smakka eitthvað öðruvísi en þennan endalausa Haga-mat sem maður er á.

Svona leysist vandi RÚV

13 Des

Sorrí að nefna það en það er bara hellingur af fólki sem hlustar aldrei á Rás 1 eða 2 og horfir aldrei á Rúv. Er samt látið borga nefskatt, nú 19.400 krónur á ári, 17.800 krónur á næsta ári og 16.400 krónur 2016. Skil vel að það sé fúlt að þurfa að borga fyrir eitthvað sem það notar aldrei.

Sjálfur er ég í miklum fílingi fyrir Rás 1 og 2 og Rúv, mismiklum eftir þáttum og svona eins og gengur. Engin stöð er eins og Rás 1, sérstaklega áður en lesnar auglýsingar (eða „öskraðar auglýsingar“ eins og frethólkarnir í Hollvinasamtökum Ríkisútvarpsins kalla þær) tóku að heyrast þar, illu heilli. Ég get alveg tekið undir með því að Rás 1 er hin eina sanna hljóðrás lífsins – þjóðarútvarp, eða hvaða upphafningu fólk vill nota – af því maður ólst upp við þetta og vill hafa þetta áfram í svipaðri mynd. Fullt af góðu stöffi í gangi þarna, og meira kjöt á beinum en á öðrum útvarpsstöðvum. Meiri dýpt og vandvirkni.

Rás 2 er einum of lík Bylgjunni fyrir minn smekk og mætti hisja upp um sig buxurnar. Sömu lögin út og inn leikin af playlistum, endalaust röfl um ekki neitt, og hundleiðinlegir auglýsingaleikir og drasl sem á heima á prívatmarkaði, ekki ríkisstöð. Samt er Rás 2 besta aðhaldið við íslenska tónlist og sögu, en það mætti vera miklu meira og betra á kostnað froðunnar. Bylgjan er sko alveg fín fyrir sinn hatt, en óþarfi að Rás 2 sé að sækja inn á sama markað.

En núna sem sé kemur það sem ég ætlaði að segja varðandi það hvernig vandi Rúv verður leystur: Með frjálsum framlögum þeirra sem elska þetta efni og þessar stöðvar það mikið að þeir eru til í að borga meira en nefskattinn. Svona er þetta gert með NPR, National Public Radio í USA, sem er svipuð og Rás 1 hér. Það hljóta að vera fimmtíu þúsund manns á landinu sem eru til í að borga 10 þúsund kall aukalega árlega. Það gera 500 milljónir á ári. Jafnvel hægt að eyrnamerkja það dagskrárgerð.

Er þetta alveg sturluð hugmynd?

Bestu plöturnar 2014

13 Des

Þá er komið að uppgjörinu fyrir árið. Byrjum á músik. Enn er maður fastur í því að nefna bestu plötur ársins þótt maður hlusti eiginlega ekkert á plötur lengur heldur lög í graut og bita héðan og þaðan. Besta platan var auðvitað SNARL 4 sem ég nefni ekki af því ég gaf hana sjálfur út. Þar er allskonar gúmmilaði sem vonandi mun gera frábæra hluti í framtíðinni. Listinn minn er svona. Það er eitthvað sem ég hef ekki heyrt sem gæti verið æðislegt, og svo er líklega eitthvað sem ég er að gleyma.

Bestu íslensku plötur ársins 2014

1. Prins Póló – Sorrí
2. Grísalappalísa – Rökrétt framhald
3. Pink Street Boys – Trash From The Boys
4. Oyama – Coolboy
5. Nýdönsk – Diskó Berlin
6. Teitur Magnússon – Tuttugu og sjö
7. Sindri Eldon – Bitter & Resentful
8. Elín Helena – Til þeirra sem málið varðar
9. Börn – Börn
10. Rökkurró – Innra
11. Felix Bergsson – Borgin
12. Gus Gus – Mexico
13. Samaris – Silkidrangar
14. M-Band – Haust
15. Óbó – Innhverfi
16. Valdimar – Batnar útsýnið
17. FM Belfast – Brighter Days
18. Stafrænn Hákon – Kælir varðhund
19. Heimir Klemenzon – Kalt
20. Prins Póló – París norðursins

* Besta lagið – Prins Póló – París norðursins
* Langbesta endurútgáfan – Fan Houtens Kókó – Gott bít

HLUSTAÐU Á BRAKANDI FÍNA ÍSLENSKA TÓNLIST HÉR:
best201422

Bestu erlendu plötur ársins 2014

1. Ariel Pink – Pom pom
2. Ty Segall – Manipulator
3. Liars – Mess
4. Meatbodies – Meatbodies
5. Ex Hex – Rips
6. Lykki Li – I Never Learn
7. St. Vincent – St. Vincent
8. The Ghost Of A Saber Tooth – Midnight Sun
9. Blank Realm – Grassed in
10. East India Youth – Total Strife Forever

* Besta lagið – Tove Lo – Stay High (Habits Remix)

Haukur syngur jólaklassík

6 Des

haukurmid

Haukur Morthens söng fyrst inn á (78 snúninga) plötur fyrir 60 árum, árið 1954, þ.á.m. tvö jólalög sem komu út fyrir jólin. Þetta voru tveir erlendir stórslagarar með íslenskum textum.

Haukur Morthens – Hvít jól (Irving Berlin / Fríða Sæmundsdóttir)

Haukur Morthens – Jólaklukkur (.. / Dalasveinn (Loftur Guðmundsson)

Hér er greint frá utanferð Hauks og ævintýrum í Alþýðublaðinu 2.11.1954:
haukur54

Hér er sundlandi góð auglýsing fyrir Fálkann 1954:
haukurstor