Sarpur | nóvember, 2014

Myndir af kóngum á Íslandi 1930

30 Nóv

Boris Borgström sendi mér nokkrar myndir af „harmóníkukóngunum“ Gellin og Borgström á Íslandi 1930. Myndirnar eru úr safni danska tónskáldsins Hermanns Hoffmarks sem kom með þeim. (Ath: hægt er að fá myndirnar stærri með því að smella á þær).

EPSON scanner image
Gellin og Borgström í góðu flippi um borð í Lyru á leið til landsins.

EPSON scanner image
Mikill spenningur var fyrir komu þessara meistara „sem næstum hvert mannsbarn á Íslandi kannast við,“ eins og sagði í blöðunum. Þeir gistu á Hótel Íslandi í Aðalstræti og vöktu mikla athygli í bænum. Hér hafa þeir skroppið út til að tékka á Ingólfi.

MAÓ 1556
Þeir héldu fjölmarga tónleika í Reykjavík og ber umsögnin í Alþýðublaðinu um fyrstu tónleikana í Gamla bíói merki um mikla hugljómun: „Léku þeir lög af slíkri snilld, að áheyrendur hefðu ekki trúað að leikið væri á harmóníkur, ef sjónin hefði ekki sannfært. Hér var ósvikin list – músík –, gáfur og stöðugt nám. Eru þeir jafnsnjallir á nýtísku danslög, sem „klassísk“ lög. Lófatak áheyrenda var með slíkum afbrigðum, að veggir Gamla Bíós titruðu, enda urðu þeir að leika 6 – sex – aukalög og vildu áheyrendur þó fá fleiri. Hingað koma þeirra félaga sýnir, að hægt er að seiða úr harmóníkum töfrahljóma, engu síður en úr öðrum hljóðfærum.“
Gellin og Borgström höfðu með sér „sérstakan ljósaútbúnað“, sem notaður var á meðan þeir léka og „gátu menn þá betur séð hin voldugu hljóðfæri þeirra og handatilburði,“ eins og Fálkinn greindi frá.

Það gekk allt út á Gellin og Borgström á meðan þeir voru hér. Hljóðfærahúsið nýtti sér tækifærið og auglýsti ferðafóna sem mætti taka með „til Þingvalla“.
dwedafon
Stundum var með „hin ágæta balletdanzmær frú Brock-Nielsen, sem danzar sólódanza, sem ekki hafa sést hér fyr.“ Hér eru þeir komnir eitthvað út á land – eða eitthvað út fyrir bæinn – og það er gríðarlegur stemmari. Danzmærin tekur sporið…
dans0
dans1

Félagarnir sigldu með Esjunni í kringum landið og héldu tónleika á viðkomustöðum skipsins.  Á Ísafirði spiluðu þeir í Gúttó fyrir svo troðfullu húsi að opna þurfti alla glugga upp á gátt til að mannfjöldinn fyrir utan fengi skammtinn sinn. Eftir tónleikana fylgdi heilluð hjörðin þeim niður á bryggju og spiluðu félagarnir þar til Esjan sigldi í burtu til næstu hafnar. Er þessi mynd hugsanlega tekin á Ísafirði? Ég er ekki viss en fjallið er ansi kunnuglegt.
EPSON scanner image
Hér er nokkrar fleiri myndir úr myndaalbúmi Hoffmarks.
EPSON scanner image
Gengið stillir sér upp í tröppunum við Þrastarlund.
EPSON scanner image
Gott flipp einhvers staðar.

EPSON scanner image
Þeir hafa líka ferðast með flugbáti.

EPSON scanner image
Ja hérna hér! Verður ekki Oddur sterki af Skaganum á vegi þeirra! Oddur hefur greinilega verið aðalmaðurinn á þessum tíma. Í bók W. H. Audens „Letters from Iceland“ (1937) kemur einmitt Oddur dálítið fyrir, en það þótti Íslendingum auðvitað alveg ótækt – að einhver klikkhaus hefði þótt það merkilegasta sem skáldið sá! (Note to self: Lesa þessa bók.)

EPSON scanner image
Harmóníkukóngarnir svona líka léttir í lundu. Svo voru þeir farnir til annarra starfa, enda eftirsóttar stórstjörnur.

Nokkur blaðaskrif urðu um þá. Þau byrjuðu á því að Þórarinn Guðmundsson fiðluleikari skrifaði í Moggann, frekar súr yfir því að bolurinn skyldi mæta á Gellin og Borgström leika á sín „þau viðbjóðlegustu og listsnauðustu hljóðfæri, sem nokkurn tíma hafa verið upp fundin“ á meðan „gapa við auðir bekkir“ þegar Peder Möller leikur á „drottningu hljóðfæranna“, fiðluna.
þg30

B.J. nokkur svaraði í Alþýðublaðinu, ekki sammála:
bj

Af þessari grein varð nokkur vandræðagangur…
bland

Að lokum var það svo „Alþýðumaður“ sem skrifaði í Alþýðublaðinu. Takið eftir því hvernig farið er beint „í manninn“:
listeræli
Svona var rifist um tónlist 1930.  Segið svo að það sé eitthvað nýtt undir sólinni.

Harmóníkukóngarnir

29 Nóv

Almennt viðhorf er að miða upphaf popptónlistar eins og við þekkjum hana við Elvis og rokk og rólið. Það er þó auðvitað staðreynd að „poppið“ á sér miklu lengri sögu, sem er að mestu hulin þagnarhjúp. Það opnuðust dyr hjá mér varðandi þetta þegar ég heimsótti Sigurjón Samúelsson á Hrafnabjörgum í Ísafjarðardjúpi fyrir nokkrum árum. Hann á eitt besta safn íslenskra 78 snúninga platna og þar að auki vaxhólka og spilara. Ég var hjá honum í eina þrjá tíma og hann spilaði stöff sem ég hafði ekki hugmynd um að væri til, t.d. Bjarna Björnsson, sem var hálfgerður stand up gaur til forna, og svo þá Gellin og Borgström, sem voru kallaðir „harmóníkukóngarnir“ og komu hingað á tvo túra til að skemmta um allt land, 1930 og 1934.
0104-Morgunbladid0706-1930
Þetta var svo mikill viðburður að forsíða Moggans var lögð undir auglýsingu. Þeir félagar, Svíinn Herman Gellin og Daninn Ernst Borgström, voru Justin Timberlake síns tíma og fóru alls staðar um við mikil fagnaðarlæti. Svo líður tíminn og jörðin gleypir þá og vinsældirnar. Harmóníkan var aðal balltækið þar til gítarinn kom inn fiftís. Ég skrifaði smá um þá félaga í Stuð vors lands og komst síðan í samband við son Ernst Borgström, Boris Borgström, og hef verið að hjálpa honum við feiknamikla heimasíðu um harmóníkukóngana. Ég erfði um 30 78 snúninga plötur með Gellin og Borgström frá afa mínum og Sigga frænda (sem báðir voru miklir harmóníku-aðdáendur) og gert stafrænar útgáfur fyrir gamla kallinn (Boris er 81 árs). Hér kemur ein – Eru ekki allir í stuði!?

x3974-a
Gellin og Borgströms Nyhets kvintet + refr: Olsen & Co – Det var dans pa laven – Rheinlender (Ola Skjegstubb – Alf. Röd)

x3974-b
Gellin og Borgströms Nyhets kvintet + refr: Olsen & Co – Fest med dans – Rheinlender (Kr. Hauger – Alf. Röd)

Bæjarins besta í öðrum löndum

25 Nóv

2014-11-23 13.03.02
Þegar við Elísabet fengum okkur síðast pulsur á Bæjarins beztu varð mér hugsað til þess að erlendar borgir eiga líka sinn lókal skyndibita. Það er búið að koma því inn hjá ferðamönnum (réttilega) að þeir verði að smakka Bæjarins bestu pulsurnar hér, og í útlöndum er líka svona „verða að fá sér“ skyndibitar í mörgum borgum.

Pats-Kind-of-Steak
Mér dettur nú strax í hug Philly cheesesteak sandwich frá Fíladelfíu, en svipaðar samloku má fá víðsvegar. Samlokan er upprunnin hjá Pat’s King of Steaks, en á móti Pat’s spratt upp samkeppnisaðilinn Geno’s. Þar telur eigandinn sig vera þann sem fyrstum datt það snjallræði í hug að setja ost á samlokuna. Í dag eru biðraðir alla daga við þessa staði. Við átum á Pat’s, og þetta var ágætt ef maður setti bara nógu mikið af hressandi chilipipar í frekar bragðlausa lokuna.

02297808
Í Montreal er alltaf röð við samlokustaðinn Schwartz. Þeir eru með pastrami samlokur, alveg ágætar, en svipað og betra finnst mér vera hjá Katz í New York. Þar er vissulega alltaf brjálað að gera, en varla eru þó Katz samlokur „bæjarins bestu“ New York. Ætli pítsur eða svona saltkringlur sé ekki meira þeirra þing.

cGTQeEIRur3P_faby-t1iR640x480
Upprunalegu Buffalo-vængirnir koma frá staðnum Anchorbar í bænum Buffalo, NY. Þangað hef ég aldrei komið. Það eru reyndar sagðar mismunandi sögur um uppruna Buffalo vængjanna, eins og gengur.

Svona má áfram telja. Gaman væri að heyra þína útgáfu af „bæjarins besta“ á öðrum stöðum. Það er helsta skilyrðið að það sé alltaf biðröð við staðinn sem er að selja matinn. Sjálfur er ég orðinn glorhungraður að skrifa þetta og ætla næst að gúggla How to make an omelette.

3 nýjar plötur

24 Nóv

FC019CD-500x500
Nú hellast inn nýjar íslenskar plötur enda stutt til jóla. Henrik Björnsson virðist að mestu vera Singapore Sling þessa dagana. Ný plata, The Tower of Foronocity (Turn fáránleikans – að mér sýnist áttunda plata Sling) er sneddíþéttur pakki af hatri, skæs riffum og góðu bíti. Platan er komin á Spotify og dulúðlegt myndband við opnunarlagið er komið á Youtube. Það er enska merkið Fuzz Club sem gefur út.

Cover_For_I_Tunes
Nýja/þriðja platan með Rökkurró heitir Innra og er á Spotify. Þetta er mun „fullorðnari“ plata en fyrri verk, róleg og yfirveguð, Keit bússuð og næs. Stykki sem mun án efa vaxa í áliti og taka nokkurn tíma að grípa um sig – seintekin sem sagt.

468142
Lukkutröllið Hermigervill hefur nú komið með fimmtu plötu sína, eða þá fyrstu „alvöru“ enda heitir hún I. Úr fréttatilkynningu: Plata þessi markar þáttaskil á ferli hans, eftir tvær plötur sem byggðar voru á sömplum, og aðrar tvær sem innihéldu rafútgáfur af íslenskum dægurperlum. Nú stígur hann fram með frumsamið efni í fyrsta sinn, og því heitir platan einfaldlega I – fyrsta raunverulega platan. Hermigervill fær góða gesti sér til liðsinnis í nokkrum lögum, þar á meðal söngvarana John Grant og Unnstein Manúel Stefánsson. Platan inniheldur melódísk lög sem virka bæði á dansgólfum sem og í stofunni heima, nokkuð sem fáir hafa náð að útfæra jafn vel og Hermigervill, sem hefur fínpússað þennan eiginleika á tónleikaförum sínum um heim allan síðustu ár.

Sun Kil Moon á föstudaginn

22 Nóv
sunki
Sun Kil Moon
kemur fram í Fríkirkjunni í Reykjavík þann 28.nóvember nk (næsta föstudagskvöld). „Sveitin“ er nú sólóverkefni Marks Kozeleks. Með honum á sviði verða trommuleikari, hljómborðsleikari og rafmagnsgítarleikari. Þetta verður sirka svona.
Sun Kil Moon hefur gert sex plötur. Sú nýjasta, Benji, sem kom út á þessu ári, hefur verið að fá þrusudóma og er talin mikið meistaraverk. Tónlistin er gríðarlega einlæg, persónuleg og fremur lágstemmd. Minnir á lið eins og Will Oldham og kappa eins og Leonard Cohen og Nick Drake.
Mark komst í tónlistarfréttirnar fyrir eitthvað rifrildi við hljómsveitina The War On Drugs (sem hitaði hér upp fyrir The Flaming Lips á dögunum). Rifrildi sem er nú bara eitthvað djók, skilst mér. Mark samdi allavega lagið War On Drugs: Suck My Cock að þessu tilefni.
Reykjavíkurnætur standa að viðburðinum en fyrirtækið flutti áður inn bandaríska söngvarann Mark Lanegan árið 2013. Miðasala stendur yfir á www.midi.is og er miðaverð 5.900 krónur.

Innihaldslítið stjórnmálarant

18 Nóv

Gott viðtal við saksóknarann á Akureyri í Mogganum í dag. Hann nennir ekki að vera hræddur og kallar hálfvita hálfvita. Eins og saksóknarinn nennir ekki að vera hræddur nenni ég ekki að vera reiður. Reitt fólk er ótrúlega fyndið og hallærislegt og ég nenni ekki að vera í þeim sporum. Þess vegna hef ég yfirleitt eitthvað annað að gera en að standa á Austurvelli. Eða kannski maður ætti að leggja sig fram við það, þetta er náttúrlega glatað lið sem er þarna í húsinu. Glatað lið, sem var kosið í síðustu kosningum, athugaðu það. Þú, eða einhver – líklega Óli Palli – kaus þetta lið til valda.

Ég get ekki hugsað mér að kjósa neitt af þessu liði, aldrei aftur. Sjálfgefið með XB og XD en XS og XV (þótt hún Katrín sé nú frábær) er líka drasl sem er búið að fá sinn séns og klúðraði því. XÆ er beisiklí XS þótt Óttarr Proppé sé æðislegur maður. Og hvaða djöfulsins plebbagangur er þetta í XÆ að vera að hamast í einhverjum tittlingaskít eins og kurteisi, klukkunni og mannanöfnum þegar allt er að aumingjast fjandans til?

Ég myndi líklega kjósa Pírata, XÞ, ef „gengið yrði til kosninga nú“ – finnst það eina liðið sem „stendur í lappirnar“ og er pínulítið annað en hin helvítis samtryggingin og stjórnmálamenningin. Eins og flokkurinn komi aðeins úr „annarri átt“. Helst vildi ég þó nýjan almennilegan flokk sem myndi hamra á því að hér séu næg lífsgæði og náttúruauðlindir til að reka jafnara og betra samfélag. Flokk með einföld markmið: Hér eru næg gæði fyrir alla, þeim þarf bara að skipta jafnar. Veit svo sem ekki hver ætti að leiða þennan flokk eða hvaða fólk ætti að vera í honum. Ekki benda á mig. Afhverju er gott fólk eins og Katrín Jakobsdóttir og Óttarr Proppé hangandi í ónýtum flokkum – ætti nú bara að stofna nýjan og kippa þessu helvítis, ég meina undurfagra og yndislega, skeri í liðinn.

Ég er ekkert endilega viss um að landið sé komið yfir síðasta söludag og það þurfi að druslast vælandi í fangið á hundleiðinlegum Norðmönnum.

SNARL 4 á þrotum

16 Nóv

Safndiskur ársins, SNARL 4 – Skært lúðar hljóma – er á þrotum hjá útgefanda (mér). Nýtt upplag er væntanlegt á morgun. Diskurinn kostar alls ekki meira en 2000 krónur og hægt er að kaupa hann í Lucky Records, Smekkleysu, 12 tónum, Bókabúð Máls og menningar og bráðlega í Eymundsson á Akureyri. Nú og einnig hjá mér (hann kostar 2000 krónur út um allan heim). Það eru 25 lög á disknum og myndbönd til af sumum lögunum.


Pink Street Boys eru tilbúnir með plötu (bestu plötu ársins?) og leita að útgefanda.

Ég veit ekkert um hljómsveitina Brött Brekka nema að hún er góð.

Börn gerðu hina fínu plötu Börn fyrr á árinu.

Vafasöm síðmótun er leynihljómsveit sem gerði geypigóða EP plötu fyrr á árinu, Íslenzk þjóðmenning. Sveitin syngur um Hönnu fokking Birnu á Snarli 4 en um Sigmund Davíð á EP plötunni.

Sindri Eldon hefur gefið út plötu með mörgu góðu páverpoppinu. Sorrí finn engan link á hana.


Death of a Scooba Fish (hvað er Scooba Fish? Það er ekki til!) er sólóverkefni Aðalheiðar Örnu Björgvinsdóttur. Einu sinni var hún í hljómsveit með Nönnu í OMAM. Ég held að hér sé eitthvað gott á leiðinni.

Kvöl er njúveif og gerði EP plötu fyrr á árinu hjá Ronju Records.

Mafama er frá Akureyri og eru handan við hornið með fyrstu plötuna sína.

Knife Fights gerðu frábæra plötu fyrr í ár, I Need You To Go To Hell.


Pönkbandið Elín Helena frá Selfossi gerði drulllluþéttu plötuna Til þeirra er málið varðar í vor.

Just Another Snake Cult hefur gert allskonar æðislegt.

Mugison er með lagið Afsakið hlé á Snarli 4.

http://www.youtube.com/watch?v=3UdlhLmg3hk
Skerðing
frá Akranesi er æðisleg hljómsveit sem gerði plötu fyrr í ár sem heitir Músagildran.

Nolo strákar eru í sífelldu stuði og hafa gert margt gott.


Sushi Submarine flokkurinn er upp og komandi.

Kælan mikla hefur gefið út disk í 50 eintökum sem fæst í Lucky. Tékk itt. Besta bandið í dag, segja menn.

Fræbbblarnir eru elsta bandið á Snarli 4. Sveitin hefur lengi verið að vinna að nýrri plötu sem við fáum vonandi asap.

Dr. Gunni (ég) á stysta lagið á Snarli 4. Það verður án efa á tímamótaplötunni L sem kemur út 7. okt 2015.

Lífið leikur eðlilega við Dj. Flugvél og Geimskip. Hún er að fara til Japans og er að vinna að nýrri plötu á vegum Mengi.

Insol er ekkert basol. Meistarinn mun vonandi koma með nýja plötu bráðlega.

Harry Knuckles er pá pá. Finnið hann hjá Lady Boy Records.

Panos from Komodo er illilega tengt Godchilla en sú sveit hefur gert þrekvirkið Cosmatos.

RadRad er leynimaðurinn Guðmundur Ágúst. Finnið hann hér.

Grísalappalísa og Megas ljúka Snarli 4 með æðislegheitum. Óþarfi að segja ykkur eitthvað um þá. Ég vona innilega að þetta skröltandi góða samstarf muni enda á plötu.

Ísland: Það er 1982 aftur!

16 Nóv

Nú flæða eflaust greinarnar inn um Airwaves í ár. Kieron Tyler hjá Art Desk skrifar hér grein um hátíðina og kemst að þeirri niðurstöðu að hér sé að verða til glæsileg fersk pönkbylgja. Hann fer fögrum orðum um bönd eins og Pink Street Boys, Elínu Helenu, Börn, Grísalappalísu & Megas, Kæluna miklu og Dj Flugvél og Geimskip, en öll eiga þau einmitt lög á SNARLI 4.

Classicism in another form helped define this year’s Airwaves. Punk has reared its head again. The Megas/Grísalappalísa show proved a taster for what emerged as a prime musical theme. Another helpful local, when asked about this, declared “it’s 1982 all over again.” Boy, no denying it. There really is a groundswell of powerful, off-the-wall punk-influenced bands the festival had found to prove the point.
Iceland Airwaves 2014 dj flugvél og geimskipAmongst the punky highlights were the wild Elín Helena, fronted by two bellowing men (one a ringer for a slimmer Matt Berry). The well they drew from was Orange County hardcore circa 1982, while the fabulous Pink Street Boys took odd dashes of Ohio’s The Pagans and Fun House Stooges, and revved them up to a velocity faster a volcano hurls rocks into the air. Fantastic. The equally striking Börn put “Love in a Void” Siouxsie & the Banshees and The Poison Girls in a food processor to invent one of the most jarring bands it’s possible to witness. The trio Kælan Mikla were best of all though: a drummer, bassist and singer who could barely play with poetry on their minds – a very very angry and very very dark Delta 5. Should these all be evidence of where Iceland’s music is heading – or at least where some of it is heading – next year will be very interesting.

Þó mér finnist bæði The Knife og The Flaming Lips frábær dæmi þá má segja í sögulegu ljósi að sjóin hjá þeim séu í ætt við Pink Floyd og Genesis – Einmitt sama jafnan og pönkið kom upp gegn á sínum tíma. Ergo: Sagan endurtekur sig.

Jólagjöf ársins

15 Nóv

domnefnd
Rannsóknarsetur Verslunarinnar hefur valið NYTJALIST jólagjöf ársins 2014. Þetta var ákveðið á fundi valnefndar sem ég var aðili að. Þær jólagjafir sem ég stakk upp á á fundinum voru 5000 kall, gasgríma, og stígvél, sem var næstum því samþykkt. Nytjalist er samt fínt og nær yfir margt.

Talandi um jólagjafir þá er hér listinn minn:
* Stígvél (stærð 46)
* 78sn plötur (helst íslenskar)
* 78sn plötuspilari sem virkar og lúkkar vel (ekki seinni tíma endurgerð heldur orginal stöff)
* Málverk/myndverk eftir Jóhannes, Halldór Pétursson, Ísleif Konráðsson, Sölva Helgason, Dunganon og Blómeyju og Óskar
* Þrír snéru aftur eftir Guðberg Bergsson
* Myndasögubókin eftir Úlfhildi Dagsdóttur
* Lóaboratoríum eftir Lóu

Þetta er ágætt í bili.

Antík og skran

14 Nóv

Antíkmarkaðir og skransölur er þar sem aðalfúttið er. Að gramsa í gömlu dóti og borða góðan mat er það sem blívar í lífinu, svona þegar maður er ekki lengur fullur allar helgar og þunnur þess á milli. Ég hef gert sallagóð plötukaup að undanförnu. Hjá Rúnari í Kópavogi er allskonar gúmmilaði upp um alla veggi og út um öll gólf. Þar rakst ég á gott eintak af þeirri plötu sem hefur haft einna mest áhrif á mig, Prayers on Fire með The Birthday Party. Það var algjör uppgötvun að heyra þetta svona 1982 eftir að ég fann eintak í Safnarabúðinni. Ég þarf svo sem engin tvö eintök svo ég býð nú þessa plötu til sölu á slikk!

Í sömu hrúgu var plata með The Swell Maps, Jane from Occupied Europe, eðal lofi frá síðustu öld. Fjárfesti þar að auki í Örugglega með Bjögga Gísla og dýru útlendu plötunni með Ellý (með Hljómsveit Vic Ash). 78sn með Hauki Morthens þar að auki.

Nýlega var ég svo í eðal skúrnum hjá Kristbjörgu og Björgvini upp á Akranesi þar sem ég datt í lukkupott. Ekki aðeins fann ég ágætan slatta af 78sn plötum heldur líka Magic Key með Náttúru, Mandala með Trúbrot og Uppteknir með Pelican á góðu verði. Maður er hreinlega svamlandi í lukkupotti út í eitt.

Eins og allir vita er eina vitið að eta á veitingarhúsum í hádeginu þegar verðin eru viðráðanleg. Réttur dagsins á Sjávargrillinu var í gær hrefna og djúpsteikt svínasíða, svoleiðis lungnamjúkt hnossgæti að ég er enn með sleftauma minningana fyrir augunum. Geri aðrir betur á 2.190 kr.

Ég er í Fréttatímanum í dag að tala um heimildarmyndaþættina um íslenska dægurtónlist sem ég er að vinna að um þessar mundir. Það hefur alltaf verið stefnan að þetta verði bestu sjónvarpsþættir í heimi og verður hvergi kvikað frá þeirri stefnu. Þeir sem geta lagt hönd á plóg, vita t.d. um myndefni og annað dót sem gæti nýst eru hjartanlega velkomnir. Aðalvandamálið verður að troða þessari miklu og fjölbreyttu sögu í ramma 8 tæplega klukkutíma langra þátta, en það hlýtur að hafast.

drg-ft