Sarpur | apríl, 2014

Tvær skemmtilegar plötur!

29 Apr

cover
Hér er komin ný plata með Prins Póló! Hún heitir Sorrí og kemur út 15. maí. Nokkur laganna hafa þegar komið út, önnur ekki. Tólf lög, þessi:
Fallegi smiðurinn
Hamstra sjarma
Tipp Topp
Bragðarefir
Kosmos
Föstudagsmessa
Ég kem með kremið
Landspítalinn
Lúxuslíf
Vakumpakkað líf
Finn á mér
Grætur í hljóði

Eigum við ekki að hlusta á Fallega smiðinn?

Prins Póló – Fallegi smiðurinn

10308069_10152190773757713_6870100967447415445_n
Elín Helena er pönkhljómsveit frá Selfossi sem var að koma út plötunni Til þeirra er málið varðar. Átján hröð pönklög og sáralítið rugl. Góðir textar og hressleiki. 

Eigum við ekki að hlusta á Þú ert með mér?

Elín Helena – Þú ert með mér

 

Stórfengleg Bítla-bók!

22 Apr

2320738053_b77548195c
Þá er ég loksins búinn með hana, lengstu bók sem ég hef lesið: „The Beatles: All These Years, Volume 1 – Tune In“ – hið mikla þrekvirki Marks Lewisohn, sem samt er bara fyrsta bindi af þremur. Bókin rekur Bítlasöguna fyrstu árin og hættir þegar árið 1963 gengur í garð og allt fer á flug. Þarna eru gríðarlegar upplýsingar um besta band í heimi á mótunarárum þess og stíllinn á þessu og stemmingin et mjög skemmtileg svo það er eiginlega hvergi á þessum 840 bls (+60 heimildaskrá) sem manni leiðist. Það er reyndar til önnur útgáfa af bókinni sem er helmingi lengri, en ég lét mér þennan doðrant nægja.

Myndin hér að ofan er í bókinni og er eina myndin sem er til af Bítlum og amfetamíni – eða „prellies“ eins og þeir kölluðu það í Hamborg. Á þessu lifðu þeir þar enda vaktirnar langar. Spurningunni „meig Lennon á nunnu“ er ekki algjörlega svarað en hann fór a.m.k. tvisvar á svið í Hamborg með klósettsetu um hálsinn – það er staðfest. Einnig kemur fram að Bítlarnir voru algjörir antí-sportistar svo svarið við hinni gömlu spurningu Héldu Bítlarnir með Liverpool eða Everton?, er: Þeim var drullusama.

Algjörlega frábær bók (það hjálpar náttúrlega að vera Bítilfrík) og ég bíð spenntur eftir næstu tveimur bindum (næsta væntanlegt 2020 – jæks!). Þessi Mark er nú alveg spes…

Etið og hangið yfir plötum í USA

10 Apr

Ég fór til NYC í ellefta skipti á dögunum. Borgin er eins og kunnugt er höfuðborg mannkynsins. Ferðin hófst á því að Haukur S. Magnússon náði í mig á JFK og við keyrðum í myrkrinu í gegnum New Jersey til Philadeplhia, þar sem hann býr ásamt unnustu sinni Juliu. Í New Jersey eru vegasjoppur nefndar eftir mikilmennum frá fylkinu. Við stoppuðum í Thomas Edison og saman slöfruðum við í okkur skammti af Popeyes kjúklingabitum. Þetta stóðst fyllilega allar væntingar sem ég hafði til þessa skyndibita. Ég er nefnilega gamall í Popeyes hettunni eftir að við Biggi Baldurs ánetjuðumst Popeyes bitum á Bless-árunum. Þegar Popeyes var á Íslandi var nokkur hátíð í bæ en það tímabil stóð stutt.

Allavega, það þurfti að éta meira enda klukkan að nálgast miðnætti og ekki hafði ég tímt ég að kaupa eitthvað í Flugleiðum. Borgarabarinn Village Whiskey var heimsóttur hvar ég skóflaði í mig hnausþykkum borgara með einhverju agalega fínu ofan á, gott ef ekki krabbakjöti. Frönskunum var velt upp úr gæsafitu, en ég fann nú engan mun.

Daginn eftir var haldið áfram í listisemdum.  Reading Terminal market er einhver geðsjúkasti matarmarkaður sem ég hef komið í. Þar fæst sennilega allt sem hægt er að éta, m.a. súkkulaðihúðaður laukur (sem ég smakkaði ekki). Við átum allaskonar og allt var ógeðslega gott. Amish fólkið er þarna m.a. með bása, það kemur úr sveitinni, konurnar með skuplur og kallarnir með skegg (sjá: myndirnar Witness og Kingpin). Ég keypti gulrótarsafa af Amish manni sem var svo góður að ég er enn að hugsa um hann (drykkinn þ.e.a.s., ekki kallinn!).

2014-02-22 11.28.40
Hér eru Júlía og Haukur á markaðnum. Eitthvað fleira var gert þennan dag. Við fórum að hjóla, ég á peysunni enda svona 15 stiga hiti. Fólk þarna trimmar og hjólar vilt og galið meðfram Schuykill ánni og leiðinni, hana nú, er stytta af Íslendingi: Þorfinni Karlsefni e. Einar Jónsson. Ég tók enga mynd.

2014-02-22 14.35.39
Philadelphia er þekkt fyrir Philly soul músík og nokkrar poppkempur. Hér er ég við mynd af þeim. Þetta eru menn eins og Chubby Checker (Twistmaðurinn ógurlegi) og Frankie Avalon, sörfmyndakempa. Þessi veggur er rétt hjá tveimur þekktustu Philly Steak sandwich stöðum borgarinnar, þeim Pat’s King of Steaks og rasistabúllunni Geno’s steaks. Fíladelfía steiksamloka er nú ekkert svo æðisgengið fyrirbæri, þó át ég eitt stykki frá sjálfum Pat sem byrjaði á þessu 1930 og er frumkvöðullinn. Frekar bragðdauft, en eftir að ég tróð nokkrum chilibelgjum ofan í kom smá fútt í málið. Við fórum á markað og eitthvað svona gauf, en um kvöldið var komið að tónleikum með Kenye West í sjálfri spilavítisborginni Atlantic City. Pleisið er náttúrlega eins og mini Vegas og ég reyndi að komast í Boardwalk Empire fíling á bordvolkinu. Tókst nú varla þótt gaman hefði verið að sjá Atlantshafið þarna megin séð. Tróð nokkum 1$ bills í vélar, drakk eitthvað sull og svo komum við okkur fyrir í íþróttaskemmu og sáum Kenye West tónleika.
2014-02-22 20.49.06
Ég fíla Kenye. Hann er popp og artí í einum pakka. Sjóið minnti mig á Biophilíu-sjóið hennar Bjarkar, hvítklæddar mussukonur væfluðust eitthvað um og Kenye sýndi listræna tilburði. Fyrir aftan hann var pýramídi og á tímabili skottaðist einhver loðin vera með rauð augu þar um og minnti á verk eftir Gabríelu Friðriksdóttur. Kenye tók spjall um hvað það væri erfitt að vera frægur og mikil vinna, hann hafði til dæmis verið heila nótt að velja besta efnið til að hafa í bolina sem hann selur á tónleikunum. „Það er frábært efni í þessu bolum!“ sagði Kenye, enda eins gott, ekki voru þeir gefnir. Ég hefði nú samt kannski keypt mér einn ef þeir hefðu verið flottari. Gaman að sjá Kenye.

Á sunnudaginn bar það helst til tíðinda að við átum geðsturlaðar samlokur á Paesano’s Philly Style – lítilli búllu með svaka röð. Magnað. Keypti bol! Svo Kínavagninn til NYC þar sem glæsiherbergi beið mín á YMCA (vönduð umfjöllun hér). Við Haukur fórum á Comedy Cellar, þar sem Louie CK byrjar alla þættina sína. Þetta er algjört færiband og alltaf fullt af túristum. Einir 5-6 standöpparar komu fram, flestir slappir með eitthvað endalaust grín um gesti staðarins, sem virtist finnast þetta ægilega fyndið. Eru einhverjir hérna frá Frakklandi?! Ég þoli ekki Frakka! O.s.frv. Frekar slappt. Allavega ekkert Mið-Ísland kvalítet. Við átum eitthvað líka og hittum auðvitað minn landflótta vin Kristinn Jón á hverjum degi. Steinn og Trausti komu svo og við dvöldum í Eplinu í 4 daga. Þeir voru alveg gaga í plötubúðunum, fóru í einar 7-8 á hverjum degi og ég lufsaðist með sem voru mistök. Ég og plötubúðir erum bara ekki saman lengur. Ég hef tekið Spotify sem leiðtoga lífs míns í músíkhlustun og dettur ekki í hug að eyða pening í einhverja forneskju.

2014-02-26 12.03.29
Hér má sjá vini mína in aksjón í einni holunni. Í staðinn fyrir að hanga yfir þessu hefði ég getað spókað mig um á Moma eða eitthvað en það er of seint að spá í því núna. Man það bara næst!

2014-02-27 13.28.38
Hér má sjá Stein fórna höndum í búðinni The Thing í Brooklyn. Þar er djökið í kassavís og hvað ofan á öðru svo það er vonlaust að skoða neitt af viti nema eyða í það nokkrum vikum. Hreinasta klikkun þessi sjoppa.

2014-03-01 14.44.04
Fóstbræðurnir Kristinn Jón og Steinn Skaptason höfðu ekki hisst í 26 ár eða síðan Kristinn yfirgaf okkur til að stunda ólöglegan innflytjanda í láglaunastarfi. Þeir þurftu mikið að ræða málin svo eðlilega urðum við Trausti eins og aukaleikarar í þessu sjói. Sem var nú allt í lagi því Kristinn og Steinn eru náttúrlega blússandi gott dæmi sem gaman var að fylgjast með. Hér eru þeir fyrir utan Sylvia’s kjúklinga í Harlem sem er ofsagott sálarfúdd dæmi. Ekki tókst að draga Kristinn með til Íslands, sem hafði þó verið helsti tilgangur ferðarinnar. Hann kemur kannski seinna! 

Einn einn tveir lagið!

9 Apr

drg-vinirhans
https://drgunni.files.wordpress.com/2014/04/dr-gunni-112-mix-01_01.mp3Dr. Gunni & vinir hans – Einn einn tveir lagið

Ég tók að mér það spennandi verkefni að semja lag fyrir Neyðarlínuna, 112. Textann gerði sjálfur Þórarinn Eldjárn.

Svo segir í fréttatilkynningu: Í tilefni af Barnamenningarhátíð 2014 þá hafa Dr.Gunni og Þórarinn Eldjárn samið lagið Einn, einn, tveir  í samvinnu við Barnamenningarhátið og Neyðarlínuna.  Flytjendur eru Friðrik Dór, Magga Stína, Dr.Gunni og vinir hans. Allir fjórðu bekkingar í Reykjavík munu taka þátt í frumflutningi á þessu fjörugu popplagi í opnunarathöfn Barnamenningarhátíðar í Hörpu, þann 29. apríl næstkomandi. Lagið er listilega einfalt í flutningi og munu Dr.Gunni, Friðrik Dór og Magga Stína aðstoða krakkana í söngnum. 

Í texta lagsins er sérstaklega vakin athygli á neyðarnúmerinu 112 og að ekki eigi einungis að notast við númerið þegar eldsvoða og slys ber að höndum heldur líka ef þér líður illa eða einhverjum sem þú þekkir líður illa.

Öryggi er þema hátíðarinnar og munu ofurhetjurnar Óður og Flexa einnig kenna börnunum að fljúga með dansi ásamt fleiri óvæntum atriðum sem sýna mikilvægi þess að nýta sér neyðarnúmerið 112. 

Auk fyrrnefndra leggja Slökkviliðið , Landsbjörg, Sinfóníuhljómsveit Íslands og  nokkrir leikarar hátíðinni lið. Í lokin munu Dr.Gunni og félagar bjóða upp á hressa tónleika.
Þegar er orðið uppselt á þennan viðburð þar sem öllum 1400 fjórðu bekkingum í Reykjavík er boðið.
Texti Þórarins er svona:

EINN EINN TVEIR LAGIÐ

Neyðarnúmerið
sem notast allir við
það er aðeins eitt,
ekki hika neitt,
ekkert bis og baks
bara hringja strax.

Ef einhver um það spyr þá eru stafirnir:
EINN EINN TVEIR
aðeins þeir
EINN EINN TVEIR
ekkert meir.

Neyðarnúmerið
sem notast allir við
– ekki einungis
við eldsvoða og slys –
er líka vernd og vörn
sem virkar fyrir börn.

Ef einhver um það spyr þá eru stafirnir:
EINN EINN TVEIR
einmitt þeir
EINN EINN TVEIR
ekkert meir.

Eru þá ekki allir búnir að ná númerinu?

Vinýlnördar athugið:

4 Apr

Trausti og Steinn verða í Kolaportinu á morgun, laugardaginn 5. apríl með sprengisölu á allskonar eðalefni. Hér er rándýrt plaggat:
10152102_10152729681678012_1458648635_o
Góða skemmtun!

Úr tónlistarlífinu

3 Apr

glen-matlock
Ég er ekki frá því að einu sinni hafi mig dreymt að Sex Pistols væru að spila í Hamraborginni í Kópavogi. Nú er þetta næstum því að rætast því Glen Matlock kemur fram á Punk 2014 á Menningardögum Kópavogs í byrjun maí – nánar tiltekið 8. maí á Spot. Glen er bæði núverandi og upphaflegur bassaleikari Sex Pistols, samdi flest lögin á Never Mind The Bollocks og spilaði á bassa þrátt fyrir að hafa verið rekinn rétt fyrir upptökur. Hann var ekki „nógu mikið pönk“ og þegar hann sagðist fíla Bítlana var það dropinn sem fyllti mælinn og sláni sem hafði hangið utan í bandinu var tekinn inn í staðinn á bassa, Sid Vicious. Glen kemur fram einn, spilar á kassagítar, syngur og segir frá lögunum – gott ef ekki svarar spurningum úr sal líka. Sagnfræði og pönk. Q4U og Fræbbblarnir koma svo líka fram á þessu Kópavogspönki ársins.

Nordic Playlist heldur áfram að kynna norræna músík. Í þessari viku er það Stefan Gejsing, einn af bókurum Hróarskelduhátíðarinnar sem velur efnið, allt bönd sem koma fram í sumar. “Tónlist frá Norðurlöndum hefur alltaf skipað stóran sess á Hróaskelduhátíðinni. Það er mikið af Norðurlandabúum sem koma á hátíðina og þeir kunna að meta að sjá uppáhaldsbandið frá heimalandinu sínu.” segir Stefan um mikilvægi norrænnar tónlistar á hátíðinni. Aðspurður um hvernig hann uppgötvar tónlist svarar hann: “Ég finn mikið af tónlist á netinu og hlusta á tónlist sem fólk sendir mér. Ég fer líka mikið á tónleika og aðrar hátíðir. Mér finnst það gaman og ég þreytist aldrei á að heyra eitthvað nýtt og spennandi. Ég held að það skipti mestu máli í starfi sem mínu að vera forvitinn.”
Fjölbreytt og áhugavert dót hér á ferð.


Plata Different Turns hefur verið lengi á leiðinni en kemur loksins út á morgun. Músíkin er Smashing Pumpkins-leg á köflum, en fer samt í ýmsar áttir. Hér er fréttatilkynningin: Á morgun kemur út fyrsta breiðskífa hljómsveitarinnar Different Turns, ,,If you think this is about you … you´re right“ sem inniheldur 13 lög. Different Turns byrjaði sem sólóverkefni tónlistarmannsins Garðars Borgþórssonar árið 2008. Síðar kom Hálfdán Árnason að verkefninu, en þeir félagar leika einnig saman í hljómsveitinni Ourlives. Við gerð plötunnar bættust í hópinn Gunnhildur Birgisdóttir söngkona og Eiður Rúnarsson gítarleikari. Hljómsveitin fer um víðan völl á þessari fyrstu breiðskífu sinni, en hægt væri að lýsa tónlistinni sem eins konar leikhús-rokki, því platan er í rauninni saga sem sögð er gegnum lögin. Það kemur ekki á óvart, því upphafsmaður hljómsveitarinnar hefur starfað í leikhúsi um árabil og ekki að furða að hann sæki innblástur þangað. Tvö lög af breiðskífunni hafa hljómað í íslensku útvarpi undanfarið. Það eru lögin „Erotomania“ og „A broken dream“, en þau hafa bæði fengið góðar viðtökur hlustenda. Ást, hatur og afbrýði skín í gegn í textagerð Different Turns á þessari fyrstu plötu og er greinilegt að hún segir frá óhugnanlegum atburðum sem hafa átt sér stað.

Kók í Paradís

1 Apr

Eins og komið hefur fram hefur verið uggvænleg þróun í kóladrykkju innanlands þar sem bæði bíó og matsölustaðir hafa hent út Coca Cola og bjóða í staðinn upp á hið miklu-síðra Pepsi Cola. Nú berast þau gleðitíðindi að besta bíóið í bænum, Bíó Paradís sé komið með Coca Cola og geti því boðið upp á hina klassísku tvennu og ekkert kjaftæði! Enn ein ástæðan til að fara í Bíó Paradís, segi ég nú bara!

PS – Þetta er ekkert aprílgabb!