Sarpur | júní, 2014

Upp á þrjú fell

23 Jún

Ég hef nýlega drifið upp á þrjú fjöll, sem öll heita fell þó þetta séu nú engin aumingjafjöll og ættu frekar að heita fjöll en fell.
Geitafell
Geitafell (509 m) er í Grafningnum. Formlaus haugur sem nokkurn tíma tekur að labba á, bæði að fjallinu og upp skriður þess og svo eitthvað hjakk uppi á hæðsta punkt. Útsýni um Reykjanesið og Suðurland ágætt, en ekki mjög spennandi fjall. Gott að það sé „búið“.

Kvigindisfell
Kvígindisfell (783 m) er í Kaldadal. Upp á topp er stikuð leið sem alltaf er ágætis mál því maður er alltaf smeikur um að lenda í einhverju rugli. Þétt labb og gott útsýni, m.a. yfir Súlur, Þingvelli, Hvalvatn og alla jöklana í Kaldadal. Kvíginsfellið er næs.

Bláfell
Í gær var svo skölt á Bláfell (1204 m), sem er töff sjitt á Kili, nokkru eftir Gullfoss. Þriggja tíma labb upp á topp. Þar er skúr og endurvarpsmastur og stórgott útsýni yfir Langjökul, Hvítárvatn og allt þetta stöff. Í betri skilyrðum hefði eflaust verið hægt að sjá víðar. Víðmynd sýnir dýrðina:
2014-06-22 16.06.26

Um tíma á leiðinni sá maður fyrir sér hættur á snjósköflum efst og tilhugsunin um að kjúklinga-út skaut sér að manni, en sem betur fer þrjóskaðist maður við og náði að toppa. Það var auðvitað minna mál en maður hélt = ALLT er minna mál en maður heldur og því er fjallganga góð til að minna mann á það og lækna af aumingjaskap.

Í göngunni á Kvígindis- og Bláfell var allt vaðandi í smáflugum sem gerðu manni lífið leitt. Ég hef ekki tekið eftir svona flugnaböggi áður, kannski eru skilyrði svona góð núna fyrir kvikindin?

Bláfellsgöngu var fagnað með humarsúpu á Café Mika, Reykholti; hamborgara „með öllu“ í Pylsuvagninum, Selfossi og ís í Huppu, Selfossi. Allt var meiriháttar.

Að græða á túristum

20 Jún

10360393_10204494221222460_8346593553588346232_n
Nú um stundir eru uppgrip í túrisma. Íslendingar muna eftir síldinni sem hvarf og vita að allt getur breyst snögglega. Því er um að gera að moka sem mest upp úr vösunum á þessum útlendingum sem koma hingað til þess eins að „troða landið niður“. Er á meðan er. Við munum öll eftir Þjóðverjum að stela sykurmolum á kaffiteríum og viljum í lengstu afstýra svoleiðis. Þess vegna kostar eitt venjulegt Snickers 330 kr í sjoppunni við Geysi og 6200 krónur ofan í Bláa lónið, en reyndar ekki „nema“ 3200 kr. í Fontana. 

Hér er flautublásari að segja okkur í hvað Bláa lóns okrið fer. Hér er svo skemmileg síða, Fooled By Iceland.

Rökrétt framhald

19 Jún

10481964_911824015509996_4184628249282740650_o
Innan í hræðilegu umslagi (artí leim) er glæný plata Grísalappalísu, Rökrétt framhald („ber nafn með rentu“ segir Mbl). Platan er komin á Spotify svo hér sé stuð. Gaman er af böndum sem hanga ekki yfir hlutunum, heldur smella í plötu með rétt árs millibili. Hraukaður fílingur er í ellefu laga pakka, margt svona hjakkað í „anda“ Fall og Pavement, en annað poppaðra. Flest skemmtilegt. Textaframburður er til fyrirmyndar á gáfnaljósuðum textum. „Tík“ minnir mig á Pop Group í villimennskum fönkbassafíling (án döbb hljóða þó); „ABC“ og „Þurz“ er mesta indie-poppið, „Nýlendugata-Pálsbæjarvör-Grótta“ er dúndr,og „Melankólía“ er styðst (1.24). Drífa sig að fá sér eintak eða kynna sér plötuna á þar til gerðum miðlum (eins og t.d. Bandcamp).

Hljómsveitin ætlar á tónleikaferðalag í sumar um landið ásamt Dj flugvél og geimskip, sem segist á nýrri og undurfurðulegri heimasíðu vera að vinna að plötu.

ps – Það hlýtur einhver að hafa verið að steikja kleinur í húsinu.

Mexico með Gus Gus

13 Jún

ggus-mex
Gus Gus – Sustain
Mikil fengur er í nýrri Gus Gus plötu, enda var hestaplatan sem kom út fyrir þremur árum dúndurgóð. Nú er komin út 9 laga platan Mexico þar sem haldið er á ýmis teknósk mið, með og án stengja. Nokkur munur er á fíling laga eftir því hvort Högni, Daníel eða Urður er í aðalhlutverki, en allir fá eitthvað fyrir sinn snúð. Lögin eru:

01 Obnoxiously Sexual
02 Another Life
03 Sustain
04 Crossfade
05 Airwaves
06 God Application
07 Not The First Time
08 Mexico
09 This is what you get when you mess with love

Umslagið er töff. Ég smelli laginu Sustain inn í streymi. Getur einhver sagt mér úr hvaða gamla diskólagi bassalínan í þessu lagi kemur?

29 árum síðar skríður skrímslið

3 Jún


Betra seint en aldrei. Hér er ég loksins búinn að klippa saman myndband við titillag fyrstu plötu Svart hvíts Draums, Bensín skrímslið skríður. Við vorum alltaf að reyna að búa til myndbönd, strákarnir í bandinu, með frumstæðum græjum þess tíma, en þetta myndband strandaði á lokametrunum og kom því aldrei „út“ á sínum tíma. Við flæktumst eitthvað með videóvélina um Kleifarvatnssvæðið og skutum mæm inn í stofu heima hjá mér á Álfhólsveginum. Foreldrarnir líklega í útlöndum. 

Bensín skrímslið skríður kom út í mars 1985 og eins og sést á þessari úrlippu úr Þjóðviljanum var meiningin að gera myndband „á næstunni“. Í jarðfræðilegum skilningi eru 29 ár náttúrlega eitt augnablik.
bss11mars1985

Skásta vann

1 Jún

gnarr_og_co-4x
Hér er gullfalleg mynd eftir Birgi Ísleif síðan fyrir fjórum árum þegar allt var svo ferskt og spennandi. Nú fer þessu ævintýri að ljúka og nábleik gamalkunnug leiðindin að taka við. Í staðinn fyrir að kjósa það Besta mun maður líklega þurfa að sætta sig við að kjósa það skásta hér eftir sem hingað til.

Úrslit kosninganna í Rvk eru svo sem ekkert hræðilegt. Það skásta vann þótt það versta hafi líka unnið (hér er ég ekki að tala um hinn ágæta Halldór Halldórsson). Allir unnu sem sagt og enginn tapaði nema hugsanlega Albaníu Valdi en hann kemur bara sterkur inn næst.

Svo er Hanna Birna með einhverja svona vitleysu. Verður ekki að skrifa það á dáldið glataða langrækni?