Sarpur | nóvember, 2013

Hvað á að gera við dáið fólk?

30 Nóv

Þegar ég gekk einn morguninn framhjá Hólavallagarði fór ég að hugsa um það hvað það væri mikil eyðsla á plássi að grafa látið fólk. Þarna liggur það í mismiklum samruna við mold, húsfrúr, bankastjórar og kolamokarar – fólk sem fannst í alvöru allskonar vitleysa skipta rosa miklu máli á meðan það dró andann, velti sér kannski andvaka árum saman yfir tittlingaskít eins og peningum í stað þess að einbeita sér að því sem skiptir máli.  

Auðvitað eru kirkjugarðar tímaskekkja eins og ritvélaborðar, dagblöð og hrákadallar. Framtíðin er auðvitað tölvu-„garðar“ þar sem hægt er að minnist hins látna. Þetta er nú þegar byrjað á Facebook. Ég þekki látið fólk sem er ennþá á Facebook og fær kveðjur á vegginn sinn. Dálítið krípí, en svona er tæknin í dag.

Að grafa lífvana hylkið í rándýrri kistu og leifa svo tímanum að molda allt saman í klessu er svakalegt fornaldar dæmi, finnst mér. Mun betra er að brenna lík og best væri ef hægt væri að dreifa öskunni á víðavangi, en ekki hola henni niður í sérútbúnum garði. Eftir lagabreytingar síðustu ára má nú dreifa ösku látinna á opnum svæðum á Íslandi. Það þarf bara að gera það fjarri byggð og vatnsbólum. Hins látna má svo minnast á sérstökum vegg í tölvugarði eða bara á Facebook þess vegna. 

Þess vegna finnst mér þessi líkturn sem DV greinir frá vera algjört rugl. Afhverju þarf að geyma kjöthylkið þegar það hefur lokið hlutverki sínu til þess eins að láta tímann vinna á því? Í Hólavallagarði eru fjölmörg óhirt leiði sem segir manni bara það að það eru allir dauðir sem muna eftir hinum látna. Hvað þarf margar aldir til að enginn man eftir neinum sem strögglar við tittlingaskítinn sinn í dag? Árið 2300 verður Megas kannski ennþá kenndur í grunnskólum en stórfenglegar tillögur Sigmundar og Bjarna sem kynntar verða í dag verða í mesta lagi níðþung spurning hjá afkomanda Stefáns Pálssonar í Útsvari (sem verður að sjálfssögðu ennþá á dagskrá 2300).

(AUKAEFNI: Gröf LenínsGarður.is / Find-a-grave)

Bavíanaeistu grædd í bankastjórapung

29 Nóv

parto_big
Þú heldur kannski að þú getir gengið að einhverju vísu en svo bara einn daginn verður allt breytt. Rás 1 til dæmis. Þú hélst að það væri hægt að halda úti menningarstöð á heimsmælikvarða en þá bara kviss bang. Sama gæti gerst með aðrar menningarstofnanir. Bíó Paradís – það frábæra fyrirbæri – nú, eða sýningar Kvikmyndasafnsins í Bæjarbíói, einn daginn bara kviss bang og aldrei meir. Því er um að  gera að hvetja fólk til að hætta að góna ofan í skjái og læka eitthvað rusl og neyta í staðinn menningar, það sem skilur okkur frá hinum dýrunum. 

Ég er alltaf að verða hlynntari Gömlu gufunni enda að nágast fullþroska. Hér eru dæmi um nokkra frábæra þætti:

Segðu mér, viðtalsþáttur Sigurlaugar Margrétar Jónasdóttur.
Tónlist í straujárni, fyrstu íslensku kventónskáldin. Umsjón: Una Margrét Jónsdóttir.
Tónlistarþátturinn Brot af eilífðinni með Jónatani Garðarssyni. Fyrri hluti af Andrews-systrum var til dæmis áðan.
Lemúrinn, kreisí sjitt eftir sama fólkið og er með síðuna. Til dæmis var frásögn af eistna-ígræðslu vísindum snemma á síðustu öld algjörlega hilaríös. Í þeim þætti kom m.a. fram setningin „Örþunnar sneiðar af simpasa- og bavíana-eistum voru græddar í pung á gömlum bankastjóra…“ (Pung-tengill)

Þetta er bara örbrot af gæðaefninu á Rás 1. Allt svo ínáanlegt í Sarpinum auðvitað. Ég nenni ekki að drulla yfir aðrar stöðvar, sem eru allar góðar til síns brúks, en Gamla gufan er bara langbesta stöffið. Vonum að það sé ekki búið að fjarlægja endanlega menningarpunginn af stöðinni.

Plata dagsins: Chili & The Whalekillers

29 Nóv


Íslendingar eru að gera góða hluti út um allan heim. Skeggjaði maðurinn sem syngur hér eigið lag með popphljómsveitinni Chili & The Whalekillers er rammíslenskur. Hann heitir Hjörtur Hjörleifsson.  Árni bróðir hans er saxófón/orgelleikari hljómsveitarinnar, en hann er hinn skeggjaði maðurinn í myndbandinu sem einnig fer með aðal-leik-hlutverkið. Afgangur bandsins er austurrískur. Þriðja plata sveitarinnar, Turn, kom út í október. Hjörtur skrifar: Breiðskífan „Turn“ er saman sett af lögum sem safnast hafa saman yfir hið einstaklega viðburðarríka síðastliðna ár, þar sem að hljómsveitin flutti saman í íbúð við lestarteinana í fjórtánda hverfi Vínarborgar. Tónlistin á Turn gæti maður lýst sem draumkenndu power-poppi lituðu af sjöunda áratugs sækadelíu, surf-rokki og jafnvel kántrý. Textarnir eru ekki síðir fjölbreyttir, sumir hverjir beatnik aðrir rómantískir, Bukowski, Marilyn Monroe og Simone de Beauvoir koma öll við sögu, sagt er frá sítrónugarði og elskhuga í Nürnberg.
Platan er nú þegar farin að vekja athygli í Austurríki, við höfum fengið fínustu dóma í fjölmiðlum og erum komnir í spilun á einni af stærri útvarpstöðvum landsins, FM4. Við höfum hugsað okkur að reyna að komast til Íslands í tónleikaferð.
Hlustið á meira með Chili & The Whalekillers á Soundcloud síðu sveitarinnar.

Ruddaskapur

28 Nóv

broken-radio-209x300
Gærdagurinn var vondur fyrir okkur sem fílum Ríkisútvarpið. Það virðist sem alltof mikill ruddaskapur hafi verið í gangi við niðurskurðinn. Baggalútur er með góða fréttaskýringu um málið. Djöfulganginum má mæta með undirskrift og mótmælastöðu.

Krakkar! Það skiptir máli hvað maður kýs yfir sig – það hefur eiginlega aldrei verið eins augljóst og þessa dagana. Plís ekki gleyma því næst þegar þig fáið tækifæri til að ákveða hvernig þjóðfélagi þið viljið búa í. Plís ekki láta ginna ykkur aftur með einhverri loforðasteypu sem aldrei verður staðið við. 

Ég hélt í einfeldni minni að „landið væri að rísa“ og XDogXB myndu spýta í lófana og bjóða upp á einhverja fönkí framtíðarsýn. Í staðinn er ekki boðið upp á annað en ennþá meira svartagall en sl. 5 ár og engar lausnir aðrar en gamaldags veiða fisk og steypa ál-hugmyndir. Hver er hugsuður þessarar ríkisstjórnar? Hefur einhver framtíðarsýn? Bara djöflast í gömlum hugmyndum þangað til heimurinn ferst vegna súrnun sjávar og bla bla bla?  Er ekki hægt að bjóða manni upp á annað en súrsaða hrútspunga í landi allsnægtanna?

Annað sem kom í ljós í gær, og er líka lélegt, en á öðru sviði, er að tvær bestu tónleikahátíðir sumarsins munu fara fram á SAMA TÍMA. Eistnaflug fer fram helgina 10-12 júlí og ATP fer fram í annað sinn á Ásbrú helgina 10-12 júlí. Hér er um vonda skörun að ræða því slatti af fólki myndi vilja fara á báðar hátíðirnar og verður nú að velja. Ástæðan fyrir þessu er víst sú að ATP gat ekki verið á öðrum tíma vegna ótrúlega magnaðs lokaatriðis sem verður tilkynnt um bráðlega og gat bara komið til landsins á þessum tíma. Ég hef ekki hugmynd um hvað það atriði er. Erða Tom Waits? Neil Young? Öööö… Lady Gaga!? Þótt ekki sé búið að tilkynna um eitt einasta atriði er byrjað að selja miða á ATP. 

Dýravinurinn Davíð Oddsson

25 Nóv

194676650_8818a92428_n
Davíð Oddsson er frábær gaur eins og allir vita, og ekki síst vegna ofsaviðbragðanna sem hellast yfir marga þegar hann ber á góma. Ég fékk Davíð læf þegar ég heimsótti hann um árið, en áður en ég herti upp hugann og fór á hans fund bar ég að sjálfssögðu óttablandna virðingu fyrir honum. Einu sinni gekk ég skjálfandi á beinunum ýtandi barnavagni framhjá húsinu hans í Skerjafirði. Þá var hann fyrir utan í bláum smíðaverkstæðissloppi hendandi mat í kött. Bæði kötturinn og Davíð skutust í burtu áður en ég komst alla leið að húsinu.

Nýverið heyrði ég frá áreiðanlegri heimild að Davíð standi í miklu dýrafóðrunarstarfi í kringum húsið sitt. Hann er eins og eins manns Rauði kross dýranna í Skerjafirði. Ekki nóg með að villikettirnir rói á vís mið heldur líka krummarnir, mýsnar og gott ef ekki rotturnar líka. Nýjasta viðbótin er stæðilegur mávur sem Davíð er búinn að hæna að sér með matargjöfum. Nokkur hávaði er í máfinum þegar matargjafir fara fram. Nágrannarnir, sem lýst misvel á Rauða krossinn, kalla máfinn Glitni.

Plata dagsins: Tilbury

25 Nóv


Tilbury er hljómsveitin hans Þórmóðs Dagssonar, aka „bróðir Hulla sem drekkur piss“. Góður dampur er í bandinu. Fyrsta platan Exorcise kom út í fyrra en nú er búið að kýla á aðra, Northern Comfort.
Í fréttatilkynningu segir: Northern Comfort inniheldur tíu lög sem fjalla meira og minna um veður og rómantík. Eða öllu heldur veðurbarða rómantík. Hljóðheimurinn er ýmist kaldur og stormasamur, eða hlýr og lygn. Þarna má finna angurværar ballöður, rokk og ról og meira að segja smá diskó. Þetta er svo allt saman bundið saman af einkennilegum hljóðheim sem gefur verkinu heildarmynd.
Tilbury verða með útgáfutónleika í Kaldalóni í Hörpu þann 28. nóvember nk. og aðra daginn eftir á Græna hattinum á Akureyri.

Í Leynifélaginu

24 Nóv

leynifelagid_0
Stelpurnar í Leynifélaginu – besta barnaútvarpsþætti í heimi – eru í góðu stuði þessa dagana og bjóða upp á úrvalsefni. Í síðasta þætti fékk ég að kynna öll lögin á ALHEIMINUM! og þátturinn þann 15. nóv var tileinkaður Heiðu sem hefur þónokkuð margar fjörur sopið í barnalegri músík. Hlusta hlusta!

Æskan

24 Nóv

„Í þessu húsi fór æska hans fram“ ‎– sagði þulur eftirminnilega í einhverri rússneskri heimildarmynd sem sýnd var í MÍR. Ég var reyndar ekki á þessari sýningu en Biggi Baldurs sagði mér frá þessu. Það var einhver Íslandssjúkur Rússi sem las yfir myndina á sérkennilegri íslensku og þessi setning var einn af hápunktunum.
Æska mín fór fram á Álfhólsvegi 30a. Ég bjó þar alltaf þar til ég flutti út og til Rvk 1988, held ég. Kópavogur er samt minn andlegi heimabær – ræturnar. Ég hef lesið ógrynni af ævisögum og þær byrja yfirleitt á æsku viðkomandi viðfangs. Öllum finnst æska sín frekar spennandi og sjá hana í roða. Nema náttúrlega þeir óheppnu sem bjuggu við harðræði í félagsskap vondra manna.
Æska fólks líkt og draumar þess eru þannig að manni (þ.e.a.s. mér) finnst ekkert skemmtilegt að heyra fólk tala um það. Ég sóna út þegar fólk byrjar að röfla um það hvað það dreymdi í nótt og ég les mjög hratt yfir æsku-upprifjanir í ævisögum – þá skautar maður yfir æskuna til að komast í aðalstöffið.  Öðru máli gegnir þó um hreinar og beinar uppvaxtarsögur. Þær eru margar góðar,  t.d. bernskusögur Guðbergs og Jóns Gnarrs bækurnar.
Fólki finnst sínar eigin draumfarir rosa merkilegar og spennandi (eðlilega) og halda að æskuupprifjun þess í bókum snerti einhvern sammannlegan streng – sem það gerir eflaust hjá mörgum. En ekki mér.
En allavega. Að þessu sögðu langar mig að birta hér eigin æsku-upprifjun sem birtist í blaðinu Kópavogsblaðið í nóvember 2011. Það hefur að sjálfssögðu enginn áhuga á þessu nema í mesta lagi fólk sem ólst upp í Kópavogi á svipuðum tíma. Og mér, sem finnst þetta rosalega gott og merkilegt. Í nótt dreymi mig…
KB-NÓV-11_Page_12
Smelltu á myndina ef þú nennir að lesa þetta.

Plata dagsins: Dj. Flugvél og geimskip

23 Nóv

djflugvelar-glamur
Dj. Flugvél og Geimskip – Trommuþrællinn
Út er komin hljómdiskurinn Glamúr í geimnum með Dj. Flugvél og Geimskip, sem er listamannsnafn Steinunnar Harðardóttur (dóttir Harðar í Apparat Orgel Kvartett). Þetta er svaka fínn diskur, 8 lög á 25 mín. Þótt það segi nánast engum neitt þá kýs ég að lýsa tónlistinni þannig að hún hljómar eins og Magga Stína að gera tónlist með finnska listamanninum Keuhkot. Toppnæs plötuumslag er á plötunni og vidéoið við titillagið er svo flott að það verður kosið myndband ársins í sérstökum þætti um jólin (ef það væri 1993). Ég gef þessum diski 738 stjörnur af 5 mögulegum.

Plata dagsins: Lay Low

21 Nóv

RECD035-Lay_Low_TATW-hires
Lay Low – It goes without saying
Fjórða stúdíóplata Lay Low, Talking about the weather, er á ensku og áframhaldandi sköpunarverk á ferlinum. Það eru kannski ekki jafn margar tilraunir og síðast á hinni frábæru Brostinn strengur, heldur meira um traust kántrí/blús/rokk-efni. Skemmtilegar eru bakraddirnar í laginu hér að ofan, einu að mörgum góðum lögum á plötunni.

Sjáið Lay Low Læf: Útgáfutónleikar í Fríkirkjunni ANNAÐ KVÖLD! (MIÐAR) og svo sunnudagskvöldið 24. nóvember í tónleikaröðinni Mölinni á Drangsnesi. 

Hér kemur nettur vaðall úr fréttatilkynningu: Nafn nýrrar hljómplötu Lay Low, Talking About the Weather, skírskotar til nýrrar en þó gamallar festu í tilveru listakonunnar. Hún flutti nýverið aftur af mölinni á suðurlandið í leit að ró til að koma frá sér þeim hljóðheimi sem hefur verið að þróast innra með henni. Hér kveður við nýjan og persónulegri tón, veðurfarið og nándin við náttúruöflin fór ómeðvitað að setja mark sitt á sköpunina. Heimkoman í sveitina sendir laga- og textasmíðar í óvæntar áttir, en drepið er niður í fortíðinni, ljúfsárt uppgjör við æskuár, veikindi, sjálfstæðisbaráttu manneskjunnar og listakonunnar.
Lay Low fetar nýjar slóðir í listrænum tökum sínum og hefur þetta að segja um ferlið: ,,Þetta er í senn sjálfsuppgjör og eigin áskorun. Mig hefur alltaf langað til að stjórna upptökum á eigin plötu og sjá um útsetningar og hljóðfæraleik og núna ákvað ég að taka eigin áskorun í þeim efnum og læra að treysta á sjálfa mig. Mig langaði í aðra röndina að sýna fram á að konur geta margt sem oft eru álitin hefðbundin karlhlutverk í tónlistargeiranum en fyrst og fremst langaði mig til að ögra sjálfri mér og takast á við hljóðheim sem er búinn að búa innra með mér lengi og finna honum farveg á eigin forsendum. Það blundar í mér stjórnsemi sem ég þurfti að fá útrás fyrir en um leið fann ég sjálfstraust sem var mikilvægt fyrir sköpunarferlið og mig sem manneskju. Það hafði líka mikil áhrif á mig að flytja aftur á suðurlandið. Í nálægðinni við náttúruna fann ég ró sem ég var að leita eftir.”
Hljóðblöndunin var í höndum breska upptökustjórans Ian Grimble, en hann hefur getið sér gott orð fyrir störf sín sem upptökustjóri með hljómsveitum á borð við Daughter, Beth Orton, Benjamin Francis Leftwich, auk skosku hljómsveitarinnar Travis svo fáeitt sé nefnt. 
Platan Talking About the Weather inniheldur 11 lög en lagið Gently er þegar farið að heyrast í útvarpi. Lagið skaust m.a. beint upp í áttunda sæti Vinsældarlista Rásar 2 eftir fyrstu viku í spilun.