Þegar ég gekk einn morguninn framhjá Hólavallagarði fór ég að hugsa um það hvað það væri mikil eyðsla á plássi að grafa látið fólk. Þarna liggur það í mismiklum samruna við mold, húsfrúr, bankastjórar og kolamokarar – fólk sem fannst í alvöru allskonar vitleysa skipta rosa miklu máli á meðan það dró andann, velti sér kannski andvaka árum saman yfir tittlingaskít eins og peningum í stað þess að einbeita sér að því sem skiptir máli.
Auðvitað eru kirkjugarðar tímaskekkja eins og ritvélaborðar, dagblöð og hrákadallar. Framtíðin er auðvitað tölvu-„garðar“ þar sem hægt er að minnist hins látna. Þetta er nú þegar byrjað á Facebook. Ég þekki látið fólk sem er ennþá á Facebook og fær kveðjur á vegginn sinn. Dálítið krípí, en svona er tæknin í dag.
Að grafa lífvana hylkið í rándýrri kistu og leifa svo tímanum að molda allt saman í klessu er svakalegt fornaldar dæmi, finnst mér. Mun betra er að brenna lík og best væri ef hægt væri að dreifa öskunni á víðavangi, en ekki hola henni niður í sérútbúnum garði. Eftir lagabreytingar síðustu ára má nú dreifa ösku látinna á opnum svæðum á Íslandi. Það þarf bara að gera það fjarri byggð og vatnsbólum. Hins látna má svo minnast á sérstökum vegg í tölvugarði eða bara á Facebook þess vegna.
Þess vegna finnst mér þessi líkturn sem DV greinir frá vera algjört rugl. Afhverju þarf að geyma kjöthylkið þegar það hefur lokið hlutverki sínu til þess eins að láta tímann vinna á því? Í Hólavallagarði eru fjölmörg óhirt leiði sem segir manni bara það að það eru allir dauðir sem muna eftir hinum látna. Hvað þarf margar aldir til að enginn man eftir neinum sem strögglar við tittlingaskítinn sinn í dag? Árið 2300 verður Megas kannski ennþá kenndur í grunnskólum en stórfenglegar tillögur Sigmundar og Bjarna sem kynntar verða í dag verða í mesta lagi níðþung spurning hjá afkomanda Stefáns Pálssonar í Útsvari (sem verður að sjálfssögðu ennþá á dagskrá 2300).
(AUKAEFNI: Gröf Leníns / Garður.is / Find-a-grave)