Sarpur | júlí, 2012

Ís og sund á Norðurlandi

31 Júl


Hin árlega ís og sund-ferð á Norðurlandi er yfirstaðin og var meganæs sem endranær. Við gistum í húsi á Hauganesi með alveg hreint stórkostlegu útsýni yfir hinn frábæra Eyjafjörð. Konan í næsta húsi sagði að það væru alltaf hvalir að stinga sér þarna á hafinu, en sama hvað ég glápti þá sá ég enga. Veðrið eins og best gerist erlendis.

Það er löngu vitað er Brynja er með langbesta ísinn „úr vél“. Ætli það hafi ekki margir reynt að fá Brynju-fólkið til að selja sér „fransæs“ af ísnum til að opna  útibú í Rvk? Ég trúi ekki öðru. Þau hafa eflaust alltaf neitað. Mig minnir að ég hafi lesið þetta einhvers staðar.Vesturbæjarísinn er ekki alveg jafn góður, þótt hann sé áþekkur og auðvitað fínn.

Skyrís með íslenskum bláberjum frá Holtseli er svo besti ís í heimi, punktur. Ég svolgraði í mig einni kúlu á nó tæm beint frá býli. Krakkarnir fengu að skoða hænurnar og kýrnar. Ísinn frá Holtseli fæst oft í Melabúðinni og hefur svipaða virkni og geðlyf. Allavega á mig. Ekki það ég hafi prófað geðlyf. En ég ímynda mér að þetta sé svipað.

Kom með svo ekki ísbíllinn á Hauganes svo það var ekki umflúið að fá sér aðeins meiri ís fyrir svefninn. Ding ding ding, fáðu þér ís.

Sundlega séð var tekinn traustur rúntur í tvær af bestu laugum landsins, Akureyrarlaugin og Þelamerkurlaug. Á leiðinni til baka var lengri leiðin farin til að stoppa á Hofsósi og prófa sundlaugina sem ríku konurnar reistu. Það er frábær laug með hreint geðbiluðu útsýni yfir Skagafjörð og Drangey. Gott þegar ríkt fólk geri eitthvað af viti við aurinn sinn.


Í Minjasafninu á Akureyri er ágætis ljósmyndasýning, gamlar myndir frá Akureyri. Safnið varð fimmtíu ára í ár og lét endurgera Valash appelsíndrykkinn frá Sana að því tilefni. Stelpan í afgreiðslunni gat ekki svarið að þetta væri sama uppskrift og gamla Valashið, en þetta smakkaðist allavega alveg ágætlega, eins og sætara og „Mix-aðra“ Egils appelsín. Mikil nostalgía hér á ferð fyrir Akureyringa. Ég held að Valashið hafi hætt að fást svona 1985, en það var ásámt Mixinu það sem hæst bar í nokkuð fjölbreyttri goslínu Akureyrar. Ég man ekki til þess að hafa drukkið þetta í gamla daga, en ég gef þessari endurgerð hiklaust þrjár stjörnur! (Fæst í Minjasafni Akureyrar á 200 kall flaskan).

Svo erum við auðvitað að tala um norðlenska beisik: hinn frábæra Jólagarð, hið frábæra Safnasafn og hina frábæru Frú í Hamborg, sem því miður hefur nú lokað.

Á leiðinni norður ákváðum við að sleppa alveg hinum grautfúlu vegasjoppum og stoppa frekar á Hraunsnefi, sem er rétt á eftir Bifröst í Borgarfirðinum. Þar er mjög fínn matur í boði, aðeins dýrari en vegasjoppustöffið en margfalt betri. Krakkarnir gátu leikið sér við lömb og kálfa á meðan beðið var eftir matnum. Eðalklassi þar á ferð.

Leikskólaháskóla-Popppunktur

26 Júl

Popppunktur heldur áfram annað kvöld (föstudagskvöld). Nú er þátturinn reyndar kl. 18:20, á eftir fréttum. Fréttirnar hafa nefnilega færst til út af ÓL og þar með færumst við líka.

Tvö ansi skemmtileg lið etja kappi, lið háskólakennara og leikskólakennara. Ég lofa góðu stuði!


Háskólakennarar.


Leikskólakennarar.

Með Braga í tjaldi á Hornströndum

25 Júl

Við fórum loksins okkar fyrstu ferð á Hornstrandir, ég, Trausti og Biggi. Trausti tók þessar myndir á símann sinn.

Við sigldum til Hesteyrar frá Ísafirði. Rúmlega klukkutíma stím. Rosa gott veður og menn til í tuskið.

Gengum yfir Hesteyrarheiði yfir í Látra í Aðalvík. Það er rosa fallegt þarna, mikil náttúra og maður æstist allur upp við að losna við nútímann í smá stund. Helvítis leiðinda nútíma með sína samfélagsmiðla (gubb), nýjustu tækni í samskiptum (æl) og endalaust fjas og röfl um ekki neitt. Nei nei.

Við vorum ekkert að flýta okkur þarna yfir, en svo var tjaldað í Látrum. Mitt er þetta bláa lengst til hægri, eins manns tjald úr Ellingsen. Það er ákveðin áskorun í þessu. Smá hjartsláttur yfir því að það kæmi geðveikt veður og allt færi á flot eða maður fyki hreinlega út á sjó. Svo er líka spurningin um kúkinn. Hægt að míga hvar sem er en aðeins meira mál að kúka á víðavangi. Það er ágætis kamar á Látrum svo þetta atriði slapp nú alveg. Maður kúkaði bara fyrir daginn eftir vel sterkan kaffibolla í morgunmat. Ekkert mál.

Ég var með Hvíldardaga Braga Ólafssonar í tjaldinu og las. Fín bók hjá Braga, um mann í hálfgerðu andlegu tjaldi, getum við sagt. Eða nei. Bókin passaði allavega fínt í tjaldið. Maðurinn í bókinni var í algjöru veseni og á flótta frá vel flestu í lífi sínu, en ég var nú bara alveg slakur í tjaldinu. Svo vaknaði maður og þurfti að míga um miðja nótt. Hressandi. Hljóðið í rennilásnum er alveg spes í tjaldi. Og svo allt vaðandi í  flugum og pöddum á tjaldhimninum. Frábærleiki. Samt gott að komast aftur í rúm!

Mér fannst Aðalvík risastór séð frá Látrum og langt yfir í Sæból. En svo er þetta bara pínkulítið á Íslandskortinu. Við fórum ekkert yfir í Sæból því Páll Ásgeir var búinn að hræða okkur svo mikið (í bókinni sinni) með einhverjum einstigs-horror á leiðinni sem við nenntum ekki að hálfdrepa okkur á með allt draslið á bakinu.

Þess í stað notuðum við frídaginn til að klöngrast upp á Straumnesfjall þar sem Kaninn í paranojukasti kom upp stórri radarstöð til að njósna um Rússa á 6. áratugnum. Leifarnar af stöðinni standa þarna enn ansi draugalegar, flest húsin full af snjó og allt í maski. Þetta var svaka stöð og margir að vinna við að koma henni upp og svo að hanga í henni við njósnir. Ég þarf að lesa mér betur til um þetta, en dæmið endaði allavega á því að Kaninn gafst upp eftir rúmlega tveggja ára njósnir. Algjör geðveiki allt saman og rugl. Skýrt dæmi um að stórveldin áttu (eiga) alltaf endalausa peninga til að eyða í paranojuna. Gamlir hermenn sem unnu á radarstöðvunum á Íslandi eru með síðu á netinu þar sem lesa má allskonar fróðleik og skoða myndir. Straumnes-stöðin gekk undir nafninu H4.


Körfuboltaspjaldið í íþróttasalnum hangir enn uppi, en bíósalnum og barnum var rutt út á haf þegar Kaninn hætti og yfirgaf stöðina.

Eftir gömlu Kana-radarstöðina gengum við niður í Rekavík. Útsýnið frábært enda veðrið meiriháttar. Lengst til vinstri á þessari mynd sést yfir í Fljótavík. Maður fer þangað seinna. Í hina áttina sá maður til Bolungarvíkur og ég veit ekki hvað og hvað. Ísland er æðisgengið í góðu veðri, ef ekki öllu veðri. Hér tek ég mér hvíld til að syngja þjóðsönginn.

Áð við stórfenglegan fjallalæk og kröngluðum fótum dýft ofan í. Það er ekki laust við að hugurinn hafi reikað til Sigur Rósar. Þeir drengir flæktust um þessar slóðir og urðu svo uppnumdir að á plötunni Með suð í eyrum má bæði heyra lögin Straumnes og Fljótavík. Við gengum inn Rekavíkina og meðfram Rekavíkurvatni aftur í tjaldið í Látrum. Þarna í Rekavíkinni var svo mikil vatnaveröld að mér leið eins og froski í búri. Allt blautt og mosi og lækir og bakk tú neitjör fílingur.

Svo var þetta nú bara komið. Önnur nótt í tjaldinu og svo aftur til Hesteyrar yfir heiðina. Auðvitað pönnukökur og kaffi á Hesteyri og tékkað á gömlu hvalstöðinni innar í firðinum.

Þetta litla sem ég hef nú upplifað af Hornströndum er vonandi bara byrjunin á Hornstrandaflækingi mínum. Þetta er glæsilegt svæði og það er þessi frábæri skortur á nútíma sem er bestur og náttúrlega kraftmikil náttúran, eða ætti maður kannski að segja hin ferska órækt sem allsstaðar blasir við.

Frábær ferð!

Enn meira gos

21 Júl


Ég skipti við Jennifer Lopez. Sendi henni nokkra Sykurmola-bútlegga en hún sendi mér gos.

Snow white racinette (eins og rótarbjór útleggst á frönsku) er frá Kanada (St. Felix de valois í Quebec), kemur í dós og smakkast því dósalega og eiginlega eins og hann sé dáinn. Maður tekur sopa og finnst hann góður en svo kemur bragð eins og það sé dáið. Dálítið óferskt sem sé, en allt í lagi. Tvær stjörnur.

Úrvals rótarbjór kemur frá Johnnie Ryan verksmiðjunni í bænum Niagra Falls, NY. Hann er ljúfur, sætur og smá lakkrís-keimur af honum. Kannski ekki alveg í fremstu röð en traustur og fínn upp á þrjár stjörnur.

Ættingjar Bob Marleys viðast afa lagt blessun sína á gosframleiðslu í hans nafni. Nokkrar tegundir virðast til en ég smakkaði Marley’s mellow mood green tea. Ekki fann ég beinlínis fyrir návist meistarans í sopanum, sem var – eins og grænir te-gosdrykkir eru jafnan – vægur og máttlaus. Bara svona bragðlítið íste en alveg la la og dálítið sniðugt að troða ásjónu meistarans á flöskuna. Tvær stjörnur.

Í Melabúðinni fékk ég Fentiman’s Shandy. Fentiman’s verksmiðjan er í Hexham á Englandi og má fá ýmsa drykki frá þeim á Íslandi (t.d. í Melabúðinni og í heilsubúðinni við hliðina á Aðalvideóleigunni). Shandy heitir það þegar einhverju (t.d. sítrus-ávaxtabragði o.s.frv.) er blandað við bjór. Allskonar mix er til af þessu um víða veröld (wiki). Þrátt fyrir að Fentiman’s Shandyið sé 70% bjór og 30% sítróna er drykkurinn ekki áfengur. Einhverjum myndi þykja þetta slæmt en ekki mér. Það furðulega er að þessi drykkur smakkaðist hálf ógeðslega til að byrja með en varð svo alltaf betri og betri og endaði í heilum þremur stjörnum. Kreisí.

Hér er engiferölið, Hr. Crowe

20 Júl

Russell Crowe (helv góður í Romper Stomper og víðar!) finnur ekkert engiferöl (ginger beer) á Íslandi skv. Twitter og íslensku upplepji.  Vissulega fæst ekki engiferöl í venjulegri sjoppu svo leikarinn þarf að kafa dýpra. All nokkrar sortir fást hér nefnilega af engiferöli sé vel að gáð. Ég hefi samviskusamlega skráð niður helstu tegundir á gömlu gossíðunni og svo vítt og breitt hér á nýja blogginu. Lítið bara á:

John Crabbie’s traditional cloudy ginger beer – hefur fengist í Melabúðinni. Tvær stjörnur.

Bundaberg ginger beer (sem er frá Ástralíu svo Crowe ætti nú að þekkja hann). Fæst í Kosti. Þrjár stjörnur.

Belvoir Fruit Farms Organic Ginger Beer. Fæst í heilsubúðinni Góð heilsa (við hliðina á Aðalvideóleigunni). Fjórar stjörnur!

Fentiman’s Ginger Beer. Fæst í heilsubúðinni Góð heilsa (við hliðina á Aðalvideóleigunni). Þrjár stjörnur!

Whole earth organic ginger beer – fæst í heilsubúðunum. Tvær stjörnur

Naturfrisk ginger ale – fæst í heilsubúðnum. Ein stjarna.

Old Jamaica Ginger Beer – hefur fengist í Melabúðinni og Drekanum. Þrjár stjörnur.

Og svo er meira að segja til íslensk útgáfa:

Engiferdrykkur Lífrænt Solla – fæst í Bónus, Hagkaup o.s.frv. Þrjár stjörnur.

Russell þarf ekki að lepja engiferölslausan dauða úr skel, svo mikið er víst. Ég vona að íslenskir aðstoðarmenn komi þessum upplýsingum til skila.

Flóð gáfnaljósa í Popppunkti

20 Júl

Eintómir stórsnillingar mætast í Popppunkt í kvöld þegar lið „Auglýsingamanna“ etur kappi við lið „Lífsskoðunarmanna“.

Auglýsingamenn: Örn Úlfar Sævarsson, Siggi Hlö og Villi naglbítur

Lífsskoðunarmenn: Valli í Fræbbblunum (trúlaus), Davíð Þór (Jesús) og Hilmar Örn (Óðinn).

Aldrei hafa önnur eins gáfnaljós látið gáfnaljós sitt skína á einu bretti í PP, heilir þrír spurningahöfundar eru í liðunum, Örn, Villi og Davíð Þór. Enda er leikurinn eftir því gáfulegur. Möst sí, eins og kerlingin sagði. Ég veit ekki hvaða kerling það var. Kannski var hún af erlendu bergi brotin.

Handritin heim

19 Júl


Ég var í sælunni í sumarfríi á Ísafirði þegar Arnar Eggert hélt sinn feikivel plöggaða tónlistarmarkað í garðinum hjá sér. Ég lá slefandi yfir fréttum af þessu en komst ekki, sem er kannski eins gott því það er beinlínis ekki eins og mig vanti meiri tónlist heim til mín. Og þó.

Þegar ég tók kast fyrir svona 18 árum og seldi mest allan vinýlinn minn bar Arnar einmitt meirihlutann af honum út í kassavís.

Ég hafði verið hálfsturlaður plötusafnari og í nokkur ár forfallinn sjúklingur í ástralska og ný-sjálenska tónlist. Alveg keypt frá mér allt vit í gegnum ástralska og ný-sjálenska póstpantana-servisa og allt borgað með bankatékkum í pósti. Örugglega 200 plötur alls eða eitthvað. Nú eru handritin komin heim því ég fékk þetta allt aftur frá Arnari – heilu bunkarnir af algjörum nóboddíböndum sem enginn hefur heyrt um eins og The Butcher Shop, Exploding White Mice, Chad’s Tree, Olympic Sideburns, The Died Pretty, Box of Fish, The Wreckery o.s.frv. og svo eitthvað sem er kannski örlítið þekktara, t.d.  The Go-Betweens, The Triffids og The Chills. Sjitt, ég næ örugglega aldrei að hlusta á þetta allt plús alla tónlistina sem er alltaf að koma út. Arg! Djók, ég er alveg slakur.

Arnar seldi vel en á samt helling eftir. Hann ætlar að halda áfram mokstrinum í Kolaportinu núna á laugardaginn – þar verður síðasti séns til að komast í feitt. Hér er Facebook-síðan fyrir söluna.

Besta bók í heimi í vinnslu

18 Júl


Vinna stendur nú yfir við bestu bók í heimi. Stuð vors lands – Dægurtónlist á Íslandi e. Gunnar Lárus Hjálmarsson. Sögur útgáfa 2012. Hún er væntanleg í haust. Risavaxin,  geðveikislega flott og svívirðalega djúsí. Hér er örlítið sýnishorn. Ætli þetta verði ekki svona 500-600 bls í 12″ vinýlplötustærð. Þú þarft að fara að redda þér sterkbyggðara sófaborði.

 

Rekaviður

16 Júl


Að reka við á rekavið í Rekavík.

Sorrí, ég bara varð.

Trausti Júl tók myndina, Orri hundur Bigga Baldurs var að sniglast í rassinum á mér.

Mögnuð ferð að baki. Meira síðar.

Ein ömurleg, önnur ágæt

15 Júl

Friends with Kids er ömurleg mynd sem við gáfumst upp á löngu fyrir miðju. Ég hélt þetta væri í lagi, hún er í þessu aðalleikkonan í hinni frábæru grínmynd Bridesmaids, en svo var þetta algjört leiðindadrasl, öll samtölin drasl og framvindan klisja með klisjusultu í klisjusósu. Ég verð eiginlega bara fúll að hugsa um það hvað þetta er ömurleg mynd. Núll stjörnur.

Young Adult með hinni sannfærandi Charlize Theron er aftur á móti fín. Dálítið hipp og kúl en líka sorgleg og fyndin. Hið frábæra lag The Concept með Teenage Fanclub af hinni frábæru plötu Bandwagonesque spilar stórt hlutverk í myndinni og Diablo Cody, sem fékk Óskarinn fyrir Juno, skrifar handritið. Mæli með þessari mynd. Þrjár stjörnur (af fjórum mögulegum!)