Hin árlega ís og sund-ferð á Norðurlandi er yfirstaðin og var meganæs sem endranær. Við gistum í húsi á Hauganesi með alveg hreint stórkostlegu útsýni yfir hinn frábæra Eyjafjörð. Konan í næsta húsi sagði að það væru alltaf hvalir að stinga sér þarna á hafinu, en sama hvað ég glápti þá sá ég enga. Veðrið eins og best gerist erlendis.
Það er löngu vitað er Brynja er með langbesta ísinn „úr vél“. Ætli það hafi ekki margir reynt að fá Brynju-fólkið til að selja sér „fransæs“ af ísnum til að opna útibú í Rvk? Ég trúi ekki öðru. Þau hafa eflaust alltaf neitað. Mig minnir að ég hafi lesið þetta einhvers staðar.Vesturbæjarísinn er ekki alveg jafn góður, þótt hann sé áþekkur og auðvitað fínn.
Skyrís með íslenskum bláberjum frá Holtseli er svo besti ís í heimi, punktur. Ég svolgraði í mig einni kúlu á nó tæm beint frá býli. Krakkarnir fengu að skoða hænurnar og kýrnar. Ísinn frá Holtseli fæst oft í Melabúðinni og hefur svipaða virkni og geðlyf. Allavega á mig. Ekki það ég hafi prófað geðlyf. En ég ímynda mér að þetta sé svipað.
Kom með svo ekki ísbíllinn á Hauganes svo það var ekki umflúið að fá sér aðeins meiri ís fyrir svefninn. Ding ding ding, fáðu þér ís.
Sundlega séð var tekinn traustur rúntur í tvær af bestu laugum landsins, Akureyrarlaugin og Þelamerkurlaug. Á leiðinni til baka var lengri leiðin farin til að stoppa á Hofsósi og prófa sundlaugina sem ríku konurnar reistu. Það er frábær laug með hreint geðbiluðu útsýni yfir Skagafjörð og Drangey. Gott þegar ríkt fólk geri eitthvað af viti við aurinn sinn.
Í Minjasafninu á Akureyri er ágætis ljósmyndasýning, gamlar myndir frá Akureyri. Safnið varð fimmtíu ára í ár og lét endurgera Valash appelsíndrykkinn frá Sana að því tilefni. Stelpan í afgreiðslunni gat ekki svarið að þetta væri sama uppskrift og gamla Valashið, en þetta smakkaðist allavega alveg ágætlega, eins og sætara og „Mix-aðra“ Egils appelsín. Mikil nostalgía hér á ferð fyrir Akureyringa. Ég held að Valashið hafi hætt að fást svona 1985, en það var ásámt Mixinu það sem hæst bar í nokkuð fjölbreyttri goslínu Akureyrar. Ég man ekki til þess að hafa drukkið þetta í gamla daga, en ég gef þessari endurgerð hiklaust þrjár stjörnur! (Fæst í Minjasafni Akureyrar á 200 kall flaskan).
Svo erum við auðvitað að tala um norðlenska beisik: hinn frábæra Jólagarð, hið frábæra Safnasafn og hina frábæru Frú í Hamborg, sem því miður hefur nú lokað.
Á leiðinni norður ákváðum við að sleppa alveg hinum grautfúlu vegasjoppum og stoppa frekar á Hraunsnefi, sem er rétt á eftir Bifröst í Borgarfirðinum. Þar er mjög fínn matur í boði, aðeins dýrari en vegasjoppustöffið en margfalt betri. Krakkarnir gátu leikið sér við lömb og kálfa á meðan beðið var eftir matnum. Eðalklassi þar á ferð.