Sarpur | október, 2016

Halló vinur!

29 Okt

Í dag er Hrekkjarvaka – Halloween – og hér er Páll Ívan frá Eiðum með eitt örfárra hrekkjuvökulaga á Íslandi. Lagið er á réttóútkominni plötu Páls, sem er frábær og æðislegt.

Hér er Sóley og Halloween.

Og enn meira Halloween, nú með Dead Kennedys.

Og hér er pólitísk yfirlýsing: Það eru margir ágætir kostir í stöðunni, og nokkrir ömurlegir. Ég ætla að gefa nördum og lúðum mitt atkvæði og kýs Pírata. Takk fyrir.

Gott stöff að Westan

28 Okt

mugison-enjoy
Enjoy!, nýja platan með Mugison er tilbúin og listamaðurinn stefnir á að koma henni út í næstu viku, á fimmtudaginn. Enjoy! fylgir eftir hinni ofutvinsælu plötu Haglél sem seldist geðveikislega mikið 2011, svo mikið að Mugison var maður ársins eftir ókeypis tónleika í Hörpu og viðamikla tónleikaröð um allt land.

Enjoy! er á ensku og er níu laga rólegheitaplata þar sem lögin vinna á við hverja hlustun og skríða inn í taugaendana á þér eins og feitur köttur sem leggst í bæli með rjómaskál. Kötturinn rís þó upp við dogg við og við, eins og í lögunum Hangover og I’m a Wolf. Hin lögin heita Deliver, Please, Who Would I Be Holding Tight, Tipsy King, Pissing In The Wind, Climbing Up a Dream og Lazing On. Pottþétt plata hjá Mugison = Þú kaupa.

a0909601015_10
Rythmatik hafa gefið út Waves, fimm laga plötu, sem m.a. má nálgast á Bandcamp. Þetta er önnur platan þeirra, Epilepsy kom út í fyrra. Á Waves halda strákarnir áfram að þróa sitt enskusungna gítarrokk með sannfærandi árangri. Á dögunum var bandið læf á Rás 2 og tóku þar Óla Hundaóla af Abbababb. Salóme Katrín Magnúsdóttir söng með. Hér er frábær rokk-Óli:

ATVIK eftir viku

25 Okt

14852993_10211918872354098_4685345531448206367_o
Eftir viku opnar málverkasýning og plötuútgáfa mín, ATVIK, í hinu fornfræga MOKKA KAFFI. Ég sýni 18 akrílverk sem máluð eru á plötuumslög. Inn í málverkunum er 18 laga plata ATVIK sem kemur aðeins út í 18 eintökum og fylgir með myndunum. Sýningin er sjálfhverf og sýna myndirnar 18 atvik úr lífi mínu. Lögin eru flest ný (nokkur tökulög) og tengjast efni myndanna. Myndirnir/plöturnar eru til sölu á kr. 45.000 stk. 

OfurEðlilegheit

21 Okt

Hér er myndin sem „allir“ eru að tala um: HyperNormalisation eftir Adam Curtis. Ég skrölti í gegnum þessa næstum þriggja tíma yfirferð um atburði sem leitt hafa til þess ástands sem við erum í í dag. Það hefði nú alveg mátt skera myndina niður, en þetta er engu að síður nokkuð hryllileg lýsing á nútímanum – Við erum peð sitjandi fyrir framan spegla. Nú er ég snarlega hættur á Facebook. Nei, þá missi ég af „öllu“.

Hér er stutta útgáfan, sem er eiginlega sterkari.

John Lydon opnar Pönksafnið

20 Okt

gilli-kover-rotten
Það er sjálfur John Lydon – áður Johnny Rotten – sem mun opna PÖNKSAFN ÍSLANDS þann 2. nóvember næstkomandi. Hvílíkur heiður! Hvílík snilld! John er frægasti pönkari heims og því tilvalið að fá hann til að klippa á keðjurnar þegar safnið opnar. Fyrir þá sem ekki vita var John söngvari Sex Pistols, og síðar PIL, og PÖNKSAFN ÍSLANDS er safn sem heiðrar og hyllir það besta í íslensku rokksögunni og verður til húsa að Bankastræti 0, gamla kvenna „Núllið“ (áður klósett).

John mun lesa úr verkum sínum í safninu, en hann kemur líka fram á ljóðakvöldi Airwaves, Airwords, í Kaldalóni fimmtudagskvöldið 3. nóv. Þar mun John stíga á svið á eftir engum öðrum en Bubba Morthens. Er þetta ekki of gott til að vera satt!?

Vísir um málið.

Nick Cave á Íslandi 30 ára

19 Okt

cave3
Í dag eru liðin 30 ár síðan Nick Cave & The Bad Seeds spiluðu í Roxzý, sem nokkru áður hafði heitið Safarí og átti enn síðar eftir að heita Casablanca. Þetta var aðalpleisið í Áttunni og tók við af Hótel Borg sem musteri öðruvísi liðsins. Þetta var bölvuð hola á Skúlagötu, við hliðina á þar sem Kex Hostel er í dag (dyrnar til vinstri). 

Ég var sem sé kominn til Lyon í Frakklandi þarna í október 1986 og heyrði fyrst í fréttunum af leiðtogafundinum í Höfða. Allt í lagi að missa af því, hugsaði ég. Skömmu síðar komu stórtíðindin, Nick Cave var að koma og átti að spila. Ég var auðvitað eyðilagður að missa af þessu, að vera fastur í Frakklandi með baguette og „Mónakó“ á kantinum. Mér fannst bjór svo vondur að ég lét setja grenadín út í og sú blanda heitir Mónakó. Þá loks kom ég þessu niður.

Ég heyrði af þessu síðar. Að Cave hefði verið geðveikur læf og að einhver hefði brotist inn í skip til að redda honum morfíni svo meistarinn hefði eitthvað. Hann var náttúrlega í bullandi rugli á þessum tíma, heróín og svona. Grammið átti glæsilega innflutningsþrennu 1986. Einsturzende Neubauten og Crime & The City Solution höfðu báðar spilað í Roxzý og S. H. Draumur hitað upp á báðum tónleikum. Við hefðum líklega hitað upp fyrir Cave líka ef ég hefði ekki verið þessi fáviti að fara til Frakklands. En hvernig átti ég að vita að Nick fokking Cave væri á leiðinni?

Steini gítarleikari var allavega mættur. Hæ Steini:
cave2

Myndirnar hér að ofan eru skjáskot úr kvikmyndaefni sem tekið var upp á tónleikunum. Þetta er til og vonandi verður það sett á netið sem fyrst. Auk tónleikaefnis er viðtal sem aumingja Skúli Helgason tók við snubbóttann Nick. Skúli spyr ýmsra gáfumannapopplegra spurninga sem Nick Cave hefur engan áhuga á að svara og flissar og snýr út úr öllu. Frekar óþægilegt á að horfa. En gott í sögulegu samhengi að sjá poppara gefa skít í dauðan og djöfulinn – það er eitthvað svo sjaldgæft í dag þegar popparar eru meira og minna auglýsingastofur fyrir sjálfan sig, alltaf „eager to please“. Sæl að sinni.

cave1

Tíu heitustu böndin á Airwaves

17 Okt

Já Gurra mín, nú styttist í gleðina. Tvær vikur í Airwaves og ekki seinna vænna en að reyna að átta sig á „möst-síunum“ sem Grímur og kó bjóða upp á í þetta skiptið. Hér eru 10 heitustu erlendu atriðin, skv. Greiningardeild bloggsins.

The Sonics. Ævagamalt bílskúrspönk frá Washington-fylki. Allir ættu að fíla gamla slagara eins og Strychnine og Psycho, en svo snéri bandið aftur í fyrra og gerði eina bestu kombakk plötu sögunnar (því almennt eru nýjar plötur með gömlum goðsögnum algjört drasl). The Sonics verða í Silfurbergi á fimmtudagskvöldið.

Pertti Kurikan Nimipäivät (PKN). „Sérstöku“ finnsku meistararnir eru eins og komið hefur fram á leiðinni og ætla að pönka úr þér líftóruna; á Gauknum á laugardagskvöldið og í Iðnó á sunnudaginn á milli 17-18:30 (frítt inn þar – ekkert armband nauðsynlegt).

Julia Holtier. Amerísk tónlistarkona sem sló í gegn í fyrra með fjórðu plötunni sinni, Have You in my Wilderness. Flott gáfukvennapopp. Spilar í Listasafninu á fimmtudagskvöldið.

Kate Tempest. Enskt skáld og rappari. Let Them Eat Chaos er fyrsta platan. Mjög gott stöff. Kemur fram í Gamla bíói á laugardagskvöldið.

Fews. Krautað rokk frá Svíþjóð/Ameríku. Fyrsta platan kom út í sumar. Spila á Gauknum á föstudagskvöldið.

Warpaint. Frá LA og hafa gert þrjár plötur, sú nýjasta Heads Up kom út fyrr á árinu. Spila á föstudagskvöldið í Silfurbergi.

Santigold. Strax á eftir Warpaint mætir Santigold á svið Silfurbergs. Hún hefur alltaf minnt mig á poppaðri útgáfu af M.I.A., svona kraftköggull með „heimstónlistar“-áhrif í smurðu poppinu.

Pavo Pavo. Þokukennt skýjapopp frá yfirskeggjuðum hipsterum frá Brooklyn. Kunna alveg að búa til fín lög svo þeir mega vera hipsterar með skegg mín vegna. Spila í Iðnó á föstudagskvöldið.

PJ Harvey. Eitt stærsta númerið á Airwaves í ár. Sló í gegn 1992 með fyrstu plötunni sinni, Dry. Var stillt upp með Björk og Tori Amos sem bjargvætti poppsins. Stundum kölluð kvenkyns Nick Cave. Ellefta platan The Hope Six Demolition Project kom út fyrr á þessu ári. Spilar í Valshöllinni á sunnudagskvöldið. 

Idles. Enskir drullupönkarar sem hafa gefið út nokkrar EP. Lofa góðu sjói. Spila á eftir PKN á Gauknum á laugardagskvöldið.

Die Nerven. Bullandi níhilistar frá Stuttgard. Þrjár plötur komnar. Svartklæddir og syngja á þýsku. Póstpönka á Húrra á fimmtudagskvöldið (Hörkulænupp þar, Pink Street Boys, Ham, Dr. Spock).

 

 

 

Hengjum Bubba og Dylan

16 Okt

Mikið er ég búinn að sakna þess þegar menn kýttu um há- og lágmenningu. Þessi forna skemmtun hélt ég að væri aflögð í póstmódernismanum (heitir það það ekki?), en nú blossar þetta upp á ný vegna Nóbelsverðlauna Bobs Dylans. Alvöru ljóðaunnendur segja Dylan ekkert sérstakan og að einhver óþekktur hefði átt að fá verðlaunin. Nóbelsverðlaunanefndin er búin að skíta á sig í popúlisma, segja þeir, jafnvel: Bókmenntirnar eru dauðar! Hinir segja þetta fínt, Bob sé æði og bara ekkert að þessu. Gaman að því að þessir „háu herrar“ í nefndinni skuli komnir í poppið. Besti þátturinn í dag, Lestin á Rás 1, fékk spekinga í spjall á föstudaginn sem gaman er að hlusta á

Þegar Bubbi Morthens sló í gegn 1980 fór fljótlega af stað umræða um gúanótextana, aðallega á síðum Þjóðviljans. Ég var of ungur þá til að setja mig inn í þetta og gegnheill Bubba-maður þar að auki. Árni Björnsson þjóðháttafræðingur byrjaði að kasta rýrð á Bubba. Hans gagnrýni gekk út á það að „alþýðan“ ætti betra skilið en leirburð Bubba, enda báru kommar alltaf hag alþýðunnar fyrir brjósti, eins og hafði heyrst á dagskrá Gufunnar síðan útsendingar hófust. Helvítin skulu kunna að meta þetta sinfóníugaul þótt við þurfum að troða því í eyrun á þeim í 50 ár.

Það hefur löngum verið háttur yfirstéttar að tala niðrandi um skáldskap og aðra list alþýðu, skrifaði Árni. Enda er hið alþjóðlega háðsyrði vulger, þ.e. ómerkilegur, ruddalegur, komið af latneska orðinu vulgus, almenningur.
Sömuleiðis hafa fúskarar i gervi listamanna eða listaforstjóra hvarvetna leitast við að réttlæta vonda og ljóta framleiðslu sína og gæðinga sinna með þvi, að þetta væri svo alþýðlegt eða það sem fólkið vildi. Það er að vísu rétt, að einföld og hrá framsetning verður einatt fljót til að ná skilningarvitum alls þorra manna, þótt hún skilji litið eftir. En með sliku athæfi er í rauninni
verið að fóðra alþýðu manna á andlegu trosi undir þvi yfirskini, að hún sé ekki fær um að skilja annað. Og með þessari fyrirlitningu er stuðlað að þvi að halda verkalýðnum á þvi menningarlega lágstigi, sem hann er talinn eiga skilið og þurfa til að vera mátulega auðsveip vinnudýr fyrir rikjandi stétt.
Einna þekktastir menningarböðlar af þessu tagi á siðari tímum eru hinir rússnesku Sdanoffar, listráðunautar Stalins og eftirmanna hans. En segja má, að svipað hafi i reyndinni verið upp á teningnum hvað varðar „alþýðumenningu“ í Bandarlkjunum og öðrum löndum undir áhrifavaldi þeirra. Þar eru að visu ekki stjórnskipaðir alræðisherrar að verki, heldur forheimskunarsérfræðingar fjölþjóðahringa. En vegna innbyrðis samkeppni sín í milli þurfa þeir sifellt að finna upp ný form fáfengileikans. Nýlegt dæmi af því taginu er svonefnt ræflarokk, sem á yfirborðinu er m.a.s. látið vera á móti rikjandi kerfi!! Snjallt.
Á siðustu misserum hafa svo risið upp hér á landi nýir „vinir alþýðunnar“, sem kveðast ætla að hefja hana uppúr niðurlægingu með þvi að leika og syngja fyrir hana lélega uppsuðu af þessari fjölþjóðlegu verslunarmúsik við ennþá verr gerða texta. Helsti samnefnari þessa fyrirbæris heitir vist gúanórokk.

Árni var kominn í stuð og hélt áfram í rokkhatrinu:  Það verður varla annað séð en að með ljótum og lélegum söngvum sé verið að hjálpa atvinnurekendasambandi tslands til að halda verkalýðnum i skefjum. Þvi að andleg lágkúra stuðlar að þvi að halda lífskjörum niðri. Ekki skal þvi þó trúað, að það sé visvitandi. Miklu fremur mun hér um þann reginmisskilning að ræða, að fyrirmyndin, músik-framleiðsla fjölþjóðahringanna, sé í þágu alþýðunnar!

Árna var vitaskuld mótmælt: Menn verða að skilja að þegar Bubbi syngur eina „sloruga“ setningu á balli í verstöð vinnur hann sósialismanum meira gagn en Þjóðviljinn á einu ári, skrifaði ljóðskáldið Anton Helgi Jónsson. Mér finnst að Árni Björnsson ætti að þakka fyrir að Bubbi skuli vera sósialisti, en ekki eitthvað annað. Og Árni ætti að hætta að láta poppið pirra sig. Poppið er ekki neinn sér afmarkaður heimur, það er fátt sem snertir eins daglegt lif verkafólks i landinu og einmitt poppið. Aftur á móti eru Árni og hans likar i lokuðum heimi, sem hvergi snertir líf venjulegs fólks i landinu: Árni reynir i grein sinni i Þjóðviljanum að hengja poppara, en það er ekki undarlegt að snaran skuli lenda um hálsinn á honum sjálfum.

Margir lögðu orð í belg um gúanótextana. Talað var um „snobb fyrir alþýðunni“ og passíusálmar Hallgríms Péturssonar og alþýðan í verkum Laxness voru dregin inn í umræðuna. Ljóðskáld eins og Birgir Svan Símonarson komu að máli við Bubba og buðust til að semja fyrir hann „alvöru“ texta, en karpið náði hápunkti á málfundi í Háskólanum þar sem menn tuðuðu sig í kaf og hættu svo að pæla í þessu. Sjálfur yppti  Bubbi bara öxlum yfir þrasinu enda í góðum málum með hass og kók á kantinum.

Fjórar fínar

12 Okt

Fólk er enn að gefa út albúm þótt allt sé í upplausn í útgáfumálum og enginn viti í hvern fótinn hann á að stíga.

Q3 er nýr diskur með hinum öldnu pönknýrómantíkurum í Q4U. Þau hafa engu gleymt og ekkert lært, sem er fínt!

Tinnitus Forte er komin á stjá. Plata Kroniku heitir það og bandið  er eins og kunnugt er skipuð þremur metalstrákum og Tinnu, sem einnig er í Rvk Dtr. Músíkin dáldið eins og RATM, en skýr textaframburður og and-málmslegt textainnihald gerir gæfumuninn. Platan er á Spotify en á leiðinni í búðir í „veraldlegu formi“ eins og þau kalla það.

Meira suð, önnur plata hljómsveitarinnar SUÐ er komin á brakandi vinýl. Nett indie og pönk. Líka á Spotify.

cuaxt8lwcae9vbd-1-jpg-large
Þá er Vagg og velta Emmsjé Gauta komin út á hjúkkuhvítum vinýl og fer þar með í fínan flokk íslenskra hljómplatna sem komu á hvítum vinýl; False Death með Fræbbblunum (7″), Og dýrin í sveitinni með JFM (10″) og fyrsta Skálmöld LP. 

Súkkulaðiverksmiðjan yfirgefin

3 Okt

gloop
Kalli og sælgætisgerðin er stórkostleg bók (og tvær kvikmyndir). Þar fá leiðinlegir og frekir krakkar verðskuldaða ráðningu. Að lokum stendur hinn hjartahreini Kalli einn eftir. Einn hinna freku er Augustus Gloop. Í gær náðist mynd af honum yfirgefa sælgætisgerðina með skömm.