Hjá bestu útvarpsstöð í heimi

25 Nov

2015-11-13 14.21.27

Ég hef lengi verið á þeirri skoðun að WFMU útvarpsstöðin sé sú besta í heimi. Á ferðum mínum til NYC hef ég lengi reynt að troða mér í þátt á stöðinni til að básúna Ísland. Það tókst ekki fyrr en í síðustu ferð þegar Devon E. Levins fékk mig til að tala um íslenska kvikmyndatónlist í þættinum Morricone Island – þáttur sem sérhæfir sig í tónlist úr kvikmyndum. Útvarpsstöðin er í eigin húsi í Jersey City. Meðan ég beið fékk ég mér lasagna í Milano’s við hliðina innan um ekta Jersey löggur, iðnaðarmenn og skólakrakka. WFMU hefur verið starfandi í einni eða annarri mynd síðan 1958. Hún er rekin af algjörum músíknötturum, hver einasti þáttur er keyrður áfram af brennandi áhuga á tónlist og það eru engar helvítis auglýsingar. Þetta er stærsta og elsta „free form“ útvarpsstöð í heimi og hreinasta snilld á allan hátt. Þættir fortíðar eru þarna í haugum, það má hlusta aftur til 1995 eða eitthvað – hrein gullkista.

2015-11-13 13.14.21
Devon er með Íslandsáhuga. Hann fékk smitið á áhugaverðum stað. Hann átti heima í Kaliforníu og átti íslenskan vin í næsta húsi sem þreyttist ekki á að tala fjálglega um landið góða í norðri. Vinurinn var enginn annar en Björgólfur Thor Björgólfsson, sem þegar þarna var komið sögu var ekki orðinn athafnamaður og milljóner. Devon hefur áður verið með Ísland í brennidepli í þætti sínum, hann talaði við Jóhann Jóhannsson á dögunum og hafði áður gert þátt með íslenskri sándtrakkmúsík.

2015-11-13 12.02.44-1
En nú var sem sé komið að mér. Og ég lét gamminn geysa í klukkutíma, spilaði Ellý, Hallbjörn, Ham, Prinspóló og allt þar á milli, auk þess að röfla heil ósköp. Hér er þessi þáttur til hlustunar.

Eftir upptöku fór Devon með mig í skoðunarferð um snilldarstöðina. Hér er upptökuherbergið þar sem ýmsir listamenn og hljómsveitir hafa leikið og sungið.
2015-11-13 14.09.52

Þegar ég var þarna var bein útsending hjá Bryce. Viðkunnalegur gaur:
2015-11-13 14.14.36

Lítill tónleikastaður er á neðstu hæðinni, Monty Hall, þar sem allskonar snilld dúkkar upp. Hið heilaga gral er svo plötusafn stöðvarinnar. Það er sirka 500 fermetrar af unaði en því miður er ekki hverjum sem er hleypt þar inn, svo ég varð að láta mér nægja að slefa á rúðurnar. 
2015-11-13 14.14.54
Lengi lifi WFMU! Vinin í eyðimörk heimsku og leiðinda.

Dr. Gunni og Dr. Eldjárn kryfja Bítlana

24 Nov

2015-11-24 12.53.07
Nýtt Í kasti með Dr. Gunna!!!

Í þessum þætti af Í kasti með Dr. Gunna er spjallað við Bretann Mark Lewisohn, sem er líklega mesti Bítlafræðingur heimsins um þessar mundir.

Hann skrifar nú sögu Bítlanna í þremur bindum og er fyrsta bindið komið út á íslensku og heitir Bítlarnir telja í. Fyrirhugað er að næstu bindi komi út 2020 og 2028.

Þetta er fyrsta þýðingin sem gerð er af bókinni, sem er nú alveg sturluð staðreynd. Bókin er algjört æði, bæði á ensku og íslensku, og stútfull af nýjum atriðum um sögu Bítlanna, bestu hljómsveitar í heimi (staðreynd!!!)

Bítlaaðdáandinn Ari Eldjárn er aðstoðarspyrill Dr. Gunna að þessu sinni og saman fara þeir með Mark í djúpspaka ferð um Bítlagresurnar þar sem bæði innvígðir, innmúraðir og skemmra komnir fá margt fyrir sinn snúð.

Athugið: Viðtalið er á ensku!

Mark Lewisohn kynnir bókina í hádeginu (12) á morgun, miðvikudag, Í IÐNÓ! Svo verður útgáfuteiti og áritun á fimmtudaginn í Eymundsson, Skólavörðustíg, kl. 17. Bítlaaðdáendur látið sjá ykkur í hrönnum!

Úr poppvélinni

21 Nov

Poppið vellur úr vélinni sem aldrei fyrr. Hér er glænýtt efni:

Singapore_Sling_Henrik_1024x1024 (1)
Henrik í Singapore Sling hefur sett út sjöunda ásinn, plötuna Psych Fuck. Þar er trallað á svölunum með krumlurnar í poka. Plötuna má sötra hér.


Tók þátt í Karólínafund og fékk að launum sellerí-brakandi ferskan disk með Meisturum dauðans. Ekki láta dúllulegt útlit barnatrommarans villa yður sýn, hér er skrölt í grugguðu þungarokki og engir fangar teknir í linnulausu rallinu. Mjög flott plata hjá strákunum og miklir hæfileikamenn á ferð sem verður gaman að sjá blómstra og þróast.


Sölvi Jónsson er Dölli. Fyrsta plata Dölla var að koma út og heitir Viltu vera menn? og er plata fyrir 2-150 ára. Dölli gæti verið skyldur Megasi raddbeitingarlega séð og dúllar sér í gegnum 17 hittara á plötunni, sem er á leiðinni að verða költ-hitt as ví spík.

a2055750530_16
Ladyboy hefur gefið út splitt-fimmtommu í 50 eintökum með Pink Street Boys og Godzilla. Platan er uppseld en hægt er að hlusta á rjómalagt sandpappírspoppið hér.

Það er alltaf eitthvað til að hlakka til. Ef það eru ekki jólin þá er það næsta ATP sem á að halda á beisinu 1-3. júlí. Þessi þriðja ATP gefur fyrri hátíðum ekkert eftir og dagskráin er þegar orðin mangólassígóð þótt ekki sé búið að tilkynna nema hluta af jömminu. Spennu og hryllingsgaurinn John Carpenter ætlar að flytja tónlist sína í fyrsta skipti opinberlega. Eftir hann er t.d. þetta:


Þá koma fram hljómsveitirnar Sleep, Thee Oh Sees (aftur – komu fyrsta árið), TY SEGALL and THE MUGGERS (Ty átti eina af betri plötum síðasta árs, Manipulator),  Angel Olsen, Les Savy Fav, Tortoise, Anika, Yasmine Hamdan, Blanck Mass, Mueran Humanos, Örvar Smárason & Gunnar Tynes (múm) spila undir Menschen am Sonntag og Stewart Lee verður með uppistand og grín. Stewart Lee er þessi gaur hér:

Björk @50

21 Nov

0516-BjörkíVeru1986
Björk Guðmundsdóttir er fimmtíu ára í dag. Til hamingju Björk! Það er óþarfi að hafa mörg orð um snilli Bjarkar, áhrif hennar og vægi – allt er það augljós fakta: Hún opnaði dyrnar upp á gátt með Sykurmolunum og Debut og síðan er Ísland og íslensk tónlist ekki lengur aðhlátursefni á bransamessum heldur sífersk uppspretta kúls og hipps. 

Björk hefur aldrei nennt að endurtaka sig og aldrei viljað dvelja í fortíðinni. Hún er alltaf kominn með puttann á púlsinn á einhverju sem er varla orðið til ennþá, á meðan aðrir eru fálmandi á púlsinum á því sem Björk snerti í fyrradag. Hún er „öllu“ íslensku tónlistarfólki skínandi fyrirmynd, gulrótin á stönginni. Hvernig á ég að orða þetta eiginlega? – Já, Björk er æðisleg!

Í tilefni dagsins kemur hér súperdúper sjaldgæfi, framlag Bjarkar til ljóðakassettunar Lystisnekkjan Gloría (Gramm 1986 – 200 eintök). Björk fær aðstoð frá Sigtryggi Baldurssyni í flutningi ljóðanna sem heita Djúp fyrir mig / Lungu / Lifað í vatni (eða: Þið takið frið framfyrir sannleika) / Sálmur 323.

Fyrir sömu jól kom fyrsta smáskífa Sykurmolanna (Ammæli / Köttur). Björk var 21. árs og nýorðin móðir.

Í heimsborginni

19 Nov

2015-11-17 05.35.14
Skrapp til NYC og gisti sem fyrr á YMCA Westside. Ódýrasta gistingin í stórborginni og alls ekkert sjabbí. Ég myndi kannski ekki bjóða fjölskyldunni upp á þetta en ef maður er einn að flækjast er þetta ókei. Trixið er að borga aðeins meira og fá herbergi á 12. eða 13. hæð. Nóttin á 105$. Klósett með sturtu á ganginum sem maður getur læst að sér (á enn ódýrari hæðum eru sameiginleg baðherbergi). Svo er gymmið þarna legendarí stöff. Tvær sundlaugar með ýkt töff mósaík-skreitingum, gufubað og sauna þar sem maður hittir fastagesti, gamla karla sem voru kannski á beisinu in ðe old deis og maður getur röflað við þá um það. Herbergin sjálf eru hrottalega beisik. Rúmið samt fínt og loftræsting. Ekkert að þessu. 

2015-11-15 11.41.47
Ég fór í viðtal á bestu útvarpsstöð í heimi, WFMU. Þátturinn verður sendur út á mánudaginn svo ég tala um það þá.
 Ég hitti Kidda vin minn daglega. Við fórum og fengum passport handa honum hjá meistara Hlyn í íslenska konsúlatinu. Kiddi segist nú ætla að koma heim eftir 30 ára fjarveru í janúar. Sjáum til…

Við fengum okkur Sigga skyr við hvert tækifæri. Siggi er að gera það gott, skyrið hans er út um allt. Smára skyr er annað dæmi, sem fæst ekki eins víða. Ég náði ekki að smakka það, enda er það ekki til í Wholefoods. Stærðar Wholefoods búð er rétt hjá YMCA á Columbus Circle. Hvílík snilld, þetta er Melabúðin á hestasterum.


Við fórum á ágætis mynd sem heitir Entertainment. Þar er Gregg Turkington í aðalhlutverki og leikur Neil Hamburger, standuppara sem hann er búinn að vera með í mörg ár. Hæg mynd og hrikalega þunglynd, en samt fyndin í hægaganginum og þunglyndinu. Eftirminnileg.


Ef hægt er að tala um hápunkt ferðarinnar til þessarar borgar sem er einn samfelldur hápunktur mannlegrar reisnar og sturlunar, þá er það tvímælalaust ferðin á Broadway-sýninguna The Book of Mormon, eftir þá South Park bræður. Þetta er í fyrsta skipti sem ég fer á Broadway söngleik enda hefur mig aldrei langað áður. Leikhúsið, hið flotta og sögufræga Eugene O’Neill, var sneisafullt en við vorum á góðum stað til að njóta veiganna. The Book of Mormon er algjör unaður, fyndið, flott, skemmtilegt, hugvíkkandi – ekkert verið að hrauna um of yfir mormónatrú, þótt það bull sé reyndar með því vitlausasta af mörgum vitlausum trúarbrögðum. Við Kiddi vorum báðir á því að við værum alveg til í að fara á sýninguna strax daginn eftir og svo allavega 3-4 sinnum í viðbót, hvílík snilld sem þetta var.

Rokksögulegar ljósmyndir

12 Nov

oll_min_bestu_ar_forsida_bok_12083
Nokkuð er um nýjar íslenskar bækur fyrir músíkáhugafólk í ár. Ein þeirra er hin bráðskemmtilega ÖLL MÍN BESTU ÁR sem inniheldur ljósmyndir Kristins Benediktssonar og texta Stefáns Halldórssonar. Kristinn (1948-2012) vann á Mogganum og var sendur á vettvang þegar eitthvað var í gangi fyrir unga fólkið á velmektarárunum 1966-1979. Myndirnir (um 1000 samtals í bókinni) lýsa horfnum heimi poppara, ballspilamennsku, fegurðasamkeppna og Led Zeppelin! Stefán (1949) var poppblaðamaður Moggans á sama tíma, en textarnir í bókinni eru nýjir. Þetta er hreinlega æðisleg bók, uppfull af stemmingu og stuði og veröld sem var. Möst á hverju menningarheimili!

kvartett
Valgeir fyrir Stuðmenn.

hljomar-runni

Rúnni Júl tryllir lýðinn.

skapti72a
Söguleg mynd: Skapti Ólafs á barnaballi 1972. Einn hinna ungu gesta er átta ára Óskar Jónasson, síðar saxófónleikari Oxsmá og leikstjóri. Og talandi um: Þessa metnaðarfullu bíóstyttu sá ég í Smárabíói í gær. Grínmyndin Fyrir framan annað fólk væntanleg í febrúar 2016!
2015-11-11 21.35.39

Risaeðlan snýr aftur!

10 Nov

2015-11-07 15.55.04
Airwaves búin og þá er bara að fara að hlakka til næstu hátíðar. Aldrei fór ég suður verður um páskana á nýjum stað á Ísafirði (í miðbænum). Hér er Kristján Freyr, einn skipuleggjanda, með plaggat. Og sjá: RISAEÐLAN snýr aftur í fyrsta skipti fullmönnuð í langan langan tíma. ÍÍÍÍÍ-HA!!!!

Fylgja

Get every new post delivered to your Inbox.

Join 53 other followers