Ljóshærður rauðhaus kemur

25 ág.

Vegoose+2007+Day+1+dkz9UoTv5UMx
Hljómsveitin Blonde Redhead er á leiðinni til Íslands í 3ja eða 4ða sinn í næstu viku, spilar í Gamla bíói á miðvikudaginn 2. sept. Skúli Sverrisson bassagúrú hefur spilað með þeim í gegnum tíðina og spilar kannski með núna, eða allavega á undan þegar hann tekur lög af plötum sínum Sería 1 og Sería 2. Ljóshærði rauðhausinn gerði fína plötu í fyrra, Barragán, sem verður eflaust hryggjastykki tónleikana, en það er svo sem af nógu að taka á þessum bænum.

Úr fréttatilkynningu: Indie rokkarana í Blonde Redhead þarf vart að kynna. Hljómsveitin var stofnuð árið 1993 af söngkonunni og gítarleikaranum Kazu Makino, gítarleikaranum Amedeo Pace og trommaranum Simone Pace, en einstakur hljómur þeirra á enn erindi við samtímann nú 22 árum síðar sem ferðast um og spila á tónleikum og tónleikahátíðum víðs vegar um heiminn. Meðal nýlegra hátíða sem þau hafa tekið þátt í má nefna tónleika í Japan, Coachella í Indio, í Kaliforníu, Zanne Festival í Cataníu, á Ítalíu og Dour Festival í Dour, í Belgíu.

Blonde Redhead halda áfram að toppa sig með útgáfu níundu breiðskífu sinnar Barragán, sem hefur farið sigurför um heiminn og leitt af sér vinsæl lög eins og „Dripping“ og „Lady M.“ Í vetur frumflutti hljómsveitin stórkostlega endurblöndu af síðara laginu með Grizzly Bear Chris Bear, en það er fyrsta lagið af væntanlegri útgáfu með endurunnum klippum af nýju plötunni. Framundan hjá þessari hugmyndaríku hljómsveit eru tónlistarmyndbönd, ný tónleikaferðalög, sérstakir viðburðir og spennandi tísku samstarfsverkefni frá andliti hljómsveitarinnar, hinni stórkostlegu grafísku listakonu, Kazu Makino.

Miðaverð er 5.000 krónur – KAUPA HÉR!

Djúsí auglýsing frá 1930

24 ág.

13610071-page-0
Ú la la. Tímaritið Fálkinn birti þessa risaauglýsingu frá Hljóðfærahúsi Reykjavíkur 1930. Ef einhver á gólffón í mahognikassa sem hann vill losna við má hann endilega láta mig vita! (Smellið á myndina til að stækka)

Stórgóður sirkus, rigning og kandíflos

14 ág.

2015-08-13 16.44.21
Á Klabratúni er komið sirkustjald þar sem Sirkus Ísland sýnir þrjár tegundir af sýningum: S.I.R.K.U.S. fyrir yngstu kynslóðina, Skinnsemi fyrir fullorðna (sexý tæm) og Heima er best, sem er fyrir „alla fjölskylduna“. Við krakkarnir fórum á það í gær (MIÐASALAN ER HÉR) og komu allir út með sólskinsbros og gleði í hjarta.

2015-08-13 18.38.20
Úti var ekta íslenskur dapurleiki, grenjandi rigning og grámygla, en inni ylur og hin lokkandi ilmur sem myndast þegar lykt af poppkorni og kandíflos rennur saman. Tveir trúðar hituðu salinn upp með sprelli í sal, en svo kom sirkússtjórinn Margrét Maack og setti dæmið í gang. Í starfsliðinu eru tuttugu ofurmenni (segi ég sem gæti ekki farið í kollhnís nema hryggbrjóta mig) sem sýndu nú atriði í 2 tíma (með 15 mín hléi). Íslenskir poppslagarar keyrðu undir sjóinu, öllu var tjaldað til og það tókst svona líka frábærlega upp. Áhorfendur göptu með undrun og áhuga og löptu upp sirkusævintýrið. Dabba fannst trúðarnir bestir, Elísabetu fannst allt best. Sjálfur þarf ég ekkert endilega að fá kvíðakast ef börnin segja í framtíðinni; Pabbi, ég er búinn að skrá mig í trúðaskóla í Danmörku.

2015-08-13 17.28.27
Allir í sirkus! Takmarkaður sýningarfjöldi!!! (MIÐASALAN ER HÉR)

Nördar í Popppunkti

25 júlí

Staðan í sérstökum sumar-Popppunkti á Rás 2 er nú þannig að eftir undanúrslitaleiki eru eftir tvö lið sem keppa til úrslita á laugardaginn eftir viku. Þetta eru liðin ÍST’ON (Íslensku tónlistarverðlaunin, Eiður Arnarsson og María Rut Reynisdóttir) og BÍL (Bandalag íslenskra listamanna, Kolbrún Halldórsdóttir og Bragi Valdimar Skúlason). Ekki missa af æsispennandi úrslitaleik!!!

2015-07-06 15.44.08
Til að brjóta þetta upp verður sérstakur „nördaþáttur“ í dag (kl. 17:00). Þá keppa „Nördar af Rás 2“ (Andri Freyr og Hulda Geirs) við „Nörda af götunni“ (Frosti Jón Runólfsson og Anna Lea Friðriksdóttir). Eins og sést verður Bjarni Töframaður á svæðinu líka. Svokallaður eðall framundan.

Meðal þeirra hamingjusömustu

23 júlí

2015-07-16 12.35.27
Danir eru svo kúl. Nema þegar þeir byrja að tala, þá missa þeir allt kúl. Ég held að maður fengi hláturskast ef danskir vopnaðir eymingjar reyndu að ræna mann.

Ég er sem sé nýkominn frá Köben þar sem ég bjó við Nyhavn í íbúðarskiptum í gegnum Intervac. Það er alveg frábært dæmi og eina vitið ferðist maður með alla fjölskylduna. Það er ekkert smá hvað allir Danir eru ægilega myndarlegir og allir eitthvað að spá í innanhúshönnun og gourmet mat og eitthvað. Allir ljóshærðir og í stuttbuxum og með peysur um hálsinn. Mér fannst þetta allt eitthvað svo skothelt skandinavískt dæmi. Danir segjast vera hamingjusamastir allra og eru ekkert endilega að ljúga því.

Svona væri þetta kannski hérna núna ef við hefðum sloppið við þetta helvítis rugl að fá sjálfsstæði 1944. Eina sem það gaf okkur var sturluð misskipting sem leiddi til þess að nú getum við ekki einu sinni rekið almannaspítala, komið upp nokkrum almenningsklósettum fyrir kúkandi túrista eða haft tvíbreiða þjóðvegi um allt land. Allir peningarnir eru í vösunum á einhverju andlega og siðferðislega skertu liði, sem fyrst græddi á hernum og svo á fisknum. Er ég farinn að hljóma eins og Jónas hérna?

Þetta var massíf krakkaferð með krakkamösti eins og Lególandi, Tívolí, Glyptotek, Den Lille Havfrue, Tycho Brahe og Dýragarðinum. Skóflað í sig flödeskum og guf en samviskunnar vegna sleppti ég alveg flæskesvær. Í gegnum booking.com fengum við ódýrt herbergi á ægilega flottu hóteli á leiðinni frá Legolandi, Hotel Koldingfjord (mynd að neðan), sem er svo flott að ég skammaðist mín eiginlega fyrir sjálfan mig. Það var eins og ég væri óboðinn gestur þarna innan um fína fólkið. Skemmtileg tilfinning!

Fínt samt að vera kominn heim í þetta hitastig sem maður er vanur. Og tuðið og hjakkið. Maður verður náttúrlega að komast til útlanda nokkrum sinnum á ári og drekka gott kaffi til að sturlast ekki í klefasótthitanum sem er Ísland. En þegar allt kemur til alls er Ísland samt best! (Gæti samt alveg verið miklu betra)

2015-07-19 10.34.40

Ónýtir staðir vegna túristaplágu

13 júlí

Túristminn er sveitt dæmi. Hvar á allt þetta fólk að kúka? Á það að kúka í garðinum þínum? Nú er svo komið að túristamagnið hefur „eyðilegt“ nokkra staði fyrir heimamönnum. Það er líklega allt í lagi og bara fórnarkostnaður fyrir hagvöxt. Ef maður nennir ekki að taka þátt í að pimpa landinu í gin gapandi ferðamanna hefur maður ekkert að gera

* Í Bláa lónið – Fáránlegt okur í sjúskaðan drullupoll
* að Gullfossi og Geysi – eins og að vaða hráka
* á Þingvelli – fjallkonan vafin í blautan klósettpappír
* í Jökulsárlón – klaki í flugnageri

Nú vil ég ekki hljóma eins og að ég hafi einhvern meiri rétt á að spóka mig á þessum stöðum en hver sem er, en maður bara nennir þessu ekki ef það er allt að drukkna í blautum klósettpappír, reykspúandi rútum og gapandi túristum.  Það verður bara að hafa það. Allir að græða (megnið á svörtu) og uppgrip. Maður verður að spila með.

Það verður erfiðara um vik á sífellt fleiri stöðum. Til dæmis var hvergi hægt að fá mat á Höfn því túristar stóðu allstaðar í röðum og borð var laust eftir í mesta lagi 90 mín. Þetta var á þriðjudegi. Við hefðum getað sagt okkur að eitthvað væri að þegar það var fullt af lausu á stað sem heitir Nýhöfn. Hann lúkkar vel en maturinn var algjört okur og rugl. Sex grillaðir humar-bitar með 2 litlum brauðsneiðum og litlu salati á 5900 kall. Við Gummi erum enn í sjokki yfir þessu og beisíklí getur Höfn hoppað upp í humarinn á sér. Ónýtur staður.

Ef Nýhöfn var botninn var Skriðuklaustur toppurinn. Fallegur staður og sligað hádegishlaðborð á 2900 kr. Þarna fékk ég tvær bestu súpur í heimi, lerkisveppasúpu og hvannasúpu. Ekki ónýtur staður!

Ég sá ekkert hreindýr. Eru túristarnir búnir að skemma það líka?

Eistnaflug

13 júlí

2015-07-09 21.34.39
Ákvað að taka nokkuð massífan Austfjarðarpakka þar sem ég var hvort sem er að spila á Eistnaflugi. Giggið tókst vel, þetta var svona best of, Heiða kom fram og söng þrjú Ununarlög, svo var þarna S.H. og Bless og meira að segja Prumpulagið sem fékk þungarokkarana til að brotna saman í gleðivímu. Að öðrum hápunktum má nefna flutning The Vintage Caravan á Lifun með Magga Kjartans (rosa gott og flutt af trukki en ekki músóplebbaskap eins og stundum vill vera með svona tribute), Börn (mynd að ofan) voru góð á Blúskjallara og Kælan mikla á Egilsbúð. Bubbi og Dimma voru þéttur hnífur og Sólstafir voru þungur hnífur með Hrafninn flýgur. Þá var norska hljómsveitin Kvelertak eins konar ástæða þess að ég nennti að hanga svona lengi á svæðinu og stóð algjörlega undir væntingum. Enn ein snilldar hátíðin hjá Stebba og kó.

Fylgja

Get every new post delivered to your Inbox.

Join 49 other followers