Er Arnþrúður fyllibytta?

10 okt.

Voðalega er fólk alltaf viðkvæmt fyrir öllu, nú síðast yfir könnunum Útvarps Sögu. Ég hef allavega þrisvar farið í viðtal á Sögu, tvisvar hjá Arnþrúði minnir mig, og það var bara fínt. Ljúfar veitingar, gott spjall, reykt inni og svona – besta stöðin heim að sækja! Það er algjört ofmat að Útvarp Saga fjölgi vitleysingum í þjóðfélaginu, ekki frekar en áratugalöng starfssemi Ómega hefur fjölgað trúarnötturum, eða allar þessar kristilegu útvarpsstöðvar. Vitleysingar eru og verða vitleysingar, en tiltölulega snjallt fólk verður ekki allt í einu vitleysingur eða trúarnöttari þótt þvaður og vitleysa sé borin á borð á einhverjum stöðvum (nú er ég alls ekki að segja að á Útvarpi Sögu sé eintóm vitleysa frekar en á öðrum stöðvum. Ég hlusta oft á Útvarp Sögu og líka á allar hinar stöðvarnar (nema þessar kristilegu, ég meika þær ekki) Þetta er allt fínt í bland).

En allavega. Það getur náttúrlega hver sem er gert einhverja bjánalega könnun og fengið allskonar vitleysu út úr því. Hér er tildæmis ein sem stendur fram á mánudag og er innblásinn af þessari frétt.

Fuuullt af músík!

9 okt.

Áfram heldur stuðið á Rúv á sunnudaginn þegar þriðji þáttur POPP OG ROKKSÖGU ÍSLANDS verður sýndur. Nú rennum við inn í alheimsbyltingu Bítlanna og íslensku útgáfu þeirrar byltingar. Við fjöllum náið um uppgang og útbreiðslu Hljóma, sem segja má að sé fyrsta „nútíma“ hljómsveit Íslands: Hljómsveit sem semur sín eigin lög og gefur út mun meira efni en áður hafði tíðkast. Að sjálfssögðu er fjallað um aðra samtímamenn, m.a. birt áður óséð myndskeið af Dátum að spila á mikilli Húsafellshátíð 1967. Geðveikt stuð! Hér er kitla:

Og texti um þáttinn: 

Þriðji þáttur – Það vantar ekkert nema Bítilbleyjur
Eftir að Elvis fór í herinn urðu ungir sætir strákar sem hétu Bobby hitt og þetta allsráðandi í poppinu. The Shadows með Cliff Richard í fararbroddi nutu líka hylli og íslenskar sveitir stældu goðin. Næsta bylting var þó handan við hornið og brast á með miklu trukki 1963 þegar Bítlarnir frá Liverpool sópuðu nánast öllu sem á undan hafði komið í poppinu út af borðinu.
Eins og jafnaldrar þeirra um allan heim voru íslenskir táningar með á nótunum og fengu bítilæði í umvörpum. Hljómar frá Keflavík voru réttir menn á réttum stað og báru höfuð og herðar yfir aðrar íslenskar bítlasveitir, ekki síst vegna þess að innanborðs var Gunnar Þórðarson, ungur maður sem gat samið lög. Bítilæðið ágerðist þegar Bítlamyndin A Hard Days Night kom í bíó og þegar The Kinks spiluðu í Reykjavík.
Þegar Hljómar misstu sig í meiktilraunir, bíómyndagerð og tilraunamennsku með djassáhugamanninn Pétur Östlund á bak við trommusettið, seildust aðrar sveitir í veldissprota þeirra, Dátar, Tónar, Óðmenn, Pónik og fleiri. Á sama tíma var þjóðlagapoppið að gera gott mót með Savanna tríóinu. Konur voru ekki sjáanlegar uppi á sviði með bítlaböndunum og ungar söngkonur eins og Þuríður Sigurðardóttir og Anna Vilhjálms héldu sig til hlés með dannaðri hljómsveitum.


Er hér að hlusta á nýju plötuna með John Grant, Grey Tickles, Black Pressure. Verð að segja að hún er helvíti skemmtileg, mörg frábær lög, hljóðheimurinn einhvers staðar á milli síðustu tveggja platna (mjög mikið 80s syntha tölvupopps feel líka) og textarnir gáfulegir og góðir að vanda. Pétur Hallgrímsson og Jakob Smári Magnússon sjá um gítar og bassa, en trommuleikarinn er Budgie sjálfur úr Siouxsie & The Banshees. John spilar með sinfó á Airwaves, sem verður eitthvað.


Í dag fæddist ekki bara Lennon og Yoko kveikir á súlunni heldur kemur út fyrsta sólóplata MR. SILLU. 12 tónar gefa út en platan var tekin upp í Rvk og London með hjálp Mike Lindsay (Tunng / Cheek Mountain Thief). Mr. Silla, eða Sigurlaug Gísladóttir, ætti að vera Íslenskum tónlistarunnendum kunn en hún hefur verið meðlimur í hljómsveitunum múm og Snorri Helgason um áraraðir ásamt því að hafa starfað um lengri eða skemmri tíma með mörgum öðrum hljómsveitum.


Pönkhljómsveitin góðkunna frá Selfossi, ELÍN HELENA, hefur sent frá sér nýtt lag, Ég bara spyr. Sveitin gerði fína plötu í fyrra, Til þeirra er málið varðar, og var með á Snarli 4. Nammi gott.


Staraðáskó-hljómsveitin OYAMA hefur gert staraðáskó-útgáfu af hinu stórkostlega lagi Teits Magnússonar, Vinur vina minna. Hugmyndin er komin frá tísti eftir Björn Teitsson. Menn hafa starað á skó fyrir minna.

Takk fyrir mig!

8 okt.

Þá er þetta fimmtugskjaftæði á enda, sem er fínt. Ég er ekkert mikið fyrir svona jarm um sjálfan mig. Þetta var ansi yfirgengilegt og eins og ég væri dauður. Allir svona ægilega ánægðir með mig. Takk fyrir það kæru vinir! Allar kveðjurnar, gjafirnar, greinarnar, símtölin, ættartréð í Mogganum og skeyti frá Jóni frænda sem barst kl. 21 þegar ég var að koma heim með fjölskyldunni eftir heimsreisu (á Fiskfélaginu). Þetta var ægilega gaman. Endurtökum þetta svo þegar ég verð 100.

tattoois2
Dagurinn byrjaði á því að meistari Fjölnir setti á mig tattú-ís, sem krakkarnir höfðu hannað. Ég hef verið efins með það hvort ég ætti að fá mér tattú en þegar ég náði þessum geigvænlega þroska sem fylgir háöldruninni varð mér snögglega skítsama um flest og keppist nú við að tileinka mér fokk-it hugsunarháttinn. Tattú til að frá, só vott? Þetta var dáldið vont, en vandist, og ætli ég fái mér ekki fleiri bráðlega.

12036514_10153009056441783_3160191415297106357_n
Videósílin og Dr.Gunni og Elítan spiluðu í Lucky, einskonar útgáfutónleikar „slass“ afmæli. Það var góð- og fjölmennt og voða gaman.

Nú er það bara meira stuð.

50! Dr. Gunni í sjoppu! 50!

7 okt.

drge27
Þá er ég víst orðinn 50 ára. Sem er sturlun!

Í dag 7 okt kl. 17 – ÚTGÁFUTÓNLEIKAR FYRIR PLÖTUNA Dr. Gunni í sjoppu í LUCKY Records – Fram koma Dr. Gunni og Videósílin. Veitingar Thule, Coke og Toppur frá Vífilfelli ókeypis og í boði. Sjáumst! Þeir sem hafa keypt plötuna á 10 tommu vinýl plötu geta sótt hana við sama tækifæri, eða næstu daga.

Platan Dr. Gunni í sjoppu er svo til á BANDCAMP (niðurhal 5$ / ókeypis streymi), í Spotify og í TÓNLIST:IS (549 kr!).

Nú fer ég að tala við Fjölni tattú.

Upphófst þá ferlegur larmur

3 okt.

2015-10-02 12.51.58-2
Það er engin sérstök lognmolla í lífinu núna. Fimmtugsafmæli á miðvikudaginn 7. okt. Þá ætla ég að spila í Lucky Records kl. 17 og bjóða upp á frían bjór og gos (VÍFILFELL SPLÆSIR!) Þá geta þeir sem keypt hafa plötuna Dr. GUNNI Í SJOPPU sótt eintökin sín. Platan er uppseld í föstu formi en verður til í streymi og niðurhali (nánar auglýst síðar).

H2-151009706
Í gær bárust þær útúrfríkuðu fréttir að ég sé orðinn dómari í Ísland Got Talent á Stöð 2 ásamt Mörtu Maríu, JFM og einum dómara enn sem er leyndarmál þar til eftir helgina! Þetta verður æðislegt!!! (Ítarlegt viðtal!) Ekki verður byrjað að sýna þessa þriðju seríu þar til eftir áramót en við förum að hlusta á stórsnillingana í úrtakinu bráðlega. Ég er gríðarspenntur fyrir þessu!

porsi
Aðalmálið þessa dagana eru þættirnir Popp og rokksaga Íslands á Rúv (Hér er komin vönduð síða þar sem má sjá þætti sem búið er að sína og kitlur fyrir næstu þætti). Fyrsti þátturinn fór í loftið á sunnudaginn og ekki getur maður kvartað yfir móttökunum. Flestum fannst hann meganæs. Svo heldur snilldin áfram annað kvöld (sunnudagskvöld) þegar þáttur 2 verður sýndur. Þá rennum við inn í rokkið sjálft, sem kom og breytti smám saman öllu og lagði grunninn að því poppi og rokki sem grasserar enn.

Annar þáttur – Upphófst þá ferlegur larmur
Í öðrum þætti Rokk og poppsögu Íslands er kastljósinu beint að rokkinu og hvernig það barst yfir Atlantshafið og læddi sér inn í íslensku þjóðarsálina. Í fyrstu var talið að rokkið væri bara „enn ein tískubólan“ í ætt við mambóið, en það hefur löngu sýnt sig að rokkið var í raun bylting, eða stökkbreyting í tónlistarsögunni. Í dag er enn verið að vinna með það rokkhráefni sem vall fram á 6. áratugnum.
Þótt ungir Íslendingar væru ekki lengi að fá rokkæði tók langan tíma fyrir rokkið að ná almennilegri fótfrestu. Reyndar sveitir skipaðar færum djassáhugamönnum létu til leiðast og spiluðu rokk, þrátt fyrir að tónlistarmönnunum hafi fundist það leiðinlegt og ómerkilegt. Til að ná rokkinu sem best voru ungir söngvarar kallaðir til. Það var ekki fyrr en 1959 að fyrsta alvöru íslenska rokkhljómsveitin kom fram, Fimm í fullu fjöri, en þar sungu bæði Guðbergur Auðunsson og Siggi Johnny. Síðar fylgdu aðrar sveitir með ungum mönnum eins og Lúdó og Stefán og Diskó. KK þekkti sinn vitjunartíma og hætti með sextettinn 1962. Stjörnur 6. áratugarins gerðust ráðsettar við tónleikahald á virðulegum stöðum á meðan ungir rokkarar rokkuðu á vafasömum búllum eins og í Vetrargarðinum eða fyrir Kanann upp á Velli, sem á þessum tíma var annar heimur, spennandi og leyndardómsfullur með forboðnum krásum.

Amma Oddný – 125 ára

30 sept.

ammaoddný
Þessi glæsilega unga kona er hún Oddný amma mín. Svona er hennar getið í Íslendingabók:

Oddný Sigurrós Sigurðardóttir
Fædd á Sæbóli, Mýrarhr., Snæf. 30. september 1890
Látin á Akureyri 15. janúar 1984

Ef menn væru risaskjaldbökur væri hún sem sé að halda upp á 125 ára afmælið sitt í dag.

Amma Oddný var röggsöm og ákveðin. Varð hundfúl ef maður vann hana í rommý og stóð stundum út í glugga og kallaði nágrannana aumingja. Það var samt ekkert í illu, held ég, meira svona „blessaður auminginn hann Steinþór – ætlar hann aldrei að gera við bílinn?“

Þess má geta að Oddný Sigurrós Hjálmarsdóttir, systir mín, á líka afmæli í dag. Þær amma eru ekki bara nöfnur með sama afmælisdag, heldur þykja þær einnig mjög líkar. Þegar ég sýndi krökkunum mínum myndina af ömmu voru þau viss um að þetta væri Oddný frænka þeirra (en ekki langamma). Svona er nú DNA-ið skemmtilegt fyrirbæri.

Dr. Gunni í sjoppu – forsala

28 sept.

drge27
Sú staðreynd er yfirvofandi að ég verði fimmtugur. Ekki hafa áhyggjur af mér, ég er þegar búinn að ljúga að sjálfum mér að þetta sé ekkert mál, og að það sé um sjötugt sem fyrst fari eitthvað að bera á ellihrumleika. Til að halda upp á þetta tölulega tákn kemur út platan Dr. Gunni í sjoppu á afmælisdaginn, 7. október. Platan er tíu tommu vinýl-hljómplata í vönduðu litprentuðu umslagi. Aðeins verða búin til FIMMTÍU EINTÖK og verða þau tölusett og árituð af höfundi. Verð á stykkinu er 5000 kall, sem er náttúrlega ekkert okur þegar haft er í huga hvað kostar að búa til svona fá eintök. 

Það eru tíu lög á plötunni:

HLIÐ A:
01 1$ (með óþekktum götusala í New York!)
02 ROKK! (Sigga Beinteins syngur!)
03 HEIÐA DÖGG (Þorsteinn Eggertsson gerði textann!)
04 BAUGUR MÓNAKÓ PARTÍ
05 STÍF-STEF-STEFÁN (Videósílin flytja!)

HLIÐ B:
01 HESTAR
02 ROLLUR
03 GÚMMÍÖND (Dj. Flugvél og geimskip syngur og útsetur lagið!)
04 SJÖUNDI OKTÓBER
05 NEW YORK BORG KL. 4 UM NÓTT (Shady Owens syngur!)

(Uppfært 29. sept) PLATAN ER UPPSELD!!!

Hér er platan þjöppuð niður í eina mínútu til að gefa smjörþefinn:

Fylgja

Get every new post delivered to your Inbox.

Join 49 other followers