Trúbrot-kóver frá 1974

23 mars

johnmiles
Orange útgáfan og hljóðverið hafði nokkur áhrif á íslenskt popplíf 1972-74. Hljómsveitin Náttúra tók upp Magic Key í þessu hljóðveri. Notast var við Orange magnara sem Björgvin Gíslason var mjög óánægður með. Magnús og Jóhann duttu inn á meðan Náttúra var að taka upp og tóku up Yakkety Yak við undirleik Náttúru. Þeir fengu samning á staðnum og Change-ævintýrið hófst.

Einn af þeim sem Orange var með á sínum snærum var John Miles. Hann kom hingað á vegum Ámunda 1973 og spilaði með tríóinuThe John Miles Set. Hann var viðloðandi Change og fleiri íslenska poppara, m.a. Magga Kjartans, sem á tímabili stóð til að mynda gefa út smáskífur hjá Orange merkinu.

Eitt af því sem kom út úr þessu var að To Be Grateful, lag Magga Kjartans af Lifun, kom út sem b-hlið á smáskífu með John Miles. Ég fann einmitt eintak af smáskífunni í Kolaportinu um helgina, svo vesgú:

oas224-b

John Miles – To Be Grateful

Það er svo af John Miles að frétta að hátindur ferils hans var lagið Music, sem komst í þriðja sæti enska listans 1976.

Við erum öll hórur

19 mars

Tónlistaráhugafólk á svo sannarlega von á góðu. Hin stórgóða norska rokksveit KVELERTAK verður á Eistnaflugi í hrottalega góðum hópi, ATP er að verða geðveikari en andskotinn með Igga gamla Popp. Mudhoney, Belle & Sebastian og Public Enemy svo helstu gamlingjar séu nefndir.

Kóróna sköpunarverksins í þessu öllu saman er svo auðvitað Iceland Airwaves sem var að tilkynna nokkur sílspikuð atriði til viðbótar í dag. Við erum til dæmis að tala um THE POP GROUP sem gríðarlega skiptar skoðanir voru um í póstpönkinu í Kópavogi á sínum tíma. Þeir voru eiginlega „einum of“ fyrir mann á þessum tíma þótt ég hafi alltaf kunnað vel við slagarann We Are All Prostitutes. Þetta gekk svo langt að ég bað Stebba bróðir að kaupa fyrir mig bol með þessari áletrun. Þessu slagorði fylgdi mynd af Margréti Thatcher – kannski var þetta einhver frasi sem kerlingin (sorrí HHG) hafði látið út úr sér þegar hún var að hampa kapítalismanum.

Svo var maður náttúrlega alltof mikil tepra til að vera mikið í þessum bol, sérstaklega ekki í bankanum, þótt það hafi reyndar oft staðið til. Veit ekki hvort það hefði verið vel liðið af samstarfsfólkinu!

En allavega. THE POP GROUP hefur síðan vaxið mikið hjá manni og þetta frídjass, póstpönk, afríkubít og rugl er nú keypt ósoðið í æð. Öllum að óvörum byrjaði bandið nýlega saman aftur og hefur komið út ágætis plötu (miðað við svipaðar tilraunir svona once legends allavega). Platan heitir Citizen Zombie og hér er titillagið:

Þetta lítur ljómandi vel út og næg vinna framundan við að kynna sér öll þessi nöfn sem maður veit minnst um. Hér er skammturinn sem kynntur var í dag.

Og þessi var kynntur þar á undan.

65 ára gamalt snapchat

18 mars

Erum við að drukkna í kjaftæði? Gufar líf okkar upp í að fylgjast með tilgangslausu röfli á Facebook og Twitter. Fer allur okkar tími í að snapchatta á okkur rassgatinu til hvors annars?

Ég veit það ekki. En er ekki maður manns gaman? Nema náttúrlega þetta sé einhver vonlaus fábjáni og maður sé lokaður inn í lyftu með honum. Þá er það nú lítið gaman.

Þótt við lifum á tölvuöld hefur alltaf verið þörf fyrir allskonar leiðum til að skrásetja líf sitt. Stálþráður, slædsmyndir, 8mm, vhs. Fólk hefur alltaf verið að staðfesta tilveru sína með nýjustu græjum. Árið 1947 byrjaði Tage Ammendrup með þá þjónustu að fólk gæti tekið sig upp og fengið síðan 78 snúninga plötu með útkomunni. Hann auglýsti þjónustuna:

einkauppt

Þetta virðist hafa verið tekið eiginlega beint upp á plötuna, sem síðan var afhent kúnnanum og bara til í einu eintaki. Ég komst yfir eina svona plötu á dögunum – þ.e.a.s. eftir því sem ég kemst næst er þetta frá Tage og upptakan hefur því verið gerð í kringum 1950. Yfirborðið er cellulose nitrate lacquer (sellulósi nítrat lakk) sem er víst annað efni en er í venjulegum 78 snúninga plötum.

2015-03-18 17.25.07
Það eru þeir Hjörtur Eiríks og Þórður Valdimars sem eru með Stjórnmálarabb. Þetta er einskonar facebook-röfl eða snapchat frá því um 1950. Þeir eru að syngja einhver lög sem þeir kunna ekki og röfla um dagblöðin í bænum. Nokkuð skemmtileg bara!

Fréttir úr tónlistarlífinu

17 mars

unnursara
Unnur Sara Eldjárn er 22 ára gömul tónlistarkona. Tónlistin hennar er grípandi popp með áhrifum frá ýmsum tónlistarstefnum, til dæmis jazzi, rokki og leikhústónlist. Fyrsta sólóplatan hennar er nýkomin út og ber nafnið „Unnur Sara“. Plötuna tileinkar Unnur pabba sínum Kristjáni Eldjárn en frændi hennar Halldór Eldjárn úr Sykur er henni innan handar við upptökur og hljóðfæraleik auk hópi af snörpum hljóðfæraleikurum. Fyrsta lagið á plötunni heitir Pressa:

UNNUR SARA – PRESSA

Og svo eru það OF MONSTERS AND MEN sem hafa fengið Sigga Sigurjóns til að leika í nýjasta myndbandinu við nýjasta lagið, Crystals.

Þetta er fyrsta lagið sem heyrist af nýju plötunni Beneath The Skin, sem á að koma út 8. júní. Platan verður ellefu laga, en íslenska útgáfan 13 laga með tveimur aukalögum. Næsti túr hefst í Kanada 4. maí. OMAM er búin að selja 2 milljón eintök af fyrstu plötunni og verður athyglisvert að sjá hvert hljómsveitin vex með nýjum plötunni.

Þau ráða tískunni

12 mars

Ravage-TrendBeacons#3
Nú er Hönnunarmars að fara af stað. Í Bíó paradís er sýnd frábær heimildarmynd, TREND BEACONS eftir þá Markel-bræður, sem greinir frá störfum nokkurra „tískuvita“. Tískan veltur sem sé ekki stjórnlaust áfram heldur er þetta fólk í vinnu við að rýna fram á við og beina hönnuðum og fatamerkjum inn á vænlegar brautir. Þessir „vitar“ hugsa 2-3 ár fram í tímann og eru þegar farnir að spá í sumartískuna 2017. Vitarnir selja síðan hönnuðum og merkjum niðurstöður sínar og framtíðarspár.

Þetta er fólkið sem hefur hönd í bagga með því að eitt árið fást ekkert nema hnepptar gallabuxur (hvað er að rennilásum?), eitt árið eru ekkert nema köflóttar skyrtur í boði og eitt árið er hægt að fá Hawaii-legar skyrtur í flestum búðum, en svo það næsta er þetta allt gufað upp og eitthvað annað komið í staðinn. Það hlaut að vera að það væri eitthvað samræmi á bakvið tískuna.

Myndin er hröð og skemmtileg (sex stjörnur af fimm) og fylgist með 4 „vitum“ fabúlera og röfla um „vísindin“ sín. Allt í umhverfinu og tækniþróun hefur víst áhrif á tísku framtíðarinnar. Vitarnir virðast samstíga í framtíðarsýninni, eru með svipaða frasa „eco not ego“ og allskonar svona. Það eru ekki bara fataframleiðendur sem eru kúnnar vitanna, bílaframleiðendur, arkitektar o.s.frv eru það líka og þannig skapast einhver heildarsvipur á tísku og útliti, þótt þetta sé kannski alltaf að renna meira og meira út í eitthvað kaos.

Við kynnumst vitunum persónulega. Skemmtilegastir eru hollenskir hommar sem búa í svaka höll og eru með geithafur sem gæludýr. Þeir vinna saman undir merkinu Ravage. Aðeins er komið inn á fataframleiðsluna sjálfa (hörmungar í Bangladesh o.s.frv.) en aðallega reynir myndin að svara áleitnum spurningum um tískuþróunina. Þetta er mynd sem smellpassar við Hönnunarmarsinn og vekur einnig áhuga alstískulausra einstaklinga.

Sýnd í Bíóparadís svona:

Fimmtudagur 12. mars kl 20
Föstudagur 13. mars kl 18
Laugardagur 14. mars kl 16
Sunnudagur 15 mars kl 20

Kolaportið á morgun!

6 mars

Aðal stuðið verður í KOLAPORTINU á morgun, laugardag, þegar Steinn og Trausta mæta í bás 26A. Hér er auglýsing þar sem sjá má brot af úrvalinu:11044600_10153657591033012_5504034804273183890_o
Og svo fleiri brot hér að neðan, franskt, Bubbi og klassík og djass. Og allt auðvitað að fínu verði. Allir að mæta!
11016112_10153657910443012_6978869754596607498_n
10392279_10153657656368012_7336096455819585895_n
11026250_10153660252398012_1317791465024371851_n

Fréttir úr tónlistarlífinu

5 mars

10440281_885695521476438_6869007492349424607_n
GÓÐUR SÖNGUR og vel framborinn er söngur RAKELAR MJALLAR sem syngur í HALLELUWAH dúettnum. Hljómsveitarstjórinn er SÖLVI BLÖNDAL, áður aðalsprauta Quarashi kómbósins. HALLELUWAH heitir glænýr diskur dúettsins og eru þar 9 dægurlög á ensku. Að minnsta kosti 2 laganna hafa heyst opinberlega en restin er í sama stíl, snyrtilegt tölvupopp. Hér er opnunarlagið:

HALLELUWAH – MOVE ME

*

Hljómsveitin ELDBERG hefur hinn hársíða EYÞÓR INGA innanborðs og spilar ómengað hipparokk sem SG eða Fálkinn hefði getað gefið út 1971. Fyrsta platan kom út fyrir nokkrum árum en nú hyllir undir næstu plötu því fyrsta lagið er komið fyrir almenningshlustir. Hér kemur það:

ELDBERG – NÆTURLJÓÐ

*

Tónlistakonan SASHA SIEM hefur dvalið á Íslandi að undanförnu og tekið upp fyrstu plötuna sína MOST OF THE BOYS í Gróðurhúsinu með aðal grasafræðingnum sjálfum, Valgeiri Sigurðssyni. Sasha á ættir til Noregs og Englands en nefnir Andrew Bird og PJ Harvey til áhrifavalda. Nýjasta lag „í spilun“ á plötunni heitir SO POLITE:

SASHA SIEM – SO POLITE

*

Hellvar
Hljómsveitin HELLVAR með Heiðu og Elvar innanborðs er komin heim úr Englandstúr þar sem sveitin lék á tíu tónleikum og fékk góðar undantektir. Til að slá botnin úr þessu skeiði í lífi sveitarinnar heldur hún tónleika á Dillon annað kvöld (föstudagskvöld). Þeir byrja stundvíslega kl. 23. Svo fer bandið að taka upp næstu plötu.

*

Hér er gott lag frá 1967 með bresku bíthljómsveitinni THE EXCEPTATION. Er að hlusta á safndisk frá þessu bandi sem er gefinn út af RPM international, sama leibeli og gaf út PELICAN komplett á dögunum. Gott lag…

Fylgja

Get every new post delivered to your Inbox.

Join 49 other followers