Ælmundur

20 maí

AR-150419785
Gott er að eiga góðan felubúning ætli maður að æla í flugvél.

Ég hef annars fullan skilning á gubbmáli Ásmundar. Ég hef reyndar aldrei ælt í flugvél en einu sinni í venjulegum bíl (sem var glænýr og eigandinn nýbúinn að taka plastið af) og einu sinni í leigubíl (bílsstjórinn varð vitlaus og henti öllum út). Ég var að sjálfssögðu með magakveisu í bæði skiptin og hafði bara fengið mér smá rauðvín.

Finnskir snillingar

19 maí

Í kvöld munu Finnarnir í Pertti Kurikan Nimipäivät komast í úrslit Eurovision. Á laugardaginn munu þeir svo rótbursta keppnina. Ef þessi spá gengur ekki eftir mun ég segja mig úr EES. Á meðan beðið er snilldarinnar hví ekki að horfa á þennan skemmtilega þátt úr finnska sjónvarpinu um strákana og fleiri finnska snillinga. Ath: Það er enskur texti á þessu.

Menntaskólinn – 30 árum síðar

16 maí

Næstu helgi ætlar árgangurinn minn úr MK að reuniona 30 ára stúdentinn sinn. Ég verð í New York og missi af gleðinni. Þetta er tilviljun, ég sver. Hefði alveg verið í stuði með þessum gamalmennum. Ég man merkilega lítið frá menntaskólaárunum og enn minna frá þremur árunum á undan þegar ég var í gaggó. Myndir hafa verið að ganga á Facebook svo eitthvað hefur rifjast upp.
11208667_10153332926689668_2290218384361145648_n
Dimmiteringarbúningurinn átti að vera Michelin karlar en ég er ekki viss um að fólk hafi almennt fattað það. Óneitanlega var nokkuð skrítið að vera blindfullur í bænum í miðri viku 1985. Ég gerði þó takmarkaðan skandal. Fór í Kirkjubúðina og spurði hundfúla kellingu hvort það væru til bækur um kynlíf Krists. „Hann hefur örugglega lifað góðu kynlífi“ minnir mig að konan hafi sagt. Svo sá ég Jón Baldvin á Austurvelli og hreytti í hann fúkyrðum. Hann var örugglega vanur svona rugli og strunsaði í burtu.

11053922_10153332919874668_8031429902624219121_o
Það var ljótupeysudagur á hverjum degi. Ekki hef ég hugmynd um hvað er í gangi þarna.

10339355_10153332932919668_6227458357814931565_o
Allir voru með asnalegt 80s hár og enginn hafði hlustað á The Fall eða The Birthday Party nema ég auðvitað. Gunnþór Hermannsson sem situr þarna við hliðina á mér og var bekkjarfélagi í máladeildinni keypti ensku fótboltablöðin í hverri viku og hafði mest gaman að The Dire Straits.

11194499_10153332921274668_6614906730667284780_o
Þorkell Ingólfsson var hinn strákurinn í bekknum (það var reyndar einn í viðbót, Hrafn Franklin Friðbjörnsson (1965-2009) aka „Hrabbi Diskó“ en hann var nú alltaf með stelpunum). Við Þorkell náðum vel saman í menntaskólasukki og almennu rugli.

hrafnar
Hér eru þau einmitt, Hrabbi og Hrafnhildur Halldórsdóttir, sem síðar átti eftir að gera garðinn frægann hjá Rúv. Sjitt, ég finn bragðið af þessari bollu í gegnum þoku áranna! Væminn appelsínusafi og kláravín eða eitthvað álíka. Dáldið öðruvísi drykkjumenning í gangi fyrir bjór.

11181228_10153334086079668_7759908858597775415_o
Hér má sjá hina föngulegu máladeild MK við útskrift 1985. Þrjátíu ár – það er nú ekki neitt!

Á slóðum æskunnar

15 maí


Þann 18. mæ verða liðin heil 35 ár síðan Ian Curtis söngvari Joy Division kálaði sér. Ekki man ég til þess að hafa heyrt af þessu á sínum tíma, enda örugglega ekki sagt frá þessum tíðindum í fréttum Gömlu Gufunnar. Í tilefni af þessu ætlar alíslenskt Joy Division kóverband að heiðra bandið í kvöld á ELLEFUNNI. Hljómsveitin virðist ekki heita neitt en hún er skipuð þessum meisturum:

Magnús Þór Magnússon (Morgan Kane) Söngur.
Elvar Geir Sævarsson (Hellvar) Gítar.
Flosi Þorgeirsson (Ham) Bassi.
Guðjón Guðjónsson (Q4U) Trommur.
Árni Daniel Júlíusson (Q4U) Hljómborð.
 
Úr fréttatilkynningu: Joy Division er ein áhrifamesta nýbylgju-rokkhljómsveit síðari tíma og lagði grunninn að mótun nýrra tónlistarstefna með ferskri nálgun á bæði upptökuferli og lagasmíðar.
Myrkur hljóðheimurinn, ásamt angurværum textum Ian Curtis, hefur í áranna rás heillað og skelft tónlistaráhugafólk og tónlistarmenn um allan heim. Áhrif hljómsveitarinnar hefur skilað sér í sköpun banda eins og Bauhaus, U2, The Cure, Inerpol og Editors. Einnig hafði Joy Division áhrif á mótun þyngri hljómsveita, en ótal undirflokkar „Goth rokksins“ hafa orðið til á þessum 35 árum sem liðið hafa frá dauða Curtis.
 
Tónleikarnir hefjast klukkan 22:30 en upphitun er í boði Antimony. Joy Division tribute-bandið hefur svo leik klukkan 23:00. FRÍTT INN!


soley_-_ask_the_deep_-_cover

Sóley
hefur gefið út plötuna Ask The Deep sem er góð og aðeins poppaðri en fyrri plötur. Sóley er nú á Evróputúr. Halloween videóið er með því flottara sem maður hefur séð. Enn er unnið með íslenskt landslag en á alveg nýjan og ferskan og gotneskan hátt. Mega stöff:

Hver er Sturla Atlas? Hann er allavega leynigaur en Logi Petro gerir nýju plötuna hans. Hér er ágætis lag:

Finnarnir vinna Eurovision

14 maí


Eurovision er í næstu viku. Finnarnir í PKN eru númer fimm í röðinni á þriðjudagskvöldið. Þeir komast í úrslitaþáttinn á laugardaginn og munu þá vinna Eurovision með miklum yfirburðum, enda eru öll hin lögin ömurleg við hliðina á því finnska. Þú last þetta fyrst hér.

Rúv sýndi heimildarmyndina frábæru The Punk Syndrome á mánudaginn. Þetta er möst sí áður en keppnin byrjar. Það má horfa á hana í Sarpinu.

Felix og Baldvin Þór Bergssynir eru hér með hlaðvarpsþátt og ræða m.a. um Finnana.

Ég er búinn að panta nýjan PKN bol.

Hvert var fyrsta íslenska popplagið?

13 maí

Ég hef búið til nýjan hlaðvarpsþátt. Nú hef ég hafið samstarf við ALVARPIÐ á NÚTÍMANUM og verð með hlaðvörp þar framvegis, þegar ég nenni. Þátturinn heitir Í kasti með Dr. Gunna og að þessu sinni er ég í kasti með Ólafi Þór Þorsteinssyni, eða Ólafi 78 snúninga eins og ég kýs að kalla hann.

http://nutiminn.is/hvert-var-fyrsta-islenska-popplagid/

78snúninga plötur voru það format sem gekk hér á landi frá 1910 til 1958. Þá höfðu 45snúninga plötur og LP plötur tekið við. Ég hef að undanförnu fyllst áhuga fyrir 78snúninga plötum, bæði íslenskum og erlendum, enda er tónlistin forn og spennandi. Ólafur er mestur safnara á þessu sviði á Íslandi, hefur safnað í 28 ár og á nú 680 af þeim 740 78 snúningaplötum sem komu út á Íslandi.

Í viðtalinu, sem er kryddað með fornum og skemmtilegum lögum, ræðum við ýmislegt. Söfnunaráráttuna, hræðsluna við jarðskjálfta og síðast en síst ekki tónlistina og tónlistarfólkið.

EinarHjaltested
Spurningunni: Hvert var fyrsta íslenska popplagið sem kom út á plötu? er erfitt að svara því fyrst þurfum við að skilgreina hvað er popp og hvað er ekki popp. Við komumst þó niður á að ef till vill hafi Einar Hjaltested sungið fyrstu popplögin ásamt hljómsveit í New York árið 1917.

Atli Olafs
Ef Það var ekki Einar þá er það kannski Atli Ólafsson, sem söng 5 lög á plötur árið 1936 út í Kaupmannahöfn með tívolí hljómsveit Elo Magnússon. Mamma Atla, Frú Anna Friðriksson. rak Hljóðfærahúsið og sendi soninn úr landi til að taka upp popp. Eitthvað babb kom í þann bát því plöturnar komu út undir dulnefninu Guðmundur Þorsteinsson. Þetta var frekar illa sungið – semir vilja jafnvel meina að Atli hafi verið fyrsti „hamfarapopparinn“.

Íslensk poppútgáfa hófst svo ekki almennilega fyrr en 1953. Þessi saga er rakin í viðtalinu, en lögin sem leikin eru af brakandi góðum 78 snúninga plötum eru þessi:

Einar Hjaltested – Vorgyðjan (1917)
Atli Ólafsson (aka Guðmundur Þorsteinsson) – Top hat (1936)
Atli Ólafsson (aka Guðmundur Þorsteinsson) – Í Ríó Banba (1936)
Hallbjörg Bjarnadóttir – Jeg har elsket dig, så længe jeg kan mindes (1938)
Elsa Sigfúss – På en Bænk ved Bækken (1938)
Björn R Einarsson og hljómsveit – Christofer Columbus (1948)
Ragnar Bjarnason – Í faðmi dalsins (1954)
Ingibjörg Þorbergs – Nótt (1954)

Ólafur er með HEIMASÍÐU ÍSLENSKU 78 SNÚNINGA PLÖTUNNAR þar sem má t.d. sjá lista yfir allar útgefnar íslenskar 78 snúninga plötur. Ólafur skrifaði ritgerð til B.A.-prófs um þetta mál sem má hlaða niður hér í pdf formi: „Íslenzkar Gramóphón-plötur“ Upphaf hljóðritunar og saga 78 snúninga plötunnar á Íslandi 1910-1958.

KÓP @60

10 maí

DrGunni-Erpur-Salka
Besti og fjölmennasti bær landsins fagnar 60 ára afmæli sínu í dag. Ég er að tala um Kópavog. Í dag kl. 16 verða stórtónleikar í KÓRNUM í Kópavogi sem mundu fá áróðursmeistari Norður Kóreu til að svitna, hvílíkur er glæsileikinn. Allir sem Kópavogs-vettlingi hafa valdið mæta og syngja og spila sín ljúfustu lög. Hér að ofan má sjá tríóið KÓPCO sem kemur fram á tónleikunum. Frekara samstarf á nýjum vettvangi er í kortunum.

11255826_10207365276997060_5133420455227006762_n
Að sjálfssögðu koma FRÆBBBLARNIR fram og taka stórfenglega best of syrpu. Hér má sjá hljómsveitina bíða eftir sándtékki, en á myndina vantar séníið Rikka pönk.

Sjáumst í KÓRNUM! Ókeypis inn, hestaferðir fyrir krakka og veitingar!

Fylgja

Get every new post delivered to your Inbox.

Join 51 other followers