Fólk sem kann ekki íslensku

26 apríl

Í heiminum eru nú um það bil 6.913.748.299 manns sem kunna ekki íslensku. Það hefur þó ekki stoppað sumt af því í að syngja á íslensku inn á plötur. Allir kannast við bakraddasöngkonurnar sem gefa Horfðu til himins með Nýdönsk alveg sérstakan sjarma, enda er það flott og sjarmerandi þegar fólk sem kann ekki íslensku syngur samt á íslensku. Heyrum þetta góða lag:

Þetta voru nú bara einhverjar stelpur sem Nýdanskir fundu í Englandi þar sem þeir tóku plötuna upp.

Tæplega 40 árum fyrr, 1955, var Haukur Morthens út í Danmörku að taka upp með hljómsveit Jørn Grauengårds. Á b-hliðinni á „Hæ mambó“ er „Hið undursamlega æfintýri“ þar sem danskur „kór“ dúar og syngur annað slagið „á morgun“ með gríðarlegum hreim. Alveg frábært lag!


Haukur Morthens með undirleik Jørn Grauengårds kvintet og kór – Hið undursamlega æfintýri

Haukur vann mikið með Jörn og hér er grein í Tímanum frá 1959 þar sem segir frá upptökum þá.

Svo er það hin norska Nora Brocksted sem kom hingað ásamt sönghópnum Monn Keys og hélt tónleika. Hún tók upp 4 lög á íslensku fyrir hljómplötumerki Tage Ammendrup, Íslenzkir tónar. Þar af er Svo ung og blíð langfrægast. Það kom út 1955.

Á b-hliðinni er þetta lag með íslenskum texta eftir Þorstein Sveinsson:


Nora Brocksted með Monn keys og hljómsveit Egil Monn-Iversens – Æskunnar ómar

Lengstum var talið að til að sigra heiminn þyrfti að henda íslenskunni og taka upp enskuna, „tungumál rokksins“ eins og klisjan hljómaði. Þetta afsannaði Sigur Rós og því hafa þeir þurft að syngja á íslensku sem vilja kóvera Sigur Rós almennilega. Ýmsar áheyrilegar útgáfur eru til með aðdáendum Sigur Rósar að reyna sig við íslenskuna og hér er einn gríðarlega metnaðarfullur náungi, Nick Johns, að taka Svefn-g-englar.

Nýtt og brakandi

25 apríl

Íslenska senan heldur áfram að ólmast í drullugóðu stuði. Hér er gott stöff:
a0153048691_10
Goðadauðapönkbandið BÖRN er nú á túr í Bandaríkjunum (og er í viðtali hér). Hljómsveitin hefur gefið út glænýja 4-laga plötu sem hægt er að hlusta á hér. Helvíti gott efni.


Nýtt lag kom með gömlu góðu Q4U á dögunum. Þau hafa engu gleymt, eins og þar stendur.

Nýjasta lagið með gleðipönkurunum í MORÐINGJUNUM heitir Nagli og er fjórða nýja lagið sem heyrist með bandinu. Þetta hlýtur að enda með því að það komi plata.


Þá hafa hjartagosarnir Emmsjé Gauti og Friðrik Dór blastað nýju görli á Youtube. Íslenskir rapparar nútímans finna sér helst yrkisefni í fylliríi, þynnku og drykkjubömmer þessa dagana, sem er kannski ekkert nýtt, ég veit það ekki. Lagið er allavega fínt!

Grænland rokkar

25 apríl

Fáránlega lítill samgangur er á milli okkar og Grænlendinga, þótt þeir séu næsta byggða ból við okkur. Við erum líka oft rasistar þegar við tölum um „fulla Grænlendinga“ og eitthvað kjaftæði sem við vitum ekkert um. Mér finnst kominn tími til að breyta þessu og sé fram á tíma þegar Grænland verður hipp og kúl og jafn auðvelt að fara þangað eins og til Ísafjarðar. Sjálfur hef ég aldrei komið til Grænlands en er ævinlega á leiðinni.

Þjóðin er að slefa í 56 þúsund manns og býr um víðan völl í þessu risavaxna landi. Flestir búa í Nuuk, 17þúsund manns, svona aðeins minna en Akureyri. Ég hef að undanförnu kynnt mér aðeins tónlistarlíf Grænlands. Ég fór á frábæra mynd um hljómsveitina Sumé á dögunum. Þetta var ágætis hipparokk með miklum pólitískum boðskap um aðskilnað og frjálst Grænland. Myndin fjallar meira um pólitíkina en músíkina en er fín. Sumé var gríðarlega vinsælt band í Grænlandi og það fyrsta til að syngja á grænlensku.

311745_10150282030140974_509164550_n
Með því að skrifa fólki sem kom að þessari mynd hef ég komist að fleiru um músíklífið. Hávaðasamasta og pönkaðasta bandið heitir Uané og er með söngkonuna Maaliaaraq Engell í fararbroddi. Bandið hefur verið í pásu því söngkonan var að eignast sitt annað barn, en ætlar að fara að telja í. Stórfyrirtækið Erðanúmúsík hefur sýnt áhuga á að gefa út litla plötu með hljómsveitinni.

Rafsólóbandið Uyarakq er að gera góða hluti. Á MixtapeQ er unnið með eldra popp Grænlands.


Angu Motzfeldt er mikill hæfileikamaður, þótt tónlistin hans sé kannski dáldið meinstrím og ekki mjög „grænlensk“. Hann syngur vel og gerir gott popp og hefur gert eina plötu. Hér að ofan syngur hann Bowie-slagarann góðkunna. Angu er líka fantagóður ljósmyndari og er með þessa Tumblr-síðu: http://motzfeldt.tumblr.com/


Nanook er líklega vinsælasta grænlenska bandið í dag. Full meinstrím fyrir minn smekk en greinilega klárir gaurar. Bandið hefur spilað á Airwaves.


Nive Nielsen er líka þekkt stærð og hefur spilað á Airwaves. Hún er nú að fara að koma með sína aðra plötu og sá nýlega um að velja lög á Nordic Playlist dæmið.

Grænland er málið krakkar!

Davíð Oddsson var aldrei rokkari!

23 apríl

11182273_900328366695870_824871796892973588_n
Þessa mynd birti ég á Facebook með textanum: Það eru fáir sem vita það en í kringum 1970 var Davíð Oddsson í hljómsveitinni Fönix. Eina lagið sem kom út með gítarleik og söng Davíðs var hið frumsamda „Rauðir hundar“ á safnplötunn Pop Festival 1970 (útg. Tónaútgáfan T-14)

Því miður er þetta algjör uppspuni og lýgi. Gítarleikarinn – sem vissulega er sláandi líkur Davíð – heitir Arlen Roth.

Eins og alltaf þegar Davíð Oddsson ber á góma urðu menn fljótir til að æsast upp í röfli. Meðal kommenta voru þessi:

– Oj
– Mannfjandinn er með Gibson Les Paul goldtop með P90 pickuppum. Þessi gítar er örugglega verðmætari en hann í dag.

En það komu jákvæð viðbrögð líka frá nafntoguðum mönnum:

– Davíð Oddsson er fínn rithöfundur, sjall textasmiður og tekur sig vel út með gitarinn (Bubbi Morthens)
– Ætli hann lumi enn á þessum flotta Les Paul? (Magnús Eiríksson)

Svo það sé endurtekið einu sinni enn: DAVÍÐ ODDSSON VAR (því miður) ALDREI ROKKARI!

Hann var og er hins vegar mikill Bob Dylan aðdáandi og gaf út eina plötu með félögum sínum í Matthildi. Um það hef ég þegar skrifað.

Að vera kúl og eiga von

23 apríl

thefallrektor
Hér er nýkjörinn Háskólarektor, Jón Atli Benediktsson, í Íslandi í dag veifandi bestu plötu The Fall, 10-tommunni Slates. Það er ekki annað hægt en að fyllast von á framtíðina þegar slíkur meistari er sestur á rektorsstól, án þess þó að það hafi skipt mig miklu máli hingað til hver er rektor. Bara gott að vita af rokk og pönk-aðdáanda á góðum stað.

Það er í tísku að „tala niður“ Ísland og Íslendinga og jafnvel ala þá von í brjósti að Norðmenn hirði okkur eða aðrir úitlendingar af því við erum of vitlaus til að ráða fram úr okkar málum á ábyrgan hátt. Vissulega lítur þetta oft þannig út. Eins og bjánar kjósum við bjánalega flokka sí og æ eftir að hafa fallið fyrir sturluðum loforðum, oftast um monnípening í vasann. Alltof oft veljum við vitlaust lag í Eurovision og gerum allskonar bjánalega hluti sem hjörð – af því þannig er stemmningin.

Sem betur fer erum við þó stundum ekki algjörir bjánar og gerum eitthvað kúl. Við vorum kúl sem þjóð þegar við kusum Vigdísi sem forseta. Við erum kúl sem hjörð þegar við fjölmennum á Gay pride og samgleðjumst með fólki sem var kúgað og lagt í einelti áratugum saman. Mér fannst það kúl þegar Besti flokkurinn tók Borgina. Og mér finnst það líka kúl að Píratar skuli stöðugt vera að bæta á sig fylgi.

Því lífið er ekkert flókið. Alltaf skal gera það sem er meira kúl heldur en það sem er bjánalegt.


Já og GLEÐILEGT SUMAR! Hér er lagið Það er komið sumar með Mannakornum af plötunni Samferða (1990). Menn voru í miklu stuði þegar lagið var tekið upp. Pálmi öskrar þetta næstum því. Saxófónleikarinn Rúnar Georgsson var eitthvað illa fyrirkallaður þegar hann mætti og spilaði þetta inn. Magnúsi og Pálma fannst sólóið líflaust svo Magnús brá á það ráð að bregða sér aðeins frá með Rúnari. Þegar þeir komu til baka og búnir að fá sér var allt annað hljóð í strokknum og þá kom þetta líka snarsturlaða saxófónsóló – eitt það villtasta í poppsögunni!

HEIMA í HFN

22 apríl

heimass
Eins og allir vita er Hafnarfjörður nettasti bærinn á höfuðborgarsvæðinu. Í kvöld fer þar fram tónlistarhátíðin HEIMA sem hamhleypurnar Kiddi Kanína og Óli Palla standa fyrir að færeyskri fyrirmynd. Þetta er rakið dæmi – 13 tónlistaratriði koma fram tvisvar í hinum ýmsu heimahúsum í miðbæ Hafnarfjarðar. Ætli maður þurfi að fara úr skónum? 4900 kall kostar á haus að berja dýrðina augum og verður byrjað að afhenda armbönd í Hafnarbíói klukkan 16 í dag.

Þeir sem koma fram hafa lagt sig fram í að búa til eitthvað nýtt fyrir HEIMA. Hver tónleikur er um 40 mínútur. Þetta eru atriðin:

Eivör Pálsdóttir ásamt hljómsveit
KK
Lúðrasveit Þorlákshafnar ásamt leynigesti (Jónas Sig)
Berndsen
Jóhanna Guðrún og Davíð Sigurgeirsson
Dimma
Herbert Guðmundsson og Hjörtur Howser
Langi Seli og Skuggarnir
Jón Jónsson og Friðrik Dór
Margrét Eir og Thin Jim
Emmsjé Gauti & Agent Fresco
Ragga Gísla & Helgi Svavar
Þórunn Antonía og Bjarni (Mínus)

HEIMA markað upphaf Bjartra daga í Hafnarfirði. Miðasalan er á MIDI.IS og dagskráin er á Facebook.

Söngvari DRON fallinn frá

21 apríl

0512-Dron. Bragi Ragnarsson þenur raddböndin
Jafnaldri minn Bragi Ragnarsson er fallinn frá. Hann bjó á Álfhólsveginum nálægt mér en samt töluðust við aldrei við og vorum í sitthvorum vinahópnum. Bragi var söngvari í hljómsveitinni DRON (Danshljómsveit Reykjavíkur Og Nágrennis), en sú hljómsveit sigraði fyrstu Músíktilraunir Tónabæjar árið 1982.

Ég hafði ástæðu til að vera fúll yfir þessu. Ekki bara var bassaleikarinn Björn Gunnarsson sem ég hafði spilað með í hljómsveitunum F/8 og Geðfró meðlimur í DRON heldur hafði S/H Draumur keppt á fyrsta undanúrslitakvöldi sögunnar og ekki komist áfram heldur dottið út eins og Vébandið á meðan Reflex og Sokkabandið komust áfram. Ég var lengi grútfúll yfir þessu öllu saman.

Ekki varð mikið úr DRON, eins og stundum gerist með Músíktilraunasigurvegara. Auk Braga og Bjössa voru Einar Þorvaldsson, Óskar Þorvaldsson og Máni Svavarsson í bandinu. Eiginlega var það bara Máni einn sem gerði eitthvað meira í músík. DRON kom þó tveimur lögum á safnplötuna SATT 2 árið 1984 og þau koma hér að neðan.

Þrátt fyrir ótvíræða hæfileika Braga sem söngvara gerði hann eiginlega ekkert meira eftir þetta á söngsviðinu, a.m.k. ekki það sem maður veit af, en hann var reyndar lengi búsettur í Danmörku svo maður getur hafa misst af einhverju þar. Hann var vel liðinn og talinn ákaflega góður drengur.

Hvíl í friði.

DRON – ALLRIGHT (Lag: Máni Svavarsson / Texti: Bragi Ragnarsson)

DRON – PRIESTS (Lag og texti – Einar Þorvaldsson)

Fylgja

Get every new post delivered to your Inbox.

Join 50 other followers