Brjálað stuðlag!

7 Okt

Brjálað stuðlag heitir nýtt lag sem í dag er sett í spilun af væntanlegri (barna)plötu Dr. Gunna og vina hans, Alheimurinn! Lagið kemur í kjölfar lagsins Glaðasti hundur í heimi með Friðriki Dór, en það lag hefur verið gríðarlega vinsælt í sumar og haust.

Saga Brjálaðs stuðlags er frekar furðuleg. Hún hefst á því að ég mætti Gylfa Ægissyni í móttöku RÚV í vor. Ég var að fara út, Gylfi að koma inn. Á þessum tíma vantaði enn eitt gott lag á plötuna. Það eitt að sjá Gylfa kveikti svo ærlega upp í lagahöfundar-ofninum í mér að ég samdi útlínur lagsins í bílnum á leiðinni frá RÚV í World Class í Laugum. Í laginu hittir Gylfi (í eigin persónu) Fýlustrákinn, en Fýlustrákurinn var sem kunnugt er á fyrri (barna)plötu Dr. Gunna og vina hans, Abbababb! sem kom út 1997. Þar söng Fýlustrákurinn á móti Rúnari heitnum  Júl (sem var Hr. Rokk), en nú var sem sé komið að Gylfa að reyna að hressa Fýlustrákinn við.

Þegar ég hafði fullsamið lagið var það tekið upp í Geimsteini í Keflavík þar sem platan Alheimurinn! var tekin upp í sumar og haust. Að sjálfssögðu kom Gylfi sjálfur og söng á móti Fýlustráknum. Á þessum tíma var viðlag lagsins svona: „Ég heiti Gylfi Ægisson, ég er í stuði lon og don“. Auk Gylfa söng Jakob Frímann Magnússon og spilaði hljómborðs-sóló í laginu, Bjartmar Guðlaugssyni var gripinn glóðvolgur í Geimsteini og látinn tala fyrir sögumanninn í laginu og Mugison var heimsóttur í Súðavík og látinn syngja sinn part.

Þetta var með öðrum orðum orðið rándýrt lag.

Skömmu síðar uppgötvaði Gylfi Ægisson internetið og fór í „hommastríð“. Er óhætt að segja að útgáfa Brjálaðs stuðlags sem næsta lag í spilun á eftir Glaðasta hundinum hafi komist í talsvert uppnám og staðan orðið verri og verri með hverjum bardaga Gylfa í „hommastríðinu“. Textinn var jú „Ég heiti Gylfi Ægisson, ég er í stuði lon og don“ og gúddvill þjóðfélagsins í garð Gylfa í lágmarki. Mér finnst Gylfa reyndar frábær sama hvað hver segir (fyrir utan „hommastríðið“ sem ég játa að ég skil bara ekkert í), en svona stríðsmaður er bara einum of vafasamt dæmi til að hægt sé að bera það á borð fyrir æsku landsins. Það ber vott um jákvæða siðferðisafstöðu þjóðarinnar að miklu betra hefði verið fyrir lagið ef Gylfi hefði komið út úr skápnum.

Nú voru góð ráð dýr en lausnin þó skammt undan. Með fullu samþykki Gylfa – sem enn er í „hommastríði“ og finnst allt húllumhæið í kringum lagið sprenghlægilegt – var Sólmundur Hólm, eftirherma og ævisagnaritari Gylfa sjanghæaður um borð og látinn syngja yfir það sem Gylfi var búinn að syngja. Allt var eins nema að viðlagið var nú orðið: „Ég heiti Villi Stuðmundsson, ég er í stuði lon og don…“

Þannig kemur lagið út í dag og á Alheiminum! eftir 2-3 vikur.

BRJÁLAÐ STUÐLAG
Nei, situr ekki Fýlustrákurinn í strætóskýlinu og er auðvitað grautfúll. Þegar hann sér karl með kaskeiti koma labbandi fer hann strax að kvarta og kveina:

Ég vild ég væri forríkur
og ætti kagga, höll og tvær snekkjur.

 Svona svona ræfillinn
hertu upp hugann, elsku kallinn minn.

 Ég segi það satt, ég hef það skítt
mig vantar peninga og vil fá þá frítt. 

Uss, það er sumar og úti heitt
og blómin og sólin kosta ekki neitt.

Ég heiti Villi Stuðmundsson
ég er í stuði lon og don
Hér er gleði og gaman
og við syngjum saman
brjálað stuðlag! 

Ég heiti Villi Stuðmundsson
og þetta er Mugison – Halló!
Hér er gleði og gaman
og við syngjum saman
brjálað stuðlag!

Gjörsamlega, algjörlega, meiriháttar brjálað stuðlag!

 Já, en Fýlustráknum fannst lítið til koma og hélt áfram að kvarta og kveina:

 Mér finnst sólin vera leiðinleg
og allir hafaða miklu betra en ég. 

Hva, voðalega ertu súr
viltu ekki skreppa og fara í göngutúr?

Hva, ertu alveg snarklikkó?
Sérðu ekki að ég er að bíða eftir strætó! 

Nú er nema von þú sér gugginn og grár 
Hér hefur enginn strætó komið í sautján ár! 

Ég heiti Villi Stuðmundsson
og ég heiti Mugison.
Hér er gleði og gaman
og við syngjum saman
brjálað stuðlag! 

Ég heiti Villi Stuðmundsson
Og ég heiti Mugison
og ég heiti Jakob Frímann Magnússon…
Hér er gleði og gaman
og við syngjum saman
brjálað stuðlag!

Gjörsamlega, algjörlega, meiriháttar, gasalega
dúndurfjörugt, hrikalega, svakalega brjálað stuðlag! 

SÓLÓ!

Við heitum Villi, Son og Kobb.
Stuð og fjör er okkar djobb.
Hér er gleði og gaman
og við syngjum saman
brjálað stuðlag! 

Við heitum Villi, Son og Kobb
Stuð og fjör er okkar djobb.
Hér er gleði og gaman
og við syngjum saman
brjálað stuðlag!

Gjörsamlega, algjörlega, meiriháttar, gasalega
dúndurfjörugt, hrikalega, svakalega, rosalega,
ægilega, þægilega, tryllingslega, villingslega,
gebbað kúl og einfaldlega algjörlega brjálað stuðlag!

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: