Sarpur | Frægir á ferð RSS feed for this section

Frægur Jólasatan fær sér pulsu

4 Des

11109005_703806549742032_8216651779059808132_n
Í tísku er að tala um „Fræga“. Örugglega Eiríkur Jónsson sem byrjaði á þessu. Frægir í samkvæmi, Frægir í kjól, o.s.frv. Langbesti vinkillinn á þessu Frægra-kjaftæði er Frægir fá sér pulsu síðan á Facebook. Þar birtast myndir af frægum að fá sér pulsu á Bæjarins bestu, auk pulsutengdra upplýsinga. Um daginn náðist þessa fína mynd af mér og Lalla Johns.

Jólalagakeppni Rásar 2 stendur nú yfir. Reyndar er ekki búið að tilkynna hvaða lög eru í forvalinu. Einn þeirra sem sendi inn er Páll Ivan frá Eiðum. Lagið hans heitir Jóla Satan og er klárlega langbesta lagið í ár. „Skreyti tré með heitu brundsæði“ er ein línan, svo nú reynir á víðsýni dómnefndar jólalagakeppninnar. Annars er Páll Ivan frá Eiðum algjör snillingur sem hefur búið til fullt af tónlist en ekkert gefið út. Ef ég væri að spá hver yrði næsta öndergránd-stjarna myndi ég halda að það yrði hann.

Hljómar hitta Bítil

26 Nóv

Fólk hefur mikið komið að máli við mig. Ekki til að hvetja mig til forsetaframboðs (enda myndi ég ekki nenna að vera svona mikið í burtu frá fjölskyldunni) heldur til að spyrja hvort fyrstu fimm þættirnir af POPP OG ROKKSÖGU ÍSLANDS komi út fyrir jólin á dvd. Málið var skoðað og niðurstaðan er NEI. Hins vegar erum við nú sveittir að búa til SJÖ þætti í viðbót sem á að byrja að sýna á Rúv í mars. Þegar upp er staðið verða því komnir TÓLF þættir af POPP OG ROKKSÖGU ÍSLANDS og poppsagan frá landnámi til okkar dags vandlega innrömmuð á TÓLF klukktímum! Og það sem betra er: Það eru allar líkur á að heildarpakkinn verði gefinn út á dvd í einhvers konar „vönduðum pakka“, sem verður auðvitað „jólagjöfin í ár“ 2016.

Kannski fylgir „aukaefni“ í pakkanum – enda heill haugur á „klippigólfinu“ eftir blóðugan niðurskurð. Þetta er ekkert dútl. Við hittum um 200 manns. Stilltum upp myndavél, töluðum við viðfangið í 1-4 tíma (suma risapoppara þurfti að tala við í tveimur sessjónum) og svo er þetta mikla efni skorið niður í sándbæt og smásögur og jafnvel dæmi um að það væri ekki einu sinni notað neitt af spjallinu vegna þess að það bætti engu við flæðið. Hrikalega blóðugt. En við erum þá allavega með 200 poppara skjalfesta og ætli þetta efni endi ekki bara á Landsbókasafninu komandi kynslóðum til notkunar.

Allavega, á „klippigólfinu“ er allskonar snilld, sem ekki passaði í flæðið og inn í þá 12 klukkutíma sem við höfðum til að segja söguna. Meðal þess er sagan af því þegar Hljómar hittu Bítil.

Árið er 1967, ágúst. Svavar Gests ætlar að gera LP plötu með Hljómum og sendir þá til London til að taka upp, enda engin almennileg aðstaða á Íslandi til plötugerðar. Strákarnir telja í, gera 12 laga plötu á einhverjum 16 tímum í Chapell Recording Stúdíós með Tony Russell. Útkoman er fyrsta „alvöru“ rokk/popp-LP plata Íslandssögunnar, fyrsta LP plata Hljóma (nú fáanleg aftur á vinýl þökk sé Senu). Í ferðinni spókuðu strákarnir sig um í London. Funheitt nýstyrni, Jimi Hendrix, er með tónleika í Saville Theatre á Shaftsbury Avenue. Eigindi tónleikastaðarins er sjálfur Brian Epstein, umboðsmaður Bítlanna. Tvö gigg eru með Jimi þann 27. ágúst. Þetta er eftirsótt gigg, fáir miðar eftir. Hljómar fá einn miða á fyrri tónleikana, en þrjá á þá seinni. Gunni Þórðar fer á fyrra giggið og gapir á Jimi leika listir sínar. Hinir fóru aldrei á seinna giggið vegna þess að því var aflýst. Brian Epstein hafði nefnilega étið of mikið af dópi og svefntöflum og stimplað sig út (líklega fyrir slysni, frekar en af ásetningi). Bömmer!

Í London fóru Hljómar „all in“ í Bítlamenningunni. London var svo sem ekkert ný fyrir þeim, þeir höfðu komið hérna oft áður, m.a. þegar þeir tóku upp lögin á Umbarumbamba 2 árum áður. Aðal pleisið er Bag O’Nails í Soho. Þarna hanga poppararnir. Þarna kynntist Paul McCartney Lindu sinni. Jimi Hendrix, Keith Moon og Reg Presley kannski í góðum gír á mánudegi, fullt af skvísum í mínípilsum. Bjór á barnum. Glaumbær hvað?

Erlingur Björnsson og Engilbert Jensen eru að fá sér. Kannski að ræða bömmerinn yfir því að missa af Jimi Hendrix. Það eru fullt af frægum poppurum þarna, en Hljómadrengir fljúga inn, enda partur af geiminu. Þeir kippa sér ekki upp við frægu popparana, hnippa kannski í hvorn annan þegar trommarinn í Animals gengur í salinn. En þegar sjálfur Paul McCartney birtist með dömu upp á arminn (Lindu?) og eitthvað fylgdarlið þá rjátlast kúlið af Erlingi og Engilbert. Þeir nálgast básinn þar sem goðið situr og kasta vingjarnlegri kveðju á bassaleikara Bítlanna. Hann er þó eins og afundinn hundur og með tóma stæla við sveitamennina, flissar kannski og segir eitthvað snappí við vini sína, sem flissa líka. Erlingur og Engilbert eins og illa gerðir hlutir við bás-endann.

Gítarleikari Hljóma, Erlingur Björnsson, er ljúfur og einlægur gaur. Hann er nýorðinn 23 ára og kann ekki við svona stæla í goðinu. Hann reiðist ekki heldur tekur einlæga svipinn. Segir bassaleikara Bítlanna að þeir séu nú bara aðdáendur Bítlanna og meðlimir í besta og frægasta Bítlabandinu á Íslandi og að það sé nú leiðinlegt að fá svona móttökur.

Hann Palli minn er líka góður gaur og það hreinlega sviptist af honum töffheitin og hrokinn undir ræðu Erlings. Hann verður allt annar maður, biður Hljóma afsökunar og segir rössum í básnum að færa sig svo víkingarnir fái sæti. Erlingur og Engilbert sitja við hlið Pauls McCartney, sem spjallar um daginn og veginn, spyr út í Hljóma og segir að Bítlarnir séu að taka upp efni fyrir Magical Mystery Tour og hvort strákarnir vilji ekki kíkja í stúdíóið á Abbey Road? Hripar niður símanúmerið í stúdíóinu og segir þeim endilega að mæta bara daginn eftir.

Af því varð því miður ekki því Hljómarnir áttu bókað flug heim daginn eftir. Maður hefði breytt flugmiða fyrri minna, en það voru aðrir tímar og erfiðara að breyta flugmiðum. En Erlingur á miðann góða og er búinn að ramma hann inn:

12295216_10205042009186747_330223714_o

Ps. Meistari Mark Lewisohn áritar meistaraverk sitt Bítlarnir telja í í Eymundsson, Skólavörðustíg kl. 17 í dag, fimmtudag.

 

 

Timberlake í Hamraborg!

22 Ágú

justinhamrab
Stórstjarnan heimsfræga Justin Timberlake heldur sem kunnugt er stórtónleika í Kórnum í Kópavogi á sunnudagskvöldið. Hann lenti á einkaþotu sinni í gær, en alls eru um 100 manns í hópnum með honum. Eftir vegabréfs- og líkamsskoðun var Justinni ekið í Kópavoginn til að athuga með Kórinn. Því íþróttahúsi hefur nú verið breytt í tónleikastað á heimsklassa og er mikið lagt upp úr bakherbergjunum. Justin verður í kvennaklefanum á meðan hann bíður eftir að stíga á svið, en upp á klefann hefur verið flíkkað með músastigum, stórri mynd af Obama og allskonar fíniríi. Kappinn er hógvær í kröfum sínum um mat og drykk og virkar mjög alþýðlegur á alla sem hafa umgengist hann til þessa. 

Eftir Kórinn spurði Justin hvort ekki væri hægt að fá bjór og jafnvel að komast í spilakassa í þessum frámunalega æðislega bæ, Kópavogi. Var því brugðið á það ráð að skreppa í Hamraborgina og beint á Café Catalínu. Þar undi Justin hag sínum vel við drykkju og spilakassa. Í dag er svo ætlunin að Justin skreppi í Bláa lónið (hann ætti að hafa efni á því!) og má búast við að rekast á hann í sturtunni um kl. 13 – 13:30.

Hitti meistara i Montreal

14 Nóv

Er i Montreal. Hvern heldurdu ad jeg hafi hitt ut a gotu annan en songvarann i Pertti Kurikan Nimipäivät, sjalfan Kari Aalto! Og thad sem meira er: bandid er ad fara ad spila hjerna rjett hja mer a eftir!!!!!!!!!!

Ps: Thetta er i fyrsta skipti i meira en 11 ara bloggsogu sem jeg blogga annars stadar fra en heima hja mjer. Enda tilefnid gott!

Plöggað vilt og galið

26 Okt

Plöggtíð er runnin upp með tilfallandi selláti. Nú plögga ég reyndar með stuð í hjarta, enda með svo fáránlega gott stöff í höndunum, hinn einlæga og stórkostlega stuðrant, STUÐ VORS LANDS. Hvar sem ég kem reka menn upp stór augu, svelgist á, sletta í góm og segja svo eitthvað á þessa leið eftir að hafa mænt á hlunkinn um stund: „Í viltustu draumum mínum hefði ég aldrei ímynd með mér að hægt væri að búa til svona stórfenglega bók – varstu ekki lengi að skrifa þetta?“

Þá kími ég og segi: Nei nei, bara svona mánuð, og reyni að gera lítið úr þessu, því eins og fólk sem þekkir mig veit þykir mér fátt óþægilegra en að vera hrósað. Ég fer bara svo obboslega hjá mér.  En undan því verður bara ekki komist í þetta skipti.

Nú, ég flæktist með bókina milli fjölmiðla. Eins og vanalega hittir maður allt fræga fólkið á Rúv.


Hr. Páll Magnússon veitti bókinni viðtöku fyrir hönd Íslenska Ríkisútvarpsins. Hann hefur mjög einfaldan smekk og velur bara það besta, eins og þú veist, og gat því ekki hætt að brosa með stuðhlussuna í fanginu.


Hr. Óli Palli, spámaðurinn í Popp- og Rokklandi, fékk næstum taugaáfall af stuði þegar bókin komst í hendur hans.


Luftgítarþenjarinn Matti Matt reif plastið strax af og byrjaði að lesa. Hann svaf ekkert í nótt.


KK reyndi að sýna stillingu með Stuðrantinn í höndunum, en allt kom fyrir ekki…


Nú er bókin að koma í búðirnar (það er að þakka heljarmenninu Hannesi sem sér um dreifingu fyrir útgefanda minn, Sögur) og er a.m.k. kominn í Bókabúð Máls og Menningar á Laugaveginum (útgáfuteitið verður einmitt þar eftir eina viku!) Svo frábærlega vildi til að fyrsta eintakið keypti Jakob Frímann fyrir hönd FTT til að færa Ingibjörgu Þorbergsdóttur á 85 ára afmæli hennar í gær. Ingibjörg var einmitt fyrst kvenna til að syngja og gefa út eigið popplag og var næstum búin að meikaða í USA. (Nánar í Stuðrantinum, nema hvað!?)

Ég minni á hið skelegga kvennamix mitt Songs written and sung by Icelandic women á 8tracks, en þar á Ingibjörg einmitt fyrsta lagið.

Leitað að leiðum

30 Apr


Frábært var í gær að hjóla í Fossvogskirkjugarðinn. Sól skein og fuglar sungu, en í moldinni lágu dauðir þúsundum saman og gerðu ekki neitt. Nema Kristnir hafi rétt fyrir sér og allir þessir dauðu séu nú í heljarinnar bisness bakksteits með Guði og Jesúsi og hinni heilögu þrenningu. Ég myndi samt ekki treysta á það.

Lífið er núna, hrópar kirkjugarðurinn á mann. Ég samþykki.

Hinn frábæri vefur Garður gefur manni staðsetningu þeirra dauðu. Ég hafði staðsetningu ömmu minnar og nöfnu, Guðrúnar Láru, og bróður míns, Hjálmars Þorbjörns, sem fæddist 3 árum á eftir mér en lést eftir mánaðarlegu á spítala. Hann var með hjartagalla sem mér skilst að auðvelt væri að lækna í dag, en var það ekki 1968.

Eftir að við Dagbjartur höfðum gert fínt hjá ættingjum okkar leitaði ég að Bjarna Björnssyni leikara og poppstjörnu, sem var aðal gaurinn frá sirka 1910 þegar hann byrjaði að koma fram með söng og eftirhermur. Ég hafði ekki hugmynd um þennan listamann fyrr en Sigurjón Samúelsson á Hrafnabjörgum leyfði mér að heyra nokkrar 78 snúninga plötur þegar ég heimsótti hann í fyrra.


 Bjarni Björnsson – Internationale: Framsögn
(Þetta lag er að sjálfssögðu birt hér í tilefni að 1. maí á morgun. Upptakan fór fram í Berlín 1931).

Þú lest bara betur um Bjarna í STUÐ-bókinni sem kemur í haust (eða í þessari færslu – fleiri hljóðdæmi!). En þarna liggur hann sem sagt núna, gleymdur og grafinn og enginn nennir að heimsækja hann. Í næsta leiði er konan hans Torfhildur Dalhoffsdóttir og dóttir þeirra, Katrín Dalhoff. Allt merkilegt fólk í sinni tíð og mikilsvirt í músík- og bæjarlífinu.

Frá garðinum tók Öskjuhlíðin við. Glæsilegt útivistarsvæði og nóg af spennandi dóti; kanínur og túristar, og yfir her-gryfju voru einhverjir geðsjúklingar að ganga á línu. Svo var það neðanjarðarbyrgið, en samkvæmt gamalli flökkusögu liggur blóðugur hnífur á borði þar inni. Við þorðum að sjálfssögðu ekki að tékka á því.

Nábrók á Selfossi

16 Apr

Þýska hljómsveitin Die Toten Hosen (Nábrók) kom til Íslands í gær, brunaði til Selfoss og hélt einkatónleika fyrir 40 manns við bæjarmörkin, aðallega Þýskara á Íslandi. Þetta er hluti af Magical-mystery-tour sveitarinnar, en sjónvarpsstöðin ZDF eltir hana út um allt og má eflaust bráðlega sjá Selfoss-giggið á heimasíðu sveitarinnar.

Ég hef aldrei hlustað mikið á þetta band og ekki verið að fíla það. Það byrjaði í pönkinu 1982 og er búið að vera að síðan. Nábrók á þó nokkra aðdáendur á Íslandi, sem komust að gigginu. Einn þeirra, Matthías Matthíasson, skrifar á Fb-síðuna sína: jæja þetta er náttúrulega absúrd að sitja í bílnum og sjá og heyra í Die Toten Hosen í einbýlishúsi rétt fyrir utan Selfoss…

Þetta er önnur fréttin á stuttum tíma um heimsfræg bönd að dúlla sér eitthvað á Suðurlandi. Fyrst kom furðufréttin um að Butch Vig og meðlimir The Undertones hefðu verið í brúðkaupi foreldra körfuboltamannsins Louie Kirkman, sem leikur með Hamar, Hveragerði. Þetta vakti athygli mína, enda The Undertones meðal minna uppáhaldshljómsveita. Fáránlegt að ná þeim ekki í gigg í leiðinni. Spurning samt hvort söngvarinn Feargal Sharkey hafi verið með (hann hætti 1983 og hefur ekki viljað vera með síðan), eða hvort þarna voru á ferð O’Neill bræðurnir (Jim og Damian, spila báðir á gítar) – eða hvað?

Þetta er í a.m.k. annað skipti sem Butch mætir á Klakann. Hingað kom hann með Garbage 1999 og spilaði í 10 ára afmæli 95.7 ásamt Mercury Rev (WTF!!!) og Republica (sem er eiginlega alveg eins og Garbage, bara verri). Garbage voru slöpp læf, vélræn og leiðinleg. Eins og manni fannst nú fyrsta platan þeirra góð, þá hefur þetta verið hundleiðinlegt hjá þeim síðan. Ég man nú eiginlega ekkert eftir tónleikum Mercury Rev, sem er skrítið því þetta er gott band. Platan þeirra Deserter’s Songs er eiginlega með því betra frá næntísinu.

En, sem sagt: Ef þú sérð þennan mann í dag, þá er þetta heimsfræg þýsk rokkstjarna, Campino, söngvari Nábrókar:

Úlnliðir poppara

14 Okt


Hef unnið í akkorði síðan á mánudag við að festa armbandar-passa á úlnliði þeirra íslensku poppara sem spila á Airwaves í ár. Segja má að ég sé orðinn sérfræðingur í íslenskum poppara-úlnliðum hafandi farið í gegnum allan þennan haug. Eins og við var að búast eru krútt-úlnliðir að jafnaði mun mjórri en þungarokksúlnliðir. Skemmtilegustu úlnliðir landsins eru án efa hjá hljómsveitinni Endless Dark. Þar eru allir með dúndur tattúveraða úlnliði (og handleggi). Loksins einhver tilbreyting fyrir mig eftir allar freknurnar, beinakúlurnar og hárin þegar Endless Dark mættu með allskonar tattústuð á úlnliðunum.

Jæja, svo fór maður á einhver gigg. Ekkert á miðvikudaginn þó, en í gær flaug ég á milli nokkurra staða enda vitaskuld með besta hugsanlega biðraðafrítt armband í heimi á eigin úlnliði. Troðfullt Listasafn át úr lófanum á Retro Stefson. Þeir félagar, velsmurðir á úlnliðunum eftir langt hark á meginlandinu, létu slefandi hjörðina standa og sitja og gjugga sér í lendunum. Heimsfrægðin hlýtur að vera yfirvofandi.

Á Nasa var hundslappt band, Young Galaxy, eitthvað að syntafreta, og á Iðnó, annað hundslappt band, Caged Animal, eitthvað að indiepoppa. Ef þessi bönd væru á Músíktilraunum er ekkert víst að þau myndu komast áfram.

Nokkuð var búið að hæpa Beach House í Listasafninu svo röðin var löng. Þetta er ágætis valiumpopp, en kannski ekki eitthvað sem maður nennir að sjá læf eftir langan vinnudag. Þau hafa ábyggilega pælt í skemmtaratrommuheilanálgun Young Marble Giant og eru dáldið eins og þau plús My Bloody Valentine og Beach boys. Nokkuð næs, en einhæft, svo eftir 3 lög var einsýnt hvert stefndi.

Næst á Gaukinn á BlazRoca og hans lausgirta posse. Mér fannst það satt að segja reffilegasta atriði kvöldsins. Litið nema íslenskar hiphop skinkur og beikon á svæðinu og allir í gríðarmiklu stuði. Þetta fór á magnaðan sveitaballalevel þegar hittin skullu á, Allir eru að fá sér og Viltu dick? Blaz á nóg eftir.

Loks Secret Chiefs 3 á Iðnó. Þetta er instrumental kvartett leiddur af Trey Spruance, sem er síðhökutoppaður gítarleikari sem var í Faith No More og Mr. Bungle. Bandið er ægiþétt og spilaglatt og músíkin nokkuð kraftmikill hræringur af Frank Zappa og brjáluðust köflum John Zorn (nema bara fiðla, en ekki saxi). Nokkuð fínt.

Mugison mætir á svæðið!

27 Sep

 Mugison – Áfall

Haglél, nýja platan hans Mugisons er komin út. Ég keypti hana á smotterí sem download á Mugison.is (700 kall – nógu gott til að setja á Okursíðun, sem „ekki-okur“) og svo mættu þeir Öddi og Jón Þór heim til mín með eintak vegna gagnrýnendastarfsins. Ég kveð upp minn dóm í Fréttatímanum á föstudaginn, en get þó sagt það núna að umslag er frábærlega hannað. Mér sem fannst það svo ljótt þegar ég sá framhliðina fyrst. Haglið er upphleypt  sem gerir gæfumuninn, umslagið er í rosa spes broti og með litlum bæklingi haganlega stungið inn í. Ekki í fyrsta skipti svo sem Mugison kemur með skemmtilega hönnuð umslög. Hver man ekki eftir saumaskapnum?

Hvalahræsni Obama

17 Sep


Obama svaka reiður við dvergþjóðina fyrir að nýta sér guðlegan rétt sinn til að drepa og éta lúxussteikur hafsins. Stendur svo bísperur í Hagkaup og selur lungnamjúkt hefnukjöt. Hræsni!!!