Sarpur | Úti á landi RSS feed for this section

Í Skagfirska efnahagssvæðinu

12 Sep

Fyrir okkur félagana í gönguhópnum Blómey er Mælifellshnjúkur Moby Dick. Ég og Biggi fórum reyndar þarna upp á topp fyrir 2-3 árum. Þá var þoka á toppnum og við sáum ekki rassgat. Í fyrra fórum við með Trausta og ætluðum að sjá hið magnþrungna útsýni sem á að sögn að blasa við. Þá var ömurlegt veður, rigning og rok, þrátt fyrir að veðurspárnar sem við höfðum legið yfir spáðu heiðríkju og sól. Núna skoðuðum við engar veðurspár (því þær ljúga) og drifum okkur bara. Og sjá: Ömurlegt veður, rigning og þoka.

Þótt Moby Dick liggi enn ósigraður (útsýnislega séð) var ferðin stórfín. Við gerðum gott úr þessu og tókum einn risavaxinn sunnudagsbíltúr. Á laugardaginn átum við gríðargóða lambaskanka í Ólafshúsi (4500 kr). Gistum á Microbar & bed, sem er upplagt dæmi. Fyrst djúsuðum við á Microbarnum sem er hliðardæmi frá bjórframleiðslunni Gæðingi. Hvað er hentugra en bjór og bed? Microbarinn býður upp á 150+ tegundir, en mér finnst bjór vondur og var kominn í romm og kók eftir annað glas. Svo gafst ég upp um 12, svefninn sótti svona stíft á mig, enda er ég extreme A-maður, en strákarnir duttu í belgískar veigar til 2. Herbergið mitt (9000 nóttin) er undir súð og með stórglæsilegt útsýni yfir í Verslun H. Júlíussonar, sem meistari Bjarni sér nú um. Því miður var alltaf lokað í versluninni á meðan við vorum á Sauðárkróki.
2016-09-11-09-15-16

Sunnudagur: Morgunmatur í bakaríinu og ennþá þoka og súld. Fyrsta stopp Hólar. Á afleggjaranum runnum við fram á réttir í Hjaltadal. Við borgarbörnin höfðum aldrei séð svona og gláptum á fótforugt stígvélað sveitafólkið reka í réttir. Mikið meee og fjör. Eins og aumingjar með skanka í maganum fórum við auðvitað að röfla um útrýmingabúðirnar í Auschwitz. Réttirnar eru harmrænar á þann hátt að dauði rollanna er yfirvofandi. Þetta er þeirra síðasta sprikl.

holar
Á Hólum rennur Íslandssagan um veggi. Kanadískur gestaprófessor leiddi okkur í allan sannleikann um innviði Hólakirkju, veggskreytingarnar og jesústöffið. Prófessorinn er með þetta klassíska lúkk. (Hér er próf: Prófessor eða róni?) Tilkomumest var fyrsta eintakið af fyrstu bókinni sem var prentuð á Íslandi (1584), Guðbrandsbiblíu. Ég tel mig nú kominn á þann stað í lífinu að ég sé tilbúinn til að fá áhuga á Íslandssögunni fyrir 1900. Fyrsta skrefið, segir Biggi, er að leggjast yfir þríleik Einars Kárasonar um Sturlunga.

braudmola
Sundlaugin á Hofsósi (700 kr) er rosalega flott og útsýnið það besta sem um getur. Við sáum reyndar ekki nógu vel vegna þokunnar og það mætti skerpa á heita pottinum. Þessi sundlaug er skínandi dæmi um brauðmolahagfræðina. Tvær efnaðar konur láta byggja sundlaug og gefa svo sveitafélaginu. Ef einhver annar hefði gert álíka þegar peningarnir láku hér um alla veggi í vösum örfárra, væri kannski hægt að kaupa þessa brauðmolakenningu. Staðreyndin er hins vegar sú að ríku karlarnir notuðu auðinn undir rassgatið á sjálfum sér til að bóka Elton John og fara í kappakstursleiki. Hafðu það Hannes Hólmsteinn! (Hér er ég viljandi að gleyma listamannasjóðum Ólafs í Samskipum).

biggisaab
Áfram hélt skagfirska ævintýrið í Samgönguminjasafninu í Stóragerði. Við gleymdum okkur í afrekum mannkynsins á sviði hönnunar og glæsileika. Kaggar og bílar, sem eru víst fornbílar en við mundum eftir á götunum. Það segir bara hvað við erum orðnir ógeðslega gamlir. Þetta bílasafn er hreinlega stórkostlegt og ég ætla aftur sem fyrst! Fá þá kannski að leggjast aftan í Skoda Octavia 1963 módel og reyna að kreista fram gamlar minningar þegar ég lá í svona sæti sem barn og grét yfir því að ferðinni til Akureyrar var lokið. Til að auka áhrifamáttinn mun ég syngja „Unnusta sjómannsins“ með Tónasystrum, en það lag söng ég alltaf inn í mér til að auka trega og söknuð.

trakt2
Ekki minnkaði fjörið þegar við komumst í bílakirkjugarðinn bakvið safnið. Annað hvert S.H.Draums videó var búið til í bílakirkjugarði. Þar sem náttúran og maðurinn renna saman í eitt er gaman að vera.

Tókum Þverárfjallsveg suður á bóginn og lentum í massasmölun  og komumst ekki fet í hálftíma. Rollurnar runnu eftir malbikinu eins og loðin á. Aðeins meira meee og Auschwitz hjá borgarbörnunum og jafnvel grín um að gerast grænmetisætur. Hamborgarinn í Hraunsnefi (2590) var þó stórfínn.

Smári Tarfur og hvalrekinn

10 Nóv

2015-11-09 17.28.02
Ævintýraferð um ævintýralandið í gær með nokkrum góðum Airwaves gestum. Þingvellir mættu fjölga klósettum og ruslafötum. Ég pissaði nú bara út í loftið og slapp við túristagláp. Samt var slatti af túristum á svæðinu. Seljalandsfoss er orðinn mega attraksjón. Fólk er svo æst í að fara á bakvið fossinn. Þar kom sjoppa fyrir 2 árum og nú hefur bæst við minjagripakofi. Á sumrin situr Smári Tarfur við fossinn, spilar ljúfa hugleiðslumúsík og selur grimmt diska með slædgítar og fossahljóðum. Sniðugur. Við hittum hann þegar við komum í hið stórkostlega Skógarsafn. Hann vísaði okkur að hvalreka í fjörunni fyrir neðan Skóga. Það var nú hápunktur ferðarinnar enda ekki í neinum túristabæklingi. Þetta var Búrhvalur (sagði Smári allavega), eða „Sperm Whale“ eins og þeir heita á ensku. Og sjá: Á dauðastundinni hafði búrhvelið „fengið úr honum“. Skrýtið að nærri mánuði síðar sé hvalabrundurinn enn á sínum stað. Ég var sá eini sem þorði að koma við hvalinn. Smell the glove. Hanskarnir eru í þvotti.

Það er gaman að sýna útlendingum landið okkar. Það er gaman að fara um það. Ísland er bara svo hrikalega spes og flott. Látum það verða þannig áfram – plís ekki hugsa bara um núið þið þarna peningapungar í jakkafötunum.
2015-11-09 17.27.36

Ónýtir staðir vegna túristaplágu

13 Júl

Túristminn er sveitt dæmi. Hvar á allt þetta fólk að kúka? Á það að kúka í garðinum þínum? Nú er svo komið að túristamagnið hefur „eyðilegt“ nokkra staði fyrir heimamönnum. Það er líklega allt í lagi og bara fórnarkostnaður fyrir hagvöxt. Ef maður nennir ekki að taka þátt í að pimpa landinu í gin gapandi ferðamanna hefur maður ekkert að gera

* Í Bláa lónið – Fáránlegt okur í sjúskaðan drullupoll
* að Gullfossi og Geysi – eins og að vaða hráka
* á Þingvelli – fjallkonan vafin í blautan klósettpappír
* í Jökulsárlón – klaki í flugnageri

Nú vil ég ekki hljóma eins og að ég hafi einhvern meiri rétt á að spóka mig á þessum stöðum en hver sem er, en maður bara nennir þessu ekki ef það er allt að drukkna í blautum klósettpappír, reykspúandi rútum og gapandi túristum.  Það verður bara að hafa það. Allir að græða (megnið á svörtu) og uppgrip. Maður verður að spila með.

Það verður erfiðara um vik á sífellt fleiri stöðum. Til dæmis var hvergi hægt að fá mat á Höfn því túristar stóðu allstaðar í röðum og borð var laust eftir í mesta lagi 90 mín. Þetta var á þriðjudegi. Við hefðum getað sagt okkur að eitthvað væri að þegar það var fullt af lausu á stað sem heitir Nýhöfn. Hann lúkkar vel en maturinn var algjört okur og rugl. Sex grillaðir humar-bitar með 2 litlum brauðsneiðum og litlu salati á 5900 kall. Við Gummi erum enn í sjokki yfir þessu og beisíklí getur Höfn hoppað upp í humarinn á sér. Ónýtur staður.

Ef Nýhöfn var botninn var Skriðuklaustur toppurinn. Fallegur staður og sligað hádegishlaðborð á 2900 kr. Þarna fékk ég tvær bestu súpur í heimi, lerkisveppasúpu og hvannasúpu. Ekki ónýtur staður!

Ég sá ekkert hreindýr. Eru túristarnir búnir að skemma það líka?

Eistnaflug

13 Júl

2015-07-09 21.34.39
Ákvað að taka nokkuð massífan Austfjarðarpakka þar sem ég var hvort sem er að spila á Eistnaflugi. Giggið tókst vel, þetta var svona best of, Heiða kom fram og söng þrjú Ununarlög, svo var þarna S.H. og Bless og meira að segja Prumpulagið sem fékk þungarokkarana til að brotna saman í gleðivímu. Að öðrum hápunktum má nefna flutning The Vintage Caravan á Lifun með Magga Kjartans (rosa gott og flutt af trukki en ekki músóplebbaskap eins og stundum vill vera með svona tribute), Börn (mynd að ofan) voru góð á Blúskjallara og Kælan mikla á Egilsbúð. Bubbi og Dimma voru þéttur hnífur og Sólstafir voru þungur hnífur með Hrafninn flýgur. Þá var norska hljómsveitin Kvelertak eins konar ástæða þess að ég nennti að hanga svona lengi á svæðinu og stóð algjörlega undir væntingum. Enn ein snilldar hátíðin hjá Stebba og kó.

Út í Eyjum

19 Jún

Var í Vestmannaeyjum í gær. Spurði á Facebook hvað ég ætti að gera. Fékk ágæt svör, sem ég vissi svo sem flest enda með Eyja appið, og helmingurinn sagði að ég ætti að drífa mig sem fyrst til baka. Einn sagði að ég ætti að láta lemja mig. Svona er fílingurinn gagnvart Vestmannaeyjum, sem er náttúrlega rugl. Allir ættu að skella sér til Eyja enda fyrna fallegur staður og allir í fíling í sæluríki Elliða. Fuglarnir voru allsstaðar með læti í klettunum svo undirliggjandi sándtrakk í Eyjum er hávaði sem minnir á másandi hunda eða einhverja perverta á fremsta hlunni. 

2015-06-18 15.58.25-3
Margt hefur breyst síðan ég kom til Eyja síðast 1998, þá sérstaklega matarkúltúrinn. Slippurinn er frábær staður þar sem ég fékk mér 3ja rétta hádegistilboð á 3.490 kr. Í forrétt geðsjúk lúðusúpa. Aðalréttur ágætis steinbítur. Eftirrétturinn hrein klikkun, skyr með hundasúrukrapi, ristuðum höfrum og marenshjúpaðri hundasúru (sjá mynd). Mesta lostæti sem ég hef fengið á árinu.
2015-06-18 16.14.44
Nytja- og antíkbúðin Vosbúð hefur verið starfandi í 2 mánuði og er þrumu verslun. Mikið úrval af allskyns spennandi dóti. Ég keypti tvær 78sn danskar plötur með exótísku havaí fíli, djassplötu með Eddie „Locklaw“ Davis Quartet og Tunglið og túskyldingurinn eftir W. S. Maugham. Tvær Disney syrpur að auki fyrir Dabba, samtals 1.800 kr. Fólkið í Vosbúð ætlar að skella best of í sendibíl og vera í Kolaportinu um helgina. Talandi um spennandi grúsk um helgina þá verður fyrsti Bernhöfts Bazaar á morgun þar sem músík verður aðalmálið. Væntanlega allt vaðandi í plötum og fíniríi.

Dabba finnst sund leiðinlegt en hann fílaði sundlaugina í Eyjum í botn enda með tveimur fítusum sem slógu í gegn: klifurvegg og rennibraut sem endaði í trampólíni. Mjög góð sundlaug þótt gufan væri lokuð.

Eftir að KR hafði rótbustað ÍBV 5-2 (Dabbi skoraði mark númer tvö) fór ég í Tangann og fékk skínandi góða fiskisúpu á 2.490 kr.
2015-06-18 19.48.54
Ég brunaði í rokið út í Stórhöfða en hafði ekki tíma til að gera ýmislegt sem ég ætlaði að gera eins og að skoða fiskasafnið og eldgosasafnið. Það verður því eflaust stutt þar til ég fer aftur til Eyja, enda er þetta ódýrasta „utanlandsferðin“ sem völ er á og mjög næs dæmi.

10 bestu sundlaugarnar

4 Okt

Það er fínt að fara í sund og á Íslandi er fullt af fínum sundlaugum. Ég hef ekki farið í þær allar svo þessi listi er ekki tæmandi. Á Vestfjörðum er fullt af góðum laugum en minna á Austfjörðum. Ég hef farið í margar sundlaugar fyrir austan og engin þeirra var mikið yfir meðallagi. Baðverðir þurfa ekki að koma með heykvíslar heim til mín þótt þeirra laug vanti á listann. Þetta er allt spurning um persónulegan smekk. Hér koma laugarnar: 20090417142441672832sund_m BOLUNGARVÍK Það sem gerir Bolungarvík að topplaug er góður heitur pottur, sauna og hvíldaraðstaða. Rúnturinn er því að sjóða sig í potti, sjóða sig í sauna, leggjast funheitur á legubekkinn, kæla sig og svo allt upp á nýtt nokkrum sinnum. Þá næst alsæla. Sundlaugin sjálf er inni og fín til svamls og nýlega var settur upp vaðpollur. sundlaugin_sudureyri SUÐUREYRI Næs laug, næs pottar og toppurinn er að kaupa ís eða klaka til að sleikja ofan í potti. reykjanes-sundlaug REYKJANES Í ÍSAFJARÐARDJÚPI 50 x 12.5 af mátulega volgu vatni gerir þessa að stærsta heita potti landsins. Stórfenglegt útsýni og góður stemmari. 5910158092_44b5eac0cc_z HOFSÓS Eitt besta dæmið um brauðmolahagfræðina er nýja glæsilega hipp og kúl sundlaugin á Hofsósi. Stórkostlegt útsýni um Skagafjörð. MG_5665 ÞELAMERKURSKÓLI Volg laug, barnvæn mjög, góðir heitir pottar og massanæs filingur. satellite-pool-seljavallalaug SELJAVALLALAUG Þessi er frægasta túrista laug landsins, víðfræg úr auglýsingum. Stórflott í fjallahring og maður þarf að klöngrast upp að henni. 4f757b8a321c3 HVERAGERÐI aka Laugaskarð. Stór og góð í klassískum anda. Pottar næs og gufubað sallafínt. Magnús Scheving er tíður gestur vegna kalda pottins sem er þarna. Nú eru kaldir pottar komnir víðar svo kannski fer heimsóknum Magnúsar fækkandi. Arbaejarlaug ÁRBÆJARLAUG Allt vaðandi í pottum og dóti. Gömul uppáhaldslaug og alltaf klassísk, ekki síst vegna góðrar útiaðstöðu til fataskiptinga. vesturbaejarlaug_001 VESTURBÆJARLAUG Eftir endurbætur og nýja súpertöff potta fer þessi klassík í stjörnuflokk. img_1947 SELTJARNARNES Pottafjöld og saltvatn í laug. Hér er allt sem góðri laug sæmir. Við Íslendingaræflarnir erum kannski þorskhausar á mörgum sviðum en á sundlaugasviðinu erum við best.

Í Vigur / Lifi geitin!

6 Ágú

2014-08-05 14.42.14
Til Vigur kemst maður í skipulagðri ferð með Sjóferðum Hafsteins og Kiddýjar (8.900 kr / 4.450 kr, fyrir börn). Við Elísabet vorum einu Íslendingarnir. Gríðarlegt kríuger er á eyjunni, en ungarnir komnir á legg svo þessi frekasti fugl í heimi var þokkalega til friðs. Gestir fengu þó sérstakt prik með flaggi á endanum til að verjast frekjunum.

Gaman var að koma í eyjuna en ekkert svo gaman að tölta í hóp. Maður er vanur að gera það sem manni sýnist í íslenskri náttúru. Stórgóðar veitingar voru í boði að ferð lokinni og bakkelsið ekki skorið við nögl. Lundar voru þarna fjölmennir og tóku túristarnir trylling þegar þeir komust í návígi við þennan spaugilega fugl. Þessi kona kom prikinu fyrir á góðum stað á meðan hún myndaði lunda og vakti niðurbælda kátínu meðal hinna túristanna.

2014-08-05 14.49.53
Svo birtust nokkrar rollur og þá tóku túristarnir annan trylling með myndavélunum sem okkur Elísabetu fannst nú bara fyndið. Einnig mátti sjá teistu lenda í rabbabaragarði, æðarunga og dún, túristasjoppu sem mokaði út made in China dóti og fleira skemmtilegt. Ég mæli með Vigurferð.

Íslenska geitin á undir högg að sækja. Söfnun stendur nú yfir á Indiegogo til að bjarga rekstri geitabúsins á Háafelli. Allir að vera með og bjarga geitinni takk!

Hér á Ísafirði verður útifundur vegna blóðbaðsins á Gaza kl. 17 í dag. Á Vestfjörðum er allt að gerast því einleikjahátíðin Act Alone hefst á Suðureyri í dag. Þar er margt spennandi í boði, m.a. ætlar Egill Ólafsson að vera með gigg/söguyfirlit á föstudagskvöldið.

Bolvískar krásir

5 Ágú

2014-08-04 19.03.08
Í Bolungarvík eru ekki bara óðir menn sem tæta niður gömul hús sem fara í taugarnar á þeim. (Nú er verið að laga skemmdirnar). Þar er besta sundlaug Vestfjarða með hið undursamlega sauna-bað og akkúrat mátulega stilltan pott. Þar er líka veitingastaðurinn Einarshús þar sem ég fékk „bolvískt skyr með bláberjum“, eitthvað magnaðasta skyr sem ég hef fengið. Svo uppveðraður var ég af skyrinu að ég fór beint í Bjarnabúð til að kaupa vörurnar frá mjólkurframleiðslufyrirtækinu Örnu, sem er einmitt staðsett beint á móti. Bjarnabúð er með elstu búðum landsins, stofnuð 1925 og því a.m.k. sex árum yngri en Verslun H. Júlíussonar á Sauðárkróki, sem var stofnuð 1919.

Rjóminn og óhrærða skyrið frá Örnu eru hreinlega til að láta lífið fyrir. Rjóminn sætur og mátulega feitur, skyrið „flöffí“ og sætt svo það þarf ekki að sæta það svo mjög. Alveg dúndurgott stöff sem fer kannski framhjá neytendum því þessar vörur eru eiginlega kynntar til leiks eins og apótekaravörur. Óspennandi umbúðirnar minna á pillupakka og hin mikla áhersla á „laktósafrítt“ tekur athyglina af því hversu bragðgott þetta stöff er. Ég hélt hreinlega að þetta væru aðallega vörur fyrir einhverja mjólkuróþols-sjúklinga.

Almennt eru ekki komin bláber ennþá, þótt finna megi hlussur sé vel leitað. Í staðinn fengum við okkur jarðarber með skyrinu og engin venjuleg jarðarber heldur bestu jarðarber sem ég hef smakkað. Þau rækta ungur hugsjónamaður í gróðurhúsi í Bolungarvík, Róbert Gunnarsson, og annar ekki eftirspurn. Þetta eru sjúklega organísk ber og beint af plöntunni svo ferskara verður það varla. Alltaf gaman af mönnum sem hugsa út fyrir (fiski)kassann.

Galtardalur 2014

4 Ágú

Verslunarmannahelgin hefur enga þýðingu fyrir mig enda er ég löngu hættur að æla í augun á mér fyrir utan tjald (Þjórsárdalur 1981). Hvað þá að það séu stelpur að kíkja á mig að kúka á kamri (Hápunktur Þjórsárdals 1981) eða að Fótbolta-Magga sé á túr og slóðin sé eftir hana um allt tjaldsvæði (Þingvellir 1981). Hvorugt var þó skipulögð útihátíð heldur tóku sig bara krakkar til og hópuðust á blett til ofurdrykkju. Maður stóð nokkuð í þannig.

Ég var náttúrlega að spila í Viðey 1984 (3 mættir í tjaldi) og svo keyrðum við hringinn í framhaldinu og komum til Atlavíkur á mánudag. Þar var eins og eftir ebólafaraldur og einn dró tjaldið á eftir sér og sagði: Komdu hvutti, komdu.

Svo man ég ekki meira fyrr en á Húnaveri 1991 þar sem Bless spilaði og ég og Biggi Baldurs fórum upp á svið með SSSól og sungum bakraddir í Honky Tonk. Mjög gott stuð.

Núna vorum við í bústað í Galtardal með Ylfu og Halla. Stutt til Flateyrar þar sem ég keypti brandarabækur frá 6. áratugnum í Gömlu bókabúðinni. Á Holti var haldin hin árlega sandkastalakeppni. Minnst um kastala svo sem en margar hafmeyjur og allskonar skrýmsli. Hér er frumlegasta verkið:
2014-08-02 16.10.37
Það vann þó ekki heldur sá sem gerði merki Flateyrar úr sandi (ósanngjarnt).

Ég brá mér upp á fjallið sem blasir við sumarbústaðnum, Bakkafjall (746 m). Þar efst er Mosvallarhorn, sem er ansi ægilegt á að líta.
2014-08-03 11.58.23
Til að mýkja beinin eftir þessa þrekraun fór ég í sundlaugina á Flateyri sem er slappasta laugin á Vestfjörðum með la-la laug og heitum potti í sumarbústaðastærð. Ekki var talið áhættandi að fara í aðrar betri laugar (Bolungarvík/Suðureyri) fyrir drulluskítugum og þunnum Mýrarbolta-lýð. Ég þurfti náttúrlega að setjast í brotinn plaststól á sundlaugarbakkanum og hlunkast niður með braki og brestum þegar hann brotnaði undan mér. Öllum fannst þetta voða fyndið en ég fékk heiftarlegan sinadrátt í fallinu. Hvergi er boðið upp á kalt vatn í þessari eymdarlaug, sturturnar eru handónýtar og enginn bekkur fyrir utan. 0 stjörnur!

 

Frábært bíó – Fín mynd

1 Ágú

2014-07-31 19.55.27
Ísafjarðarbíó hefur löngum verið mikið menningarhús og sýnir nú nýjustu smellina í hverri viku. Það gladdi mig sérstaklega að sjá auglýsingu frá Harðfiskverkun Finnboga á meðan ég beið í myrkrinu, enda er Finnbogi með langbesta harðfiskinn á landinu.

Meet-The-Guardians-of-the-Galaxy
Ég hélt að Guardians Of The Galaxy væri þessi hefðbundna ofurhetjuþynnka og að ég ætti góðan svefn framundan með 3D gleraugun á nefinu. Svo var þó ekki, þetta er svo skemmtileg mynd að ég var glaðvakandi allan tímann. Í aðalhlutverki er Chris Pratt, sem er þekktastur fyrir að leika hinn vitlausa Andy Dwyer í Parks & Recreation þáttunum. Hann hefur massað sig upp en heldur í galkopatöfrana. Með honum í æsibaráttu um himingeiminn er græn kona sem er ekki öll þar sem hún er séð, níhílískur þvottabjörn, tattúverað vöðvatröll sem tekur allt bókstaflega og trémaður sem segir ekkert annað en „I am Groot“ (Vin Diesel í sínu besta hlutverki). Mjög skemmtileg mynd sem ég mæli óhikað með.

Annars er það helst að frétta af Vestfjörðum að Rúnar Rúnarsson er hér að leikstýra fyrstu myndinni eftir að hann gerði verðlaunastykkið Eldfjall. Myndin heitir Þrestir og ku byggja á verðlaunastuttmynd Rúnars Smáfuglar. Ingvar E. Sigurðsson leikur miðaldra fyllibyttu en annars eru unglingar víst helsti fókuspunktur myndarinnar. Kvikmyndatökuliðið má nú sjá víðsvegar en í gær þurfti að fresta tökum á Flateyri vegna skorts á þoku. Var þetta fúlt fyrir marga heimamenn sem voru mættir til að leika gesti í partíi og sérstaklega fyrir suma sem höfðu sækað sig upp í að vera allsberir í vatnsfylltu fiskikari. Nú er verið að senda eftir þokuvél að sunnan því það verður svona gott þokalaust veður áfram.