Á miðvikudaginn höldum við upp á 46 ára afmæli Svavars Péturs Eysteinssonar, Prins Póló. Gigg í Gamla bíói á miðvikudaginn, uppselt, og annað á fimmtudaginn og enn til miðar á Tix. Dr. Gunni spilar auk helvítis hellings af góðu dóti.
Ég fékk senda kassettu með þessu ævaforna viðtali og lagi með Blimp. Sveitin er sennilega allra fyrsta bandið sem Svavar spilaði með (hann er líklega 14 ára), en auk hans voru í því þeir Haukur M. Einarsson á trommur, Ásgeir Ó. Sveinsson á bassa, og Hilmar Ramos söngvari. Hljómsveitin keppti í Músiktilraunum 1992 og virðist hafa gefið upp öndina skömmu síðar. Þá tók við hljómsveitin Múldýrið, sem gerði eina smáskífu og svo allskonar fínirí, Rúnk, Skakkamanage, Prins póló, þú þekkir þetta.
Viðtalið við Blimp (líklega úr Aðalstöðinni eða einhverri skólastöð) er mjög nördalegt og feimið en hljómsveitirnar Bless, Pixies og Cure eru aðal áhrifavaldarnir. Veit því miður ekki hver spyrillinn var.
Nú hefur hugsanlega eina kosningalagið í ár litið dagsins ljós. Það voru Biggi Veira í Gusgus og ég sem sömdum lagið, en textinn er eftir Hallgrím Helgason. Laginu er ætlað að fá fólk til að kjósa Samfylkinguna – XS – og er sérstaklega hannað til að höfða til jaðarsettra kjósenda og þeirra sem eru enn á báðum áttum, eða jafnvel á engum áttum. Alltof margir ætla að gefa skít í þetta allt saman, sem er kannski eðlilegt því það er óeðlilegt að þurfa að standa í lýðræðinu ár eftir ár – þegar þjóðfélagið ætti frekar að vera eins og glænýr Volvo sem bilar aldrei og þarf ekki að fara í ástandsskoðun fyrr en eftir fjögur ár. Ísland XS – Meira Svíþjóð – Minna Úganda.
Ókei. Ég hef aldrei lesið Biblíuna og man ekkert eftir því hvað ég var að spá þegar ég fermdist, nema mig langaði í rafmagnsgítar og magnara. Auðvitað eru Nýja og gamla testamenntin bara mannanna verk og skrifuð af einhverjum hugsuðum fyrri alda. Menn eru eitthvað að þjarka um tilvist Jesúsar frá Nazareth og ég get ekkert vitað um það hvort sá ágæti maður var á meðal vor fyrir 2017 árum eða ekki. Tel mig til trúlausra eða þeirra sem eru lítið að spá í tilgangi og markmiði þess að foreldrar mínir höfðu samfarir og 9 mánuðum sirka poppaði ég út og bara allt í lagi með það 🙂
Prestar Þjóðkirkjunnar eru svo allskonar, en margir alveg frábærir menn og konur – og svo eitthvað verra lið og jafnvel ofan í hreinustu viðbjóði – en þá er ég nú frekar að spá í þjóna kaþólsku kirkjunnar (til forna vonandi). Í gær tók Sr. Bolli Pétur Bollason, sóknarprestur í Laufásprestakalli það á sig að messa yfir þingmönnum okkar og tókst það svona líka þrumuvel úr hendi. Það er nánast allt sem Bolli segir rétt og gott á pakkið að heyra hann skamma það aðeins. (Með „Pakk“ er ég að vitna í Dag Sigurðarson – þessir þingmenn okkar eru sennilega ekkert pakk nema kannski nokkrir – Hvernig á ég að vita það?)
Svo gerið ykkur greiða og hlustið á sérann. Ég henti inn nokkrum myndum og plís ekki vera eitthvað foj yfir því. Tók líka út „Jesú-vælið“, þ.e.a.s. guðsorð og sálmasöng, en það hefur lengi staðið okkur með annan tónlistarsmekk fyrir þrifum að þurfa að hanga yfir þessu slævgandi gauli. Meira pönk í kirkjurnar sem sagt, því það er gott pönk í sumum sérum!
Allt í drasli voru þættir á Skjá einum sem hófu göngu sína 2005. Heiðar Snyrtir og Margrét Húsmæðraskólastýra sáu um að niðurlægja stamandi skítablesa og taka til í allskonar saurholum og draslarakompum. Þetta var ágætis stöff, þótt ég hafi aldrei horft á heilan þátt, svo ég muni: Og jafnvel þótt fólk sem ég þekki væri í hlutverki hins niðurlægða.
Þessa ágætu fávitaþætti hafði ég bak við eyrað þegar mín beið næstum ókleifur hamar nú á Frídegi Verzlunarmanna. Það var man ceifið mitt, sem liggur við hlið vistarvera okkar Dungang, en þar er að sjálfssögðu alltaf skínandi hreint og fágað þökk sé Lufsu og/eða aðkeyptu vinnuafli. Og ég legg mig stundum fram þar líka (segi ég, svo ég hljómi nú ekki eins og einhver karlpungur).
Til að gera mér djobbið léttara ákvað ég að gera Youtube „þátt“ um „ferlið“ og, sem sagt, sýna alheiminum hvers konar helvítis skítalúði ég er. Ég hef áður verið helvítis pempía og hræddur um almenningsálitið, en sú tíð er löngu liðin. If you don’t like what you see – fokk off! Einu sinni þorði ég varla að ganga um með svona „Hallgríms Helgarsonar“-hatt, sem ég átti þó, af ótta við að einhver bjáni út í bæ þætti það eitthvað skrýtið. Nú á gamalsaldri hef ég öðlast þá eðlilegu visku að vera drullusama um hvað einhverjum plebbum og bjánum út í bæ finnst um mig, og þannig, allt. Ekki skemmir fyrir þetta skemmtilega umburðarlyndi sem ríkir í dag þar sem annar hver maður er komandi „út úr skápnum“ með geðveiki sína, dinti, vandamál og offitu.
Auðvitað var þetta cleaning djobb löngu, LÖNGU, tímabært, en þegar mér datt þetta í hug með „dokumentasjónina“ fann ég strax að ég nennti þessu. Ferlið er auðvitað ekki búið og ýmsir hamrar og ýmsar skráningar eftir. Þess má að lokum geta að lúkkið á man ceifinu er alveg eins og við því var tekið 2004. Sýruveggfóður, 60s litir á veggjum o.s.frv. Öll íbúðin okkar var svona, enda seldi gömul ekkja okkur íbúðina á algjöran slikk 2004 (15.6 mills minnir mig). Þarna hafði hún verið að marinera sig síðan örlí 60s. Þökk sé „íslensku leiðinni“ erum við að tala um 50 mills í dag. Takk óðaverðbólga, launaskrið, verðtrygging og hvað þetta heitir allt!
Skapti Ólafsson; meistari, pabbi vinar míns, jazzgeggjari, rokklegend, prentari og öðlingur, liðaðist yfir móðuna miklu, sem bíður okkar allra, aðfaranótt þriðjudags, 1. ágúst. Hann var að verða 90 ára og því hafði móðan mikla verið yfirvofandi um hríð. Skapti greindist með Alzheimer 2015 og hafði tekið þennan venjulega rúnt gamalmenna, sem enginn veit hvað á að gera við (og allra síst “kerfið”!): Verið á Vífilsstöðum, Landakoti kannski (eða þessu er kannski að slá saman í hausnum á mér við mína eigin foreldra – pabbi dó á Vífilsstöðum 5. des 2016, mamma nennti þessu ekki ein og dó á Landakoti 16. mars 2017), en Skapti var kominn á Sóltún í lokin og undi þar vel til dauðadags, enda umvafinn ættingjum og því algjörlega frábæra fólki sem velst á þessar lokastoppistöðvar, og það þótt ummununarstörf séu verðlögð af þessu sjúka samfélagi á brotabrot af því sem gagnslaust kerfisfólk fær fyrir að klúðra öllu sem það tekur sér fyrir hendur. Áfram láglaunafólk! Stay in there!
Ég fór held ég ekki nema tvisvar-þrisvar með Steini Skaptasyni vini mínum að heimsækja pabba sinn. Ég hafði jú nóg með mitt deyjandi mapa og því fór ég t.d. aldrei með á Sóltún. Í fyrsta skiptið sem við Steinn fórum á Vífilsstaði tók ég mynd til að senda Kidda vini okkar, sem þá var kominn á 29. ár í ólöglegri þrælavist í New York City. Við vorum alltaf að reyna að fá Kidda heim, ég fékk t.d. Hr. Stefán Grímsson, leiðtoga lífs okkar Kóp-fríka, til að leika í litlu hvatningarvideóiog þungt lóð á þessa eggjunar-vogaskál var að greina frá hrörnun Skapta – “Koddu heim áður en Skapti kveður”.
Kiddi kom svo auðvitað heim á endanum, eins og frægt er orðið, og stóð algjörlega sína plikt með Skapta. Fór einn, eða með Steini, 2-3 í viku og síðast laugardaginn 29. Júlí.
En aftur til 1980 þegar ég fór að kynnast Steini, Kidda og fleiri Kóp-fríks. Skapti var viðloðandi félagsskapinn from day one, enda Steinn óhræddur við að minnast á pabba sinn. Auðvitað vissi ég ekki neitt hver þetta var og hafði örugglega aldrei heyrt Allt á floti. Ég var líka ekkert svo spenntur fyrir “eldgömlu stöffi” enda á fullu við að njóta þess hlaðborðs sem samtíminn hafði upp á að bjóða. Man ekkert eftir þátttöku Skapta, nema i mesta lagi að maður sá pabbans Steins í eldhúsinu heima hjá þeim á Holtagerði 15. Mamman, Sveinfríður Guðrún Sveinsdóttir (Sísa 1929 -1993), var mun minnisstæðari þá, keðjureykjandi við eldhúsborðið. Svo var hún systir Gunnars Reynis, sem ég vissi eðlilega ekkert hver var, en Steinn og Kiddi minntust á oft, líklega til að hlæja sín á milli yfir því hvað ég, new comerinn, væri vitlaus. Við svona stundir sá maður Skapta hressann en kannski þreytann líka, því að hann var með prentaðstöðu í bílskúr við hliðina og dældi út nafnspjöldum og kvittunum fyrir kúnnana. Í baksýnisspegli sé ég að Skapti og pabbi voru á svipuðum stað í mörgu; „gamlir“ vinstri menn og báðir komnir í sjálfsstæðan atvinnurekstur, pabbi með Tempó innrömmun, Skapti með prentverkið.
Líða ár við leik og störf, pönk og síðpönk, fyllirí og almennt rugl og gleði. Þegar ég gerði Abbababb! 1997 (fyrir 20 árum!!!) fékk ég Skapta í glænýtt hljóðver Valgeirs Sigurðssonar, sem var í iðnaðarhúsnæði á Smiðjuvegi fyrst. Gott ef þetta var ekki fyrsta platan ever sem Valgeir tók upp. Þarna hafði Skapti ekki sungið inn á plötu síðan þessar þrjár 78sn fiftís (þá var hann með effi, Skafti), en mætti hress og reifur og söng Lalla lagið með stíl. Steinn söng líka í laginu, túlkaði Gilitrutt, kærustu Lalla, með álíka stíl og fullkomnun og Skapti.
Útkoman er hér enn, uppfærð á Youtube en með aðeins 35 views. Til samanburðar er Prumpufólkið, hittarinn mikli, sem fer með mér í gröfina, með 470þ views, og Glaðasti hundurinn, hinn barnahittarinn, er með 740þ views (sorri, þurfti bara aðeins að humblebragga í miðri líkræðu) Hér er mynd úr sessioninni, ég í QPR peysu.
Þetta er úr bókinni 100 bestu plötur Íslandssögunnar (fín bók frá 2009 eftir vini mína Jónatan og Arnar Eggert) þar sem ég næ hæst #65 með Abbababb!, en myndi auðvitað ná miklu hærra í dag, enda nýjabrumsrykið af stöffi eins og Hjálmum og Diktu, sem eru fyrir ofan mig, löngu fokið út í veður og vind.
Næst þurfti ég að hafa nánari kynni af Skapta þegar ég var að vinna bókina Eru ekki allir í stuði 2001 (http://this.is/drgunni/studi.html). Heimsótti hann og nýju konuna, sem ég hafði unnið með í Landsbankanum, í stóra blokk í nýja “Kópavogi”. Hann var auðvitað öðlingur heim að sækja. Ég setti á rec og fyllti eina c90 kassettu, sem ég er með hérna einhvers staðar og mun hljóðjafna og fullvinna á stafrænt form við allra fyrsta tækifæri. Útkomuna – viðtalið við Skapta – má lesa í bókinni. Gott stöff!
Líða enn 11 ár og út kemur Stuð vors lands, stuðhlunkur mikill og miklu betur útlítandi en orginallinn, sem hafði hvort sem er verið sold out síðan 2002. Mér fannst ekki ástæða til að heimsækja Skapta aftur vegna nýju bókarinnar.
Enn líða nokkur ár og Skarphéðinn Guðmundsson, hinn frábæri dagskrárstjóri Rúv, flettir Stuð vors lands í bókabúð. Hann fær hugmynd að gera þætti upp úr bókinni og kallar á mig. Ég kalla á Markel bræður, sem bregðast strax við, enda höfðum við lengi velt álíka verkefnum fyrir okkar. Útkoman er Popp- og rokksaga Íslands, sem nú má fá á DVD setti. Við náðum flestum legends poppsögunnar á “filmu” og ég vildi auðvitað fá Skapta on camera. Talaði við Stein, sem bar þetta undir aðstandendur. Svar kom um hæl: Skapti er of langt genginn í sinni elligöngu til að við fáum go á spjall. Full mikil viðkvæmni fyrir minn smekk, ef Skapti mundi eitthvað þá voru það the good old days. En jæja – hæstráðandi réði þessu. Í staðinn fyrir sjónvarpsupptöku af rokklegend og jazzgeggjara er til kassetta og haugur af ljósmyndum, sem ég lagði mig í líma við að grafa upp. Sjáum nokkrar myndir að lokum, Skapti Ólafsson in ðe 40s/50s, stuðið uppmálað, góðmennskan og sósíalíski baráttuandinn alltaf á bakvið eyrað, öðlingsskapurinn og lífsgleðin í fyrirrúmi.
Þú sérð þetta aldrei Skapti minn góður, en samt: Takk fyrir sögurnar og fyrir að hafa verið til. Takk fyrir Skapti Ólafsson og bless á meðan.
Með hljómsveit Jónatans Ólafssonar í gamla Þórskaffi. Skapti, Róbert Þórðarson á Harmóníku og Jónatan á Píanó. Á þessum árum voru liðtækir menn út um víðan völl. Skapti í djammsessjón með Jóni Sig á bassa, Gunnari Ormslev, Magnúsi Randrup og fleirum frumkvöðlum jazzz á Íslandi.
Skapti auglýstur í maí 1959. Auðvelt er að fullyrða að Fjórir jafn fljótir hafi verið “fyrsta rokkhljómsveit Íslands”. Gárungarnir kölluðu bandið auðvitað “Fjórir jafn ljótir”.
Skapti söng 6 lög inn á þrjár 78sn plötur fyrir Íslenzka Tóna Tages Ammendrups 1957. Hér er umslag “erfiðustu” plötunnar og þeirrar einu sem Steinn á ekki. Ég á bara „Syngjum dátt og dönsum“. Fimm lög af þessum plötum, hafa gengið í endurnýjun lífdaga á ýmsum safnplötum í gegnum árin, en “Geimferðin” ekki og því er bara sjálfssagt að bæta úr því hér: SKAPTI ÓLAFSSON – GEIMFERÐIN.
Við upptökur á „Allt á floti“. Fyrir plötuna/lagið gat Skapti keypt sér nýjan ísskáp.
Skapti, Soffía Karls og Jan Morávek grínast í einni af revíum Íslenzkra Tóna. Soffía er enn á meðal vor, en vill því miður ekki tala um the good old days.
Skapti kom loks með sína fyrstu sólóplötu í fullri lengd árið 2008. Hún er enn fáanleg.
Í dag er Hrekkjarvaka – Halloween – og hér er Páll Ívan frá Eiðum með eitt örfárra hrekkjuvökulaga á Íslandi. Lagið er á réttóútkominni plötu Páls, sem er frábær og æðislegt.
Hér er Sóley og Halloween.
Og enn meira Halloween, nú með Dead Kennedys.
Og hér er pólitísk yfirlýsing: Það eru margir ágætir kostir í stöðunni, og nokkrir ömurlegir. Ég ætla að gefa nördum og lúðum mitt atkvæði og kýs Pírata. Takk fyrir.
Ísland er besta land í heimi samkvæmt könnun sem Bloomberg hefur birt. Fast á hælana koma Svíþjóð og Singapore. Er það ekki þar sem fólk er fangelsað fyrir að hrækja tyggjói á götuna, eða er það kannski bara flökkusaga (nenni ekki að gúggla)?
Þessar niðurstöður eru svo sem í anda þess sem maður hefur ímyndað sér. Ísland er alveg fínt sko, og það getur meira að segja orðið betra. Bara laga það sem vantar upp á: Að fólk lepji ekki dauðann úr skel, að heilbrigðiskerfið sé gott, að menntun sé á parti við það besta og það að fara í nám sé ekki þrautarganga fátæktar og basls. Síðari tíma mál eru að malbika alla þjóðvegi, tvöfalda leiðina í báðar áttir frá Rvk til Ak og Hafnar, uppræta frændhygli og kvótakónga, o.s.frv. Nú og fá nýja stjórnarskrá. Mér sýnist upplagt tækifæri til að leggja lóð á þessa vigt eftir mánuð þegar þú kýst Pírata. Eða VG eða Viðreisn ef þú endilega vilt. Mér lýst svo sem ágætlega á allt þetta dót, en best á Pírata. Mér finnst svo Sigurður Ingi ágætur líka og gamla Framsóknar-línan, ef ekki væri fyrir mafíósana sem sett hafa ljótan blett á gömlu sveitarómantíkina. Allavega allt annað en status quo, sem var reyndar fínt band í sexunni og snemma í sjöunni. En svo misstu þeir það og komu með In the army now.
Heimurinn sökkar. Það er bara staðreynd. Hvað er að? Karlar í maníu og brundfyllisgremju að karlast eitthvað, drepandi, nauðgandi, græðandi: Það er fábjánast út um allt. Sýrland, Putin, ISIS, Trump, Sýrland, flóttafólk, vesen, leiðindi, Sýrland, bögg og tráma.
Til að verða ekki sturluð tökum við flest þá (ómeðvituðu) ákvörðun að stinga hausnum í sandinn, hugsa um eitthvað annað, rassgatið á okkur sjálfum – ég lifi í kringum eigin nafla. Hvað er í sjónvarpinu? Er komin ný sería af Líf mitt er drasl? Hey, vá, nýr sími frá Iphone. Einhver sem ég hef aldrei heyrt minnst á áður léttist um 30 kg! Hvað fæ ég mörg læk á myndina mína? Ég er með ADHD. Ég er með bla bla bla.
Hvað er svo sem annað hægt að gera? Vera með mánaðarlega innborgun í (góðgerðasamtök að eigin vali). Skrifa grein (nú eða blogg). Skrifa undir rafræna kröfu um bætt ástand. Þeir, sem þetta brennur heitast á, gerast sjálfboðaliðar og mæta á staðinn til að vera hands on að bjarga því litla sem ein manneskja kemst yfir. Hetjur.
Svo eru það blessaðir poppararnir sem annað slagið eru slegnir baráttuanda og koma með heimsósómatexta innan um ælofjúið og hvað þetta er sem popparar syngja um.
„Bisness-menn þeir vilja stríð svo seljist þeirra vopn. Af þeirra völdum er heimurinn sem skíðlogandi ofn,“ söng Jóhann G. Jóhannsson heitinn með Óðmönnum alveg brjálaður 1970 (þá sökkaði heimurinn líka). Jóhann bætti við ásakandi: „Við Íslendingar erum þjóð sem þolir ekki blóð. Látum hundrað kall í sjóð og teljum okkur góð“.
Á sama tíma söng Pétur Kristjánsson heitinn „Vitskert veröld“, hið frábæra lag Einars Vilbergs.
Björgvin Halldórs var líka brjálaður á þessum tíma og fleiri. Ég nenni ekki að gúggla hvað var í gangi 1970, en ætli það hafi ekki verið þetta vanalega: Graðir karlar í maníu að apast eitthvað og börn að deyja.
Spólum þá áfram um 46 ár. Það er ekki eins og karlar í maníu séu ekki lengur að drepa börn. Við göngum því miður ekki í hvítum hippamussum og elskum hvort annað. Nei nei nei, heimurinn hefur aldrei sökkað jafn stíft (Heimurinn hefur reyndar alltaf sökkað stífast á öllum tímum).
Tarnús Jr. er listamannsnafn Grétars Magnúsar Grétarssonar og honum er ekki sama. Hér að ofan er flott lag og ömurlegt myndband, sem þú skalt ekki horfa á nema þú sækir í að líða illa. Svona er þetta bara ennþá, því miður: Karlar í maníu að drepa börn. Lagið heitir WWIII, enda vilja margir meina að þriðja heimsstyrjöldin sé skollin á. Ég gef Tarnúsi orðið:
Lagið heitir WW III (The truth is out there) og fjallar lagið og myndbandið um flóttafólk frá Sýrlandi, ástandið þar. Myndbandið er frekar átakanlegt og hefur það birst á síðu Save Syrian Children og víðar. Lagið hefur vakið mikla athygli á Facebook.
Upprunalega ætlaði ég ekki að semja textann um flóttafólk en það gerðist ómeðvitað, en í framhaldi tók stefnan þangað. Mér fannst lagið dáldið dramatískt og vildi gera myndband í andstæðu við dramatíkina (eða hálfgert grín myndband í léttara kanntinum), en hætti svo við það vegna þess að mér fannst ég vera að gera grín af flóttafólki. Þannig að ég fór alla leið með þá hugmynd að vekja athygli á hvað er að gerast í Sýrlandi og víðar.
Sú athygli sem ég hef fengið og skilaboð frá fólki er rosalega sterk, og í sumum tilfellum er eins og fáir viti hvað er að gerast í heiminum, eða vita það en hafa ekki tekið mikið eftir því. Fólki hryllir við myndbandinu, en mér finnst það nauðsynlegt svo almenningur sjái sannleikann.
Grétar Maggi Tarnús Jr.hefur gefið út tvær breiðskífur (Original Cowboy og My God is Mad). Hann tók sér frí frá tónlistinni 2013 og kláraði nám í Kvikmyndaskóla Íslands. Hann hefur gert fimm stuttmyndir og eina heimildarmynd „Meistari Tarnús og Hús“ sem fjallar um föður hans. Sú mynd komst inn á kvikmyndahátíðina Skjaldborg 2015. Núna er hann byrjaður aftur að semja tónlist í bland við kvikmyndagerð.
Íslenskar útvarpsstöðvar eru allar fínar á sinn hátt. Þrír bestu útvarpsþættir landsins eru Langspil með Heiðu Eiríks, þar sem hún spilar bókstaflega alla „dægur“-tónlist, eins lengi og hún er íslensk; Harmageddon á X-inu og Víðsjá á Gufunni. Í Víðsjá í gær fjallaði Guðni Tómasson um fyrirbæri sem ég vissi ekki að gert væri út á: ASMR (Autonomous sensory meridian response), eða Ósjálfráð skyn viðbrögð (eða eitthvað svoleiðis). Þetta er tilfinningin að verða fyrir huglægu kítli, að renna kalt vatn milli skins og hörunds, að fá gæsahúð. Það er t.d. hægt að kalla þetta fram með því að einhver kítlar á þér eyrað með fjöður og jafnvel bara með því að einhver er að greiða á sér hárið við hliðina á þér.
Þetta er svo sem fyrirbæri sem ég hef oft upplifað, en ég vissi ekki nafnið á því og ég vissi ekki heldur að það væri fólk á Youtube sem reynir að gangsetja þessa tilfinningu hjá áhorfendum sínum. Sé slegið upp ASMR á Youtube fyllist allt af (oftast) ungum konum að hvísla í míkrafóna, láta skrjáfa í hinu og þessu og kyssa út í loftið. Nokkrar „stjörnur“ eru í ASMR bransanum, t.d. Jellybean sem hér andar og smjattar í míkrafón í hálftíma.
Ein íslensk kona er á meðal ASMR-ista og hefur hún fengið hrós fyrir hreiminn sinn. Hún heitir Elísabet og hefur birt mörg ASMR myndbönd. Hér er hún t.d. að hvísla með svamp.
ASMR er að sjálfssögðu ekki kynferðislegt fyrirbæri og ef þér finnst eitthvað sexí við að það að sjá ungar konur smjatta, hvísla og kyssa í míkrafón ertu bara sjúkur viðbjóður sem ætti að gelda.
Björk Guðmundsdóttir er fimmtíu ára í dag. Til hamingju Björk! Það er óþarfi að hafa mörg orð um snilli Bjarkar, áhrif hennar og vægi – allt er það augljós fakta: Hún opnaði dyrnar upp á gátt með Sykurmolunum og Debut og síðan er Ísland og íslensk tónlist ekki lengur aðhlátursefni á bransamessum heldur sífersk uppspretta kúls og hipps.
Björk hefur aldrei nennt að endurtaka sig og aldrei viljað dvelja í fortíðinni. Hún er alltaf kominn með puttann á púlsinn á einhverju sem er varla orðið til ennþá, á meðan aðrir eru fálmandi á púlsinum á því sem Björk snerti í fyrradag. Hún er „öllu“ íslensku tónlistarfólki skínandi fyrirmynd, gulrótin á stönginni. Hvernig á ég að orða þetta eiginlega? – Já, Björk er æðisleg!
Í tilefni dagsins kemur hér súperdúper sjaldgæfi, framlag Bjarkar til ljóðakassettunar Lystisnekkjan Gloría (Gramm 1986 – 200 eintök). Björk fær aðstoð frá Sigtryggi Baldurssyni í flutningi ljóðanna sem heita Djúp fyrir mig / Lungu / Lifað í vatni (eða: Þið takið frið framfyrir sannleika) / Sálmur 323.
Fyrir sömu jól kom fyrsta smáskífa Sykurmolanna (Ammæli / Köttur). Björk var 21. árs og nýorðin móðir.