Sushi og Lemon

21 Apr

Þótt nútíminn sé e.t.v. trunta þá er a.m.k. miklu meira hægt að éta í dag heldur en fyrir svona eins og 30 árum. Ég er svo forn að ég man eftir því þegar ég smakkaði pítsu fyrst, líka „kínarúllu“ og börrítos.

Einu sinni þótti svaka nýjabrum í því að borða sushi. Eins og vanalega var ég lengi að sættast á að þetta væri eitthvað sérstakt. Ég er alltaf svo lengi að go við ðe fló (les: hoppa um borð í brunandi lest kapítalismans til heimsendis), er til dæmis ennþá með aumingjasíma og ekkert 3G. Svo opnaði einhver nýr staður og gott ef ekki Beta Rokk fékk mig og fleira lið til að eta sushi og síðan skrifaði hún grein um málið. Þetta þótti svona merkilegt þarna um 2000. Nokkru fyrr man ég eftir sushi-stað á móti Gamla bíói en ég fór aldrei þangað, enda fannst mér fáránlegt rugl að éta hráan fisk á okurprís.

Eftir plöggmáltíðina með Betu Rokk komst ég á bragðið og varð ólmur sushikarl. Át þetta hér á landi á og í utanlandsferðum, af færiböndum og hvar sem færi gafst. Ég er ekki með neina sushi-fordóma, skófla í mig hrognum, álum, strýtum, flugfiskum og sæbjúgum eins og ég fái borgað fyrir það. Ef boðið væri upp á augu lúsifers á hrísgrjónabeði rynni það niður efra meltingaropið á mér án frekari umhugsunar.

Í dag lítur ný kynslóð á sushi eins og nokkurs konar skyndibita, enda enginn hörgull á sushi-stöðum hér. SuZushii í Kringlunni hefur löngum verið eitt besta sushipleisið og hefur nú opnað delúx útgáfu af sjálfum sér í Iðu-húsinu, Lækjargötu. Þar getur maður ekki valið af matseðli heldur verður að gangast undir það sem kokkarnir reiða fram. Um er að ræða 16 bita dæmi á 3.750 kr. Maður fékk allskonar öðruvísi sushi og þetta var alveg skothelt.

Nokkru áður höfðum við farið á Rub 23 í kjallara Geysis-hússins. Vorum fjögur saman og báðum bara um sushi mix fyrir 5000 kall á kjaft. Komu nú svoleiðis sushibreiðurnar og maður stóð fljótlega á blístri. Ekki það mikið á blístri að maður gæti ekki rutt í sig eins og einum gríðargóðum eftirrétti líka.

En að öðru. Um daginn sóttu að sögn 300 manns um vinnu á nýjum stað, Lemon á Suðurlandsbraut. Þetta er heilsu-skyndibita (en samt ekki skyndibita) pleis, nýkreistir safar, djúsí samlokur o.s.frv. Hef farið þarna tvisvar á síðustu dögum og fékk mér kombó í bæði skiptin, ss. safaglas og samloku á 1.890 kr. Ég mæli eindregið með Spicy Tuna samlokunni og Good Times djúsinu. Þetta er „erlendis“ staður og ekki svo ósvipaður keðjum eins Jamba Juice og kannski Pret-a-porter – nema bara mun meira „heilsu“. Lemon opnar kl. 7 á hverjum degi, sem er auðvitað snilld.

Eitt svar to “Sushi og Lemon”

  1. SB apríl 22, 2013 kl. 8:56 f.h. #

    Sushi Lennon, er það nafn á eitthvað?

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: