Sarpur | Minning RSS feed for this section

Pabbi minn, Hugh Hefner

3 Okt

Síðasti vetur var ekkert spes. Pabbi (1926-2016) dó í desember og mamma (1928-2017) nennti þessu ekki ein og dó í mars. Keflvíkingurinn Séra Guðmundur Karl Brynjarsson, söngvari Vébandsins og Ofris, jarðaði þau bæði. Við krakkarnir fimm erum enn að reyna að selja íbúðina þeirra á Snorrabraut en við erum þegar búin að fá sparnaðinn í arf. Takk mamma og pabbi fyrir allt Euroshopper kexið!

Svo var Hugh Hefner Playboy-karl að hverfa yfir móðuna og inn í sitt Playboy mansion í næstu vídd. Finnst mér því við hæfi að endurbirta þennan Bakþanka-pistil sem ég skrifaði og birti í Fréttablaðinu 2008.

pabbihefner
PABBI MINN, HUGH HEFNER
Þar sem ég sveimaði um Alnetið, eins og of oft vill gerast, í algjöru innihalds- og tilgangsleysi, rakst ég á myndir úr afmæli Playboy-kóngsins Hughs Hefners. Ég gerði óvænta uppgötvun: Hugh er jafnaldri pabba míns, meira að segja hálfu ári eldri en hann. Ótal hugsanir skautuðu um heilann á mér.

Þarna sat gamli maðurinn að halda upp á 82 ára afmælið sitt. Með góðlegt bros gamalmennisins og aðra lúkuna á lærum ungrar vinkonu sinnar. Hinum megin við Hugh sátu tvær ungar ljóskur í viðbót og hugsanlega voru allar þrjár búnar að þjónusta afmælisbarnið fyrr um daginn. Og voru svo kannski á leiðinni í höllina til að veita frekari þjónustu. Það fór hrollur um mig.

En bíðum við. Hvað átti þessi hrollur að fyrirstilla? Var hann ekki bara til marks um ófyrirgefanlega fordóma í garð eldri borgara af minni hálfu? Hvað með það þótt gamli maðurinn sofi hjá ljóshærðum bimbóum og geymi þær eins og kvikfénað í kofanum sínum? Ég meina, hann á peningana, er svaka fínn karl og ef hann finnur stelpur sem eru nógu klikkaðar og með nógu brotna sjálfsmynd til að dúllast utan í sér, er það þá mitt að dæma? Er ekki ástin landamæralaus?

Þá varð mér hugsað til pabba míns. Liði manni ekki hálf undarlega að heimsækja hann í ellismellablokkina ef það væru alltaf þrjár bráðhuggulegar ljóskur á nærbuxunum utan í honum? Jæja pabbi minn, hvernig ertu í pípulagningunni í dag? Hann er fínn, myndi þá Gógó, átján ára, grípa fram í og klappa pabba á lærið og brosa tvíræðu brosi. Jæja, myndi maður þá dæsa og reyna að horfa ekki á pabba og Gógó gerast full náin.

Þaðan af síður vil ég að dóttir mín verði gamalmennakanína þegar hún verður stór. Hvernig hefur kallinn það? gæti maður spurt í símanum með uppgerðar áhuga en vonað innst inni að hann færi að hrökkva upp af svo þessu niðurlægingartímabili myndi nú ljúka.

Hugh er demókrati og hefur gefið fullt af peningum til að berjast gegn ritskoðun – fínn karl, eins og ég segi. Hann á að hafa sofið hjá meira en tvöþúsund konum og segist enn þrælvirkur. Líf hans er draumafyrirmynd fjölmargra karlmanna. En það er nú bara af því við erum svo ógeðslega mikil fífl.

Skapti Ólafsson kvaddur

7 Ágú

Skapti Ólafsson; meistari, pabbi vinar míns, jazzgeggjari, rokklegend, prentari og öðlingur, liðaðist yfir móðuna miklu, sem bíður okkar allra, aðfaranótt þriðjudags, 1. ágúst. Hann var að verða 90 ára og því hafði móðan mikla verið yfirvofandi um hríð. Skapti greindist með Alzheimer 2015 og hafði tekið þennan venjulega rúnt gamalmenna, sem enginn veit hvað á að gera við (og allra síst “kerfið”!): Verið á Vífilsstöðum, Landakoti kannski (eða þessu er kannski að slá saman í hausnum á mér við mína eigin foreldra – pabbi dó á Vífilsstöðum 5. des 2016, mamma nennti þessu ekki ein og dó á Landakoti 16. mars 2017), en Skapti var kominn á Sóltún í lokin og undi þar vel til dauðadags, enda umvafinn ættingjum og því algjörlega frábæra fólki sem velst á þessar lokastoppistöðvar, og það þótt ummununarstörf séu verðlögð af þessu sjúka samfélagi á brotabrot af því sem gagnslaust kerfisfólk fær fyrir að klúðra öllu sem það tekur sér fyrir hendur. Áfram láglaunafólk! Stay in there!

Ég fór held ég ekki nema tvisvar-þrisvar með Steini Skaptasyni vini mínum að heimsækja pabba sinn. Ég hafði jú nóg með mitt deyjandi mapa og því fór ég t.d. aldrei með á Sóltún. Í fyrsta skiptið sem við Steinn fórum á Vífilsstaði tók ég mynd til að senda Kidda vini okkar, sem þá var kominn á 29. ár í ólöglegri þrælavist í New York City. Við vorum alltaf að reyna að fá Kidda heim, ég fékk t.d. Hr. Stefán Grímsson, leiðtoga lífs okkar Kóp-fríka, til að leika í litlu hvatningarvideói og þungt lóð á þessa eggjunar-vogaskál var að greina frá hrörnun Skapta – “Koddu heim áður en Skapti kveður”.

2016-02-04 14.18.57
Kiddi kom svo auðvitað heim á endanum, eins og frægt er orðið, og stóð algjörlega sína plikt með Skapta. Fór einn, eða með Steini, 2-3 í viku og síðast laugardaginn 29. Júlí.

En aftur til 1980 þegar ég fór að kynnast Steini, Kidda og fleiri Kóp-fríks. Skapti var viðloðandi félagsskapinn from day one, enda Steinn óhræddur við að minnast á pabba sinn. Auðvitað vissi ég ekki neitt hver þetta var og hafði örugglega aldrei heyrt Allt á floti. Ég var líka ekkert svo spenntur fyrir “eldgömlu stöffi” enda á fullu við að njóta þess hlaðborðs sem samtíminn hafði upp á að bjóða. Man ekkert eftir þátttöku Skapta, nema i mesta lagi að maður sá pabbans Steins í eldhúsinu heima hjá þeim á Holtagerði 15. Mamman, Sveinfríður Guðrún Sveinsdóttir (Sísa 1929 -1993), var mun minnisstæðari þá, keðjureykjandi við eldhúsborðið. Svo var hún systir Gunnars Reynis, sem ég vissi eðlilega ekkert hver var, en Steinn og Kiddi minntust á oft, líklega til að hlæja sín á milli yfir því hvað ég, new comerinn, væri vitlaus. Við svona stundir sá maður Skapta hressann en kannski þreytann líka, því að hann var með prentaðstöðu í bílskúr við hliðina og dældi út nafnspjöldum og kvittunum fyrir kúnnana. Í baksýnisspegli sé ég að Skapti og pabbi voru á svipuðum stað í mörgu; „gamlir“ vinstri menn og báðir komnir í sjálfsstæðan atvinnurekstur, pabbi með Tempó innrömmun, Skapti með prentverkið.

Líða ár við leik og störf, pönk og síðpönk, fyllirí og almennt rugl og gleði. Þegar ég gerði Abbababb! 1997 (fyrir 20 árum!!!) fékk ég Skapta í glænýtt hljóðver Valgeirs Sigurðssonar, sem var í iðnaðarhúsnæði á Smiðjuvegi fyrst. Gott ef þetta var ekki fyrsta platan ever sem Valgeir tók upp. Þarna hafði Skapti ekki sungið inn á plötu síðan þessar þrjár 78sn fiftís (þá var hann með effi, Skafti), en mætti hress og reifur og söng Lalla lagið með stíl. Steinn söng líka í laginu, túlkaði Gilitrutt, kærustu Lalla, með álíka stíl og fullkomnun og Skapti.

Útkoman er hér enn, uppfærð á Youtube en með aðeins 35 views. Til samanburðar er Prumpufólkið, hittarinn mikli, sem fer með mér í gröfina, með 470þ views, og Glaðasti hundurinn, hinn barnahittarinn, er með 740þ views (sorri, þurfti bara aðeins að humblebragga í miðri líkræðu) Hér er mynd úr sessioninni, ég í QPR peysu.

2017-08-07 10.51.54
Þetta er úr bókinni 100 bestu plötur Íslandssögunnar (fín bók frá 2009 eftir vini mína Jónatan og Arnar Eggert) þar sem ég næ hæst #65 með Abbababb!, en myndi auðvitað ná miklu hærra í dag, enda nýjabrumsrykið af stöffi eins og Hjálmum og Diktu, sem eru fyrir ofan mig, löngu fokið út í veður og vind.

Næst þurfti ég að hafa nánari kynni af Skapta þegar ég var að vinna bókina Eru ekki allir í stuði 2001 (http://this.is/drgunni/studi.html). Heimsótti hann og nýju konuna, sem ég hafði unnið með í Landsbankanum, í stóra blokk í nýja “Kópavogi”. Hann var auðvitað öðlingur heim að sækja. Ég setti á rec og fyllti eina c90 kassettu, sem ég er með hérna einhvers staðar og mun hljóðjafna og fullvinna á stafrænt form við allra fyrsta tækifæri. Útkomuna – viðtalið við Skapta – má lesa í bókinni. Gott stöff!

Líða enn 11 ár og út kemur Stuð vors lands, stuðhlunkur mikill og miklu betur útlítandi en orginallinn, sem hafði hvort sem er verið sold out síðan 2002. Mér fannst ekki ástæða til að heimsækja Skapta aftur vegna nýju bókarinnar.

Enn líða nokkur ár og Skarphéðinn Guðmundsson, hinn frábæri dagskrárstjóri Rúv, flettir Stuð vors lands í bókabúð. Hann fær hugmynd að gera þætti upp úr bókinni og kallar á mig. Ég kalla á Markel bræður, sem bregðast strax við, enda höfðum við lengi velt álíka verkefnum fyrir okkar. Útkoman er Popp- og rokksaga Íslands, sem nú má fá á DVD setti. Við náðum flestum legends poppsögunnar á “filmu” og ég vildi auðvitað fá Skapta on camera. Talaði við Stein, sem bar þetta undir aðstandendur. Svar kom um hæl: Skapti er of langt genginn í sinni elligöngu til að við fáum go á spjall. Full mikil viðkvæmni fyrir minn smekk, ef Skapti mundi eitthvað þá voru það the good old days. En jæja – hæstráðandi réði þessu. Í staðinn fyrir sjónvarpsupptöku af rokklegend og jazzgeggjara er til kassetta og haugur af ljósmyndum, sem ég lagði mig í líma við að grafa upp. Sjáum nokkrar myndir að lokum, Skapti Ólafsson in ðe 40s/50s, stuðið uppmálað, góðmennskan og sósíalíski baráttuandinn alltaf á bakvið eyrað, öðlingsskapurinn og lífsgleðin í fyrirrúmi.

Þú sérð þetta aldrei Skapti minn góður, en samt: Takk fyrir sögurnar og fyrir að hafa verið til. Takk fyrir Skapti Ólafsson og bless á meðan.

0212-Með hljómsveit Jónatans Ólafssona í gamla Þórskaffi. Skapti, Róbert Þórðarson á Harmóníku og Jónatan á Píanó.Með hljómsveit Jónatans Ólafssonar í gamla Þórskaffi. Skapti, Róbert Þórðarson á Harmóníku og Jónatan á Píanó. Á þessum árum voru liðtækir menn út um víðan völl.

0212-Skapti í djammsessjón með Jóni Sig á bassa, Gunnari Ormslev, Magnúsi Randrup og fleirumSkapti í djammsessjón með Jóni Sig á bassa, Gunnari Ormslev, Magnúsi Randrup og fleirum frumkvöðlum jazzz á Íslandi.

0212-Skapti auglýstur í maí 1959
Skapti auglýstur í maí 1959. Auðvelt er að fullyrða að Fjórir jafn fljótir hafi verið “fyrsta rokkhljómsveit Íslands”. Gárungarnir kölluðu bandið auðvitað “Fjórir jafn ljótir”.

0212-Skapti plötumiðiSkapti söng 6 lög inn á þrjár 78sn plötur fyrir Íslenzka Tóna Tages Ammendrups 1957. Hér er umslag “erfiðustu” plötunnar og þeirrar einu sem Steinn á ekki. Ég á bara „Syngjum dátt og dönsum“. Fimm lög af þessum plötum, hafa gengið í endurnýjun lífdaga á ýmsum safnplötum í gegnum árin, en “Geimferðin” ekki og því er bara sjálfssagt að bæta úr því hér: SKAPTI ÓLAFSSON – GEIMFERÐIN.

0212-Við upptökur á Allt á floti
Við upptökur á „Allt á floti“. Fyrir plötuna/lagið gat Skapti keypt sér nýjan ísskáp.

0212-Skapti, Soffía Karls og Jan Morávek grínast í einni af Revíum Íslenskra tóna
Skapti, Soffía Karls og Jan Morávek grínast í einni af revíum Íslenzkra Tóna. Soffía er enn á meðal vor, en vill því miður ekki tala um the good old days.

0212-Skapti kom loks með sína fyrstu sólóplötu í fullri lengd árið 2008Skapti kom loks með sína fyrstu sólóplötu í fullri lengd árið 2008. Hún er enn fáanleg.

 

Siggi Johnny kveður

30 Nóv

Siggi Johnny – Sigurður Johnny Þórðarson – er látinn og verður borinn til grafar í dag. Það var alltaf stórskemmtilegt að tala við hann, það geislaði svo af honum gamli rokkspenningurinn, eins og hann væri enn staddur á sama degi og þegar hann heyrði rokk í fyrsta skipti. Ég tók fyrst við hann viðtal 2001 fyrir bókina Eru ekki allir í stuði? (sjá hér að neðan) og þegar við gerðum Popp og rokksögu þættina fengum við Sigga með okkur upp á völl til að sýna okkur aðstæður og rifja upp gamalt stuð. Það gerði meistarinn með glæsibrag eins og sjá má hér að ofan. Því miður rataði Siggi aldrei á plötu – nema eitt lag á jólaplötu með Ómari Ragnarssyni – en þeir sem sáu hann syngja á upprifjunartónleikum gamla rokksins á Broadway og víðar geta staðfest að hér fór kraftmikil kempa á ferð. Vertu sæll, gamli rokkari.

Auðvitað var rokkið múgæsing
Siggi Johnie er rokkað nafn á gömlum rokkara. Sigurður Johnie Þórðarson heitir hann í manntalinu og er fæddur 1940. Fjórtán ára kom hann til Íslands eftir að hafa búið í Kaupmannahöfn í sjö ár með foreldrum sínum. Nú býr hann í blokk í Hátúni og á að baki skrautlega og oft erfiða ævi, samtvinnaðri drykkjuvandamálum og ástum í meinum, að ógleymdri lífsseigu kjaftasögunni um að hann hafi sést ríða rollum út á Seltjarnarnesi. Þó sagan væri hin mesta steypa og uppspuni frá rótum loddi hún fast við og þegar Siggi var búinn að heyra einum of oft jarmað á eftir sér flúði hann aftur til Danmerkur. Siggi kom sterkur inn á ný 1983 þegar fyrstu íslensku rokkararnir komu saman aftur og hefur verið iðinn við að syngja síðan. Hann vígði m.a. karókí-kerfin á Ölver og Tveim vinum, hefur komið fram í auglýsingum og á fjölmörgum skemmtunum. Hér verður aðallega staldrað við það sem má kalla gullaldarár Sigga, árin 1956-1964. Þá var hann ungur söngvari sem naut mikilla vinsælda og kom fram með nánast öllum hljómsveitum bæjarins á nánast öllum stöðum landsins.

Náði svertingjunum alveg ágætlega
„Eftir heimkomuna var ég kallaður „Siggi danski“, en svo festist „Siggi Johnny“ við mig eftir að Svavar Gests kallaði mig það á árshátíð Gaggó Vest í Sjálfsstæðis-húsinu. Ég tók nokkur lög með Svavari og það spurðist út að ég væri góður. Ég söng því á árshátíðum fleiri skóla. Þær voru oft haldnar í Sjálfsstæðishúsinu á þessum tíma og hljómsveit Svavars spilaði undir. Hann var með svaka band og í samkeppni við KK-sextettinn. Draumur allra söngvara var þó að komast að hjá KK. Á þessum tíma var hann bara með einn söngvara, Sigrúnu Jónsdóttur. Hún var frábær söngkona, kom úr Öskubuskum, sem var söngsveit í bænum. Seinna fór hún til Noregs og söng með Kjell Karlsson, sem var KK þeirra Norðmanna“

Um það leiti munaði ekki miklu að Siggi kæmist að hjá KK-sextettnum. KK ætlaði að halda tónleika með nýjum söngvurum og Siggi svaraði auglýsingu frá honum.

„Við mættum þarna nokkrir söngvarar í gamla Þórscafé og ætlum að fá að reyna okkur. Þegar ég mætti var Jón „bassi“ Sigurðsson að kenna Ragga að syngja eitthvað lag. Raggi hafði verið alveg frábær trommari en var að stíga sín fyrstu spor sem söngvari. Hann átti að vera með í þessum hópi nýrra söngvara en svo var ákveðið að taka hann inn sem fastamann hjá KK. Það varð því ekkert úr að við syngjum hjá KK í þetta skiptið. Í staðinn komu aðrir undirleikarar og hópurinn; þeir og átta söngvarar, fjórir strákar og fjórar stelpur, fór út á land að skemmta. Við stældum hver sinn stílinn og ég náði svertingjunum alltaf alveg ágætlega, stældi t.d. Louie Armstrong, Louie Prima og Harry Belafonte. Annars var Haukur Morthens alltaf fyrirmyndin mín, enda var hann mikill listamaður og heiðursmaður. Ég var staddur í Svíþjóð á Dettifossi þegar Haukur og hljómsveit Gunnars Ormslev komu með gullverðlaunin frá Moskvu. Þeir komu um borð til okkar og þáðu skyr og saltfisk og átu vel af því eftir Sóvetdvölina.“

0214-siggi-jonnie
Siggi verður nafn í Austurbæjarbíói
Eftir þetta ævintýri 1957 fór Siggi að vinna sem „pottasleikir“ í eldhúsinu á millilandaskipinu Gullfossi. Hann skemmti á skipinu með eftirhermum og söng og karlarnir tróðu honum upp á svið í búllunum sem þeir stoppuðu á, því þá fengu þeir frítt að drekka. Eftir heimkomuna fóru hjólin að snúast. Siggi var annað slagið á sjó og söng hvar sem færi gafst; með Villa Valla á Ísafirði, Hljómsveit Ingimars Eydal á Akureyri, Hljómsveit Aage Lorange í Krossinum í Keflavík, Hljómsveit Haraldar Guðmundssonar á Neskaupsstað, Hljómsveit José Riba í Silfurtunglinu, Hljómsveit Guðjóns Pálssonar í Vestmannaeyjum og hljómsveitunum Trixon, Skuggasveinum og Fjórum jafn fljótum — „Þá kölluðu gárungarnir okkur Fjóra jafn ljóta!“ –, með Neo-tríóinu, hljómsveit Karls Lillendahl, Taboo, Bambínó og Rút Hannessyni svo einhverjir séu nefndir.

„Maður söng gömlu og nýju dansana á böllum og var alls staðar bara lausráðinn. Það var hringt og ég mætti. Fyrstu alvöru rokktónleikarnir sem ég söng á voru svo þegar KK kynnti nýja söngvara í Austurbæjarbíói 1958. Árgangurinn hans Gulla Bergmann var þá að útskrifast úr Versló og þessir tónleikar voru haldnir til að safna fyrir útskriftarferðinni. Þarna slógum ég og Sigurdór Sigurdórsson í gegn og það má segja að þarna hafi ég fyrst orðið nafn í þessum bransa. Á þessum tónleikum söng ég „Only You“ með Platters, „Butterfingers“ með Tommy Steele og svo „Long Tall Sally“ með Little Richards. Í því lagi notaði ég rokkstælana sem ég hafði séð Tony Crombie bandið vera með þegar það spilaði hér.“

Siggi var öflugur handknattleiksmarkvörður með KR á þessum árum og átti síðar eftir að spila nokkra leiki með landsliðinu. Í keppnisferð með KR til Akureyrar skömmu eftir söngvarakynninguna hjá KK dró til tíðinda.

„Hljómsveit Andrésar Ingólfssonar var að spila í Freyvangi. Í því voru eintómir toppmenn, m.a. Þórir Roff, sem var þá bæði söngvari og trommari. Ég tróð mér upp á svið og gerði það mikla lukku að Andrés biður mig að tala við sig þegar ég komi í bæinn. Þá var slegið til; ég verð fastráðinn söngvari og vígist fyrir alvöru inní þennan hljómsveitarbransa. Það hentaði mér mjög vel. Ég var kominn endanlega í land, farinn að læra vélvirkjun og veitti því ekki af aukapening með lærlingskaupinu.“

0214-siggi
Sigur á Selfossi
Hljómsveit Andrésar spilaði hvar sem færi gefst. Rokkaði og poppaði kvöld eftir kvöld á skemmtistöðunum í Reykjavík. Þeir voru misjafnir eins og gengur.

„Á Vetrargarðinum var ekki farið fram á fínan klæðnað svo sjómenn komu þar mikið beint af sjónum í duggarapeysum og vinnugöllum. Kanarnir komu þarna líka mikið, þetta var svona „notað og nýtt“-staður. Staðurinn tók um 250 manns en það var aldrei fullt. Það var mikið fyllirí en þó var ekki selt vín heldur urðu menn að smygla pitlum með sér inn. Stundum tóku dyraverðirnir flöskur af mönnum og seldu þær aftur, en pössuðu sig að vera búnir að henda þeim út sem þeir tóku flöskurnar af! Skemmtistaðir þessa tíma voru meira og minna vínlausir. Á fínni stöðum eins og Naustinu og Borginni var selt áfengi, en samt ekki á miðvikudögum. Þá var landið alveg þurrt — hvergi hægt að fá áfengi, erlendir gestir á hótelum gátu ekki einu sinni keypt sér. Við krakkarnir fengum útrás í dansi og söng og vorum góðir, glaðir krakkar sem fíluðum rokkið í botn. Auðvitað var rokkið múgæsing. Fólkið greip hljómfallið. Eftir tónleikana með Tony Crombie var t.d. haldið áfram að syngja og dansa fyrir utan. Það varð allt vitlaust og ekki nokkur maður undir áhrifum, nema af tónlistinni! Krakkar sem drukku voru alltaf útundan. Það þótti ekki fínt að drekka og alls ekki fyrir konur. Svoleiðis konur þóttu alveg síðasta sort. Þetta breyttist samt smá saman allt.“

Var einhver verulegur gróði af spiliríinu?

„Við fengjum borgað eftir því hvað kom mikið af fólki. Ef fólkið stóð og var hikandi voru ekki teknar neinar helvítis pásur, það var bara keyrt og spilað í tvo tíma til að ná fólkinu inn. Með Andrési græddi ég mest þegar við náðum einu sinni 1600 manns í Selfoss-bíói. Karlinn í bíóinu hafði leyfi til að selja 300 miða en svindlaði á skattinum og seldi sömu miðana aftur og aftur. Ég gleymi því aldrei eftir ballið þegar karlinn var með strigapoka fullann af brúnum fimmtíu köllum í kompu á bakvið. Hann fór bara ofan í pokann og rétti mér skælbrosandi handfylli og sagði mér að fá mér. Þetta var enginn smá sigur því á sama tíma var hljómsveit Óskars Guðmundssonar, sem átti flest fólkið í sveitinni, í Gaulverjabæ og KK í Hveragerði. Við rústuðum þessu algjörlega! Með okkur var hljómsveit Árna Elfar og Haukur Morthens og hljómsveit Guðjóns Pálssonar með Erling Ágústsson. Það var svo troðið að maður komst ekki á klósettið og því migum við bara á flöskur. Með Árna kom líka negrasöngvari, Nat Russell, sem Röðull hafði fengið til landsins. Hann tímdi engu og var alltaf snapandi brennivín. Hann tók góðan slurk úr flöskum sem hann fann og fannst það heldur þunnt! Hann var alveg rosalegur þessi Nat. Það var viðtal við hann í Alþýðublaðinu þar sem hann sagðist hafa haldið við Grace Kelly og að hann væri uppáhaldssöngvari Louie Armstrong – allt saman haugalýgi! Þetta var algjör prump-söngvari sem ekkert gat sungið og var svo alltaf blindfullur!“

0214-fimm-i-fullu-fjori-1959-1
Í eina rokkbandinu í bænum
Eftir stutta samveru með hljómsveit Andrésar Ingólfssonar tók Siggi við hljóðnemanum af Guðbergi Auðunssyni í hljómsveitinni Fimm í fullu fjöri, sem snemma árs 1959 var kölluð eina alvöru rokkhljómsveit Íslands í blöðunum. Bandið var skipað yngri mönnum en voru í hinum böndunum, var vinsælt í bænum og gerði allt vitlaust kvöld eftir kvöld hjá krökkunum í Silfurtunglinu. Siggi sá samt nýtt sóknarfæri.

„Ég dró bandið suður til Kanana á Rockville. Þar þénuðum við það sama á einu kvöldi og á fimm kvöldum í Silfurtunglinu og að auki var það allt svart, eða grænt öllu heldur. Á þessum tíma lágum við yfir Kanaútvarpinu með eldgamalt stálþráðarupptökutæki og um leið og nýtt lag kom vorum við komnir með það á prógrammið daginn eftir. Ég skrifaði niður textana en maður var ekki sleipur í ensku og skildi því ekkert hvað Gene Vincent, Chuck Berry, Little Richards og þessir gaurar voru að segja. Ég skrifaði bara niður hljóðin og hermdi svo eftir eins vel og ég gat. Könunum virtist alveg sama þó ég væri bara að syngja eitthvað bull – eða þeir sögðu að minnsta kosti aldrei neitt – því maður keyrði ballið áfram og það sást að við vorum í þessu fyrir ánægjuna. Það var lítil drykkja á bandinu og enginn okkar reykti einu sinni.“

Við allt þetta Vallar-spilerí gleymdu krakkarnir í Reykjavík Fimm í fullu fjöri og City sextettinn tók við sem vinsælasta bandið í Reykjavík. Seint árið 1959 hættu svo Fimm í fullu fjöri og meðlimirnir fóru í Diskó, Savanna-tríóið og hljómsveit Svavars Gests. Siggi komst hins vegar að hjá erkikeppinautunum í City.

„Við vorum tveir söngvarar í bandinu, ég og Þór Nielssen. Við spiluðum mikið á Iðnó og í Silfurtunglinu. Ég man að það lokaðist á okkur þar þegar Silfurtunglið vildi fara að selja vín. Þeir tengdu líka djúkboxið upp sem var niðri á sjoppunni fyrir neðan – Austurbar hét hún – svo í pásum gátu gestir valið lög sem hljómuðu bæði uppi og niðri. Einn daginn kom vinur okkar hann Jón Leifs og byrjaði án formála að klippa á víranna. Svo mölvaði hann bara djúkboxið með sleggju, maður! Hann mölvaði djúkboxið í Expressó-kaffi líka og það var aldrei neitt gert í málunum, hann ekki kærður eða neitt! Stef hefði aldrei orðið til án hans. Einu sinni kom hann í Landsmiðjuna þegar ég var að læra þar og klippti á hátalarana á útvarpinu. Það þurfti að borga Stef-gjöld af hverju útvarpstæki og þeir í Smiðjunni voru ekki búnir að borga. Jón Leifs var sko harður nagli!“

Konum smiglað inn, súkkulaði út
Eftir stutt stopp með City sextettnum, um vorið 1960, sigldi Siggi með Brúarfossi og kom fram í New York, m.a. með stórsveit Lionel Hampton – „ég þurfti reyndar að borga fyrir að syngja með þeim!,“ segir Siggi og hlær – og í fæðingarstað tvistsins, Peppermint Lounge. Þegar heim kom fór Siggi að gera út eigið band – The Swingers – og spilaði mikið á Vellinum næstu árin. Ýmsir komu við sögu í bandinu, en Siggi var eini karlsöngvarinn. Hins vegar voru margar söngkonur í bandinu, m.a. Fjóla Ólafsdóttir, Díana Magnúsdóttir, Astrid Jensen, Mjöll Hólm og María Baldursdóttir. Það má segja að Siggi hafi átt Völlinn á þessum árum. Bæði var um ballhald að ræða í Rockville, og á Vellinum sjálfum þar sem voru nokkrir skemmtistaðir. Þar gerðust ýmis ævintýri.

„Einu sinni var ég spurðir hvort ég hafi ekki „female-singers“, sem gætu dansað við hermennina líka. Ég segist auðvitað geta reddað því og komi bara næst með heilan kór. Svo mæti ég með heila rútu. Við vorum náttúrlega að spila á miðvikudagskvöldum á Vetrargarðinum, þar voru Kanarnir og maður þekkti þessar stelpur, sem voru kallaðar kanamellur en voru nú ekkert verri en gengur og gerist. Það fréttist að ég sé á leiðinni með tólf-manna dansflokk og ég verð að gjöra svo vel að gefa upp nöfnin á þeim öllum til að komast í gegnum hliðið. Nú vandaðist málið því maður þekkti stelpurnar ekki undir öðrum nöfnum en uppnefnum. Þetta varð svo all svakalegt. Ég man eftir Böddu svörtu að hossa sér skellihlæjandi ofan á einum hermanninum. Svo datt hún af og þá var vinurinn bara beinstífur út í loftið beint fyrir framan hljómsveitina! Þessi dansflokkur kom aldrei aftur með okkur! Einu sinni kom líka pínulítil frönsk nektardansmær í Silfurtunglið og til að krydda prógrammið tókum við hana með upp á völl. Sigurgeir sem rak Silfurtunglið kom með okkur, það þótti ægilegt sport að komast í bjórinn upp á Velli. Ég sagði þeirri frönsku að hún megi alls ekki fara úr botninum. Svo byrjar hún að dansa, ekkert nema karlar auðvitað á staðnum og hringurinn í kringum hana þrengist eftir því sem hún fækkar fötum. Hún hefur greinilega ekki skilið mig nógu vel og fer úr öllu. Þá byrja hermennirnir, sem höfðu ekki séð nakta konu svo mánuðum skipti, að grípa í hana og eru loks komnir í eina hrúgu ofan á henni. Við Sigurgeir komum henni til bjargar og hlaupum með hana inn í eldhús. Þá kemur bara hnefi fljúgandi framan í mig og ég sé stjörnur og stórann durg taka þá frönsku undir handlegginn og hlaupa burtu. Löggan mætti auðvitað og okkur var sagt að koma ekki með nektardansmær aftur!“

Þið hafið ekki verið í þeim bransa að smygla bjór og búsi út af vellinum?

„Nei, það var fylgst rosalega vel með okkur. Einu sinni smigluðum við þó súkkulaði út, vorum með fullt skottið af Hersleys og Baby Ruth, sem okkur þótti svo gott. En lögreglan kom á eftir okkur. Í sakleysi mínu datt mér í hug að múta þeim með Baby Ruth, en þá verður allt vitlaust; mér er stungið í steininn, bíllinn er kyrrsettur og allt, maður! Þú getur ímyndað þér hvað hefði gerst ef við hefðum nú verið með vín eða sígarettur!

Það hefur náttúrlega bara verið til íslenskt súkkulaði eða Prins Póló í búðunum þá?

„Já, einmitt, en í söluturninum sem Pétur Pétursson þulur átti og stóð í Arnarhólsbrekkunni gat maður oft fengið smyglað súkkulaði, enda var Pétur umboðsmaður og hafði sín sambönd. Hann var umboðsmaðurinn minn á tímabili og sendi mig út um allt land til að syngja. Einu sinni þegar ég var sem mest í rokkinu sendi hann mig á Austfirði en mér lýst ekkert á bandið sem ég á það syngja með. Það eru engir rokkkarlar heldur bara gamlingjar á harmóníku, píanó og sneril, og ég átti að syngja í gegnum segulband! Ég átti ekki orð svo ég hringdi í Örn Ármannsson og fékk hann austur til að rokka þetta upp. Hann var alveg frábær gítarleikari en er nú orðinn öryrki og býr í Hveragerði.“

0214-siggi-jonnie-rifjar-upp-rokk-a-9-aratugnum
Fimm flöskur í æfingatöskunni
Eftir mörg góð ár í góðu stuði á Vellinum á böllum sem gáfu feitt af sér hvarf glansinn snögglega af góssentíðinni á Vellinum árið 1964.

„Þetta breyttist allt þegar sjóherinn tók við af flughernum á öllum kúbbunum. Þá varð allt að fara eftir föstum reglum, m.a. var böndunum skipað að taka pásur. Maður vildi náttúrlega ná upp sem bestri stemmingu, en nei nei; í miðju lagi slökkti karlinn bara á okkur og setti djúkboxið á. „You have to take a break,“ sagð’ann og við störðum bara á hann. Þegar við komum úr pásunni þurftum við að vinna stemminguna upp aftur. Í pásunni misstum við líka konurnar út. Það komu stundum konur sem voru að vinna upp á velli í klúbbana til að dansa og til að halda þeim inni varð að kýla upp stuðið.“

Því fleiri konur sem voru á stöðunum, því betri stemming hjá ungu hermönnunum, því meira stuð og ánægja með Sigga og félaga. Konur komust þó aldrei inn á Rockville og klúbbarnir á Vellinum sjálfum voru misgóðir.

„Í Offisera-klúbbnum litu þeir á okkur Íslendingana sem moldarkofabúa, töluðu við okkur sem slíka og kölluðu okkur “Mo-jacks”. En ég gat sungið og þeir virtu mig fyrir það. Það voru engir negrar á vellinum, ekki nema þegar þeir komu hér stundum á leiðinni heim til sín og stoppuðu kannski í nokkra daga. Svertingjarnir fengu ekki að vera hér út af samningi sem Bjarni Ben gerði og því varð allt vitlaust þegar „flibbarnir“ komu með sjóhernum. Þeir voru gulir, Filippeyjingarnir, og það slapp. En þeir fóru líka fljótlega. Þeir voru allt annar þjóðflokkur og þetta fólk gat bara ekki skemmt sér saman; sjóherinn og flugherinn og „flibbarnir“ og þeir hvítu. Á einu ballinu endaði allt í slagsmálum, herlöggan mætti með gúmmíkylfurnar sínar og hermennirnir hrundu niður eins og hænur. Airmens-klúbburinn var lokaður í hálft ár eftir þetta og „flibbarnir“ voru sendir heim. Þetta sama ár byrjaði líka hljómsveit Svavars Gests að spila suðurfrá. Þá varð lítið gaman að spila á Vellinum því kaupið lækkaði svo. Svavar fór nefnilega að láta borga eftir íslenskum FÍH-taxta og þá tók því ekki að fara suðureftir. Maður gat alveg eins spilað í bænum og ég gerði það. Söng m.a. gömlu dansana með hljómsveit Árna Ísleifs í Breiðfirðabúð.“

Mest allann tímann í rokkinu hafði Siggi verið bindindismaður, en m.a. vegna erfiðra einkamála fór hann að sturta í sig. Það byrjaði þó sakleysislega upp á Velli.

„Málið var að við fengum senda bjórkassa upp á svið þegar við spiluðum óskalög. Ég fór lengi fram og skipti fjórum bjórum í fjórar kók — það kostaði það sama – og hafði kók handa mér á sviðinu. Svo hætti ég að nenna fram til að skipta og drakk bara bjór þó það hafi tekið mig smá tíma að þykja hann góður. Smá saman ágerðist þetta. Ég var kominn í handknattleikslandsliðið og eftir landsleiki voru veisluhöld á vegum menntamálaráðuneitisins. Þar var allt á kafi í brennivínsflöskum – ómerktum og tollfrjálsum auðvitað – og fréttaritarnir voru að taka sér flösku og flösku. Fyrst þeir gátu tekið eina fannst mér nú að ég gæti tekið fimm og stungið í æfingartöskuna. Ég skyldi það ekki þá að ég hafði auðvitað tendensa til alkóhólisma og það átti heldur betur eftir að sýna sig síðar.“

The Clash í Rvk 1980

20 Sep

Pabbi Justins Bieber var sex ára þegar ég fór á fyrstu útlendu tónleikana mína, laugardagskvöldið 21. júní 1980 (ég átti 3 og 1/2 mánuð í að verða 15 ára). Þetta var í stappaðri Laugardalshöll og Utangarðsmenn hituðu upp. Það var mikil spenna enda The Clash eitt af aðalböndunum, en við Kópavogspönkarar vorum þó fúlir af því Fræbbblunum hafði verið lofað að hita upp, en „helvítis kommafíflin“ hjá Listahátíð hætt við að leyfa þeim að spila af því textarnir voru ekki nógu mikið verkamanns eins og hjá Bubba. Valli í Fræbbblunum varð eðlilega alveg brjálaður og mætti ekki á giggið. 

clash-or
Ljósmynd náðist af mér á tónleikunum. Örin bendin á mig. Þarna eru líka Björn Gunnarsson, sem var með mér í F/8 á þessum tíma (þessi með steytta hnefann) og Ari Einarsson, gítarleikari Fræbbblanna á þessum tíma (þessi ljóshærð sem snýr með opinn munn frá sviðinu). Það eina sem ég man frá þessu giggi er að mér fannst það æðislegt og á leiðinni heim fullyrti ég við félaga mína að „maður þyrfti ekki að vera fullur til að skemmta sér“. 
clash-eg

Meira af The Clash: Nú er að koma „coming-of-age“ bíómyndin London Town þar sem Joe Strummer er í burðarhlutverki í túlkun Jonathan Rhys-Meyers (The Tudors, Dracula etc). Maður gefur þessu séns.

Strokkað til forna

3 Des

(FYRIRVARI: Þetta blogg er höfundaréttarvarið og aðrir vefmiðlar mega því ekki hirða upp úr því, til þess eins að vitleysingar út í bæ geti óhindrað kommentað á innihaldið.)

Internetið og almenn tölvunotkun er mesta bylting sem ég hef upplifað. Það má með sanni segja að heimssögunni megi skipta upp í „fyrir net“ og „eftir net“. Egill Helgason skrifar um klám til forna og ég ætla að bæta aðeins í þá umræðu.

Eins og með internetið varð algjör bylting í lífi mínu þegar ég fékk „hár á punginn“ og byrjaði að strokka mig. Það var strokkað alla daga, oft á dag. Það var strokkað með öðrum og strokkað í einrúmi. Ekkert klám var í boði þarna í kringum 1980 svo strokkað var með „frjálsri aðferð“. Ýmsar aðferðir voru reyndar til strokkaukaunaðar og riðlast á sessum í sófa jafnt sem senórítudúkku sem foreldrar mínir komu með frá Kanarí. Svo ekki sé minnst á ryksuguna.

Á trésmíðaverkstæðinu sem mamma skúraði var glennistór mynd af berum kvenmanni yfir einhverri vél. Við myndina strokkaði ég á meðan mamma skúraði á næstu hæð fyrir ofan. Mágur minn var kokkur á millilandaskipi og þegar ég flæktist einu sinni með um borð varð mér starsýnt á nektarmynd af konu. Hún var með gráhærða píku og ég hafði aldrei séð svoleiðis áður. Hún var lengi í rúnkminninu.

Það var stundum verið að rífa hús í Kópavoginum og í minningunni voru alltaf einhver klámblaða-rifrildi í rústunum. Ég sóttist því í að mæta á vettvang og gramsa. Einu sinni fann ég heillegt Raport blað og hirti. Það var hvílíkt raríte að ég setti það í plastpoka og gróf í garðinum. Miðað við endalausan og óheftan klámaðganginn í dag líður mér eins og manni frá fornöld að segja frá þessu.

Pabbi byrjaði með innrömmun 1978 og keypti stundum rammaefni frá Danmörku. Með í kassana var pakkað dönskum dagblöðum og þannig kom Ugens pige sterk inn. Ég klippti allar píurnar út og límdi á A4 blöð sem ég setti í möppu sem ég dulbjó sem „Skemmtileg lög“. Þetta kom mér í koll eitt gamlárskvöld þegar búið var að neyða mig til að spila partílög á gítar og ein vinkona mömmu reif niður möppuna og sagði „Hér eru lög sem þú getur spilað“ og fór að fletta. Ég ætlaði að sjálfssögðu niður úr gólfinu en Guðni frændi minn glotti og hló.

Þegar á leið fattaði ég fornbókabúðirnar og var meira að segja í hljómsveit sem hét Stuna úr fornbókaverslun. Þar sem sjoppan Drekinn er núna var alræmd búð. Sagt var að eigandinn sæti á klámblöðunum og ræki við og jafnvel skiti í buxurnar svo ég verslaði aldrei þar. Mig minnir ég hafi mest átt viðskipti við fornbókabúðina á Hverfisgötu þar sem Safnaramiðstöðin er núna. Klámblöðin voru oftar en ekki í ömurlegu ástandi, blaðsíðurnar límdar saman enda heilu áhafnirnar væntanlega búnir að brúka blöðin. Með myndbandabyltingunni vænkaðist rúnkhagurinn mikið, en þetta var alltaf bölvað vesen.

Ég er ábyggilega skemmdur fyrir lífstíð eftir allt þetta strokk en þó ekki í sama mæli og strákar sem eru að hefja sinn strokkferil í dag – hugsa ég. Klám er beinlínis alltum lykjandi á internetinu og það er nauðsynlegt að fræða ungdóminn um þetta allt saman, án þess að það sé gert á hallærislegan hátt. 

PS: Fólk gerir sér almennt ekki grein fyrir því hversu algengt það var að hingað til lands kæmu nektardansmeyjar til að striplast og sýna á sér píkuna. Þetta var reyndar aldrei í boði á mínum tíma (ég var uppi á milli „Susan baðar sig“ og Pan-hópsins), en fiftís, sixtís og seventís voru hljómsveitir oft að spila og síðan kom einhver útlend stelpa í pásu og fór úr öllu. Ég skrifaði blogg um þetta fyrir nokkrum árum, Nektardans á Íslandi til forna.

 

Aftur og aftur til framtíðar

21 Okt

Aftur til framtíðar – Back to The Future – var og er æðisleg mynd. Hún hafði mikil áhrif á mig. Eða allavega það mikil áhrif að ég skrifaði nóvellu, sem getur varla talist annað en nokkuð mikið rippoff. Í dag er framtíðar-dagsetningin sem Dokksi sló inn í annarri myndinni Back to The Future II, 21. október 2015. Því er fagnað um allan heim, m.a. í Bíó paradís og á Rúv, sem sýnir Back to The Future II kl. 14 og aftur seint í kvöld. Önnur myndin var líka frambær, en sú þriðja var lang lélegust og útkynnt efni.

funny_memes_bernie_sanders_donald_trump_back_to_the_future-612678
Ótal greinar (eins og þessi) hafa birst um daginn og svona myndir eins og þessi að ofan, sem sýnir hversu sannspáir höfundar myndarinnar voru. Forsetaframbjóðandinn Bernie Sanders er Dokksi en górillan Donald Trump er górillan Biff.

Ég fór til Lyon í Frakklandi um haustið 1986 og ætlaði að skrifa snilld og læra frönsku. Ég var með ritvél með mér, dálítið framúrstefnulegt tæki sem hálfpartinn saumaði stafina í blöðin. Maður gat meira að segja skipt yfir í rautt, blátt og grænt letur ef maður var í stuði. Ég varð þó fljótlega viðþolslaus af gítarleysi, keypti mér það ódýrasta sem ég fann; gítar af tegundinni Calif, sem ég finn ekkert um á netinu, sama hvað ég googla. Fínn gítar samt, ég samdi flest á hann í marga áratugi. Þessi Calif gítar dvelur nú á dvalaheimili aldraðra gítara í Hornbjargsvita.

Nóvellan sem ég skrifaði, TUTTUGU ÁRUM OF SEINN Í BÍÓ, segir frá Héðni Jónassyni, 19 ára búsettum á Selfossi, sem ætlaði að hitta vini sína í Reykjavík í september 1966. Saman ætluðu þeir í bíó, á Bítlamyndina HELP! Hann keyrir í bæinn á Moskvítsnum sínum. Á Hellisheiði verða yfirskilvitlegir atburðir sem verða til þess að Héðinn færist 20 ár fram í tíðinni, til 1986. Æasast þá leikar…

Ég gerði lítið með handritið. Fór reyndar með það og sýndi ritstjóra einhvers hipp og kúl unglingablaðs sem var í gangi þarna 1987 þegar ég kom heim. Sá fyrir mér að sagan gæti verið framhaldssaga þar. Ritstjórinn glotti nú bara og hafði aldrei samband, svo líklega hef ég misst kjarkinn og einbeytt mér að rokkinu. Maður ætti kannski að lesa þetta handrit aftur í dag til að gá hvort það sé hægt að gera eitthvað við þetta.

Í útöndum í fyrsta skipti

7 Maí

Mér var hugsað til fyrstu utanlandsferðarinnar minnar þegar ég rakst á þennan lista yfir bestu goth plötur allra tíma. Við kölluðum þetta reyndar ekki goth á sínum tíma, heldur bara „nýbylgju“. Svona er þetta með hin ýmsu heiti á tónlist. Það er oftast eftir á sem dótið fær skilgreiningar og nöfn. Til dæmis heyrði maður aldrei bönd eins og Butthole Surfers og Big Black kölluð „Pigfuck“ eins og nú virðist vera gert.

Allavega, ég, Trausti og Sigvaldi lögðum af stað 3. ágúst 1983 og þá hafði ég aldrei komið til útlanda áður (var 17 ára). Mapa datt náttúrlega ekki í hug að taka mig með þegar þau fóru í sólarlandaferðir til Búlgaríu eða „Sjö landa sýn“ sem var skipulögð hópferð til sjö Evrópulanda. Í þeirri ferð var mamma næstum því búin að fá aðsvif yfir látunum í metróinu í París.

Það var auðvitað gríðarlegur spenningur í manni. Hafði púlað allt sumarið í hellusteypu sem stóð í miðri auðn fyrir neðan Kópavog. Nú er Smáralindin þar sirka. Vann með bjánum sem lögðu mig í einelti lite en maður lét sig hafaða enda vel borgað. Þetta var hörkupúl. Maður þurfti að rogast með 50 kg sementspoka og sturta í hrærivél og síðan að steypa blýþungar hellur og eitthvað helvítis kjaftæði. Ég var farinn að fara létt með sementspokana eftir nokkrar vikur svo maður hafði bara gott af þessu. Varð reyndar hellaður í bakinu í lok júlí en náði mér á sterkum verkjalyfjum í heita pottinum í Kópavogslauginni.

1983-1
Við sigldum með MS Eddu, sem var í gangi þetta sumar. Fjör og bjór og Blue Monday á fullu á diskótekinu. Ekki gott að vera þunnur á skipi, sérstaklega þegar maður er á ódýrasta farrými (í svefnpoka á ganginum). Þetta var interail ferð. Fórum í land í Newcastle og beint í plötubúðirnar í London. Það var ekkert Visa upp á að hlaupa, bara cash og ferðatékkar. Við ætluðum á goth-böndin Virgin Prunes og Alien Sex Fiend. Fyrir utan staðinn var löng röð af uppstríluðu gothliði og maður stakk í stúf í anorakknum. Það var uppselt svo við skelltum okkur á ástalska industrial bandið SPK og Howard Devoto úr Magazine, sem var með sóló. Á undan var eitthvað hallærisband að spila. Söngvarinn veifandi blómvendi og eitthvað kjaftæði. Áhorfendaskarinn var alveg að missa sig yfir þessu en við héngum á barnum og fannst lítið til koma. Þetta voru The Smiths í startholum meiksins og ég átti eiginlega aldrei eftir að fíla bandið.

1983-2
Ég lét sjá mig í þessari múnderingu á ströndinni í Brighton. Föt hafa aldrei verið stórt áhugamál hjá mér!

París, Zurich og endað í Amsterdam. Nú var allur peningurinn búinn en í staðinn komin nokkur kíló af brakandi nýbylgjuvinýl. Verst að við gistum á húsbáti og vorum neyddir til að yfirgefa pleisið á milli 9 og 17. Þá vafraði maður um Amsterdam í rigningu og hékk undir búðarmarkísum. Ég át fría morgunmatinn á skipinu og átti fyrir einni pulsu úr sjálfssala á dag. Held það hafi verið allt að því vika sem fór í þetta rugl. Svona var þetta bara, að kaupa plötur skipti meira máli en matur. Og ekkert Visa.

1983-3
Í lok ferðar var brotist inn í klefann okkar og vegabréfunum stolið. Héngum á löggustöð í heilan dag en fengum bráðabirgðarvegabréf og komumst heim. Seinna var ég boðaður á löggustöðina í Kópavogi og endurheimti vegabréfið. Stórfengleg ferð í alla staði!

(Þetta blogg var skrifað með Bauhaus og The Birthday Party á Spotify).

Plötubúðir sem ég man eftir

12 Apr

Plötubúðir eru snilld. Þegar ég var að fatta geimið var fátt meira fútt en að taka Kópavogsstrætó í bæinn og tölta á milli búða. Ég hafði aðeins fyrr farið í bæinn til að kaupa frímerki í frímerkjabúðum og Mad bækur í fornbúðum. Á þessum tíma var grundvöllur fyrir nokkrum frímerkjabúðum. Ég man eftir einni sem var þar sem Strawberries var (er?) í Lækjargötu og Magni var á Skólavörðustíg (þar sem Noodle Station er núna). Besta fornbókabúðin var á Laufásvegi nálægt MR og eigandinn frekar lítill pervert í sér miðað við suma í öðrum fornbókabúðum. Engin „óþægileg nálægð“ sem sé.

En svo tók músíkin yfir. Maður var sem grár köttur á útsölumörkuðum sem stóðu stutt yfir. Einn var haldinn í Hallveigarstöðum, líklega vor 1980. Á leiðinni mændi ég á eina kvenpönkarann í Kópavogi á þessum tíma sem var uppstríluð og flott – eins og rauðhærð Siouxsie Sioux. Á þessum tíma keypti ég aðallega litlar plötur. Það var ódýrara. Oft voru kannski 5 eða 10 litlar plötur límdar saman á útsölunum svo maður sá bara fremstu og öftustu plötuna og varð að kaupa „pakkana“ eftir því. Kannski eitthvað gott sem maður sá, en rusl á milli.

Oddný frænka mín vann í Karnabæ á Laugarvegi í sama húsi og einn fyrsti rúllustigi landsins var staðsettur. Svo var Plötuportið og Hljóðfærahúsið við hliðina á Stjörnubíói. Ég man ekki nógu vel eftir Plötuportinu en Hljóðfærahúsið var aðallega í klassík og einhverju Eurovision-legu drasli svo maður nennti lítið að vera þar.

Þegar ég fékk bítlaæði (svo sem eins og einu ári áður en ég fékk pönkæði eftir að hafa séð Fræbbblana um haustið 1979) fór ég í allar þessar búðir að reyna að finna litlar Bítlaplötur. Fann náttúrlega engar. Bláu og rauðu tvöföldu safnplöturnar urðu að duga.

Einhver keypti fyrir mig fyrstu Police plötuna í útlöndum. Mér leist ekkert á hana og fór til Oddnýjar frænku í Karnabæ og fékk henni skipt í fyrstu plötu Generation X.

Safnarabúðin var á Laugarvegi (fyrir ofan þar sem Skífan var). Man eftir einni ferð þangað þegar ég reyndi að selja Sæmundi eiganda búðarinnar gatefold plötu með Rainbow, minnir mig. Ekki man ég hvernig það kom til að ég var með Rainbow plötu en ekki hafði ég allavega áhuga á þeirri músík. Sæmundur var harður í horn að taka svo ekki fékk ég mikið fyrir þetta. Í mesta lagi að skipta í eitthvað drasl. Seinna flutti Safnarabúðin á hornið á Hverfisgötu og Frakkastíg og var þar til loka. Sonur Sæmundar tók við (við kölluðum hann alltaf Mr. Bean) og drýgði tekjurnar með sérstöku klámspóluherbergi þaðan sem maður sá ýmsa merkismenn koma út. Um 1990 þegar CD átti að vera framtíðin gat maður farið þarna og keypt óspiluð eintök af Icecross, Svanfríði og Umbarumbamba á 50 kall eða svo. Sem og ég gerði.

Fyrir nýbylgjurokkara 1979-1980 varð Fálkinn á Laugarvegi helsta athvarfið. Ásmundur í Áföngum var með puttann á púlsinum og maður beið spenntur etir útsölunum þegar Joy Division, The Fall, The Clash og félagar hríðféllu í verði. Seinna kom Grammið, fyrst á Vesturgötu. Þar var Einar Örn á útopnu að grilla í manni og þröngva inn á mann allskonar Crass og Rough Trade efni. Undursamlegt.

atensjon
Þessi auglýsing birtist í Mogganum 1982. Á þessum tíma voru menn ekkert að víla það fyrir sér að vera pönkaðir í auglýsingum. Til dæmis er ógleymanleg sjónvarpsauglýsing frá Fríðu frænku þegar búðin var kynnt svona: „Gamalt drasl á okurverði!“

Grammið flutti á Hverfisgötu í kjallarann hjá Báru „bleiku“ og þaðan á Laugarveginn, í „Gramm-portið“ þar sem Plötuportið hafði verið áður. Þetta var beint á móti Máli og menningu og er ekki lengur til. Grammið var alltaf aðalbúðin. Jens Guð og Sævar í Spilafíflum opnuð Stuð (eða Stuð-búðina) eiginlega beint á móti Gramminu en það var alltaf miklu slappari búð og maður hélt tryggð við Grammið enda fór Stuð á hausinn fljótlega. Í sama húsnæði kom síðar Plötubúðin sem Halldór Ingi var með í nokkur ár. Hann pantaði sérstaklega fyrir kúnna og komu plöturnar í pósti frá útlöndum nokkrum vikum síðar.

Grammið hætti og þetta vall einhvern veginn áfram í gegnum árin. Hljómalind varð aðal sjoppan in ðe næntís en þá var auðvitað allt komið á CD. Kiddi Kanína alltaf manískur að leyfa manni að hlusta á það nýjasta. Ég vann 1994-95 í Japis í Brautarholti með eintómum snillingum; Jóa sem stofnaði síðar 12 tóna með Lalla, Ásmundur og Stebbi á efri hæðinni og á einhverjum tíma var Guðjón Bermann þarna líka, keðjureykjandi. Skemmtilegast var þegar Magga Stína kom til að vinna í búðinni með okkur Jóa.

Í dag er nú ástandið bara nokkuð gott miðað við allt og allt. Við erum náttúrlega með fáránlega mikið af plötubúðum miðað við höfðatölu og allar frábærar. Áfram músík!

Alltaf í bíó 1980

28 Mar

bio1980
Hér eru bíódómar ársins 1980. Ekki gæti ég rifjað upp söguþráð þessara mynda þótt líf mitt lægi við. Tja, nema kannski Wanderers. Hún er nokkuð eftirminnileg og þegar ég fór fyrst til New York hélt ég að allt yrði eins og í þeirri mynd. Það hefur verið mikið bíó á manni, þetta 14-15 ára gömlum, enda lítið annað að gerast nema hlusta á pönk og nýbylgjurokk. Tíminn fyrir internet er svo mikil fornöld eitthvað. Hvernig fór maður eiginlega að? Samt, mjög góður tími og allt það. Bara svo hrikalega óðruvísi. Þýðir auðvitað ekkert að malda í mó tækniframfarana. Og nú eiga allir að fara að ganga með google-gleraugu. Fuss og svei, ég hef enga trú á þessu! Samt spurning hvort það sé eitthvað verra að hanga í endalausri tímaeyðslu á netinu eða yfir sorpmyndum eins og H.O.T.S. og Starcrash? Jæja, maður var þá allavega innan um fólk á þessum myndum og hitti stundum á einhverja snilld. Og svo er nú ekki eins og það sé ekkert í bíó núna. Man ekki betur en ég hafi ætlað að fara meira í bíó á þessu ári, en svo klikka ég alltaf á því. Djös klúður.

(Þetta blogg er svokallaður vaðall)

Heimildarþáttur um UXA

5 Jan

1995 var ágætis ár, minnir mig. Ég var allavega að spila í einni vinsælustu hljómsveit landsins fyrir 50.000 kr á gigg þegar best lét, en var reyndar full mikið í einhverju rugli í bakhúsum í Þingholtunum og á pöbbunum. Þetta var allavega fyrsta árið síðan ég varð stúdent 1985 sem ég gat „lifað á listinni“ og sleppt 9-5 barningi. Björk var búin að vera funheit í tvö ár eftir að uppgangur Sykurmolanna hafði gert Ísland hipp og kúl í hugum útlendinga í fyrsta skipti síðan land byggðist. Ég get svo svarið það að það er þessi poppmenning sem er grundvöllur ferðamennskunnar í dag. Ímyndaðu þér heim án Sykurmolanna, Bjarkar og Sigur Rósar og þá geturðu í huganum skipt lundabúðunum í miðbænum út fyrir eitthvað annað. Nú gæti margur spurt hvort það væri ekki bara fínt að vera laus við allar þessar lundabúðir og alla þessa túrista, en þú veist hvað ég meina. 

Hátíðin Uxi var haldin 1995, Kiddi Kanína og fleiri með háleit markmið um að búa til „íslenska Roskilde“. Ég var að sukka kvöldið áður og missti af Ununar-rútunni. Vaknaði á gólfi í Breiðholti klukkan 12 á hádegi á laugardegi og þá var Hemmi Gunn að lýsa eftir mér í útvarpinu. Engir farsímar svo ég og Ari Eldon héldum austur í leigubíl fyrir 20 þúsund kall, fyrst auðvitað búnir að byrgja okkur upp á Kaffibarnum. Þetta var víst ægilega fín hátíð en ég sofnaði í rútunni skömmu eftir gigg, sem mig minnir að hafi ekki verið merkilegt fyrir annað en að Curver ældi á sviðinu. Hann kom fram með okkur í laginu Ýkt döpur og sagði „Já, Hemmi minn“ en á þessum tíma var gríðarlega ferskt, jafnvel listrænt, að segja „Já Hemmi minn“.  Ég vaknaði svo þegar rútan kom í bæinn um sunnudagsmorguninn. Agalega mikið rokk, eins og hægt er að segja.

Þótt ekki séu liðin nema 19 ár (sem er samt kannski mikið?) var Ísland mun plebbalegra 1995 en það bullsjóaða kúlland sem það er í dag (þökk sé poppmenningunni). Hin síðar margendurtekna túrista-táknmynd sem við þekkjum var að taka á sig mynd. Í heimildaþættinum hér að neðan (sem er á netinu í fimm hlutum, endar snubbótt og er döbbaður á spænsku) má sjá inn í sólríkt sumarið 1995. Uxi er miðpunktur heimildarþáttarins. Þarna er tölvutæknin og netið á frumstigi (muna lesendur eftir því þegar ljósmyndir birtust hægt og bítandi á skjánum?) Þá eru allir nítján árum yngri og sætari. Krádið er að reyna að vera hipp og kúl á Uxa en svo kemur hið sanna í ljós þegar SSSól tekur Stóð ég út í tunglsljósi og það brestur á með lopapeysuvöfðum hópsöng. Þegar útlendingur með kameru birtist breytast allir í landkynnara og strákar bregða borginmannlegir vasahnífi á sviðahaus og reyna landkynningarlegt sjokk með augnaáti.

Í „rafheimum“ er Uxa hátíðin vafin ljóma og um hana er skrifað í málgagninu Raftónum. En sem sagt, þetta er fyndið og nostalgískt: