Sá OUT OF THIN AIR í gær. Stórgóð heimildarmynd um Guðmundar- og Geirfinnsmálið. Ég hef aldrei sökkt mér djúpt í það svarthol/mál, en myndin er skýr og skorinorð og „skemmtileg“ – hélt vel og er virkilega vel gerð. Aðdáendur Making a Muderer fá hér mikið fyrir sinn snúð í lókal bakaríinu. Auðvitað er þetta allt eitt megaklúður, hvernig staðið var að málum. Ég heyrði einhvern tímann eftir Sævari Ciesielski að á fylliríum játaði hann hálfpartinn að hafa verið nálægt drápi á Guðmundi, en Geirfinn hafði hann aldrei heyrst minnst á. Þetta er eflaust eitthvað kjaftasögurugl því enginn sekur maður myndi leggja á sig það erfiði sem Sævar gerði til að fá sín mál út af borðinu.
Sævar rakst ég stundum á. Man eftir honum þegar Bless eða S.H,.Draumur var að æfa í Duus-húsi í Fischersundi og þá var hann bara fullur eða skakkur og vildi djamma með okkur. Ekkert ofbeldisrugl, en auðvitað var maður dáldið hræddur við hann. Svo þegar ég snapaði að fá að sitja í einum af köggum Ólafs Gunnarssonar með Dabba 5 ára eða svo, þá keyrðum við í Bæjarins bestu og Sævar rakst á okkur og var bara almennilegur þótt hann væri orðinn verulega sukkaður þá. Sem sé, bara hinn fínasti maður. OUT OF THIN AIR er þó meira um Erlu en Sævar og það helvíti sem á hana var dempt, nánast barn að aldri og með nýfætt barn.
Staðreyndir eru þessar: Engin lík hafa fundist. Enginn morðingi hefur fundist. Ungt fólk var beitt stjarnfræðilegu ofbeldi af fangelsishrottum Síðamúlafangelsis, sem voru ekki bara svona vegna þess tíma sem þeir lifðu í, heldur voru bara siðblindir og/eða fávitar. Það er líklega of seint að hundelta þessa ömurlegu menn uppi, þeir geta bara úldnað sig í hel og vonandi, þeirra vegna, skammast sín.
Hin staðreyndin er þessi: „Kerfið“ hleypur upp til handa og fóta til að veita barnaníðingi „uppreisn æru“ til að hann fái „sjálfssögð réttindi sín aftur“, en skellir áratugum saman skollaeyrum við bænum fólks sem á unga aldri var beitt áralöngu harðræði til að kreista út úr því játningar á einhverju sem það vissi ekkert, eða a.m.k. lítið, um. Bænum þessara fórnarlamba um endurupptöku málsins, eða „uppreisn æru“ hefur aldrei verið almennilega svarað af „Kerfinu“.
Það er ekki sama Jón eða Séra Jón? Nei, það er ekki málið. Við búum bara ennþá í Fávitalandi með fávitum og gagnslausum aumingjum sem við fávitarnir og aumingjarnir kjósum yfir okkur trekk ofan í fokking trekk.
(Myndin er komin í sýningar í Bíó Paradís)
Færðu inn athugasemd