Mér þykir fyrir því að vera að bögga ykkur, lesendur, með þessu röfli. Það er Gleðigangan mikla í dag og öll athyglin ætti að vera á því að njóta þess, sem mér finnst, Æðislegasti dagur ársins. Ég verð vonandi með tárin í augunum í mannfjöldanum á eftir (Gangan leggur af stað frá sirka Stjórnarráðinu kl. 14). Tárin í augunum því allt þetta húllumhæ og mannfjöldinn sem mætir, er að mínu mati stórkostlegasta sönnun þess að vér Íslendingar erum ekki algjör fífl (þótt margt annað sanni hið gagnstæða). Gleðin er líka sigurganga fólks sem hefur þurft að ganga þyrnum stráðan veg til þess eins að vera það sjálft. Baráttuandi hinsegin fólks hefur dregið aðra bælda og bugaða út úr sínum skápum; hvort sem það eru geðveikir eða offitusjúklingar o.s.frv. Miklu betra þjóðfélag er niðurstaðan og enginn þyrfti lengur að þurfa að bera harm sinn í hljóði. Við erum öll bara einhver slysaskot á leið í algleymið aftur. Njótum á meðan lífið varir.
Allavega. Röflið. Tölvutækni er eflaust ágætis fyrirtæki í „Kópavogi“, sem ég átti ágætis viðskipti við fyrir sirka 10-15 árum. Fékk alltaf toppþjónustu þar. Ég hef hinsvegar alfarið snúið mér að Tölvutek, en bara vegna þess að þeir eru ekki eins langt í burtu og frændi minn, Halldór Hrafn Jónsson, er þar einn af innstu koppum í búri. Tengdapabbi keypti hins vegar fartölvu hjá Tölvutækni og lenti í ömurlegri þjónustu sem varð á endanum til þess að hann strunsaði út skellandi hurðum og henti hinni ónýtu tölvu í mig. Þegar mitt gamla hlussudrasl gaf upp öndina fyrir viku fór ég loksins að nota Levonoið. Það var ekkert að fartölvunni og ég afskrifaði þetta hjá tengdó bara sem eitthvað rugl í gömlum manni (Tengdapabbi er 9 árum eldri en ég). Svo var það í gær að þetta ónýta fartölvuhelvíti neitaði að starta sig upp sama hvað ég hamaðist.
Ég sendi því eftirfarandi á Tölvutækni á Facebook og cc á Facebook vegg minn með cc á fjölmiðlafólk sem ég mundi eftir og cc á fleiri sem gætu haft áhuga á þessu. Ath að skilaboðin voru skrifuð á LG G6 síma og því lítið skeytt um stafsetningu. Bein útsending á Facebook-vegg mínum hefst svo klukkan 11-11:30 og verður gaman að sjá hvernig Tölvutæknimenn begðast við. Svo sem týpískt eitthvað að það væri „Lokað vegna Gaypride“.
„Í ágúst 2016 keypti Therapi Ehf, kt 670xxx-xxxx, af ykkur Levono Yoga 3.14. Þessi fartölva er ónýt. Þegar hún kom úr 2ja vikna „viðgerð“ frá Nýherja fór tengdafaðir minn (eigandi Therapi ehf) með hana til Hvammstanga þar sem hann á heima og hélt að tölvan væri loksins i lagi. Eftir nokkra daga datt allt i sama girinn og þetta mánudagseintak sem þið selduð honum kveikti ekki á sér. I staðinn fyrir að láta þjakaðan manninn fá nýja tölvu af sömu tegund reif eigandi Tölvutækni bara kjaft sem endaði með því að tengdafaðir minn strunsaði út og mun aldrei aftur stiga fæti inn i verslun ykkar.
Nylega eignaðist ég þessa hormungar Levono fartölvu og hafði notað i viku þar i dag þegar hun bara ræsir sig ekki.
Eg kem þvi til ykkar á morgun laugardag um kl 12 með þessa onytu tolvu sem þið rukkuðuð 99.900 kr fyrir. I stað hennar fæ eg samskonar tolvu að fullu uppsetta. Munu þá ekki verða fleiri eftirmalar ut af þessu mali að minni hálfu. Ef þið ætlið hins vegar að vera með einhvern skæting og senda tölvuna í enn eina gagnslausa 2ja vikna yfirhalningu þá eruði jafnvel enn vitlausari en þið hafið þegar sýnt fram á að vera.
Se ykkur kl. 12,
Dr. Gunni fv. Neytendafrömuður.
Ps. Afrit af þessum skilaboðum eru send á alla stærstu fjölmiðla landsins. Heimsókn min til ykkar verður send ut beint á facebbok live.“