Sarpur | neysla RSS feed for this section

Breytingar og byltingar

16 Júl

costco
Costco kvöldverður var á boðstólum í gærkvöldi. Ágætis ódýrt sushi, stórfínn kjúklingur (sem smakkast helst eins og kalkúnninn sem hefur hingað til bara verið hátíðarmatur, og kostaði það sama og pínulítill sveittur og ofsteiktur kjúklingur í Melabúðinni), og sticky pudding í eftirrétt. Vá, bara, vá. Costco-sticky pudding (sirka 1þ fyrir tvo – einn nægði vel f/4, hinn fór í frystinn) er algjörlega unaðslegur, alveg á pari við það besta sem maður hefur fengið á veitingahúsum erlendis. Ég var sendur í Hagkaup, Eiðistorgi, til að sækja vanillu-ís til að hafa með. Sá þar kirsuberjadollur og kippti einni með, enda verðið fínt, 469 fyrir 500g. Berin litu bara vel út sýndist mér, dökkrauð og stökk, en ég var svo sem ekkert að gegnumlýsa dolluna.

En auðvitað, þegar átti að éta berin og ég beit í fyrsta berið kom gamla einokuninn og viðbjóðurinn yfir mig af fullum þunga. Berið var ónýtt – suddalega ógeðslegt, grautlint og andstyggilegt – og ég spýtti því út úr mér. Ég setti upp lesgleraugun og sá sull í botninum og að allavega 3 ber voru komin með gráan myglublett.

Í staðinn fyrir að leggja á mig ferð til að tala við ung kassagrey og fá sennilega á endanum endurgreitt ákvað ég að skrifa þetta. Það breytir kannski einhverju hjá gömlu myglukaupmönnunum, en ég stórefast um það. Breytingar þurfa meira en nokkur úldin kirsuber til að eiga sér stað. Byltingar þurfa hinsvegar Costco.

Líf þitt í dag

7 Nóv

Í dag snýst líf þitt um að draga andann, ekki horfa of mikið á símann, heldur reyna að lifa. Svo áttu að gera eftirfarandi:

12183952_10154347147388012_2439710549813788626_o
Fara í Músíkmarkað Trausta Júl í Kolaportinu. Allskonar gersemar á spottprís (m.a. stöff frá mér).

Svo ætlar hljómsveitin Dr. Gunni að koma fram á AIRWAVES:

#1 OFF VENUE – KL. 16 Á KAFFIVEST

#2 GAMLA BÍÓ KL: 20:50

Í bæði skiptin má búast við alsjúku stuði enda verður boðið upp á „best of“. OK, sjáumst.

Kaffið mitt

2 Jún

Ég hef verið í tilraunastarfssemi að undanförnu. Ég er að leita að hinu fullkomna kaffi til að koma mér í stuð á morgnanna. Ég laga mér ilmandi blöndu í mokkakönnu á hellu, en þetta heitir víst ekki espresso-kanna, eins og sumir halda, eða það sagði mér allavega þrautþjálfaður kaffi-bartista á Kaffitári. Espresso verður ekki til úr svona könnu.

Áður en lengra er haldið skulum við hlusta á Gunnar Jökul, SEM VAR FRÁBÆR TROMMARI, flytja lagið Kaffið mitt af plötunni Hamfarir.

2015-04-20 14.11.41
Bassaleikari OMAM, Kristján Páll Kristjánsson, mælti með David Lynch kaffinu við mig, en það hafði hann drukkið í fermetravís í einhverju hljóðveri í LA. Ekkert stoppar mig í leit minni að hinu fullkomna kaffi svo ég pantaði poka frá London og borgaði sirka 7þ fyrir einn skitinn baunapoka (helvítis póstburðargjöld alltaf hreint). David Lynch er einn af mínum átrúnaðargoðum svo jæja. Hann fer þá kannaski að drullast til að gera eitthvað annað en falla í hugleiðslumók oft á dag. Nú jæja, kaffið var allt í lagi, en ég var alltaf að hugsa um sjöþúsundkallinn svo ég naut þess ekki í botn. Allt í allt var kaffið og lífsreynslan upp á 3/5.


2015-05-11 04.30.08
Cafe Bustelo fékk góð meðmæli á Facebook frá fólki sem býr í USA. Það fæst í Kosti og kostar ekki nema rúmlega 700 kall pokinn. Þetta er kikk-ass-kaffi og bísna gott upp á 4/5.

2015-04-30 07.33.49
Drakk Bob Marley mikið kaffi? Veit það ekki. Það er að minnsta kosti til 3 tegundir af Marley kaffi í Melabúðinni og ég keypti eina, Marley Coffee Lively Up! Kostar svona 1300 kall og er ágætt. Ekkert sem minnir á Bob Marley samt. Ætti ekki að vera hampur í slíku kaffi? 3/5.

2015-05-11 02.45.36
Botninn. Dunkin’ Donuts keðjur eiga víst að koma hingað með sitt drasl. Aldrei fer maður inn í þessar sjoppur í útlöndum, en ég gat samt ekki á mér setið og keypti Dunkin’ Donuts Hazelnut kaffi í Hagkaupum á rúmlega 1300 kall. Lytkin er rosa góð sniffi maður oní pokann en allt annað er viðbjóður, bæði bragð og eftirbragð. Það er svona eiturefna-slikja á þessu, maður finnur beinlínis fyrir aukaviðbjóðinum sem svona skítakeðjur blanda í kaffið, líklega til að heilaþvo mann til kapítalisma. En… lyktin lofar góðu svo ég sniffa bara pokann en drekk ekki kaffið – eða blanda einni skeið af þessu út í eitthvað annað. 1/5 (fyrir lyktina).

2015-05-18 06.05.30
Íslendingum finnst Starbucks eftirsóknarvert af því við getum ekki keypt það hér í Starbucks-búðum. Samt fæst kaffið sjálft í Kosti og víðar. House-kaffið á tæplega 1000 kall pokinn er nokkuð solidd upp á alveg 4/5.

2015-05-18 07.53.13
Reykjavík Roasters er kaffihús á móti sjoppunni Drekanum. Keypti þennan foxdýra poka (1800 kall?) af Jesús María eftir að hafa fengið fínan latté þarna inni. Jesús María er þó ekki neitt sérstakt, reyndar bara frekar bragðvont og kraftlaust. 2/5.

2015-05-18 06.05.41
Í Kosti kostar dós af svona Folgers alþýðukaffi um 1000 kall. Þetta er eflaust eitthvað eiturbras en alveg rúmlega la la upp á 3/5.

2015-06-01 08.01.53
Kaffitár er vandað merki með allskonar kaffi. Lufsan fékk þennan poka af Kenía Zahabu að gjöf (svo ég veit ekki hvað pokinn kostar) og er þetta solidd og fínt kaffi upp á 4/5.

2015-06-01 08.02.09
Lavazza Tierra! er kröftugt kaffi frá hinu ítalska stórveldi. Dósin á um 1000 kall. Hið fínasta kikk-ass-kaffi upp á 4/5.

2015-06-02 02.33.26
Rúsínan í kaffiendanum er svo líklega besta kaffi í heimi, Highlander Grogg frá Caffe Ibis. Vinur minn frá útlöndum sendir mér þetta stundum, en hann er frá Utah eins og kaffið. Það kemur frá Logan, Utah. Blandan er leyndó en lyktin er unaðsleg og bragðið eftir því. Kaffinu er lýst svona á heimasíðunni: „A sophisticated liquor flavored coffee, reminiscent of the Scottish Highlands, that does well all year long.“ Ummm, hvílíkur eðall. 5/5 að sjálfssögðu.

Úldið (Myglað) í Nóatúni

18 Júl

2014-07-18 12.42.39
Ég er svaka sólginn í svona kleinuhringja-ferskjur (eða hvað þetta heitir). Þetta er árstíðarbundin vara eins og kirsuberin (annað uppáhald) og bara til í 1-2 mánuði á sumrin. Framvegis mun ég þó muna að kaupa þetta ekki í forpökkuðum umbúðum heldur þukla hvern ávöxt í lausu. Það er fáránlega svekkjandi eftir að hafa étið 2 ferskur (sem voru frekar vondar) að restin sé orðin svona daginn eftir að maður kaupir þetta. Nóatún bauð upp á þennan viðbjóð. Líklega best að hætta bara að eiga viðskipti við Nóatún – rándýr búð og léleg.

Bylting í rakblöðum og skeinipappír?

28 Jan

Einokun er ríkjandi á rakvélamarkaðinum. Í nánast öllum verslunum landsins er eingöngu boðið upp á Gillette sköfur og blöð. Þetta er munaðarvara. Yfir fáu var meira kvartað á Okursíðunni en verðinu á þessu og jafnvel komu menn með sparnaðarráð, eins og að nudda rakblöðum við gallabuxur til að lengja líftíma þeirra. Blöðin eru höfð við kassana því það var svo mikið stolið af þessari munaðarvöru. Eini valkosturinn við Gillette eru hugsanlega Wilkinsons vörur sem fást einhvers staðar og svo var rakarastofan Herramenn í Kópavogi með einhver önnur blöð (samt ekki viss).

Sambland af hipsterisma og neytendavitund á sér nú stað í þessum geira las ég hér. Á Austurströnd Bandaríkjanna er fyrirtækið Harry’s með ódýrari græjur en Gillette veldið og á Vesturströndinni er Dollar Shave Club. Því miður sýnist mér að maður þurfi að búa í Bandaríkjunum til að geta keypt þessar vörur, en Dollar Shave Club sendir heim að dyrum innanlands. Auglýsingin þeirra er fyndin:

Dollar Shave Club láta sér ekki nægja að reyna byltingu í rakstri, þeir ætla líka að bylta því hvernig við skeinum okkur og selja hinar karlmannlegu blautþurrkur One Wipe Charlies – „buttwipes for men“. Það vita náttúrlega flestir karlar með loðin rassgöt að eina vitið við skeiningar er að nota blautþurrkur á „erfiðu blettina“. Ég mæli með Euroshopper, ódýrt, lyktarlaust og gerir sitt gagn. Hér er rassaþurrkuauglýsingin: