Skapti Ólafsson kvaddur

7 Ágú

Skapti Ólafsson; meistari, pabbi vinar míns, jazzgeggjari, rokklegend, prentari og öðlingur, liðaðist yfir móðuna miklu, sem bíður okkar allra, aðfaranótt þriðjudags, 1. ágúst. Hann var að verða 90 ára og því hafði móðan mikla verið yfirvofandi um hríð. Skapti greindist með Alzheimer 2015 og hafði tekið þennan venjulega rúnt gamalmenna, sem enginn veit hvað á að gera við (og allra síst “kerfið”!): Verið á Vífilsstöðum, Landakoti kannski (eða þessu er kannski að slá saman í hausnum á mér við mína eigin foreldra – pabbi dó á Vífilsstöðum 5. des 2016, mamma nennti þessu ekki ein og dó á Landakoti 16. mars 2017), en Skapti var kominn á Sóltún í lokin og undi þar vel til dauðadags, enda umvafinn ættingjum og því algjörlega frábæra fólki sem velst á þessar lokastoppistöðvar, og það þótt ummununarstörf séu verðlögð af þessu sjúka samfélagi á brotabrot af því sem gagnslaust kerfisfólk fær fyrir að klúðra öllu sem það tekur sér fyrir hendur. Áfram láglaunafólk! Stay in there!

Ég fór held ég ekki nema tvisvar-þrisvar með Steini Skaptasyni vini mínum að heimsækja pabba sinn. Ég hafði jú nóg með mitt deyjandi mapa og því fór ég t.d. aldrei með á Sóltún. Í fyrsta skiptið sem við Steinn fórum á Vífilsstaði tók ég mynd til að senda Kidda vini okkar, sem þá var kominn á 29. ár í ólöglegri þrælavist í New York City. Við vorum alltaf að reyna að fá Kidda heim, ég fékk t.d. Hr. Stefán Grímsson, leiðtoga lífs okkar Kóp-fríka, til að leika í litlu hvatningarvideói og þungt lóð á þessa eggjunar-vogaskál var að greina frá hrörnun Skapta – “Koddu heim áður en Skapti kveður”.

2016-02-04 14.18.57
Kiddi kom svo auðvitað heim á endanum, eins og frægt er orðið, og stóð algjörlega sína plikt með Skapta. Fór einn, eða með Steini, 2-3 í viku og síðast laugardaginn 29. Júlí.

En aftur til 1980 þegar ég fór að kynnast Steini, Kidda og fleiri Kóp-fríks. Skapti var viðloðandi félagsskapinn from day one, enda Steinn óhræddur við að minnast á pabba sinn. Auðvitað vissi ég ekki neitt hver þetta var og hafði örugglega aldrei heyrt Allt á floti. Ég var líka ekkert svo spenntur fyrir “eldgömlu stöffi” enda á fullu við að njóta þess hlaðborðs sem samtíminn hafði upp á að bjóða. Man ekkert eftir þátttöku Skapta, nema i mesta lagi að maður sá pabbans Steins í eldhúsinu heima hjá þeim á Holtagerði 15. Mamman, Sveinfríður Guðrún Sveinsdóttir (Sísa 1929 -1993), var mun minnisstæðari þá, keðjureykjandi við eldhúsborðið. Svo var hún systir Gunnars Reynis, sem ég vissi eðlilega ekkert hver var, en Steinn og Kiddi minntust á oft, líklega til að hlæja sín á milli yfir því hvað ég, new comerinn, væri vitlaus. Við svona stundir sá maður Skapta hressann en kannski þreytann líka, því að hann var með prentaðstöðu í bílskúr við hliðina og dældi út nafnspjöldum og kvittunum fyrir kúnnana. Í baksýnisspegli sé ég að Skapti og pabbi voru á svipuðum stað í mörgu; „gamlir“ vinstri menn og báðir komnir í sjálfsstæðan atvinnurekstur, pabbi með Tempó innrömmun, Skapti með prentverkið.

Líða ár við leik og störf, pönk og síðpönk, fyllirí og almennt rugl og gleði. Þegar ég gerði Abbababb! 1997 (fyrir 20 árum!!!) fékk ég Skapta í glænýtt hljóðver Valgeirs Sigurðssonar, sem var í iðnaðarhúsnæði á Smiðjuvegi fyrst. Gott ef þetta var ekki fyrsta platan ever sem Valgeir tók upp. Þarna hafði Skapti ekki sungið inn á plötu síðan þessar þrjár 78sn fiftís (þá var hann með effi, Skafti), en mætti hress og reifur og söng Lalla lagið með stíl. Steinn söng líka í laginu, túlkaði Gilitrutt, kærustu Lalla, með álíka stíl og fullkomnun og Skapti.

Útkoman er hér enn, uppfærð á Youtube en með aðeins 35 views. Til samanburðar er Prumpufólkið, hittarinn mikli, sem fer með mér í gröfina, með 470þ views, og Glaðasti hundurinn, hinn barnahittarinn, er með 740þ views (sorri, þurfti bara aðeins að humblebragga í miðri líkræðu) Hér er mynd úr sessioninni, ég í QPR peysu.

2017-08-07 10.51.54
Þetta er úr bókinni 100 bestu plötur Íslandssögunnar (fín bók frá 2009 eftir vini mína Jónatan og Arnar Eggert) þar sem ég næ hæst #65 með Abbababb!, en myndi auðvitað ná miklu hærra í dag, enda nýjabrumsrykið af stöffi eins og Hjálmum og Diktu, sem eru fyrir ofan mig, löngu fokið út í veður og vind.

Næst þurfti ég að hafa nánari kynni af Skapta þegar ég var að vinna bókina Eru ekki allir í stuði 2001 (http://this.is/drgunni/studi.html). Heimsótti hann og nýju konuna, sem ég hafði unnið með í Landsbankanum, í stóra blokk í nýja “Kópavogi”. Hann var auðvitað öðlingur heim að sækja. Ég setti á rec og fyllti eina c90 kassettu, sem ég er með hérna einhvers staðar og mun hljóðjafna og fullvinna á stafrænt form við allra fyrsta tækifæri. Útkomuna – viðtalið við Skapta – má lesa í bókinni. Gott stöff!

Líða enn 11 ár og út kemur Stuð vors lands, stuðhlunkur mikill og miklu betur útlítandi en orginallinn, sem hafði hvort sem er verið sold out síðan 2002. Mér fannst ekki ástæða til að heimsækja Skapta aftur vegna nýju bókarinnar.

Enn líða nokkur ár og Skarphéðinn Guðmundsson, hinn frábæri dagskrárstjóri Rúv, flettir Stuð vors lands í bókabúð. Hann fær hugmynd að gera þætti upp úr bókinni og kallar á mig. Ég kalla á Markel bræður, sem bregðast strax við, enda höfðum við lengi velt álíka verkefnum fyrir okkar. Útkoman er Popp- og rokksaga Íslands, sem nú má fá á DVD setti. Við náðum flestum legends poppsögunnar á “filmu” og ég vildi auðvitað fá Skapta on camera. Talaði við Stein, sem bar þetta undir aðstandendur. Svar kom um hæl: Skapti er of langt genginn í sinni elligöngu til að við fáum go á spjall. Full mikil viðkvæmni fyrir minn smekk, ef Skapti mundi eitthvað þá voru það the good old days. En jæja – hæstráðandi réði þessu. Í staðinn fyrir sjónvarpsupptöku af rokklegend og jazzgeggjara er til kassetta og haugur af ljósmyndum, sem ég lagði mig í líma við að grafa upp. Sjáum nokkrar myndir að lokum, Skapti Ólafsson in ðe 40s/50s, stuðið uppmálað, góðmennskan og sósíalíski baráttuandinn alltaf á bakvið eyrað, öðlingsskapurinn og lífsgleðin í fyrirrúmi.

Þú sérð þetta aldrei Skapti minn góður, en samt: Takk fyrir sögurnar og fyrir að hafa verið til. Takk fyrir Skapti Ólafsson og bless á meðan.

0212-Með hljómsveit Jónatans Ólafssona í gamla Þórskaffi. Skapti, Róbert Þórðarson á Harmóníku og Jónatan á Píanó.Með hljómsveit Jónatans Ólafssonar í gamla Þórskaffi. Skapti, Róbert Þórðarson á Harmóníku og Jónatan á Píanó. Á þessum árum voru liðtækir menn út um víðan völl.

0212-Skapti í djammsessjón með Jóni Sig á bassa, Gunnari Ormslev, Magnúsi Randrup og fleirumSkapti í djammsessjón með Jóni Sig á bassa, Gunnari Ormslev, Magnúsi Randrup og fleirum frumkvöðlum jazzz á Íslandi.

0212-Skapti auglýstur í maí 1959
Skapti auglýstur í maí 1959. Auðvelt er að fullyrða að Fjórir jafn fljótir hafi verið “fyrsta rokkhljómsveit Íslands”. Gárungarnir kölluðu bandið auðvitað “Fjórir jafn ljótir”.

0212-Skapti plötumiðiSkapti söng 6 lög inn á þrjár 78sn plötur fyrir Íslenzka Tóna Tages Ammendrups 1957. Hér er umslag “erfiðustu” plötunnar og þeirrar einu sem Steinn á ekki. Ég á bara „Syngjum dátt og dönsum“. Fimm lög af þessum plötum, hafa gengið í endurnýjun lífdaga á ýmsum safnplötum í gegnum árin, en “Geimferðin” ekki og því er bara sjálfssagt að bæta úr því hér: SKAPTI ÓLAFSSON – GEIMFERÐIN.

0212-Við upptökur á Allt á floti
Við upptökur á „Allt á floti“. Fyrir plötuna/lagið gat Skapti keypt sér nýjan ísskáp.

0212-Skapti, Soffía Karls og Jan Morávek grínast í einni af Revíum Íslenskra tóna
Skapti, Soffía Karls og Jan Morávek grínast í einni af revíum Íslenzkra Tóna. Soffía er enn á meðal vor, en vill því miður ekki tala um the good old days.

0212-Skapti kom loks með sína fyrstu sólóplötu í fullri lengd árið 2008Skapti kom loks með sína fyrstu sólóplötu í fullri lengd árið 2008. Hún er enn fáanleg.

 

3 svör til “Skapti Ólafsson kvaddur”

  1. Valdimar Guðjónsson. ágúst 7, 2017 kl. 11:18 e.h. #

    Heyrði viðtal við hann fyrir ekkert mjög mörgum árum. Hress þá og röddin alveg jafn kraftmikil. Sagðist hafa byrjað löngu á undan Ragga Bjarna og mundi eftir honum nánast peyja. Veit ekki hvort þeir tóku nokkurn tímann dúó saman að syngja. Hefði verið flott.

  2. Guðni Már Henningson ágúst 7, 2017 kl. 11:47 e.h. #

    Góð skrif doktor. Þú segir að diskurinn sé enn fáanlegur. En hvar get ég nálgast hann?

    • drgunni ágúst 8, 2017 kl. 1:38 e.h. #

      Tja… T.d. Lucky Records.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: