Allt í drasli voru þættir á Skjá einum sem hófu göngu sína 2005. Heiðar Snyrtir og Margrét Húsmæðraskólastýra sáu um að niðurlægja stamandi skítablesa og taka til í allskonar saurholum og draslarakompum. Þetta var ágætis stöff, þótt ég hafi aldrei horft á heilan þátt, svo ég muni: Og jafnvel þótt fólk sem ég þekki væri í hlutverki hins niðurlægða.
Þessa ágætu fávitaþætti hafði ég bak við eyrað þegar mín beið næstum ókleifur hamar nú á Frídegi Verzlunarmanna. Það var man ceifið mitt, sem liggur við hlið vistarvera okkar Dungang, en þar er að sjálfssögðu alltaf skínandi hreint og fágað þökk sé Lufsu og/eða aðkeyptu vinnuafli. Og ég legg mig stundum fram þar líka (segi ég, svo ég hljómi nú ekki eins og einhver karlpungur).
Til að gera mér djobbið léttara ákvað ég að gera Youtube „þátt“ um „ferlið“ og, sem sagt, sýna alheiminum hvers konar helvítis skítalúði ég er. Ég hef áður verið helvítis pempía og hræddur um almenningsálitið, en sú tíð er löngu liðin. If you don’t like what you see – fokk off! Einu sinni þorði ég varla að ganga um með svona „Hallgríms Helgarsonar“-hatt, sem ég átti þó, af ótta við að einhver bjáni út í bæ þætti það eitthvað skrýtið. Nú á gamalsaldri hef ég öðlast þá eðlilegu visku að vera drullusama um hvað einhverjum plebbum og bjánum út í bæ finnst um mig, og þannig, allt. Ekki skemmir fyrir þetta skemmtilega umburðarlyndi sem ríkir í dag þar sem annar hver maður er komandi „út úr skápnum“ með geðveiki sína, dinti, vandamál og offitu.
Auðvitað var þetta cleaning djobb löngu, LÖNGU, tímabært, en þegar mér datt þetta í hug með „dokumentasjónina“ fann ég strax að ég nennti þessu. Ferlið er auðvitað ekki búið og ýmsir hamrar og ýmsar skráningar eftir. Þess má að lokum geta að lúkkið á man ceifinu er alveg eins og við því var tekið 2004. Sýruveggfóður, 60s litir á veggjum o.s.frv. Öll íbúðin okkar var svona, enda seldi gömul ekkja okkur íbúðina á algjöran slikk 2004 (15.6 mills minnir mig). Þarna hafði hún verið að marinera sig síðan örlí 60s. Þökk sé „íslensku leiðinni“ erum við að tala um 50 mills í dag. Takk óðaverðbólga, launaskrið, verðtrygging og hvað þetta heitir allt!
,,Reyndu svo að halda þessu svona..“
Ha ha já já!