Ég held áfram að vísa hér á bloggi yfir í athyglisvert efni sem er að gerast á Facebook. Ég á víst að heita verslunartstjóri í Fjallakofanum, Laugavegi 11 (#humblebrag) og skrifa annað slagið (eftir stuði) á Fjallakofa síðuna. Hér er það sem ég skrifaði í morgun, einhverjum ykkar vonandi til yndislesturs.
Hæ frá Fjallakofanum, Laugavegi 11. Hér er háannatími en samt er búðin bókstaflega að springa af því eðalstöffi sem þið ættuð að þekkja. Allir sem nenna oní miðbæ (og eru t.d. ekki utan þjónustusvæðis) ættu því að renna til okkar og fylla í eyður útivistagræjanna, eða beinlínis að kaupa sér glæný föt eða græjur, frá t.d. Scarpa, Marmot, Sea to Summit eða Arc’teryx. Við sjáum alltaf slatta af Íslendingum sem eru í „útlandaleik“ reka inn nefið, því vitanlega er Laugavegurinn iðandi af erlendum áhrifum nú um stundir (og vonandi sem lengst).
Jæja. Við leggjum okkur fram við að aðstoða hina villuráfandi túristahjörð sem hingað rekst í Fjallakofarétt. Við fáum „alla flóruna“ inn, frá bláfátækustu unglingum, sem eru kannski í sinni fyrstu utanlandsferð, og spá í hverju grammi af gasi – til vellauðugra skemmtiferðaskipa-gesta eða lorda frá Bretlandi, sem horfa ekki einu sinni á verðin heldur kaupa allt sem þeim langar í. Báða hópa og alla þar á milli elskum við að fá hingað inn.
Oft, þegar tími vinnst til, gerast ævintýrin. Í gærmorgun kom þessi fyrir miðju myndar, inn í búðina að kaupa gas. Verslunarstjórinn (ég) var í stuði og enginn annar í búðinni, svo við hófum spjall. Stráksi er franskur, frá Strasbourg, en talar fína ensku. Sagðist vera einn á ferð og ætlaði að fara á puttanum til Húsavíkur að hitta franskan vin, sem þar vinnur við Hvalaferðir. Fransmaður var mjög spenntur, til í allt, með tjald og alles og ég sýndi honum á korti hvar skemmtilegast væri að tjalda á leiðinni.
Mitt í þessum bollaleggingum kemur brosmilt par inn og blandar sér í umræðuna. Sá gaur (frá Salt Lake City, Utah, ekki mormóni samt!), talar frönsku og þetta varð til þess að franski puttalangurinn og hann fóru að bera saman bækur sínar. Ekki mormónarnir eru á litlum bílaleigubíl og svona að spá í hvert þau ættu að fara á þessum 2 vikum sem þau hafa til að njóta landsins okkar æðislega. Eitt leiddi að öðru og verslunarstjórinn (ég) tók af skarið og stakk upp á því hvort ekki væri bara sniðugt að sameina þessi tvö Íslands-ævintýri í eitt. Einhverjar perur fóru þá að loga í frönskum og ekki-mormónískum hausum og þau fóru öll út með sitt hafurtask, auk gass og sporks og sundfata, nýkeyptu í Fjallakofanum.
Þegar (ég) átti leið á vörulager Kofans blasti þessi fallega sjón við mér í bílaportinu. Þau þrjú að reyna að troða öllu dótinu sínu í litla bílaleigubílinn, brosandi og peppuð fyrir ævintýrunum sem bíða þeirra! Ég veit engin deili á þessu fólki, nema ekki-mormónarnir eru með FB-síðuna non stop adventures.
Vona að öllum heilsist vel, hvar sem þau eru, og að veðrið hangi sæmilegt fyrir þau – og okkur hín auðvitað. 😀
Færðu inn athugasemd