Sarpur | Bítlarnir RSS feed for this section

Hljómar hitta Bítil

26 Nóv

Fólk hefur mikið komið að máli við mig. Ekki til að hvetja mig til forsetaframboðs (enda myndi ég ekki nenna að vera svona mikið í burtu frá fjölskyldunni) heldur til að spyrja hvort fyrstu fimm þættirnir af POPP OG ROKKSÖGU ÍSLANDS komi út fyrir jólin á dvd. Málið var skoðað og niðurstaðan er NEI. Hins vegar erum við nú sveittir að búa til SJÖ þætti í viðbót sem á að byrja að sýna á Rúv í mars. Þegar upp er staðið verða því komnir TÓLF þættir af POPP OG ROKKSÖGU ÍSLANDS og poppsagan frá landnámi til okkar dags vandlega innrömmuð á TÓLF klukktímum! Og það sem betra er: Það eru allar líkur á að heildarpakkinn verði gefinn út á dvd í einhvers konar „vönduðum pakka“, sem verður auðvitað „jólagjöfin í ár“ 2016.

Kannski fylgir „aukaefni“ í pakkanum – enda heill haugur á „klippigólfinu“ eftir blóðugan niðurskurð. Þetta er ekkert dútl. Við hittum um 200 manns. Stilltum upp myndavél, töluðum við viðfangið í 1-4 tíma (suma risapoppara þurfti að tala við í tveimur sessjónum) og svo er þetta mikla efni skorið niður í sándbæt og smásögur og jafnvel dæmi um að það væri ekki einu sinni notað neitt af spjallinu vegna þess að það bætti engu við flæðið. Hrikalega blóðugt. En við erum þá allavega með 200 poppara skjalfesta og ætli þetta efni endi ekki bara á Landsbókasafninu komandi kynslóðum til notkunar.

Allavega, á „klippigólfinu“ er allskonar snilld, sem ekki passaði í flæðið og inn í þá 12 klukkutíma sem við höfðum til að segja söguna. Meðal þess er sagan af því þegar Hljómar hittu Bítil.

Árið er 1967, ágúst. Svavar Gests ætlar að gera LP plötu með Hljómum og sendir þá til London til að taka upp, enda engin almennileg aðstaða á Íslandi til plötugerðar. Strákarnir telja í, gera 12 laga plötu á einhverjum 16 tímum í Chapell Recording Stúdíós með Tony Russell. Útkoman er fyrsta „alvöru“ rokk/popp-LP plata Íslandssögunnar, fyrsta LP plata Hljóma (nú fáanleg aftur á vinýl þökk sé Senu). Í ferðinni spókuðu strákarnir sig um í London. Funheitt nýstyrni, Jimi Hendrix, er með tónleika í Saville Theatre á Shaftsbury Avenue. Eigindi tónleikastaðarins er sjálfur Brian Epstein, umboðsmaður Bítlanna. Tvö gigg eru með Jimi þann 27. ágúst. Þetta er eftirsótt gigg, fáir miðar eftir. Hljómar fá einn miða á fyrri tónleikana, en þrjá á þá seinni. Gunni Þórðar fer á fyrra giggið og gapir á Jimi leika listir sínar. Hinir fóru aldrei á seinna giggið vegna þess að því var aflýst. Brian Epstein hafði nefnilega étið of mikið af dópi og svefntöflum og stimplað sig út (líklega fyrir slysni, frekar en af ásetningi). Bömmer!

Í London fóru Hljómar „all in“ í Bítlamenningunni. London var svo sem ekkert ný fyrir þeim, þeir höfðu komið hérna oft áður, m.a. þegar þeir tóku upp lögin á Umbarumbamba 2 árum áður. Aðal pleisið er Bag O’Nails í Soho. Þarna hanga poppararnir. Þarna kynntist Paul McCartney Lindu sinni. Jimi Hendrix, Keith Moon og Reg Presley kannski í góðum gír á mánudegi, fullt af skvísum í mínípilsum. Bjór á barnum. Glaumbær hvað?

Erlingur Björnsson og Engilbert Jensen eru að fá sér. Kannski að ræða bömmerinn yfir því að missa af Jimi Hendrix. Það eru fullt af frægum poppurum þarna, en Hljómadrengir fljúga inn, enda partur af geiminu. Þeir kippa sér ekki upp við frægu popparana, hnippa kannski í hvorn annan þegar trommarinn í Animals gengur í salinn. En þegar sjálfur Paul McCartney birtist með dömu upp á arminn (Lindu?) og eitthvað fylgdarlið þá rjátlast kúlið af Erlingi og Engilbert. Þeir nálgast básinn þar sem goðið situr og kasta vingjarnlegri kveðju á bassaleikara Bítlanna. Hann er þó eins og afundinn hundur og með tóma stæla við sveitamennina, flissar kannski og segir eitthvað snappí við vini sína, sem flissa líka. Erlingur og Engilbert eins og illa gerðir hlutir við bás-endann.

Gítarleikari Hljóma, Erlingur Björnsson, er ljúfur og einlægur gaur. Hann er nýorðinn 23 ára og kann ekki við svona stæla í goðinu. Hann reiðist ekki heldur tekur einlæga svipinn. Segir bassaleikara Bítlanna að þeir séu nú bara aðdáendur Bítlanna og meðlimir í besta og frægasta Bítlabandinu á Íslandi og að það sé nú leiðinlegt að fá svona móttökur.

Hann Palli minn er líka góður gaur og það hreinlega sviptist af honum töffheitin og hrokinn undir ræðu Erlings. Hann verður allt annar maður, biður Hljóma afsökunar og segir rössum í básnum að færa sig svo víkingarnir fái sæti. Erlingur og Engilbert sitja við hlið Pauls McCartney, sem spjallar um daginn og veginn, spyr út í Hljóma og segir að Bítlarnir séu að taka upp efni fyrir Magical Mystery Tour og hvort strákarnir vilji ekki kíkja í stúdíóið á Abbey Road? Hripar niður símanúmerið í stúdíóinu og segir þeim endilega að mæta bara daginn eftir.

Af því varð því miður ekki því Hljómarnir áttu bókað flug heim daginn eftir. Maður hefði breytt flugmiða fyrri minna, en það voru aðrir tímar og erfiðara að breyta flugmiðum. En Erlingur á miðann góða og er búinn að ramma hann inn:

12295216_10205042009186747_330223714_o

Ps. Meistari Mark Lewisohn áritar meistaraverk sitt Bítlarnir telja í í Eymundsson, Skólavörðustíg kl. 17 í dag, fimmtudag.

 

 

Dr. Gunni og Dr. Eldjárn kryfja Bítlana

24 Nóv

2015-11-24 12.53.07
Nýtt Í kasti með Dr. Gunna!!!

Í þessum þætti af Í kasti með Dr. Gunna er spjallað við Bretann Mark Lewisohn, sem er líklega mesti Bítlafræðingur heimsins um þessar mundir.

Hann skrifar nú sögu Bítlanna í þremur bindum og er fyrsta bindið komið út á íslensku og heitir Bítlarnir telja í. Fyrirhugað er að næstu bindi komi út 2020 og 2028.

Þetta er fyrsta þýðingin sem gerð er af bókinni, sem er nú alveg sturluð staðreynd. Bókin er algjört æði, bæði á ensku og íslensku, og stútfull af nýjum atriðum um sögu Bítlanna, bestu hljómsveitar í heimi (staðreynd!!!)

Bítlaaðdáandinn Ari Eldjárn er aðstoðarspyrill Dr. Gunna að þessu sinni og saman fara þeir með Mark í djúpspaka ferð um Bítlagresurnar þar sem bæði innvígðir, innmúraðir og skemmra komnir fá margt fyrir sinn snúð.

Athugið: Viðtalið er á ensku!

Mark Lewisohn kynnir bókina í hádeginu (12) á morgun, miðvikudag, Í IÐNÓ! Svo verður útgáfuteiti og áritun á fimmtudaginn í Eymundsson, Skólavörðustíg, kl. 17. Bítlaaðdáendur látið sjá ykkur í hrönnum!

Árið 3000 veit enginn hver Paul McCartney var

6 Jan

Nokkur hneyslunaralda ríður nú yfir því einhverjir Kanye West aðdáendur vita ekki hver Paul McCartney er. Þessi staðreynd lá fyrir eftir að samstarf Palla og Kanye varð heyrinkunnugt. Mörgum finnst reyndar Paul vera að taka niður fyrir sig með því að vinna með Kanye en því er ég ósammála enda Kanye góður og gaman að Paul skuli ennþá nenna að vinna með unglömbum.

Allt verður náttúrlega tímanum að bráð, jafnvel Bítlarnir. Þetta finnst mér alltaf jafnfyndinn skets. Hann fjallar um sagnfræðilegar útlistanir á Bítlunum árið 3000. Kannski verður þetta svona…

Stórfengleg Bítla-bók!

22 Apr

2320738053_b77548195c
Þá er ég loksins búinn með hana, lengstu bók sem ég hef lesið: „The Beatles: All These Years, Volume 1 – Tune In“ – hið mikla þrekvirki Marks Lewisohn, sem samt er bara fyrsta bindi af þremur. Bókin rekur Bítlasöguna fyrstu árin og hættir þegar árið 1963 gengur í garð og allt fer á flug. Þarna eru gríðarlegar upplýsingar um besta band í heimi á mótunarárum þess og stíllinn á þessu og stemmingin et mjög skemmtileg svo það er eiginlega hvergi á þessum 840 bls (+60 heimildaskrá) sem manni leiðist. Það er reyndar til önnur útgáfa af bókinni sem er helmingi lengri, en ég lét mér þennan doðrant nægja.

Myndin hér að ofan er í bókinni og er eina myndin sem er til af Bítlum og amfetamíni – eða „prellies“ eins og þeir kölluðu það í Hamborg. Á þessu lifðu þeir þar enda vaktirnar langar. Spurningunni „meig Lennon á nunnu“ er ekki algjörlega svarað en hann fór a.m.k. tvisvar á svið í Hamborg með klósettsetu um hálsinn – það er staðfest. Einnig kemur fram að Bítlarnir voru algjörir antí-sportistar svo svarið við hinni gömlu spurningu Héldu Bítlarnir með Liverpool eða Everton?, er: Þeim var drullusama.

Algjörlega frábær bók (það hjálpar náttúrlega að vera Bítilfrík) og ég bíð spenntur eftir næstu tveimur bindum (næsta væntanlegt 2020 – jæks!). Þessi Mark er nú alveg spes…

Bítlarnir – Betri eftir hlé

4 Feb

bootlegbea
Bítlarnir voru í Hörpu í gær, Bootleg Beatles þ.e.a.s. Það var fín mæting og fólk ánægt með þetta. Maður var hálfgert unglamb þarna. Kóver og tribjútbönd eru greinilega það sem koma skal, enda rokkið komið á endastöð. Fyrst sinfóníusveitir víða um heim spila aðallega verk eldri meistara í dag má sjá fyrir sér að eftir 50 ár verði ríkisreknar rokkhljómsveitir að spila klassíska poppið og rokkið.

Bootleg Beatles fyrirbærið er búið að vera til síðan 1980 og allskonar lið búið að spila með í gegnum árin. John Lennon t.d. bara frá 2011 samt var hann einna bestur. Ringo var eiginlega ólíkastur fyrirmyndinni en trommaði vel. Þeir reyndu að herma sem best eftir karaktereinkennum og voru í ýmsum búningum svo þetta var bæði gigg og leikrit. Fyrir hlé tóku þeir elsta dótið, eða fram að Help, og gerðu það ágætlega. Það hefði samt alveg mátt vera blast á þessu. Eftir hlé kom Sgt. Peppers og annað seinni tíma stöff og höfðu þá fimm aukahljóðfæraleikarar bæst við. Þetta var vel gert hjá þeim og ef maður lokaði augunum mátti svona næstum því ljúga því að sér að þetta væri í raun Bítlarnir sjálfir. Sem er kannski ekki hægt því þeir hættu jú að spila læf 1966.

Bara hin ágætasta skemmtun held ég. Dálítið hallærisleg kannski en það skiptir litlu því Bítlarnir eru bestir!  Ég er ekkert svo viss samt um að ég sé að fara að mæta á öll tribjút-sjó sem í boði verða á næstunni.

 

Lennon gamli 72 ára

9 Okt


Til hamingju með daginn Bítla-unnendur! John Lennon 72 ára í dag (og Sean Lennon 37 ára). Það má hún Yoko eiga að hún hefur spilað ágætlega úr bítlaarfinum með öllu friðar-dótararíinu og auðvitað er þrælmagnað að Reykjavík sé vettvangurinn undir þetta. Það verður væntanlega allt undirlagt af þessu í dag; friðarverðlaun og Viðeyjarsiglingar og Lady Gaga dulbúin í öllum hornum.  Brjálað að gera hjá íslenskum papparössum. Ég sé ekki betur en að káta ekkjan bjóði öllum út í Viðey í tilefni dagsins.

Yoko hefur látið bítlagamminn geysa víðar en hér. Í Central park er t.d. Strawberry field og allskonar fríðar-eitthvað í gangi þar. Það kæmi mér ekki á óvart ef einhverjum bítla-aðdáendum fyndist eins gaman að kíkja á Viðey eins og mér fannst gaman að tékka á friðarumsvifum Yokoar í New York.

Bítlarnir og skórnir mínir

5 Okt


Fyrsta smáskífa Bítlanna kom út 5. október 1962 og á því fimmtusafmæli í dag. Þetta voru lögin Love me do/Ps I love you. Í ársbyrjun 1962 höfðu strákarnir rennt sér í hljóðver og tekið upp fullt af efni fyrir Decca, sem síðan vildi ekki sjá bandið eins og frægt er orðið. Það er svo sem ekkert óskiljanlegt því þessi Decca-sessjón var hundslöpp.

Til að ræða þessi tímamót verð ég í Morgunútvarpi Rásar 2 kl. 08:05 á eftir ásamt Gerði G. Bjarklind, sem sá Bítlana læf í London 1964. Ég stofnaði nýlega bítlaklúbbinn Bítlarnir eru beztir! á Facebook (svo undarlega vildi til að enginn íslenskur Bítlaklúbbur var til á FB) og eru meðlimir þegar orðnir meira en 100. Þetta er mjög vandlátur klúbbur og bara einlægir Bítlavinir velkomnir.


Ég setti þessa mynd af mér (lítandi út eins og selur í framan) og skónum mínum á Facebook. Ég var að vona að það kæmi „bylgja“ á borð við plankið  í kjölfarið en til þessa held ég að sá eini sem hefur fetað í fótspor mín og Sölva sé Árni Svanur Daníelsson. Áfram gagnkynhneigðu karlar – út úr skápnum með skóna! Mikill áhugi á skóeign minni hefur fylgt þessari myndbirtingu. Vísir greip málið á lofti og Marta Smartland spurði mig skónum úr. Ég hefði nú kannski pússað „safnið“ hefði ég vitað að þetta færi svona langt.

Þess má geta að ég fann ekki annan spariskóinn þótt ég snéri öllu við og að gönguskórnir fyrir miðri mynd eru á síðasta snúningi og væta farin að vætla inn gangi ég í mikilli bleytu. Þetta eru þessir fínu Lomer skór og hafa dugað frábærlega í 10 ár plús. Ég er klárlega að fara að fá mér nýtt par fyrir næsta sumar.

Bassaleikari Bítlanna á afmæli

18 Jún


Það er ekki á hverjum degi sem Paul McCartney er sjötugur. En það gerðist þó í dag. Það er heldur ekki á hverjum degi sem ég sé Paul McCartney á tónleikum en það gerðist þó 2005 þegar ég varð sjálfur fertugur. Alveg magnað. Enda Palli magnaður gaur. þetta var draumfagurt gigg og ekki spillti magnaður félagsskapur fyrir, Grímur Atlason og trommarinn í Sonic Youth. Í tilefni dagsins ætla ég ekki að hlusta á neitt með Bítlunum. Allir aðrir dagar eru góðir til þess.

Annars er það helst að frétta að ég er um það bil að verða geðveikur á því að safna myndum í hið hnausþykka stuðverk sem kemur í haust. Það þýðir ekkert minna en að troða svona 1.500 myndum í þetta þrekvirki…

Ég var á Hvammstanga um helgina og sá sel í fjarska.

Bless á meðan!

George Harrison

10 Maí


(George Harrison gerðist ukulele unnandi í seinni tíð. Ég á ukulele-kennslubók þar sem hann skrifar formálann.)
Kláraði loksins að horfa á Living in a material world, heimildamynd Martins Scorsese um Bítilinn Gogga Harr. Hér fær Georg sviðið og á það í þrjá tíma. Helvíti fín mynd bara (4 stjörnur!) og svo vel gerð að manni finnst maður þekkja listamanninn að áhorfi loknu – eða að minnsta kosti vita „hvernig hann var“. Eftirlifandi Bítlar eru meðal annars talandi hausar og Ringo klikkar ekki frekar en fyrri daginn. Hann tárast í lokin yfir endalokum Georgs og spyr hvort þetta sé Barbara fokking Walters!

Mugison samdi einu sinni lag sem heitir George Harrison. Hér er það læf í Hollandi 2008.

Notað og nýtt á Skemmuvegi 6 er með gott úrval af notuðum vinýl (Drífðu þig!) Gerði ágætis kaup þar í gær á All Things Must Pass, þrefaldri sólóplötu Georgs (3000). Ég átti reyndar eintak fyrir en Heiðu vantaði eintak svo þetta fór þangað. Fyrir mig tók ég Fly, tvöfalda plötu Yoko Ono frá 1971 í topp standi (2000), næstum því óspilað eintak. Við göntuðumst með það eigandinn og ég að líklega væri erfitt að finna mikið spilað eintak af plötum Yokoar. Þarna fann ég líka plötuna John Lennon for President með David Peel & The Super Apple Band frá 1980 (1000). Þetta er rugl plata (David Peel er einhver New York hasshaus) en Yoko og John eru eitthvað smá á henni svo það er pláss fyrir hana í rekkanum.

Maður verður að hafa eitthvað haldreipi í lífinu, er það ekki? Mitt er Bítlatrúin.

Stofna synir Bítlanna Bítlakóverband?

4 Apr

Nýjasta nýtt í Bítlalandi er að sonur Pauls, hann James (lengst til vinstri) var eitthvað að fabúlera um band með Bítla-sonum. Hér er ágætis umfjöllun og vangaveltur um málið. Strákagreyin reyna að lifa sjálfsstæðu lífi utan við skugga pabbanna. James McCartney hefur gefið út tvær EP plötur og hér tekur hann Angel hjá Letterman. Frekar slappt verð ég að segja. Íslandsvinurinn Sean hefur hins vegar gert fína hluti. Fínt sólóstöff og nú er hann og kærastan í dæmi sem þau kalla The Ghost of a Saber Tooth Tiger. Gullfalleg ballaða læf hér. Fyrir utan að vera með dóttur Kára Stefáns er Dhani Harrison í hljómsveitinni Thenewno2 sem hefur gert eitt albúm og annað á leiðinni. Hér er lagið Shelter af væntanlegri plötu. Zak Sharkey er svo þrusutrommari og hefur bæði spilað með The Who og Oasis. Það er ekki auðvelt að fylla skarð Keith Moon en Zakkarinn getur það alveg. Hér er hann í Baba O’Riley læf.