Skór prinsessunar

27 Nóv

2016-11-27-00-26-31
Tónleikar Leoncie heppnuðust glæsilega í gærkvöldi. Allir yfirgáfu svæðið með bros á vör eftir maraþon-prógramm prinsessunar sem keyrði í alla hittarana auk nýs efnis, eins og „Mr. Lusty“, sem mun von bráðar toppa alla vinsældarlista.

Þá er að snúa sér að næstu tónleikum: Pönksafn Íslands kynnir: Fullveldispönk! á Hard Rock næsta fimmtudag, 1. des. Fjögur flaggskip úr pönkinu; Fræbbblarnir, Taugadeildin og Q4U, að ógleymdu tríóinu Jonee Jonee, sem nú snýr aftur í fyrsta skipti á tónleikum síðan 1982! Miðasala hafin hér. Algjört möst og unaður.


Ég vek athygli á Karólínu-söfnun HEIÐU sem nú er að safna fyrir útgáfu plötunnar FAST á vinýl. Góð plata og þarft málefni – Allir með! 

Latir bílaeigendur

26 Nóv

Það eru stórtónleikar í kvöld á HARD ROCK CAFÉ. Ég myndi alls ekki missa af þeim. Það eru enn örfáir miðar eftir hér: https://midi.is/tonleikar/1/9823/LEONCIE

Þar ætla ég að stíga á svið og syngja lög af plötunni ATVIK sem nú hangir uppi á MOKKA KAFFI og gerir það áfram til 1. des. Allar myndirnar/plöturnar eru seldar, nema tvær. Lögin sem ég ætla að flytja í kvöld eru:

1. Æska hans fór fram í þessu húsi
2. Ég er aumingi
3. Heilbrigð æska
4. Gunni kóngur
5. Gubbabitar
6. 5000 kall
7. Smurðageit
8. Pung
9. Bílaeigendur

Þau verða aldrei aftur flutt.

KRAKK & SPAGHETTÍ ætlar svo að leika sitt ljúfasta krúttrapp. 

mrlusty

Stjarna kvöldsins og aðalatriði er svo auðvitað Leoncie. Hún mætir með sjóðheita glænýja plötu, MR LUSTY (ég hannaði umslagið!) og flytur lög af henni auk bestu laganna af ferlinum. Þetta verður hreinlega stórkostlegt, enda hefur prinsessan verið dögum saman að sauma sviðsföt og pæla í sjóinu. Eftir gigg verður svo „meet & greet“ með Leoncie þar sem aðdáendum býðst að kaupa nýja diskinn og fá hann áritann. Hreinlega stórkostlegt kvöld í vændum…

Fullur jákvæðni

18 Nóv

Skemmtilegra er að tala um eitthvað gott en eitthvað lélegt. Ég er til dæmis að fara á GIMME DANGER, nýja heimildarmynd um Iggy Pop & The Stooges í kvöld, og á ekki von á öðru en að hún sé fín. Um daginn fór ég á EIGHT DAYS A WEEK, sem er ljómandi góð heimildarmynd um tónleikaferðir Bítlana. Svo hef ég verið að horfa á WESTWORLD, sem er frábær ný sjónvarpsþáttaröð um kabbojavélmenni. Þar er ef til vill velt upp spurningunni Hvað er mennskan? 

Íslenskir fjölmiðlar eru fullir af skemmtilegu, leiti maður bara. Rás 1, Gufan, er best. Þar er til dæmis LESTIN sem Anna Gyða og Eiríkur sjá um á hverjum degi. Þeim er ekkert óviðkomandi í „menningarlífinu“ og Anna tók t.d. viðtal við LEONCIE í fyrradag, sem var að sjálfssögðu skemmtilegt, enda prinsessan í ham um þessar mundir og um það bil að fara að kveðja þetta eymdarsker með stórtónleikum. LESTIN er á dagskrá á hverjum degi og alltaf skemmtileg. Vera Illugadóttir er með súpergóða þætti, Í LJÓSI SÖGUNNAR, einu sinni í viku. Alltaf fræðandi og skemmtilegt, þátturinn um smáeyjuna NÁRÚ, var t.d. alveg frábær. Saga Nárú er eins og kaldhæðnislegur harmleikur og algjört víti til varnaðar. HARMAGEDDON Frosta og Mána er langbesta froðusnakkið í dag og engin froða og varla snakk heldur. Hlusta alltaf ef ég get.

Um helgina hyggst ég heimsækja verslunina AfroZone, sem er afrísk kjörbúð í Lóuhólum. Ég mun þar komast til svörtustu Afríku og eflaust kaupa eitthvað sem ég veit ekkert hvað er, en mun ögra bragðlaukunum. Ég ætlaði að draga krakkana á Björk digital í Hörpu, en þau þverneita að koma með. Dabbi var settur í eitthvað tveggja tíma Bjarkar-prógramm í Hagaskóla og segir það leiðinlegustu tvo tímana í lífi sínu. Uppáhaldshljómsveitin hans heitir 21 Pilots og uppáhaldsstöðin er FM957. Ég er bara ekkert að skipta mér að því.

Styttist í Leoncie

16 Nóv

leoncie-promo
Nú styttist í stórtónleika Leoncie sem haldnir verða á HARD ROCK CAFE laugardagskvöldið 26. nóvember (ekki næsta heldur þarnæsta). Listakonan mun leika öll sín þekktustu lög og allavega eitt nýtt. Hún er tilbúin með glænýja plötu, MR. LUSTY, sem vonandi verður til sölu á tónleikunum. Leoncie er á leið af landi brott og þetta er því ALLRA SÍÐASTI SÉNS að sjá Leoncie á sviði. Til upphitunar verða KRAKK & SPAGHETTÍ og ég, sem ætla að flytja lög af plötunni ATVIK, sem hangir um þessar mundir uppi á veggjum MOKKA KAFFIS. Miðasala er hafin á MIÐI PUNKTUR IS – 2000 kall. Hik er sama og tap…

Poppsagan á DVD!

12 Nóv

Vegna fjölda áskorana (ég er ekki að ljúga þessu!) verður POPP Og ROKKSAGA ÍSLANDS gefin út á í 3ja dvd-diska pakka – og steymiskóði með svo þú getir horft á þetta í tölvunni þinni, eða hvernig sem þú vilt. Þetta eru allir þættirnir 12 sem byrjað var að sýna í fyrra og voru svo endursýndir í sumar á Rúv. Ég myndi segja „Tólf tímar af snilld!“ ef ég væri ekki svona hlédrægur. Ef þið pantið núna í gegnum Facebook-síðuna eða mig fáið þið pakkann á hlægilegu verði: 5000 kall! Hik er sama og tap! 

Pönk hreinsar

6 Nóv

Airwaves-skýrsla 2. Ég fór ekki á svið í ár en í staðinn át ég svið. Hálfan haus og verð eiginlega að segja að svið eru ógeðsleg. Einu sinni á ári er algjört topps á þá fæðu. Sú ömurlega staðreynd blasti við að finnsku pönkararnir í PKN færu á svið á Gauknum á nákvæmlega sama tíma og Dr Spock færu á svið í glænýjum kjallara Hard Rock Café. Út undan hafði ég heyrt að gerð yrði úrslitatilraun til að fá Rotten á svið með Spock til að syngja Pistols slagara. Ég var í sambandi við umboðsmann Finnana þar sem þeir meistarar vildu ólmir hitta Rotten. Nú, það sem gerðist í þessari bóndabeygju var að ég fór á Hard og sá sett með Ensími. Þeir eru alltaf góðir og skemmtilegir, spiluðu slagara í bland og voru hressir. Næst komu Spock og gjörsamlega tættu sig í gegnum gullfallegt sett. Rotten stóð reyndar aftast en fann aldrei andann koma yfir sig til að fara á svið og þar að auki I do not do that shit. Ekkert God Save The Queen sem sé. En djöfull voru Spock góðir, algjörir yfirburðir. Þegar þessu var lokið voru Finnarnir farnir að sofa, dauðþreyttir og pönkaðir. Liðið hópaðist að Rotten í pönkselfí og hann hélt sér síðan í stuði eitthvað fram eftir en ekki of lengi því það er Arsenal-Tottenham í dag sem þeir Rambo verða að sjá (báðir Arsenal-menn).

Í dag er svo stíf dagskrá sem hefst kl. 13 þegar PKN koma í opinbera heimsókn í Pönksafnið. Það mega allir fjölmenna þangað. Svo eru þeir með offvenue fyrir Þroskahjálp í Iðnó frá kl. 17 – allri velkomnir, ókeypis inn. Auk þeirra mun norska hljómsveitin Make Dreams Concrete koma fram, en hún ku skipuð utanveltu krökkum sem finna styrk í pönki. Allir geta fundið styrk í pönki, spurðu bara Óttarr Proppé sem öskrar úr sér stjórnarmyndunartrega og hreinsast og endurfæðist í gegnum pönk. Sumir íhuga, aðrir pönka. Hér er tóndæmi með Make Dreams Concrete.

Tilraun til ógæfu

5 Nóv

Ég reyndi að hella mig smá í gær, gekk ekki nógu vel, sem betur fer. Forsetapartí kl. 17. Forsetahjónin eru alveg frábær, svaka loose á því og hress og eðlileg. Konur á þönum helltu í mig tveimur kampavínsglösum svo ég var blindfullur þegar ég keyrði í bæinn. (Djók).

Hékk svo á Gauknum framan af. Náði einu lagi með Skelk í bringu sem er geðveikt band. Sturtaði nokkrum bjórum í mig en svissaði svo í eitthvað almennilegt, vodkaredbull. Strákarnir í Pink Street Boys voru einna hressastir þarna í sullinu. Konsulat er fínt stöff sem Þórður Grímsson og Kolbeinn Soffíuson eru með. Næs instrumentalismi með vísanir í Martin Denny og Kraftwerk. Fín platan þeirra.

PSB drógu mig á einhvern nýjan fancy stað, Pablobar, en þeir fengu ekki að fara inn, það var bara eitthvað lið að éta þarna. Ég dró þá á Austur sem er hnakkastaður með fullu liði að dansa við eitthvað saxófón-house. Gott grín.

Aftur á Gauk. Sá aðeins Idles sem eru Bretar með 1900-skegg að spila hardcore. Ágætis drasl. Beliefs voru á Iðnó en alltof slów eitthvað svo ég nennti þeim ekki og reyndi að hella upp á mig í heimahúsi. Það var samt game over, ég var ekkert að komast í stuð, líklega af því ég tók pásu á milli forsetakampavínsins og fyrsta bjórs á Gauknum. Datt aldrei í almennilega ógæfu. Fór aðeins á Prinspóló í Gamla bíó. Prinsinn og Árni FM tóku arena-útgáfur af hitturum. Fínt en ég fíla bandið betur. Nennti ekki að bíða í röð á Hlölla svo ég gekk heim og nú er ég hér kl. 08:12 ótimraður og til í nýjan dag. Þar eru meðal hápunkta hinir finnsku PKN á Gauknum 23:30 og Dr. Spock og Ensími í Hard Rock kl. 22.