Sarpur | Antík RSS feed for this section

Djúsí auglýsing frá 1930

24 Ágú

13610071-page-0
Ú la la. Tímaritið Fálkinn birti þessa risaauglýsingu frá Hljóðfærahúsi Reykjavíkur 1930. Ef einhver á gólffón í mahognikassa sem hann vill losna við má hann endilega láta mig vita! (Smellið á myndina til að stækka)

Aðeins meira um sjaldgæfu plötuna

2 Mar

Óhætt er að segja að bloggið hér að neðan um hina fáheyrðu og sjaldgæfu plötu Utangarðsmanna hafa vakið athygli. Málið var tekið upp víða og stundum lögð smá rannsóknarblaðamennska í greinarnar. Ég skilaði plötunni til eiganda síns í Notað og nýtt í morgun og biðu þá tveir eftir að fá að handleika og skoða plötuna. Nokkur tilboð hafa komið, það hæsta upp á 100 þúsund kall.

Mike Pollock og Bubbi kannast lítið sem ekkert við málið og ekki Steinar Berg heldur. Sá sem gleggsta mynd virðist hafa af þessari dularfullu útgáfu er Jónatan Garðarson sem starfaði hjá Steinum á þessum tíma (1981). Hann skrifaði mér skömmu eftir að fréttirnar bárust:

„Málið er ekki alveg eins og Steinar og Bubba minnir. Það var Arnar Hákonarson, sem var með fyrirtækið Islandska Original Produkter, sem hjálpaði okkur hjá Steinum við að skipuleggja spilamennsku Utangarðsmanna í Svíþjóð. Guðmundur (pabbi Kalla Bjarna, sem er skrifað um í þessari Vísis-frétt) gerði slíkt hið sama í Noregi. Arnar var að flytja inn varning frá Íslandi en gaf líka út plötur, þám kvikmynatónlistina Escape from New York. Hann stofnaði Hot Ice útgáfuna í Svíþjóð og gaf út 45RPM á ensku í ágúst 1981. Það var PolyGram sem sá um dreifinguna, sama fyrirtæki og dreifði Þursaplötunum í Svíþjóð og hinum Skandinavíulöndunu. Það átti síðan að gefa út Radioactive með Outsiders og platan var sett í prufupressu. Það bárust eintök hingað til lands til samþykkis og ég fór með eitt eintak í diskótekið í Hollywood, sem fékk smá spilun en síðan ekki söguna meir. Platan kom út í takmörkuðu upplagi í Svíþjóð en þar sem Utangarðsmenn voru hættir var ekki ástæða til að gera neitt fleira. Platan er merkt Hot 1000, semsagt fyrsta stóra platan sem Hot Ice gaf út í Svíþjóð. Guðmundur í Osló kom ekki neitt að þessu máli og er alsaklaus af útgáfupælingum, en Arnar Hákonarson, sem lést allt of ungur, var ofurhuginn sem ætlaði að hjálpa okkur við að gera Utangarðsmenn að stórstjörnubandi í Skandinavíu.“

Jónatan segir að platan hafi komið út í „Mjög takmörkuðu upplagi,“ sem ég leyfi mér að efast um að sé rétt, amk þangað til ég sé eintak af plötunni! Fyrirtæki Arnars Hákonarsonar, Islandska Original Produkter, gaf vissulega út 7-laga EP plötu með Utangarðsmönnum (í sama umslagi og 45 rpm sjá hér)  og útgáfan IOP gaf líka út „Sönn ást“ með Björgvini á ensku á 7″ (sjá hér). Svo er test pressan af As Above (sem ég fann líka í Notað á nýtt) með Þey líka frá Arnari í Svíþjóð, en sú útgáfa leit aldrei dagsins ljós, ekki frekar en Utangarðsmannaplatan Radioactive (þótt Jónatan haldi öðru fram!)

Umræða hefur skapast um málið á facebook-vegg Arnars Eggerts þar sem menn segja það nánast óhugsandi að þessi plata hafi komið út – það hefði þá verið almenn vitneskja um málið, eitthvað um þessa plötu á netinu, eða einhver sem gæti komið með eintak af henni til að taka af allan vafa. Þar til annað kemur í ljós, leyfi ég mér því að fullyrða að eintakið sem dúkkaði upp á Smiðjuveginum er eina eintakið sem til er af plötunni.

Fréttamaðurinn Baldvin Þór Bergsson sem býr í Stokkhólmi fór á vettvang og skrifar á facebook-vegg Arnars Eggerts: „Ég talaði við hann Stefan hjá Nostalgi palatset sem er mikill snillingur. Hann kveikti strax á Utangarðsmönnum en kannast ekkert við Bubba. Nema hvað, hann mundi eftir EP plötunni og hélt greinilega að ég væri að tala um hana. Átti íslensku útgáfuna af Geislavirkir en ekki þá ensku. Varðandi EP plötuna sagði hann að hún væri alls ekki sjaldgæf í Svíþjóð og hann hefði verið með mörg eintök af henni í gegnum tíðina. Þannig að ráðgátan um Radioactive leysist ekki hér.

Smá viðbót. Miðað við hvað hann vissi mikið um Utangarðsmenn, útgáfuna í Svíþjóð og EP plötuna myndi ég gera ráð fyrir að hann þekkti Radioactive ef hún hefði farið í einhverja dreifingu.“

Svona standa málin núna.

Antík og skran

14 Nóv

Antíkmarkaðir og skransölur er þar sem aðalfúttið er. Að gramsa í gömlu dóti og borða góðan mat er það sem blívar í lífinu, svona þegar maður er ekki lengur fullur allar helgar og þunnur þess á milli. Ég hef gert sallagóð plötukaup að undanförnu. Hjá Rúnari í Kópavogi er allskonar gúmmilaði upp um alla veggi og út um öll gólf. Þar rakst ég á gott eintak af þeirri plötu sem hefur haft einna mest áhrif á mig, Prayers on Fire með The Birthday Party. Það var algjör uppgötvun að heyra þetta svona 1982 eftir að ég fann eintak í Safnarabúðinni. Ég þarf svo sem engin tvö eintök svo ég býð nú þessa plötu til sölu á slikk!

Í sömu hrúgu var plata með The Swell Maps, Jane from Occupied Europe, eðal lofi frá síðustu öld. Fjárfesti þar að auki í Örugglega með Bjögga Gísla og dýru útlendu plötunni með Ellý (með Hljómsveit Vic Ash). 78sn með Hauki Morthens þar að auki.

Nýlega var ég svo í eðal skúrnum hjá Kristbjörgu og Björgvini upp á Akranesi þar sem ég datt í lukkupott. Ekki aðeins fann ég ágætan slatta af 78sn plötum heldur líka Magic Key með Náttúru, Mandala með Trúbrot og Uppteknir með Pelican á góðu verði. Maður er hreinlega svamlandi í lukkupotti út í eitt.

Eins og allir vita er eina vitið að eta á veitingarhúsum í hádeginu þegar verðin eru viðráðanleg. Réttur dagsins á Sjávargrillinu var í gær hrefna og djúpsteikt svínasíða, svoleiðis lungnamjúkt hnossgæti að ég er enn með sleftauma minningana fyrir augunum. Geri aðrir betur á 2.190 kr.

Ég er í Fréttatímanum í dag að tala um heimildarmyndaþættina um íslenska dægurtónlist sem ég er að vinna að um þessar mundir. Það hefur alltaf verið stefnan að þetta verði bestu sjónvarpsþættir í heimi og verður hvergi kvikað frá þeirri stefnu. Þeir sem geta lagt hönd á plóg, vita t.d. um myndefni og annað dót sem gæti nýst eru hjartanlega velkomnir. Aðalvandamálið verður að troða þessari miklu og fjölbreyttu sögu í ramma 8 tæplega klukkutíma langra þátta, en það hlýtur að hafast.

drg-ft

Konni rokkar!

17 Júl

10436038_10204469743930543_8914748510085106494_n
Hér eru þeir Baldur og Konni að trylla lýðinn 1953. Baldur er eini búktalarinn sem hefur gert það gott hér á landi á og voru þeir félagar hott ætem í Tívolí. Eitthvað fór síðan að halla undan fæti og það hefur verið sagt mér að Baldur hafi verið á vertíð einhversstaðar örlí 80s og þá hafi Konni legið í tösku undir rúminu hans. Nú berast fréttir af nýju lagi með Stuðmönnum sem heitir einfaldlega Baldur og Konni og bíð ég auðvitað spenntur eftir því.

0213-Þrír góðir að skemmta, Baldur, Konni og Ómar Ragnarsson
(Á þessari mynd hefur Ómar Ragnarsson slegist í hópinn)
Þeir kumpánar Baldur og Konni gáfu út nokkur lög á seinni hluta fiftís, öll á vegum HSH, Hljóðfæraverslunar Sigríðar Helgadóttur. Sex 78 sn plötuhliðar komu með Konna og stórsöngvaranum Alfreð Clausen (Allir krakkar /Allir krakkar // Hurðaskellir og Konni 1/ Hurðaskellir og Konni // Búkolla í Bankastræti /Konni rokkar (syrpa) – allt 1957). 

Konni_og_Skapti_-_Í_sveitinni_-_A-hlið_-_umslag_-100p
Ári síðar kom þessi 45 sn þar sem Skapti Ólafsson var orðinn besti vinur aðal í lögunum Í sveitinni og Konni flautar. Þá var líka 2 lögum af 78sn smellt á 45sn, Búkolla og Allir krakkar.

Ég  keypti nýlega 2 af þessum 78sn plötum í Háaloftinu á Akureyri; Hurðaskellis-plötuna sem ég mun blogga þegar jólin koma og svo hið mikla meistaraverk Búkolla í Bankastræti og Konni Rokkar. Gjössovel:
0203-Konni og Alfreð Clausen. Baldur Georgs að öllum líkindum ekki langt undan
Alfreð og Konni – Konni rokkar

Alfreð og Konni – Búkolla í Bankastræti

Frá Akureyri til bruna

7 Júl

2014-07-06 20.26.40
Við vorum að koma heim frá Akureyri. Við „Flatus lifir“ í Kollafirði blasti þetta við. Myndin er tekin kl. 20:26 og er því meðal fyrstu mynda af brunanum. Ég fór á milli Ruv, Visir og Mbl í leit að upplýsingum en þar var allt á rólegu nótunum og bara eitthvað gamalt þrugl í gangi. Í hverju var kviknað? Spurði á Facebook og var vísað í Moggafrétt þar sem ekkert kom fram annað en að það væri „mikill eldur í Skeifunni“ (fréttin hefur síðan verið uppfærð). Kannski má því segja að Mogginn og Facebook hafi verið fyrst með fréttirnar í sameiningu. Mogginn hefur síðan skákað öðrum fjölmiðlum í myndrænni framsetningu enda með fljúgandi myndavéladrón á sínum snærum.
2014-07-06 20.40.03
Stórbruni er auðvitað stórfengleg nýlunda á tilbreytingalausu sunnudagskvöldi (enginn fótbolti og svona) og því hópaðist múgur og margmenni á vettvang. Við fundum engin stæði svo við fórum bara heim.

Akureyri var annars stórfín að vanda þótt við höfum aldrei áður lent í svona mikilli rigningu þar. Dabbi var á  N1 móti svo maður hékk mest á vellinum hinn sperrtasti soccer dad. Gátum samt kynnt okkur nokkur mathús: Kaffi Ilmur upp í hlíð við Hafnarstræti (aðal göngugatan með Amaro í miðjunni) er eðal kaffihús. Fengum okkur vænan og fínan löns, þorsk og súpur (1.990 kr).  Taste við Standgötu er nokkuð hnakkað pleis að upplagi. Svona la la kjúklingabitar, en ágætis díll í hádeginu. Nýjasta nýtt er Símstöðin í Hafnarstræti, svona safa og heilsupleis í „anda“ bæði Gló og Lemon. Fékk fína samloku og mentaðarfullt karamellu frappótjínó. Á veggjum eru myndir af helstu snillingum þjóðarinnar, þeim Laxnesi, Björk og Megasi.
2014-07-05 12.54.37
Dýrasta átið var svo hlaðborð í 1862, sem er í Hofi – 5.900 kr. Það var hið fínasta mál, glæstir forréttir, grillað kjöt og eftirréttir.

2014-07-05 14.34.35
Að sjálfssögðu var hinn klassíski Eyjafjarðar-rúntur tekinn með skyrís með íslenskum bláberjum (besti ís í heimi) í Holtseli og Jólagarðinum. Þar er nú komið stærðar hús með versluninni Tante Gretes Bakgard sem var áður í bænum. Þar er líka Eplaskúrinn sem selur gott jömm. Til að fullkomna Jólalandið ætti að koma upp Jólabarnum sem seldi jólaöl allan ársins hring. Þá gætu karlar hangið þar á meðan konur skoðuðu jóladót (hér er um svokallaða staðalímynd að ræða).

2014-07-05 16.08.08
Við fórum í Leikfangasafnið sem er rosa skemmtilegt og uppfullt af minningum (eins og sparibauknum Trölla), átum Brynjuís í öll mál og ég keypti tvær 78 snúningaplötur með Baldri og Konna í hinni frábæru fornbúð Háaloftið, sem er einmitt sniðuglega staðsett við hliðina á Brynjuís. Akureyri var því sem áður besta útálandið (ásamt Ísafirði, auðvitað).

Vélmenni á Akranesi

2 Feb

1604686_10201730206597097_706619759_n
Frábær Antíkmarkaður er á Akranesi, í bílskúrnum að Heiðarbraut 33. Opið í dag á milli 13-17. Heimsótt í gær. Við keyptum rauðan lampaskerm í eldhúsið, keramík-blómavasa og ég keypti 50 smáskífu-rekka á 200 kr. Það eru mjög hagstæð verð og rosalega mikið til. Langbesti svona heimahúss flóamarkaður sem ég hef komið í. Okkur var boðið inn til að skoða eintakt safn leikfangaróbóta frá 1950-1980. Einhver 500 stykki. Því miður var fingrafar á linsunni þegar ég tók þessa mynd:
velmenniaakranesi