Þá er ég loksins búinn með hana, lengstu bók sem ég hef lesið: „The Beatles: All These Years, Volume 1 – Tune In“ – hið mikla þrekvirki Marks Lewisohn, sem samt er bara fyrsta bindi af þremur. Bókin rekur Bítlasöguna fyrstu árin og hættir þegar árið 1963 gengur í garð og allt fer á flug. Þarna eru gríðarlegar upplýsingar um besta band í heimi á mótunarárum þess og stíllinn á þessu og stemmingin et mjög skemmtileg svo það er eiginlega hvergi á þessum 840 bls (+60 heimildaskrá) sem manni leiðist. Það er reyndar til önnur útgáfa af bókinni sem er helmingi lengri, en ég lét mér þennan doðrant nægja.
Myndin hér að ofan er í bókinni og er eina myndin sem er til af Bítlum og amfetamíni – eða „prellies“ eins og þeir kölluðu það í Hamborg. Á þessu lifðu þeir þar enda vaktirnar langar. Spurningunni „meig Lennon á nunnu“ er ekki algjörlega svarað en hann fór a.m.k. tvisvar á svið í Hamborg með klósettsetu um hálsinn – það er staðfest. Einnig kemur fram að Bítlarnir voru algjörir antí-sportistar svo svarið við hinni gömlu spurningu Héldu Bítlarnir með Liverpool eða Everton?, er: Þeim var drullusama.
Algjörlega frábær bók (það hjálpar náttúrlega að vera Bítilfrík) og ég bíð spenntur eftir næstu tveimur bindum (næsta væntanlegt 2020 – jæks!). Þessi Mark er nú alveg spes…
Þessa þarf ég að ná mér í engin spurning 🙂
Þessi bók kemur út á íslensku á fyrri parti árs 2015. Er í þýðingu sem er langt komin.