Reynsla mín af bílaverkstæðum

2 Maí

mechanic
Ég tók loksins bílpróf 37 ára gamall árið 2003. Fyrir þann tíma hafði ég bara ekki tímt því og komst vel án þess. En nú var barn á leiðinni og Lufsan harðneitaði að keyra sig sjálfa upp á Fæðó. Prófið hafðist og síðan hef ég verið sem Bjössi á mjólkurbílnum í gríðarlegri ökuhæfni. Í raun dauðsé ég eftir því að hafa ekki tekið prófið fyrr því það er stuð að keyra. Við höfum átt fullt af bílum, en ég man eftir fáum. Í þá gömlu góðu gat maður verið á glænýjum bílum á svokallaðri rekstrarleigu. Þá þurfti maður aldrei að spá í viðgerðir.

En svo kom svokallað hrun. Við héldum áfram að borga rekstrarleigubílinn á svimandi geðveikum myntkörfukjörum. Laus við það, snemma árs 2010, fengum við okkur núverandi bifreið, árg. 2003. Hún var bæði með spoiler og krók, nokkuð sem maður á alls ekki að kaupa bíl með, frétti ég seinna. Allt gekk vel framan af. Í ágúst fór ég til Patreksfjarðar til að Pönka á Patró. Þegar bílinn kom út úr ferjunni í Brjánslæk var hann snögglega svo kraftlaus að það var eins og hann væri í handbremsu. Þá var hið skelfilega gula vélaljós komið í fyrsta skipti og blikkaði eins og heimsendir væri yfirvofandi. Trausti var með mér og ungir synir okkar. Ég fór næstum að grenja, hringdi í karlmanninn á heimilinu sem sagði mér að keyra til Patreksfjarðar svo ég skrölti þangað, bíllinn alveg að skíta á sig.

Á Patró eru tvö viðgerðarverkstæði. Kallinn á öðru var upptekinn, var að fá menn „að sunnan“ til að skipta um þak hjá sér. Hinn gaf sér tíma til að kíkja á þetta, þótt það væri laugardagur og HM á fullu. Kveðinn var upp sá dómur að þetta væri annað háspennukeflið og það tæki nokkra daga að fá nýtt svona háspennukefli frá UMBOÐINU. Svartnættið helltist yfir mig, margra daga strand á Patreksfirði var framundan og allt í fokki. Fyrir einstaka tilviljun var vinur bifvélavirkjans á leiðinni til Patró á alveg eins bíl og mínum. Hann var til í að fórna sínu háspennukefli og bíða fyrir nýju frá umboðinu. Við komumst því suður í tæka tíð en ég þurfti náttúrlega að borga miklu meira fyrir háspennukeflið en ég fékk fyrir giggið.

Adam Ant var ekki lengi í The Ants því næst var ekki hægt að opna vinstri afturdyrnar. Það stóð allt pikkfast. Ég fór í UMBOÐIÐ og bílinn var tilbúinn í eftirmiðdaginn. Það er ekkert grín að vera bíllaus á meðan bíllinn er í viðgerð. Og helvítis vesen að koma sér fram og til baka af verkstæðinu. Djös bögg allt saman. Ég fattaði ekki að tékka á viðgerðinni fyrr en ég var kominn heim og það fauk dálítið í mig þegar ég komst að því að hurðin vinstra megin var alveg eins og áður, harðlæst og pikkföst. Ég snéri dálítið æstur í UMBOÐIÐ aftur. Eftir skoðun kom í ljós að það hafði verið skipt um læsinguna HÆGRA megin, sem var í fínu lagi, en ekkert átt við þessa ónýtu, VINSTRA megin. Jesús á teini! Hvernig er hægt að vera svona vitlaus? Þótt ég fengi loksins gert við rétta læsingu (að sjálfssögðu án aukakostnaðar) varð þetta til þess að ég fylltist réttlátri reiði í garð UMBOÐSINS og sór þess eið að versla aldrei við það aftur. Þar að auki er taxtinn hjá því mun hærri en hjá sjálfsstæðum verkstæðum.

Leið nú og beið og bíllinn var til friðs. Ekki lengi þó því hið andstyggilega gula vélaljósið kom aftur með ófögur fyrirheit um rándýrar verkstæðisferðir og almennt leiðindabögg. Ég fór með bílinn á verkstæðið Vélkó*. Þar var hann „tengdur við tölvu“ en það voru svo mörg „villuboð“ að þeir vissu ekkert hvað var að, kannski hvarfakúturinn, súrefnis-upptöku-bla bla, eða bleh bla. Ég man ekki hvað ég borgaði fyrir þessa „skoðun“ en þeir slöktu allavega á gula vélaljósinu.

Það kom aftur skömmu síðar og þá fór ég með bílinn á verkstæðið Bilaða bílinn hf*. Þeir tengdu bílinn við tölvuna sína og niðurstaðan var svipuð og áður, þetta gæti verið hvarfakúturinnsúrefnis-upptöku-bla bla, eða bleh bla. Jæja fokkessu gula vélaljósi, ég keyri bara með það, hugsaði ég.

Næsti hryllingur bættist við nýlega. Upp úr þurru fór mælaborðið að blikka STOP – BRAKE FAULT – SERVICE MANUAL!!! STOP!!!!! sem hefði kannski verið ókei ef ekki hefðu fylgt þrjú skerandi píp, eins og heimsendir væri í nánd. Þetta gerðist alltaf þegar beygt var til hægri. Nú fór ég með bílinn á verkstæðið ÞÚ BÍLSÓL*. Þar var allt sem tengdist bremsunum skoðað, dekkin rifin undan, vasaljósi beint á svæði og krukkað í drasli. Niðurstaðan var sláandi: Við fundum ekkert að bílnum, hann er líklega bara andsetinn. Já, andsetinn. Þessu til staðfestingar fór hann nú að skipta yfir á Bylgjuna þegar keyrt var yfir hraðahindranir og var þá fokið í flest skjól og lítið annað eftir en að keyra bílinn á haugana.

STOP – BRAKE FAULT – SERVICE MANUAL!!! STOP!!!!! dundi nú á okkur með tilheyrandi pípi í nokkrar vikur og alltaf oftar og oftar. Þegar þetta ástand var orðið viðvarandi, lúffaði ég, greip í síðasta hálmstráið og fór í UMBOÐIÐ. Þar var bíllinn tekinn út í hálftíma forskoðun. Niðurstaðan var fáránlega einföld: Pípin og STOP – BRAKE FAULT – SERVICE MANUAL!!! kom vegna þess að það vantaði bremsuvökva og gula vélaljósið var tilkomið vegna þess að kominn var leki í súrefnisupptökuslönguna, eða öndunarslönguna, eins og verkstæðiskarlar kalla þetta stundum líka.

Afhverju datt ÞÚ BÍLSÓL* ekki í hug að tékka á bremsuvökvanum!? Og hinir á þessari slöngu? Þetta er ótrúlega léleg frammistaða og mega fúsk.

Mín reynsla af bílavekstæðum segir mér því þetta: Eina vitið er að skipta við UMBOÐIÐ. Þeir eru kannski dýrari en gera þó allavega við helvítis bílinn. Þótt það geti komið fyrir að þeir skipti um læsingu á rangri hurð!

(* Nöfnum hefur verið breytt til að hlífa verkstæðum við að verða að almennu aðhlátursefni með tilheyrandi atvinnumissi. Það eru jú yfirleitt mjög fínir karlar á þessum verkstæðum. Meðvirkni? U, já.)

7 svör to “Reynsla mín af bílaverkstæðum”

  1. Kristján Valur Jónsson maí 2, 2013 kl. 10:08 f.h. #

    Júbb, bílaverkstæði eru orðin léleg, og viðgerðarkallarnir þar bólugrafnir unglingar sem stinga bílnum í samband og lesa bilanakóða. Vita annars ekki sitt rjúkandi ráð.
    En þeir gætur skipt um viftureim og ribber og svona ef þeir væru beðnir um það.

  2. fridrik indridason maí 2, 2013 kl. 10:35 f.h. #

    ég fékk mér bíl í fyrra eftir áratugahlé á slíkri eign. síðan hef ég þurft að leita með bílinn á verkstæði enda kominn nokkuð til ára sinna. ég hef ætíð notað bíljöfur í kópavogi því þeir pottþéttir og mjög hagstæðir í verðlagningu sinni. og þar eru engir unglingar í vinnu svo ég viti til.

  3. Ingimar maí 2, 2013 kl. 10:42 f.h. #

    Það ekkert eðlilegt við það að það vanti bremsuvökva í bíl. Þannig að það er mjög líklegt að eitthvað annað sé að sem olli því að hann vantaði. Gæti t.d. verið leki í bremsudælu eða annars staðar í bremsukerfinu.

  4. Heimir H. Karlsson maí 2, 2013 kl. 12:28 e.h. #

    Dr. Gunni.
    Ansi skemmtilega skrifuð frásögn, eins og margt annað á þínum vegum.
    Ég gæti skrifað langan pistil um ókosti nútíma bifreiða, mælaborð sem loga eins og heimskortið hjá herráði Bandaríkjanna við kjarnorkuárás, og bólugrafna unglinga með bilanagreinitölvur.
    Vandamál við nútímabílaeign er, að bílarnir eru of flóknir, of tölvuvæddir, ekki byggðir til að endast, þeir eru orðnir neysluvara, eins mjólk og brauð.
    Auk þess vantar almenningssamgöngur á íslandi.
    Það er orðið svo dýrt að láta gera við bíl á verkstæði, að það liggur við að það borgi sig að leigja almennilegt viðgerða/geymlsupláss og læra að gera við sjálfur.
    En slikt gerir maður ekki við nútíma tölvuvædda bila.
    Mig grunar, að þú myndir frekar nýta tilfallandi húsnæði undir eithvað tónlistartengt, en bílaviðgerðir.

  5. Kristinn J maí 2, 2013 kl. 4:36 e.h. #

    Dr. Gunni. Ég hef tilfynningu fyrir því að þú sért ekki í góðum málum. Hvað varðar bremmsuvökvan þá er um lokað bremsukerfi að ræða og það á alls ekki að geta vantað bremmsuvökva á safnhólfið nema bremsukerfið leki einhverstaðar eða bremsudæla/ur að gefa sig og eða annar búnaður er viðvíkur bremsukerfinu

    Þar sem brensuvökvi gufar ekki upp við neinar kringumstæður þá hefur verið eitthvað „fiktað“ við safnhólfið eða leki í lokaða bremsukerfinu eins og áður sagði.

    Endilega láttu yfirfara bremsukerfið í heild, svo þú verðir ekki bremsulaus þegar síst skyldi.

  6. snorraberg maí 2, 2013 kl. 8:20 e.h. #

    Er ekki bara málið að rekstrarleigja bíl hjá Hertz. Ef bíllinn bilar er það ekki þitt mál og þú færð annan bíl á meðan þinn er í viðhaldi. En mjög skemmtileg lesning.

  7. Andri maí 3, 2013 kl. 12:27 f.h. #

    Þegar bremsuborðar slitna þá lækkar í forðabúrinu svo það getur verið ástæðan.
    Annars ættir þú að fá þér aðra tegund næst Gunni. Ég mæli með subaru. Það er satt að bílar eru allt of flóknir í dag.

Færðu inn athugasemd