Sarpur | Útivistarmont RSS feed for this section

Þrjú fjöll

22 Ágú

Í sumar höfum við félagarnir gengið á þrjú fjöll. Við byrjuðum alltof seint, en nú eigum við brodda, svo faktískt getum við gengið árið um hring. Ef maður heldur þessum dampi ætti það að ganga eftir.

skjaldSkjaldbreiður (1066 mys) er sögufrægt ferlíki í Kaldadal. Eins og tröllskessubrjóst á hvolfi sem einhver hjó af. Eða kannski bara skjöldur. Upp á topp og 2ja tíma hjakk á grófu undirlagi. Enginn gróður að marki, bara möl, grjót og snjór. Auðveldast að fara yfir snjóinn. Uppi er risastór gígur sem hægt er að ganga hring um og sjá stórkostlegt útsýni í allar áttir. (3/4)

seljaSeljafell (571 mys) á Snæfellsnesi er fáfarið. Við höfðum það út af fyrir okkur. Þrír tindar eru á því, magnaðastur er Geirhnúkur sem er eins og geirvarta í laginu, en illkleifur svo við gugnuðum á því. Af Smjörhnjúk, hæsta tindinum, er stórkostlegt útsýni yfir allt nesið og bæði til Breiðafjarðar og Faxaflóa. Uppgangan er upp grasivaxna hlíð og ekki mjög krefjandi. Þegar upp er komið er létt tölt á milli tinda. Ágætis dæmi (3/4).

Eftir gönguna áðum við í Stykkishólmi, fórum í sund og átum í tveimur matsöluvögnum sem eru við höfnina (takk túristar). Annar selur fish & chips, hinn ís og allskonar. F&C með brakandi ferskum karamellu-frappósjínó var geggjaður endir á góðri ferð.

3hyrnÞríhyrningur (675 mys) í Fljótshlíð er glæsilegt fjall sem blasir við á leiðinni austur undir Eyjafjöll. Þetta eru söguslóðir Njálu, en Biggi reyndi hvað hann gat að kveikja áhuga okkar á Íslendingasögunum. Aldrei að vita nema maður sökkvi sér í þær, ég byrja allavega á trílógíu Einar Kárasonar. Fjallið er ekki erfitt, en reyndar í brattari kantinum svo maður fékk væga strengi. Útsýnið er geggjað en þokuslæðingur fokkaði því aðeins upp – Eyjafjallajökull blasti við okkur og það sást glitta í Þórsmörk, fegursta stað á Íslandi. Í andagtugt las Trausti Gunnarshólma eftir Jónas Hallgrímsson á toppnum. Þverhnípt er niður og hlíðarnar grasivaxnar svo þetta er allt hið tilkomumesta á að líta. Engan hittum við á leiðinni svo við áttum Þríhyrning í gær. (4/4)

Fljóthlíðin er ferlega flott svæði, ég hafði aldrei komið þarna áður. Gluggafoss, Nínulundur, Hlíðarendi. Við rúntuðum um slétturnar miklu í Landeyjum, sem eru hillbillíaðar og minna á USA. Tékkuðum á Bergþórshvoli. Át svo fínan þorsk í Eldstó café á Hvolsvelli og eftirrétturinn í Huppuís á Selfossi („Draumurinn“ er glæsilegur bragðarefur) Ó sú drottins náð heppni að vera á lífi og eiga heima á Íslandi.

Meira fólk takk

12 Ágú

Margir væla nú undan túristaflóði. Hreinræktaðir Íslendingar þurfa jafnvel að standa í röðum á eftir skítugum túristum. Þetta vomir á öllum gatnamótum húkkandi far og eyðir ekki krónu í annað en fáránlega ferð í Bláa lónið, aka Drullupytt Satans.

Við þessa vælverja segi ég: Farið til Þorklákshafnar ef þið viljið endilega vera þar sem ekki sést sála á götunum. Ég man alveg þegar Reykjavík var eins og Þorlákshöfn. Maður fór kannski á einhverja drepleiðinlega mynd í MÍR klukkan 14 á sunnudegi, kom svo út og gekk um göturnar þar sem ekki hræða var á ferð; í mesta lagi nokkrir að rúnta niður Laugarveginn inn í bílum. Það var fjúk og doði. Það er engin eftirsjá í Íslandi fyrir túristaflóð. Alls engin. En það má náttúrlega reyna að koma böndum á átroðning í viðkvæmri náttúru og ótrúlegt að það sé ekki búið að koma einhverju skikki á það allt saman.

Ég fagna túristagerinu. Þar sem er fólk þar er líf. Maður er manns gaman. Og svo er þetta flest stórskrýtið fólk því það þarf að vera smá klikk til að nenna að koma hingað. Skrýtið er gott.

Ég legg mitt á vogarskálarnar. Tók ungt franskt par upp í á leið suður á ATP og skutlaði á flugvöllinn. Þar ætlaði það að gista um nóttina. Fólkið hefur væntanlega ekki skilið mikið eftir í þjóðarbúinu, tímdi ekki einu sinni að fara í Blúlagún. Lét þó vel af landi og þjóð þótt það hafi verið rigning og rok allan tímann sem það var hér.

Við Kristján Freyr gengum á hæsta fjall Vestfjarða í síðustu viku, Kaldbak (998 m), sem er í miklum fjallasal sem innfæddir kalla Vestfirsku alpana. Á leiðinni inn Kirkjubólsdal keyrðum við fram á franskan líffræðakennara sem við tókum umsvifalaust upp í. Reyndist hún líka ætla á Kaldbak og urðum við bara samferða. Hún var að koma til skersins í annað sinn, en hafði áður farið fjölda ferðir til Benin í Afríku og lifað á steinaldarstigi meðal innfæddra. Greinilega stórskrýtin. Hér virtist hún aðallega flengjast á fjöll og ætlaði næst að þramma um Hornstrandir. Fínt var að hafa Celine með, ræðin og skemmtileg og hægt að nota hana sem ljósmyndara þegar við Kristján stilltum okkur upp á tindinum. Svo var hún með æðislegt lífrænt hnetusnakk frá Frakklandi sem hún veitti ótæplilega af. Ég benti henni á krækiber, sem hún kannaðist vel við úr fjalllendi í Frakklandi. Ég gat æft mig í frönskunni og datt í hug að ég ætti að fara á námskeið og dusta rykið af þessu. Svo fór hún bara í tjaldið sitt á Þingeyri. Hér blása Celine og Kristján Freyr úr nös á leiðinni niður:
2014-08-07 12.57.03

Galtardalur 2014

4 Ágú

Verslunarmannahelgin hefur enga þýðingu fyrir mig enda er ég löngu hættur að æla í augun á mér fyrir utan tjald (Þjórsárdalur 1981). Hvað þá að það séu stelpur að kíkja á mig að kúka á kamri (Hápunktur Þjórsárdals 1981) eða að Fótbolta-Magga sé á túr og slóðin sé eftir hana um allt tjaldsvæði (Þingvellir 1981). Hvorugt var þó skipulögð útihátíð heldur tóku sig bara krakkar til og hópuðust á blett til ofurdrykkju. Maður stóð nokkuð í þannig.

Ég var náttúrlega að spila í Viðey 1984 (3 mættir í tjaldi) og svo keyrðum við hringinn í framhaldinu og komum til Atlavíkur á mánudag. Þar var eins og eftir ebólafaraldur og einn dró tjaldið á eftir sér og sagði: Komdu hvutti, komdu.

Svo man ég ekki meira fyrr en á Húnaveri 1991 þar sem Bless spilaði og ég og Biggi Baldurs fórum upp á svið með SSSól og sungum bakraddir í Honky Tonk. Mjög gott stuð.

Núna vorum við í bústað í Galtardal með Ylfu og Halla. Stutt til Flateyrar þar sem ég keypti brandarabækur frá 6. áratugnum í Gömlu bókabúðinni. Á Holti var haldin hin árlega sandkastalakeppni. Minnst um kastala svo sem en margar hafmeyjur og allskonar skrýmsli. Hér er frumlegasta verkið:
2014-08-02 16.10.37
Það vann þó ekki heldur sá sem gerði merki Flateyrar úr sandi (ósanngjarnt).

Ég brá mér upp á fjallið sem blasir við sumarbústaðnum, Bakkafjall (746 m). Þar efst er Mosvallarhorn, sem er ansi ægilegt á að líta.
2014-08-03 11.58.23
Til að mýkja beinin eftir þessa þrekraun fór ég í sundlaugina á Flateyri sem er slappasta laugin á Vestfjörðum með la-la laug og heitum potti í sumarbústaðastærð. Ekki var talið áhættandi að fara í aðrar betri laugar (Bolungarvík/Suðureyri) fyrir drulluskítugum og þunnum Mýrarbolta-lýð. Ég þurfti náttúrlega að setjast í brotinn plaststól á sundlaugarbakkanum og hlunkast niður með braki og brestum þegar hann brotnaði undan mér. Öllum fannst þetta voða fyndið en ég fékk heiftarlegan sinadrátt í fallinu. Hvergi er boðið upp á kalt vatn í þessari eymdarlaug, sturturnar eru handónýtar og enginn bekkur fyrir utan. 0 stjörnur!

 

Skagafjörður er frábær!

23 Júl

2014-07-21 17.53.27
Við Birgir skruppum til Skagafjarðar. Þar er umhorfs eins og á plötuumslagi með Helga Björns og Reimönnum vindanna, fnæsandi hestar um allar trissur. Þetta sáum við á öðrum degi því á þeim fyrsta sáum við bara þoku. Í brauðmolasundlauginni á Hofsósi sáum við því miður ekki hið fræga útsýni yfir Skagafjörðinn heldur bara þoku. Á Sauðárkróki átum við á Kaffi Krók (ég fékk ágætan skammt af grilluðum kótilettum) og helltum aðeins í okkur á Micro Bar & Bed þar sem Hugleikur er upp um alla veggi og hægt er að kaupa 80 tegundir af bjór, þ.á.m. ýmsar tegundir af
Gæðingi, lókal stöffinu. Svo að sofa í tjaldi.

2014-07-21 10.28.21
Þokan farin um morguninn. Morgunmatur í bakaríinu og svo litið í Verslun H. Júlíussonar þar sem Bjarni Har ræður ríkjum. Búðin  hefur verið starfandi síðan 1919 og þar er stórglæsilega fornlegt innandyra. Tveir lókal meistarar voru á svæðinu, bara til að rabba um daginn og veginn sýndist manni, og var þessi upplifun öll hin stórfenglegasta. Birgi bauðst m.a.s. vinna við að tala ensku við erlenda gesti og ég var næstum búinn að kaupa gúmmískó, en þeir voru bara til í 44.

2014-07-21 15.37.13
Yfirlýst markmið ferðarinnar var að labba á Mælifellshnjúk (1147 m), eitt besta útsýnisfjall landsins að sögn. Leiðin er stikuð og sóttist vel. Á leiðinni fundum við Finn Ingólfsson, sem var að koma niður í ferðahópi. Við gleymdum umsvifalaust að við hötum Finn Ingólfsson og buðum góðan daginn. Birgir hafði á orði hvað hann væri orðinn massaður, líklega til að geta varið sig í eftirköstum hrunsins. Helvítis þokan var lögst á aftur svo við sáum ekki þetta magnaða útsýni, sjö jökla og 70 sýslur eða hvað þetta er, en frábært labb engu að síður.

2014-07-21 18.36.53
Við vorum með lókal skúbb um leynilaug á bakvið foss, Fosslaug, sem var hreinlega unaðsleg. Þetta er svo mikil öndergránd laug að hennar er ekki getið í heitu lauga bókinni sem ég á. Rétt hjá er líka Reykjafoss sem er glæsilegur foss. Grettislaug er víst orðin of kommersíal, búið að byggja við hana og byrjað að selja inn, svo þessi var málið. Átum síðan á Bakkaflöt (Tómatsúpu), en þarna gengur allt út á river rafting, að flengjast niður gráar og straumþungar Jökulsárnar, sem er eitthvað sem ég mun aldrei þora.

2014-07-21 21.43.31
Næst lengst inn í dal til að tékka á Bakkakoti, torfbæ sem pabbi ólst upp á í rafmagns- og þægindaleysi. Þar voru ræturnar vökvaðar og reynt að lífða staðinn við í huganum; fara aftur um 80 ár og ímynda sér krakka á hlaupum og stritandi fólk.

2014-07-21 22.00.15
Rétt hjá rennur Jökulsá vestri. Þar á bakkanum er heit uppspretta þar sem amma og kó þvoði fötin. Það var allt eitthvað svo mikið mál í gamla daga, engin þægindi, en á móti kom að fólk virðist ekki hafa verið að stressa sig neitt á einhverju kjaftæði. Geðlyfjanotkun því minni en nú.

2014-07-21 22.07.18
Gamall Chesterfield sófi er þarna líka og má muna fífil sinn fegurri (þótt fíflarnir í honum hafi reyndar verið mjög fagrir).

Sauðárkrókur og Skagafjörður er alveg hreint frábært stöff (þrátt fyrir hesta og Skagfirðinga (sem voru reyndar allir mjög elskulegir)) og maður er endurnærður og upprifinn eftir þessa fínu ferð.

Fimmvörðuháls í úrhelli

16 Júl

10455570_10152150749936930_6254796189193230395_n
Það er ekki laust við að maður sé með harðsperrur. Gekk nebblega Fimmvörðuháls með amerískum vini mínum á mánudaginn. Þetta var í þriðja sinn sem ég fer FVH, fyrsta skipti eftir gos. Ég var eini Íslendingurinn í rútunni til Skóga (3.600 kr). Veðrið var ágætt í byrjun. Fossaröðin í Skógaá er ansi stófengleg og það var ekki laust við að ég fylltist þjóðernisstolti við að ganga um þennan konfektkassa með fulltrúa útlanda.

10524326_10152150752451930_6369969511595041928_n
Svo komum við að brúnni og þá tók auðnin við ásamt hamfararigninu. Það svoleiðis hamraði á okkur bleytan. Þegar við komum í nýja skála FÍ á miðri leið fengum við að fara inn og hlýja okkur. Það var allt gegnsósa. Ég hellti úr gönguskónum mínum svona lítra af hverjum fæti. Skálavörður, kona með hund, var ekkert nema almennilegheitin og gaf mér tvo plastpoka til að skella á bífurnar. Ég tek fram að ég var í háklassa leðurgönguskóm, það bara skipti engu máli hvernig maður var undirbúinn á löppunum, það lak allt niður með löppunum og blotnaði. Ókei, ég hefði átt að taka hlífðarboxurnar mínar með.

Ekkert annað að gera nema halda áfram. Það hamraði á okkur þar til við vorum komnir yfir Heljarkamb. Sem betur fer var enginn vindur og þokkalega heitt svo maður hafði það bara ágætt í sinni albleytu. Norsku ullarnærfötin gerðu sitt gagn og goretex anórak frá Millet, en einhverjir hanskar sem ég keypti í Regatta á 3000 kall voru bara sósa. Hefði betur splæst í hanska á 20.000 í einhverri fansí búð. Á leiðinni var snjóskafl sem lítur út eins og fiskur:
2014-07-14 13.48.08
Í þetta þriðja skipti fannst mér allt miklu styttra og auðveldara en áður. Einstigið Kattarhryggir voru t.d. algjört pís of keik. Við vorum 10 tíma að þessu enda vorum við ekki í neinu kapphlaupi. Gistum í Básum, sem er besti og skemmtilegasti skálinn í paradísinni Þórsmörk (4.500 kr nóttin). Þarna voru fleiri Íslendingar en útlendingar og allir í mjög góðum fílingi enda ekki annað hægt. Bakpokarnir okkar voru gegnsósa en svakalega almennileg kona sem gegndi starfi skálavarðar lánaði okkur svefnpoka og teppi enda var maður kominn með skjálfta þegar hér var komið við sögu. Djöfull var gott að fá sér pokamat og sígarettu eftir þessi ósköp, enda allt best sem kemur eftir harðræði. Daginn eftir fór rúta í bæinn kl. 07:20 (7.500 kr) og maður svaf megnið af leiðinni. Stórfengleg  ferð þrátt fyrir rigninguna, eða e.t.v. vegna hennar.

(Myndir: Bryan Riebeek)

Upp á þrjú fell

23 Jún

Ég hef nýlega drifið upp á þrjú fjöll, sem öll heita fell þó þetta séu nú engin aumingjafjöll og ættu frekar að heita fjöll en fell.
Geitafell
Geitafell (509 m) er í Grafningnum. Formlaus haugur sem nokkurn tíma tekur að labba á, bæði að fjallinu og upp skriður þess og svo eitthvað hjakk uppi á hæðsta punkt. Útsýni um Reykjanesið og Suðurland ágætt, en ekki mjög spennandi fjall. Gott að það sé „búið“.

Kvigindisfell
Kvígindisfell (783 m) er í Kaldadal. Upp á topp er stikuð leið sem alltaf er ágætis mál því maður er alltaf smeikur um að lenda í einhverju rugli. Þétt labb og gott útsýni, m.a. yfir Súlur, Þingvelli, Hvalvatn og alla jöklana í Kaldadal. Kvíginsfellið er næs.

Bláfell
Í gær var svo skölt á Bláfell (1204 m), sem er töff sjitt á Kili, nokkru eftir Gullfoss. Þriggja tíma labb upp á topp. Þar er skúr og endurvarpsmastur og stórgott útsýni yfir Langjökul, Hvítárvatn og allt þetta stöff. Í betri skilyrðum hefði eflaust verið hægt að sjá víðar. Víðmynd sýnir dýrðina:
2014-06-22 16.06.26

Um tíma á leiðinni sá maður fyrir sér hættur á snjósköflum efst og tilhugsunin um að kjúklinga-út skaut sér að manni, en sem betur fer þrjóskaðist maður við og náði að toppa. Það var auðvitað minna mál en maður hélt = ALLT er minna mál en maður heldur og því er fjallganga góð til að minna mann á það og lækna af aumingjaskap.

Í göngunni á Kvígindis- og Bláfell var allt vaðandi í smáflugum sem gerðu manni lífið leitt. Ég hef ekki tekið eftir svona flugnaböggi áður, kannski eru skilyrði svona góð núna fyrir kvikindin?

Bláfellsgöngu var fagnað með humarsúpu á Café Mika, Reykholti; hamborgara „með öllu“ í Pylsuvagninum, Selfossi og ís í Huppu, Selfossi. Allt var meiriháttar.

Nýtt líf á mannbroddum

1 Jan

2014-01-01 11.45.38
Alltof lengi hef ég verið haldinn hálku-fóbíu og varla hætt mér úr húsi, hvað þá upp á fjöll þegar helvítis hálkan leggst á. Stóran hluta ársins hefur því fjallamennska legið í hýði. Við þessu er ráð: Mannbroddar. Ég fór í Vesturröst fyrir jól að áeggjan Bigga Baldurs og keypti mér Snowline Pro mannbrodda á 8900 kall. Ég prófaði broddana áðan í Öskjuhlíðinni og hreinlega þaut um klakabúnkana á meðan fólk var dettandi allt í kringum mig eða hreinlega skríðandi um. Hvílík snilld! Ég gerði m.a.s. videó. Á morgun: Helgafell!

Klöngur á Hornströndum

15 Ágú

Í fyrra fórum við félagarnir frábæra ferð á Hornstrandir, gistum tvær nætur í tjaldi í Látrum, röltum upp á Straumnesfjallið og skoðuðum hálfrar aldar gömul mannvirki Kana sem reist voru í paranojukasti í Kalda stríðinu. Sú ferð var ekki síst góð vegna þess að það var gott veður allan tímann. Í ár var veðrið miklu leiðinlegra og því ferðin ekki eins góð. Gott veður er bara svo mikið atriði í svona ferðum. Í þokusuddanum núna létu menn sig dreyma um miklu meiri lúxus í næstu ferð.

Eins og síðast byrjaði þessi ferð á Hesteyri þar sem þetta eðalfólk birtist eins og skrattinn út sauðalegg Skotlands, Arnar og Móa!
0001
Þau héldu áfram í rómantík en við harðjaxlarnir í göngu- og útivistarsamtökunum Blómey töltum sem leið lá til Hlöðuvíkur. Stefnt var á Kjaransvíkurskarð, fyrsta, en ekki síðasta skarð ferðarinnar. Klöngrast var yfir klöngur og stuðst við stíga og vörður. Þetta þema var allsráðandi í ferðinni: Klöngur 2013.
00002
Þarna glittir í skarðið sem klöngrast var að og yfir. Eftir það lá leiðin niður í Kjaransvík (allt vaðandi í rekaviði þar, eins og víðar) og á tjaldsvæðið í Hlöðuvík. Ég lá sárfættur í tjaldinu mínu með mína traustu Crocs. Skimaði út í tómið og vonaði að göngufélagarnir væru að koma.

0000003
Næsta morgun komu þeir loksins og í ljós kom að þeir höfðu gefist upp í Kjaransvík og tjaldað þar. Áfram var klöngrast og næst yfir hinn skaðræðislega útlítandi Skálarkamb. Mér féll næstum allur ketill (Larsen) í eld þegar hann blasti við daginn áður, en nú var sem betur fer þoka yfir kambinum svo ferlíkið sást ekki í fullri reisn. Auðvitað var þetta svo minna mál en maður hélt, eins og svona dæmi eru oft (og almennt flest í lífinu sem maður hefur áhyggjur af). Áfram klöngrast yfir Atlaskarð, yfir lofthræðsluhvetjandi fjörubakka og loks í Hornvík, sem er perla svæðisins með hressum landverði, gæfum refum og vatnssalerni.
0000005
Þar gistum við í þokusagganda í tvær nætur og kepptumst við að halda á okkur hita. Nenntum ekki meira á frídeginum en að rölta eftir fjörunni (dauður háhyrningur!) og gera misheppnaðar tilraunir til að veiða eitthvað. Ég hafði nefnilega láta senda mér einnota grill á staðinn til að grilla allan aflann, en sem betur fer pylsupakka líka, ef illa færi við veiðar. Hér má sjá aðstæður: Menn norpa við prímusinn.
00009
Mun skárra veður fjórða daginn, þegar klöngrast var að og yfir Hafnarskarð og niður í Veiðileysufjörð. Þar gistum við fjórðu nóttina og vorum sóttir á báti næsta morgun.

Hvað sem hver segir er svona klöngur æðisgengið, a.m.k. þegar það er yfirstaðið og svo í minningunni. Allt er betra í minningunni, æ gess. Náttúrlega geðveikt flott á köflum þetta svæði:
000006

0008
Í smá klöngurpásu.

Og svo auðvitað kort yfir leiðina:
korthornbs

Blómey kannar Reykjanes

21 Maí

Göngu- og útivistarfélagið Blómey hóf 12. starfsár sitt í gær með nettri Reykjanes-ferð. Gengið var á tvö fjöll/fell, sem þó ná þeim árangri að komast í biblíuna Íslensk fjöll eftir Ara Trausta Guðmundsson og Pétur Þorleifsson. Festarfjall er skreppifjall rétt fyrir ofan Grindavík. Uppi var skítaveður enda grámyglað hafið beint af augum. Sýrfell hjá Reykjanesvita er annað skreppifjall og mun betra veður þar. Það lítur svona út:

DYolPh5wSvAevOvV8P7HYPpNLqLRgFQNpfbk05IOMME
Á leiðinni upp á Sýrfell var aðallega rætt um heimildamyndina If it ain’t Stiff, sem fjallar um Stiff Records útgáfuna (gaf út Ian Dury, Elvis Costello og fleiri meistara). Myndina má nú sjá á Youtube

AWyst_ChMgtq5rZyy2vPztxRgTPM7UyJvyS8BPPuxWs
Í hinum mikla menningarbæ Grindavík rákumst við á fallegt hús með allskonar steinum og beinum í garðinum. Fórum að skoða sem endaði með því að ábúandinn Þórdís Ásmundsdóttir bauð okkur inn og í kaffi. Þórdís er gríðarlegur safnari og á m.a. 12.000 penna. Hún safnar að auki steinum sem hún hefur aðallega fundið fyrir austan (hún og hin landsfræga Petra (Steinasafn Petru) voru vinkonur og söfnuðu steinum saman), barmmerkjum, bollum og allskonar dóti. Innlitið var bæði fræðandi og skemmtilegt. 

Því miður er ekki búið að opna Guðbergsstofu (það gerist um Sjómannadagshelgina). 

Nýir gönguskór

1 Mar

Lomer_Pelmo_STX_12
Eitt af því gáfulegasta sem ég hef gert um dagana var að kaupa mér gönguskó. Ég keypti par af ítölsku tegundinni Lomer í einhverri skammlífri verslun í Héðinshúsinu. Nú er ég búinn að eiga þessa skó í rúmlega tíu ár og þeir hafa dugað frábærlega á Fimmvörðuhálsinn tvisvar sinnum, Laugaveginn, Hornstrandir og allskonar fjöll og fyrnindi. Tíu ár er svaka ending og því varð ég ekkert fúll þótt það færi að bera á smá vatnsleka í fyrra. Ekkert að gera í því nema fá sér bara nýja skó.

Vitaskuld fann ég mér aftur skó af tegundinni Lomer. Þeir fást hjá Útivist á Laugavegi 178 og það sem er frábærast er að þeir eru á geðveikt góðu verði eða 32.600 kr – sem sagt tegundin hér á myndinni að ofan, Lomer Pelmo, sem er allra handa fjalla og fyrninda skótegund. Það er sami sóli undir þessu og á hinum meinta Rolls gönguskóbransans, Scarpa skónum, en par af svoleiðis er farið að slaga hátt upp í 60 þúsund kallinn.

Ég mæli eindregið með Lomer! Ódýrir og rosa fínir.

Enívei. Rakst á þetta þegar ég gúgglaði radarstöðina á Straumnesi. Þarna var Sigur Rós að spá í að byggja stúdíóið sitt áður en þeir fundu sundlaugina í Mosfellsbæ.