Sarpur | Úr glatkistunni RSS feed for this section

Nick Cave á Íslandi 30 ára

19 Okt

cave3
Í dag eru liðin 30 ár síðan Nick Cave & The Bad Seeds spiluðu í Roxzý, sem nokkru áður hafði heitið Safarí og átti enn síðar eftir að heita Casablanca. Þetta var aðalpleisið í Áttunni og tók við af Hótel Borg sem musteri öðruvísi liðsins. Þetta var bölvuð hola á Skúlagötu, við hliðina á þar sem Kex Hostel er í dag (dyrnar til vinstri). 

Ég var sem sé kominn til Lyon í Frakklandi þarna í október 1986 og heyrði fyrst í fréttunum af leiðtogafundinum í Höfða. Allt í lagi að missa af því, hugsaði ég. Skömmu síðar komu stórtíðindin, Nick Cave var að koma og átti að spila. Ég var auðvitað eyðilagður að missa af þessu, að vera fastur í Frakklandi með baguette og „Mónakó“ á kantinum. Mér fannst bjór svo vondur að ég lét setja grenadín út í og sú blanda heitir Mónakó. Þá loks kom ég þessu niður.

Ég heyrði af þessu síðar. Að Cave hefði verið geðveikur læf og að einhver hefði brotist inn í skip til að redda honum morfíni svo meistarinn hefði eitthvað. Hann var náttúrlega í bullandi rugli á þessum tíma, heróín og svona. Grammið átti glæsilega innflutningsþrennu 1986. Einsturzende Neubauten og Crime & The City Solution höfðu báðar spilað í Roxzý og S. H. Draumur hitað upp á báðum tónleikum. Við hefðum líklega hitað upp fyrir Cave líka ef ég hefði ekki verið þessi fáviti að fara til Frakklands. En hvernig átti ég að vita að Nick fokking Cave væri á leiðinni?

Steini gítarleikari var allavega mættur. Hæ Steini:
cave2

Myndirnar hér að ofan eru skjáskot úr kvikmyndaefni sem tekið var upp á tónleikunum. Þetta er til og vonandi verður það sett á netið sem fyrst. Auk tónleikaefnis er viðtal sem aumingja Skúli Helgason tók við snubbóttann Nick. Skúli spyr ýmsra gáfumannapopplegra spurninga sem Nick Cave hefur engan áhuga á að svara og flissar og snýr út úr öllu. Frekar óþægilegt á að horfa. En gott í sögulegu samhengi að sjá poppara gefa skít í dauðan og djöfulinn – það er eitthvað svo sjaldgæft í dag þegar popparar eru meira og minna auglýsingastofur fyrir sjálfan sig, alltaf „eager to please“. Sæl að sinni.

cave1

Hengjum Bubba og Dylan

16 Okt

Mikið er ég búinn að sakna þess þegar menn kýttu um há- og lágmenningu. Þessi forna skemmtun hélt ég að væri aflögð í póstmódernismanum (heitir það það ekki?), en nú blossar þetta upp á ný vegna Nóbelsverðlauna Bobs Dylans. Alvöru ljóðaunnendur segja Dylan ekkert sérstakan og að einhver óþekktur hefði átt að fá verðlaunin. Nóbelsverðlaunanefndin er búin að skíta á sig í popúlisma, segja þeir, jafnvel: Bókmenntirnar eru dauðar! Hinir segja þetta fínt, Bob sé æði og bara ekkert að þessu. Gaman að því að þessir „háu herrar“ í nefndinni skuli komnir í poppið. Besti þátturinn í dag, Lestin á Rás 1, fékk spekinga í spjall á föstudaginn sem gaman er að hlusta á

Þegar Bubbi Morthens sló í gegn 1980 fór fljótlega af stað umræða um gúanótextana, aðallega á síðum Þjóðviljans. Ég var of ungur þá til að setja mig inn í þetta og gegnheill Bubba-maður þar að auki. Árni Björnsson þjóðháttafræðingur byrjaði að kasta rýrð á Bubba. Hans gagnrýni gekk út á það að „alþýðan“ ætti betra skilið en leirburð Bubba, enda báru kommar alltaf hag alþýðunnar fyrir brjósti, eins og hafði heyrst á dagskrá Gufunnar síðan útsendingar hófust. Helvítin skulu kunna að meta þetta sinfóníugaul þótt við þurfum að troða því í eyrun á þeim í 50 ár.

Það hefur löngum verið háttur yfirstéttar að tala niðrandi um skáldskap og aðra list alþýðu, skrifaði Árni. Enda er hið alþjóðlega háðsyrði vulger, þ.e. ómerkilegur, ruddalegur, komið af latneska orðinu vulgus, almenningur.
Sömuleiðis hafa fúskarar i gervi listamanna eða listaforstjóra hvarvetna leitast við að réttlæta vonda og ljóta framleiðslu sína og gæðinga sinna með þvi, að þetta væri svo alþýðlegt eða það sem fólkið vildi. Það er að vísu rétt, að einföld og hrá framsetning verður einatt fljót til að ná skilningarvitum alls þorra manna, þótt hún skilji litið eftir. En með sliku athæfi er í rauninni
verið að fóðra alþýðu manna á andlegu trosi undir þvi yfirskini, að hún sé ekki fær um að skilja annað. Og með þessari fyrirlitningu er stuðlað að þvi að halda verkalýðnum á þvi menningarlega lágstigi, sem hann er talinn eiga skilið og þurfa til að vera mátulega auðsveip vinnudýr fyrir rikjandi stétt.
Einna þekktastir menningarböðlar af þessu tagi á siðari tímum eru hinir rússnesku Sdanoffar, listráðunautar Stalins og eftirmanna hans. En segja má, að svipað hafi i reyndinni verið upp á teningnum hvað varðar „alþýðumenningu“ í Bandarlkjunum og öðrum löndum undir áhrifavaldi þeirra. Þar eru að visu ekki stjórnskipaðir alræðisherrar að verki, heldur forheimskunarsérfræðingar fjölþjóðahringa. En vegna innbyrðis samkeppni sín í milli þurfa þeir sifellt að finna upp ný form fáfengileikans. Nýlegt dæmi af því taginu er svonefnt ræflarokk, sem á yfirborðinu er m.a.s. látið vera á móti rikjandi kerfi!! Snjallt.
Á siðustu misserum hafa svo risið upp hér á landi nýir „vinir alþýðunnar“, sem kveðast ætla að hefja hana uppúr niðurlægingu með þvi að leika og syngja fyrir hana lélega uppsuðu af þessari fjölþjóðlegu verslunarmúsik við ennþá verr gerða texta. Helsti samnefnari þessa fyrirbæris heitir vist gúanórokk.

Árni var kominn í stuð og hélt áfram í rokkhatrinu:  Það verður varla annað séð en að með ljótum og lélegum söngvum sé verið að hjálpa atvinnurekendasambandi tslands til að halda verkalýðnum i skefjum. Þvi að andleg lágkúra stuðlar að þvi að halda lífskjörum niðri. Ekki skal þvi þó trúað, að það sé visvitandi. Miklu fremur mun hér um þann reginmisskilning að ræða, að fyrirmyndin, músik-framleiðsla fjölþjóðahringanna, sé í þágu alþýðunnar!

Árna var vitaskuld mótmælt: Menn verða að skilja að þegar Bubbi syngur eina „sloruga“ setningu á balli í verstöð vinnur hann sósialismanum meira gagn en Þjóðviljinn á einu ári, skrifaði ljóðskáldið Anton Helgi Jónsson. Mér finnst að Árni Björnsson ætti að þakka fyrir að Bubbi skuli vera sósialisti, en ekki eitthvað annað. Og Árni ætti að hætta að láta poppið pirra sig. Poppið er ekki neinn sér afmarkaður heimur, það er fátt sem snertir eins daglegt lif verkafólks i landinu og einmitt poppið. Aftur á móti eru Árni og hans likar i lokuðum heimi, sem hvergi snertir líf venjulegs fólks i landinu: Árni reynir i grein sinni i Þjóðviljanum að hengja poppara, en það er ekki undarlegt að snaran skuli lenda um hálsinn á honum sjálfum.

Margir lögðu orð í belg um gúanótextana. Talað var um „snobb fyrir alþýðunni“ og passíusálmar Hallgríms Péturssonar og alþýðan í verkum Laxness voru dregin inn í umræðuna. Ljóðskáld eins og Birgir Svan Símonarson komu að máli við Bubba og buðust til að semja fyrir hann „alvöru“ texta, en karpið náði hápunkti á málfundi í Háskólanum þar sem menn tuðuðu sig í kaf og hættu svo að pæla í þessu. Sjálfur yppti  Bubbi bara öxlum yfir þrasinu enda í góðum málum með hass og kók á kantinum.

Fágætasta Bubba-lag í heimi

4 Sep

oxsma83+bubbi
Ég held þetta hafi verið svona: Einhvern tímann árið 1983 var hljómsveitin OXSMÁ (æðislegasta hljómsveit Íslandssögunnar btw) að glamra í kompu nálægt skemmtistaðnum Safarí á Skúlagötu (staðurinn var til vinstri við þar sem KEX Hostel er í dag). Bubbi Morthens var fastagestur á Safarí, útúrkókaður og ríðandi hægri vinstri eins og lesa má um í ævisögu hans. Bubbi var eitthvað að væflast þarna, kannski nýbúinn að refsa einhverri grúppíunni, rann á hljóðið og bankaði á kompuhurðina. Úr varð smá djamm og svo vel vildi til að upptökugræja var á svæðinu. „Me & My Baby“ með Bubba og Oxsmá varð útkoman og var gefin út skömmu síðar á „Biblía fyrir blinda“, kassettu Oxsmá frá 1983. Bubbi vissi ekkert af þessu og brást að sögn illa við tíðindunum. Áður en hann fór í mál við Oxsmá voru málin settluð.

Þeyr á tónleikum 1982

24 Ágú

jaz
Þeyr er ein besta hljómsveit Íslandssögunnar eins og allir vita. Þann 12. apríl 1982 spilaði bandið í Félagsstofnun stúdenta með Vonbrigði. Ég var mættur með tveggja rása kassettutæki sem ég hafði fengið lánað hjá Trausta og tók giggið upp. Sándið er kannski ekki eins og best verður á kosið, en þetta er samt fín heimild um gott læf band. Mig minnir að Magnús söngvari hafi verið borinn inn í líkkistu þegar giggið hófst, en annað man ég ekki svo obboslega gjörla frá tónleikunum.

Þegar hér var komið við sögu var Rokk í Reykjavík ný frumsýnd í Tónabíói og búið að banna hana innan 14 ára því sniff og hass kom við sögu í viðtölum við Bjarna Móhíkana og Bubba Morthens. Jaz Coleman úr Killing Joke var mættur á klakann og hljómsveitin Iceland tók skömmu síðar upp nokkur lög. Þetta er því meðal síðustu tónleika Þeysara áður en bandið leystist upp.

The Walk
Positive Affirmations
Zen (In the art of snobbery)
Current
Killer Boogie
???
Public
Blood
Homo Gestalt
Rúdolf

Freymóður segir Bjögga pissa eins og hund!

22 Okt

Á sunnudaginn sýnir RÚV fimmta þáttinn af Popp og Rokksögu Íslands – „Meikdraumar borgarbarna“. Nú þuklum við enn meira á hipparokkinu og siglum svo poppseglum þöndum inn í seventísið, þegar íslenskir popparar ætluðu að meikaða í massavís á útvíðum buxum. Þetta er síðasta þáttinn í bili, við höldum áfram í vor (mars líklega) og förum þá til vorra tíma.

Allskonar aukaefni verður á vegi manns við vinnslu svona þátta. Maður fær ábendingar um hitt og þetta og það hleðst á mann spekin. Þessi ár sem næsti þáttur fjallar um, sirka 1970-75, eru mjög hressandi. Poppið var að slíta barnsskónum og komið á platformskó.

freysi
Í dag eru gamlir menn löngu hættir að röfla út í popp (nema þegar einhver segir kannski fokk of oft á Arnarhóli), en þarna örlí seventís þótti eldri mönnum þessir síðhærðu frummenn algjört tros og siðspilling og hreinasti viðbjóður. Maður er nefndur Freymóður Jóhannsson (1895-1973). Hann notaði listamannsnafnið Tólfti september, var víðkunnur bindindisfrömuður, fínasti málari, og stóð fyrir Danslagakeppni SKT („SkemmtiKlúbbur Templara). Úr þeirri keppni komu nokkur sígild dægurlög á 6. áratugnum.

Freymóður var ekki í tenglum við nýmóðins rokk 1971. Þá skrifar hann kjarnyrt rant í Velvakanda Moggans. Hann er að heilgrilla tvo sjónvarpsþætti. Sá fyrri er með hljómsveitin Ævintýri með Björgvin Halldórs í framlínunni (hinn frægi „Bjöggi og beinið“ þáttur), en sá seinni er með hljómsveitinni Gaddavír. Í Gaddavír var m.a. Vilhjálmur Guðjónsson gítarleikari. Gaddavír (eitt mest töff hljómsveitarnafn Íslandssögunnar) spilaði frumsamið „gaddavírsrokk“ en kom því miður ekki frá sér plötu svo arfleið þeirra í poppsögunni er minni en þeir eiga skilið.

Allavega: Freymóður er brjálaður og greinin er æðisleg; myndræn og tryllt. Um Björgvin segir hann til dæmis: Söngvarinn á víst að vera karlmaður, en meirihluti útgáfunnar virðist tilheyra öðru kyni. Augu söngvarans lýsa, annað veifið, eins og smá týrur inni í myrkviði hárlubbans. Loks verður neðrihluti andlitsins að furðulegu gímaldi, er á að minna á munn og kok. Við og við lyftist annað lærið, eins og þúfa væri rétt við hliðina, eða húshorn, og viss náttúra væri að segja tíl sín.

Um frammistöðu Gaddavírs segir Freysi, eins og ég kýs að kalla hann, meðal annars: „Öskrandi söngvari! rís upp úr iðandi kös sefasjúkra og tekina andlitasvipa, er kinka kolli í dottandi samþykki og sælu.“

Hér er greinin hans Freysa. Algjörlega hilaríös meistaraverk!
freymodurumpop
(Smellið á myndina til að stækkana)

Vor Akureyri

13 Okt

vorakur
Það var stórfenglegur tími í Íslandssögunni þegar Akureyri var nánast algjörlega sjálfbjarga og framleiddi allt milli himins og jarðar. Ég skrifaði einu sinni um þetta Bakþanka í Fbl með tárin í augunum. Þegar hið Akureyska góðæri ríkti gerði hið nýstofnaða Ríkissjónvarp þátt um bæinn. Þetta var 1968 og Hljómsveit Ingimars Eydal var að sjálfssögðu í burðarhlutverki. Þá kom þetta ódauðlega lag fyrir almenningssjónir, Vor Akureyri. Lagið er „Congratulations“ sem Cliff fór með í Eurovision en textann gerði Kristján frá Djúpalæk í góðu gríni

Vor Akureyri er öðrum meiri
með útgerð, dráttarbraut og Sjallans paradís.
Við höfum Lindu, við höfum KEA
og heilsudrykkinn Thule, Amaro og SÍS…

Þátturinn er held ég ekki í heild á Youtube en þar er allavega eitt lag:

Eitt skemmtileg aukaatriði sá ég á Facebook áðan á hóp sem heitir Miðbærinn. Í lok þáttarins mæta tveir strákar með skilti sem stendur á „Vor Akureyri“. Þeir heita  Steinþór Stefánsson og Jens Kristjánsson – Já, sami Steinþór og 12 árum seinna spilaði með Fræbbblunum og Q4U og var einn mest töff pönkari landsins. Steinþór lést alltof ungur 1988, 27 ára – og er eini íslenski meðlimur hins vafasama 27 ára-klúbbs rokkara.
midasalaKop
Steinþór og Gunnþór í góðu flippi í miðasölu Kópavogsbíós 1980. Mynd: Birgir Baldursson.

Dansari deyr

9 Jún


Gömludansameistarinn Gunnlaugur Guðmundsson hefur vakið athygli á vefnum fyrir þetta reffilega spjall sem hann átti við Helga Pétursson 1976. Gunnlaugur lætur allt flakka og er leiður yfir því sem hann telur vera hnignun gömludansanna. Í viðtali við Dagblaðið sama ár er hann á sömu nótum og er hundfúll út í „toppfígúrur“ sem eru að skemma gömlu dansana.
toppfigurur
Maður skyldi ætla að maður eins og Gunnlaugur væri fullur sjálfstrausts og ekki týpan til að ganga í sjóinn, en ekki er allt sem sýnist og allsstaðar einhver harmur á bakvið grímuna. Magnús Þór Hafsteinsson benti mér á það í framhaldi af bloggi mínu um örlagasögu Björns Braga að Gunnlaugur hafi skömmu eftir hið reffilega sjónvarpsviðtal horfið og síðan fundist látinn. Dánardagur hans er 26. nóvember 1976.
leithafin
gunnl

Þá veistu það.

Höfundur Hvítu máva drukknaði

8 Jún

bjornbragi
Í gær var Sjómannadagurinn og því heyrði maður auðkennislag Helenar Eyjólfsdóttur, Hvítu mávar, allnokkuð í útvarpinu. Lagið kom fyrst út árið 1959 á 4-laga lítilli plötu með Helenu sem Íslenzkir tónar gaf út – Helena Eyjólfsdóttir syngur metsölulögin frá Evrópu. Lagið er eftir Walter Lange, líklega vinsæll evrópskur vals (sem ég nenni ekki að fletta upp), en textann gerði Björn Bragi Magnússon. Hann gerði líka textann við tvö önnur lög á þessari plötu og átti nokkra aðra söngtexta á þessum árum (hann er til að mynda skrifaður fyrir Skapta ÓIafs-smellinum Allt á floti ásamt Gunnari Reyni Sveinssyni og Jóni Sigurðssyni). Hvítu mávar er hans þekktasti texti.

Lagið lifir von úr viti. Helena syngur þetta æðislega en textinn er líka góður. Setningin „Ég vil að þú komir og kyssir, kvíðan úr hjarta mér“ er sterk. Kannski var þetta í fyrsta skipti sem sungið var um kvíða í íslensku popplagi. Ekki sérlega vinsælt yrkisefni enda allir svo inn í sig og það mátti ekki tala um tilfinningar á þessum tíma. Tilfininingalíf landans var hulin bók, ekkert upp á borðum nema grímur en bakvið glansmyndina grasseraði allskonar viðbjóður, sbr. meðferð á krökkum á stofnunum. Blessunarlega er annað upp á teningnum í dag, eins og til dæmis þessi flotti pistill eftir Jóhann Óla Eiðsson ber vitni. Við erum ekkert nema tilfinningar og ekki sniðugt að loka þær inn í skáp.

En hver var þessi Björn Bragi, höfundur Hvítu máva? Þessi strákur hefur lengi vakið hjá mér áhuga af því örlög hans urðu svo hefí. Hann drukknaði þegar hann var 23 ára, að því virðist í tvöfaldri sjálfsmorðs-ferð. Ég tek það fram að ég veit ekkert um málið. Ég dreg bara mínar ályktanir af gömlum blaðagreinum. Ég hef aldrei talað við neinn sem þekkti Björn og gæti varpað ljósi á málið. Helena veit ekki neitt og kom af fjöllum þegar ég spurði hana að þessu.

Björn Bragi var prentari og dútlaði við ljóðagerð. Hann var sonur Magnúsar Ástmarssonar, forstjóra Gutenberg og vann í prentsmiðjunni eftir nám. Það komu tvær ljóðabækur út eftir hann: Hófatak 1956 og Dögg í grasi 1958. Oftast orti Björn Bragi í bundnu máli en stundum abstrakt, eins og til dæmis í þessu dapurlega kvæði:

Allt líf mitt
hef ég leitað þín gleði,
en aldrei fundið þig.
Aðeins eitt andartak
hefur ásýnd þín birzt mér
þegar sorg mín varð til.

Það var í maí 1963 sem ógæfan brast á. Björn Bragi og Jón Björnsson, tvítugur skristofumaður, stálu neglulausri trillu (negla skilst mér að sé einskonar tappi í botni báta, sé neglan ekki á sínum stað lekur smám saman inn á bátinn þar til hann sekkur), hentu stýrinu í land og sigldu frá landi. Hver var pælingin? Sjálfsmorðsferð? Voru þeir orðnir fullsaddir á að geta ekki opinberað samkynhneigð sína og ást og tóku því til þessara ráða? Eða voru þetta bara tveir listrænir strákar á megabömmer yfir lífinu  og engin samkynhneigð í kortunum?

Þeir virðast ekki hafa verið í ölæði því svona er lýsingin á ferðum þeirra fyrr um kvöldið: Jón hafði nýlega fengið sér herbergi til afnota annars staðar í Reykjavík, en síðar kom í l’jós, að hann fór ekki þangað. Sömu nótt varð heimafólk í Granaskjóli 26 vart við heimsökn til Björns Braga. Björn fór út með gestinum og hefur ekki sézt síðan, en enginn í húsinu vissi hver komumaður var. Þeir Jón og Björn voru félagar og er því talið sennilegt, að það hafi verið Jón, sem kom að vitja hans.

2mennhverfa

Leitað var næstu vikur.

týndir ennúlpa

Eftir mikla leit um mánuði eftir að strákarnir sigldu út á haf fundust líkin sjóreknir í fjörum nálægt borginni. Björn var jarðaður 21. júní 1963. Rósa B. Blöndals, skáld og kennari, skrifaði mikla minningargrein í Alþýðublaðið, sem fjallaði aðallega um ljóð Björns. Eitt og annað má þó lesa á milli lína.

Þá veistu það næst þegar þú heyrir Hvítu mávana.

Viðbót: Walter Lance mun vera dulnefni hjá Gustav Winckler, en hér er hann að syngja Hvide mage.

Flosi gerir poppgrín

8 Maí

SG_-_549_-_A_-72p
Flosi Ólafsson (1929-2009) var mikill meistari sem fór í gegnum lífið með glott við tönn. Pabbi var mikill aðdáandi og talaði stundum um greinar Flosa í Þjóðviljanum. Nú liggur pabbi á spítala og jafnar sig eftir uppskurð. Ég fór í bókasafnið til að finna einhverjar hljóðbækur til að setja á gamlan spilara svo gamli hafi eitthvað að gera þarna á Landsanum. Fann tvær bækur með Flosa, Í Kvosinni og Gamlar syndir.

Þegar ég var að færa þetta yfir rak ég augun í pistilinn „POPP“ sem hér kemur að neðan. Hér er Flosi að gera grín að poppumfjöllun í byrjun seventís. Bráðskemmtilegt. Á þessum árum fannst eldra fólki popp og rokk frekar fyndið dæmi sem hægt var að grínast með. Nú eru orginal rokkararnir orðnir gamalmenni og því er svona góðlátlegt grín fyrir bí. Þetta er grín úr fortíðnni!

Flosi Ólafsson – Popp

Rándýrar bakraddir

4 Maí

Hér er rándýr og helerfið Popppunkts-spurning: Á hvaða plötu sungu Magga Stína, Anna Mjöll og Felix Bergsson bakraddir ásamt fleirum?

Rétt svar: Á plötunni Katla María syngur spænsk barnalög (SG hljómplötur 1979). Þetta er vönduð útgáfa og það fylgir mynd af bakraddasöngvurunum.

bakraddir

Poppspeki dagsins var í boði Silicor – „Við elskum Hvalfjörð og við elskum að redda Íslendingum frábærri vinnu í frábærri verksmiðju“.