Sarpur | Sprengifrétt RSS feed for this section

Hjálp! Airwaves var að toppa sig!

1 Sep

1598660
Hallilújah! Nú eru rúmir tveir mánuðir í Iceland Airwaves veisluna og Grímur og co kynntu síðustu atriðin inn í gær. Þetta verður hreint froðufellandi æðisleg dagskrá – PJ Harvey, The Sonics, Julia Holter, Warpaint og Lush, svo ég tíni nokkur spennandi atriði til – en til að kóróna snilldina var í gær tilkynnt að finnsku pönkararnir í Pertti Kurikan Nimipäivät verði á meðal atriða. Hallilújah! segi ég nú bara aftur.

Ég sá Pertti Kurikan Nimipäivät fyrst í Bíó Paradís í heimildarmyndinni um þá, Punk Syndrome. Þetta er æðisleg mynd, ég hef sjaldan hlegið jafn mikið í bíó – Fótsnyrtiatriði Kari söngvara ætti t.d. að fá einhvers konar gullmedalíu í fyndni innanhúss. Fyrir þá sem ekki vita er Pertti Kurikan Nimipäivät (nafnadagur Pertti Kurikka) skipuð fjórum Finnum, sem fóru að spila pönk í listasmiðju „þroskaheftra“ árið 2009. Framgangur þeirra hefur verið mikill síðan, bandið hefur spilað víða um heim og gert plötur með hráu og reiðilegu eðalpönki. Bandið tók svo þátt í Eurovision í fyrra og ég var viss um að þeir myndu vinna. Eitthvað ofmat ég andlegt atgervi þeirra sem kjósa í þessari helvítis lágkúruhátíð og bandið komst ekki einu sinni upp úr undanriðlinum. Skömmin er ykkar evrópsku hálfvitar.

Ég sá PKN á tónleikum í Montreal 2012. Við Grímur vorum þar á M for Montreal hátíðinni og eitthvað á röltinu þegar ég sá náunga sem ég kannaðist eitthvað við vera að reykja við hótelanddyri. Mér sýndist þetta fyrst vera einhver meistari úr Kópavoginum en fattaði svo að hér væri kominn Kari Aalto söngvari. Við spjölluðum við kauða og upp úr krafsinu kom að hann væri í Montreal með bandinu vegna heimildarhátíðar. Og það sem meira var: Bandið átti að spila um kvöldið. Við Grímur mættum auðvitað og fengum fáránlega gott pönkið í æð. Og nú koma þeir hingað. Hjálp, einhver þarf að sprauta mig niður!
14102142_10153656316176783_2936855918813466662_n

Ný frétt: Jón Gunnarsson iðrast

15 Des

thingfrett
Rétt í þessu steig Jón Gunnarsson í ræðustól Alþingis og sagðist iðrast innilega asnaleg ummæli sín um Björk okkar Guðm. Jón var með viðeigandi höfuðbúnað til að sína fulla iðrun. Sér til afsökunar sagðist Jón bara vera lúinn og hræddur plebbi sem skildi ekki neitt nema fortíðina. Og að hann gerði hvað sem er til að halda dauðahaldi í hana. Þá játaði hann að ef það væri engin Björk þá væri ekki ein einasta lundabúð á Laugarveginum. Því næst sagði hann að Gling-Gló væri uppáhalds Bjarkar-platan sín. Var ummælum Jóns tekið með miklum fagnaðarlátum.

Hver meig við hliðina á Hendrix?

10 Des

claptonjimibagonails
London 1967. Hljómar eru að taka upp fyrstu LP plötuna sína. Hendrix er að slá í gegn. Leiðir liggja saman á klósettinu á aðalbúllunni, Bag O’Nails. Einhver Hljómanna meig við hliðina á Hendrix og átti við hann gott spjall. Ég man ekki betur en að meistari Rúnar Júl hafi alltaf sagt að það hefði verið hann sem pissaði með Hendrix, en þegar ég spjallaði við Erling og Gunnar Þórðarson vegna Popp og rokksögu Íslands þá sögðust þeir báðir hafa migið við hliðina á Hendrix á klósettinu á Bag O’Nails. Heimildum ber því ekki saman. Kannski hittu þeir allir Hendrix í þremur klósettferðum, eða kannski slær þetta eitthvað saman í minningunni. Kannski var það bara Engilbert?

Allavega: Sagan er svona. Einhver Hljómanna er að pissa í skál inn á Bag O’Nails og tekur eftir manni við hliðina sem er Jimi Hendrix, goðið sjálft. Upphefst spjall. Hendrix er áhugasamur um Ísland og segist endilega þurfa að koma þangað að spila. Rúnar/Erlingur/Gunnar segir það lítið mál. Með Íslendingunum er sæt íslensk flugfreyja sem Jimi líst svona helvíti vel á. Gerir hosur sínar grænar. Flugfreyjan er sem undið roð í hundskjafti og segist ekki vilja sjá neinn surt. Ekkert verður því af hinum gítarfima Þormóði Hendrix.

Rúnar pissaði etv ekki með Jimi en þeir ræddu saman og Hendrix bauð honum í heimsókn. Addressuna skrifaði hann í vegabréf Rúnars sem var eini pappirinn sem þeir fundu. Rúnar hafði ekki tíma til að þyggja boðið.

FB_IMG_1449735066553

Hljómar hitta Bítil

26 Nóv

Fólk hefur mikið komið að máli við mig. Ekki til að hvetja mig til forsetaframboðs (enda myndi ég ekki nenna að vera svona mikið í burtu frá fjölskyldunni) heldur til að spyrja hvort fyrstu fimm þættirnir af POPP OG ROKKSÖGU ÍSLANDS komi út fyrir jólin á dvd. Málið var skoðað og niðurstaðan er NEI. Hins vegar erum við nú sveittir að búa til SJÖ þætti í viðbót sem á að byrja að sýna á Rúv í mars. Þegar upp er staðið verða því komnir TÓLF þættir af POPP OG ROKKSÖGU ÍSLANDS og poppsagan frá landnámi til okkar dags vandlega innrömmuð á TÓLF klukktímum! Og það sem betra er: Það eru allar líkur á að heildarpakkinn verði gefinn út á dvd í einhvers konar „vönduðum pakka“, sem verður auðvitað „jólagjöfin í ár“ 2016.

Kannski fylgir „aukaefni“ í pakkanum – enda heill haugur á „klippigólfinu“ eftir blóðugan niðurskurð. Þetta er ekkert dútl. Við hittum um 200 manns. Stilltum upp myndavél, töluðum við viðfangið í 1-4 tíma (suma risapoppara þurfti að tala við í tveimur sessjónum) og svo er þetta mikla efni skorið niður í sándbæt og smásögur og jafnvel dæmi um að það væri ekki einu sinni notað neitt af spjallinu vegna þess að það bætti engu við flæðið. Hrikalega blóðugt. En við erum þá allavega með 200 poppara skjalfesta og ætli þetta efni endi ekki bara á Landsbókasafninu komandi kynslóðum til notkunar.

Allavega, á „klippigólfinu“ er allskonar snilld, sem ekki passaði í flæðið og inn í þá 12 klukkutíma sem við höfðum til að segja söguna. Meðal þess er sagan af því þegar Hljómar hittu Bítil.

Árið er 1967, ágúst. Svavar Gests ætlar að gera LP plötu með Hljómum og sendir þá til London til að taka upp, enda engin almennileg aðstaða á Íslandi til plötugerðar. Strákarnir telja í, gera 12 laga plötu á einhverjum 16 tímum í Chapell Recording Stúdíós með Tony Russell. Útkoman er fyrsta „alvöru“ rokk/popp-LP plata Íslandssögunnar, fyrsta LP plata Hljóma (nú fáanleg aftur á vinýl þökk sé Senu). Í ferðinni spókuðu strákarnir sig um í London. Funheitt nýstyrni, Jimi Hendrix, er með tónleika í Saville Theatre á Shaftsbury Avenue. Eigindi tónleikastaðarins er sjálfur Brian Epstein, umboðsmaður Bítlanna. Tvö gigg eru með Jimi þann 27. ágúst. Þetta er eftirsótt gigg, fáir miðar eftir. Hljómar fá einn miða á fyrri tónleikana, en þrjá á þá seinni. Gunni Þórðar fer á fyrra giggið og gapir á Jimi leika listir sínar. Hinir fóru aldrei á seinna giggið vegna þess að því var aflýst. Brian Epstein hafði nefnilega étið of mikið af dópi og svefntöflum og stimplað sig út (líklega fyrir slysni, frekar en af ásetningi). Bömmer!

Í London fóru Hljómar „all in“ í Bítlamenningunni. London var svo sem ekkert ný fyrir þeim, þeir höfðu komið hérna oft áður, m.a. þegar þeir tóku upp lögin á Umbarumbamba 2 árum áður. Aðal pleisið er Bag O’Nails í Soho. Þarna hanga poppararnir. Þarna kynntist Paul McCartney Lindu sinni. Jimi Hendrix, Keith Moon og Reg Presley kannski í góðum gír á mánudegi, fullt af skvísum í mínípilsum. Bjór á barnum. Glaumbær hvað?

Erlingur Björnsson og Engilbert Jensen eru að fá sér. Kannski að ræða bömmerinn yfir því að missa af Jimi Hendrix. Það eru fullt af frægum poppurum þarna, en Hljómadrengir fljúga inn, enda partur af geiminu. Þeir kippa sér ekki upp við frægu popparana, hnippa kannski í hvorn annan þegar trommarinn í Animals gengur í salinn. En þegar sjálfur Paul McCartney birtist með dömu upp á arminn (Lindu?) og eitthvað fylgdarlið þá rjátlast kúlið af Erlingi og Engilbert. Þeir nálgast básinn þar sem goðið situr og kasta vingjarnlegri kveðju á bassaleikara Bítlanna. Hann er þó eins og afundinn hundur og með tóma stæla við sveitamennina, flissar kannski og segir eitthvað snappí við vini sína, sem flissa líka. Erlingur og Engilbert eins og illa gerðir hlutir við bás-endann.

Gítarleikari Hljóma, Erlingur Björnsson, er ljúfur og einlægur gaur. Hann er nýorðinn 23 ára og kann ekki við svona stæla í goðinu. Hann reiðist ekki heldur tekur einlæga svipinn. Segir bassaleikara Bítlanna að þeir séu nú bara aðdáendur Bítlanna og meðlimir í besta og frægasta Bítlabandinu á Íslandi og að það sé nú leiðinlegt að fá svona móttökur.

Hann Palli minn er líka góður gaur og það hreinlega sviptist af honum töffheitin og hrokinn undir ræðu Erlings. Hann verður allt annar maður, biður Hljóma afsökunar og segir rössum í básnum að færa sig svo víkingarnir fái sæti. Erlingur og Engilbert sitja við hlið Pauls McCartney, sem spjallar um daginn og veginn, spyr út í Hljóma og segir að Bítlarnir séu að taka upp efni fyrir Magical Mystery Tour og hvort strákarnir vilji ekki kíkja í stúdíóið á Abbey Road? Hripar niður símanúmerið í stúdíóinu og segir þeim endilega að mæta bara daginn eftir.

Af því varð því miður ekki því Hljómarnir áttu bókað flug heim daginn eftir. Maður hefði breytt flugmiða fyrri minna, en það voru aðrir tímar og erfiðara að breyta flugmiðum. En Erlingur á miðann góða og er búinn að ramma hann inn:

12295216_10205042009186747_330223714_o

Ps. Meistari Mark Lewisohn áritar meistaraverk sitt Bítlarnir telja í í Eymundsson, Skólavörðustíg kl. 17 í dag, fimmtudag.

 

 

Jón Gnarr: Sigurjón er stórt barn

24 Okt

10733460_10205238642431594_79008531_n
Messanger viðtal við Jón Gnarr: Jæja, hvað er í gangi? Tvíhöfði í útvarpið aftur? Halelúja!

Já það er stefnan. Þetta þykir ekki verra en margt annað. Tvíhöfði er fyrir útvarpi það sem ORA er fyrir matargerð – ástríða.

Hvað erum við að tala um? Fyrir það fyrsta: Verður þetta langur þáttur í gamla góða stílnum? Smásálin og allar græjur?

Frekar stuttir bútar í podkasti en sömu dagskrárliðir og alltaf.

Ú é! Er Poddkast framtíðin?

Nei, einn daginn fær fólk nóg af allri þessari tækni og hendir frá sér öllum „snjall“ símunum og fer bara í sund þar sem hægt er að tala við alvöru fólk. Hlæja smá og fá sér svo pylsu. Þú færð ekki pulsu í iphone. SIRI selur ekki pulsur.

Nei ekki enn. Það kemur kannski. En hvað er þetta með Kjarnann? Ætla þeir að fara í meira poddkast en Tvíhöfða?

Ég held að það sé stefnan að reyna að taka yfir íslenska podkast markaðinn og búa til fyrsta alvöru margmiðlunarþrekvirkisstórvirki. „íslenska alvöru“ (innskot). „margmiðlunarþrekvirkisstórveldið“ átti það að vera, en við munum reyna að styrkja tengslin við þjóðina. Svona reyna að fá þjóðina til að ganga í takt – við Tvíhöfða.

Hólí mólí. Hvenær kemur fyrsti þátturinn?

Vonandi í næstu viku. Sigurjón er orðinn afskaplega spenntur og hlakkar mikið til. Hann er náttúrlega eins og barn. Hann er stórt barn. Stundum hringir hann í mig á nóttunni án þess að hafa neitt að tala um. Honum finnst bara gott að heyra röddina mína. Hún róar hann. Ég hef seyðandi rödd. Fólk á eftir að tala mikið um það þegar það heyrir þáttinn.

Heldur betur! Mikið hlakkar mig til að sofna við seyðandi rödd þína. Illugi Jökulson er fínn, en þú ert enn betri. Ætlarðu svo ekki bara að losa okkur við þessi leiðindi og verða forsetinn? Hvenær er aftur kosið næst?

Hvaða ár er núna?

Tvíhöfði aftur í loftið!

23 Okt

10649048_10205175533373907_2084522308946373551_o
Svokölluð sprengifrétt af fjölmiðlamarkaði hér: Tvíhöfði – besti útvarpsþáttur útvarpssögunnar – snýr aftur bráðlega á vegum KJARNANS, hins eitilhressa fjölmiðils (sem er að færa sig út í útvarp, virðist vera). Meira síðar…