Sarpur | Sjónvarp RSS feed for this section

OfurEðlilegheit

21 Okt

Hér er myndin sem „allir“ eru að tala um: HyperNormalisation eftir Adam Curtis. Ég skrölti í gegnum þessa næstum þriggja tíma yfirferð um atburði sem leitt hafa til þess ástands sem við erum í í dag. Það hefði nú alveg mátt skera myndina niður, en þetta er engu að síður nokkuð hryllileg lýsing á nútímanum – Við erum peð sitjandi fyrir framan spegla. Nú er ég snarlega hættur á Facebook. Nei, þá missi ég af „öllu“.

Hér er stutta útgáfan, sem er eiginlega sterkari.

Búið í bili

26 Okt

POPP OG ROKKSAGA ÍSLANDS hefur runnið sitt skeið að sinni. Vonandi koma þessir fimm þættir á DVD fyrir jólin + aukaefni. Við höldum svo ótrauðir áfram með popp og rokksöguna í mars. Gaman gaman!

Upphófst þá ferlegur larmur

3 Okt

2015-10-02 12.51.58-2
Það er engin sérstök lognmolla í lífinu núna. Fimmtugsafmæli á miðvikudaginn 7. okt. Þá ætla ég að spila í Lucky Records kl. 17 og bjóða upp á frían bjór og gos (VÍFILFELL SPLÆSIR!) Þá geta þeir sem keypt hafa plötuna Dr. GUNNI Í SJOPPU sótt eintökin sín. Platan er uppseld í föstu formi en verður til í streymi og niðurhali (nánar auglýst síðar).

H2-151009706
Í gær bárust þær útúrfríkuðu fréttir að ég sé orðinn dómari í Ísland Got Talent á Stöð 2 ásamt Mörtu Maríu, JFM og einum dómara enn sem er leyndarmál þar til eftir helgina! Þetta verður æðislegt!!! (Ítarlegt viðtal!) Ekki verður byrjað að sýna þessa þriðju seríu þar til eftir áramót en við förum að hlusta á stórsnillingana í úrtakinu bráðlega. Ég er gríðarspenntur fyrir þessu!

porsi
Aðalmálið þessa dagana eru þættirnir Popp og rokksaga Íslands á Rúv (Hér er komin vönduð síða þar sem má sjá þætti sem búið er að sína og kitlur fyrir næstu þætti). Fyrsti þátturinn fór í loftið á sunnudaginn og ekki getur maður kvartað yfir móttökunum. Flestum fannst hann meganæs. Svo heldur snilldin áfram annað kvöld (sunnudagskvöld) þegar þáttur 2 verður sýndur. Þá rennum við inn í rokkið sjálft, sem kom og breytti smám saman öllu og lagði grunninn að því poppi og rokki sem grasserar enn.

Annar þáttur – Upphófst þá ferlegur larmur
Í öðrum þætti Rokk og poppsögu Íslands er kastljósinu beint að rokkinu og hvernig það barst yfir Atlantshafið og læddi sér inn í íslensku þjóðarsálina. Í fyrstu var talið að rokkið væri bara „enn ein tískubólan“ í ætt við mambóið, en það hefur löngu sýnt sig að rokkið var í raun bylting, eða stökkbreyting í tónlistarsögunni. Í dag er enn verið að vinna með það rokkhráefni sem vall fram á 6. áratugnum.
Þótt ungir Íslendingar væru ekki lengi að fá rokkæði tók langan tíma fyrir rokkið að ná almennilegri fótfrestu. Reyndar sveitir skipaðar færum djassáhugamönnum létu til leiðast og spiluðu rokk, þrátt fyrir að tónlistarmönnunum hafi fundist það leiðinlegt og ómerkilegt. Til að ná rokkinu sem best voru ungir söngvarar kallaðir til. Það var ekki fyrr en 1959 að fyrsta alvöru íslenska rokkhljómsveitin kom fram, Fimm í fullu fjöri, en þar sungu bæði Guðbergur Auðunsson og Siggi Johnny. Síðar fylgdu aðrar sveitir með ungum mönnum eins og Lúdó og Stefán og Diskó. KK þekkti sinn vitjunartíma og hætti með sextettinn 1962. Stjörnur 6. áratugarins gerðust ráðsettar við tónleikahald á virðulegum stöðum á meðan ungir rokkarar rokkuðu á vafasömum búllum eins og í Vetrargarðinum eða fyrir Kanann upp á Velli, sem á þessum tíma var annar heimur, spennandi og leyndardómsfullur með forboðnum krásum.

Grín speglar samtímann

22 Jún


Hef verið að glápa á („binge-watcha“) þættina Inside Amy Schumer. Hún er fyndin og gáfuleg og „femínískasta grínið í sjónvarpinu“ skv. fræðingum. Er á sinni 3ju seríu og verður alltaf betri og betri. Skestsinn hér að ofan þar sem hún er fengin til að lesa fyrir feitan jarðarkött er t.d. algjör snilld. Ég LMAO eða jafnvel ROFL. Hér er grein sem gerir að því skóna („gerir að því skóna“ – hvaða skósmiðalumma er þetta?) að hún og fleiri grínistar séu orðnir hugsuðir alþýðunnar og það er ágætt.

obama_maron1
Annar góður, en allt öðruvísi, er Marc Maron, sem er með sjónvarpsþætti „í anda“ vinar síns Louie CK. Ég hef fylgst með Marc nokkuð lengi. Hann er á aldur við mig, uppistandari og er með viðtals-poddkastið WTF. Þar tekur hann skemmtileg, gáfuleg og áhugaverð viðtöl við allskonar lið og hefur gert síðan 2009. Marc er vinnuþjarkur, birtir 2 viðtöl í viku. Það nýjasta, númer 613, er við engan annan en Barack Obama. 

Grínistar eru sem sé hugsuðir alþýðunnar í dag. Þaðan kemur beittasta gagnrýnin, persónulegasta túlkunin og mesta fjörið. Á Íslandi geturðu líklega fengið betri samtíðarspegil og kropp á hrúður zeitgeistsins á uppistandi, t.d. hjá Mið-Íslandi, en á tónleikum. Meira að segja rappararnir, sem nú grassera í miklu magni á Íslandi, ná ekki grínistum í að spegla samtímann. Að því virðist væla íslenskir rapparar helst um einhver fyllirí og þynnkur og að ríða frænku sinni. Ég gæti náttúrlega haft rangt fyrir mér og ekki ætla ég að dissa íslenska rappara, í þeirra ranni er líklega ferskasta golan á Íslandi í dag. Úlfur Úlfur hefur til að mynda gefið út plötuna Tvær plánetur sem er toppnæs og persónuleg og spennandi. Þeir hafa gert hneggjandi fínt myndband við lagið Brennum allt.

Biggest loser got talent

7 Feb

Hef séð tvo þætti af Biggest Loser Ísland, en veit ekki hvort ég þoli meira því á köflum er  bara of óþægilegt að horfa á þetta. Allt eftir föstum skorðum fransæsins, hratt klippt og æsandi áhrifatónlist undir þegar fólkið vigtar sig (það finnst krökkunum skemmtilegast, spennan). Þetta er bara eitthvað svo ógeðfellt, að liggja sjálfur vel í holdum að úða í sig poppi og súkkulaði og sjá þjakaða offitusjúklinga „í bata“ hlussast áfram með gjammandi tálguð vöðvabúnt yfir sér. Steininn tók úr þegar fólkið fór að gráta yfir bréfum ættingja, sem voru lesin upp með leikrænum tilþrifum. Maður er ekki vanur að sjá landa sína gráta í sjónvarpinu svo þetta var gríðarlega óþægilegt. Hörkuspenna er þó að vita hvernig fólkið lítur út í þáttarlok enda er þyngdartap helsta skemmtiefni þessa fáránlega samtíma. Það er nánast ekki talað um annað, allstaðar, alltaf, en mat og offitu. Eru það kannski við sem erum illahöldnu kjúklingarnir í sláturhúsi vitundarinnar?

(Of djúpt?)

Á meðan Skjár einn gerir offitusjúklinga að fjárþúfu níðist dómnefnd á börnum og andlega tæpum í Ísland „got talent“ – Auddi Blö segir  „Já, nú skulum við fara og sjá hvort Ísland got talent“ eins og ekkert sé sjálfssagðara. Babú babú, einhver nái í Eið! Þátturinn er annað fransæs, og líka hraður og æsandi og allt æst upp með áhrifahljóðum. Hægt er að búa til æsispennu úr nánast engu. Þeir vita hvað þeir eru að gera, útlendingarnir sem fundu þetta upp. Enda krakkarnir mínir alveg óðir í þetta (Dagbjartur er enn að spurja hvenær Wipe Out Ísland byrjar aftur). Ég vildi kannski sjálfur vera að horfa á fræðslumynd um Páskaeyju á BBC, en maður gerir allt fyrir krakkana sína og á að gera það. Spurning samt að láta Biggest loser þáttinn feida út úr minninu – æ nei, ég verð að  vita hvernig þetta endar og eru ekki einhver verðlaun? Það er allavega 10 millur í verðlaun í Ísland „got talent“. Hann vinnur örugglega þarna dimmraddaði söngvarinn frá Dalvík.

Þannig að: Fínir þættir báðir tveir! (Þannig) Krakkarnir eru þó á einu máli um að Ísland sé betri en lúser.