Sarpur | Plögg RSS feed for this section

Krakkamengi á morgun

20 Feb

Krakkafjör á morgun kl. 10.30 í Mengi, Óðinsgötu 2. Ég og hljómsveitin EVA verðum gestaleiðbeinendur. Ókeypis inn!

Tilraunanámskeið í tónlistarsköpun fyrir krakka 4-6 ára í Mengi, Óðinsgötu 2. Námskeiðið er opið öllum krökkum á þessum aldri og þeim fullorðnu sem fylgja þeim.

Fyrirkomulagið er þannig að börnin koma með foreldrum/forráðamönnum sínum í Mengi á sunnudagsmorgni klukkan 10.30 og vinna í vinnustofu í u.þ.b. klukkustund. Að því loknu fer fram flutningur á afrakstri vinnustofunnar.

Benedikt Hermann Hermannsson, tónlistarmaður og kennari, leiðir Krakkamengi en í hvert skipti koma 2 tónlistarmenn úr ólíkum tónlistargeirum og vinna með þátttakendum. Kynna tónlistarmennirnir hugmyndir sínar og vinnuaðferðir fyrir börnunum og í kjölfarið leiða þeir börnin í gegnum það ferli að búa eitthvað til og semja með þeim tónlist sem svo verður flutt.

Í fimmtu smiðjunni, sem fram fer þann 21. febrúar, munu þau Dr. Gunni og Hljómsveitin Eva, skipuð Völu Höskuldsdóttur og Sigríði Eir Zophaníasdóttur, verða í hlutverki gestaleiðbeinenda. Benni Hemm Hemm, sem og gestaleiðbeinendur hans, gefa vinnu sína og er aðgangur ókeypis og opinn öllum börnum á aldrinum 4 til 6 ára sem og foreldrum þeira á meðan húsrúm leyfir en gert er ráð fyrir fullri þátttöku foreldra í smiðjunni. 

Ísland gaut talent í kvöld

31 Jan

glh365
Fyrsti þáttur Ísland got talent hefst í kvöld kl. 19.10 á Stöð 2, í þetta skiptið í opinni dagskrá. Ég er búinn að sjá þáttinn og gerði mig ekkert að svo miklu fífli. Þetta er raunar alveg príma fjölskylduefni þótt ég segi sjálfur frá.

Þetta er auðvitað aðkeypt hugmynd. Skúnkurinn Simon Cowell fann upp á þessu 2007 og vildi búa til svokallað „end of pier“ sjó, þar sem þorpsbúar troða upp á bryggjuendanum, sbr. fyrri tíma skemmtiefni. Sjóið er nú sýnt í um 60 löndum og er langvinsælasta sjóið í dag. Ísland er vitaskuld langminnsta landið sem er með sína eigin útgáfu.

Ýmsar hugmynd hafa komið upp hjá dómurunum varðandi þann möguleika að spara 365 þann pening sem fer í að nota fransæsið. Auðvitað má blása til hæfileikakeppni og kalla hana bara eitthvað annað og breyta lúkkinu. Ísland gaut talent, er ein hugmynd (Emmsjé Gauti yrði áfram kynnir) og Hæfileikarnir. Þar yrðu dómarar í Rómverjafötum og myndu gefa þumal upp eða niður standandi á gylltum hestakerrum. Pönkbandið hans Dr. Gunna er enn fjarlægur draumur, en þar myndu keppendur ekki geta neitt en samt vera ólmir í að vera í pönkbandi. Upptökur færu fram í skítugum bílskúr.

Líf þitt í dag

7 Nóv

Í dag snýst líf þitt um að draga andann, ekki horfa of mikið á símann, heldur reyna að lifa. Svo áttu að gera eftirfarandi:

12183952_10154347147388012_2439710549813788626_o
Fara í Músíkmarkað Trausta Júl í Kolaportinu. Allskonar gersemar á spottprís (m.a. stöff frá mér).

Svo ætlar hljómsveitin Dr. Gunni að koma fram á AIRWAVES:

#1 OFF VENUE – KL. 16 Á KAFFIVEST

#2 GAMLA BÍÓ KL: 20:50

Í bæði skiptin má búast við alsjúku stuði enda verður boðið upp á „best of“. OK, sjáumst.

Besta íslenska dótið á Airwaves

31 Okt

Iceland Airwaves er stærsta og æðislegasta tónlistarhátíðin sem árlega skellur á okkur. Og gleðin er í næstu viku – hvílík spenna og tilhlökkun. Ég hef áður talið upp 10 mest spennandi erlendu atriðin og nú er það listi yfir tíu mest spennandi íslensku atriðin (ath: Listinn er alls ekki tæmandi!).


Pink Street Boys eru nú hreinlega eitt mest uppáhaldsband á Íslandi í dag. Kraftur, sviti, glæsilegt lög, húmor og gleði. Hits#1 er ein af plötum ársins.


Annað uppáhaldsband er sýrupoppsveitin Just Another Snake Cult, sem er hugarfóstur Þóris Bogasonar. Nýlega birtist hörku töff nýtt myndband með Költinu.


Lord Pusswhip (Þórður Jónsson) var að gefa út fyrstu plötuna sína, Lord Pusswhip is Wack. Vímað og hreystrað stöff, molbúa stórborgar homoerótískt byssublætis eitthvað.


Platan Nótt á hafsbotni með Dj. Flugvél og geimskip er eðal stöff, en Skelkur í bringu, hljómsveitin sem Steinunn er í, hefur lítið haft sig í frammi um nokkurn tíma þar til nú. Búast má við víruðu stöööði.


East Of My Youth er krefjandi nútímapopp. Nýjasta innleggið frá þeim er með Sölku Sól í gestahlutverki.


„Leynisveitin“ Gangly treður nú upp í eitt allra fyrsta skipti. Þau hafa bara birt eitt lag til þessa, hið frábæra Fuck With Someone Else.


Það er bözz í öndergrándinu í kringum tvímenninginn Vaginaboys. Satt að segja er eins og að bíta í bestu appelsínu í heimi að hlusta á þetta lag.


Soffía Björg er frá Borgarfirði og syngur. spilar á gítarrr og semur. Lagið Back and Back Again er meiriháttar gott og gefur góð fyrirgheit um framhaldið. 


Eftir því sem fjarlægðin frá útgáfu plötu Teits Magnússonar, 27, eykst, hefur maður betur og betur séð hverskonar demantur af plötu þetta er. Frábær lög og textar og öðruvísi og ferskar útsetningar. Skóglápararnir í Oyama (sem spila auðvitað líka á Airwaves) gerðu netta útgáfu af einni snilldinni um daginn.


Ég er náttúrlega svo sjálfhverfur að ég verð að troða sjálfum mér hér með. Hljómsveitin Dr. Gunni treður upp í Gamla bíó kl. 20:50 á laugardaginn og við verðum líka off-venue á Kaffi Vest þennan sama laugardag, líklega klukkan svona 16. Leikin verða lög af plötunni Í sjoppu auk gamalla slagara úr bakkkatalóknum. 

Freymóður segir Bjögga pissa eins og hund!

22 Okt

Á sunnudaginn sýnir RÚV fimmta þáttinn af Popp og Rokksögu Íslands – „Meikdraumar borgarbarna“. Nú þuklum við enn meira á hipparokkinu og siglum svo poppseglum þöndum inn í seventísið, þegar íslenskir popparar ætluðu að meikaða í massavís á útvíðum buxum. Þetta er síðasta þáttinn í bili, við höldum áfram í vor (mars líklega) og förum þá til vorra tíma.

Allskonar aukaefni verður á vegi manns við vinnslu svona þátta. Maður fær ábendingar um hitt og þetta og það hleðst á mann spekin. Þessi ár sem næsti þáttur fjallar um, sirka 1970-75, eru mjög hressandi. Poppið var að slíta barnsskónum og komið á platformskó.

freysi
Í dag eru gamlir menn löngu hættir að röfla út í popp (nema þegar einhver segir kannski fokk of oft á Arnarhóli), en þarna örlí seventís þótti eldri mönnum þessir síðhærðu frummenn algjört tros og siðspilling og hreinasti viðbjóður. Maður er nefndur Freymóður Jóhannsson (1895-1973). Hann notaði listamannsnafnið Tólfti september, var víðkunnur bindindisfrömuður, fínasti málari, og stóð fyrir Danslagakeppni SKT („SkemmtiKlúbbur Templara). Úr þeirri keppni komu nokkur sígild dægurlög á 6. áratugnum.

Freymóður var ekki í tenglum við nýmóðins rokk 1971. Þá skrifar hann kjarnyrt rant í Velvakanda Moggans. Hann er að heilgrilla tvo sjónvarpsþætti. Sá fyrri er með hljómsveitin Ævintýri með Björgvin Halldórs í framlínunni (hinn frægi „Bjöggi og beinið“ þáttur), en sá seinni er með hljómsveitinni Gaddavír. Í Gaddavír var m.a. Vilhjálmur Guðjónsson gítarleikari. Gaddavír (eitt mest töff hljómsveitarnafn Íslandssögunnar) spilaði frumsamið „gaddavírsrokk“ en kom því miður ekki frá sér plötu svo arfleið þeirra í poppsögunni er minni en þeir eiga skilið.

Allavega: Freymóður er brjálaður og greinin er æðisleg; myndræn og tryllt. Um Björgvin segir hann til dæmis: Söngvarinn á víst að vera karlmaður, en meirihluti útgáfunnar virðist tilheyra öðru kyni. Augu söngvarans lýsa, annað veifið, eins og smá týrur inni í myrkviði hárlubbans. Loks verður neðrihluti andlitsins að furðulegu gímaldi, er á að minna á munn og kok. Við og við lyftist annað lærið, eins og þúfa væri rétt við hliðina, eða húshorn, og viss náttúra væri að segja tíl sín.

Um frammistöðu Gaddavírs segir Freysi, eins og ég kýs að kalla hann, meðal annars: „Öskrandi söngvari! rís upp úr iðandi kös sefasjúkra og tekina andlitasvipa, er kinka kolli í dottandi samþykki og sælu.“

Hér er greinin hans Freysa. Algjörlega hilaríös meistaraverk!
freymodurumpop
(Smellið á myndina til að stækkana)

Fokk á fjalli

16 Okt


Hér er Rokk! með hljómsveitinni Dr. Gunni og Siggu Beinteins! Nú þarf allar hendur upp á dekk til að koma laginu inn á vinsældarlista Rásar 2 og þaðan í efsta sæti. Þá fæ ég feitan tékka fyrir lagið frá Stef fyrir jólin 2016, margar milljónir, en ekki skal gleyma að meta það sem ekki verður metið til fjár, eins og svimandi egóið sem maður fær við að eiga lag í efsta sæti vinsældarlistans. Kjósið lagið inn hér!!!

Rokk! samdi ég sumarið 2014 þegar ég var að ganga niður Bakkafjall fyrir vestan. Það hét auðvitað Fokk! fyrst. Snjallsíminn stóð undir nafni og ég gat gert demó þegar lagið var brakandi ferskt úr heilagrautnum:

Í sömu ferð, bara svona hálftíma fyrr, samdi ég lagið Rollur sem er líka á plötunni Dr. Gunni í sjoppu. Það má því segja að þetta hafi verið ferð til fjár.

PS: MUNA AÐ KJÓSA!

Næst: Við viljum algjört frelsi

15 Okt

Á sunnudaginn höldum við áfram að rekja okkur áfram í POPPINU og ROKKINU. 

Fjórði þáttur – Við viljum algjört frelsi!
Hljómar komu tvíefldir til baka og gáfu út fyrstu íslensku popp LP-plötuna 1967. Önnur plata kom árið eftir en svo varð kollsteypa og Trúbrot varð til upp úr tveimur hljómsveitum, Flowers og Hljómum. Alþjóðleg tónlistarþróun á 7. áratugnum var ævintýralega hröð og endurspeglaðist í miklum breytingum á stíl, útliti, hugmyndum og áherslum. Á Íslandi var það sama upp á teningnum, hárið lengdist, skeggið síkkaði, buxurnar urðu útvíðari og hugvíkkandi efnin fjölbreyttari. Í hipparokkinu var Trúbrot í fararbroddi en Óðmenn, Náttúra, Mánar og fleiri hljómsveitum tóku virkan þátt í fjörinu, sem náði hámarki þegar Led Zeppelin spiluðu í Höllinni 1970.

Á þessum tíma gerðist það í fyrsta skipti að dægurtónlist tók að skiptast upp í létta og þunga deild, eða það sem tónlistarmennirnir kölluðu „commercial“ og „progressive“ – „tyggjókúlumúsík“ og „þungt og þróað“. Björgvin Halldórsson varð stórstjarna hjá ungu krökkunum með hljómsveitinni Ævintýri.

Fuuullt af músík!

9 Okt

Áfram heldur stuðið á Rúv á sunnudaginn þegar þriðji þáttur POPP OG ROKKSÖGU ÍSLANDS verður sýndur. Nú rennum við inn í alheimsbyltingu Bítlanna og íslensku útgáfu þeirrar byltingar. Við fjöllum náið um uppgang og útbreiðslu Hljóma, sem segja má að sé fyrsta „nútíma“ hljómsveit Íslands: Hljómsveit sem semur sín eigin lög og gefur út mun meira efni en áður hafði tíðkast. Að sjálfssögðu er fjallað um aðra samtímamenn, m.a. birt áður óséð myndskeið af Dátum að spila á mikilli Húsafellshátíð 1967. Geðveikt stuð! Hér er kitla:

Og texti um þáttinn: 

Þriðji þáttur – Það vantar ekkert nema Bítilbleyjur
Eftir að Elvis fór í herinn urðu ungir sætir strákar sem hétu Bobby hitt og þetta allsráðandi í poppinu. The Shadows með Cliff Richard í fararbroddi nutu líka hylli og íslenskar sveitir stældu goðin. Næsta bylting var þó handan við hornið og brast á með miklu trukki 1963 þegar Bítlarnir frá Liverpool sópuðu nánast öllu sem á undan hafði komið í poppinu út af borðinu.
Eins og jafnaldrar þeirra um allan heim voru íslenskir táningar með á nótunum og fengu bítilæði í umvörpum. Hljómar frá Keflavík voru réttir menn á réttum stað og báru höfuð og herðar yfir aðrar íslenskar bítlasveitir, ekki síst vegna þess að innanborðs var Gunnar Þórðarson, ungur maður sem gat samið lög. Bítilæðið ágerðist þegar Bítlamyndin A Hard Days Night kom í bíó og þegar The Kinks spiluðu í Reykjavík.
Þegar Hljómar misstu sig í meiktilraunir, bíómyndagerð og tilraunamennsku með djassáhugamanninn Pétur Östlund á bak við trommusettið, seildust aðrar sveitir í veldissprota þeirra, Dátar, Tónar, Óðmenn, Pónik og fleiri. Á sama tíma var þjóðlagapoppið að gera gott mót með Savanna tríóinu. Konur voru ekki sjáanlegar uppi á sviði með bítlaböndunum og ungar söngkonur eins og Þuríður Sigurðardóttir og Anna Vilhjálms héldu sig til hlés með dannaðri hljómsveitum.


Er hér að hlusta á nýju plötuna með John Grant, Grey Tickles, Black Pressure. Verð að segja að hún er helvíti skemmtileg, mörg frábær lög, hljóðheimurinn einhvers staðar á milli síðustu tveggja platna (mjög mikið 80s syntha tölvupopps feel líka) og textarnir gáfulegir og góðir að vanda. Pétur Hallgrímsson og Jakob Smári Magnússon sjá um gítar og bassa, en trommuleikarinn er Budgie sjálfur úr Siouxsie & The Banshees. John spilar með sinfó á Airwaves, sem verður eitthvað.


Í dag fæddist ekki bara Lennon og Yoko kveikir á súlunni heldur kemur út fyrsta sólóplata MR. SILLU. 12 tónar gefa út en platan var tekin upp í Rvk og London með hjálp Mike Lindsay (Tunng / Cheek Mountain Thief). Mr. Silla, eða Sigurlaug Gísladóttir, ætti að vera Íslenskum tónlistarunnendum kunn en hún hefur verið meðlimur í hljómsveitunum múm og Snorri Helgason um áraraðir ásamt því að hafa starfað um lengri eða skemmri tíma með mörgum öðrum hljómsveitum.


Pönkhljómsveitin góðkunna frá Selfossi, ELÍN HELENA, hefur sent frá sér nýtt lag, Ég bara spyr. Sveitin gerði fína plötu í fyrra, Til þeirra er málið varðar, og var með á Snarli 4. Nammi gott.


Staraðáskó-hljómsveitin OYAMA hefur gert staraðáskó-útgáfu af hinu stórkostlega lagi Teits Magnússonar, Vinur vina minna. Hugmyndin er komin frá tísti eftir Björn Teitsson. Menn hafa starað á skó fyrir minna.

50! Dr. Gunni í sjoppu! 50!

7 Okt

drge27
Þá er ég víst orðinn 50 ára. Sem er sturlun!

Í dag 7 okt kl. 17 – ÚTGÁFUTÓNLEIKAR FYRIR PLÖTUNA Dr. Gunni í sjoppu í LUCKY Records – Fram koma Dr. Gunni og Videósílin. Veitingar Thule, Coke og Toppur frá Vífilfelli ókeypis og í boði. Sjáumst! Þeir sem hafa keypt plötuna á 10 tommu vinýl plötu geta sótt hana við sama tækifæri, eða næstu daga.

Platan Dr. Gunni í sjoppu er svo til á BANDCAMP (niðurhal 5$ / ókeypis streymi), í Spotify og í TÓNLIST:IS (549 kr!).

Nú fer ég að tala við Fjölni tattú.

Upphófst þá ferlegur larmur

3 Okt

2015-10-02 12.51.58-2
Það er engin sérstök lognmolla í lífinu núna. Fimmtugsafmæli á miðvikudaginn 7. okt. Þá ætla ég að spila í Lucky Records kl. 17 og bjóða upp á frían bjór og gos (VÍFILFELL SPLÆSIR!) Þá geta þeir sem keypt hafa plötuna Dr. GUNNI Í SJOPPU sótt eintökin sín. Platan er uppseld í föstu formi en verður til í streymi og niðurhali (nánar auglýst síðar).

H2-151009706
Í gær bárust þær útúrfríkuðu fréttir að ég sé orðinn dómari í Ísland Got Talent á Stöð 2 ásamt Mörtu Maríu, JFM og einum dómara enn sem er leyndarmál þar til eftir helgina! Þetta verður æðislegt!!! (Ítarlegt viðtal!) Ekki verður byrjað að sýna þessa þriðju seríu þar til eftir áramót en við förum að hlusta á stórsnillingana í úrtakinu bráðlega. Ég er gríðarspenntur fyrir þessu!

porsi
Aðalmálið þessa dagana eru þættirnir Popp og rokksaga Íslands á Rúv (Hér er komin vönduð síða þar sem má sjá þætti sem búið er að sína og kitlur fyrir næstu þætti). Fyrsti þátturinn fór í loftið á sunnudaginn og ekki getur maður kvartað yfir móttökunum. Flestum fannst hann meganæs. Svo heldur snilldin áfram annað kvöld (sunnudagskvöld) þegar þáttur 2 verður sýndur. Þá rennum við inn í rokkið sjálft, sem kom og breytti smám saman öllu og lagði grunninn að því poppi og rokki sem grasserar enn.

Annar þáttur – Upphófst þá ferlegur larmur
Í öðrum þætti Rokk og poppsögu Íslands er kastljósinu beint að rokkinu og hvernig það barst yfir Atlantshafið og læddi sér inn í íslensku þjóðarsálina. Í fyrstu var talið að rokkið væri bara „enn ein tískubólan“ í ætt við mambóið, en það hefur löngu sýnt sig að rokkið var í raun bylting, eða stökkbreyting í tónlistarsögunni. Í dag er enn verið að vinna með það rokkhráefni sem vall fram á 6. áratugnum.
Þótt ungir Íslendingar væru ekki lengi að fá rokkæði tók langan tíma fyrir rokkið að ná almennilegri fótfrestu. Reyndar sveitir skipaðar færum djassáhugamönnum létu til leiðast og spiluðu rokk, þrátt fyrir að tónlistarmönnunum hafi fundist það leiðinlegt og ómerkilegt. Til að ná rokkinu sem best voru ungir söngvarar kallaðir til. Það var ekki fyrr en 1959 að fyrsta alvöru íslenska rokkhljómsveitin kom fram, Fimm í fullu fjöri, en þar sungu bæði Guðbergur Auðunsson og Siggi Johnny. Síðar fylgdu aðrar sveitir með ungum mönnum eins og Lúdó og Stefán og Diskó. KK þekkti sinn vitjunartíma og hætti með sextettinn 1962. Stjörnur 6. áratugarins gerðust ráðsettar við tónleikahald á virðulegum stöðum á meðan ungir rokkarar rokkuðu á vafasömum búllum eins og í Vetrargarðinum eða fyrir Kanann upp á Velli, sem á þessum tíma var annar heimur, spennandi og leyndardómsfullur með forboðnum krásum.