Sarpur | Plögg RSS feed for this section

Pönk hreinsar

6 Nóv

Airwaves-skýrsla 2. Ég fór ekki á svið í ár en í staðinn át ég svið. Hálfan haus og verð eiginlega að segja að svið eru ógeðsleg. Einu sinni á ári er algjört topps á þá fæðu. Sú ömurlega staðreynd blasti við að finnsku pönkararnir í PKN færu á svið á Gauknum á nákvæmlega sama tíma og Dr Spock færu á svið í glænýjum kjallara Hard Rock Café. Út undan hafði ég heyrt að gerð yrði úrslitatilraun til að fá Rotten á svið með Spock til að syngja Pistols slagara. Ég var í sambandi við umboðsmann Finnana þar sem þeir meistarar vildu ólmir hitta Rotten. Nú, það sem gerðist í þessari bóndabeygju var að ég fór á Hard og sá sett með Ensími. Þeir eru alltaf góðir og skemmtilegir, spiluðu slagara í bland og voru hressir. Næst komu Spock og gjörsamlega tættu sig í gegnum gullfallegt sett. Rotten stóð reyndar aftast en fann aldrei andann koma yfir sig til að fara á svið og þar að auki I do not do that shit. Ekkert God Save The Queen sem sé. En djöfull voru Spock góðir, algjörir yfirburðir. Þegar þessu var lokið voru Finnarnir farnir að sofa, dauðþreyttir og pönkaðir. Liðið hópaðist að Rotten í pönkselfí og hann hélt sér síðan í stuði eitthvað fram eftir en ekki of lengi því það er Arsenal-Tottenham í dag sem þeir Rambo verða að sjá (báðir Arsenal-menn).

Í dag er svo stíf dagskrá sem hefst kl. 13 þegar PKN koma í opinbera heimsókn í Pönksafnið. Það mega allir fjölmenna þangað. Svo eru þeir með offvenue fyrir Þroskahjálp í Iðnó frá kl. 17 – allri velkomnir, ókeypis inn. Auk þeirra mun norska hljómsveitin Make Dreams Concrete koma fram, en hún ku skipuð utanveltu krökkum sem finna styrk í pönki. Allir geta fundið styrk í pönki, spurðu bara Óttarr Proppé sem öskrar úr sér stjórnarmyndunartrega og hreinsast og endurfæðist í gegnum pönk. Sumir íhuga, aðrir pönka. Hér er tóndæmi með Make Dreams Concrete.

Kassettur Pönksafnsins

2 Nóv

2016-10-31-10-34-15
Pönksafnið opnar í dag kl. 18:30. Og verður svo opið um næstu framtíð. Tvær safnkassettur koma út í dag og verða eingöngu til sölu í safnabúð Pönksafnsins. Download kóðar fylgja svo það er engin ástæða til að þú gerir dauðaleit að kassettutæki í Góða hirðinum (þó það sé í sjálfu sér ekki slæm hugmynd). Ég setti þessar kassettur saman og er gríðarlega ánægður með þetta. Hér er innihaldið:

(SOÐIÐ) PÖNKSAFN
Hljóðversupptökur / Studio Recordings

A:
01 Bubbi Morthens – Jón pönkari (af Ísbjarnarblús LP 1980)
02 Fræbbblarnir – Bíó (af Viltu nammi væna? LP 1980)
03 Taugadeildin – Hvítar grafir (af EP 1981)
04 Purrkur Pillnikk – Gluggagægir (af Ekki enn LP 1981)
05 Jonee Jonee – Helgi Hós (af Svonatorrek LP 1982)
06 Megas – Krókódílamaðurinn (af The Boys From Chicago LP 1983)
07 Kamarorghestar – Rokk er betra (af Bísar í banastuði LP 1981)
08 Án orma – Dansaðu fíflið þitt dansaðu (af 7″ 1981)
09 Sonus Futurae – Myndbandið (af Þeir sletta skyrinu… Mini-LP 1981)
10 Grafík – Videó (af Út í kuldann LP 1981)
11 Fan Houtsens kókó – Grænfingraðir morgunhanar (af Musique Elementaire kassetta 1981)

B:
01 Þeyr – Rúdolf (af Mjötviður mær LP 1981)
02 Q4U – Böring (af Q1 Mini-LP 1982)
03 Utangarðsmenn – Hírósíma (af Geislavirkir LP 1980)
04 Grýlurnar – Betri er limur en limlestir (af Mávastellið LP 1983)
05 Tappi Tíkarrass – Skrið (af Miranda LP 1983)
06 Baraflokkurinn – Catcher Coming (af Mini LP 1981)
07 Spilafífl – Playing Fool (af 3 – 30. júní 7″ 1982)
08 Chaplin –Teygjutwist (af 7″ 1981)
09 Vonbrigði – Ekkert (af Kakófónía Mini-LP 1983)
10 Bodies – Lonely (af 12″ EP 1982)
11 Oxsmá & Bubbi – Me & My Baby (af Biblía fyrir blinda kassetta 1983)


(HRÁTT) PÖNKSAFN

Óútgefið – læf & demó

A:
01 Halló & Heilasletturnar – Amma spinnur galið (Læf á Kjarvalsstöðum 8. ágúst 1978)
02 Snillingarnir – Kids (Demó að Rauðalæk 1980)
03 F/8 – Bölvun fylgi þeim (Í bílskúr í Kópavogi haust 1980)
04 Taugadeildin – Íslandi allt (Læf í Kópavogsbíói 22. maí 1981)
05 Allsherjarfrík – Lögbrot (Læf í Uppsölum, Ísafirði, nóvember 1982)
06 Utangarðsmenn – Leiðinlegt lag (Læf í Kópavogsbíói 21. febrúar 1981)
07 Fan Houtsens kókó – Þriggja stúlkna rúmba (Læf í Kópavogsbíói 21. febrúar 1981)
08 N.A.S.T. – Anarkisti (Læf í Kópavogsbíói 22. maí 1981)
09 Sjálfsfróun – Allir krakkar (Læf í N.E.F.S. 16. des 1981)
10 Stífgrím – Dansskóli Heiðars Ástvaldssonar (Læf á Rútstúni 17. júní 1980)
11 Q4U – Menn (Læf í Háskólabíói 30. mars1983)
12 Fræbbblarnir – Bjór (Læf á Hótel Borg vor 1981)
13 Geðfró – Stundum (Læf í N.E.F.S. 21. okt 1981)
14 Vonbrigði – Holdleg atlot (Læf í Safarí 9. ágúst 1984)

B:
01 Jonee Jonee – Brot (Rúv 2007)
02 Haugur  – Skuld (Æfingahúsnæði í Garðabæ, vorið 1983)
03 Þursaflokkurinn – Jónarnir í skránni (Demó 1981 fyrir kvikmyndina Jón Oddur og Jón Bjarni)
04 Baraflokkurinn – It’s All Planned (Demó úr Stúdíó Bimbó vor 1981)
05 Oxsmá – Rokkum og poppum (Læf í Tívolí í Hveragerði 17. júní 1985)
06 Purrkur Pillnikk – Flughoppið (Læf í Austurbæjarbíói 12. sept 1981)
07 Tappi Tíkarrass – Beri-Beri (Læf í Safarí 28.11.1985 – kombakk)
08 S. H. Draumur – Gryfjan (Læf í Hjáleigunni 24. nóv 1985)
09 Bruni BB – Dr. Rúnkbor (Tekið upp á Bala í Mosfellsveit 1981)
10 Þeyr – Life Transmission (Læf á Hótel Sögu 28. janúar 1981)

Æðislegt lænöpp, þótt ég segi sjálfur frá. Hér kemur hljóðdæmi:

Umfjöllun í Mogga dagsins:

mbl-ps-efi

Fíla Atvik

1 Nóv

Besta íslenska poddkastið í dag er Fílalag. Um daginn hlotnaðist mér sá margbrotni heiður að vera gestafílari og fílaði Hippa með Fræbbblunum ásamt þeim Bergi og Snorra. Um alfílun var að ræða og má hlusta á niðurstöðurnar hér

2016-10-31-20-46-20
Myndlistarsýningin/plötuútgáfan ATVIK er komin upp á útúrneglda og sögufræga veggi MOKKA KAFFIS. Fáið yður kaffi og vöfflu – eða hina góðu samloku með skinku og aspas, sem ég gúffaði í mig í matarhléum frá Landsbankanum 1985-1990, og virðið fyrir yður 18 myndir/plötuumslög. Hin formlega opnun er kl. 17 og þú ert velkomin(n). 

Platan ATVIK kemur líka „út“ í dag í átján eintökum (sem eru myndirnar). Þessi plata er 18 laga og „út um allt“ tónlistarlega. Þetta fer ekkert á netið, nema hér er eitt lag. Það er hinum goðumlíka Loreen sem leggur laginu lið, en veit auðvitað ekkert af því.

ATVIK eftir viku

25 Okt

14852993_10211918872354098_4685345531448206367_o
Eftir viku opnar málverkasýning og plötuútgáfa mín, ATVIK, í hinu fornfræga MOKKA KAFFI. Ég sýni 18 akrílverk sem máluð eru á plötuumslög. Inn í málverkunum er 18 laga plata ATVIK sem kemur aðeins út í 18 eintökum og fylgir með myndunum. Sýningin er sjálfhverf og sýna myndirnar 18 atvik úr lífi mínu. Lögin eru flest ný (nokkur tökulög) og tengjast efni myndanna. Myndirnir/plöturnar eru til sölu á kr. 45.000 stk. 

John Lydon opnar Pönksafnið

20 Okt

gilli-kover-rotten
Það er sjálfur John Lydon – áður Johnny Rotten – sem mun opna PÖNKSAFN ÍSLANDS þann 2. nóvember næstkomandi. Hvílíkur heiður! Hvílík snilld! John er frægasti pönkari heims og því tilvalið að fá hann til að klippa á keðjurnar þegar safnið opnar. Fyrir þá sem ekki vita var John söngvari Sex Pistols, og síðar PIL, og PÖNKSAFN ÍSLANDS er safn sem heiðrar og hyllir það besta í íslensku rokksögunni og verður til húsa að Bankastræti 0, gamla kvenna „Núllið“ (áður klósett).

John mun lesa úr verkum sínum í safninu, en hann kemur líka fram á ljóðakvöldi Airwaves, Airwords, í Kaldalóni fimmtudagskvöldið 3. nóv. Þar mun John stíga á svið á eftir engum öðrum en Bubba Morthens. Er þetta ekki of gott til að vera satt!?

Vísir um málið.

Pönksafn, Atvik, Nýló

16 Sep

Nýló sendi mér skilaboð og kom málum á hreint varðandi Núllið. Þau voru með plássið í frírri leigu í heilt ár og þar fóru fram nokkrar sýningar. Í sjálfboðavinnu komu þau plássinu í viðundandi ástand, sem við í PÖNKSAFNI ÍSLANDS tökum auðvitað fagnandi. Hér má lesa um aðkomu Nýló að Núllinu.

PÖNKSAFN ÍSLANDS mjakast áfram hægt en örugglega. Það eru sjö vikur í opnun. Það verður sem sé nóg að gera næstu vikurnar því auk þess að koma upp pönkinu mun ég opna mína fyrstu sýningu í MOKKA þriðjudaginn 1. nóv kl. 17-18. Þess vegna er ég búinn að vera vakandi núna síðan kl. 01:30. Svefn er bara fyrir vesalinga. Trixið er að taka eitt, tvö pávernöpp yfir daginn – þá lafir maður með meðvitund til kl. 21-22.

Á MOKKA sýni ég 18 akrýl-málverk á hvítgrunnuðum plötuumslögum. Sýningin heitir ATVIK og sýnir svipmyndir beint úr minningum heilans. Í hverri mynd verður 18 laga plata (eitt lag fyrir hverja mynd). Platan verður aðeins framleidd í 18 eintökum og músíkin verður ekki sett á netið í heild sinni (af mér allavega). ATVIK er því hreinræktað multimedia (myndlist/tónlist/safngripur). Verkin verða til sölu á uppsprengdu en sanngjörnu verði, 45.000 kr stk. Ég var ógeðslega lengi að mála þessar myndir, byrjaði 2014, en aðeins fljótari að búa til tónlistina. Hverju eintaki fylgir blað með myndum af öllum myndunum. 

PÖNKSAFN og ATVIK í Airwaves vikunni. Fúff, vinna vinna!

Páska-Popppunktur á Rás 2

23 Mar

Um páskana verður sérstakur Páska-Popppunktur á Rás 2 á milli klukkan 14 og 16. Átta hljómsveitir keppa í popp- og rokkfræðum þar til ein stendur eftir sem sigurvegari. Á morgun, skírdag, eru 2 leikir.

2016-03-16 14.19.06
2016-03-16 14.19.171. leikur: Risaeðlan – Agent Fresco!

2016-03-16 15.05.58
2016-03-16 15.06.192. leikur: Amabadama – Sísí Ey

Á föstudaginn langa kom tveir leikir til:

2016-03-16 16.20.39
2016-03-16 16.21.56
3. leikur: Úlfur úlfur – Reykjavíkurdætur

2016-03-16 17.09.332016-03-16 17.09.40
4. leikur: Dikta – Stop Wait Go

Á páskadag eru tveir leikir – undanúrslit. En á annan í páskum er bara einn leikur: úrslitaleikurinn sjálfur!

Fylgist spennt með. Hver vinnur?

Í sjónvarpinu í kvöld

20 Mar

gr_20160317_000308
Í kvöld á RÚV: Áttundi þáttur Popp- og rokksögu Íslands.

Á sama tíma á Stöð 2: Næst síðasti þáttur ÍSLAND GOT TALENT.

 

 

Breyttir tímar

13 Mar

Áfram verður haldið að rekja popp og rokksöguna í kvöld á Rúv og nú erum við að sigla inn í 9. áratuginn. Önnur eins uppstokkun hefur varla orðið í íslenskri rokksögu og þegar Bubbi Morthens mætti á svæðið og öskraði sig í gegn. 

Á Stöð 2 verður svo haldið áfram að skera niður í Ísland Got Talent. Aðeins 2 af 7 keppendum kvöldsins komast í úrslitaþáttinn þar sem barist verður til sigurs og 10 grjótharðar millur.

 

Popp og rokksagan heldur áfram

4 Mar

Á sunnudagskvöldið byrjar Popp og rokksagan aftur á RÚV. Við erum stödd á árinu 1975. Hljóðriti opnar og nýtt blómatímabil hefst. Plötur hrynja inn á markaðinn og margar af helstu meistaraverkum íslenska poppsins líta dagsins ljós: Stuðmenn, Spilverkið, Megas…

Alls verða nú sýndir 7 þættir í beit og verðum við þá komin fram á okkar dag. Takið því sunnudagskvöldin frá ef þið viljið línulaga poppsögu – svo má náttúrlega alltaf nýta sér Sarp og Tímaflakk.

Fyrsti ÍSLAND GOT TALENT í beinni verður svo sama kvöld á Stöð 2. Þá fáum við sjö geggjuð atriði en munum því miður þurfa að skera 5 í burtu með hjálp áhorfenda og símanna þeirra.