Sarpur | Músík RSS feed for this section

Tíu heitustu böndin á Airwaves

17 Okt

Já Gurra mín, nú styttist í gleðina. Tvær vikur í Airwaves og ekki seinna vænna en að reyna að átta sig á „möst-síunum“ sem Grímur og kó bjóða upp á í þetta skiptið. Hér eru 10 heitustu erlendu atriðin, skv. Greiningardeild bloggsins.

The Sonics. Ævagamalt bílskúrspönk frá Washington-fylki. Allir ættu að fíla gamla slagara eins og Strychnine og Psycho, en svo snéri bandið aftur í fyrra og gerði eina bestu kombakk plötu sögunnar (því almennt eru nýjar plötur með gömlum goðsögnum algjört drasl). The Sonics verða í Silfurbergi á fimmtudagskvöldið.

Pertti Kurikan Nimipäivät (PKN). „Sérstöku“ finnsku meistararnir eru eins og komið hefur fram á leiðinni og ætla að pönka úr þér líftóruna; á Gauknum á laugardagskvöldið og í Iðnó á sunnudaginn á milli 17-18:30 (frítt inn þar – ekkert armband nauðsynlegt).

Julia Holtier. Amerísk tónlistarkona sem sló í gegn í fyrra með fjórðu plötunni sinni, Have You in my Wilderness. Flott gáfukvennapopp. Spilar í Listasafninu á fimmtudagskvöldið.

Kate Tempest. Enskt skáld og rappari. Let Them Eat Chaos er fyrsta platan. Mjög gott stöff. Kemur fram í Gamla bíói á laugardagskvöldið.

Fews. Krautað rokk frá Svíþjóð/Ameríku. Fyrsta platan kom út í sumar. Spila á Gauknum á föstudagskvöldið.

Warpaint. Frá LA og hafa gert þrjár plötur, sú nýjasta Heads Up kom út fyrr á árinu. Spila á föstudagskvöldið í Silfurbergi.

Santigold. Strax á eftir Warpaint mætir Santigold á svið Silfurbergs. Hún hefur alltaf minnt mig á poppaðri útgáfu af M.I.A., svona kraftköggull með „heimstónlistar“-áhrif í smurðu poppinu.

Pavo Pavo. Þokukennt skýjapopp frá yfirskeggjuðum hipsterum frá Brooklyn. Kunna alveg að búa til fín lög svo þeir mega vera hipsterar með skegg mín vegna. Spila í Iðnó á föstudagskvöldið.

PJ Harvey. Eitt stærsta númerið á Airwaves í ár. Sló í gegn 1992 með fyrstu plötunni sinni, Dry. Var stillt upp með Björk og Tori Amos sem bjargvætti poppsins. Stundum kölluð kvenkyns Nick Cave. Ellefta platan The Hope Six Demolition Project kom út fyrr á þessu ári. Spilar í Valshöllinni á sunnudagskvöldið. 

Idles. Enskir drullupönkarar sem hafa gefið út nokkrar EP. Lofa góðu sjói. Spila á eftir PKN á Gauknum á laugardagskvöldið.

Die Nerven. Bullandi níhilistar frá Stuttgard. Þrjár plötur komnar. Svartklæddir og syngja á þýsku. Póstpönka á Húrra á fimmtudagskvöldið (Hörkulænupp þar, Pink Street Boys, Ham, Dr. Spock).

 

 

 

The Clash í Rvk 1980

20 Sep

Pabbi Justins Bieber var sex ára þegar ég fór á fyrstu útlendu tónleikana mína, laugardagskvöldið 21. júní 1980 (ég átti 3 og 1/2 mánuð í að verða 15 ára). Þetta var í stappaðri Laugardalshöll og Utangarðsmenn hituðu upp. Það var mikil spenna enda The Clash eitt af aðalböndunum, en við Kópavogspönkarar vorum þó fúlir af því Fræbbblunum hafði verið lofað að hita upp, en „helvítis kommafíflin“ hjá Listahátíð hætt við að leyfa þeim að spila af því textarnir voru ekki nógu mikið verkamanns eins og hjá Bubba. Valli í Fræbbblunum varð eðlilega alveg brjálaður og mætti ekki á giggið. 

clash-or
Ljósmynd náðist af mér á tónleikunum. Örin bendin á mig. Þarna eru líka Björn Gunnarsson, sem var með mér í F/8 á þessum tíma (þessi með steytta hnefann) og Ari Einarsson, gítarleikari Fræbbblanna á þessum tíma (þessi ljóshærð sem snýr með opinn munn frá sviðinu). Það eina sem ég man frá þessu giggi er að mér fannst það æðislegt og á leiðinni heim fullyrti ég við félaga mína að „maður þyrfti ekki að vera fullur til að skemmta sér“. 
clash-eg

Meira af The Clash: Nú er að koma „coming-of-age“ bíómyndin London Town þar sem Joe Strummer er í burðarhlutverki í túlkun Jonathan Rhys-Meyers (The Tudors, Dracula etc). Maður gefur þessu séns.

Brakandi ferskt x3

14 Sep

Hljómsveitin Fufanu hefur sent frá sér nýtt lag, Sports. Þetta er besta lagið þeirra til þessa og ég hef ekki séð flottara myndband í ár. Bravó!

Júlía Hermannsdóttir & Loji Höskuldsson eru WESEN. Þau hafa sent frá sér nýtt lag og myndband eftir Þóri Illmenni, eþs Just Another Snake Cult.

Hljómsveitin Gangly er einnig búin að senda frá sér nýtt lag, Holy Grounds. Hlustið á lagið á heimasíðu Gangly.

Fórnað á altari RVK DTR

6 Sep

rvkdtr-forn
Hver er undir teppinu? spyrja Reykjavíkurdætur á fyrstu plötu sinni sem var að koma út. Ég veit ekki hver er undir teppinu, en ég, JFM og Marta María vorum undir hauspokunum þegar við vorum leidd inn á svið Nasa á laugardagskvöldið. Það átti að taka okkur af lífi fyrir listina og „klára dæmið“, en eins og einhverjir muna kannski höfðu RVK DTR lent í buffi við Ágústu Evu, sem hneykslaðist og gekk út, og Emmsjé Gauta, sem sagðist ekki fíla þær. Það sem sameinar hópinn er að við vorum öll í síðastu tíð Ísland Got Talent.

Nema hvað; við lifðum aftökuna af og fórum á barinn. Þar hittum við Ágústu Evu, sem fussaði yfir þátttöku okkar í þessum skrípaleik og var ekkert að fíla þetta. Gerð var tilraun til að fara „á djammið“, m.a. á sveitaball með Á móti Sól í kjallaranum hjá Friðriki Ómari í Græna herberginu. Magni og kó kunna þetta.

Plata Reykjavíkurdætra er nett, poppuð og fersk og ánægjulegt er að hlusta á íslenskt rapp með ilmandi píkulykt, eftir alla pungfíluna sem hingað til hefur verið viðloðandi þessa senu. Bravó! (Myndirnar tók Lea Letzel)

Rvkdtr-forn4

Fágætasta Bubba-lag í heimi

4 Sep

oxsma83+bubbi
Ég held þetta hafi verið svona: Einhvern tímann árið 1983 var hljómsveitin OXSMÁ (æðislegasta hljómsveit Íslandssögunnar btw) að glamra í kompu nálægt skemmtistaðnum Safarí á Skúlagötu (staðurinn var til vinstri við þar sem KEX Hostel er í dag). Bubbi Morthens var fastagestur á Safarí, útúrkókaður og ríðandi hægri vinstri eins og lesa má um í ævisögu hans. Bubbi var eitthvað að væflast þarna, kannski nýbúinn að refsa einhverri grúppíunni, rann á hljóðið og bankaði á kompuhurðina. Úr varð smá djamm og svo vel vildi til að upptökugræja var á svæðinu. „Me & My Baby“ með Bubba og Oxsmá varð útkoman og var gefin út skömmu síðar á „Biblía fyrir blinda“, kassettu Oxsmá frá 1983. Bubbi vissi ekkert af þessu og brást að sögn illa við tíðindunum. Áður en hann fór í mál við Oxsmá voru málin settluð.

Hjálp! Airwaves var að toppa sig!

1 Sep

1598660
Hallilújah! Nú eru rúmir tveir mánuðir í Iceland Airwaves veisluna og Grímur og co kynntu síðustu atriðin inn í gær. Þetta verður hreint froðufellandi æðisleg dagskrá – PJ Harvey, The Sonics, Julia Holter, Warpaint og Lush, svo ég tíni nokkur spennandi atriði til – en til að kóróna snilldina var í gær tilkynnt að finnsku pönkararnir í Pertti Kurikan Nimipäivät verði á meðal atriða. Hallilújah! segi ég nú bara aftur.

Ég sá Pertti Kurikan Nimipäivät fyrst í Bíó Paradís í heimildarmyndinni um þá, Punk Syndrome. Þetta er æðisleg mynd, ég hef sjaldan hlegið jafn mikið í bíó – Fótsnyrtiatriði Kari söngvara ætti t.d. að fá einhvers konar gullmedalíu í fyndni innanhúss. Fyrir þá sem ekki vita er Pertti Kurikan Nimipäivät (nafnadagur Pertti Kurikka) skipuð fjórum Finnum, sem fóru að spila pönk í listasmiðju „þroskaheftra“ árið 2009. Framgangur þeirra hefur verið mikill síðan, bandið hefur spilað víða um heim og gert plötur með hráu og reiðilegu eðalpönki. Bandið tók svo þátt í Eurovision í fyrra og ég var viss um að þeir myndu vinna. Eitthvað ofmat ég andlegt atgervi þeirra sem kjósa í þessari helvítis lágkúruhátíð og bandið komst ekki einu sinni upp úr undanriðlinum. Skömmin er ykkar evrópsku hálfvitar.

Ég sá PKN á tónleikum í Montreal 2012. Við Grímur vorum þar á M for Montreal hátíðinni og eitthvað á röltinu þegar ég sá náunga sem ég kannaðist eitthvað við vera að reykja við hótelanddyri. Mér sýndist þetta fyrst vera einhver meistari úr Kópavoginum en fattaði svo að hér væri kominn Kari Aalto söngvari. Við spjölluðum við kauða og upp úr krafsinu kom að hann væri í Montreal með bandinu vegna heimildarhátíðar. Og það sem meira var: Bandið átti að spila um kvöldið. Við Grímur mættum auðvitað og fengum fáránlega gott pönkið í æð. Og nú koma þeir hingað. Hjálp, einhver þarf að sprauta mig niður!
14102142_10153656316176783_2936855918813466662_n

Bestu pönk-plöturnar

29 Ágú

punk25
Pönk. Hvað er pönk? Attitjúd og hröð, kraftmikil, reið og ögrandi rokktónlist. Ég var aðeins seinn í pönkið. Þegar Vísir birti fyrst fréttir af fyrirbærinu sem þá var orðið fjölmiðlafóður í Englandi gekk öll umfjöllunin út á hvað þetta væru hræðilegir menn, með grænar tennur og hrækjandi og blótandi. Mömmubarnið ég var ekkert að kaupa þetta og ég sagði við einhvern félaga minn að Mezzoforte og Dire Straits væru miklu betri, enda kynnu menn þar að spila á hljóðfæri. Ég var sem sagt svona FÍH vonnabí á tímabili. En, eins og ég hef margoft sagt, frelsaðist ég til pönks í Kópavogsbíói 1979 þegar ég sá Fræbbblana og Snillingana taka sándtékk og svo spila (Fræbbblarnir í læknasloppum, Snillingarnir í lopapeysum). Ó elsku pönkið mitt!

Hér kemur aspergen-aður listi yfir 25 bestu pönkplötur sögunnar, eins og mér finnst í dag og er þá mælt út frá endingu og innihaldi – ekki stöðluðum listum og „almennum“ sannleika. Youtube-linkar fylgja.   

25 The Rezillos – Can’t Stand the Rezillos (1978)
24 The Stranglers – Rottus Norvegicus (1977)
23 Richard Hell & The Voidoids – Blank Generation (1977)
22 Stiff Little Fingers – Inflammable Material (1979)
21 Crass – The Feeding of the 5000 (1978)
20 Dead Boys – Young, Loud & Snotty (1977)

19 The Damned – Damned Damned Damned (1977)
18 X-Ray Spex – Germfree Adolescents (1978)
17 Naked Raygun – Throb Throb (1985)
16 The Ruts – The Crack (1979)
15 X – Los Angeles (1980)
14 XTC – White Music (1978)
13 Big Balls & The Great White Idiot – Big Balls (1977)
12 Dead Kennedys – Fresh Fruits for Fotten Vegatables (1980)
11 Buzzcocks – Another Music in a Different Kitchen (1978)
10 The Stranglers – No More Heroes (1977)

09 The Saints – Eternally Yours (1978)
08 The Clash – London’s Calling (1979)
07 Bikini – Hova Lett… (1983)
06 The Undertones – The Undertones (1979)
05 The Clash – The Clash (1977)
04 The Ramones – The Ramones (1976)
03 The Sex Pistols – Never Mind The Bollocks, Here’s… (1977)
02 The Stooges – Raw Power (1973)
01 Fræbbblarnir – Viltu nammi væna (1980)


Bestu póstpönk-plöturnar

28 Ágú

drgunnipostpunk
Eftir að hafa lapið upp Bítlana síðan 1976 eða eitthvað, datt ég inn í það sem var kallað pönk eða nýbylgja. Ég hef dáldið verið að hlusta á þetta dót aftur, það sem hæst bar sirka 1977-1981 og hefur verið kallað „post-punk“ í seinni tíð, þótt maður heyrði þetta orð aldrei í gamla daga. Þar sem ég er óður í lista eins og aðrir tónlistaráhugamenn með snert af Aspergen kemur hér topp 25 listi yfir bestu póstpönk-plöturnar með Youtube linkum á allt heila klabbið. 

25 Crass – Penis Envy (1981)
24 Joy Division – Unknown Pleasures (1979)
23 Siouxsie and The Banshees – Kaleidoscope (1980)
22 The Stranglers – Black and White (1978)
21 Þeyr – Iður til fóta 10″ EP (1981)
20 The B-52’s – The B-52’s (1979)
19 The Cure – Faith (1981)
18 The Birthday Party – Junkyard (1982)
17 The Feelies – Crazy Rhythms (1980)
16 The Cramps – Songs the Lord Taught us (1980)
15 Fan Houtens kókó – Musique Elementaire (1981)
14 Pere Ubu – The Modern Dance (1978)
13 Fræbbblarnir – Bjór 7″ EP (1981)
12 Young Marble Giants – Colossal Youth (1980)
11 The Fall – Slates 10″ EP (1981)
10 Gang of Four – Entertainment! (1979)
09 The Slits – Cut (1979)
08 Suicide – Suicide (1977)
07 XTC – Go 2 (1978)
06 Purrkur Pillnikk – Ekki enn (1981)
05 Devo – Q: Are We Not Men? A: We Are DEVO! (1978)
04 Wire – Pink Flag (1978)
03 XTC – Drums and Wires (1979)
02 The Birthday Party – Prayers on Fire (1981)
01 Wire – Chairs Missing (1978)

Þeyr á tónleikum 1982

24 Ágú

jaz
Þeyr er ein besta hljómsveit Íslandssögunnar eins og allir vita. Þann 12. apríl 1982 spilaði bandið í Félagsstofnun stúdenta með Vonbrigði. Ég var mættur með tveggja rása kassettutæki sem ég hafði fengið lánað hjá Trausta og tók giggið upp. Sándið er kannski ekki eins og best verður á kosið, en þetta er samt fín heimild um gott læf band. Mig minnir að Magnús söngvari hafi verið borinn inn í líkkistu þegar giggið hófst, en annað man ég ekki svo obboslega gjörla frá tónleikunum.

Þegar hér var komið við sögu var Rokk í Reykjavík ný frumsýnd í Tónabíói og búið að banna hana innan 14 ára því sniff og hass kom við sögu í viðtölum við Bjarna Móhíkana og Bubba Morthens. Jaz Coleman úr Killing Joke var mættur á klakann og hljómsveitin Iceland tók skömmu síðar upp nokkur lög. Þetta er því meðal síðustu tónleika Þeysara áður en bandið leystist upp.

The Walk
Positive Affirmations
Zen (In the art of snobbery)
Current
Killer Boogie
???
Public
Blood
Homo Gestalt
Rúdolf

Allskonar í eyrun

15 Ágú

filalag
Fílalag þeirra Bergs Ebba og Snorra Helga
er nú um stundir besta poddkastið hér á landi á. Þar fíla þeir Sprengjuhallarmenn eitt lag í einu og tala yfirleitt um miklu meira en bara það. Þetta er bráðskemmtilegt, „djúpt“ og safaríkt stöff sem aðeins sökkerar láta fara fram hjá sér.


Ein af plötum ársins er Vagg & velta með Emmsjé Gauta. Þetta er þriðja platan hans og engin spurning hans besta. Skothelt popp hipp hopp og hellingur af góðum lögum. Ég hlusta á hana á Spotify en hún er til á CD og krádföndað LP á leiðinni. Gauti er ungur hrútur svo textarnir hrútlykta all vel. Djammið og þynnkan, en nú er nokkuð um „allir vasar fullir af seðlum“-stemmingum, enda nóg að gera hjá Gauta. Enn einn vitnisburðurinn um að íslenska rappið er where it’s at núna.

Annar vitnisburður um það sama er Úlfur úlfur. Þeir hentu í smell fyrir næstu seríu af Orðbragði, sem hefst bráðlega. Hvílíkur metnaður! Afhverju fengum við ekki einhverja til að gera Popppunkts-lag þegar við byrjuðum síðast? Æ, of seint og FM Belfast búnir að vinna.

Það er ekki síst stórfínt við rappsenuna að nánast allir eru á íslensku. Enginn að láta sig dreyma um erlent meik. Þetta er rammíslenskt og heimabruggað fyrir heimamarkað. Þetta er tónlist samtímans. Í núinu.


Íslenska rappið er heldur ekki eintóna. Cyber er klofningsframboð úr Reykjavíkurdætrum  og Cyber hefur gefið út 8-laga ep-ið Crap (Spotify). Dáldið súrari bít og dulari fílingur  en gengur og gerist, en alveg suddagott stöff. Góðir textar – „Úti er andlit á glugga að rúnka sér“ er gull.


Læda slæda með Prinspóló er einn af betri smellum sumarsins. Hér er sungið um eitthvað sem allir kannast við. „It is funny coz it’s true“-dæmi. Gaman að segja frá því að lagið var frumflutt í 40. afmæli Kristjáns trommara í fyrra og ég var á bassa. 

Það barst bréf frá popppönk hljómsveitinni Suð. Hljómsveitin Suð er að fara að gefa út sína aðra breiðskífu í lok september (23.09) eftir margra ára hlé. Platan heitir Meira suð! og hefur að geyma 12 eðal indí pönk rokk lög. Albert Finnbogason sá um upptökur á grunnum og hljóðblöndun og Finnur Hákonarson sá um hljómjöfnun. Annað er verk Suðs og hjálparkokka.
Hér er aðeins um lagið „Á flótta“: „Öll gætum við þurft að leggja á flótta og leita skjóls annars staðar. Hvort sem það er vegna stríðsátaka, kúgunar, mengunarslysa eða náttúruhamfara. Lagið Á flótta er ærlegt 2 mínútna pönk rokk sem minnir okkur á þá einföldu staðreynd að það fólk og fjölskyldur sem eru á flótta í veröldinni í dag eru ekkert frábrugðin okkur hinum.“

Hlö. Át.