Sarpur | Landkynning RSS feed for this section

Öskra minna – Bíó meira

27 Sep

Við skulum ekki gleyma okkur. Íslendingar eru 0.000345% jarðarbúa og það er enginn nema við sjálf að pæla í þessu svokallaða stjórnmálaástandi hérna. Mér er svo sem sama hvernig þú vilt eyða dýrmætum tíma þínum. Ef þú vilt öskra allan daginn á Facebook um hvað allt sé ömurlegt og hvað allir séu glataðir og svona almennt raus, sem tekur athyglina frá því sem enginn vill sjá: Bjálkanum í eigin auga – þá máttu það að sjálfssögðu. Kannski er einhver álíka æstur sem mun svara þér eða koma með mótrök og bla bla bla, en ég er allavega ekki þarna. Og auðvitað öllum drullusama um það.

Íslenskt náttúra hefur “alltaf” verið hérna og það er hún sem dregur túrista-síldina hingað fyrst og fremst. Sama náttúra var hérna líka þegar smámenni fortíðar (aðallega XD og XB, en líka allir hinir, t.d. Steingrímur Joð) reyndu sem mest þeir máttu að eyðileggja náttúruna, því þeir komu ekki auga á neitt annað en leiðinlegar verksmiðjur til að “bjarga” hinum og þessum plássum sem eru ekki á höfuðborgarsvæðinu. Gamla Ísland voru álver, frekir kallar sem öskruðu: “Nú, hvernig vilt þú þá halda lífi í landinu?” og endalaus og geðveikur fjáraustur í vonlaus verkefni eins og lambakjöt á erlenda diska, svo ekki sé talað um endalaus “landkynningarátök”, sem voru í besta falli góður brandari.

En þetta rugl fékk allan peninginn. Áratugur eftir áratugur í rugl. Af því þrælar hugmyndaleysis og eigin ranghugmynda höfðu rangt fyrir sér en réðu samt yfir öllum peningunum. Og biddu fyrir þér, það er enn fullt af vitleysingum sem halda að “landkynning” og “lambakjöt til útlanda” séu einhver töfraorð.

Grjótharðar staðreyndir eru þessar: Listafólk í útrás hefur komið Íslandi og náttúrunni á kortið í erlendum hausum. Með þeim afleiðingum að túrismi er að síga yfir sjávarútveg sem aðalatvinnugrein þjóðarinnar. Hafðu það, álbrjálaði, hvalveiðandi, stóriðjustefnuóði fábjáninn þinn! Eða nei, það er lítilmannlegt að vera “I told you so”.

“Það er gott að vera vitur eftir á,” söngluðu heimskir milljarðagreifar með allt niður um sig 2008 og í sama kór voru XD og XB og líka XS og XV og allir bara. Líka þú með þinn flatskjá og myntkörfulán á bakinu. Hvernig væri þá núna að vera “vitur fyrirfram”? Til dæmis með því að fara ekki á límingunum í einhverri geðsturlun þegar næstu listamannalaun verða tilkynnt. Listamannalaun sem eru bara klink hvort sem er og eflaust hægt að borga þau öll með einni misheppnaðri lambakjötsferð til Kína.

Hvernig væri að hætta að eyða tímanum í tilgangslaust tuð á Facebook, rífa þig upp á rassgatinu og sjá og heyra skemmtilega og hrífandi list. Skiptir ekki máli hvað það er eiginlega. Fólk er meira en kindur. Rollur fara ekki í bíó en bændur á svokallaðri vonarvöl ættu að gera það. Netflix? Næst það ekki í Skagafirði?

Nú er að renna upp hið árlega bíóhaust. Með leyfi fundarstjóra:

hronnmarRIFF kvikmyndahátíðin byrjar á morgun. Slefandi æðisleg veisla til 8. Október. Dagskráin er hér og bara go for it. https://riff.is/dagskra/kvikmyndir-og-vidburdir/ Miðasalan er hér. https://riff.is/um-riff/midasala/ Fólk yfir 90 í greind ætti að geta klórað sig út úr þessu, enda getur fólk undir 90 bara farið áfram á Superman (reyndar æðisleg skemmtun þessi nýjasta).

Hef sjálfur ekki fullskipulagt mig en nú hef ég tíma, enda ekki fastur í að bera kassa einhversstaðar á milli 09:00-18:00. Myndir sem mér sýnast vera möst: Tom of Finland / Borg vs. McEnroe / Stöff eftir Aki og Maki Kaurismaki / Stöff eftir einn heiðursgestinn, sjálfan Werner Herzog / Rock n Rollers (með krökkunum) og svo framvegis.

Sjálfur er ég víst í viðtali í myndinni Atlantis, Iceland eftir ástralska vini mína. Ég neyðist til að sjá undirhökuna á mér í þeirri mynd. Og svo er örugglega margt fleira fyndið og áhugavert en undirhakan á mér í þessari mynd.

Það skiptir eiginlega ekki máli hvað maður sér, í hvaða sal maður vafrar inn á – maður kemur alltaf betri maður út og jafnvel með einhverjar nýjar og ferskar pælingar. Þetta er ekki bara bíó, þetta er líka hugveita. Ég er að detta í gírinn og nú verður tekið á því. Takk Hrönn Marínósdóttir fyrir að nenna þessu í öll þessi ár! Þrátt fyrir þetta vanalega, fjárhagsáhyggjur og betl, af því það þarf að nota peningana í lambakjöt og landkynningu, bjarga einhverju Sjalladrasli á Suðurnesjum (Steingrímur Joð) og svo moðerfokking framvegis. En munum samt að vonin er það síðasta sem deyr. (Sjá t.d. http://www.imdb.com/title/tt0118799/)

Ef þú vilt svo drulla þér af Facebook strax í kvöld (eða seinna) þá eru það THE SQUARE í Bíóparadís og UNDIR TRÉNU sem þú átt að fjölmenna á með undirhökuna, þín andlegu og líkamlegu mein, æxlunarfærin, heilann á þér og allt heila klabbið.

Allt hér að ofan gildir líka fyrir þau ykkar sem teljið ykkur vera alheilbrigð. Þið eruð hættulegasta liðið, oftast svo kallaðir siðblindingjar, sem er víst staðreynd að er til (á eftir að gúggla). Kjósendur hljóta að vita við hverja er átt.

Hjá bestu útvarpsstöð í heimi

25 Nóv

2015-11-13 14.21.27

Ég hef lengi verið á þeirri skoðun að WFMU útvarpsstöðin sé sú besta í heimi. Á ferðum mínum til NYC hef ég lengi reynt að troða mér í þátt á stöðinni til að básúna Ísland. Það tókst ekki fyrr en í síðustu ferð þegar Devon E. Levins fékk mig til að tala um íslenska kvikmyndatónlist í þættinum Morricone Island – þáttur sem sérhæfir sig í tónlist úr kvikmyndum. Útvarpsstöðin er í eigin húsi í Jersey City. Meðan ég beið fékk ég mér lasagna í Milano’s við hliðina innan um ekta Jersey löggur, iðnaðarmenn og skólakrakka. WFMU hefur verið starfandi í einni eða annarri mynd síðan 1958. Hún er rekin af algjörum músíknötturum, hver einasti þáttur er keyrður áfram af brennandi áhuga á tónlist og það eru engar helvítis auglýsingar. Þetta er stærsta og elsta „free form“ útvarpsstöð í heimi og hreinasta snilld á allan hátt. Þættir fortíðar eru þarna í haugum, það má hlusta aftur til 1995 eða eitthvað – hrein gullkista.

2015-11-13 13.14.21
Devon er með Íslandsáhuga. Hann fékk smitið á áhugaverðum stað. Hann átti heima í Kaliforníu og átti íslenskan vin í næsta húsi sem þreyttist ekki á að tala fjálglega um landið góða í norðri. Vinurinn var enginn annar en Björgólfur Thor Björgólfsson, sem þegar þarna var komið sögu var ekki orðinn athafnamaður og milljóner. Devon hefur áður verið með Ísland í brennidepli í þætti sínum, hann talaði við Jóhann Jóhannsson á dögunum og hafði áður gert þátt með íslenskri sándtrakkmúsík.

2015-11-13 12.02.44-1
En nú var sem sé komið að mér. Og ég lét gamminn geysa í klukkutíma, spilaði Ellý, Hallbjörn, Ham, Prinspóló og allt þar á milli, auk þess að röfla heil ósköp. Hér er þessi þáttur til hlustunar.

Eftir upptöku fór Devon með mig í skoðunarferð um snilldarstöðina. Hér er upptökuherbergið þar sem ýmsir listamenn og hljómsveitir hafa leikið og sungið.
2015-11-13 14.09.52

Þegar ég var þarna var bein útsending hjá Bryce. Viðkunnalegur gaur:
2015-11-13 14.14.36

Lítill tónleikastaður er á neðstu hæðinni, Monty Hall, þar sem allskonar snilld dúkkar upp. Hið heilaga gral er svo plötusafn stöðvarinnar. Það er sirka 500 fermetrar af unaði en því miður er ekki hverjum sem er hleypt þar inn, svo ég varð að láta mér nægja að slefa á rúðurnar. 
2015-11-13 14.14.54
Lengi lifi WFMU! Vinin í eyðimörk heimsku og leiðinda.

Bretar á balli í Reykjavík 1810

13 Jan

Glögga gestsaugað. Það hefur löngum horft á okkur eyjaskeggja með glögga gestsaugað í pung. Við erum auðvitað viðkvæm fyrir þessu, enda almenn trú að hér í nafla alheimsins búi rjómi jarðarkringlunnar og allt í útlöndum sé glatað frat. Fyrr á öldum var eyjan jafnvel einangraðri en núna og eyjaskeggjar jafnvel enn meiri eyjaskeggjar. Gaman er að glugga í bókina Travels in the island of Iceland during the summer of the year MDCCCX, sem Sir George Stewart Mackenzie skráði. Hér flæktist hann um með læknunum Holland og Bright fyrir rúmlega 200 árum, 1810. Þetta voru náttúrlega snobbaðir yfirstétta-Bretar sem glottu yfir afdalamennskunni hér. Félagarnir skelltu sér á ball í Reykjavík. 
ball1810

Bókin liggur í heild á netinu. Kannski spurning um að lesa bókina áður en Framsóknarflokkurinn fær lögbann á hana?

Ben Stiller selur norðurljósin

10 Des


Ísland er orðið svo sjóað í meikinu að það er hætt að tala um það hérna þegar okkur ber á góma í erlendum stórmiðlum. Það er af sem áður var þegar allir gengu um með útþanin brjóst ef skerið kom fyrir einhvers staðar í útlöndum. Það ætlaði t.d. allt um koll að keyra í Austurbæjarbíói þegar John Cleese minntist á Ísland í  myndinni A Fish Called Wanda.

Ben Stiller kynnir nú mynd sína The Secret Life of Walter Mitty og að sjálfssögðu poppar Ísland upp í plögginu, enda myndin tekin að hluta hér eins og allir ættu að vita. Ben var hjá Conan á miðvikudaginn, var með heljarinnar landkynningu og gott ef ekki seldi norðurljósin, Einar Ben stæl. Ég heyri nýjar gistinætur hrannast upp. Ben er nú orðinn einn af heiðruðum Íslandsvinum okkar (þótt hann kunni ekki að bera fram „Stykkishólmur“) og er það vel því þetta er meistari. Nú er bara að vona að Conan kaupi skjallið hans Bens og heimsæki okkur við tækifæri.

The Secret Life of Walter Mitty verður frumsýnd á Íslandi 3. janúar nk.

„Heiðríkjupopp“ komin út

8 Nóv

bep-kapa-minni
Sögur bókaforlag hefur gefið út bókina Blue Eyed Pop – The History of Popular Music in Iceland, sem er fyrsta bókin á ensku um íslensku popp/rokk söguna. Bókin er byggð á Stuði vors lands, en er náttúrlega með „erlendan“-fókus: Tekur frekar djúpt á því sem útlendingurinn þekkir auk þess að gefa ágæta innsýn í allan pakkann og tína til allt það helsta. Þessi bók er álíka flott og Stuð vors lands en er bara 854 g á meðan Stuðið var 250o g. 

Vönduð tækifærisgjöf fyrir góða vini erlendis!

Svo má jafnvel benda á þessa síðu þar sem hægt er að kaupa bókina og fá hana senda til sín í útlöndum. 

Ég gerði svaka tónlistarmix, einskonar tónlistarlegan förunaut þegar bókin er lesin. Það má auðvitað hlusta á þetta á meðan Stuð vors lands er lesin líka eða bara án þess að vera að lesa nokkurn skapaðan hlut!

Fyrir 1950
1950-1959
1960-1969
1970-1979
1980-1989
1990-1999
2000-2013

ps. Titillinn er nafn á Sykurmolalagi, en þegar Blue Eyed Pop var tekið á Íslandi á íslensku var það Heiðríkjupopp.

Homer talar íslensku

20 Maí

simphallgr
Íslenski þátturinn af Simpsons var frumsýndur í gærkvöldi og verður sýndur á Stöð 2 í kvöld ef ekki verður búið að reka alla þýðendurna. Þetta er ágætur þáttur sem Ferðamálaráð hlýtur að taka fagnandi því þetta er megabúst landkynningarlega séð. Auðvitað er gripið í allar helstu klisjurnar um land og þjóð, en meðal þess helsta sem ber fyrir augu og eyru er að Hómer talar íslensku („Ég er með frábæra hugmynd!“), (stytta af) Björk og Jóhanna Sigurðardóttir koma við sögu, ný gullfalleg Sigur Rósar músík er notuð í hljóðrásinni og svo spila strákarnir löturhæga útgáfu af titillagi Simpsons í lok þáttarins.

simpbj

Atriðin fara m.a. fram á Skólavörðuholti, í Perlunni, inni á Hressó (eða Yukki’s Grossfud eins og staðurinn heitir í þættinum), við Sólfar Jóns Gunnars Árnasonar (sem í raun er einn heitasti túristastaður borgarinnar og varla líður sú mínúta sem þar er ekki allt vaðandi í túristum), í Bláa lóninu og á ótilgreindum „úti á landi“ stöðum þar sem varla er þverfótað fyrir eldfjöllum og goshverum.

simplandsl

 

simpjoh
(Þetta á að vera Jóhanna!)