Sarpur | kaggi RSS feed for this section

Töff kaggi #13

29 Ágú

Fátt er eins töff og svartur, gamall og gljáandi líkbíll. Íslenska orðið er líka töff, lík-bíll, bíll til að keyra lík. Segir allt sem segja þarf og án filters. Ekki dauða-bíll eða kistu-bíll, heldur lík-bíll. Lík er látin manneskja og bíll er bíll. 

Rakst á einn út á Granda. Svartur Cadillac. Nenni ekki að gúggla árgerð. Kagginn myndar hugrenningatengsl við The Adams Family og Screaming Lord Sutch. Djöfull væri maður töff í svona á rúntinum. Fyrst þyrfti ég náttúrlega að leggja bláa útivistarjakkanum og koma mér upp Singapore Sling lúkki. Blasta Frankie Teardrop út um gluggann.

Kannski í næsta lífi, aumingi. 2016-08-28 13.23.45
2016-08-28 13.23.582016-08-28 13.24.07

 

Töff kaggi #12

21 Ágú

Þessi var í Kópavoginum. Cadillac Eldorado af sjöundu kynslóð. Framleiddur í Detroit einhvern tímann á tímabilinu 1967-70, 2245 kíló af haltu kjafti.
2014-08-20 13.28.04 2014-08-20 13.28.36

Töff kaggi #11

9 Júl

Þessi var á Akureyri. Sirka 1963 árg af Cadillac. Rúmlega 2000 kíló af fullkomnum sigri mannsandans yfir náttúrunni. 
2014-07-04 10.18.01
2014-07-04 10.18.50
2014-07-04 10.18.16

Töff kaggi #10

31 Jan

Chevrolet Chevy Van 20 á Ægissíðunni. Megatöff svona kringlóttir gluggar.
2014-01-29 14.31.53
2014-01-29 14.32.08
2014-01-29 14.32.24

Töff kaggi #9

13 Jún

Síminn minn („notaðu hann eins og þú hatir hann“) er algjör snilld. Maður getur mælt hjólaleiðina sína og svo montað sig af henni með korti, svona:
vatnsendahjring
Rosa fínn hringur, gegnum Elliðaárdal, Vatnsendi, gegnum Garðabæ og til baka. Ekki nema 32.65 km. Vatnsendi var einu sinni algjört middle of nowhere. Það var stundum rúntað þarna og ég man óljóst eftir drauga/hryllingshúsi sem var þarna dálítið afskekkt. Veit einhver hvað ég er að tala um? Með Spotify gat ég svo blastað Autobahn á meðan ég hjólaði í gegnum neðri hverfin í Garðabæ. Þá hugsaði ég: Þetta er fullkomnun.

Svo sá ég töff kagga #9. Chrysler Imperial 55 módel, 2.2 tonn af sigri mannsins yfir náttúrunni:
imper

Töff kaggi #8

2 Okt


Í iðnaðarhverfinu í Hfn kom ég að þessum ýkt töff kagga. Hann þarfnast viðgerðar eins og sjá má.


Bíllinn er merktur í bak og fyrir. Á honum eru fögur skylti sem á stendur Galaxie, Skyliner og Fairline 500.Eftir gúggl hefi ég komist að því að þetta er 1959 módel af Ford Fairlane 500 Galaxie Skyliner – 1843 kíló af töffi á hjólum frá þeim tíma er menn höfðu ekki ennþá stigið á Tunglið og voru voða lítið að spá í kolefnisjöfnun. Þetta er svo mikið bjútí að maður getur haft hann inn í stofu. Vona að hann sé ekki á leiðinni á haugana!

ps – indienördar geta svo auðvitað samsvarað sér með þessum bíl því eitt aðal indiebandið í kringum 1990, Galaxie 500, nefndi sig eftir svona bíl.

Töff kaggi #7

27 Ágú


Ef Töff kaggi #6 er konungur kagganna í Vesturbænum, þá er þessi prinsinn. Chrysler sirka 1950, veit ekki meir, en það stendur „Fluid drive“ á skottinu. Ég sá ekki betur en það væri heilt djúkbox í mælaborðinu.


Magnþrunginn bíll. Ef maður ætti svona þyrfti maður hvorki að hafa áhyggjur af framtíðinni né velta fyrir sér tilgangi lífsins.


Nei, ég segi það nú kannski ekki.

Töff kaggi #6

25 Jún


Töffaðasti kagginn í Vesturbænum er án efa þessi skronster svarti Packard Ultramatic Drive frá sirka 1954. Hann kemur bara út á sumrin og er mikill vorboði. Keyri maður framhjá getur maður minnst gamalla tíma þegar mannkynið hafði mikla yfirburðarhugmyndir um hlutverk sitt á jörðinni og taldi sig geta vaðið yfir heimska náttúruna á stífbónuðum ofurbílum. Það eru reyndar risavaxnir einkabílar enn við líði, en enginn þeirra er jafn fágaður og Packardinn og hinir ofurkaggarnir frá þessum tíma.


Talandi um fágun. Sjáðu bara húddskrautið, þennan glansandi fugl, sem er að taka sig til flugs. Verður húddskraut fágaðra en þetta?

Töff kaggi #5

2 Okt


Svörtu Lundúnarleigubílarnir eru töff og ekki á hverju strái hér. Sá þó einn í bænum áðan, vínrauðan. Einhver hefur greinilega bara keypt hann til einkanota. Hann er allavega ekki merktur með leigubílamerki. Eftir því sem ég kemst næst eru þetta Austin bílar, en þessi var merktur Fairway, sem var lína kynnt til sögunnar 1989 – Já, ég las það á Wiki. Hér er svo síða, sem rekur það hversu sniðugt er að eiga svona bíl og nota hann sem fjölskyldubíl.

Töff kaggar #3-4

16 Sep


Ef maður sér einhvers staðar töff kagga þá hlýtur það að vera í Kef, hugsaði ég og hjólaði um allan bæ til að reyna að sjá töff kagga. Ég sá enga og var orðinn úrkulna vonar. En maður á aldrei að gefa upp vonina og alveg við höfuðstöðvar SBK rútufyrirtækisins er Útfararþjónusta Suðurnesja og þar úti við stóð flotinn. Og við lafandi júgur móður náttúru, hvílir kaggar!


Fyrir hinn látna er boðið upp á tvo glæsilega Cadillac líkbíla, einn bláan og einn svartan. Mér sýnist þetta vera seventís módel og alveg stórkostlega flott eintök. Ef ég væri dauður myndi ég láta keyra mig í kistunni fyrst í svarta bílnum og svo í bláa – svissa á miðri leið. „Vandamálið“ er bara að ég er hvorki dauður né íbúi á Suðurnesjum og heimta þar að auki að láta brenna mig. Ætli maður geti samt ekki látið drösla öskunni um í töff líkbíl?

Þeir sem séð hafa myndina Harold & Maude vita að fátt er eins töff og að keyra um í líkbíl. „Líkbíll“ er annars mjög rosalegt orð – „Corpse car.“ Hið enska hearse er mun fallegra.


Superior indeed.