Sarpur | Í útlöndum RSS feed for this section

Etið og hangið yfir plötum í USA

10 Apr

Ég fór til NYC í ellefta skipti á dögunum. Borgin er eins og kunnugt er höfuðborg mannkynsins. Ferðin hófst á því að Haukur S. Magnússon náði í mig á JFK og við keyrðum í myrkrinu í gegnum New Jersey til Philadeplhia, þar sem hann býr ásamt unnustu sinni Juliu. Í New Jersey eru vegasjoppur nefndar eftir mikilmennum frá fylkinu. Við stoppuðum í Thomas Edison og saman slöfruðum við í okkur skammti af Popeyes kjúklingabitum. Þetta stóðst fyllilega allar væntingar sem ég hafði til þessa skyndibita. Ég er nefnilega gamall í Popeyes hettunni eftir að við Biggi Baldurs ánetjuðumst Popeyes bitum á Bless-árunum. Þegar Popeyes var á Íslandi var nokkur hátíð í bæ en það tímabil stóð stutt.

Allavega, það þurfti að éta meira enda klukkan að nálgast miðnætti og ekki hafði ég tímt ég að kaupa eitthvað í Flugleiðum. Borgarabarinn Village Whiskey var heimsóttur hvar ég skóflaði í mig hnausþykkum borgara með einhverju agalega fínu ofan á, gott ef ekki krabbakjöti. Frönskunum var velt upp úr gæsafitu, en ég fann nú engan mun.

Daginn eftir var haldið áfram í listisemdum.  Reading Terminal market er einhver geðsjúkasti matarmarkaður sem ég hef komið í. Þar fæst sennilega allt sem hægt er að éta, m.a. súkkulaðihúðaður laukur (sem ég smakkaði ekki). Við átum allaskonar og allt var ógeðslega gott. Amish fólkið er þarna m.a. með bása, það kemur úr sveitinni, konurnar með skuplur og kallarnir með skegg (sjá: myndirnar Witness og Kingpin). Ég keypti gulrótarsafa af Amish manni sem var svo góður að ég er enn að hugsa um hann (drykkinn þ.e.a.s., ekki kallinn!).

2014-02-22 11.28.40
Hér eru Júlía og Haukur á markaðnum. Eitthvað fleira var gert þennan dag. Við fórum að hjóla, ég á peysunni enda svona 15 stiga hiti. Fólk þarna trimmar og hjólar vilt og galið meðfram Schuykill ánni og leiðinni, hana nú, er stytta af Íslendingi: Þorfinni Karlsefni e. Einar Jónsson. Ég tók enga mynd.

2014-02-22 14.35.39
Philadelphia er þekkt fyrir Philly soul músík og nokkrar poppkempur. Hér er ég við mynd af þeim. Þetta eru menn eins og Chubby Checker (Twistmaðurinn ógurlegi) og Frankie Avalon, sörfmyndakempa. Þessi veggur er rétt hjá tveimur þekktustu Philly Steak sandwich stöðum borgarinnar, þeim Pat’s King of Steaks og rasistabúllunni Geno’s steaks. Fíladelfía steiksamloka er nú ekkert svo æðisgengið fyrirbæri, þó át ég eitt stykki frá sjálfum Pat sem byrjaði á þessu 1930 og er frumkvöðullinn. Frekar bragðdauft, en eftir að ég tróð nokkrum chilibelgjum ofan í kom smá fútt í málið. Við fórum á markað og eitthvað svona gauf, en um kvöldið var komið að tónleikum með Kenye West í sjálfri spilavítisborginni Atlantic City. Pleisið er náttúrlega eins og mini Vegas og ég reyndi að komast í Boardwalk Empire fíling á bordvolkinu. Tókst nú varla þótt gaman hefði verið að sjá Atlantshafið þarna megin séð. Tróð nokkum 1$ bills í vélar, drakk eitthvað sull og svo komum við okkur fyrir í íþróttaskemmu og sáum Kenye West tónleika.
2014-02-22 20.49.06
Ég fíla Kenye. Hann er popp og artí í einum pakka. Sjóið minnti mig á Biophilíu-sjóið hennar Bjarkar, hvítklæddar mussukonur væfluðust eitthvað um og Kenye sýndi listræna tilburði. Fyrir aftan hann var pýramídi og á tímabili skottaðist einhver loðin vera með rauð augu þar um og minnti á verk eftir Gabríelu Friðriksdóttur. Kenye tók spjall um hvað það væri erfitt að vera frægur og mikil vinna, hann hafði til dæmis verið heila nótt að velja besta efnið til að hafa í bolina sem hann selur á tónleikunum. „Það er frábært efni í þessu bolum!“ sagði Kenye, enda eins gott, ekki voru þeir gefnir. Ég hefði nú samt kannski keypt mér einn ef þeir hefðu verið flottari. Gaman að sjá Kenye.

Á sunnudaginn bar það helst til tíðinda að við átum geðsturlaðar samlokur á Paesano’s Philly Style – lítilli búllu með svaka röð. Magnað. Keypti bol! Svo Kínavagninn til NYC þar sem glæsiherbergi beið mín á YMCA (vönduð umfjöllun hér). Við Haukur fórum á Comedy Cellar, þar sem Louie CK byrjar alla þættina sína. Þetta er algjört færiband og alltaf fullt af túristum. Einir 5-6 standöpparar komu fram, flestir slappir með eitthvað endalaust grín um gesti staðarins, sem virtist finnast þetta ægilega fyndið. Eru einhverjir hérna frá Frakklandi?! Ég þoli ekki Frakka! O.s.frv. Frekar slappt. Allavega ekkert Mið-Ísland kvalítet. Við átum eitthvað líka og hittum auðvitað minn landflótta vin Kristinn Jón á hverjum degi. Steinn og Trausti komu svo og við dvöldum í Eplinu í 4 daga. Þeir voru alveg gaga í plötubúðunum, fóru í einar 7-8 á hverjum degi og ég lufsaðist með sem voru mistök. Ég og plötubúðir erum bara ekki saman lengur. Ég hef tekið Spotify sem leiðtoga lífs míns í músíkhlustun og dettur ekki í hug að eyða pening í einhverja forneskju.

2014-02-26 12.03.29
Hér má sjá vini mína in aksjón í einni holunni. Í staðinn fyrir að hanga yfir þessu hefði ég getað spókað mig um á Moma eða eitthvað en það er of seint að spá í því núna. Man það bara næst!

2014-02-27 13.28.38
Hér má sjá Stein fórna höndum í búðinni The Thing í Brooklyn. Þar er djökið í kassavís og hvað ofan á öðru svo það er vonlaust að skoða neitt af viti nema eyða í það nokkrum vikum. Hreinasta klikkun þessi sjoppa.

2014-03-01 14.44.04
Fóstbræðurnir Kristinn Jón og Steinn Skaptason höfðu ekki hisst í 26 ár eða síðan Kristinn yfirgaf okkur til að stunda ólöglegan innflytjanda í láglaunastarfi. Þeir þurftu mikið að ræða málin svo eðlilega urðum við Trausti eins og aukaleikarar í þessu sjói. Sem var nú allt í lagi því Kristinn og Steinn eru náttúrlega blússandi gott dæmi sem gaman var að fylgjast með. Hér eru þeir fyrir utan Sylvia’s kjúklinga í Harlem sem er ofsagott sálarfúdd dæmi. Ekki tókst að draga Kristinn með til Íslands, sem hafði þó verið helsti tilgangur ferðarinnar. Hann kemur kannski seinna! 

Kjúklingabringan í ESB

19 Okt

2013-10-19 17.21.34
Undir 1000 kall kílóið! Er þetta ekki næg ástæða til að ganga í ESB!?

2013-10-19 17.24.55
Og osturinn er álíka hagstæður. Ég er svo mikill plebbi og finnst gaman að gaman ad vafra um matvörubúðir erlendis, týnast í sturluðu úrvaldinu og slefa yfir verðinu. Eitt skil ég ekki, í nánast hverri einustu matvörubúö hérna á Spáni er svona svaka fiskframboð á sliguðum hlaðborðum, á meðan útgerðarþjóðin mikla á Íslandi getur ekki einu sinni boðið upp á svona í fiskibúðum. Hvernig ætli standi á þessu?
2013-10-19 14.57.54

Þetta er allt að byrja aftur…

3 Jún

YjyxWA2u4ziDAPlTzDXRDHby3sPRBQw1fwLw9rp7zWU
„Þetta er allt að byrja aftur…“ andvarpar nú fólk því það heldur að nýja ríkisstjórnin muni steypa öllu í gamla (góða?) 2007 farið þegar allir voru að eyða um efni fram og allt gekk út á að halda hjólum atvinnulífsins gangandi með öllum tiltækum ráðum, þeim helstum að stífla ömmu sína og láta hana sjóða ál. „Vinstri mönnum“ leiðist þetta ekki enda komnir í gamla öryggið að vera tuðandi út í horni og í kjöraðstöðuna að vera stöðugt „á móti“ og í minnihluta. Þetta er win/win.

Ég stökk á vagn bjartsýninnar (síðasti séns áður en allt sekkur í sæ eins og jarðvísindafræðingurinn  í DV var að spá) og skellti mér bæði á nýtt grill, nýjan farsíma og New York ferð. Ég var reyndar ekki að eyða um efni fram heldur hafði ég selt svo mikið af rykföllnum hljómplötum að ég hafði efni á þessu öllu. Ekki get ég þó sagt að ég hafi beinlínis spreðað úr mér lifur og lungu því ég gisti á YMCA og hef skrifað pistil um þann gistimöguleika fyrir Túrista punktur is.

Þetta var æðisleg ferð en ekkert bar beinlínis til tíðinda. Það er lífsnauðsynlegt að vera sandkorn í flæðarmáli og láta slípast til í óþekktri mannmergð. Á sama tíma sleppur maður við íslenska naflakuskið sem maður getur þó ekki verið án því við fyrsta tækifæri er maður kominn á DV eða Eyjuna að gá hvaða tittlingaskít nú er verið að velta sér upp úr. Glatað!

Ég hitti vini mína þarna úti, bæði hinn landflótta KJG og Hauk S og fór til Coney Island án þess að prófa tæki. Þar eru pylsumennirnir í Nathans með aðsetur en ég gerði þau mistök að prófa ekki djúpsteiktar froskalappir sem þeir bjóða upp á. Át tvær risastórar sneiðar af Lemon marenge (sjá mynd) á dænerunum Good Stuff Diner og Cosmic Diner (báðir góðir), prófaði loksins IHOP (ágætt), drakk ótæpilega af Starbucks, át kirsuber, vafraði stóreygður um matvörubúðir (Whole Foods á Columbus Circle er eins og hundrað Melabúðir undir einu þaki, þar fæst bæði Siggi’s skyr og Skyr.is), fór lengst inn í Brooklyn til að kynna mér alvöru soda fountain og át víðfræga pastrami samloku á Katz, en þar inni er svona seventís New York fílingur og maður er eins og rolla í fuglabjargi.

Mér sýnist ég aðallega hafa verið að ryðja í belginn á mér, en fór reyndar líka í bíó á Film Forum kl. 13:20 á mánudegi á franska gamla mynd (La traversée de Paris – alveg ágæt). Slíkt er menningarstig borgarinnar að salurinn var nánast fullur af listrænum gamlingjum svona snemma. Svo hékk ég nokkuð í bókabúðum og keypti mér nokkrar bækur (m.a. Just Kids Patti Smith, sem allir hafa verið að segja að sé svo æðisleg; Shell Shocked: My Life with the Turtles, Flo and Eddie, and Frank Zappa, etc. og Every Night’s a Saturday Night: The Rock ‘n’ Roll Life of Legendary Sax Man Bobby Keys – Nóg að gera hjá mér í sumar). Skrapp líka í Metropolitan safnið á sýninguna Punk: Chaos to Couture. Þar er búið að troða inn eftirlíkingum af þeim tveimur stöðum sem pönkið rann frá, klósettunum í CBGB’s og búð Malcolm McLarens og Vivian Westwood í London. Svo hékk þarna fullt af pönkfötum sem mér fannst svo sem ekki merkilegra en að hitta Frikka pönk á bensínstöð (sem er reyndar mjög merkilegt). 

Öss… ég er strax farinn að hlakka til næstu utanlandsferðar!

Í Montreal

15 Des

Ég var í Montreal á dögunum. Fór með Grími Atlasyni á þessa fínu tónlistarráðstefnu – M for Montreal. Hann er oft á svona hátíðum og bókar svo bestu böndin á næsta Airwaves. Grímur er mikill kóngur í þessum bransa og valsar um og talar við hitt bransafólkið og er með allskonar víla og díla í gangi. Þessi hátíð var langt í frá eitthvað Airwaves, allt miklu minna í sniðum og aðallega bransalið að horfa á stutt gigg með böndum frá Kanada. Giggin voru stundum í hádeginu og fram til svona 4 og svo meira um kvöldið. Maður sá þarna alveg heilan haug af böndum en þau bestu voru:


PS I LOVE YOU – Bara tveir en ægiþétt fözzrokk. Gítarleikarinn spilar á fótbassapedala.


RAH RAH – Geðþekkt poppband.


THE BALCONIES – Rokktríó með svakalætis frontkonu.

ofmonmont
Svo náttúrlega rúsínan í pylsuendanum að finna smjörþefinn af sigurgöngu Of Monsters and Men. Ég rakst nú bara fyrst á þau í glugga í miðbænum þar sem þau voru að spila fyrir æsta gesti útvarpsstöðvar. En um kvöldið spiluðu þau fyrir 2500 manns í klúbbi í miðbænum sem allir kunnu textana og sungu með og hófu síma á loft í uppáhaldslögunum sínum og tóku upp og settu á Youtube. Fólkið á tónleikunum var svokallað „venjulegt fólk“ en engir hipsterar, enda hefur t.d. aldrei verið minnst á OM&M í Pitchfork. Bandið er á miklu mainstrím flugi og ég heyrði tvisvar í þeim í útvarpinu. Allt er þetta náttúrlega bara glæsilegt og gleðilegt og enn einn opni glugginn fyrir íslenska tónlist.

190051_10151123665141783_1262388393_n
Baksviðs voru krakkarnir lítið að fá sér og bara í hálfgerðum rólegheitum enda á leið til Boston um nóttina og áttu von á böggi og leiðindum á landamærunum. Sóley var þarna líka með sinn flokk og fékk fínar móttökur fyrir sínar lágstemmdu vögguvísur. Ég spurði um næstu plötu OM&M. Hún er eitthvað farin að gerjast og mér heyrðist að menn væru almennt á því að „gera eitthvað öðruvísi næst“, eða allavega „alls ekki að endurtaka sig“.

Montreal er annars nokkuð hrímaður bær. Þarna voru allir með útigangsskegg og í hettupeysum. Ég naut þess að hjóla um á BIXI leiguhjólum sem hægt var að stökkva á út um allan bæ. Svo átum við nokkuð markvisst á Montreal-íska vísu. Fengum okkur hina frægu Schwart’z samloku, sem mér fannst nú ekkert spes, en aftur á móti stóð rétturinn Poutine undir væntingum. Hann lítur svona út:

poutine
Franskar, brún sósa og ostagums – miklu betra en það lítur út fyrir að vera.

Meðal annarra hápunkta í ferðinni var einkaheimsókn í Cirque du Soleil, hamborgari á A&W en allra mesta kikkið fékk ég út úr því að rekast óvænta á söngvara Pertti Kurikan Nimipäivät, en sú finnska pönksveit er viðfang snilldarmyndarinnar The Punk Syndrome. Myndin var sýnd á heimildamyndahátíð sem þarna stóð yfir. Um kvöldið sáum við bandið spila, sem er eitthvað sem seint gleymist. Gjörsamlega ógleymanlegt!

Út um gluggann á lest

28 Nóv

Það er hægt að flækjast um öll Bandaríkin í lestum á vegum Amtrak. Ég flúði íslenska naflakuskið (sem maður verður að gera einu sinni á ári til að drepast ekki úr leiðindum) og fór í nafla alheimsins (NYC). Þar hafði ég ekki efni á öðru en kitru á YMCA á 63. stræti. Dvaldi í 3 nætur, hitti vin minn KJG, gekk eins og óður maður upp og niður Manhattan og át á tveimur matsölustöðum. Delta Grill, sem segist vera með svona Louisana mat (Gumbo, Jambalaya o.s.frv. sem ég hafði aldrei smakkað). Þetta reyndist allt vera sæmilegar kássur en fokdýrar. Át líka á aðalpleisinu í Harlem, Sylvia’s, sem býður upp á „Soulfood“. Þar var fínasta kjúklingastöff í gangi og myndir af Obama að borða þar upp á vegg. Á leiðinni sá ég hinn sögufræga stað Apollo.

Frá NYC með lest til Montreal (Adirondack leiðin). Þeir segja á heimasíðu Amtraki að þetta sé „One of the Top 10 Most Scenic Train Rides in the World“, en nú hafði Sandy skolað öllum haustlitum út á hafsauga og allt var dálítið grátt og guggið. Þetta var samt alveg stórfenglega skemmtilegt og hér koma myndir sem ég tók út um gluggann:


Hitti meistara i Montreal

14 Nóv

Er i Montreal. Hvern heldurdu ad jeg hafi hitt ut a gotu annan en songvarann i Pertti Kurikan Nimipäivät, sjalfan Kari Aalto! Og thad sem meira er: bandid er ad fara ad spila hjerna rjett hja mer a eftir!!!!!!!!!!

Ps: Thetta er i fyrsta skipti i meira en 11 ara bloggsogu sem jeg blogga annars stadar fra en heima hja mjer. Enda tilefnid gott!

Flippkóngar á feitabollueyjum

20 Mar

Einhvern tímann þarf maður að koma til Tonga, eyjaklasans á milli Fiji og Samoa. Þetta er letileg suðræn paradís og lítið að gerast þar á sunnudögum því allir eru svo trúaðir. Þarna telst til mannkosta að vera vel spikaður og er 90% af rúmlega hundrað þúsund Tonga-búum í yfirvigt. Þjóðbúningurinn er að vefja sig mottum. Ef negrakóngurinn í Tralla á sér einhverja fyrirmynd þá er það í Tonga.

Á sunnudaginn lést síðasti kóngur, George Tupou V, en hann var bara búinn að ríkja síðan 2006. Hann kom á lýðræði á eyjunum og fóru fyrstu kosningarnar fram 2010. Þessi kóngur var flippaður.  Ók um á London leigubíl og að var oftast í flippfötum, kannski með hitabeltishjálm á hausnum og einglyrni. Þetta er hann:

Næsti kóngur verður bróðir Georgs Tupou V, hinn ekki svo flippaði krónprins Tupouto’a Lavaka. Hefur flippið þá misst spón úr aski sínum á Tonga.

Pabbi þeirra, Tāufaʻāhau Tupou IV, var frægur flippkóngur og ríkti frá 1965 til 2006:

Hann fór um á sérsmíðuðu þríhjóli, sem var gjöf frá þýskalands kanslara, oftast með skíðagleraugu og harðkúluhatt á höfði. Á myndinni hér að ofan er hann í átaki sem hann fór í upp úr 1990 en þá var hann orðinn alltof feitur. Kóngurinn missti 1/3 utan af sér í átakinu.

Hér eru virðulegir gestir (eru þetta ekki Beta og Filipp?) í heimsókn hjá drottningunni Sālote Tupou III. Hún ríkti á milli 1918 og 1965 og er amma þeirra Georges og  Tupouto’a. Tonga-drottningin var hávaxin, 1.91 m, en elsti íbúi Tonga er þarna í grasinu, skjaldbakan Tu’i Malila. Þegar Kapteinn Kúkk „fann“ eyjarnar 1777 gaf hann kóngafólkinu skjaldbökuna. Hún var hluti af hirðinni til dauðadags árið 1965 (sem gerir hana sirka 188 ára, sem er þó ekki met því risaskjaldbakan Adwaita er talin hafa verið 255 ára þegar hún dó). Skjaldbakan fræga á Tonga var hluti af hirðinni og þjónarnir í höllinni byrjuðu daginn á því að flagga og hneigja sig fyrir henni.

Getum við ekki bara fengið eina góða skjaldböku til að verða næsti forseti Íslands? Ódýrt og myndi vekja heimsathygli. Ekki svo mikil breyting heldur frá núverandi fyrirkomulagi. Svokallað win/win.

Á Bítla- og matarslóðum í London

10 Nóv


Við Abbey Road stúdíó á Abbey Road er hin fræga gangbraut sem Bítlarnir ganga yfir framan á Abbey Road plötunni. Klukkan 10:40 á sunnudagsmorgni var þegar slatti af túristum mættur á svæðið til að taka myndir af sér að labba yfir á sama gps-punkti.  Ég og Steinn gátum auðvitað ekki verið eftirbátar í þeim efnum. Við gláptum nokkuð í áttina að Abbey Road hljóðverinu, en þar tóku ekki bara Bítlarnir upp sín helstu verk heldur hafa bæði Sigur Rós og Rabbi tekið þar upp líka, og jafnvel einhverjir fleiri Íslendingar.


Eins og sést hafa túristarnir krotað á veggina. Við slepptum því.  Það er svona 5 mín  labb að þessum túristastað frá St. John’s Wood öndergránd-stöðinni. Þar er Bítla kaffi, smá hola með Bítlaminjagripum, en ekki nægu plássi til að hægt sé að drekka inni. Of hráslagalegt í veðri til að nota borð og stóla utandyra.


Áður fyrr í svona London-skreppitúrum lét maður sér nægja að kaupa samlokur og kókómjólk í sjoppum, en nú, með aukinni áherslu fullorðinsáranna á mat og drykk, eru samlokur og kókómjólk ekki alveg málið. Var blessunarlega búinn að athuga smá á netinu hvar spennandi væri að éta. Hin stórfenglegi líbanski smáréttabakki sem ég fékk í Babel í Berlin (Kastanienallee 33) lifir enn í minningunni svo ég hélt ég fengi annað eins í London. Slatti af Lebanon-stöðum eru í gangi og mér leist vel á einn sem heitir Comptoir og er á nokkrum stöðum um borgina. Við keyptum okkur allskonar gúmmilaði á bakka, mest allskonar grænmeti og baunadót og drukkum með Laziza hindberja gos (einnig var til Laziza epla gos). Þetta var bragðlítið, en hressandi og svo sem ókei (2 stjörnur), og líklega búið til í Pakistan.


Englendingar eru náttúrlega hálf glataðir þegar kemur að hamborgaragerð en hafa verið að hisja upp um sig buxurnar með keðjunni Ed’s og nú annarri keðju sem heitir einfaldlega The Diner. Hann er fínni en Ed’s og bíður upp á geðveika borgara (segir Trausti allavega). Ég gerði þau mistök að kaupa mér slappa rækjusamloku sem ég hélt að væri eitthvað voða fínt New Orleans dæmi. Fékk þá allavega með tegund af rótarbjór, sem ég hafði aldrei fengið áður; Goose Island. Þetta er kommersíal rótarbjór frá Chicago, alveg fínn og upp á 3 stjörnur.


Ed’s var tekinn líka eftir að við átum frekar glataðan og sálarlausan Full English Breakfast  á Angus Steakhouse, sem er leiðindarpleis sem ber að varast. Það eina sem gat bjargað deginum var að fá sér banana peanut butter sjeik á Ed’s – og hafa hann „malted“ að sjálfssögðu – og gekk sú viðleitni eftir.

Römbuðum líka inn á sæmilegan indverskan stað í Soho (eða vorum reknir þangað inn eins og kindur af ákveðnum karli), en vorum því miður ekki svangir þegar við vorum á Brick Lane, aðal indverjagötu borgarinnar. Þar tróðum við okkur hins vegar út af exótísku sælgæti, svokölluðu sweetmeats:


Annars voru því miður sálarlausar kaffihúsakeðjur mikið styrktar í ferðinni. Starbucks náttúrlega með sitt svakalega karamellu frappóstjínó og kaffisull, Café Nero eitthvað (þeir eru ódýrari en Starbucks) og Pret a Manger kom sterkt inn. Það eru allir alltaf með kaffi í máli eins og fífl í þessum stórborgum og maður smitast af þessu. Á Pret fékk ég ágætan engiferdrykk staðarins, hressandi og góður og upp á 3 stjörnur.

Skinnhedds, nuddfiskar og vatnspípa

7 Nóv

Skrapp til London. Nauðsynleg hvíld frá Djöflaskerinu og fínt að henglast eins og algjört nóboddí í þessu marglita kjötflóði sem allsstaðar mætir manni. Svokallaður tilgangur ferðarinnar var að sjá hina frábæru hljómsveit The Specials leika fyrir 10.000 manns í N-London. Karlarnir gerðu eina af 10 bestu LP plötum sögunnar árið 1979 og hafa verið í sannfærandi kombakki síðan 2009. Höllin (Alexandra Palace) var smekkpökkuð af skinnheddum, 30 árum eldri en á præm tæm, og allir klæddir í eins föt frá Ben Sherman eða Fred Perry og/eða Specials/ska bol. Gríðarleg stuðbylgja fór um salinn þegar Specials hófu leik og ég var viss um að ég yrði skallaður af einhverjum eldri skinnhedd í æsingnum. Ég skrapp þó við skrámur, enda Specials-skinnhedds friðarskinnhedds, og kom út sveittur eins og svín á pönnu eftir allan dansinn. Að sjálfssögðu keypti ég allt sem mig vantaði á vinýl í Specials-safnið en sleppti því að kaupa Specials-bol.

Giggið er meira og minna komið á Youtube og hér má t.d. sjá intro myndband (sem rekur sl. 30 ár) og svo fyrsta lagið, Gangsters.

Margt kom á óvart í London og var eftirtektarvert. Á Leicester Square er komin risavaxin M&M búð á þremur hæðum. Emm og emm kúlur og allt sem hægt er að ímynda sér að hægt sé að tengja við M&M. Sjaldan hefur útkynjun/fyllkomnun tegundarinnar blasað eins við. Á Camden markaðinum getur maður keypt sér fótabað og aðgang að sérstökum nuddfiskum sem hópast um lúna fætur ferðamannsins og éta af þeim húðflögur og táfýlusveppi. Ég hefði betur tékkað á þessu (10 Pund 15 mín), en tók allavega mynd úr leyni:

Við Trausti fórum og reyktum vatnspípu á sérstökum vatnspípupöbb í nágrenni við okkur á Clapham South. „Pöbbinn“ bauð ekki upp á annað en vatnspípur og allskonar gúmmilaði til að reykja í pípunum; einnig súkkulaðistykki og mjólkurhristing. Við fengum okkur eina feita vatnspípu með vanillu/kókosbragði:

Þetta lítur vissulega ekki vel út. Nokkuð skemmtileg engu að síður og spes. Þarna voru gengjalegir blökkumenn að spila myllu og alveg að mökka sig á fullu úr þessum pípum, sem var dálítið furðulegt því „áhrifin“ voru svona eins og af einni Salem lights. Nema þeir hafi verið með eitthvað aðeins sterkara.