Sarpur | Eðalbíó RSS feed for this section

Tvær möst sí bíómyndir

10 Sep

Í bíóhúsum Reykjavíkur eru nú um mundir tvær bíómyndir sem þú bara hreinlega verður að sjá. Byrjum á þeirri íslensku.

UNDIR TRÉNU ****
Haddi Gunni (Hafsteinn Gunnar Sigurðsson), sem gerði áður Á annan veg (2011) og París norðursins (2014) er leikstjóri myndarinnar og skrifaði handritið með Huldari Breiðfjörð. Allt hans stöff hefur verið gott en Undir trénu er samt lang best. Tré í garði er minnsta málið í þessari mynd heldur einskonar macguffin. Tvær fjölskyldur í raðhúsalengju í Reykjavík gætu þess vegna verið Suður og Norður Kórea – eða Ísrael og Palestína (samt eiginlega of mikið Golíat og Davíð dæmi í gangi þar) – og við sjáum hvað getur gerst þegar fólk stendur fast á sinni geðveiki, sama hvað. Edda Björgvins (gaman leikari) vinnur stórfenglegan leiksigur, ég man bara hreinlega ekki eftir öðru eins áður í íslenskri mynd. Hún fær Edduna næst og gott ef ekki Óskarinn líka (mín spá – ég er samt hvorki í Eddu né Óskarsnefninni). Allir leikarar eru einnig hreinlega stórkostlegir. Meistari Steindi (gaman leikari), Siggi Sigurjóns (gaman leikari) og Þorsteinn Bachman (gaman leikari) eru drulluþéttir og æðislegir – og öll hin líka. Tæknihliðin er pottþétt (ég sá allavega allt og heyrði meira að segja allt) og tónlist Daníels Bjarnasonar er fín (maður tók lítið eftir henni, sem er plús, og stundum skerpti hún á atburðum). Svo bara til hamingju öll með þetta þrekvirki og Haddi og kó eiga ennþá helling inni – því þetta er svo ungt lið. Mig langar aftur á Undir trénu. 

THE SQUARE ***** (samt bara hægt að fá **** mest)
Eins og komið hefur fram er Svíþjóð það fólksmengi þar sem allt hefur best verið gert, allavega mv núgildandi heimildir sagnfræðinga. Þaðan kemur Ruben Östlund, leikstjóri myndarinnar og helsti heilinn að baki hennar. Bergur Ebbi lýsti myndinni svona (án þess að hafa séð hana, hafði bara mín orð fyrir því): „Ha, eitthvað skandinavískt Fight Club, samt meira posh – dýrka svona“ – og það er það sem þessi mynd er. Jafn góð og áhrifamikil (áhrifameiri samt) og Fight Club. Og auðvitað meira Ikea en Fight Club (sem þó hafði mjög sterka Ikea senu).
The Square (auðvitað þýðir titillinn að það þarf að „hugsa út fyrir kassann“ til að leysa yfirþyrmandi vandamál heimsins) er svo ógeðslega fyndinn að jafnvel Luis Bunuel er nú að snúa sér við í gröfinni (note to self: Tékka á því hvar sá meistari er jarðaður). „Ógeðslega“ fyndin af því að allt er fyndið í henni, jafnvel það sem má ekki vera fyndið.
Rammi myndarinnar er listaheimurinn, svo kallaði, sem í alvöru löndum (ekki Íslandi sem sé) er múltíbilljón bisness og snobbið og ruglið eins og eitthvað úr höll Lúðvíks í Versölum. Þó listamenn á Íslandi séu alltaf skítblankir og árlega niðurlægðir af undir 90 í greindarprófum (af því fávitar mega líka vera í tölvum), þá er það allavega gott að hér snobba fáir fyrir þessu, ef undan eru skilin nokkur grey sem telja sig tilheyra bransanum.
Ef bara eitt kemur út úr þessari mynd (annað en hugsunarbylting á alheimsskala) þá væri gott ef það væri það að svokölluð innsetningar-list væri hér eftir hlegin út af borðinu og fengi ekki krónu úr vösum almennings sem hefur ekkert að gera við málningadósir í horni og drasl á gólfi heldur vill bara (eðlilega) eitthvað sem það skilur og fílar (eins og t.d. Ragnar Kartansson).
Öfugt við Undir trénu er Kassinn fullur af von, ef bara fólk nennir aðeins að vera minni fávitar, eða zombís vanans og kapítalismans. Hér á landi hefðu t.d. nasistar og vondir Sjálfsstæðismenn gott af þessari mynd, þótt það þurfi líklega meiri djúphreinsun á sálarlífi þess fólks – jafnvel sérhannaða meðferð í Heilsuhælinu í Hveragerði. Það hlýtur að vera til fyrir því úr Ríkissjóði því ef einhver á auðvelt með að fá fjárstuðning úr svokölluðum sameiginlegum sjóðum, þá er það einmitt liðið sem vinnur við að dæla úr þessum sjóðum – á okkar kostnað. Prove me wrong. Hver á flottasta ráðherrabílinn núna?
Sem sé: The Square er besta mynd sem ég hef séð – allavega á þessari öld! – og engin spurning að þú kæri lesandi átt að drulla þér á hana í bíó strax í dag. Hún er sýnd hjá fólkinu í Bíó Paradís (áður Regnboginn) og ég lofa þér hlátursköstum og nýrri sýn á tilveruna. Ég ætla samt ekki að endurgreiða þér persónulega ef þú a. Skilur ekki myndina, b. Finnst hún ekkert skemmtileg. Kannski best að þú takir hágæða greindarpróf ef þú ert eitthvað tvístígandi (eða óharnaður unglingur sem villtist hérna inn að leita að Prumpulaginu). Allt undir 90 er bara Fast & The Furious 19 en hinum ætti að vera óhætt.

 

   

Frægasta hljómsveit Grænlands

9 Apr

SUME_1973_FOTO_EBBE_KNUDSEN-800x500
Ég hef aldrei komið til Grænlands þótt þetta sé næsta land við okkur. Ég veit, ég veit – þetta er skammarlegt. Veit samt smá um tónlistina þar. Á bítlatímanum var starfandi þar hljómsveitin The Eskimos sem gerði tvær litlar plötur. Árið 1973 kom fyrsta plata Sumé, „Sumut“ (er á Youtube), sem var algjört hitt og seldist í 10þús eintökum, sem er klikkun af því það bjuggu bara 50þús manns í landinu, eða svo. Bandið varð fyrst sveita til að syngja á grænlensku.

Bandið gerði tvær plötur í viðbót, „Inuit Nunnat“ (1974) og „Sumé“ (1977). Ég átti safndisk með Sumé og fannst sumt helvíti gott. Er því búinn að þekkta til bandsins í 20 ár eða eitthvað. Norrænt sækadelíuhippþjóðlagarokk. Flottar melódíur og riff og grænlenskan að gera sig.

Veit svo sem lítið meira um grænlenskt tónlistarlíf. Aðalútgáfan var ULO Records en mér sýnist eins og hún sé hætt. Það var til grænlenskt rappband sem hét Nuuk Posse og var nokkuð skemmtilegt.

En Sumé er sem sé lang frægasta bandið. Og nú er búið að gera heimildarmynd um hljómsveitina „SUMÉ – The Sound of The Revolution“, sem ku vera algjör snilld,. Hér er treilerinn:

Það góða við þetta allt saman er að myndin verður sýnd á Reykjavík Shorts & Docs í Bíó Paradís nú um helgina. Hátíðin hefst í dag og kl. 20 í kvöld verður sýnd myndin No Idiots Allowed um Eistnaflugshátíðina frábæru. Margt annað spennandi er þarna og má glöggva sig á framboðinu hér.

Sumé myndin verður sýnd á laugardaginn kl. 18 og á sunnudaginn kl. 20. Ég myndi telja þetta algjöra skildumynd!

Þau ráða tískunni

12 Mar

Ravage-TrendBeacons#3
Nú er Hönnunarmars að fara af stað. Í Bíó paradís er sýnd frábær heimildarmynd, TREND BEACONS eftir þá Markel-bræður, sem greinir frá störfum nokkurra „tískuvita“. Tískan veltur sem sé ekki stjórnlaust áfram heldur er þetta fólk í vinnu við að rýna fram á við og beina hönnuðum og fatamerkjum inn á vænlegar brautir. Þessir „vitar“ hugsa 2-3 ár fram í tímann og eru þegar farnir að spá í sumartískuna 2017. Vitarnir selja síðan hönnuðum og merkjum niðurstöður sínar og framtíðarspár.

Þetta er fólkið sem hefur hönd í bagga með því að eitt árið fást ekkert nema hnepptar gallabuxur (hvað er að rennilásum?), eitt árið eru ekkert nema köflóttar skyrtur í boði og eitt árið er hægt að fá Hawaii-legar skyrtur í flestum búðum, en svo það næsta er þetta allt gufað upp og eitthvað annað komið í staðinn. Það hlaut að vera að það væri eitthvað samræmi á bakvið tískuna.

Myndin er hröð og skemmtileg (sex stjörnur af fimm) og fylgist með 4 „vitum“ fabúlera og röfla um „vísindin“ sín. Allt í umhverfinu og tækniþróun hefur víst áhrif á tísku framtíðarinnar. Vitarnir virðast samstíga í framtíðarsýninni, eru með svipaða frasa „eco not ego“ og allskonar svona. Það eru ekki bara fataframleiðendur sem eru kúnnar vitanna, bílaframleiðendur, arkitektar o.s.frv eru það líka og þannig skapast einhver heildarsvipur á tísku og útliti, þótt þetta sé kannski alltaf að renna meira og meira út í eitthvað kaos.

Við kynnumst vitunum persónulega. Skemmtilegastir eru hollenskir hommar sem búa í svaka höll og eru með geithafur sem gæludýr. Þeir vinna saman undir merkinu Ravage. Aðeins er komið inn á fataframleiðsluna sjálfa (hörmungar í Bangladesh o.s.frv.) en aðallega reynir myndin að svara áleitnum spurningum um tískuþróunina. Þetta er mynd sem smellpassar við Hönnunarmarsinn og vekur einnig áhuga alstískulausra einstaklinga.

Sýnd í Bíóparadís svona:

Fimmtudagur 12. mars kl 20
Föstudagur 13. mars kl 18
Laugardagur 14. mars kl 16
Sunnudagur 15 mars kl 20

Nico á Íslandi í bíó

14 Feb

Þýska söngkonan Nico er frægust fyrir eintóna drungasöng sinn á banana-plötu Velvet Underground („The Velvet Underground & Nico“). Hún gerði nokkrar þyngslalegar sólóplötur, fór illa með sig og lést 1988, 49 ára. Nico lifði auðvitað bóhemalífi og brasaði í ýmsu, m.a. að leika í alvarlegum listamyndum, sem voru gerðar í kringum 1970 þar sem fólk vafraði um og leit út fyrir að vera að segja eitthvað með táknum. Ein þeirra er Sárið inní okkur (La cicatrice intérieure) sem var tekin upp í eyðimörkum hér og þar um heiminn fyrir rúmum 40 árum síðan – þar á meðal á Íslandi.

Myndin verður sýnd á Stockfish, líklega í fyrsta skipti á Íslandi. Stockfish – evrópsk kvikmyndahátíð í Reykjavík verður haldin í Bíó Paradís dagana 19. febrúar til 1. mars 2015. Á hátíðinni verða sýndar 30 kvikmyndir sem hlotið hafa mikla athygli á hátíðum víða um heim. Von er á þekktum verðlaunaleikstjórum og öðru alþjóðlegu kvikmyndagerðarfólki hingað til lands, auk þess sem boðið verður upp á ýmsa viðburði, fyrirlestra og vinnustofur fagfólks í tengslum við hátíðina.

Á Youtube er brot úr myndinni. Ég sé ekki betur en að þetta sé tekið á Íslandi:

8 spennandi myndir á RIFF

16 Sep

vivelafrance21
Ellefta árið skellur RIFF á okkur eins og árviss innlögn á menningar og hugsana reikninginn. Þarna eru myndir utan við fábjánamyndir hversdagsins. Sama hvað ég sé margar myndir um óbilgjörn stórmenni að salla niður vonda karla þá man ég miklu betur eftir einhverri snilld sem ég sá á RIFF. Eins og þarna norsku myndinni um heróínistann sem drap sig. finnsku myndinni um ryksugusölumanninn, eða myndinni um krakkana frá Nígaragúa sem flýðu til Ameríku og dóu á leiðinni nema einn sem fór að vinna í ógeðslegu sláturhúsi í fyrirheitna landinu – ég er nú hreinlega alltaf að hugsa um þá mynd, hún var svo svakaleg (La jaula de oro e. Diego Quemada-Díez). Samt fékk hún ekki verðlaun eða neitt. Manni fannst hún kannski engin snilld rétt eftir að maður var búinn að sjá hana, en svo gróf hún um sig í heilanum á manni eins og góðkynja æxli. Það er einmitt eðli góðra Riff-mynda.

En RIFF er sem sé framundan enn eina gvöðdómlega ferðina, stendur yfir frá 25. sept til 5. okt. Þarna er mýgrútur eðalefnis, en þar sem ég er svona listagaur (listir og listar) kemur hér topp 8 listi yfir myndir sem ég vil helst ekki missa af í ár. Afhverju átta? Jú því ég ætla að fá mér 8 miða klippikort á 8.800 kr.

1. BONOBO
Bresk mynd sem byggir á lífsstíl hinna geðveikt næs Bonobo apa getur varla klikkað. Úr bæklingi: Judith er fráskilin, uppskrúfuð kona á miðjum aldri sem sýnir því engan skilning þegar dóttir hennar, Lily, hættir í laganámi og flytur inn í kommúnu utangátta hippa sem lifa eftir sömu meginreglum og bonobo apar — tegundar sem er fræg fyrir að eðla sig í stað þess að standa í illdeilum.

2. Ég get hætt þegar ég vil (SMETTO QUANDO VOGLIO)
Ítölsk um lúða í glæpum. Úr bæklingi: Atvinnulaus vísindamaður fær þá hugmynd að setja saman glæpagengi sem er engu öðru líkt. Hann fær með sér nokkra fyrrum starfsfélaga sína sem eru allir komnir á jaðar samfélagsins. Einn vinnur á bensínstöð, annar við uppvask og sá þriðji spilar póker. Þjóðhagfræði, fræðileg efnafræði, mannfræði og klassísk fræði reynast ágætur grunnur til að klifra valdastiga glæpaheimsins.

3. Agnarsmátt (Itsi bitsi)
Dönsk grínmynd. Úr bæklingi: Eik Skaløe hittir hina frjálslegu og friðelskandi Iben og fellur kylliflatur fyrir henni. Í örvæntingu sinni gerir Eik allt sem í hans valdi stendur til að næla sér í hana. Hann byrjar á því að breyta sér úr ljóðskáldi í rithöfund, flakkara, fíkil og að lokum í aðalsöngvara hinnar brátt goðsagnakenndu hljómsveitar Steppeulvene.

4. DÚFA SAT Á GREIN OG HUGLEIDDI TILVERUNA (EN DUVA SATT PÅ EN GREN OCH FUNDERADE PÅ TILLVARON)
Sænsk verðlaunamynd. Úr bæklingi: Sam og Jonathan, tveir ólánsamir sölumenn, minna á nútíma Don Kíkóta og Sancho Panza meðan þeir ferðast um og sýna okkur eins og í kviksjá örlög ólíkra persóna. Þetta er ferðalag um fögur augnablik og ómerkileg, gleðina og sorgina sem býr innra með okkur, mikillleika lífsins og viðkvæmni mannanna. Myndin vann gullna ljónið í Feneyjum fyrr í mánuðinum.

5. HÆTTULEGUR LEIKUR (A DANGEROUS GAME)
Úúú mynd um gráðuga karlpunga. Ég vona að það séu ekki mörg skot af kvikmyndagerðarmanninum á bílastæði að reyna að ná viðtali við eimhvern ríkann skítapung. Úr bæklingi: Hinn óttalausi leikstjóri Anthony Baxter eltir bandaríska milljarðamæringinn Donald Trump og aðra gráðuga og furðulega karaktera sem vilja breyta nokkrum fallegustu stöðum jarðarinnar í golfvelli og afþreyingarstaði fyrir þá ofurríku. Mómælendur reyna að standa í hárinu á peningaöflunum, en nægir það?

6. LIFI FRAKKLAND (VIVE LA FRANCE)
Íslenskur leikstjóri Helgi Felixson. Fjallar um eyju í Suður Kyrrahafi svo þetta er right öpp mæ allei. Úr bæklingi: Í LIFI FRAKKLAND kynnumst við parinu Kua og Teariki sem búa á eyjunni Tureia. Draumur þeirra um að stofna bakarí á eyjunni verður að engu þegar þeim er neitað um bankalán vegna hættu á því að Mururoa rifið sökkvi í sæ og orsaki flóðbylgju. Í þessari mynd er fjallað um afleiðingar kjarnorkutilrauna Frakka og sinnuleysi hins vestræna heims gagnvart fórnarlömbum tilraunanna er opinberað.

7. LOKAMARK (NEXT GOAL WINS)
Meira S-Kyrrahafs. Úr bæklingi: Árið 2001 tapaði Kyrrahafsþjóðin smáa Bandaríksu-Samóaeyjar fótboltaleik með 31 marki gegn engu á móti Ástralíu. Áratug eftir þetta niðurlægjandikvöld situr þjóðin enn sem fastast á botni styrkleikalista FIFA. Næsta áskorun er undankeppni HM í Brasilíu 2014 … og nú hefur liðið ráðið sér þjálfara í heimsklassa.

8. PULP: KVIKMYND UM LÍFIÐ, DAUÐANN OG STÓRMARKAÐI (PULP: A FILM ABOUT LIFE, DEATH AND SUPERMARKETS)
Pulp voru nú aldrei neitt slor. Hér er bresk mynd um þá. Úr bæklngi: Pulp snýr aftur til heimabæjarins Sheffield til að halda
síðustu tónleika sína á Bretlandseyjum. Í myndinni ausa hljómsveitarmeðlimir úr viskubrunni sínum um allt hvað varðar frægð, ást, dauðann og bílaviðgerðir. PULP er tónleikamynd engri annarri lík, stundum fyndin, hrífandi, gefandi og (stundum) ruglingsleg.

Ætli maður neyðist samt ekki til að fá sér annað klippikort því þetta er bara brot af gnægtarborðinu. Ég á t.d. alveg eftir að minnast á heiðursgestinn Mike Leigh…

Frábært bíó – Fín mynd

1 Ágú

2014-07-31 19.55.27
Ísafjarðarbíó hefur löngum verið mikið menningarhús og sýnir nú nýjustu smellina í hverri viku. Það gladdi mig sérstaklega að sjá auglýsingu frá Harðfiskverkun Finnboga á meðan ég beið í myrkrinu, enda er Finnbogi með langbesta harðfiskinn á landinu.

Meet-The-Guardians-of-the-Galaxy
Ég hélt að Guardians Of The Galaxy væri þessi hefðbundna ofurhetjuþynnka og að ég ætti góðan svefn framundan með 3D gleraugun á nefinu. Svo var þó ekki, þetta er svo skemmtileg mynd að ég var glaðvakandi allan tímann. Í aðalhlutverki er Chris Pratt, sem er þekktastur fyrir að leika hinn vitlausa Andy Dwyer í Parks & Recreation þáttunum. Hann hefur massað sig upp en heldur í galkopatöfrana. Með honum í æsibaráttu um himingeiminn er græn kona sem er ekki öll þar sem hún er séð, níhílískur þvottabjörn, tattúverað vöðvatröll sem tekur allt bókstaflega og trémaður sem segir ekkert annað en „I am Groot“ (Vin Diesel í sínu besta hlutverki). Mjög skemmtileg mynd sem ég mæli óhikað með.

Annars er það helst að frétta af Vestfjörðum að Rúnar Rúnarsson er hér að leikstýra fyrstu myndinni eftir að hann gerði verðlaunastykkið Eldfjall. Myndin heitir Þrestir og ku byggja á verðlaunastuttmynd Rúnars Smáfuglar. Ingvar E. Sigurðsson leikur miðaldra fyllibyttu en annars eru unglingar víst helsti fókuspunktur myndarinnar. Kvikmyndatökuliðið má nú sjá víðsvegar en í gær þurfti að fresta tökum á Flateyri vegna skorts á þoku. Var þetta fúlt fyrir marga heimamenn sem voru mættir til að leika gesti í partíi og sérstaklega fyrir suma sem höfðu sækað sig upp í að vera allsberir í vatnsfylltu fiskikari. Nú er verið að senda eftir þokuvél að sunnan því það verður svona gott þokalaust veður áfram.

Eðalbíó: Finnskur harmóníkubrjálæðingur!

1 Okt


Finnskur harmóníkubrjálæðingur er umfjöllunarefni heimildarmyndarinnar Soundbreaker á RIFF. Þú munt aldrei líta harmóníkuna sömu augum eftir þessa mynd!

Kimmo Pohjonen, framsæknasti harmonikkuleikari Finnlands, glímir við að finna stefið í sinni eigin rödd. Hann beygir og brýtur reglur, nýtir sér rafbúnað og fer út að ystu mörkum hljóðheimsins og splundrar öllu því sem þú taldir harmonikkuna vera. Hér má sjá ferðalag ótrúlegs listamanns, byggt á einföldum sammannlegum sannleika. Með einstakri blöndu af myndum og tónlist segir finnski leikstjórinn og kvikmyndatökumaðurinn Kimmo Koskela sögu þessa manns.

Hjaltalín spilar undir mynd

30 Sep

Bandaríski leikstjórinn Ani Simon-Kennedy frumsýnir mynd sína, Days of Gray, á RIFF núna á föstudaginn 4. okt. Myndin var tekin upp á Íslandi og er þögul. Henni er lýst svona:

Days of Gray er tímalaus uppvaxtarsaga ungs drengs. Hetjan okkar hittir stelpu með skringilega stökkbreytingu í andlitinu sem lifir í einangrun. Er þau yfirvinna ótta sinn gagnvart hvoru öðru myndast óvenjuleg vinátta á milli þeirra.

Öll tónlistin í myndinni er frumsamin af Högna og félögum í hljómsveitinni Hjaltalín, að sögn sem virðingarvottur við tíma þöglu myndanna. Hjaltalín ætlar einmitt að spila undir myndinni læf núna á föstudaginn og verður það í fyrsta og líklega eina skiptið sem það verður gert. Sýningin/giggið verður í Gamla bíó þar sem þessi háttur var einmitt hafður á fyrir tíma talmyndanna. Þá voru tveir hljóðfæraleikarar eða svo í gryfjunni og notuðu spegil til að sjá hvað var að gerast á tjaldinu.

Hér má kaupa miða á þetta einstaka gigg (2900 kr / 2400 kr fyrir passahafa) og hér er komið lag frá Hjaltalín úr þessu verkefni, At the Amalfi

Eftir giggið verður RIFF-fögnuður á Borginni þar sem meðlimir Hjaltalín sjá um skífuþeytingar. Days of Gray verður svo sýnd einu sinni enn, í Háskólabíói á laugardaginn kl. 16 þar sem leikstjórinn svarar spurningum úr sal eftir sýninguna.

Eðalbíó: Róbert Douglas snýr aftur

26 Sep


Já góðan daginn! Þá er það stóri dagurinn, RIFF byrjar í dag. Stútfull dagskrá af eðalræmum og um að gera fyrir allt hugsandi fólk að kynna sér úrvalið á riff.is eða með því að næla sér í bækling (liggur út um allan bæ). Nú eða koma í upplýsingamiðstöðina í Tjarnarbíói.

Opnunarmyndin er This is Sanlitun, nýjasta mynd Róberts Douglas. Hann gerði eina albestu mynd lýðveldisins árið 2000, hina stórfenglegu Íslenski Draumurinn þar sem „Tóti“ fór á kostum sem hinn sanníslenski lukkuriddaralúser. Þessi týpa gengur nú aftur í Kína (landi tækifæranna í dag) í myndinni This is Sanlitun (Sanlitun er hverfi í Peking). Þetta er fyrsta mynd Róberts á ensku og var frumsýnd á TIFF (Toronto) fyrir nokkrum vikum. En sem sé frumsýning á Íslandi í kvöld. Einhvers staðar sá ég skrifað um myndina að hún væri útkoman úr því ef meðlimir Spinal Tap hefðu ákveðið að fara út í viðskipti frekar en þungarokk á tímum fyrstu Woody Allen myndanna… Það er alveg ásættanleg lýsing til að kveikja á áhuga-hreyflunum manns. 

Eðalbíó: pönkfrumkvöðull og hommaklám

24 Sep

Ein myndin á RIFF heitir Gerontophilia, eða Gamlingjagirnd á íslensku. Hún fjallar um ungan mann sem hrífst af gömlum körlum. Myndinni hefur verið líst sem „gay-útgáfunni af Harold & Maude“.

Leikstjórinn Bruce LaBruce er mikið legend í bæði homma- og pönkheimum, því hann mun ásamt vini sínum hafa skapað hið svokallaða Queercore: þar sem pönk og „öðruvísi lífsstíll“ rann saman á 9. áratugnum.

Bruce fór svo út í kvikmyndagerð og hefur verið að gera tvær útgáfur af myndum sínum: Eina listræna, aðra hardkor hommaklám. Þetta er frekar extrím stöff eins og kemur í ljós ef þú prófar að mynda-gúggla nafn leikstjórans. Ekki kenna mér um það samt ef þú verður fyrir áfalli af því að sjá allar þessar standpínur. Beindu frekar máli þínu til leikstjórans því hann kemur og verður með Q&A á eftir sýningu Gamlingjagirndar í Háskólabíói 30. sept kl. 21:30.

Gamlingjagirndin er annars sauðmeinlaus og engin hardkor útgáfa til, það best ég veit. Hér er smá sýnishorn: