Sarpur | Daglegt líf RSS feed for this section

Allt í drasli með Dr. Gunna

9 Ágú

Allt í drasli voru þættir á Skjá einum sem hófu göngu sína 2005. Heiðar Snyrtir og Margrét Húsmæðraskólastýra sáu um að niðurlægja stamandi skítablesa og taka til í allskonar saurholum og draslarakompum. Þetta var ágætis stöff, þótt ég hafi aldrei horft á heilan þátt, svo ég muni: Og jafnvel þótt fólk sem ég þekki væri í hlutverki hins niðurlægða. 

Þessa ágætu fávitaþætti hafði ég bak við eyrað þegar mín beið næstum ókleifur hamar nú á Frídegi Verzlunarmanna. Það var man ceifið mitt, sem liggur við hlið vistarvera okkar Dungang, en þar er að sjálfssögðu alltaf skínandi hreint og fágað þökk sé Lufsu og/eða aðkeyptu vinnuafli. Og ég legg mig stundum fram þar líka (segi ég, svo ég hljómi nú ekki eins og einhver karlpungur).

Til að gera mér djobbið léttara ákvað ég að gera Youtube „þátt“ um „ferlið“ og, sem sagt, sýna alheiminum hvers konar helvítis skítalúði ég er. Ég hef áður verið helvítis pempía og hræddur um almenningsálitið, en sú tíð er löngu liðin. If you don’t like what you see – fokk off! Einu sinni þorði ég varla að ganga um með svona „Hallgríms Helgarsonar“-hatt, sem ég átti þó, af ótta við að einhver bjáni út í bæ þætti það eitthvað skrýtið. Nú á gamalsaldri hef ég öðlast þá eðlilegu visku að vera drullusama um hvað einhverjum plebbum og bjánum út í bæ finnst um mig, og þannig, allt. Ekki skemmir fyrir þetta skemmtilega umburðarlyndi sem ríkir í dag þar sem annar hver maður er komandi „út úr skápnum“ með geðveiki sína, dinti, vandamál og offitu.

Auðvitað var þetta cleaning djobb löngu, LÖNGU, tímabært, en þegar mér datt þetta í hug með „dokumentasjónina“ fann ég strax að ég nennti þessu. Ferlið er auðvitað ekki búið og ýmsir hamrar og ýmsar skráningar eftir. Þess má að lokum geta að lúkkið á man ceifinu er alveg eins og við því var tekið 2004. Sýruveggfóður, 60s litir á veggjum o.s.frv. Öll íbúðin okkar var svona, enda seldi gömul ekkja okkur íbúðina á algjöran slikk 2004 (15.6 mills minnir mig). Þarna hafði hún verið að marinera sig síðan örlí 60s. Þökk sé „íslensku leiðinni“ erum við að tala um 50 mills í dag. Takk óðaverðbólga, launaskrið, verðtrygging og hvað þetta heitir allt!

Ævintýri í bílaporti

2 Ágú

Ég held áfram að vísa hér á bloggi yfir í athyglisvert efni sem er að gerast á Facebook. Ég á víst að heita verslunartstjóri í Fjallakofanum, Laugavegi 11 (#humblebrag) og skrifa annað slagið (eftir stuði) á Fjallakofa síðuna. Hér er það sem ég skrifaði í morgun, einhverjum ykkar vonandi til yndislesturs.

20170801_101354

Hæ frá Fjallakofanum, Laugavegi 11. Hér er háannatími en samt er búðin bókstaflega að springa af því eðalstöffi sem þið ættuð að þekkja. Allir sem nenna oní miðbæ (og eru t.d. ekki utan þjónustusvæðis) ættu því að renna til okkar og fylla í eyður útivistagræjanna, eða beinlínis að kaupa sér glæný föt eða græjur, frá t.d. Scarpa, Marmot, Sea to Summit eða Arc’teryx. Við sjáum alltaf slatta af Íslendingum sem eru í „útlandaleik“ reka inn nefið, því vitanlega er Laugavegurinn iðandi af erlendum áhrifum nú um stundir (og vonandi sem lengst).

Jæja. Við leggjum okkur fram við að aðstoða hina villuráfandi túristahjörð sem hingað rekst í Fjallakofarétt. Við fáum „alla flóruna“ inn, frá bláfátækustu unglingum, sem eru kannski í sinni fyrstu utanlandsferð, og spá í hverju grammi af gasi – til vellauðugra skemmtiferðaskipa-gesta eða lorda frá Bretlandi, sem horfa ekki einu sinni á verðin heldur kaupa allt sem þeim langar í. Báða hópa og alla þar á milli elskum við að fá hingað inn.

Oft, þegar tími vinnst til, gerast ævintýrin. Í gærmorgun kom þessi fyrir miðju myndar, inn í búðina að kaupa gas. Verslunarstjórinn (ég) var í stuði og enginn annar í búðinni, svo við hófum spjall. Stráksi er franskur, frá Strasbourg, en talar fína ensku. Sagðist vera einn á ferð og ætlaði að fara á puttanum til Húsavíkur að hitta franskan vin, sem þar vinnur við Hvalaferðir. Fransmaður var mjög spenntur, til í allt, með tjald og alles og ég sýndi honum á korti hvar skemmtilegast væri að tjalda á leiðinni.

Mitt í þessum bollaleggingum kemur brosmilt par inn og blandar sér í umræðuna. Sá gaur (frá Salt Lake City, Utah, ekki mormóni samt!), talar frönsku og þetta varð til þess að franski puttalangurinn og hann fóru að bera saman bækur sínar. Ekki mormónarnir eru á litlum bílaleigubíl og svona að spá í hvert þau ættu að fara á þessum 2 vikum sem þau hafa til að njóta landsins okkar æðislega. Eitt leiddi að öðru og verslunarstjórinn (ég) tók af skarið og stakk upp á því hvort ekki væri bara sniðugt að sameina þessi tvö Íslands-ævintýri í eitt. Einhverjar perur fóru þá að loga í frönskum og ekki-mormónískum hausum og þau fóru öll út með sitt hafurtask, auk gass og sporks og sundfata, nýkeyptu í Fjallakofanum.

Þegar (ég) átti leið á vörulager Kofans blasti þessi fallega sjón við mér í bílaportinu. Þau þrjú að reyna að troða öllu dótinu sínu í litla bílaleigubílinn, brosandi og peppuð fyrir ævintýrunum sem bíða þeirra! Ég veit engin deili á þessu fólki, nema ekki-mormónarnir eru með FB-síðuna non stop adventures.

Vona að öllum heilsist vel, hvar sem þau eru, og að veðrið hangi sæmilegt fyrir þau – og okkur hín auðvitað. 😀

Bjarni Fel og Brian Jones í lyftu

30 Júl

A-5777852-1495533764-6509.png f5d80bb68e09261f652419dd589638c5
Hitti tvö legend í heita potti Vesturbæjarlaugar áðan, Mr. Fel og Mr. Jójó. Götulistamaðurinn Jójó, sem “kann ekki á tölvu”, sagðist hafa heyrt af FB-spurningu minni um fræga á flugvöllum, og einhver sem hann þekkir sagðist ekki hafa þorað að setja inn að hann hefði séð David Bowie og Iman saman í lögreglufylgd nýgift á Schiphol.

Næst kom sagan af Bruce á Strikinu með ýmsu fróðlegu ítarefni. Bjarni var slakur á meðan en kom svo með með Olav Palme, sem sinn frægasta. Stórgóð saga í miðju Þorskastríði. Menn slökuðu og dæstu og lauguðu vambirnar í sólinni. Þetta var eldsnemma og ekkert bögg af túristum og fjölskyldufólki.

Endurnærður eftir slökun í 2 mínútur tók Bjarni nú til við að greina frá tengslum KR og Liverpool FC. Þar ytra er því mikið haldið til haga að fyrsti Evrópuleikur Liverpool hafi verið á móti KR – “It all started in Reykjavík” er upp um alla veggi í Liverpool höllinni. “Við stóðum í þeim”, sagði Bjarni, eða 1-11 (0-5 / 6-1) samanlagt úr tveimur leikjum, skv. Wikipedia. Fyrir seinni leikinn 14. Sept 1964 flaug KR-liðið til Liverpool og gisti á flottasta hóteli borgarinnar, Adelphi. Hotel Adelphi er sögufrægt pleis, mamma John Lennon starfaði m.a. þar sem gengilbeina. Svo virðist sem KR-hópurinn hafi verið einu gestirnir, auk Harolds Wilsonar, sem þarna var ekki orðinn forsætisráðherra Englands, og lubbalegrar hljómsveitar, sem enn var að stíga sín fyrstu spor, The Rolling Stones. Allra fyrsta LP-platan var reyndar komin út um vorið og hittarar sumarsins voru It’s All Over Now og Time is on my Side, Svo hafði bandið farið til USA í fyrsta skipti í kjölfar Bítlanna fyrr um sumarið. Það var þó svo mikill hiti kominn undir Rollinga að æpandi hjörð vaktaði Adelphi.

“Heimir markvörður rak nú einu sinni út hausinn og hristi,” sagði Bjarni Fel í pottinum áðan, “en var beðinn um að gera það ekki aftur eftir að ein stelpan, sem klifrað hafði upp rennu á hótelinu, datt og meiddi sig.”

En Rollingarnir, hvernig voru þeir?

“Tja, Mick Jagger var nú einna hressastur, át með okkur og vildi endilega gefa okkur áritaðar myndir af sjálfum sér. Ég bað hann blessaðan að hætta að bjóða mér mynd, hafði ekki áhuga, en þú getur getur rétt ímyndað þér skelfingarsvipinn sem kom á unglingana heima þegar þeir fréttu af þessu.”

Já þetta væri 200þ á Ebay í dag, þessi mynd, hefðirðu fengið hana. En hinir Stónsararnir?

“Maður var nú lítið var við þá, nema einu sinni var ég með Brian Jones í lyftunni, bara við tveir – manni stóð ekki alveg á sama og sá strax að hann var þarna þá þegar ekki alveg á meðal vor.”

Nú?

“Já, hann var bara… Allur einhvern veginn… syndandi…”

(Þetta blogg er fakt-tékkað: Liverpool – KR var 14. Sept 1964, The Rolling Stones spiluðu í The Liverpool Empire Theatre 13. Sept. 1964)

Breytingar og byltingar

16 Júl

costco
Costco kvöldverður var á boðstólum í gærkvöldi. Ágætis ódýrt sushi, stórfínn kjúklingur (sem smakkast helst eins og kalkúnninn sem hefur hingað til bara verið hátíðarmatur, og kostaði það sama og pínulítill sveittur og ofsteiktur kjúklingur í Melabúðinni), og sticky pudding í eftirrétt. Vá, bara, vá. Costco-sticky pudding (sirka 1þ fyrir tvo – einn nægði vel f/4, hinn fór í frystinn) er algjörlega unaðslegur, alveg á pari við það besta sem maður hefur fengið á veitingahúsum erlendis. Ég var sendur í Hagkaup, Eiðistorgi, til að sækja vanillu-ís til að hafa með. Sá þar kirsuberjadollur og kippti einni með, enda verðið fínt, 469 fyrir 500g. Berin litu bara vel út sýndist mér, dökkrauð og stökk, en ég var svo sem ekkert að gegnumlýsa dolluna.

En auðvitað, þegar átti að éta berin og ég beit í fyrsta berið kom gamla einokuninn og viðbjóðurinn yfir mig af fullum þunga. Berið var ónýtt – suddalega ógeðslegt, grautlint og andstyggilegt – og ég spýtti því út úr mér. Ég setti upp lesgleraugun og sá sull í botninum og að allavega 3 ber voru komin með gráan myglublett.

Í staðinn fyrir að leggja á mig ferð til að tala við ung kassagrey og fá sennilega á endanum endurgreitt ákvað ég að skrifa þetta. Það breytir kannski einhverju hjá gömlu myglukaupmönnunum, en ég stórefast um það. Breytingar þurfa meira en nokkur úldin kirsuber til að eiga sér stað. Byltingar þurfa hinsvegar Costco.

Lífsgæði

14 Júl

Helstu kostir þess að búa á Íslandi tengjast vatni. Sundlaugarnar eru snilld og hitaveitan. Að fá kalt vatn úr krönum, sem er jafn gott og hreint og okkar, eru gæði sem fáir í heiminum í dag eiga kost á. Fátt er því sorglegra en túristi að kaupa kippu af 2L vatnsflöskum.

Vatn kólnar mishratt í húsum, eða jafnvel á milli vaska. Hjá mér er t.d. miklu hraðar að kólna á baðinu en í eldhúsinu. Ég veit ekki um þig, en ég vil hafa vatnið eins kalt og hægt er.

Þetta gætu fasteignasalar nýtt sér þegar auglýsa á íbúð til sölu. Til dæmis:

Baðherbergið er með sturtu. Búið er að endurnýja blöndunartæki í sturtu og vaski. Vaskur og vaskaskápur er nýlegt.
Vatn er ískalt strax og skrúfað er fyrir. Ferskt og gott og algjörlega saurgerlalaust.

Þessi lífsgæði hefðu að sjálfssögðu áhrif á íbúðarverðið.

Neytendamál

12 Júl

Vegna fjölda áskorana (tveggja) gefst ég upp á að hætta að blogga. 

Ég var einu sinni neytendafrömuður og fékk m.a.s. verðlaun frá Björgvini G. (leir-egg og 300þ). Okursíðan var „barn síns tíma“ og ég lagði hana niður því það var of tímafrekt að halda henni úti. Nokkrar síður á Facebook hafa tekið við og er Costco-grúppan þeirra frægust. Tilkoma Costco hefur aukið til muna áhuga (eða a.m.k. sýnileika) áhuga fólks á neytendamálum, verðsamanburði, o.s.frv.

Önnur skemmtileg FB-síða (en kannski ekki eins gagnleg) er Sögur af tollinum. Íslenski tollurinn er algjör skandall. Hér er maður böggaður yfir allskonar tittlingaskít ef maður kaupir eitthvað frá útlöndum, eða fær sendar gjafir. Þarf að sýna nótur og standa í hössli svo ríkið fái sinn vask, toll og gjöld. Segjum, kassetta sem kostaði þúsund kall kostar nú 2000 kall. Ég hef hvergi heyrt um annað eins rugl annars staðar í heiminum. Það hefur verið talað um að breyta þessu árum saman, að starfsmenn séu ekki að standa í þessu fyrir sendingar undir 15 þúsund kalli eða svo, en þetta er allt við það sama. Alveg séríslenskur fávitaháttur og blöðruskapur að ekkert gerist í þessum málum.

Þar að auki virðist algjört slembiúrtak ráða því hvaða pakkar eru teknir í meðferð. Einn daginn er það kasetta á þúsund kall í bögg, þann næsta tíu plötur frítt heim að dyrum.

Einu sinni átti svo að gera mig að formanni Strætó (eða hvað starfsheitið var). Það fór eins og það fór. Í sumar hef ég tekið strætó eftir vinnu heim til mín (leið 12). Tímatöflur standast aldrei, eða nánast aldrei. Einn föstudaginn beið ég í 50 mín á Hverfisgötu þegar ættu að hafa komið 3 tólfur. Engin kom. Ég gafst upp og tók leið 11. Það vantar sárlega svona „costco-grúppu“ fyrir þjónustu strætós. Ég nenni ekki að stofna hana.

Ég veit ekkert hver er „vondi kallinn“ í þessu Ólafur vs. Neytendasamtökin dæmi. Veit bara að ég hef aldrei séð pointið í því að vera meðlimur í þessum samtökum.

Ríó tríó og Halli

25 Sep

riotrio
Þetta þykir mér skemmtileg mynd. Held ég hafi örugglega fengið hana frá Skjalasafninu í Kópavogi. Við sjáum Ríó tríó leika við Kópavogsskóla, barnaskólann minn. Á bakvið standa Óli Kr., yfirkennari (og síðar skólastjóri) og Halli sonur hans. Mér sýnist Halli vera sirka 3-4 ára svo þetta er 1968-1969. Halli var einn besti vinur minn í Kópavoginum. Hann bjó á Auðbrekkunni og við vorum mikið þar. Hann átti eldri bróður sem átti progg-kassettur með Genesis og eitthvað sem ég fílaði aldrei. Þarna voru líka litlar plötur í hrönnum, ég man að ég varð fyrir sterkum hughrifum þegar ég heyrði Reach Out, I’ll be There með The Four Tops af einni þeirra. 

Ég man að ég hugsaði að við ættum ranga pabba. Ég var fyrir blöð og heftara á meðan Óli var fyrir trésmíði, en ég er með þumalputta á öllum og var alltaf rekinn í burtu þegar ég bauðst til að hjálpa pabba mínum, húsasmíðameistaranum. Þá var ég búinn að skemma kíttissprautuna eða eitthvað. Óli Kr. var rólegur og yfirvegaður og vel liðinn af okkur krökkunum. Anna Mjöll Sigurðardóttir kenndi mér allan barnaskólann (D-bekkurinn) og var æðislega góður kennari. Ég sá hana löngu löngu síðar á pósthúsinu í Kópavogi og hefði átt að þakka henni fyrir, en kom ekki upp orði. Óli Kr. hlýtur að hafa kennt mér eitthvað líka því ég man eftir því þegar hann útskýrði muninn á Móngóla og Mongólíta. Það voru aðrir tímar þá.

Við Halli dunduðum ýmislegt. Eftir skóla fórum við heim til hans og mamma hans ristaði brauð oní okkur, eins og „heimavinnandi“ mömmur gerðu á þessum tíma. Við sömdum saman teiknimyndasögur, rótuðum í ruslahaugunum, urðum óðir í flugelda um áramótin, brutumst inn í bakarí með öðrum óþekkari strákum. Ég stóð nú bara fyrir utan á vakt, enda gunga. Stórir strákur píndu okkur og við renndum okkur á snjóþotu niður brekkuna frá Álfhólsvegi og niðrá Löngubrekku. Það náðist meira að segja mynd af því. Halli er á þotunni, ég stend fyrir ofan og það má sjá glitta í KRON.
hallirenna

Þennan yndislega barnatíma reyndi ég að syngja um í laginu Komdu út að leika á Abbababb! Svo kom pönkið. Halli var aldrei mjög spenntur fyrir því svo það skildust leiðir.

Helvítis túristar

19 Ágú

2016-08-18 16.18.15
Túrismi er síld samtímans. Einu sinni fylltist allt af síld og afhafnamenn komu upp síldarverksmiðjum um landið. Þá var hamagangur á síldarplönum og pöbullinn fékk djobb. Svaf jafnvel standandi í uppgripunum miklu. Nú hefur allt fyllst af túristum og athafnamenn koma upp hótelum um allt land og borg. Nú eru uppgrip og pöbullinn fær djobb í lobbíum og við herbergjaþrif. Lobbíin eru síldarplön samtímans.

Síldin hvarf og verksmiðjurnar hafa grotnað niður síðan. Í Ingólfsfirði, Djúpuvík og Hjalteyri standa verksmiðjurnar og láta tímans tönn jappla á sér. Hótelið á Djúpuvík selur inn í verksmiðjuna þar og er með leiðsögn. Á Hjalteyri hafa verið haldnar listsýningar. Þegar ég kom síðast (og í eina skiptið) í Ingólfsfjörð var ekkert að gerast í gömlu verksmiðjunni. Maður gat enn gluggað í gamalt bókhald sem lá í möppum. Svona þéttbýlishnignun –  Urban decay – er heillandi. Það er fullt af liði sem gerir sér sér-ferðir til að vafra um hnignunarsvæði. Urban exploration er það kallað. Íslensku eyðibýlin eru partur af þessu, ég væri fyrir löngu búinn að fá mér allar eyðibýlabækurnar ef ég tímdi því.

Nú ætla ég ekki að vera með einhverja svartsýni, en hvað ef túristarnir hyrfu eins og síldin? Ef engir kæmu nema eldfjallaþjóðverjar í lopapeysu með sykurmola í vasanum og Westur-Íslendingar að leita upprunans? Ég býst við að nærtækast væri að leysa húsnæðisvanda almennings með aflögðum hótelum.

Margir kvarta nú sáran yfir túristatorfunum sem flæða yfir landið, í alltof miklum mæli miðað við innviði landsins. Meira að segja túristarnir sjálfir kvarta. Það er alltof mikið af túristum hérna, sagði túristinn. Ég skil ekki afhverju ekki er fyrir löngu búið að koma upp einhverri beinni tekjuöflun í sambandi við þetta. Ég þarf að borga 20$ þegar ég fer til USA (ESTA dæmið) og læt það ekki stoppa mig. Það myndi ekki nokkur maður láta 2000 krónu komugjald (eða hvað það væri) stoppa sig í að koma hingað. Milljón túristar gera tvo milljarða. Er ekki hægt að koma upp nokkrum klósettum fyrir það? Jafnvel einum, tveim göngustígum? Jafnvel breikka vegi (fáránlegt að það sé ekki tvíbreitt báðu megin frá RVK til Borgarness og RVK til Vík). Útrýma einbreiðum brúm á hringveginum. Afhverju er ekkert gert? Hvaða sinnuleysi er þetta árum saman? Er svona leiðinlegt í vinnunni hjá þeim sem eiga að sjá um þessi mál? Allir í kvíðakasti og depurð? Komugjöld strax og ekkert kjaftæði. 

Frá því í maí hef ég verið með puttann á púlsinum. Ég fór að vinna í útivistabúðinni Fjallakofinn í hinu sögufræga húsi að Laugavegi 11 (útsalan byrjar á þriðjudaginn!) og er í torfunni miðri daginn út og inn. Ég er alveg að fíla þetta vel. Kúnnarnir eru sirka 90-95% túristar og flestallir mjög hressir (eins og maður er yfirleitt á ferðalögum). Allskonar fólk, allra þjóða kvikyndi. Margir að fara að hæka Laugaveginn og ef þeir spyrja hvar þeir geti verið sem mest í túristafríu umhverfi bendi ég þeim á Hornstrandir (og sel þeim kort, gaskút og sokka í leiðinni). Ísland er langt í frá sprungið þótt nokkrir staðir séu komnir að þolmörkum. Það er allt í lagi, ég er búinn að labba bakvið Seljalandsfoss, búinn að sjá G&G, Dyrhólaey, Jökulsárlón og búinn að fara nógu oft í Bláa lónið. Þegar við gengum á Seljafell á Snæfellsnesi um daginn sáum við ekki hræðu. Ísland er tómt að mestu fyrir utan nokkra bletti, sem maður skyldi forðast ef maður nennir ekki 20 rútum og 200 Kínverjum í halarófu.

Ég er mjög ánægður með lífið á Laugaveginum núna. Það er iðandi af fólki, nánast eins og stórborg erlendis. Ég man vel eftir því þegar enginn var þarna. Stemmingin á sunnudegi: Maður kom af mynd í MÍR, blaðadrasl fauk um eins og tumbleweed í kabbojmynd, eina lífið var í bílum sem silaðist niður rúntinn, doðinn eins og á auðu bílastæði við moll. Ég sé ekkert eftir þessari stemmingu þótt nostalgían sé fín.

Steinþór Helgi Arnsteinsson spurði nýlega á Facebook: Getið þið nefnt einhverja hluti sem eru afleiðing túristavæðingarinnar sem eru actually beneficial fyrir íbúa miðborgarinnar og Reykvíkinga almennt? KEX, matarmarkaður á Hlemmi, lokun Laugavegsins, Snaps, happy hour á öllum stöðum, uppbygging á Granda… hvað fleira?

Hér eru nokkur svör:

Fleiri veitingastaðir. Fleiri verslanir. Uppbygging miðborgarinnar. Aukin störf. Fjölbreyttari störf.

Það er skemmtilegra og áhugaverðara að fá sér göngutúr um miðbæinn.

Lokun Laugavegs gengur ekki upp sem jákvæð afleiðing nema honum yrði actually lokað, a.m.k. frá Barónsstíg. Það er bókstaflega ekki pláss til að ganga Laugaveginn frá Baróns upp að Vatnsstíg eins og sakir standa.
* Svokallad turista-svig!

Líf kviknar í úthverfunum því lókallinn heldur sig frá átroðningnum í miðborginni. Í framtíðinni fáum við vonandi litla skemmtilega „miðbæi“ víðar og góð kaffihús, pöbba og veitingastaði þar.
* Hugsanlega það besta við þetta alltasaman, Íslendingar eru farnir að sjá möguleikana í öðrum hverfum en 101.
* Algerlega. Lífið sem hefur kviknað í kringum Hlemm og upp í Hlíðar í austurátt og allt gúmmelaðið við höfnina í vesturátt hefur teygt verulega á bænum og heldur vonandi áfram að gera það í báðar áttir.

Fleiri tækifæri fyrir tungumálafólk. 

Íslensk hönnun selst betur og þar af leiðandi er betri grundvöllur fyrir því að starfa sem hönnuður (vöru og fata serstaklega)

Fleiri gestir á öldurhúsum borgarinnar, miðvikudagskvöld og sunnudagskvöld eru að virka betur fyrir eventa t.d.

Nauðsynlegt viðhald á allskonar húsum fær loks spark í rassinn. Pirrandi núna en verður nice þegar það er búið. Þangað til bólan springur og húsin byrja að drappast niður aftur.

Betra mataræði. Enginn getur borðað bæjarins bestu pylsur lengur útaf röðinni.

Fólk á öllum hornum að taka myndir og njóta – og það lætur mann líta oftar upp og njóta þess sem fyrir augum ber. Auðvelt að gera homeexchange !  Hærra íbúðarverð – ef maður vill selja.. Væri óskandi að almenningssamgöngur væru að lagast, bílar væru á leið út og það væri aukin samkeppni í vöruverði….

Auðveldara að selja upp miða á viðburði… Auðveldara að halda úti veitingastöðum… Raunverulega betri gæði í flestu..

Eftir nokkur ár getur maður farið til útlanda án þess að heyra „Wow, you’re from Iceland?!“.

Helvítis túristar! Þeir eru búnir að eyðileggja gömlu góðu draugaborgina mína.

 

 

 

Ofsagyrti Hr. ÓRG

7 Ágú

Birgir Baldursson leitar nú logandi ljósi að uppháum buxum. Hann er í uppreisn gegn samanteknum ráðum tískubransans um að allir eigi að vera í mjaðmabuxum. Ég er alveg sammála enda oft strítt heima fyrir fyrir að vera of uppgyrtur. Ég gyrði helst boli ofan í nærbuxur og svo vil ég hafa upphátt ofan á til að halda öllu í skorðum. Ég þoli ekki slappar nærbuxur þar sem allt lafir og maður klemmir pung þegar maður hjólar. Þetta er náttúrlega allt farið að lafa í ellinni og pungurinn ekki eins kókushnetu-stinnur og áður. Eru kannski til botoxsprautur til að stinna pung? Pungkítti fyrir heldri menn?

Hér má einmitt sjá okkur Bigga velgyrta í New York 1989. Ari er sennilega mjaðmaður á því enda of kúl fyrir ofsagyrt.
blessalicedonut1989

Í framhaldi af þessum pælingum birtist stórkostleg mynd á Facebook af fv. forseta vorum ofsagyrtum með Jónínu Ben og Dorritt á Esjunni. Ég sá strax von um nýja tíma ofsagyrtra.
olie

Nú er komið í ljós að myndin er fölsuð. Einhver snillingur hefur ofsagyrt Ólaf, en hann er þó sannarlega velgyrtur á upprunalegu myndinni.
13934779_10207936337939007_5506746129887507194_n

Eftir standa nokkrar spurningar sem gaman væri að fá svör við. Hver gyrti Ólaf svona ofsavel í brók? Hvenær var myndin tekin og við hvaða tilefni? Og síðast en ekki síst: Hvenær getur maður keypt almennilegar uppháar buxur í búðum, en ekki þetta mjaðmadrasl sem nú er allsráðandi?

Spilaðu P&RSÍ hjá Quizup

23 Jan

pogrsi
Að hanga í Quizup er ágætis stuð þear maður er þannig stemmdur. Til að minna á að sjónvarpsþættirnir Popp og rokksaga Íslands hefjast aftur á Rúv í mars hef ég hent í einn risastóran spurningapakka á íslensku sem heitir það sama og þættirnir

Popp og rokksaga Íslands – Spurningar um íslenska tónlist.

Það var búið að sýna 5 þætti og það koma 7 í viðbót. Meiningin er að dekka söguna alveg inn í samtímann. Við byrjum þar sem við enduðum, um miðjan 8. áratuginn, sem má eiginlega segja að hafi verið einskonar gullöld íslenska poppsins. Stuðmenn, Spilverkið, Hljóðriti opnar og veldur byltingu, Gunnar Þórðarson framleiðir hverja metsöluplötuna af annarri, allir í stuði og brennsa. Verst að það þarf að bíða til 13. mars. En á meðan er sem sagt hægt að kanna poppvisku sína í þessum leik:

Popp og rokksaga Íslands – Spurningar um íslenska tónlist.