Sarpur | Auðmelt RSS feed for this section

Framboð Sigmundar tilbúið

25 Sep

Jahá! Framboð Sigmundar Davíðs er bara tilbúið og þú last það fyrst hér: Efsta fólk á listanum. Að sjálfssögðu verður meistari Sigmundur næsti forsætisráðherra og kemur öllu á réttan kjöl, enda stoppaði hann Icesave með berum höndum og keypti gamlan vegg við Reykjavíkurhöfn. Þar að auki er hann dugnaðarforkur eins og viðvera hans í síðasta þingi getur staðfest. Áfram gamla Ísland! Áfram Sigmundur!

sigmundur-davi_-gunnlaugsson
SIGMUNDUR „SIMMI“ – Norðaustur
Allir fíla Simma, nema svívirðilegir ofsækjendur hans. Skammist ykkar! Hver vann Icesave, ha? Simmi vann Icesave. Kemur af fátæku alþýðufólki og hefur haft að berjast fyrir sínu. Réttur maður á réttum stað í dag þegar nútíminn bankar á dyr með offorsi.

gunnarbragi
GUNNAR „BURSTAKLIPPING“ BRAGI – Norðvestur
Allt gott kemur frá Skagafirði, t.d. Kaupfélag Skagfirðinga og hestar.

bjorningihlin
BJÖRN „BINGI“ INGI – Rvk-suður
Hörkuduglegur nagli sem hefur sko aldeilis unnið hörðum höndum fyrir sínu frá blautu barnsbeini. Athafnaskáld með tandurhreinan skjöld. Á mynd er hann með fv. ástmey sinni, Brand.

johannesthor
JÓHANNES „VAFASAMUR“ ÞÓR – Rvk-norður
Spilaði á bassa með Vafasöm Síðmótun (pönk), fv. aðstoðarmaður og nv. almannatengill = Heilagur maður!

arnij
ÁRNI „TEPPI“ JOHNSEN – Suður
Á þessum óvissutímum með sín svokölluðu internet er þörf á vönum manni sem lætur verkin tala, landi og þjóð til heilla.

gudruns
EINHVER KONA – Kraginn
Konan er ófundin en leit stendur yfir. Það verður að hafa eina konu svo kellingar verði ekki með röfl.

Ef þetta stórfenglega úrval hæfileika nær ekki a.m.k. 10 mönnum á næsta þing skal ég hundur heita. Snati þá helst. Voff voff!

Elskum óvininn

13 Sep

Ókei. Ég hef aldrei lesið Biblíuna og man ekkert eftir því hvað ég var að spá þegar ég fermdist, nema mig langaði í rafmagnsgítar og magnara. Auðvitað eru Nýja og gamla testamenntin bara mannanna verk og skrifuð af einhverjum hugsuðum fyrri alda. Menn eru eitthvað að þjarka um tilvist Jesúsar frá Nazareth og ég get ekkert vitað um það hvort sá ágæti maður var á meðal vor fyrir 2017 árum eða ekki. Tel mig til trúlausra eða þeirra sem eru lítið að spá í tilgangi og markmiði þess að foreldrar mínir höfðu samfarir og 9 mánuðum sirka poppaði ég út og bara allt í lagi með það 🙂

Prestar Þjóðkirkjunnar eru svo allskonar, en margir alveg frábærir menn og konur – og svo eitthvað verra lið og jafnvel ofan í hreinustu viðbjóði – en þá er ég nú frekar að spá í þjóna kaþólsku kirkjunnar (til forna vonandi). Í gær tók Sr. Bolli Pétur Bollason, sóknarprestur í Laufásprestakalli það á sig að messa yfir þingmönnum okkar og tókst það svona líka þrumuvel úr hendi. Það er nánast allt sem Bolli segir rétt og gott á pakkið að heyra hann skamma það aðeins. (Með „Pakk“ er ég að vitna í Dag Sigurðarson – þessir þingmenn okkar eru sennilega ekkert pakk nema kannski nokkrir – Hvernig á ég að vita það?)

Svo gerið ykkur greiða og hlustið á sérann. Ég henti inn nokkrum myndum og plís ekki vera eitthvað foj yfir því. Tók líka út „Jesú-vælið“, þ.e.a.s. guðsorð og sálmasöng, en það hefur lengi staðið okkur með annan tónlistarsmekk fyrir þrifum að þurfa að hanga yfir þessu slævgandi gauli. Meira pönk í kirkjurnar sem sagt, því það er gott pönk í sumum sérum!

Gott grín á alnetinu

12 Ágú

Eftir ekkert svo ítarlega rannsókn hef ég komist að því að besta grínið á (íslenska) alnetinu sé um þessar mundir Twitter-tvít Finns vinnusíma hjá Denverslun og Tvitter-tvít Ungfrú Íslands. Kannski er mér að yfirsjást eitthvað stórfenglegt?

Ælmundur

20 Maí

AR-150419785
Gott er að eiga góðan felubúning ætli maður að æla í flugvél.

Ég hef annars fullan skilning á gubbmáli Ásmundar. Ég hef reyndar aldrei ælt í flugvél en einu sinni í venjulegum bíl (sem var glænýr og eigandinn nýbúinn að taka plastið af) og einu sinni í leigubíl (bílsstjórinn varð vitlaus og henti öllum út). Ég var að sjálfssögðu með magakveisu í bæði skiptin og hafði bara fengið mér smá rauðvín.

Tíu sturlaðar staðreyndir um Gunna Þórðar!

8 Apr

Margir meistarar eru sjötugir í ár. Megas í gær, Villi Vill hefði orðið sjötugur þann 11. apríl (heiðrun) hefði hann lifað, Magnús Eiríksson verður sjötugur 25. ágúst, Hörður Torfa 4. sept, Rúnar Júlíusson hefði orðið sjötugur þann 13. apríl (heiðrun) og Gunnar Þórðarson varð sjötugur 4. janúnar sl. og hefur verið heiðraður í bak og fyrir, m.a. á glæsilegum tónleikum í Hörpu. Líkt og með Megas í gær er eiginlega algjör óþarfi að mæra Gunna í löngu máli. Hann er einfaldlega einn aðalgaurinn í íslenska poppinu og fyrsta poppskáld landsins (þ.e.a.s. sá fyrsti sem eitthvað kvað að í nútíma poppi).

En allavega: Hér eru „10 sturlaðar staðreyndir um Gunna Þórðar“.


1. Gunnar hefur komið víða og gert allskonar dót sem fáir þekkja til. Hann spilaði t.d. flautusólóin í Hoppsa Bomm. Sturlað!


2. Gunnar spilaði á Hammond orgel í Kyrrlátt kvöld með Utangarðsmönnum. Sturlað!

270083348006
3. Gunnar reyndi útrás með félögum sínum í Hljómum undir nafninu Thor’s Hammer. Platan Umbarumbamba með 6 lögum úr samnefndri kvikmynd er ein allra dýrasta íslenska platan. Hún hefur selst á Ebay á 250þúsund kall, sem er ágætt því platan var flopp 1966 og seldist ekki neitt. Gaman finnst mér að segja söguna af vinum mínum í Kópavogi sem fundu kassa af plötunni í yfirgefni húsi um árið 1980 og notuðu þær flestar sem skotskífur. Sturlað!

umb
4. Ekki hefur sést tangur né tetur af kvikmyndinni Umbarumbamba síðan hún var hér í takmarkaðri sýningu sem aukamynd 1966. Það voru allir á bömmer yfir myndinni, Hljómarnir höfðu lagt mikið fé og tíma í myndina en þegar hún kom var hún bara 16 mínútur og „afspyrnu hallærisleg“ (Rúnar). Leikstjórinn Reynir Oddsson ku eiga myndina í fórum sínum svo kannski ætti að koma þjóðarátaki í gang til að endurheimta þennan heilaga kaleik tón/mynd-bókmenntana. Sturlað!


5. Eftirá-vinsældir Umbarumbamba eru skiljanlegar enda er þetta dúndurstöff á plötunni, algjört pönk síns tíma. Gunnar hafði keypt sér eitt fyrsta fözzbox á Íslandi og var ekkert að spara það. „Hinn gítarleikari Hljóma“, Erlingur Björnsson söng lagið I Don’t Care, sem byrjar þessa fözzzælu. Ég fékk Erling til að syngja lagið á ný með hljómsveit Dr. Gunna í útgáfuteiti vegna Stuð vors lands. Sturlað!


6. Sonur Gunnars. Zakarías, er í frábæru bandi sem heitir Caterpillarmen. Þeir tóku einmitt líka I Don’t Care nýlega í Gunnar Þórðar-keppninni á Rás 2. Slab City er nýjasta lagið með þeim. Sturlað!


7. Gunnar samdi eina diskólagið sem samið hefur verið um Gísla á Uppsölum. Það kom út á plötu sem Gunnar gerði með Pálma Gunnarssyni 1982. Þorsteinn Eggertsson samdi textann. Sturlað!


8. Þegar Gunnar var hvað mest í léttmetinu sirka 1978-1980 (Lummurnar o.s.frv.) vildu sumir meina að hann væri „helsti óvinur íslenskrar tónlistar“. Lummu-plöturnar seldust eins og (já já) og aurinn gerði Gunnari kleift að framkvæma „metnarfyllri“ verkefni eins og tvöföldu sólóplötuna hans 1978 sem „seldist ekki neitt“. Þótt það hafi vantað hittara þar var margt mjög flott, t.d. músík sem Gunnar hafði gert fyrir Blóðrautt sólarlag, sjónvarpsmynd Hrafns Gunnlaugssonar. „Drottningin rokkar“ komst næst því að vera hittari. Gunnar syngur sjálfur eins og svo oft áður og eftir. Fínn söngvari. Sturlað!


9. Gunnar gerði fyrstu sólóplötuna sína 1975 (hún heitir bara „Gunnar Þórðarson“ eða ekki neitt. Þetta er það sama og með Hljóma-plöturnar sem hétu ekki neitt heldur). Þessi plata er flott og skemmtileg, mikil Beach Boys áhrif (Brian Wilson og Burt Bacharach hafa lengi verið uppáhalds hjá Gunnari). Enginn hittari hér og platan seldist ekki vel. Hvorug þessara seventís sólóplatna Gunnars hefur verið sett á CD eða í stafrænt form svo eini möguleikinn til að heyra snilldina er að kaupa vinýlinn notaðan (sem er ekkert svo mikið vesen – fæst pottþétt í Lucky). Magic Moments er eitt af lögunum af 1975 plötunni og þar má glitta í hljóðheim sem sprakk út af krafti aðeins síðar á Vísnaplötunum. Sturlað!


10. Lag Gunnars, „Tilbrigði um fegurð“, var lengi spilað við krýningu fegurðardrottninga (og er kannski enn? Er ennþá verið að velja Ungfrú Ísland?). Lagið kom upprunalega út á plötunni Reykjavíkurflugur í tilefni af 200 ára afmæli Reykjavíkurborgar 1986. Sturlað!

Timberlake í Hamraborg!

22 Ágú

justinhamrab
Stórstjarnan heimsfræga Justin Timberlake heldur sem kunnugt er stórtónleika í Kórnum í Kópavogi á sunnudagskvöldið. Hann lenti á einkaþotu sinni í gær, en alls eru um 100 manns í hópnum með honum. Eftir vegabréfs- og líkamsskoðun var Justinni ekið í Kópavoginn til að athuga með Kórinn. Því íþróttahúsi hefur nú verið breytt í tónleikastað á heimsklassa og er mikið lagt upp úr bakherbergjunum. Justin verður í kvennaklefanum á meðan hann bíður eftir að stíga á svið, en upp á klefann hefur verið flíkkað með músastigum, stórri mynd af Obama og allskonar fíniríi. Kappinn er hógvær í kröfum sínum um mat og drykk og virkar mjög alþýðlegur á alla sem hafa umgengist hann til þessa. 

Eftir Kórinn spurði Justin hvort ekki væri hægt að fá bjór og jafnvel að komast í spilakassa í þessum frámunalega æðislega bæ, Kópavogi. Var því brugðið á það ráð að skreppa í Hamraborgina og beint á Café Catalínu. Þar undi Justin hag sínum vel við drykkju og spilakassa. Í dag er svo ætlunin að Justin skreppi í Bláa lónið (hann ætti að hafa efni á því!) og má búast við að rekast á hann í sturtunni um kl. 13 – 13:30.

Topp 10 – Besta Brasilíugrínið

9 Júl

Topp 10 – Besta Brasilíugrínið á Twitterfíddinu mínu:

BsDG9JYCIAAammE
01 ‏“We killed all those slum children for this?“ – Bailey JD Porter
02 This won’t be the first time that thousands of Germans will have to lie low in Brazil for a while for their own safety. – Ricky Gervais
03 Getur verið að völlurinn halli? – Bragi Valdimar
04 Plís hættið að skora! Þetta er óþægilegra en að horfa á The Office. – Hannes Þór Halldórss
05 Brasilía var með boltann 54% af tímanum í fyrri hálfleik. Hin 46% var boltinn inni í markinu. – Atli Fannar
06 They lost two world wars, they might as well win something. – Pathetic Paulette
07 Stop praying to Me, Brazil. Even I can’t help you now. – God
08 Luiz, ekki tala við guð núna. Honum er sama um þig. – Sóli Hólm
09 Það var löngu tímabært að Brasilíu yrði refsað fyrir að nota Pitbull í opnunarhátíðina. – Þossi
10 Possible that England could have secured a nil – nil victory against this Brazil side. – luke haines