Hengjum Bubba og Dylan

16 Okt

Mikið er ég búinn að sakna þess þegar menn kýttu um há- og lágmenningu. Þessi forna skemmtun hélt ég að væri aflögð í póstmódernismanum (heitir það það ekki?), en nú blossar þetta upp á ný vegna Nóbelsverðlauna Bobs Dylans. Alvöru ljóðaunnendur segja Dylan ekkert sérstakan og að einhver óþekktur hefði átt að fá verðlaunin. Nóbelsverðlaunanefndin er búin að skíta á sig í popúlisma, segja þeir, jafnvel: Bókmenntirnar eru dauðar! Hinir segja þetta fínt, Bob sé æði og bara ekkert að þessu. Gaman að því að þessir „háu herrar“ í nefndinni skuli komnir í poppið. Besti þátturinn í dag, Lestin á Rás 1, fékk spekinga í spjall á föstudaginn sem gaman er að hlusta á

Þegar Bubbi Morthens sló í gegn 1980 fór fljótlega af stað umræða um gúanótextana, aðallega á síðum Þjóðviljans. Ég var of ungur þá til að setja mig inn í þetta og gegnheill Bubba-maður þar að auki. Árni Björnsson þjóðháttafræðingur byrjaði að kasta rýrð á Bubba. Hans gagnrýni gekk út á það að „alþýðan“ ætti betra skilið en leirburð Bubba, enda báru kommar alltaf hag alþýðunnar fyrir brjósti, eins og hafði heyrst á dagskrá Gufunnar síðan útsendingar hófust. Helvítin skulu kunna að meta þetta sinfóníugaul þótt við þurfum að troða því í eyrun á þeim í 50 ár.

Það hefur löngum verið háttur yfirstéttar að tala niðrandi um skáldskap og aðra list alþýðu, skrifaði Árni. Enda er hið alþjóðlega háðsyrði vulger, þ.e. ómerkilegur, ruddalegur, komið af latneska orðinu vulgus, almenningur.
Sömuleiðis hafa fúskarar i gervi listamanna eða listaforstjóra hvarvetna leitast við að réttlæta vonda og ljóta framleiðslu sína og gæðinga sinna með þvi, að þetta væri svo alþýðlegt eða það sem fólkið vildi. Það er að vísu rétt, að einföld og hrá framsetning verður einatt fljót til að ná skilningarvitum alls þorra manna, þótt hún skilji litið eftir. En með sliku athæfi er í rauninni
verið að fóðra alþýðu manna á andlegu trosi undir þvi yfirskini, að hún sé ekki fær um að skilja annað. Og með þessari fyrirlitningu er stuðlað að þvi að halda verkalýðnum á þvi menningarlega lágstigi, sem hann er talinn eiga skilið og þurfa til að vera mátulega auðsveip vinnudýr fyrir rikjandi stétt.
Einna þekktastir menningarböðlar af þessu tagi á siðari tímum eru hinir rússnesku Sdanoffar, listráðunautar Stalins og eftirmanna hans. En segja má, að svipað hafi i reyndinni verið upp á teningnum hvað varðar „alþýðumenningu“ í Bandarlkjunum og öðrum löndum undir áhrifavaldi þeirra. Þar eru að visu ekki stjórnskipaðir alræðisherrar að verki, heldur forheimskunarsérfræðingar fjölþjóðahringa. En vegna innbyrðis samkeppni sín í milli þurfa þeir sifellt að finna upp ný form fáfengileikans. Nýlegt dæmi af því taginu er svonefnt ræflarokk, sem á yfirborðinu er m.a.s. látið vera á móti rikjandi kerfi!! Snjallt.
Á siðustu misserum hafa svo risið upp hér á landi nýir „vinir alþýðunnar“, sem kveðast ætla að hefja hana uppúr niðurlægingu með þvi að leika og syngja fyrir hana lélega uppsuðu af þessari fjölþjóðlegu verslunarmúsik við ennþá verr gerða texta. Helsti samnefnari þessa fyrirbæris heitir vist gúanórokk.

Árni var kominn í stuð og hélt áfram í rokkhatrinu:  Það verður varla annað séð en að með ljótum og lélegum söngvum sé verið að hjálpa atvinnurekendasambandi tslands til að halda verkalýðnum i skefjum. Þvi að andleg lágkúra stuðlar að þvi að halda lífskjörum niðri. Ekki skal þvi þó trúað, að það sé visvitandi. Miklu fremur mun hér um þann reginmisskilning að ræða, að fyrirmyndin, músik-framleiðsla fjölþjóðahringanna, sé í þágu alþýðunnar!

Árna var vitaskuld mótmælt: Menn verða að skilja að þegar Bubbi syngur eina „sloruga“ setningu á balli í verstöð vinnur hann sósialismanum meira gagn en Þjóðviljinn á einu ári, skrifaði ljóðskáldið Anton Helgi Jónsson. Mér finnst að Árni Björnsson ætti að þakka fyrir að Bubbi skuli vera sósialisti, en ekki eitthvað annað. Og Árni ætti að hætta að láta poppið pirra sig. Poppið er ekki neinn sér afmarkaður heimur, það er fátt sem snertir eins daglegt lif verkafólks i landinu og einmitt poppið. Aftur á móti eru Árni og hans likar i lokuðum heimi, sem hvergi snertir líf venjulegs fólks i landinu: Árni reynir i grein sinni i Þjóðviljanum að hengja poppara, en það er ekki undarlegt að snaran skuli lenda um hálsinn á honum sjálfum.

Margir lögðu orð í belg um gúanótextana. Talað var um „snobb fyrir alþýðunni“ og passíusálmar Hallgríms Péturssonar og alþýðan í verkum Laxness voru dregin inn í umræðuna. Ljóðskáld eins og Birgir Svan Símonarson komu að máli við Bubba og buðust til að semja fyrir hann „alvöru“ texta, en karpið náði hápunkti á málfundi í Háskólanum þar sem menn tuðuðu sig í kaf og hættu svo að pæla í þessu. Sjálfur yppti  Bubbi bara öxlum yfir þrasinu enda í góðum málum með hass og kók á kantinum.

4 svör til “Hengjum Bubba og Dylan”

 1. Baldur Ás október 16, 2016 kl. 12:04 e.h. #

  Minnir á kokkinn góða á Bretlandi sem sagði að alþýðan ætti skilið að fá hollari og betri mat en skyndigumsið sem er falboðið á hverju götuhorni.

  • drgunni október 16, 2016 kl. 1:19 e.h. #

   Helvítis alþýðan. Getur aldrei gert það sem er henni fyrir bestu.

 2. Ómar Bjarki Kristjánsson október 16, 2016 kl. 6:20 e.h. #

  Að mínu mati er soldið áberandi á Íslandi að fólk þekkir ekki skáldskaparstíl Dylans. Þ.e. að áhrif Bít-Kynslóðarinnar eru greinileg, finnst mér. Það er svona attitjúdið sem skiptir svo miklu og viðhorfið gagnvart tilverunni. Enda hefur Dylan nefnt Ginsberg og Kerouac sem mikla áhrifavalda. Það fer ekkert hver sem er í fötin hans Dylans varðandi ljóða/söngtextagerð. Hann er betri en Bít-kapparnir! Það er málið. Hann er bara betri en þeir, nær aðalatriðunum ótrúlega skýrt, aftur og aftur. My opinion. Mikið skáld Dylan.

 3. Bobbi október 17, 2016 kl. 8:47 f.h. #

  Tollþjónunum í KEF fannst habb heldur rýr þegar þeir voru búnir að hátta hann…

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: