Ríó tríó og Halli

25 Sep

riotrio
Þetta þykir mér skemmtileg mynd. Held ég hafi örugglega fengið hana frá Skjalasafninu í Kópavogi. Við sjáum Ríó tríó leika við Kópavogsskóla, barnaskólann minn. Á bakvið standa Óli Kr., yfirkennari (og síðar skólastjóri) og Halli sonur hans. Mér sýnist Halli vera sirka 3-4 ára svo þetta er 1968-1969. Halli var einn besti vinur minn í Kópavoginum. Hann bjó á Auðbrekkunni og við vorum mikið þar. Hann átti eldri bróður sem átti progg-kassettur með Genesis og eitthvað sem ég fílaði aldrei. Þarna voru líka litlar plötur í hrönnum, ég man að ég varð fyrir sterkum hughrifum þegar ég heyrði Reach Out, I’ll be There með The Four Tops af einni þeirra. 

Ég man að ég hugsaði að við ættum ranga pabba. Ég var fyrir blöð og heftara á meðan Óli var fyrir trésmíði, en ég er með þumalputta á öllum og var alltaf rekinn í burtu þegar ég bauðst til að hjálpa pabba mínum, húsasmíðameistaranum. Þá var ég búinn að skemma kíttissprautuna eða eitthvað. Óli Kr. var rólegur og yfirvegaður og vel liðinn af okkur krökkunum. Anna Mjöll Sigurðardóttir kenndi mér allan barnaskólann (D-bekkurinn) og var æðislega góður kennari. Ég sá hana löngu löngu síðar á pósthúsinu í Kópavogi og hefði átt að þakka henni fyrir, en kom ekki upp orði. Óli Kr. hlýtur að hafa kennt mér eitthvað líka því ég man eftir því þegar hann útskýrði muninn á Móngóla og Mongólíta. Það voru aðrir tímar þá.

Við Halli dunduðum ýmislegt. Eftir skóla fórum við heim til hans og mamma hans ristaði brauð oní okkur, eins og „heimavinnandi“ mömmur gerðu á þessum tíma. Við sömdum saman teiknimyndasögur, rótuðum í ruslahaugunum, urðum óðir í flugelda um áramótin, brutumst inn í bakarí með öðrum óþekkari strákum. Ég stóð nú bara fyrir utan á vakt, enda gunga. Stórir strákur píndu okkur og við renndum okkur á snjóþotu niður brekkuna frá Álfhólsvegi og niðrá Löngubrekku. Það náðist meira að segja mynd af því. Halli er á þotunni, ég stend fyrir ofan og það má sjá glitta í KRON.
hallirenna

Þennan yndislega barnatíma reyndi ég að syngja um í laginu Komdu út að leika á Abbababb! Svo kom pönkið. Halli var aldrei mjög spenntur fyrir því svo það skildust leiðir.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: