Í Skagfirska efnahagssvæðinu

12 Sep

Fyrir okkur félagana í gönguhópnum Blómey er Mælifellshnjúkur Moby Dick. Ég og Biggi fórum reyndar þarna upp á topp fyrir 2-3 árum. Þá var þoka á toppnum og við sáum ekki rassgat. Í fyrra fórum við með Trausta og ætluðum að sjá hið magnþrungna útsýni sem á að sögn að blasa við. Þá var ömurlegt veður, rigning og rok, þrátt fyrir að veðurspárnar sem við höfðum legið yfir spáðu heiðríkju og sól. Núna skoðuðum við engar veðurspár (því þær ljúga) og drifum okkur bara. Og sjá: Ömurlegt veður, rigning og þoka.

Þótt Moby Dick liggi enn ósigraður (útsýnislega séð) var ferðin stórfín. Við gerðum gott úr þessu og tókum einn risavaxinn sunnudagsbíltúr. Á laugardaginn átum við gríðargóða lambaskanka í Ólafshúsi (4500 kr). Gistum á Microbar & bed, sem er upplagt dæmi. Fyrst djúsuðum við á Microbarnum sem er hliðardæmi frá bjórframleiðslunni Gæðingi. Hvað er hentugra en bjór og bed? Microbarinn býður upp á 150+ tegundir, en mér finnst bjór vondur og var kominn í romm og kók eftir annað glas. Svo gafst ég upp um 12, svefninn sótti svona stíft á mig, enda er ég extreme A-maður, en strákarnir duttu í belgískar veigar til 2. Herbergið mitt (9000 nóttin) er undir súð og með stórglæsilegt útsýni yfir í Verslun H. Júlíussonar, sem meistari Bjarni sér nú um. Því miður var alltaf lokað í versluninni á meðan við vorum á Sauðárkróki.
2016-09-11-09-15-16

Sunnudagur: Morgunmatur í bakaríinu og ennþá þoka og súld. Fyrsta stopp Hólar. Á afleggjaranum runnum við fram á réttir í Hjaltadal. Við borgarbörnin höfðum aldrei séð svona og gláptum á fótforugt stígvélað sveitafólkið reka í réttir. Mikið meee og fjör. Eins og aumingjar með skanka í maganum fórum við auðvitað að röfla um útrýmingabúðirnar í Auschwitz. Réttirnar eru harmrænar á þann hátt að dauði rollanna er yfirvofandi. Þetta er þeirra síðasta sprikl.

holar
Á Hólum rennur Íslandssagan um veggi. Kanadískur gestaprófessor leiddi okkur í allan sannleikann um innviði Hólakirkju, veggskreytingarnar og jesústöffið. Prófessorinn er með þetta klassíska lúkk. (Hér er próf: Prófessor eða róni?) Tilkomumest var fyrsta eintakið af fyrstu bókinni sem var prentuð á Íslandi (1584), Guðbrandsbiblíu. Ég tel mig nú kominn á þann stað í lífinu að ég sé tilbúinn til að fá áhuga á Íslandssögunni fyrir 1900. Fyrsta skrefið, segir Biggi, er að leggjast yfir þríleik Einars Kárasonar um Sturlunga.

braudmola
Sundlaugin á Hofsósi (700 kr) er rosalega flott og útsýnið það besta sem um getur. Við sáum reyndar ekki nógu vel vegna þokunnar og það mætti skerpa á heita pottinum. Þessi sundlaug er skínandi dæmi um brauðmolahagfræðina. Tvær efnaðar konur láta byggja sundlaug og gefa svo sveitafélaginu. Ef einhver annar hefði gert álíka þegar peningarnir láku hér um alla veggi í vösum örfárra, væri kannski hægt að kaupa þessa brauðmolakenningu. Staðreyndin er hins vegar sú að ríku karlarnir notuðu auðinn undir rassgatið á sjálfum sér til að bóka Elton John og fara í kappakstursleiki. Hafðu það Hannes Hólmsteinn! (Hér er ég viljandi að gleyma listamannasjóðum Ólafs í Samskipum).

biggisaab
Áfram hélt skagfirska ævintýrið í Samgönguminjasafninu í Stóragerði. Við gleymdum okkur í afrekum mannkynsins á sviði hönnunar og glæsileika. Kaggar og bílar, sem eru víst fornbílar en við mundum eftir á götunum. Það segir bara hvað við erum orðnir ógeðslega gamlir. Þetta bílasafn er hreinlega stórkostlegt og ég ætla aftur sem fyrst! Fá þá kannski að leggjast aftan í Skoda Octavia 1963 módel og reyna að kreista fram gamlar minningar þegar ég lá í svona sæti sem barn og grét yfir því að ferðinni til Akureyrar var lokið. Til að auka áhrifamáttinn mun ég syngja „Unnusta sjómannsins“ með Tónasystrum, en það lag söng ég alltaf inn í mér til að auka trega og söknuð.

trakt2
Ekki minnkaði fjörið þegar við komumst í bílakirkjugarðinn bakvið safnið. Annað hvert S.H.Draums videó var búið til í bílakirkjugarði. Þar sem náttúran og maðurinn renna saman í eitt er gaman að vera.

Tókum Þverárfjallsveg suður á bóginn og lentum í massasmölun  og komumst ekki fet í hálftíma. Rollurnar runnu eftir malbikinu eins og loðin á. Aðeins meira meee og Auschwitz hjá borgarbörnunum og jafnvel grín um að gerast grænmetisætur. Hamborgarinn í Hraunsnefi (2590) var þó stórfínn.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: